“Ég sem fæ ekki sofið…
Bleikum lit
bundin er dögun hver og dökkum kili
Draugsleg er skíman blind og bak við allt
blóðlausir skuggar flökta á gráu þili
Andlit sem hylst að hálfu í dimmum skugga
hattur sem drúpir, hönd sem hvergi leitar
handfangs – og vör sem einskis framar spyr
Og úti stendur einn við luktar dyr.
… ”
(Hannes Sigfússon – úr Dymbilvöku)
Það er auðvitað ekki Dymbilvaka núna og ég hef aldrei verið sérstakur aðdáandi ljóða Hannesar Sigfússonar (þótt hann hafi vissulega búið í næsta húsi um tíma, reyndar áður en ég flutti í Vallholtið) … og það er langt þar til bleika dögunin birtist en þessi fyrsti hluti passar ágætlega við líðanina núna og það er alltaf huggun að sjá eigin tilfinningar miklu betur orðaðar en ég gæti nokkru sinni sjálf.
Breytir fáu að vera heima – ég fór seinna að sofa en venjulega en hrökk upp tæplega hálf fjögur í nótt og illar hugsanir og niðurrif læddust að mér, æ áleitnari. Nú hef ég lesið moggann mannsins, án þess að muna staf úr honum, lesið blogg alveg villivekk (held mig frá þeim neikvæðu og illkvittnu), skrunað yfir nokkra netmiðla, án þess að muna í rauninni nokkuð af því sem þar var að finna og yfirleitt reyna sem mest ég má að beina huganum frá mér og þeim vondu þönkum sem vilja hellast yfir mig, væntanlega af efnafræðilegum hvötum en jafn óhugnalegir samt. Mér er flökurt og mér er ískalt en það er bara vegna þess að ég hef sofið alltof lítið. Vonandi tekst mér að kúra aðeins á eftir.
Það er nístandi einmanalegt að sitja ein frammi vakandi en sama iðja er líka einmanaleg á geðdeild þótt fleiri séu þar á fótum á nóttunni en hér. Kötturinn, sem ekkert vildi við mig tala í gærkvöldi, hefur tekið mig í sátt og gott ef hún sýnir ekki samúð núna, a.m.k. myndi Pollýanna taka blíðlegt malið fyrir slíkt, sem og huggandi murrið sem minnir á nöfnu hennar Marlene. Þessi köttur var orðinn reyklaus á viku en hefur nú aftur tekið upp hina illu reykingameðvirkni og kemur út á stétt með sínum geðveika reykjandi eiganda. Hún venur sig fljótlega aftur af þessum ósið.
Það var gott að koma heim og hitta fólkið sitt. Og takast að sofna í eigin rúmi. En ég er jafn andskoti veik og hjari áfram í þessu helvíti á jörð. Guði sé lof að ég verð aftur læst inni fljótlega, helst fyrir næstu nótt. Stundum er betra að vera læstur inni.
Sendi ther allar minar barattukvedjur og til hamingju med afmaelisdrenginn 🙂
Takk Helga mín.
Tek undir með Helgu og vona kastið verði sem allra styst!
Elsku Harpa. Takk fyrir pistilinn. Það eru margir sem fylgjast með þér, það er svo gott að finna samsömun í svona skrifum eins og þínum; að finna að maður er ekki einn að berjast. Líði þér sem allra best.
Þín Heiða
Ég fæ tár í augun við að hugsa til þín. En ég sé þig bara sem skemmtilega kennarann minn. Veit að þú átt eftir að rífa þig uppúr þessum veikindum. Ég segi eins og allir segja við mig. Þetta tekur bara tíma … maður verður að vera þolinmóður. ( hef lítin húmor fyrir þessu þegar að mér líður ekki vel ). Tíminn getur verið manns versti óvinur.
Kv. Hafdís
Takk fyrir góðar kveðjur. Ég er á besta stað eins og á stendur, inni á 32 A, en upplifi helvítisdagana reglulega. Sumir dagar eru sem betur fer minna helvíti. Hugsanlega byrjar lyfið að virka seint í þessari viku. Vonandi.