31. des. 2011: Ég hef ofið siðblindufærslurnar og ætti að vera þægilegra að skoða efnið á vef heldur en í þessu bloggumhverfi. Slóðin er:
Þófamjúk rándýr sem læðast: Siðblinda, III hluti
(Finna má aðrar færslur um siðblindu í efnisflokknum Siðblinda, sjá Flokka hér til hægri.)
Ath. að margt sem kemur fram í þessari færslu á almennt við um börn sem eru vanrækt eða beitt ofbeldi. Sumt á sérstaklega við börn foreldra með andfélagslega persónuleikaröskun, sem er miklu víðtækara hugtak en siðblinda. (Krækt er í grein Gylfa Ásmundssonar um persónuleikaraskanir, sem birtist í Geðvernd 1999, 28(1), s. 28-33). Í færslunni hér á eftir er tekið fram þegar sérstaklega er fjallað um siðblinda foreldra og börn þeirra.
Börn sem eru vanrækt eða beitt ofbeldi
Þegar misbrestur verður á umönnun og uppeldi barns flokkast það ýmist undir ofbeldi eða vanrækslu. Mun algengara er að börn séu vanrækt en að þau séu beitt ofbeldi. Þegar ofbeldi er beitt gerir foreldrið barninu eitthvað til skaða. Þegar börn eru vanrækt getur skortur á viðeigandi umönnun valdið skaðanum.
Vanræksla getur verið með ýmsu móti, almenn, líkamleg, sálræn eða andleg og ekki síst tilfinningaleg.
Ofbeldi getur líka verið margháttað, svo sem andlegt , líkamlegt eða kynferðislegt.1
Það er öllum ljóst hvað felst í líkamlegu ofbeldi. Kynferðisleg misnotkun á börnum er, skv. umboðsmanni barna: „… það þegar börn eru fengin til að taka þátt í kynferðislegu athæfi eða leik, með einhverjum sem hefur meiri völd eða er hærra settur en þau.“ 2 Andlegt ofbeldi kemur oft fram í neikvæðum viðhorfum, t.d. að sett er út á útlit eða skap barnsins, barnið uppnefnt og kallað fífl, hálfviti o.þ.h.; neikvæðum tilfinningum og óraunhæfum kröfum foreldra til barns; barnið er ekki metið sem sjálfstæður einstaklingur heldur haft til að sinna þörfum foreldris; barnið verður vitni að heimilisofbeldi; barnið er hrætt með hótunum, öskrum eða blótsyrðum; barninu er hafnað, þ.e. neitað um hjálp eða ekki tekið mark á því og að barnið sé einangrað frá félagsskap annarra barna. Sumir fræðimenn telja að andlegt ofbeldi rífi börn niður meir en líkamlegt ofbeldi.3
Börn og unglingar sem búa við heimilisofbeldi þjást af stöðugum kvíða, ótta, reiði, stjórnleysi, vanmætti og ringulreið. „Þau læra takmarkað um hvað einkennir venjulegt heimilislíf, því á heimilinu búa þau e.t.v. með föður sem er nokkuð sjálfmiðaður og illa sveigjanlegur og leysir gjarna ágreining með valdbeitingu. Á móti getur síðan móðirin verið svo yfirþyrmd af ofbeldinu, og því að „lifa af“ að hjá henni er lítið öryggi eða skjól að finna. Tilfinningalega má því segja að mörg þessara barna og unglinga séu heimilislaus.“4
Afleiðingum ofbeldis og vanrækslu barna hefur verið skipt í tvo meginflokka og kölluð úthverf vandamál og innhverf vandamál. Úthverf eru hegðunarvandamál af ýmsum toga en innhverf vandamál eru t.d. þunglyndi og kvíði. „Algengara er að úthverf vandamál komi fram hjá drengjum en innhverf hjá stúlkum. Jafnframt er algengara að drengir fái aðstoð en stúlkur, þar sem vandamál þeirra eru sýnilegri en vandamál stúlkna.“
„Langtímaáhrif ofbeldis og vanrækslu geta komið fram á ýmsan máta, til dæmis í langvarandi þunglyndi eða kvíða, áfengis- og fíkniefnaneyslu og persónuleikatruflunum. Auk þess eru kynlífsvandamál afar algeng á fullorðinsárum hjá börnum sem hafa verið áreitt kynferðislega eða verið beitt kynferðislegu ofbeldi. Jafnframt er fólk sem hefur orðið fyrir ofbeldi eða vanrækslu í barnæsku, líklegra til að vanrækja eða beita börn sín ofbeldi en aðrir foreldrar.“ 5 Það virðist skipta máli hvenær á ævinni barn er beitt mestu ofbeldi. Niðurstöður nokkurra rannsókna benda til þess að þrálátur misbrestur í uppeldi hafi sterkari og ótvíræðari áhrif á unglinga en tímabundinn misbrestur í uppeldi yngri barna.6
Aths. Það er dálítið merkilegt að í þeim örfáu íslensku rannsóknum sem gerðar hafa verið á málum sem borist hafa inn á borð barnaverndar eða rannsóknum á sálrænum kvillum barna er hvergi minnst á siðblindu sem mögulegan orsakaþátt. Eins og kom fram í fyrri færslu þá greinist fjórðungur þeirra sem berja konurnar sínar siðblindur, skv. erlendum rannsóknum. Má þá ekki ætla að ofbeldi gegn börnum hér á landi megi að talsverðu leyti skrifa á reikning siðblindu foreldris? Kannski er þetta hirðuleysi um siðblindu aðeins angi af almennu áhugaleysi um siðblindu hér á landi – að undanskildum áhuga á siðblindum forstjórum viðskiptafyrirtækja.
Börn sem alast upp hjá siðblindu foreldri
Það er alltaf erfitt að alast upp hjá siðblindri móður eða siðblindum föður. Yfirleitt er um að ræða einstæðar siðblindar mæður eða siðblindan föður sem drottnar yfir fjölskyldunni; en báðir foreldrar eru ekki siðblindir, því siðblindum kemur illa saman. Það síðasta sem sjálfselsk, krefjandi og kaldlynd manneskja óskar sér er önnur af sama tagi.7 (Ég sé nú reyndar ekkert því til fyrirstöðu að um geti verið að ræða einstæðan siðblindan föður eða siðblinda móður í hjónabandi – minni þó á þá staðreynd að miklu fleiri karlar greinast siðblindir en konur.)
Helstu einkenni slíks uppeldis og afleiðingar þess eru:
*Börn eru vanrækt
Robert D. Hare segir að skeytingarleysi um velferð barna gangi sem rauður þráður í gegnum rannsóknarskýrslur hans um siðblindu. Siðblindir líta á börn sem óþægindi eða fyrirhöfn. Hann nefnir tvö dæmi um þetta.
Diane Downs [Sú kona skaut 3 börn sín til að losna við þau af því hún vildi ganga í augun á manni sem ekki kærði sig um börn. Eitt barnanna lést af skotsárunum en hin tvö lifðu af.] skildi ung börn sín oft alein eftir heima þegar engin barnapía fékkst. Nágrannarnir sögðu að börnin, frá 15 mánaða til sex ára, hefðu verið svöng, tilfinningalega svelt og almennt afrækt (þau sáust oft úti að leika sér á veturna án þess að vera í skóm eða yfirhöfnum). Downs lýsti því yfir að hún elskaði börnin sín en kaldlynt hirðuleysi um líkamlega og andlega velferð þeirra bendir til annars.
Hitt dæmið er ónefnd siðblind kona í einni af rannsóknum Hare. Hún og maðurinn hennar skildu eins mánaðar gamalt barn sitt eftir hjá drykkfelldum vini. Vinurinn datt í það og dó áfengisdauða. Þegar hann raknaði úr rotinu var hann búinn að gleyma að hann væri að passa og fór. Foreldrarnir snéru aftur heim átta tímum síðar og þá höfðu yfirvöld sótt barnið í sína vörslu. Móðirin varð æf og ásakaði yfirvöld um að svipta barnið ást og væntumþykju – og hélt þeirri skoðun til streitu jafnvel eftir að henni var sagt að barnið væri alvarlega vannært.8
*Börn verða óörugg og ráðvillt
Siðblindur skiptir sífellt skapi og ekki er hægt að spá fyrir um orð hans og gerðir. Það skapar ótryggt og taugatrekkjandi andrúmsloft á heimilinu. Það sem barnið má gera einn daginn er kannski bannað daginn eftir. Annað veifið er dóttirin litla prinsessan hennar mömmu, sem fær flottar gjafir og hrós, en svo sætir hún skyndilega rætnum árásum af því hún segir að gerir eitthvað sem siðblindri móðurinni líkar ekki. Svoleiðis ófyrirsjáanleg og óútreiknanleg hegðun foreldris veldur því að barnið veit ekki sitt rjúkandi ráð. Stöðugar árásir brjóta niður sjálfsöryggið. Barnið lærir að tilfinningar þess skipta engu máli: „Þrátt fyrir að mamma fari illa með mig á mér samt sem áður að þykja vænt um hana.“ Barn sem hefur upplifað líkamlegt og andleg ofbeldi í bernsku og lært að tilfinningar þess eru einskis virði mun glíma við lélega sjálfsmynd það sem eftir er ævinnar. Stúlku sem hefur orðið að sætta sig við auðmýkingu, svik og ofbeldi í uppvextinum er hætt við að sækja í sams konar fórnarlambshlutverk þegar hún verður fullorðin. (Forward 1988) 9
*Börn taka á sig alla sök
Það er ekki óalgengt að börn verði skotspónn fyrir reiði mömmu eða pabba og að vonbrigði þeirra bitni á börnunum. Barn er alveg til í að taka að sér hlutverk svarta sauðsins vegna þess að það er háð foreldrunum Barnið er viðkvæmt af því mest af öllu þráir það væntumþykju eða viðurkenningu foreldranna og vill allt til vinna svo foreldið sé ánægt með það. Það skilur ekki að til einskis er streðað, að það er eitthvað bogið við mömmu eða pabba en ekki barnið sjálft.
*Börn fyllast innibyrgðri reiði og sýna árásarhneigð
Strákar úr ofbeldisfullum fjölskyldum geta sýnt sömu hegðun og þeir ólust upp við. Hjá stelpum sést þessi reiði oftar sem kvíði, þunglyndi eða sjálfsfyrirlitning .10
*Skv. rannsóknum hafa ekki greinst sérstök tengsl milli siðblindu og kynferðislegrar misnotkunar. Siðblindir eru ekki líklegri en aðrir glæpamenn til að beita börn eða fullorðna kynferðislegu ofbeldi. Þótt sumir sem skrifa um siðblindu vilji hafa sifjaspell og kynferðislega misnotkun barna með í umfjölluninni er því sleppt hér. 11
Langtímaáhrif þess að alast upp hjá siðblindu foreldri
Í viðamikilli bandarískri tvíburarannsókn var skoðuð geðheilsa barna og unglinga sem áttu foreldri /foreldra með andfélagslegar persónuleikaraskanir (minnt skal á að andfélagsleg persónuleikaröskun er yfirheiti yfir margs konar raskanir og siðblinda er einungis ein af mörgum sem fellur þar undir). Meginniðurstaðan var að andfélagsleg persónuleikaröskun foreldra eykur horfurnar á fjölda ytri og innri raskana hjá börnum og unglingum, allt til fullorðinsára í sumum tilvikum. Ætla má að hluti hinna andfélagslegu foreldra hafi verið siðblindur og niðurstöðurnar eigi því einnig við áhrif siðblindra á börn sín. Ytri (úthverfar) raskanir eru t.d. athyglisbrestur með ofvirkni (ADHD), hegðunaröskun (CD – notað um einkenni andfélagslegrar persónuleikaröskunar hjá börnum) og andstöðu- / mótþróaþrjóskuröskun. Innri (innhverfar) raskanir eru t.d. alvarlegt þunglyndi og kvíði af ýmsu tagi. Það er áhugavert að ekki er aðeins um aukna hættu á andfélagslegri hegðun hjá börnum slíkra foreldra að ræða heldur einnig öðrum geðveilum. Svoleiðis að foreldri með andfélagslega persónleikaröskun hefur víðtæk áhrif á geðheilsu barna sinna, í sumum tilvikum til langframa.
Af einstökum geðveilum má nefna að líkurnar á athyglisbresti með ofvirkni eða alvarlegu þunglyndi voru meiri hjá í 17 ára aldurshópnum en 11 ára ef faðirinn hafði andfélagslega persónuleikaröskun. Líkur á athyglisbresti með ofvirkni hjá 11 ára aldurshópnum voru meiri en hjá 17 ára ef móðirin hafði andfélagslega persónuleikaröskun. Sambærilegar auknum líkum vegna móður á ADHD í 11 ára aldurshópi voru auknar líkur á áfengisvandamálum (ofdrykkju eða alkóhólisma) í 17 ára aldurshópnum vegna áhrifa föður. Þetta bendir til þess að áhrif foreldra sem haldnir eru andfélagslegri persónuleikaröskun séu misjöfn eftir aldursskeiði. Áhrif móður eru e.t.v. sterkari þegar barnið er yngra og móðirin líklegri til að sjá aðallega um umönnun þess. Áhrif andfélagslegs föður eru meir áberandi á unglinga.12
Við skilnað og í forræðisdeildum ætti að hafa í huga
Titillinn krækir í þýðingu mína á fyrirlestri /grein Irene Rønn Lind, frá 2008. Hún er starfandi sálfræðingur í Danmörku og höfundur bókarinnar Forklædt. Psykopater og deres ofre, sem kom út 2007. Fyrirlestur hennar, „Den pæne psykopat“, birtist á vefsetri samtakanna Barnets Tarv Nu, sem eru dönsk samtök þeirra sem breyta vilja barnalögum, þ.e.a.s. lögum um foreldrarétt og forræðismál. Fyrirlesturinn er þýddur og birtur með leyfi Irene Rønn Lind. Ég ákvað að þýða „den pæne psykopat“ sem „snotur siðblindur“ þótt til greina komi líka „huggulegur siðblindur“.
Er siðblinda arfgeng?
Á Íslandi virðist hafa verið sterk tilhneiging til þess að kenna umhverfisþáttum um marga geðsjúkdóma og geðraskanir, a.m.k. síðasta áratuginn. Þetta kemur vel fram í þeim íslensku greinum og ritgerðum sem ég vísa í í þessari færslu. Kannski kristallast þetta viðhorf í svari Gylfa heitins Ásmundssonar, sálfræðings, við spurningunni „Eru geðsjúkdómar ættgengir?“ þar sem hann segir: „Í hinum vægari geðsjúkdómum, hugsýki (neurosis) og persónuleikaröskun (personality disorder), eru erfðir greinilega mun veigaminni þáttur og umhverfisáhrif skipta þar meira máli. Skapferli og persónuleiki ganga vissulega í arf að vissu marki, en uppeldi og aðstæður allar móta þessa þætti í fari mannsins og ráða oftast meiru um aðlögun hans og hvort sú aðlögun verður farsæl eða sjúkleg.“ 13
Í því því efni af nýrra taginu sem fjallar um siðblindu og ég hef kynnt mér eru allir á því að hún sé arfgeng. Menn eru hins vegar ekki sammála um í hve miklum mæli siðblinda ráðist af erfðum og hve stór umhverfisþátturinn er. Í bandarískri / kanadískri grein er sagt frá fimm rannsóknir sem allar sýna fram á að siðblinduþættir erfist. Þar voru notaðar mismunandi aðferðir til að meta siðblindu en engin þeirra nýtti þó PCL-R gátlista og mælikvarða Roberts D. Hare.14
Í sænskri doktorsritgerð frá 2009 gerir Mats Forsman grein fyrir rannsóknum sínum á arfgengi siðblindu. Hann byggði á langtímatímarannsókn á 1480 tvíburum, fæddum í Svíþjóð á árunum 1985-86. Í upphafi ritgerðarinnar segir hann: „Fyrri rannsóknir hafa gefið til kynna að u.þ.b. 40-70% af persónuleikaeinkennum siðblindu sé vegna erfða. Tvíburarannsóknir hafa þess vegna verið sérstaklega mikilvægar.“ (s. 3) 15. Annar Svíi, Henrik Larsson, rannsakaði sömu gögn og Forsman og birti þær niðurstöður 2006 að erfðir réðu 63% af sumum kjarnaeinkennum siðblindu (kaldlyndi og yfirborðskenndu tilfinningalífi) og þáttum í andfélagslegri hegðun (óábyrgri hegðun og hvatvísi) en ekki yfirborðsmennsku og drottnunargirni. Tilviljanakenndir umhverfisþættir réðu hinum 37% (sjá s. 4 í ritgerð Forsman). Forsman útlistar svo fjórar rannsóknir sem hann gerði sjálfur og kemst að svipaðri niðurstöðu og Larsson (sjá s. 17) þótt með öðrum aðferðum sé.16
Margir telja að hægt sé að draga úr einkennum siðblindu sé gripið nógu snemma í taumana, á unglingsaldri, jafnvel barnsaldri. Um þetta verður ekki fjallað hér heldur verður minnst á þessar kenningar í færslu um hvort eða hvernig hægt sé að lækna / bæta siðblindu. (Sú færsla bíður um sinn.) Það er því nokkuð augljóst að mikilvægt er að greina siðblindueinkenni sem fyrst í börnum og unglingum svo beita megi þau einhvers konar meðferð til að draga úr siðblindunni.
1 Freydís Jóna Freysteinsdóttir. 2002. „Hefur slæmt uppeldi (foreldrar hóta þér sífellt einhverju illu) áhrif á framtíð þína?“ Vísindavefurinn 6.3.2002. Skoðað 20.1.2011. 2 Umboðsmaður barna. „Kynferðisofbeldi“ á barn.is. Skoðað 20.1. 2011.
3 Guðbjörg María Árnadóttir. 2010. Áhrif fjölskyldugerðar á lífsgæði og öryggi barna, s. 15-16. (BA-ritgerð í félagsráðgjöf.) Skoðað 20.1.2011.
4 Vilborg G. Guðnadóttir, fyrrum framkvæmdarstjóri Kvennaathvarfs. 2001. „Ofbeldi gegn börnum og unglingum“ skoðað á doktor.is 20.1. 2011.
5 Freydís Jóna Freysteinsdóttir.2002 „Hefur slæmt uppeldi (foreldrar hóta þér sífellt einhverju illu) áhrif á framtíð þína?“. Vísindavefurinn 6.3.2002. Skoðað 20.1.2011.
6 Sjá Halldór Sig. Guðmundsson. 2006. Hegðun, líðan og félagslegar aðstæður 11-18 ára barna innan barnaverndar á Íslandi. Sjónarhorn barna, foreldra, kennara og starfsmanna barnaverndar, s. 37. (Meistaraprófsritgerð í félagsráðgjöf.) Skoðað 20.1. 2011.
7 Tranberg, Peter. Psykopati – en forståelse af forstyrrelsens natur, óársett en líklega frá 2002, s. 28. (Cand.pæd.psych-ritgerð). Skoðað 15.1. 2011.
8 Hare, Robert D. 1999. Without Concience. The Disturbing World of Psychopaths Among Us, s. 62-63. The Guilford Press, New York. (Fyrst gefin út 1993.)
9 Dahl, Alv A. og Aud Dalsegg. 2000. Sjarmør og tyrann. Et innsyn i psykopatenes og ofrenes verden, s. 189- 190. H. Aschehoug & Co (W. Nygaard), Oslo. (Þetta er aukin og endurbætt útgáfa frá 1997.) Tilvitnun þeirra er í Susan Forward, sem skrifaði bókina Man who hate women and women who love them (fyrst útg. 1986, gefin úr í norskri þýðingu 1988, Menn som hater kvinner og kvinnene som elsker dem).
10 Dahl, Alv A. og Aud Dalsegg. 2000. Sjarmør og tyrann. Et innsyn i psykopatenes og ofrenes verden, s. 189- 190.
11 Olver, Mark E. og Stephen C. P. Wong. 2006. Psychopathy, Sexual Deviance, and Recidivism Among Sex Offenders í Sexual Abuse: A Journal of Research and Treatment, 18 tbl. 1. hefti 2006, s. 65-82. Gefið út af Association for the Treatment of Sexual Abusers (ATSA). Útgáfa á vefnum skoðuð 20.1. 2011. Í inngangsköflum er fjallað ítarlega um fyrri rannsóknir á efninu.
12 Herndon, Ryan W. og William G. Iacono. 2005. „Psychiatric disorder in the children of antisocial parents“ í Psychological Medicine, 2005, 35, s. 1815-1824. Cambridge University Press. Útgáfa á vefnum skoðuð 20.1. 2011.
Herndon og Iacono rannsökuðu 11 ára tvíbura (958 stráka, 1042 stelpur), 17 ára tvíbura (1332 pilta, 1434 stúlkur) og kynforeldra þeirra í persónulegum viðtölum. Viðföngin voru fengin úr langtíma tvíburarannsókn á fjölskyldum í Minnesóta. Þeir athuguðu tengsl andfélagslegra foreldra og geðrænna kvilla í börnum þeirra. Kvillarnir sem þeir skoðuðu voru: Athyglisbrestur með ofvirkni (AHDH); hegðunarröskun; andstöðu-/mótstöðuþrjóskuröskun; alvarlegt þunglyndi; almenn kvíðaröskun; ofkvíðaröskun /semdarröskun; aðskilnaðarkvíði; nikótínfíkn; áfengisfíkn og áfengismisnotkun og misnotkun annarra vímuefna. Þeir skoðuð áhrif móður sérstaklega og áhrif föður sérstaklega, sem og hver þessi áhrif voru á hvorn aldurshóp fyrir sig. Niðurstöður þeirra eru að andfélagslegt foreldri hefur víðtæk áhrif á geðheilsu barns /barna og þeir birta töflur yfir slíkt í hvorum aldurshópi. Meginniðurstöður þeirra voru raktar í þessari færslu. Þeir Herndon og Iacono rekja niðurstöður annarra rannsókna á sama efni en geta þess að þær rannsóknir hafi verið takmarkaðar því einungis hafi verið rannsökuð börn sem heilbrigðiskerfið hafði afskipti af og foreldar þeirra.
13 Gylfi Ásmundsson. 2002. „Eru geðsjúkdómar ættgengir?“ Vísindavefurinn 12.3.2002. Skoðað 19.1.2011.
14 Lalumiére, Martin L., Sandeep Misrha og Grant T. Harris. 2008. „In Cold Blood. The Evolution of Psychopathy“ í Evolutionary forensic psychology: Darwinian foundations of crime and law, s. 187-189. Ristjórar J. Duntley og T. K. Shackelford. Oxford University Press, New York. Kaflinn er aðgengilegur á Vefnum og var skoðaður 20.1. 2011.
Það er kannski tímanna tákn að einn höfundanna, Grant T. Harris, komst að þveröfugri niðurstöðu árið 1998, þ.e.a.s. að umhverfisþættir vægju mjög þungt í þróun siðblindu. Sjá Grant, T. Harris. 1998. „Psychopathy Might Be An Adaption, Not A Disorder“ í í fréttabréfi The Mental Health Centre Penetanguishene (geðsjúkrahúss í Ontario, Kanada). Skoðað 20.1. 2010.
15 Sjá má yfirlit yfir 13 tvíburarannsóknir á arfgengi siðblindu í Viding, Essi og Henrik Larsson. 2010. „Genetics of Child and Adolescence Psychopathy“, í Handbook of Child and Adolescent Psychopathy, s. 117- 119 (ritstjórar Randall T. Salekin, Donald R. Lynam). Guilford Press. Aðgengilegt á books.google.com og skoðað 20.1. 2011.
16 Forsman, Mats. 2009. Psychopatich Personality in Adolescence – Genetic and Environmental Influences (doktorsritgerð). The Department of Medical Epidemiology and Biostatistics, Karolinska Institutet, Stockholm, Svíþjóð. Ritgerðina má nálgast á vefnum og hún var skoðuð 20.1. 2011.
Forsman byggir á langtímrannsókn á sænskum tvíburum en í henni var gögnum safnað þegar tvíburarnir voru orðnir 8-9 ára, 13-14 ára, 16-17 ára og 19-20 ára. Börn og foreldrar svöruðu spurningalistum sem sendir voru í pósti þegar krakkarnir voru á þessum aldri. Hann gerði fjórar mismunandi rannsóknir á gögnunum sem fyrir lágu.
Hann og flestir af nýrri rannsakendum hafa þáttað saman einstök atriði af gátlista Hare. Þættirnir eru: Yfirborðskenndur persónuleiki / drottunargirni (innifalið í þeim þætti eru stórmennskuhugmyndir um eigið ágæti. lygalaupur, falskur og slóttugur; hér eru fyrstu 4 kjarnaeinkenni siðblindu í PCL-R tekin saman); Kaldlyndi / yfirborðskennt tilfinningalíf (ásamt skorti á sektarkennd og samhygð, þ.e. einkenni 5, 6 og 7 tekin saman) og af listanum yfir hegðun: Hvatvísi og ábyrgðarleysi ásamt spennufíkn (þ.e. einkenni 1, 7 og 8 af gátlista Hare).
Forsman kemst að þeirri niðurstöðu erfðir ráði mestu um kjarnaeinkennin kaldlyndi og yfirborðskennt tilfinningalíf og umhverfi skipti þar engu máli. Einnig réðu erfðir óábyrgri hegðun og hvatvísi. En þetta átti ekki við um yfirborðskenndan persónuleika og drottnunargirni. Erfðafræðileg tengsl eru svo milli kjarnaeinkenna siðblindu og ytri raskana / atferlisraskana. Umhverfisáhrif skýrðu aftur á móti að hluta tengsl milli ytri raskana og andfélagslegrar hegðunar. Siðblindur persónuleiki á unglingsárum spáði fyrir um andfélagslega hegðun á fullorðinsárum, vegna erfða, en andfélagsleg hegðun á unglingsárum spáði ekki fyrir um siðblindan persónuleika.
Hann vísar m.a. í Larsson, Henrik, H. Andershed og P. Lichtenstein. 2006. „A genetic factor explains most of the variation in the psychopathic personality“ í Journal of Abnormal Psychology 2006, 115, s. 221-30 og kemst að sömu niðurstöðu og þeir.
Ég hef aldrei gengið í gegnum neitt eins erfitt og að skilja við siðblindan mann, það þurfti tvær tilraunir til að losna alveg, þá var ég gjörsamlega búin og komin með áfallaröskum sem ég er enn að díla við.
Það var ekki fyr en eftir á að ég fattaði að hann er siðblindur, þetta er sú versta martröð sem nokkur manneskja lendir í (kemur sér í) það er verst að það skuli ekki vera hægt að merkja þá með varúðarmerki á áberandi stað 🙂 kv.gua
Ég trúi þessu vel, miðað við allt sem ég er búin að lesa um þetta. Er fegin að þú slappst en ég skil vel að þú sért enn að díla við áfallastreituna, það tekur eflaust mjög mjög langan tíma. Ein greinin (eða bókin?) sem Meloy skrifaði heitir “Merki Kains” eða eitthvað svoleiðis. Væri til bóta ef þessir siðblindu skörtuðu fæðingarbletti á miðju enni eða þannig 😉