Steindór og Vilhjálmur um örorku og geðlyf: Athugasemd

Núna er voða mikið í tísku að vit fyrir öðrum og segja öðrum hvað þeir eigi að gera og hvernig þeir eigi að hugsa. Angi af þessu eru fasískir tilburðir til að stjórna klæðaburði kvenna (aðallega) á ýmsum aldri. Annar angi er stanslaus áróður velmeinandi fólks gegn geðlyfjum og tjáning geðvondra um öryrkja, auðvitað ekki hvað síst horn í síðu geðsjúkra öryrkja. Það væri í rauninni ofsalega huggulegt ef þetta fólk, sem alltaf hefur vit á hvað aðrir eiga að gera, hvernig þeir eiga að haga sér og hvernig þeir eiga að hugsa, myndi kannski eilítið snúa sér að sjálfu sér og uppeldi á sér.

Í hópi velmeinandi manna eru þeir Steindór J. Erlingsson og Vilhjálmur Ari Arason. Þeir tjá sig báðir um örorku og geðlyf í dag en virðast ekki hafa kynnt sér þau mál sérlega vel heldur grípa á lofti klisju hér og klisju þar og draga af þeim þá ályktun að geðlyf séu til lítils gagns og örorku af völdum geðsjúkdóma sé betra að leysa á annan máta, eða eins og Vilhjálmur Ari orðar það: “Skynsamlegast er að verkalýðsfélögin og starfsmannasamböndin komi þessu fólki [hann reiknar með að þunglyndi og kvíðaraskanir stafi að hluta til af atvinnuleysi] strax til hjálpar með boði um starfsendurhæfingu og mati sem byggist á fjölþáttaendurhæfingu, sálfræðihjálp, félagsráðgjöf og sjúkraþjálfun. Ef myndarlega er staðið að þessu verkefni mætti komast hjá örorku vegna kvíða og þunglyndis í mörgum tilfellum og sem virðast svo allt of algengar sjúkdómsgreiningar í dag.” (Feitletrun er mín. Það er dálítið ótrúlegt að sjá starfandi heimilislækni láta þetta út úr sér á prenti, ég viðurkenni það.)

Steindór fer vægar í sakirnar, notfærir sér viðtengingarhátt og “hvort” og “mögulega” til að koma sínum áróðri á framfæri: “Þegar þessi niðurstaða er höfð í huga er eðlilegt að spyrja hvort að langvarandi neysla geðlyfja geti mögulega aukið vanda þeirra sem kljást við geðraskanir. Bandaríski rannsóknablaðamaðurinn Robert Whitaker svarar þessari spurningu játandi í bókinni Anatomy of an Epidemic sem út kom á síðasta ári. Það er ekki að ástæðulausu því á undanförnum tuttugu árum hefur örorka vegna geðraskana þrefaldast í Bandaríkjunum á sama tíma og ávísun geðlyfja hefur aukist gríðarlega. Bók Whitakers, sem er vel rökstudd, hefur komið af stað hörðum deilum í Bandaríkjunum enda finnst mörgum geðlæknum hann vega að starfsheiðri þeirra.” [Feitletrun er mín. Í rauninni er stutti pistillinn hans Steindórs fyrst og fremst purkunarlaus auglýsing fyrir fyrirlestur þessa amríska höfundar.]

Báðir þeir velmeinandi vitna í heimildir máli sínu til stuðnings en sleppa því að geta mögulegra skýringa sem ýmist eru listaðar eða ekki listaðar í þessum heimildum. Mig langar að benda á nokkrar – margar úr einmitt sömu greinum og þeir Vilhjálmur og Steinþór vitna í.

Sigurður Thorlacius  (fyrrum yfirlæknir TR) og Sigurjón B. Stefánsson skrifa grein sem heitir “Algengi örorku á Íslandi 1. desember 2002” í Læknablaðið 1. tbl. 90. árg. 2004  Þar kemur fram að: “Ef horft er til fyrstu sjúkdómsgreiningar á örorkumati sem meginforsendu örorku, þá eru algengustu forsendur örorku á Íslandi í desember 2002 geðraskanir og stoðkerfisraskanir. Niðurstöður frá Noregi, Svíþjóð og Stóra-Bretlandi eru sambærilegar (21, 22, 26). Á Íslandi hefur algengi örorku vegna geðraskana aukist verulega hjá báðum kynjum frá því árið 1996 og geðraskanir eru algengasta orsök örorku. Því væri vert að skoða örorku vegna geðraskana nánar.” Þetta rekja þeir að hluta til hins fræga örorkumatsstaðals sem TR tók upp 1999 og  gefa í skyn sem  helst ráð gegn fjölgun öryrkja að trúa ekki vottorðum annarra lækna heldur einungis lækna TR (vísa í samanburð við Bretland og segja: “Þar hefur mun stærri hluti umsækjanda verið boðaður í viðtal og skoðun hjá lækni á vegum tryggingastofnunarinnar heldur en hér, þannig að matsferlið hefur þar verið hlutlægara. Frá og með mars 2003 hefur hins vegar verið mun algengara en áður hér á Íslandi að umsækjendur um örorkubætur séu boðaðir í viðtal og skoðun hjá lækni. Forvitnilegt verður að sjá hvort það kemur til með að hafa áhrif á tíðni örorku hér.”) [Feitletrun er mín.]

Aftur á móti kemur skýrt fram í grein sömu höfunda sem þeir skrifuðu í Geðvernd árið eftir (sjá Lyndisraskanir og örorka. Geðvernd 2005, 34(1):41-2) að Tryggingastofnun flokkar þroskaheftingu með geðröskunum. Þeir telja upp algengi örorku vegna mism. geðraskana, í prósentum af fjölda Íslendinga (dálítið skrítin framsetning finnst mér) og stærstu flokkarnir eru:

  • Lyndisraskanir: Konur: 0,99 ;  Karlar, 0,40
  • Þroskahefting: Konur: 0,42  ;  Karlar 0,44
  •  Geðklofi og hugvilluraskanir: Konur: 0,25 ; Karlar:  0,29
    (Sjá töfluna “Algengi örorku vegna mismunandi geðraskana 1. desember 2002” í fyrrnefndri grein.)

Þannig að í hópi 1245 nýrra öryrkja á aldrinum 16-66 ára, sem áttu á bótum frá TR, árið 2003, var “geðröskun” fyrsta greining hjá 320 og þar af lyndisröskun fyrsta greining hjá 142.

Niðurstaða Sigurðar og Sigurjóns er: Þrátt fyrir ný og betri meðferðarúrræði fer örorka af völdum geðraskana vaxandi. Til að ráða bót á ástandinu þurfi fyrst og fremst félagslegar úrbætur. Sjálf sé ég ekki að félagslegar úrbætur dragi stórkostlega úr algengi þroskaheftingar eða geðsjúkdóma og geðraskana en e.t.v. eiga höfundar við að aðrir en TR gætu haldið fólki með “geðröskun” uppi.

Í nýjustu grein þeirra félaga, Sigurðar Thorlacius og Sigurjóns B. Stefánssonar, sem þeir skrifa í félagi við Stefán Ólafsson og Kristin Tómasson, kemur fram að fjöldi þeirra sem þiggur örorkubætur frá TR vegna geðrænna- og hegðunarraskana hafi aukist úr 14% kvk. örorkuþega í 30% og úr 20% karlkyns örorkuþega í 35%, á árabilinu 1990-2007. (Sjá “Increased incidence of disability due to mental and behavioural disorders in Iceland 1990–2007” í Journal of Mental Health, apríl 2010, 19.árg, 2.tbl, s. 176-183.) Því miður hafa alþýðukonur einungis aðgang að útdrættinum svo mér er ekki ljóst hvort enn er verið að telja þroskahefta með, inni í þessum prósentutölum.

Skýringar í þetta sinn eru fjölþættar, t.d. aukin áfengis- og vímuefnaneysla auk fjölgunar í ýmsum flokkum hegðunarraskana. Líklegast skýringin er talin sú að breyttar þjóðfélagslegar aðstæður fái fólk til að sækja um örorkustyrk v. geðrænna raskana fyrr en áður.

Ef við snúum okkur að lyfjanotkun vegna geðrænna sjúkdóma og raskana er ljóst að neysla geðlyfja hefur aukist mjög á undanförnum áratugum. Sennilega er einfaldasta skýringin á því sú að almennileg geðlyf sem nýttust mörgum, SSRI-lyfin, komu ekki á Íslandsmarkað fyrr en 1988. Á það benda Tómas Helgason, Helgi Tómasson og Tómas Zoega auðvitað í grein sinni “Antidepressants and public health in Iceland” í The British Journal of Psychiatry (2004) 184: 157-162. Þeir benda líka á að djúp geðlægð (oft kölluð þunglyndi) sé næsthelsta orsök skertra lífsgæða og örorku í þróuðum löndum heimsins og að sala geðlyfja hafi stóraukist í slíkum löndum.

Á Íslandi jókst sala þunglyndislyfja úr 8,4 dagsskömmtum á hverja 1000 íbúa árið 1975, í 72,7 dagsk.á 1000 íbúa árið 2000, sem þýðir að 8,7% fullorðinna á Íslandi neyti slíkra lyfja. En læknisheimsóknum og innlögnum hefur ekki fækkað. Niðurstaðan í greininni er að betri meðferð þurfi að finna til að lina þjáningar vegna þunglyndis og tengdra sjúkdóma.

Ef maður lætur nú eftir sér að skoða gögn yfir lyfjaneyslu Íslendinga almennt er best að leita fanga í Notkun lyfja á Íslandi 1988-1999, eftir Eggert Sigfússon, Rit heilbrigðis- og tryggingmálaráðuneytisins, útg. 2000. Þar er yfirlitstafla á s. 5 þar sem koma fram dagskammtar á 1000 íbúa  á þessu árabili. Þar má m.a.sjá eftirtalda aukningu í lyfjaneyslu miðað við árið 1989 annars vegar og 1999 hins vegar:

  • Hjarta- og æðasjúkdómalyf: 1989: 147,50 – 1999: 213,90:     Hækkun um 45%
  • Þvagfæralyf, kvensjúkdómalyf og kynhormónar: 72,44 (1989) – 127,75 (1999):   Hækkun um 76,35%
  • Tauga-og geðlyf: 128,61 (1989) – 225,53 (1999):  Hækkun um 75,36%

Í  flokki tauga- og geðlyfja (N)eru einnig talin ýmis lyf sem ekki eru notuð við geðsjúkdómum, á borð við flogaveikilyf, lyf við parkinsonssjúkdómi, mígrenilyf, hjálparefni til að hætta reykingum o.fl. Þunglyndislyf eru því bara hluti tauga-og geðlyfjaneyslu.

Það er gott að hafa í huga að inni í tölfræði sem byggir á mati Tryggingastofnunar ríkisins eru þroskaheftir flokkaðir með geðsjúkdómum og geðröskunum. Einnig er gott að skoða lyfjaneyslu almennt til að sjá t.d. að  aukning hjarta- og æðasjúkdómalyfja hefur verið gífurleg án þess að menn séu að gera því skóna að fólk taki þessi lyf að gamni sínu og geti batnað öðruvísi, gott ef verkalýðsfélagið getur ekki bara læknað það eða einhver amrískur bókarhöfundur … Og af hverju hefur enginn áhyggjur af  rosalegri aukningu í þvagfæralyfjum, kvensjúkdómalyfjum og kynhormónum – sem í prósentutölum jafnast á við aukningu tauga-og geðlyfja? Væri ekki hægt að spara í þeim flokki með dálítið sósíaldemókratískara umhverfi og amerískum sjálfshjálparbókum? Jafnvel afhenda lyfjaþegum hreyfiávísun í staðinn fyrir resept?

Í allri þessari tölfræði og stundum misskilningi manna byggðri á henni finnst mér algerlega gleymast að hafa í huga þær þjóðfélagsbreytingar sem orðið hafa gífurlegar á síðustu örfáum áratugum. Mér finnst t.d. tiltölulega augljóst að börn eta hlutfallslega minna af lyfjum en fullorðnir. Þegar aldurssamsetning þjóðar breytist, þá eykst eðlilega neysla þess sem fullorðnir nota umfram börn þegar fullorðnir verða fleiri í hundraðsflokki.

Annað sem blasir við er að með þéttbýlismyndun eru miklu fleiri sjúkdómar greindir. Sennilega lifðu einhverjir fatlaðir, geðsjúkir o.þ.h. í skjóli fjölskyldu sinnar á landsbyggðinni árum saman, jafnvel alla sína ævi án þess að leita læknis eða fá formlega greiningu. Læknar voru enda ekki á hverju strái. Og sennilega er ekkert svo voðlega langt síðan slíkir lífshættir án sjúkdómsgreiningar tíðkuðust.

Loks má nefna að með aukinni þekkingu verður auðveldara að greina sjúkdóma svo ekki ætti að koma á óvart þótt fleiri sjúklingar greinist. Mér finnst mjög líklegt að geðrænir sjúkdómar á borð við djúpa geðlægð eða geðhvarfasýki hafi verið mjög vangreindir áður fyrr, þótt ekki sé litið um öxl nema tíu- tuttugu ár … hvað þá fyrir lengra síðan.

Í samanburði á 10 – 20 ára tímabili þarf að gæta að ýmsu svonalöguðu. Og það er ábyrgðarhluti að reyna að stuðla að því að veikt fólk hætti að taka lyfin sín eða leita til geðlækna. Það ættu þeir Steindór og Vilhjálmur að hafa í huga.
 
 

10 Thoughts on “Steindór og Vilhjálmur um örorku og geðlyf: Athugasemd

  1. Valdís on February 11, 2011 at 03:05 said:

    Frábær pistill og bestu þakkir fyrir hann. Það er eins og gefið sé í skyn að með aukinni lyfjameðferð gegn þunglyndi fjölgi þunglyndum sem verða öryrkjar! Ég hafði ekki minnstu hugmynd um að þroskaheftir og geðsjúkir væru settir saman í hóp! Jafnvel þó að hluti þroskaheftra sé með geðsjúkdóma þá skekkir þetta alveg myndina. Ég veit um dæmi þess að fólk hafi hætt að taka geðlyfin sín vegna utanaðkomandi þrýstings og hrakað mjög illa og sumir dáið. Heimilislæknir hlýtur að svíkja þann eið sem hann sór við læknaprófið að voga sér að skrifa svona pistil. Það er alvarlegur ábyrgðarhluti að kasta því fram sem hann gerir og blandar verkalýðsfélögum og starfsmannasamböndum inn í alvarlega sjúkdóma. Hann ætti að blanda þeim inn í kvensjúkdóma að sama skapi miðað við lyfjaaukningu vegna þeirra! Það yrði aldeilis allt brjálað ef hann gerði það! Það eru geðlæknar sem hafa vit og þekkingu á geðsjúkdómum nokkuð langt umfram heimilislækna. Og geðlæknar ættu að gera athguasemdir við svona framkomu á netinu.

  2. “Í rauninni er stutti pistillinn hans Steindórs fyrst og fremst purkunarlaus auglýsing fyrir fyrirlestur þessa amríska höfundar”. Þarna hittirðu naglann á höfuðið. Þér gefst færi á að leggja spurningar fyrir rithöfundinn 19. febrúar.

  3. Vilhjálmur Ari on February 11, 2011 at 08:18 said:

    Sæl Harpa og þakka þér fyrir oft góð skrif. Þú getur lesið athugasemd mína á http://blog.eyjan.is/vilhjalmurari/2011/02/10/ad-nidurlotum-komin/comment-page-1/#comment-422
    Bestu kveðjur

  4. Ég kíki á athugasemdirnar, Vilhjálmur. Takk fyrir ábendinguna, Steindór, en ég er of lasin (af þunglyndi) til að leggja á mig sérferð til Reykjavíkur til að hlusta á þennan rithöfund – veistu annars hvaða menntun og bakgrunn hann hefur? Það væri auðvitað mjög spennandi að mæta og fá tækifæri til að leggja fyrirspurnir fyrir hann en, eins og ég segi, þá er ég of veik, sem stendur. (Samt er ég í nokkurs konar verkalýðsfélagi ennþá, þ.e. KÍ. Finnst rétt að taka það fram. En hefur ekkert batnað þrátt fyrir það.)

    Valdís: Ég tek undir allt sem þú segir. Og ítreka að við erum að tala um lífshættulega sjúkdóma, á þar einkum við þunglyndi, sem þessir tveir eru að spila með. Gætu þeir ekki snúið sér að einhverju meinlausara, t.d. sveppasýkingu í leggöngum? Fólk kálar sér ekki svo glatt út af henni … held ég a.m.k., þótt það velji að vera lyfjalaust og nota frekar Húsavíkurjógúrt 😉

  5. Valdís on February 11, 2011 at 16:04 said:

    Ha ha. Ég hef oft heyrt það nefnt að hella jógúrt í leggöng og þá lagist allt. Frétti af því nýverið að það hefði verið viðtal við lífsstílshönnuð á Rás 1 sem mælti með ýmsum álíka ráðum til að sigrast á krabbameini. Nýja Ísland er greinilega líka fjárplógsstarfsemi. Eða hvað?

  6. Læknast fólk af krabbameini með Feng Shui uppröðun? Eða var ráðið að skipta yfir í spelt í stað hveitis? Ég er voðalega fegin að vera ekki krabbameinssjúklingur og þurfa að sitja undir svona velmeinandi ráðum. Það er nógu erfitt að vera geðveik í heimi “hinna fullkomnu og alvitru”.

  7. Ég sé það alltaf betur og betur að ég er varla velkomin á þessu landi mínu.

    Takk fyrir góðan pistil.

  8. “Á Íslandi jókst sala þunglyndislyfja úr 8,4 dagsskömmtum á hverja 1000 íbúa árið 1975, í 72,7 dagsk.á 1000 íbúa árið 2000, sem er 8,7% aukning.”

    Eitthvað held ég að stærðfræðin hljóti að vera að stríða þér þarna.

  9. Harpa on March 27, 2011 at 16:28 said:

    Púff, já, heldur betur! Takk fyrir að vekja athygli mína á þessu, Tinna. Ég þýddi rangt: “Results Sales of antidepressants increased from 8.4 daily defined doses per 1000 inhabitants per day in 1975 to 72.7 in 2000, which is a user prevalence of 8.7% for the adult population”. Er búin að leiðrétta 🙂 Þessi aukning er náttúrlega níföld …

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Post Navigation