Málfarsstígurinn vandrataði

Málvillupúkinner hér til umræðu og hinn breiði vegur málvillna sem leiðir beint til helvítis, sbr. “Glatist tungan glatast þjóðin”! Getur einhver upplýst hvaðan þessi frasi er kominn? Mig grunar að þetta sé fengið úr einhverri ræðu frú Vigdísar en væri gaman að vita hvort klisjan er eldri. [Myndin á að sýna málvillupúkann, sem mun líklega steypa þjóðinni í glötun en tengist ekki neinum af þeim sem eru nafngreindir í færslunni.]

Hér á heimilinu er stundum fjörug fræðileg umræða um málnotkun og málvöndun. Tveir heimilismanna eru aðdáendur Eiðs Svanbergs Guðnasonar og hans molaskrifa. Einn heimilismaður vill horfa á málin undir afskaplega víðu sjónarhorni og vitnar til skiptis í BBC-framburð og samræmda forngrísku sem kennd var í grískum skólum til skamms tíma, grískum börnum og unglingum til mikils ama, bókmenntum og listum til einskis framdráttar. Svo er það ég sem hef áratuga reynslu af því að kenna íslensku, þ.m.t. reynslu af ítroðslu helstu “villu-leiðréttinga” í beygingu sagna og nafnorða. Svoleiðis að við kvöldmatarborðið þykist hver hafa til síns ágætis nokkuð. David Attenbourough

Rök víðsýna heimilismannsins felast einkum í því að í hinum siðmenntaða heimi hafi ávallt þótt ástæða til að brúka tungumálið til að skilja milli pöpuls og menntamanna. Þetta sé gert á ýmsa vegu. Á Bretlandi er mikilvægt að tileinka sér réttan framburð, RP (received pronounciation) sem kannski er þekktastur í máli þula hjá BBC. Ég minnist ársins í enskudeild HÍ þegar þessi posh framburður var æfður í hljóðveri og lagt kapp á að ná breskum staccato talanda, nánast með handaklappi.  Í Amríku, heldur sami heimilismaður fram, er mikilvægt að sletta latneskum orðum og passa vel upp á að hafa latneska fleirtölumynd rétta, segja t.d. hippopotami, berist talið að mörgum flóðhestum. (Reyndar ku menntaðir kanar segja hippopótamæ en enginn Latverji hefði svo framborið orðið, a.m.k. ekki á gullöldinni.)

Það sjá allir að gjörbylting á framburði eða æxlun latínusletta er meiriháttar lærdómur. Nútildags hafa flestir fallið frá viðurkenndum snobbframburði íslensku, enda úrval framburðarafbrigða heldur fátæklegt. Svo var þó ekki; er skemmst að minnast baráttunnar gegn því skemmtilega afbrigði flámæli, gott ef ekki var lagt til að útskrifa ei flámælta presta eða kennara (man ekki hvort þetta náði fram að ganga). Svo hart var gengið fram í flámælisbardaganum að maður telst heppinn að ná að heyra þennan framburð, yfirleitt þá í tali háaldraðs fólks.  Einn íslenskukennara minna í menntaskóla útlistaði fyrir okkur nemendunum hvernig hann æfði upp hv-framburð, eftir segulbandsspólum. Slíkt held ég að enginn leggi á sig núna. Enda var árangurinn ekki sá að við nemarnir fylltumst aðdáun á tiltækinu heldur var þetta efni í endalaus skemmtiatriði og eftihermur á skólaskemmtunum.

Þannig séð er gott  og þægilegt að á Íslandi þykir það mikilvægast af öllu að kunna að beygja “rétt” innan við tíu orð til að sýna að maður sé menntaður eða a.m.k. á einhvern hátt betri en ótíndur almúginn. Þetta er auðveldlega yfirstíganlegur andskoti en spurningin er hins vegar til hvers leikurinn er gerður. Beyging

Vinsælast er að hamra á “réttu” þolfalli eða þágufalli með ópersónulegum sögnum, aðallega þolfalli þar sem í málvitund meirihlutans væri þágufall réttara. Dæmi um þetta eru “mig langar” eða “mig dreymir”. Flestar sagnir sem tákna líðan og löngun eru ópersónulegar og frumlagið í þf. eða þgf. En viti menn: Til eru tvær svoleiðismerkjandi sagnir sem beygjast eftir persónum og frumlagið er því í nefnifalli. Þetta eru þær frægu “hlakka” og “kvíða”. Ég leyfi mér að fullyrða (af löngu kennslureynslunni) að “ég hlakka” og “ég kvíði” brýtur í bága við máltilfinningu flestra. Þess vegna hef ég yfirleitt gripið til þess ráðs að kenna sagnbeyginguna sem svo að þetta væru rímsagnir, ráðlagt nemendum að setja “smakka” í stað “hlakka” og “ríða” (sem beygist reyndar ekki alveg eins) í stað “kvíða” til að geta puntað sínar ritsmíðar með hinni einu kórréttu beygingu. Það er hægt að gera þetta að skemmtilegum samkvæmisleik, sé maður þannig innstilltur. Tilgangurinn er sá einn að ekki sé hægt að hanka nemandann á rangri beygingu, honum til hnjóðs. Nemendur mínir hafa yfirleitt fyrir löngu áttað sig á því að “mig hlakkar” er upplagt eineltistilefni og vilja því gjarna læra trix til að hafa þetta í samræmi við það sem málfarslöggan býður. (Þetta er sosum ekkert ný beyging, sjá neðanmálssöguna s. 55 í Þjóðólfi frá 1892.) Á hinn bóginn mætti spyrja sig af hverju það er ekki gúterað að þessar tvær sagnir hafi einfaldlega skipt um beygingarflokk og beygist nú ópersónulega, eins og hinar líðunar-sagnirnar? (Vissulega eru líka til persónulegar líðunar-sagnir, t.d. “ég óttast” en þær eru fáar.) Má ekki alveg eins samþykkja þetta eins og að samþykkja að sögnin “þvo” beygist nú veikt, er “þvoði” í þátíð, en beygðist sterkt, var “þó” í þátíð.

Árangurinn af þessari stífu málvöndunarstefnu mátti t.d. sjá í mogga mannsins í gær, hvar stóð með a.m.k. 24 punkta letri í íþróttakálfinum: “Ég hef lengi dreymt um atvinnumennsku (mogginn gleymdi að loka gæsalöppunum). Ég hef reyndar margoft séð þessa villu hjá nemendum sem eiga að tjá sig um drauma Guðrúnar í Laxdælu. Þetta er villa að því leyti að engum málnotanda finnst eðlilegt að segja “ég dreymi”. En það er búið að berja inn í svo marga að mörg séu vítin að varast í sögnum á borð við “dreyma” og “langa” og “hlakka” og “kvíða” að til öryggis þverbrjóta menn gegn eigin málvitund og útkoman er þessi.  

Næstvinsælast, í skólakerfinu, er að hamra á beygingu hins einstæða orðs “fé”. Fé hefur verið aleitt í sínum beygingarflokki frá dögum gotnesku. Hingað til hefur reynst tiltölulega auðvelt að skaffa tengingu með því að benda á að enginn segi “fésmálaráðherra” og með því að muna “fjármálaráðherra” sé auðvelt að finna rétt eignarfall. Þetta kann að breytast og verða erfiðara nú, þegar nýyrðið “fésbók” ryður sé æ meir til rúms.

Mér þætti gaman að vita hve löngum tíma er eytt í beygingaræfingar ofantalinna sagna og nafnorðsins fjár, í skólakerfinu. Satt best að segja held ég að þetta séu rándýr orð, miðað við kaup og kjör kennara, sem þó eru ekkert til að hrópa húrra fyrir.

Eiður Svanberg, átrúnaðargoð sumra heimilismanna, hefur nýlega gert að umtalsefni svokallaða “reiðareksstefnu” málfræðinga, sem hann telur kristallast í grein Gísla Sigurðssonar í síðasta helgarmogga (altso helgarinnar fyrir þessa). Reiðareksstefnan virðist m.a. felast í því að samþykkja beygingu sumra orða sem þau hafi stofnlægt -r, þar sem hin eina rétta málstefna sé að útrýma errinu úr aukaföllum. Þetta eru orðin “læknir” og “vísir”. Eins og flámælinu forðum hefur þessu aumingja erri verið nánast útrýmt, var það þó orðin viðtekin málvenja á sinni tíð og í rauninni óskiljanlegt af hverju það mátti ekki vera.

Greinin sem Eiður reynir að kasta rýrð á fjallaði reyndar ekki aðallega um læknira eða vísira heldur var megininntak hennar að fyrst yrði til tungumál og svo málfræði, þ.e. að málfræði væri nokkurs konar greining á tungumálinu. Fyrsti málfræðingurinn svokallaði, sem skrifaði Fyrstu málfræðiritgerðina (sem er reyndar um hljóðfræði og stafsetningu) reyndi akkúrat þetta: Hann lýsti framburði eins og hann var einhvern tíma kringum 1150 og greinir hvert hljóð. Síðan lagði hann til hvernig væri skynsamlegt að tákna hljóðið í ritmáli. Vissulega fóru handritaskrifarar lítið eftir þessum fyrstu stafsetningarreglum en af því ekkert var bloggið gat höfundur þeirra ekki orðið Fyrsti kverúlantinn. Öllum sem hafa lesið þessa fínu greiningu Fyrsta málfræðingsins er náttúrlega ljóst að íslenska hefur gjörbreyst, að við myndum tæplega skilja Snorra karlinn, hvað þá Egil forföður okkar allra … en samt er hefur þjóðin ekki glatast. Glötunin er því ekki fólgin í framburðarbreytingum og líklega ekki heldur í stafsetningu.

Yfirvofandi glötun er heldur ekki bundin orðaforða því hann hefur a.m.k. aukist að mun frá léttlestrarbókum þeim sem tamt er að kalla bókmenntaarf þjóðarinnar. (Og enn bætast við spennandi og innihaldsrík orð, eins og “reiðareksstefna” svo íslenskan ríður feitum hesti frá málfarsmolum … geti tunga þá yfirleitt riðið hesti … frá molum.) 

Nei, glötunin er örugglega fólgin í beygingarkeldum sem mönnum láist að krækja fyrir. Af því þær eru svo fáar ætti ekki að vera neitt mál að stuðla að því að þessi vesalings þjóð lifi af, sérstaklega ef við tökum upp spanskreyr í skólakerfinu en að sjálfsögðu var bent á það í athugasemdum við blogg Eiðs að það auma kerfi væri sökudólgurinn. Enda er það svo að frá því skólar voru stofnaðir á Íslandi hefur skólakerfið verið að bregðast. Þetta vita allir. 

Hér á heimilinu hefur náðst vopnaður friður með því að deiluaðilar eru sammála um að það að geta tjáð sig á lipran og ljósan hátt sé eftirsóknarverðast trítls um málfarsstigu heimsins 🙂

12 Thoughts on “Málfarsstígurinn vandrataði

  1. Valdís on September 21, 2010 at 10:10 said:

    Ég hef þá reynslu að það er sífellt erfiðara að hamra á ,,réttu” falli frumlags með tilfinningasögnunum og síðustu árin hef ég frekar kallað á umræður nemenda um þær en að leggja ofuráherslur á rétt eða rangt. Ef foreldrar og fjölskylda, leikskólakennarar og aðrir kennarar nota þágufall með t.d. vanta þá er orðið ansi vafasamt að telja það rangt. Er sammála þér með kvíða og hlakka. Það er orðið rökrétt að hafa þær bara ópersónulegar eins og hinar. Mér finnst eins og það sé farið að stríða gegn málvitund nemenda og annarra að hafa frumlagið í nefnifalli. Í þessu málefni kemur hrokinn mjög vel í ljós. Einn nemandi byrjaði í MH og heyrði íslenskukennarann segja: Hverjum vantar blað? Viðkomandi nemandi var alvarlega að hugsa um að hætta í tímum hjá eymingjans kennaranum, gerði það þó ekki en rakkaði hann niður stanslaust eftir það og fannst hann heimskur …

  2. Já, menn verða að hafa eitthvað til að bögga náungann. Í sjálfu sér er röng falla- eða frumlagsnotkun heppilegri og meinlausari en brigsl um geðsjúkdóma í tíma og ótíma. Verra þegar fólk er að blanda þessu mikið saman 😉

  3. Valdís on September 21, 2010 at 10:28 said:

    Já, mig rak í rogastans við svör Molans við athugasemdum þarna um daginn! Held þó að það segi meira um hann en þá sem voga sér að vera ekki sammála enda er blogg ekki hugsað sem einhver jákóravettvangur – eða hvað?

  4. Nei, blogg er einmitt kjörinn neikóravettvangur. Þannig verða blogg skemmtilegri

  5. Valdís on September 21, 2010 at 20:05 said:

    Ekki nema menn séu í e.k. óskiljanlegri sjálfhverfri krossferð he he

  6. Hlustaði á Höskuld Þráinsson tala um íslenskt mál, á RÚV í gær. Þetta var fantagóður pistill og vel fluttur, meira að segja sungin dæmi. En reiðarekshneigðin í prófessornum var uggvænleg … finnst sjálfsagt einhverjum.

  7. Valdís on September 22, 2010 at 12:28 said:

    Ég ætla að tékka á þessu. Var það á Gufunni?

  8. Form ICBS on September 22, 2010 at 13:21 said:

    Ertu beinlínis að mæla upp í fólki þá vitleysu að beygja sögnina að þvo veikt? Ætlarðu kannski líka að leggja til að hún verði látin enda á a í nafnhætti nútíðar?

  9. Valdís on September 22, 2010 at 14:19 said:

    ICBS, hún beygist veik í þátíð en sterk í nútíð. Sögnin að setja og telja t.d. gera það líka. Tékkaðu á þessu

  10. Valdís: Já, var á Rás 1 í gær, sjá http://dagskra.ruv.is/ras1/4564738/2010/09/21/

    Formaður ICBS, sem ég hygg að muni vera Blágrænuþörungavinafélagið alþjóðlega, skrifar greinilega undir dulnefni. Spurning hvort borgi sig að svara svoleiðis liði? Er ekki rétt að hann haldi sig bara með þörungunum (þótt blágrænuþörungar séu strangt til tekið ekki þörungar) og sleppi afskiptum af afskiptum af íslenskri tungu?

  11. Gott að sjá að hér brenna vitar íslenskunnar – mega þeir loga glatt og lengi fram eftir nóttu.

  12. Takk fyrir hlýjar óskir, Henrik Geir Garcia.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Post Navigation