eru í rauninni engar. En úr því ég er heima og búin að opna bloggið finnst mér rétt að skrifa einhvern stubb um geðveikina. Nú er ég búin að vera í rúman mánuð á 32 A og sé / finnst ekki betur en ég sé í nákvæmlega sama farinu og þegar ég fór þangað inn – eftir að hafa verið veik hér heima í rúmar 3 vikur. Svoleiðis að þessi djúpa geðlægð er ekkert farin að grynnka. Og lyfið sem ég er að prófa hefur ekki sýnt neina verkun enn. Skammturinn var hækkaður í fyrradag, þess vegna mátti ég ekki fara heim fyrr en í fyrsta lagi í gærkvöldi því það þurfti að tvítékka blóðþrýsting daglega fyrst á eftir. Af því mér hættir til að sofa mjög illa, sérstaklega hér heima, ákvað ég heldur að skreppa í sunnudagsheimsókn heim til mín – og auk þess var ég hundveik seinnipartinn í gær og í gærkvöldi og hefði hvort sem er ekki höndlað að fara út af deildinni þá. Lyfið þolist vel, að vísu er blóðþrýstingurinn ansi lágur en ég hef alltaf haft lágan blóðþrýsting hvort sem er og get ekki sagt að ég finni neitt sérstaklega fyrir neinum einkennum þess vegna.
Það er gott að vera heima núna – meira að segja kötturinn tók mér strax opnum örmum / loppum, sem er óvenjulegt. Okkur kettinum hefur í sameiningu tekist að ræsa unglinginn, sem var þægilega skemmtilegt umstang og tók langan tíma … unglingurinn fer svo í vinnuna en frumburðurinn kemur heim seinnipartinn, í sunnudagssteikina, og ég fer með honum til baka, vonandi heldur snemma kvölds. Það er ótrúlega gott að sitja við eigin tölvu í friði, í eigin stofu, með fólkið mitt í eigin tölvum (já, þetta er doldið tölvusjúk familía) og hlusta á fr. Jósefínu reyna að fanga óvenju óþæga flugu í stofunni (já, þessar flugutuðrur vilja stundum ekki láta éta sig nema með eftirgangsmunum).
Skaginn ljómar af sól … og mikið sem var fallegt að aka inn í bæinn, sjá almennileg fjöllin í kring, sjá vítt til allra átta … ég er orðin svakalega leið á að horfa á Öskjuhlíðina og Perluna oft á dag, af opinberu reykingasvæði okkar geðsjúklinganna.
Ástandið á mér akkúrat í augnablikinu er með skásta móti; ég finn vel fyrir þunglyndinu en get samt ýtt því nóg til hliðar til að skynja annað. En af reynslu reikna ég með að verða uppvakningslegri eftir því sem á daginn líður.
Á deildinni er gott að vera, þannig séð. Geðdeild er náttúrlega ekki skemmtistaður heldur sjúkrastofnun og oft líður mörgum þar illa. En starfsfólkið er einstakt og fyrir mig er 32 A einmitt besti staðurinn núna; það er velkomið skjól og þar losnar maður líka við einfeldnislegar ráðleggingar og útlistanir á þunglyndi, sem ég heyri annars alltof oft frá fólki sem hefur nákvæmlega enga þekkingu á sjúkdómnum. (Ég var búin að nefna áður ráðið um svissnesku geitamjólkina, er það ekki?)
Dagarnir eru misjafnir, stundum næ ég ógeðveikum tímaglugga fyrst eftir að ég vakna á morgnana, stundum ekki. Sumir dagar eru þokkalegir, sumir í lélegu meðallagi og sumir dagar eru helvítisdagar, frá morgni til kvölds. Þá set ég sjálfa mig í gjörgæslu; loka á alla gesti og einbeiti mér að því að komast gegnum 72 klukkustunda langan daginn, klukkutíma fyrir klukkutíma eða jafnvel hálftíma fyrir hálftíma. Það er eina leiðin. Á svoleiðis helvítisdögum hefur það gerst að ég geti ekki einu sinni prjónað – þá hlusta ég á Kathleen Ferrier syngja aftur og aftur Agnus Dei og Qui sedes ad dexteram Patris (úr H-moll messu Bachs); eftir svona 20 skammta af þeim líður mér yfirleitt skár. Ýmsar Ave Maríur og jarðarfararmarsar Chopins og Beethovens koma sér líka vel. Á betri dögum hlusta á ég heldur nútímalegri músík af ýmsu tagi og á bestu dögum næ ég að hlusta á Marianne Faithfull syngja illkvittnislega hressandi lög úr Túskildingsóperunni. Svo sjóaður geðsjúklingur er auðvitað löngu búinn að koma sér upp sérstökum geðveikis-tónlistarpakka sem brúka má eftir þörfum. (Reyndar eru sólbaðslögin á sama spilara – síðan í sumar – en ég hleyp nú yfirleitt yfir þau, er ekki alveg í standi fyrir gleðilega söngva núna … reyndar á blúsinn stundum við.)
Ég hef aðeins borið það við að reyna að lesa, greip með mér ljóðabók þegar ég var heima um síðustu helgi, vitandi það að mörg þessara ljóða ætti ég að kunna utanað og því væri væntanlega hægt að lesa þau án þess að gleyma jafnóðum því sem ég les. Get ekki sagt að árangurinn sé neitt stórkostlegur og athyglisbrestur dauðans kemur enn í veg fyrir að ég geti lesið, þ.e.a.s. náð því sem ég les. Svo ég er enn háð því að prjóna, það er það helsta sem ég get iðjað, a.m.k. oftast.
Auðvitað er þessi færsla harmagrátur eins og síðustu færslur. En mér finnst gott að tjá mig á bloggi og heyrist / sýnist að einhverjir telji sig græða á að lesa þessar færslur. Mér er líka í mun að leiðrétta lýsingar sem ég “las” fyrir stuttu, þar sem geðdeildarvist var lýst eins og einhverju súrrealísku karnevali, gott ef var ekki bara banastuð á þeirri deildinni. Það er að því leyti undarlegra þar sem þetta var einmitt sama deildin og ég dvel á núna og hef oft áður dvalið. Kannski les ég einhvern tíma pistla um grín og pöbbastemningu á krabbameinsdeild – hver veit.
Takk fyrir Harpa, það er alltaf fróðlegt og gott að lesa pistlana þína. Vonandi fara veikindin að réna.
Ég skal með glöðu geði lána þér aðeins af háa blóðþrýstinginum mínum! Annars vona ég innilega að ástandið hjá þér (geðheilsulega séð) fari að verða ögn betra.
Bestu kveðjur héðan úr mínu koti.
Takk stelpur … já, Kidda, ég mundi auðvitað taka við parti af háa þrýstingnum þínum ef ég gæti. Vona að hann lækki sem fyrst (Atli hitti pabba þinn í gær og hlýddi honum yfir ástand og horfur). Vona að allt gangi að óskum í þínu koti 🙂
Mér finnst bara gott að lesa um þig annað slagið og vita af þér hérna ská fyrir aftan mig af og til. Vona að þetta fari að réna hjá þér.
Fylgist með að kisulingurinn fari sér ekki að voða þegar hún spókar sig um í nágreninu 😉
Baráttukveðjur úr Holtinu.
Gangi þér vel, hálftíma fyrir hálftíma og svo vonandi dag fyrir dag bráðum.