Jæja, þá er fyrsta vikan heima, á einkageðdeildinni í Vallholtinu, liðin. Minnir að þetta hafi nú ekki verið svo slæmt nema dag og dag. Og ég tel mig tvímælalaust merkja bata … sennilega er helvítis Marplanið loksins farið að virka!
Enn er ég ólæs og nokkurn veginn óráðandi öllum bjargráðum – eða þannig. Í gær hlustaði ég samviskusamlega á grilljón fréttatíma í útvarpinu og náði því að eitthvað er að gerast í Æseif en það er nokkurn veginn það eina sem ég man. Testaði áðan hreyfiminnið og spilaði á mitt pjanóforte, í annað sinn frá því ég kom heim; minnið í fingrunum er betra en vinnsluminnið í heilanum en það háir mér náttúrlega að vera svakalega skjálfhent. Hlýtur þó að teljast til tekna að kötturinn fór ekki út á meðan (eins og venjulega, þetta er tónelskur köttur sem höndlar illa feilnótur).
Aðalvandamálið er svefnleysið. Ég hef sofið eina nótt síðan ég kom heim, það var í fyrrinótt. Annars sef ég um fjóra tíma og hrekk þá upp og er ómögulegt að sofna aftur. Las í dag hjá þeirri góðu dönsku lyfjastofnun að svefnleysi er algeng aukaverkun af Marplan. Svoleiðis að ég hef ákveðið að sætta mig bara við þetta enda get ég ósköp vel lagt mig í svona tvo tíma yfir daginn því öll verk og verkefni eru á “hold”. Í tilefni þessarar niðurstöðu ætla ég að hætta að taka lyf hvers aukaverkun átti að fá mig til að sofa; sé ekki að það sé neitt að virka og því ástæðulaust að gadda því í sig. Í rauninni hefur eina verkunin verið sú að í stað þess að vakna upp á nóttunni með fúlle femm vakna ég og fer á fætur pínulítið hífuð og sljó af þessu lyfi: Háir mér við prjónaskap auk þess sem mér finnst sérlega óþægilegt að finnast ég hífuð.
Það er sosum ekkert alslæmt að fara á fætur um þrjú-fjögurleytið á nóttunni; gefst góður friður til að lesa blaðið mannsins og kíkja í tölvuna og prjónast líka glettilega hratt og vel upp úr óttu. Öllu verra er að mig svimar, hef nettan hausverk og er skjálfhent af svefnleysi allan daginn.
Hér er velrekin einkageðdeild: Ég haga mér eins og sjúklingur og stilli mig nær algerlega um húsverk eða önnur verk. Man eftir að taka lyfin kl. 9, 12, 16 og 22 og hef meira að segja fjárfest í lyfjaskipulagsboxi til þeirra hluta. Unglingurinn vakir á nóttunni og sefur á daginn svo ég fæ yfirleitt smá félagsskap þegar ég fer á fætur á nóttunni. Kötturinn sér um félagsskap yfir daginn. Mér finnst þetta fínt.
Ekki er að spyrja að góðum áhrifum Jósefínu (og kannski líka tvífætlinganna). Gangi þér vel að vera heima!