Úðrun og framtaksleysi

Ég fann svar frá mínum góða lækni í ruslamöppunni póstforritsins – var búin að gleyma því að póstur frá Landspítalanum er ævinlega flokkaður sem rusl og lendir innan um Viagraauglýsingar, tilboð um háskólagráður o.m.fl. En þar með hef ég leyfi til að æfa jafnvægislist í lyfjatöku og reyna að finna hinn gullna meðalveg milli þess að vera ekki með áberandi þunglyndiseinkenni og þess að geta sofið á nóttunni. Spennandi! (NOT!)

Í meir en viku hef ég ekki haft mig í neitt hollt og gott, s.s. göngutúra og prjón. Er ekki nema rétt byrjuð á háleistunum (ekki hvítu), sem m.a. stafar af því að ég missti algerlega áhuga á að horfa á sjónvarp – var þó aðeins farin að bera slíkt við. Sömuleiðis hurfu lestrarhæfileikarnir og ég lenti á Andrésblaðastiginu aftur. Nenni ekki að lista upp dæmigerð þunglyndiseinkenni einu sinni enn.

Sé efnið nógu afmarkað og snefill af áhuga fyrir hendi get ég ríslað mér við það – glöggir lesendur sjá að aðallega er ég að gúggla og glósa um siðblindu. Samt ætti ég, miðað við heimsóknir og leitarorð á blogginu, að skrifa meira um prjónasögu en treysti mér ekki í það. Áhugi á prjónlesi er nefnilega meiri en áhugi á siðblindu. Skrítið!

Í siðblindu-heimilda-skönnun hef ég rekið mig á það hve greinar félagsvísindamanna eru áberandi illa stílaðar; þeim virðist fyrirmunað að orða hugsun sína í skýru og ljósu máli. Sálfræðingar, geðlæknar og líffræðingar eru skárri. Þó má telja það sjálfum Hare til lasts hvað hann ofnotar helv. þrítekningarnar (huggulegt stílbragð en einungis í hófi): Hann reynir alltaf að segja sama hlutinn á þrjá mismunandi vegu. Kannski hefur hann lesið Brennu-Njáls sögu og er undir áhrifum af Njáli, sem þurfti að láta þrísegja sér mikilvægar fréttir? Hvað félagsvísindatorfið varðar hef ég fyrir löngu tekið eftir þessu í íslenskum greinum og bókum en hélt að útlendingar væru skárri. Nú sé ég að landinn hefur lært af amríkönum. Svo eru fræðilegar greinar útsparslaðar í fræðiorðum sem ég hef ekki hugmynd um hvað kallast á íslensku og kostar oft mikla leit að grafa það upp. (Get þó flett upp grískum stofnum í manninum og komist þannig að því hvað orðin þýða bókstaflega en þrautin er þyngri að finna rétta íðorðið á íslensku.)  Gamli málfarsbankinn sem geymir íðorðaskrár er ansi tómur.  Meira en hálf vinnan við siðblindufærslurnar er því fólgin í því að koma efninu á skikkanlega íslensku. Vonandi hefur það tekist þótt mig gruni að sauðslegir unglingar myndu ekki skilja færslurnar 😉  Gat ekki stillt mig um að koma þessu að …

FordómarÍ leiðinni rekst ég á ýmislegt áhugavert sem snertir önnur efni. Má nefna að ég sá vísað í empíriskar rannsóknir sem sýna að sú staðreynd að þunglyndi er mjög oft argengt eykur fordóma almennings en minnkar þá ekki, eins og maður gæti haldið. Gáfulegar umræður við manninn leiddu í ljós að líklega hefur fólk síður fordóma gegn einhverju sem það telur að geti ekki komið fyrir sig, t.d. að einhver verði þunglyndur í kjölfar áfalls, slyss eða álíka, en fordómar fólks aukist þegar því verður ljóst að það fær kannski engu ráðið um geðræna sjúkdóma á borð við þunglyndi. Fólk telur jú alltaf að slys og áföll hendi aðra en sig. Mér þótti þetta með að upplýsingar um genetískar orsakir þunglyndis auki fordóma afar athyglisvert.

Sjálfri hefur mér þótt viss huggun í því fólgin að ég valdi ekki þennan sjúkdóm, ég gat á engan hátt komið í veg fyrir hann og ég valdi auðvitað engan veginn að verða öryrki af völdum hans. En nú velti ég því fyrir mér hvort opinberar yfirlýsingar um þetta hafi kannski aukið fordóma fólks útí bæ? Ekki svo að skilja að ég verði nokkru sinni vör við slíka fordóma, búandi í tiltölulega litlu plássi þar sem alls konar fólk spyr elskulega um líðan mína eða þakkar mér fyrir að tala opinskátt um þunglyndið. Kannski voru empírísku rannsóknirnar gerðar í stórborgum?  (Ég efast reyndar ekki augnablik um botnlausa fordóma Íslendinga í garð geðsjúkra, eftir að hafa séð niðurstöður einhverrar könnunar á því hvernig nágranna fólk vill ekki eiga. Minnir að fólk með geðræna sjúkdóma hafi skorað hæst á þessum ekki-lista. Reyni að hugga mig við að margir eru sauðslegir að upplagi.)

Í lok þessa snakkbloggs vil ég koma því að ég hef aukið við siðblindufærslurnar: Í fyrstu færslu eru nú komnar krækjur í tvær heimildamyndir (breska og ástralska) um siðblindu, sem Lára Hanna Einarsdóttir klippti saman úr bútum á YouTube og kom fyrir á sama svæði. Í síðustu færslu, um siðblindu í viðskiptaheiminum hefur verið bætt við fimm krækjum í íslenskt sjónvarps-og útvarpsefni frá því í fyrra, þegar Nanna Briem vakti svo mikla athygli á siðblindu í viðskiptum. Sömuleiðis eru þetta efni framreitt af Láru Hönnu. Ég kann henni bestu þakkir fyrir að benda mér á það og leyfa mér að krækja í það. Sérstaklega ætti síðarnefnda efnið að nýtast þeim sem eru að leita að efni um siðblindu á íslensku.

Svo bíð ég spennt eftir texta um siðblinda dverga sem afkomandi minn hefur boðist til að semja … 😉

En þá er það sturta dagsins … og vonandi hef ég mig í labbitúr í dag – sem ku vera svo einkar hollt fyrir sálina og jafnvel líkamann einnig.

8 Thoughts on “Úðrun og framtaksleysi

  1. Fyrst hélt ég að þú hefðir ætlað að skrifa iðrun en ekki úðrun. Því las ég bloggið aftur en varð ekki var við neina iðrun, svo ég spurði google, hvort hann vissi dæmi um þessa orðnotkun. Og viti menn, 3 dæmi vissi google. 2 hjá orðabókinni snöru og 1 hjá Hörpu Hreins 🙂 Svo nú vaknar spurningin, hvurslags bókmenntir lest þú kona góð?

  2. Harpa on February 7, 2011 at 19:34 said:

    Úðra? Ég held ég hafi bara lært þetta orð í bernsku … kannski algengara að sjá það í ummælum um hefðbundna húsfreyju: “Hún var alltaf sí-úðrandi”. Ætli þetta sé ekki bara einhver n-þingeyskur talsmáti.

    Ég er alæta á bækur af öllu tagi þegar ég er læs 🙂

  3. Harpa on February 7, 2011 at 19:59 said:

    Gleymdi að taka fram: Ég iðrast einskis (eins og Edit Piaf) – í augnablikinu …

  4. je ne rien pas! Var það ekki bara réttlæting á stjórnleysi? 😉

  5. Fyrirgefðu, “Je ne regrette rien” , maður á ekki að slá um sig með menntaskóla frönsku nema vera viss 🙂 mais je ne sais rien lol

  6. Harpa on February 7, 2011 at 23:07 said:

    Heppinn ertu, Jóhannes, að ég kann ekki frönsku 🙂 Frönskukennarinn var nefnilega ómögulegur svo eftir eitt ár skipti ég yfir í latínu og tók stúdentspróf í henni í staðinn. Hins vegar held ég mjög upp á Piaf, þótt ég skilji mestlítið hvað hún syngur, og held að hún hafi nú kannski þurft að iðrast einhvers, miðað við kvikmyndina sem ég sá um ævi hennar. (Í myndinni iðraðist hún hins vegar einskis … samt held ég að hún hafi nú ekki verið siðblind. Það þarf ákveðið kaldlyndi til að alast upp og lifa lífi eins og Litla spörfuglinum tókst.)

  7. Sammála Harpa varðandi Edit Piaf, hún hefur líka lengi verið í uppáhaldi hjá mér. Með stjórnleysinu var ég að vísa til drykkjusýkinnar sem dró Edith til dauða framar öllu öðru. En er ekki langt genginn alkóhólisti búinn að þróa með sér ákveðna siðblindu? Hvernig getur hann annars horfst í augu við sjálfan sig?

  8. Harpa on February 8, 2011 at 21:59 said:

    Jú, skv. slatta af greinum sem ég hef lesið um siðblindu þá koma slík einkenni fram hjá langt gengnum alkóhólista. Talandi af reynslu (en tek fram að ég á bráðum 22 ára edrúafmæli) get ég staðfest að það þarf að koma sér upp talsverðu kaldlyndi til að verjast því að kála sér ekki, sé maður fyllibytta og svíki bæði sig og fjölskylduna. Aftur á móti byggist bataferlið á uppgjöf og fyrirgefningu svo ég hugsa að raunverulega siðblindur mundi ekki ná árangri í meðferð eða innan 12 sporakerfisins.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Post Navigation