Harmblogg

Kötturinn vakti mig hálf-sex í morgun. Ég náði undir klukkutíma normal. Sá tími styttist með hverjum deginum.

Núna er ég koldofin, finnst allt ískalt og dimmt. Einhvers staðar djúpt inni í mér leynist Harpa en það er ansi djúpt og frosið allt í kringum hana. Ætti að taka upp nafnið Morri í staðinn. Ekkert skiptir máli og heimurinn hefur breyst í nístandi tóm.

Á föstudaginn komst ég að því að ég var búin að gleyma hvar sonur minn byggi í borg óttans. Samt hef ég komi nokkrum sinnum til hans, síðan hann flutti. Þetta bara strokaðist út. Síðan hefur æ meir strokast út og ég get ekki lengur lesið (þ.e.a.s. auðvitað get ég lesið en ég man ekki það sem ég les – þetta er athyglisbrestur dauðans!). Seinnipartinn í gær var orðið erfitt að hitta á rétta lykla á lyklaborðinu svo ég læt pjanófortið algerlega ósnert. Reyni ekki að horfa á sjónvarp en gæti sosum legið á sófanum fyrir framan tækið – það er ekki verri staður en hver annar. Hannyrðir hafa verið lagðar til hliðar að sinni en ég SKAL samt berja saman færslu um sögu prjónaskapar fljótlega, það tekur þá bara einhverja daga að rifja aftur og aftur upp það sem ég les um það efni og reyna að hugsa í smáskömmtum.

Í gærmorgun gerði ég tilraun til að svindla á kvíðastillandi skammtinum, seldi mér þá hugmynd að ég yrði skírari í kollinum fyrir hádegi án slíkra lyfja. Það virkaði ekki og það eina sem ég hafði upp úr tilrauninni var að stíga ölduna í þeim stutta labbitúr sem ég þó kom mér í. Kvíðastillandi draslið virðist laga jafnvægisskynið svolítið.

Þegar ég var að veikjast vorkenndi ég sjálfri mér ógurlega, fannst mikið áfall að komast að því að nýja lyfið væri að hætta að virka. Núna er ég kominn á þann stað að ég vorkenni mér ekki neitt, faktískt finn ég ekki til neinna tilfinninga. Skruna yfir fjölmiðla og tek eftir að Lady GaGa og Yoko Ono tóku saman lagið, að einhverjir flögguðu nasistafána á Austurvelli, að femínistar eru enn einn ganginn óðir af heilagri vandlætingu … en þetta líður hjá eins og bíómynd og snertir mig í rauninni ekki nokkurn skapaðan hlut. Mér er líka ljóst að fullt af fólki hefur það miklu meira skítt en ég og það er fullt af fólki sem glímir við grafalvarlega sjúkdóma o.s.fr. en það er ekki nokkur einasta huggun eða pepp; í rauninni kemur það heldur ekkert við mig.

Það eina sem ég get gert er að reyna að bíða af mér helvítis kastið og lifa það af. En í miðju þunglyndiskasti er ekki einu sinni það huggun eða til bóta. Þegar maður syndir gegnum daginn á 38 snúninga hraða og hver sólarhringur verður óendanlega langur er hugsanlegur eða væntanlegur bati svo handan sjóndeildarhringsins að hann er ósýnilegur möguleiki.  Skásti raunhæfi möguleikinn er að dobblun lyfjanna skili einhverjum árangri, það ætti að vera ljóst fyrir miðjan október. Þangað til er best að sofa sem mest, sem er guði-sé-lof ekki erfitt því helv. þunglyndið eyðir orku meir en nokkurt fyrirbæri sem ég þekki. Svefn er dásamleg pása úr þessu helvíti.

Þessi færsla var bein útsending úr Hel. Hirði ekki einu sinni um að myndskreyta hana en menn geta ímyndað sér sogandi svarthol ef þeir sakna mynda. Er  farin að sofa.

11 Thoughts on “Harmblogg

  1. Get lítið sagt annað en að hugsa til þína og óska þér bata og alls hins besta

  2. ,,Einnig þetta mun líða hjá.” Vona að það gerist sem allra fyrst.
    Kærleikskveðja.
    -V.

  3. Allir hlýir straumar…

  4. Gurrí on October 5, 2010 at 17:28 said:

    Innilegar bataóskir.

  5. Sigríður on October 7, 2010 at 22:23 said:

    Skil þig svo vel og finn til með þér. Hef sjálf verið í þessu helv. í ca 30 ár. Vissi ekki fyrr en fyrir 10 árum að þetta héti þunglyndi og að hugsanlega væru til lyf sem gætu bætt líðanina.
    Er nýbyrjuð að lesa bloggið þitt og þar get ég samsamað mig þér og þori núna fyrst að viðurkenna hvernig mér hefur liðið.
    Vonandi birtir til sem fyrst hjá þér.

  6. Dagrún Sigurðardótti on October 8, 2010 at 08:44 said:

    Sæl Harpa. Hér skrifar gamall vinnufélagi frá hótel Eddu Laugarvatni sumarið 1980. Ég er hvílíkt stolt af þér vegna greinarinnar í geðhjálparblaðinu.Sjálf er ég öryrki vegna heilaaðgerðar fyrir fimm árum og ég ætla að hafa þann tilgang í framtíðinni að styðja fjöldskyldu meðlimi mína með því að hafa helst alltaf tíma til þess að tala við þá á jákvæðu nótunum því ekki veitir af í dag.Það er gott að geta fengið fræðslu í gegnum þín skrif því að ég á tengdadóttir sem glímir við hvíða og þunglyndi. Ég veit ekki alveg hversu slæmt það er hjá henni því að það er ekki rætt.Ég segi það aftur að ég er stolt af þér og ekki síður fyrir gömlu prjónasíðuna.Það er ekki skemtilegt að detta út af vinnumarkaði á einum degi og missa alla vinnufélagsskapinn . það tekur tíma að venjast því. En mér sínist þú vera svo dugleg og allir sem lesa geðhjálparblaðið geta fundið stuðnings mann í því sem þú segir frá og það er ómetanlegt.Þú getur verið stoltust. Kveðja að sinni Dagrún.

  7. Halldóra on October 8, 2010 at 09:15 said:

    Hjartans þakkir fyrir greinina í blaðinu í dag. Ég hugsaði þegar ég las hana: Hvernig er hægt að vera svona heilbrigð en samt svona mikið veik. Greinilegt að hún er kennari því hún kann að koma reynslu sinni svo skýrt til okkar hinna.
    Ég óska þér alls hins besta og vona að þú eigir eftir að ganga sem mest á gleðinnar vegum og að vegur sjúkdómsins verði með tímanum aðeins fáfarinn slóði.

  8. Vigdís Ágústsdóttir on October 8, 2010 at 09:47 said:

    Gott mál að halda úti svona síðu, og jafnvel bera saman bækur sínar og læra af annarra reynslu…Ég hef kynnst alls kyns “heilaveseni”, tengt því að ég er flogaveik…Það er heldur óskemmtileg veiki, sem oft hefur gert heilann þunglyndan. En það er mikinn fróðleik að fá af netinu, og ég verð alltaf meira og meira vantrúuð á lyf. Aukaverkanir eru slæmar, og heilinn svo flókinn, að það eru ekki nema uþb. 15% þar, sem vísindin telja sig kunna skil á. Þess vegna hef ég undrast hvað læknar eru djarfir við að setja fólk á bæði geð-og flogalyf..Mín reynsla er að oftast geri lyf meira ógagn en gagn….Og ég hef verið “tilraunadýr” allt lífið, með litlum sem engum árangri, en aukaverkanir slæmar…Ég held að mataræði og hreyfing séu mér mikilvæg, en um það er lítið talað hjá læknum, það eru bara endalaus lyf, sem eins og ég segi ég er ekki sátt við —bestu kveðjur til þín

  9. Harpa on October 8, 2010 at 17:39 said:

    Takk fyrir kommentin. Vissulega man ég vel eftir þér Dagrún … ég held þú hafir verið fyrsta manneskjan sem ég hitti sem hét þessu nafni 🙂 Gömlu handavinnusíðurnar (og reyndar myndarlega krækjusíðu í efni sem mér þykir áhugavert) eru komnar inn á http://www.this.is/harpa/index.html
    Vonandi heilsast þér og þínum sem best.

    Halldóra: Framsetningin í greininni er nú mjög mikið blaðamanninum að þakka. Ég er sjálf soldið rugluð þessa dagana en hinn ágæti blaðamaður raðaði svona vel saman heldur óskipulegu spjalli.

    Vigdís: Maður ætti að prófa sem flest og nota það sem kemur að gagni. Ég reyndi að vera lyfjalaus í 2 – 3 mánuði síðustu vorönn, hugsaði með mér að það gæti varla verið verri líðan en að höndla aukaverkanir lyfjanna og ná aldrei góðum bata. Sú tilraun endaði með ósköpum, þ.e. mjög slæmu kasti. En nú er ég búin að prófa það og veit að það hentar mér engan veginn, lyfin gefa illskárri líðan. Og meðan enn er eitthvað óprófað er kannski enn pínulítil von (þótt sú von sé nú orðin í öreindarstærð núna). Það má líka vonast eftir að eitthvert nýtt lyf sem virki vel og lengi komi einhvern tíma á markað. Læknirinn minn (hef haft þann sama í 8 ár og hann er frábær) verður seint sakaður um að halda ekki fram mikilvægi mataræðis og hreyfingar. En hann gerir sér væntanlega grein fyrir því sama og ég: Í sumum tilvikum dregur slíkt afar skammt. Ég hef reyndar aldrei hitt lækni sem ekki bendir á fjölmargt annað en lyf sem geta bætt líðan manns, á milli kasta. Svo ég hallast svolítið að því að meintur skefjalaus lyfjaáróður lækna út í bláinn sé þjóðsaga.

  10. Sæl, Harpa.

    Þakka þér kærlega fyrir greinina í dagblöðum dagsins – hún var margfaldlega lestursins virði. Við höfum öll endalausa djöfla að draga, ekki satt, þótt sárt sé frá að segja? Kærar kveðjur,

    Helgi Ing

  11. Sofðu rótt ♥

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Post Navigation