Frísklega myndin af litlu krúttunum mínum – og fínu geðdeildarprjónuðu vettlingunum – hefur ekkert með efni færslunnar að gera en ætti að gefa henni gleðilegri “andblæ” (þetta orð er notað sérstaklega fyrir litlusystur).
Ég er í vettvangsheimsókn heima. Kom um kvöldmatarleytið í gær og fer aftur á 32 A um kvöldmatarleytið á morgun; Þetta er tveggja sólarhringa æfing í að vera heima á virkum dögum. Gangi vettvangsheimsóknin þokkalega vel fæ ég að útskrifast á föstudaginn. (Gangi hún illa reikna ég með að dvelja áfram í kost og logi hjá ríkinu.)
Plúsmegin reiknast að mér tókst að fara í klippingu og litun í morgun. Nú lít ég ekki lengur út eins og sjórekið lík heldur eins og sjórekið lík með vellitað hár og vellitaðar augabrúnir. Það er þó altént munur og ég gæti merkt við skárri möguleika á Becks kvarðanum við spurningunni um hversu aðlaðandi eða óaðlaðandi þunglyndissjúklingi finnst hann vera. Skv. mælingu á mánudag er ég þriðjungi frískari en þegar ég kom inn fyrir þá tæpum sjö vikum. Það er ekki nógu gott, sýnir ekki marktæka svörun við lyfinu en við teljum samt bæði, ég og læknirinn, að einhver svörun sé komin fram. Auk þess sem ég benti honum á í gær að litun og klipping hlyti að gefa a.m.k. þrjú stig og augabrúnirnar myndu skora eitt stig.
Mínusmegin er að ég svaf bara fjóra tíma í nótt. Eftir hárgreiðslustofuheimsóknina leið mér verulega illa og rétt skreiddist heim, náði svo að leggja mig eftir hádegi og skánaði að mun. Kannski verð ég að sofa á tvískiptum vöktum hér heima?
Annars er ég alger aumingi, get ekkert gert nema prjónað en er meir en til í að vera alger aumingi hér á Vallholtinu ef mögulegt er, hef svo oft verið mikið veik heima. (Og eins og tengdamamma benti á þá hlýtur samvera við Jósefínu að toppa geðdeild!) Ég er líka kramaraumingi líkamlega því lyfið lækkar blóðþrýstinginn svo mikið – gúgglaði og fann þær upplýsingar að þetta væri fínn blóðþrýstingur væri ég eins árs gamalt barn – svo ég er eðlilega nokkuð slöpp. Þetta mun lagast þegar lyfið hefur skilað nægilega góðri verkun til að lækka megi skammtinn.
Í hársjæningunni fann ég Vikuna með viðtalinu um 33 C. Þótt ég muni kannski ekki margt úr því viðtali fór um mig; Vesalings viðmælandinn var greinilega fárveik (byggi þessa staðhæfingu bæði á ýmsum lýsingum í viðtalinu og hennar staðföstu trú á að lyfjaleysi gerði sig heilbrigða … gott ef hún var ekki einmitt að beina því til annarra geðsjúklinga að leiðin til bata væri fólgin í að hætta að taka lyf) og lýsingar hennar á deildinni voru afar ólíklegar og ótrúlegar. Ég efast ekkert um að hún hafi upplifað þetta svona á sínum tíma en upplifunum geðsjúkra ætti að taka með vissri varúð, mínum eigin meðtöldum. Einhvers staðar í þessu bloggi er t.d. að finna undirtekt á einhverjum orðum sama viðmælanda, sem ég sá í sjónvarpinu og fannst að gæti verið margt til í. Það byggði ég á upplifun minni af deildardvöl í fyrra sem ég sé nú að varð að rangsnúinni minningu.
Ég er á deildinni fyrir neðan og þar er maður alltaf með tengil (sjúkraliða eða karlkyns starfsmann – er ekki alveg viss um starfsheiti þeirra) og ákveðinn hjúkrunarfræðing. Þetta fólk kemur og spjallar við mann – eða spjallar ekki við mann ef sjúklingurinn vill það ekki. Svo má alltaf biðja um viðtal ef þarf. Á nóttunni eru sérstaklega almennilegir menn á vakt og næturhjúkrunarfræðingur. Hver læknir hefur nokkra sjúklinga og teymi, þ.e. læknir, hjúkrunarfræðingur og oft læknanemi, hefur viðtal við hvern sjúkling á hverjum morgni, spyr um líðan, hefur tékkað á rapportum þeirra sem voru á vakt daginn áður – bæði tengla og hjúkrunarfræðinga, ber undir sjúklinginn hugsanlegar lyfjabreytingar o.s.fr.. Mín reynsla er sú að viðtalstíminn sem maður fær fari eftir ástandi og geti verið allt upp í hálftími. Auk þess hefur læknirinn minn spjallað við mig í einkaviðtölum og það held ég að hinir læknarnir á deildinni geri líka. Þannig að staðhæfingar Láru Kristínar um 5 mín. afgreiðslu áhugalauss læknis, andstyggilegt og illa innrætt starfsfólk sem vilji bara hafa sjúklingana sem dópaðasta finnast mér algerlega út í hött. Eftir því sem ég best veit er róandi lyfjum stillt eins mikið í hóf og unnt er en auðvitað er fullt af sjúklingum sem bráðnauðsynlega þurfa slík lyf og jafnvel töluvert af þeim. Þetta er nú einu sinni sjúkrahús og á sjúkrahúsum eru almennt gefin lyf til að fólki líði skár. Sjálf er ég á afar lágum skammti af kvíðastillandi lyfi, sem er einmitt verið að trappa niður og taka út núna, en aftur á móti þurfti ég að fá sterkt geðlyf með sljóvgandi aukaverkun til að geta sofið meir en 4 tíma á nóttunni og þarf enn. Aðallyfið sem ég tek er geðlyf og enginn verður dópaður af því.
Á B-ganginum á minni deild er setið allan daginn yfir mjög veikum sjúklingum. Ég reikna með að þannig sé það líka á 33 C og mér finnst ekki hægt að kalla það annað en topp þjónustu að sérstök manneskja vaki yfir manni. Aftur á móti er ég sammála henni um mikinn niðurskurð sem bitnar á aðgangi fólks að geðdeildum og bráðainnlögn og veldur einnig mjög miklu álagi á starfsfólkið. En á 32 A er samt nákvæmlega sama staffið og í fyrra, þegar ég lagðist inn á sama árstíma, og það stendur sig ótrúlega vel þótt það þurfi stundum að vera nánast á hlaupum til anna öllu.
Í rauninni er ekkert annað hægt en að vorkenna vesalings stúlkunni sem opnuviðtal Vikunnar 21. nóv. var við. Á hinn bóginn er ekki annað hægt en hneykslast á blaði sem gerir sér veikt fólk að féþúfu með uppsláttarviðtali. Yfirlækni deildarinnar gafst ekki færi á að gera athugasemdir við viðtalið, “vegna tímaskorts” stóð í blaðinu. Þess vegna er stór hluti þess einfaldlega rógur í garð starfsmanna á 33 C. Væntanlega mun geðsvið Lans ekki standa í að kæra Vikuna fyrir rógburð og ærumeiðandi ummæli en það væri samt full ástæða til þess. (Gurrí, ef þú lest þetta: Í guðs bænum reynið að taka ykkur tak þarna á Vikunni og sýna a.m.k. lágmarks sómatilfinningu fyrir því hvað þið birtið í stað þess að hugsa bara um uppsláttinn!)
Fyrir nokkru birti Pressan bloggfærsluröð (pressupennans Unnar H. Jóhannsdóttur) um vist á geðdeild 2008. Það vill svo til að er sama deildin og ég hef nú fengið margra vikna reynslu af og hef reyndar oft áður legið þar inni. Þær færslur voru að stofni til verulega ósmekkleg umfjöllun um samsjúklinga höfundarins; þótt nöfnum væri breytt var einfalt mál að þekkja bæði sjúklinga og starfsfólk af lýsingunum. Unnur var greinilega í bullandi maníu þarna inni á sínum tíma og lýsir dvölinni í samræmi við það, eins og þar ríki einhvers konar karnevalsstemning alla daga og í rauninni virtist flest “sjúklega gaman” við þessa geðdeildarvist. Satt best að segja velti ég því aðeins fyrir mér í hvaða ástandi hún væri þegar hún skrifaði þessa pistla í nú í október – annars vegar hvernig hún réttlætti fyrir sjálfri sér umfjöllun um aðra sjúklinga á opinberum vefmiðli og hins vegar tók ég eftir hvað pistlarnir voru illa skrifaðir, þ.e. illa stílaðir og misjafnlega stílaðir. Pistlaröðin hófst t.d. með hástemmdu margtuggnu líkingamáli um svarta og hvíta hunda (já, Winston Churchill hefur margt á samviskunni og ekki hvað síst þessa margtuggnu klisju um svarta hundinn!) en breyttist svo í allt að því gróteska spémynd í lýsingum á 32 A. Þetta var soldið eins og höfundurinn hefði ætlað sér að skrifa hátíðlega tímamótagrein en síðan svissað í miðju kafi yfir í farsann. Væri kannski áhugavert fyrir áhangendur Kristevu að greina þessa pistla 😉
—
Nú er þessari þunglyndu bloggynju þrotinn máttur í bili og mál að linni svo langri færslu. Ætli sé ekki ráð að fara og halda sér í prjónana það sem eftir lifir kvölds, hlusta á tónlist og hafa jafnvel áhugasama hannyrðakisu liggjandi á eldhúsborðinu hjá sér, lygnandi aftur augunum af gleði yfir að reykingakonan er aftur komin heim og hlakkandi til að komast í hannyrðadótið um leið og prjónakonan bregður sér frá.
Vonandi útskrifast ég á föstudaginn!
Vettlingarnir fölna vitanlega í samanburði við hina íðilfögru Jósefínu, en fallegir eru þeir nú samt. Gangi þér vel á deildinni og vonandi kemstu heim sem fyrst.
Krúttin eru gegt falleg og krúttleg, mátt aldeilis vera stolt af þeim og vettlingunum ekki síður! Ég geri ráð fyrir því að Kristeva sem þú vísar í sé Júlía hin póstmóderníska en veit ekki alveg hvaða ályktun má draga af því um geðheilsuna – sjálf fæ ég undarlegan hroll og slær út um mig köldum svita um leið og ég heyri orðið póstmódernismi sem segir kannski bara eitthvað fróðlegt um minn eigin koll. Megi lyfin virka vel og svefninn aukast sem bæði líknar og læknar. Ánægjulegt að lesa um góða reynslu þína af starfsfólkinu á geðinu, þekki þar nebblega við einn og líka annan, ákaflega gott fólk bæði tvö og mikið í þau varið.
Takk, takk, stelpur. Julia Kristeva er lærð í freudískri sálgreiningu og starfaði sem sálgreinir áður en hún turnaðist yfir í bókmenntafræði, sem byggir vitaskuld á obskúrum freudískum kenningunum. Í fyrra las ég Svarta sól eftir Kristevu blessunina, sú bók fjallar um þunglyndi. Eftir lesturinn jókst enn meir andúð mín á Kristevu-kenningum þeim sem kvennabókmenntafræðingar eru svo hallir undir og ég mæli engan veginn með bókinni fyrir þá sem vilja vita eitthvað um þunglyndi. Eiginlega er þetta bara bók fyrir fólk sem langar að flækja hlutina og gera þá óskiljanlega eða hefur heillast af Freud (og Jung), einhverra hluta vegna. Kaldur sviti og hrollur við hugsunina um póstmódernisma er að mínu mati merki um afar gott geðheilbrigði 😉
Staffið á geðinu eru algerar perlur! Það vinnur erfiða vinnu við erfiðar aðstæður (undirmönnun vegna sparnaðar) en er ævinlega boðið og búið til að sinna sjúklingunum í “húsi þjáningarinnar” (s.s. fyrrum kunningi minni kallaði geðdeildina og mér finnst ansi lýsandi) eftir bestu getu og mætti. Auk þess eru margir starfsmenn snillingar í prjónaskap, sem hlýtur að teljast kostur þegar slík iðja er kannski hin eina sem sjúklingur getur stundað 🙂
sæl mín kæra vonandi er allt upp á við hjá þér núna í þinni baráttu knús á þig kv audur sem lá með þér á 32 A
Sæl Harpa og takk fyrir gagnrýni þín á pistlana mína á geðdeild.
Það er einmitt gott að við geðsjúklingarnir höfum mismunandi sýn á það hvernig við kjósum að deila reynslu okkar. Þú hefur ekki hugmynd um hversu miklu ég breytti aðstæðum og aldri í pistlunum, þannig að ég er nokkuð viss um að notendurnir sjá sig ekki í þeim. Ég skrifaði þessa pistla á geðdeildinni 2008 og ég fékk mjög góða dóma um þá þegar ég birti þá 2010 og af starfsfólkinu sem las þá þegar ég lagðist inn 2011. Mig langaði að segja frá annari hlið en bara harmleiknum, en einmitt á þessum tíma sem ég var inni var andrúmsloftið, þrátt fyrir allt dálítið glaðsinna, og notendurnir náðu vel saman. Það er ekki rétt hjá þér að ég hafi verið í bullandi maníu, þar ert þú að álykta. En ég met gagnrýni þína og þakka fyrir hana. Hún minnir mig á að við erum ekki öll eins, hugsum ekki öll eins og höfum mismunandi sjónarhorn um hvernig ræða eigi geðraskanir. Ég hef 22 ára reynslu af geðröskun og húmorinn er ein af mínum leiðum, jafnvel þótt hann sé illa stíliseraður.
Bestu kveðjur og takk fyrir að lesa pistlana. Mér finnst bloggið þitt oft fróðlegt.
Unnur