Kynungabók

Ég renndi yfir Kynungabók í gær. Þetta er bæklingur, gefinn út af Mennta- og menningarmálaráðuneytingu í ágúst 2010. Bæklingurinn virðist eiga að vera kennsluefni því í formála segir menntamálaráðherra, Katrín Jakobsdóttir: “Það er von mín að rit sem þetta eigi eftir að nýtast í skóla- og uppeldisstofnunum þannig að allir nemendur fái lögbundna fræðslu í þessum efnum [þ.e. jafnréttisfræðslu]”.

Það sem stingur fyrst í augu, varðandi þennan bækling, er nafnið. Hvað er kynungur? Ráðherra segir í Ávarpi í tilefni útgáfu Kynungabókar 25. ágúst 2010:

langullarkynungur“Kynungur felur bæði í sér tilvísun í kyn og ungt fólk en er jafnframt gamalt og gilt orð samkvæmt Orðabók menningarsjóðs. Skilgreining orðabókar á orðinu er „að vera af ákveðnu kyni eða sauðahúsi“.”

Í Íslenskri orðabók sem Mörður Árnason ritstýrði og Edda gaf út, 2002, segir einmitt (s. 846): “kynungur … sá sem er af tilteknu kyni > langullarkynungur (um sauðfé).”

Leit í Ritmálsskrá Orðabókar Háskólans skilar engu og heldur ekki leit í aðskiljanlegum orðabókum á snara.is, hvað þá Íslenskri orðsifjabók. Aftur á móti nefnir Íslenskur Orðasjóður, við Háskólann í Leipzig,  dæmið: “Þannig hefur myndast nýr, grólaus kynungur”.

Svoleiðis að fyrrum móðurmálari, verðandi öryrki, hlýtur að bendla Kynungabók ósjálfrátt við sauði eða burkna. Það er nú ekki gott veganesti fyrir svo háleitan bækling. Og óskemmtilegt fyrir vesalings nemendurna sem eiga víst að fræðast af þessum ritlingi, svk. fyrrnefndu ávarpi ráðherra. Verður ekki betur séð en bæði höfundar ritlingsins og ráðherra misskilji orðið því svo virðist sem kynungur þýði einfaldlega ættkvísl. Við sitjum því uppi með “Ættkvíslabók” til jafnréttisfræðslu.

Annað sem vekur athygli við fyrstu sýn er hvað gripurinn er afspyrnu ljótur. (Nema menn séu almennt hallir undir auglýsingar Iceland Express en hönnun bæklingsins virðist byggð á þeirra litum og framsetningu.) Hönnuðurinn, Kári Emil Helgason, hrífst af appelsínugulu og gráu, sjá hans eigin heimasíðu.

Apples�na hugsarÞað er þreytandi að horfa á sömu appelsínugulu, gráu og hvítu litatónana á hverri síðu (nema auðvitað í þeim svarta kafla “Kynbundið ofbeldi”). Og það er ekki verið að spara IcelandExpress-appelsínugula litinn, meira að segja undirkaflafyrirsagnir eru yfirlitaðar appelsínugular (og því illlæsilegar). Satt best að segja bjóst ég alveg eins við að sjá “Þar bíður hún mín, ‘ún Lóa”, einhvers staðar í miðri bók.

Textinn er brotinn upp af fjölda línu-og súlurita, sem öll eru appelsínugul og grá, og snyddum sem heita “Til umhugsunar”, með á að giska 20 – 24 punkta letri.
Í megintexta eru svo skærappelsínugular “historier fra hverdagen” (eins og þær heita í Norsk Ukeblad, eitthvað svipað heita þær í Vikunni en í Kynungabók heita þær Örsögur.) Ég reikna með að þær séu  uppdiktaðar af höfundum enda hvergi vísað til heimilda um hvar þessar sögur gætu hafa birst.
Efri spássía er engin en sú neðri þess myndarlegri. Og það er voðalega skæs og módern að snúa blaðsíðutali hverrar síðu 90°.

Hugleikur Dagsson er sagður myndskreyta bæklinginn. Hann hefur vakið athygli fyrir fyndnar, einfaldar myndir og er í tísku, myndskreytti m.a. síðustu símaskrá. En í bæklingnum eru nákvæmlega 4 myndir eftir Hugleik, auk einnar á forsíðu. Engin þeirra er hið minnsta fyndin eða dregur fram eitthvað úr textanum; Appelsínugular stelpur að sippa; Appelsínugulir strákar í fótbolta; Er einhver dulinn boðskapur í þessum myndum? Nei, Hugleikur er þarna notaður sem hvert annað auglýsingatrix, alveg eins og Hemmi Gunn í fyrirmynd hönnunar bæklingsins. Á forsíðumyndinni er karl með appelsínugult bindi og kona með appelsínugula nunnuslæðu (a.m.k. sé ég ekki betur).
 

Höfundarnir eru 5 konur, þar af vinna fjórar í MRN og ein er framkvæmdarstýra Jafnréttisstofu. Miðað við að þetta á að vera jafnréttisbæklingur hefði nú kannski verið við hæfi að leyfa sosum eins og einni karlskepnu að fljóta með sem höfundi.

  
Strax í innganginum er tónninn sleginn (“aumingja-við-stelpurnar-vælið”) og hin venjubundna femínstistatilhneiging til að hanna íslenska tungu upp á nýtt blómstrar: “Þau [leturbreyting mín] sem berjast gegn þessum viðtekna hugmyndaheimi og vilja auka fjölbreytni og athafnarými fyrir hvort kyn skilgreina sig gjarnan sem femínista.” (s.7). Í ljósi þess að í 5 höfunda hópi eru a.m.k. tveir fyrrum íslenskukennarar fer um mann hrollur. Ráðlegg þeim að hlusta á Málstofuna; Mál og kyn, á Rás 1 á þriðjudaginn var.

Annars skoðaði ég einkum þá kafla sem ég tel mig hafa eitthvert vit á. Þar má nefna “Skólagöngu”.

Þar er skólasaga rakin í míkrómynd og sagt: “Þrátt fyrir það voru framhaldsskólar mjög kynskiptir í marga áratugi þar á eftir sem endurspeglast [leturbreyting mín] í kynskiptu námsvali.” (s. 14)  Tilvísun er í Sigríði Matthíasdóttur (2004) og eðlilega hélt ég að hún hefði skrifað um hvernig þetta gamla skipulag endurspeglast í námsvali nútímans. En nei, heimildin er bók Sigríðar: Hinn sanni Íslendingur: þjóðerni, kyngervi og vald á Íslandi 1900- 1930. Hver fattaði upp á að stinga orðinu nú inn í málsgreinina? Svo tekur við létt hjal um aðskiljanlega hluti en neðst á síðu 15 er farið að fjalla um námsval.

Síður 16 og 17 loga af appelsínugulum og gráum súlum og appelsínuguli “Vissir þú að …” kaflinn er á sínum stað. (Þessir “Vissir þú” kaflar eru margir uppfærðir molar af síðunni Ábyrgir foreldrar Akureyri. Þar eru þeir höfundalausir. Sjá má ótvíræð tengslin t.d. í stafsetningarvillu í tilvísun í grein Tirril Harris en einnig dugir að lesa molana og bera saman við Kynungabók.)

Skv. súluriti yfir nemendaskráningu á einstökum brautum framhaldsskóla eru stelpur alls staðar í meirihluta, nema í raungreinum, þar sem þær eru 45% nema og í iðn- og tæknibrautum, þar sem strákar eru 67% (hlutfallið 2002 var 90% svo breytingar hafa faktískt orðið, án Kynungabókar eða annars purkunarlauss femínistaáróðurs.) Þetta er túlkað þannig:

Appels�nugaur � svuntu“Þetta kynbundna námsval tengist hugmyndum um karlmennsku og kvenleika. Karlar eru í “karllægum greinum””. Ansi hæpin einföldun, finnst mér. Þetta tengist auðvitað fyrst og fremst því að enn velja karlmenn að ljúka starfsnámi í framhaldsskóla og þar er aðallega um iðngreinar að ræða, meðan starfsnám kvenna hefur færst á háskólastig. Þetta gæti líka tengst því að fleiri strákum vegnar verr í skóla en stelpum og því gæti verið eftirsóknarvert að fyrir þá að stunda nám sem felur í sér minna bóknám og gefur starfsréttindi.

Vilja höfundar Kynungabókar bregðast við þessu með því að færa allt iðnnám á háskólastig og auka þannig einn meir brottfall stráka úr framhaldsskóla? Eða fækka stelpum sem sækja í háskóla með því að reyna að fá fleiri þeirra til að gerast smiði, múrara, kjötiðnaðarmenn eða rafvirkja – svo dæmi séu tekin af handahófi? Til hvers?

Á síðunni á móti er annað súlurit, í þetta sinn er sýnt kynjahlutfall í goggunarröð háskólakennara. Augljós skýring á þessum mun, þ.e. að miklu fleiri karlar en konur eru prófessorar en sæmilegt jafnrétti ríkir í lektorastétt, er kynslóðarbil. Hefði meðalaldur prófessora og lektora verið sýndur í leiðinni blasti skýringin við. Ásókn kvenna í háskólanám er nefnilega ekki það gömul. Þessari skýringu er að sjálfsögðu sleppt.

Á miðri þessari opnu er “Til umhugsunar”-snydda (með ca 24 punkta letri) þar sem sagt er frá því reginhneyksli að “Vorið 2010 birtist frétt um valnámskeið í grunnskóla á Vesturlandi þar sem stelpum í unglingadeild var boðið að sækja snyrtinámskeið og fyrirlestur um ótímabæra þungun en strákar fengu námskeið um vinsælan tölvuleik.” Rakið er að ein stelpan vildi komast á fyrirlesturinn um Eve Online en fékk ekki, var í staðinn boðið á kynningu hjá tölvufyrirtækinu.

Ég er ekki að mæla því bót að stelpuskottið skuli ekki hafa mátt kynna sér Eve Online en það eru ansi miklar ýkjur að kalla þetta “valnámskeið í grunnskóla” því, eins og segir  segir í fréttinni sem vísað er til : “Nemendur í unglingadeild Auðarskóla í Búðardal gerðu sér glaðan dag í vikunni, þegar skólinn stóð fyrir námskeiðum fyrir krakkana í lok skólaárs.” Þetta var sumsé stutt húllumhæ í skólalok; Tveir fyrirlestrar á sama tíma. Skyldu höfundar Kynungabókar hafa kannað þetta mál eitthvað, t.d. með símtali vestur? Eða dugir að trúa frétt DV sem nýju neti?

Aftur á móti var boðið upp á “strákaval” og “stelpuval” fyrir hálft skólaárið 2010, í Álftanesskóla. Mig minnir að femínistar hafi fengið hland fyrir hjartað yfir heitum valsins og nöfnunum hafi verið breytt. Þó kemur fram að ekkert foreldri gerði athugasemd við nafngiftina. Skiptir máli, í uppsláttarvali í Kynungabók, að sá skólastjóri var formaður Alþýðubandalags Borgarness og nærsveita í 2 ár, meðan sá flokkur var við lýði? Sem sagt vinstri maður? Og þess vegna fremur valið miklu ómerkilegra og saklausara dæmi úr Búðardal (án þess ég viti í hvaða pólitískan dilk skólastjórinn þar raðast).

Raunar finnst mér, almennt og yfirleitt, heldur hæpið að nota DV sem heimild í tilvonandi kennsluefni Mennta-og menningarmálaráðuneytis. Allt annað er að brúka slíkt í bloggi.

Það er í stíl við nýmóðins  heimildanotkun í því góða ráðuneyti að vitna í Blogg Gáttina (s. 27), í umfjöllun um hlut kvenna í fjölmiðlum. Kannski hefðu höfundar átt að kynna sér hvernig sú  talning virkar en til upplýsingar er bent á færslu Gísla Ásgeirssonar, Um Blogggáttina,   Og hefði ekki verið rétt, í þessu sambandi, að reikna út hlutfall íslenskra notenda Facebook eftir kynjum? Eða skanna minningargreinar moggans svona 2 ár aftur í tímann og gá hvernig prósentuhlutfall kynja birtist það, þ.e. í ritendum minningargreinanna? Þetta er nú einu sinni afar vellesið efni, allt að því fjölmiðlar.

Að lokum vil ég minnast á enn einn “Vissir þú að …” kaflann, enn og aftur byggðan á síðu Ábyrgra foreldra á Akureyri (sem hvergi er getið í heimildaskrá þrátt fyrir öflugt framlag til Kynungabókar):
“Vissir þú að …
… þunglyndi er algengara hjá konum körlum og er munurinn meiri hjá yngra fólki en því eldra? Ekki er þó fullvíst að um líffræðilegar orsakir sé að ræða fyrir þeim mun og jafnvel talið að félagslegir þættir og mismunandi aðstæður kvenna og karla í samfélaginu hafi þar áhrif.”
Sem heimild fyrir þessu er vísað er í grein Harris, T (2003) Depression in women and its sequela [svo! rétt: sequelae] Journal of Psychotomatic Research, 54, 103-112. Kenningar Tirril Harris eru  umdeildar og hafa verið frá því hún var meðhöfundur í frægri rannsókn, Brown, G.W. and Harris, T.O. (eds) 1978: Social origins of depression: a study of psychiatric disorder in women. London; Tavistock. Besta yfirlitsgreinin um þætti sem kunna að hafa áhrif til þess að algengi þunglyndis meðal kvenna mælist meira en karla er, að mínu mati, grein Dr. Elizabeth Young, Sex, trauma, stress hormones and depression, í Molecular Psychiatry (2010) 15, 23–28. En hún fellur líklega ekki að smekk fyrrum rauðsokka.

NornÞótt augljósasta skýringin á algengi þunglyndis meðal kvenna sé vitaskuld sú að konur eru miklu duglegri að leita sér hjálpar, þ.m.t. læknishjálpar, en karlar, eins og kemur reyndar fram í Kynungabók, er óþarfi að slengja fram vafasamri fullyrðingu byggðri á vafasamri heimild sem einhver höfundurinn hefur rekist á á síðu Ábyrgra foreldra á Akureyri um svo alvarlegan sjúkdóm sem þunglyndi er. En sé maður femínisti hefur maður greinilega vit á öllum sköpuðum hlutum undir sólinni … eða má a.m.k. tína upp sína heimildarmola úti á túni, óáreitt(ur?). Bloggynja þakkar fyrir að hafa ekki séð Jónínu Ben. í heimildaskrá.

Almennt má um Kynungabók segja að þarna fer hópur kvenna á besta aldri fram með fyrirfram gefnar einstrengingslegar skoðanir á skólakerfi, hagkerfi, heilbrigðismálum o.fl. og telur hvaða heimildir sem styrkja sína þröngu heimsmynd tækar. Vitnað er jöfnum höndum í opinberar skýrslur stofnana, virtar rannsóknir, greinar í ritrýndum tímaritum, óbirtar BA-ritgerðir, DV, Blogggáttina, Megrunarlausa daginn  og efni sem ekki er getið í heimildaskrá (vefsíðu Ábyrgra foreldra á Akureyri og lífsreynslusögur) o.s.fr. Ekki virðist gerð sérstök tilraun til að meta heimildirnar, líkt og dæmið um grein T. Harris sýnir hér að ofan, það dugir að þær falli að fyrirframgefnum skoðunum höfunda. Það er auðvitað hneisa að Mennta-og menningarmálaráðuneytið skuli leggja nafn sitt við þennan bækling.   

Hefði fénu, sem fór í að útbúa þennan bækling, ekki verið betur varið í annað? Á tímum niðurskurðar í skólakerfinu, eins og það leggur sig.
 

  

Kostir við Kynungabók? Ja, hún virðist vel prófarkalesin, nema kannski heimildaskrá.

  

  

4 Thoughts on “Kynungabók

  1. Ég einmitt bloggaði um þennan bækling um daginn. Ég var ekki alveg sammála um útlitið sem höfðar vel til mín en þetta með höfundana stuðaði mig soldið. http://egillo.wordpress.com/2010/09/17/skrytin-skilabo%C3%B0-um-jafnretti-fra-menntamalara%C3%B0uneyti/

  2. Harpa on October 1, 2010 at 17:01 said:

    Alveg rétt athugað hjá þér, Egill, með höfundana. Við getum vissulega haldið áfram að vera ósammála um útlitið 😉 En það að bæklingurinn sé vel unninn er misskilningur: Plagg þar sem heimildanotkun er jafn ömurlega illa unnin og hér er hneyksli.

  3. Nei það er alveg rétt hjá þér, ég var einfaldlega ekki búinn að skoða bæklinginn nógu vel til að sjá þetta. Það lítur út fyrir að ráðuneytið hafi klúðrað þessu verkefni ansi illa.

  4. Pingback: Pólitíska hugmyndafræðin á bak við jafnréttisfræðslu | Pistlar Evu

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Post Navigation