Ég er örmagna! Ferð til borgar óttans er tímafrek, erfið og konu eins og mér kólnar inn á beini. Mun ég nú rekja þessa lífsreynslu enda hef ég nánast aldrei neina lífreynslu að rekja svo það er um að gera að nýta tækifærið þegar fátæklega lífið er ekki alveg eins fátæklegt 😉
Til þess að hitta lækni í Mosfellsbæ klukkan tíu þarf Skagakona eins og ég að taka strætó rétt rúmlega hálf-átta. Og ég var náttúrlega illa sofin og það voru slydduél og krapaelgur og, eins og sumir heimilislæknar myndu orða það, óvingjarnlegar félagslegar aðstæður. Sem betur fer er kaffið í sjoppunni í Mosfellsbæ harla gott og afgreiðslustúlkan sérlega almennileg. Svo ég dundaði mér í einn og hálfan tíma við að fylla út örorkumatsstaðal TR og lesa vel rannsókn á því hvernig skólastjórar beita kennara einelti. Þetta er eina rannsóknin á slíku en hún var vel rökstudd og vísaði í heimildir um rannsóknir á einelti út og suður, birtist auk þess í ritrýndu tímariti. Þótt rannsóknin væri gerð í S-Afríku sá ég ekki betur en aðstæður, þ.e. gjörðir eineltara og staða fórnarlambs, væru glettilega sambærilegar við Ísland og kannski full þörf á að kynna þetta. Mun blogga um niðurstöður rannsóknar á einelti skólastjórnenda mjög bráðlega en ekki í kvöld.
Það gekk nú ekkert alltof vel að fylla út örorkumatsstaðal TR. Ég get ekki ímyndað mér hvers lags geðveiki þarf til að skora þar auðveldlega 10 stig eða meira í skerðingu á andlegri færni – nema náttúrlega sjúklega lygaáráttu (mythomania) sem ég veit ekki hvort TR viðurkennir tæka til örorku. Ég lenti t.d. í vandræðum með spurninguna “Þarf hvatningu til að fara á fætur og klæða sig” sem gefur 2 stig. Sko, það kemur fyrir að ég kemst ekki á fætur. En engum hér á heimilinu dettur í hug að hvetja mig til að fara á fætur enda mundi það ekki þýða og heimilismenn eru nokkuð verseraðir sem aðstandendur sjúklings með “endurtekna djúpa geðlægð án sturlunareinkenna”. Aftur á móti er það svo að sonur minn tvítugur þarf stöðuga, harkalega hvatningu á hverjum morgni til að komast á lappir og í skólann. Hann myndi sumsé auðveldlega skora 2 stig á þessum örorkumatsstaðli. Af því 10 stig duga til að teljast a.m.k. 75% öryrki (skv. upplýsingum á staðlinum sjálfum) reiknaði sonurinn alveg sjálfur út áðan að hann væri 15% öryrki. Í rauninni er það fréttnæmt og athyglisvert og jafnvel rannsóknarvert að líklega eru yfir 90% íslenskra unglinga á aldrinum 16 – 20 ára 15% öryrkjar, skv. matsstaðli TR.
Ég hitti svo þann góða mosfellska lækni Þengil. Í ljós kom að þetta var einstakt ljúfmenni og afar þægilegt að tala við hann. Ég trúi því vel að konur í Mosfellssveit hafi hrest (fyrrum hrezts) við að hitta hann í kaupfélaginu! Ánægjulegt var að hitta mann í starfi fyrir TR sem var kurteis og hafði gott viðmót. Viðtalið var mjög ítarlegt en aftur á móti fór hann ekkert fram á örorkumatsstaðalinn fræga – hins vegar rétti ég honum útfyllt eintak, fyrst ég var hvort sem búin að fylla þetta út í sjoppunni, og veifaði framan í hann þeim tveimur 100% örorkumötum sem ég á nú þegar. Læknirinn spurði m.a. um hvort ég ætti áhugamál og ég hváði og lenti í mestu vandræðum, út af hugfötlun og óminni, en stundi svo upp að ég ætti þessi dæmigerðu fegurðardrottningaráhugamál, sumsé ferðalög og lestur góðra bóka. Kunni ekki við að nefna sögu prjóns og siðblindu en gat þess að ég prjónaði töluvert (það er svo ljómandi kvenlegt og öryrkjalegt) og reyndi yfirleitt á haustin að byrja í línudansi. Datt ekkert fleira í hug … enda partur af endurtekinni … o.s.fr. að vera nokkurn veginn skítsama um allt og hafa ekki áhuga á neinu.
Svo glaptist ég í annað sinn til að taka Mosfellsstrætó sem byrjar á að aka lengst upp í sveit og stoppa þar í korter, með opnar dyr og slökkt á miðstöð og ég næstum frosin í hel! Samt fattaði ég hvorum megin götunnar æskilegra væri að taka strætó en hélt að sá sem kæmi fyrr (öfugu megin götunnar) myndi taka 7 mínútna rúnt um bæinn og aka svo til Reykjavíkur. Ég hafði rangt fyrir mér.
Gegnköld komst ég loks á Þjóðarbókhlöðu og eftir að hafa hitað upp með lútsterku Macciato datt ég í orðabækur! Fann heilan fjársjóð í orðabók yfir norskar mállýskur og gagnlegt efni í orðabók Jakobsens yfir Norn og í nokkrum færeyskum orðabókum. Núna var það hitt aðaláhugamálið, sumsé orðið “prjónn” og sögnin “prjóna”. Þetta eru verulega merkilegar niðurstöður, finnst mér, og ég hugsa að ég sendi henni Guðrúnu Kvaran þær þegar ég er búin að pikka þær inn (við höfum aðeins ræðst við um “prjóna” og “pjone” o.fl. þess háttar út af fyrirspurn minni til Orðabókar HÍ). Norska mállýskubókin var gullakista!
Því miður átti Þjóðarbókhlaða hins vegar ekki tímarit frá 1971 þar sem er sennilega merkileg grein um viðhorf biblíunnar til siðblindu (hvar er rökstutt að týndi sonurinn hafi verið siðblindur og líklega eitthvað fleira merkilegt) – ég panta bara ljósrit í millisafnaláni. Greinin er eftir ísraelskan sálfræðing sem hefur fundið upp sérstaka geðlækningaraðferð m.a. byggða á gamla testamentinu og skrifað um hana 10 bækur sem hafa verið þýddar á alls lags tungumál. Ég hef reyndar engan áhuga á að prófa þessa aðferð við endurtekinni djúpri o.s.fr. en það verður spennandi að sjá hvernig svo virtur og frægur maður rekur viðhorf biblíunnar til siðblindu, ég verð að viðurkenna það. Ekki samt eins spennandi og öll afbrigðin af “prjóna” í norskum mállýskum …
Mér var orðið hlýtt og veðrið orðið skaplegt þegar ég hraðgekk niður í Norræna hús. Þar fann ég ýmsar álitlegar bækur fyrir ólæsa, t.d. rosalega flotta og risastóra myndskreytta bók um konungleg brúðkaup í Svíþjóð frá dögum Gústavs Vasa. Helv. flott dress og tilbehör sem þetta lið átti og nærmyndir af útsaumnum. Einnig má nefna líklega mjög spennandi bók sem heitir Gomul Føroysk heimaráð og kom út 1959. Það er örugglega eitthvert gott trix gegn þunglyndi í þeirri bók! (Vona samt að maður eigi að ekki drekka steinolíu eða álíka.) Bók um sögu nærfatnaðar (Underkläder. En kultuhistora) var sjálftekin að láni, sömuleiðis Folkligt dråktskick i Västra Vingåker och Österåker og Landbokvinnen. Rok og kærne – grovbrød og vadmel. Svo kippti ég með tveimur reyfurum (öðrum eftir Åsu Larsson) ef ég skyldi verða læs á næstunni. Kona þarf reyndar að vera illa læs ef hún getur ekki lesið Åsu Larsson! Og ég skilaði vel að merkja öllum siðblindubókunum svo nú geta áhugasamir fengið lánaðar Sjarmør og tyrann og fleira siðblindukyns á því ágæta bókasafni Norræna hússins.
Svo kom maðurinn og sótti mig, ég fékk far heim með þremur skólastjórnendum (bauðst til að kenna þeim hæstsetta að einelta kennara en hann afþakkaði pent) og hrundi hér inn um dyrnar einhvern tíma um fjögurleytið – kúguppgefin! Og kötturinn sjúklega vanræktur í allan dag …
Mikið sem ég er fegin að þurfa ekki að fara til borgar óttans aftur fyrr en eftir meir en viku!
Í kvöld ætla ég að reyna að horfa á Poirot á danska (það gerist allt svo hægt í þeim þáttum að meira að segja athyglisbrostin kona getur fylgst með) og prjóna minn háleist (reyndar rek ég upp álíka og ég prjóna því ég ruglast í einfaldasta munstri, sem er skýrt sjúkdómseinkenni en ekki spurt um á örorkumatsstaðli TR).
Þetta átti að vera stutt bloggfærsla en mér er greinilega fyrirmunað að stilla málæði í hóf í spjallbloggi og almennt og yfirleitt verður bloggið mitt áframt ætlað vellæsum. Er ekki viss um að ég hefði mig sjálf í gegnum svona bloggfærslur hjá öðrum eins og á stendur fyrir mér núna 😉
Færsla um orsakir siðblindu er í gerjun …
Moi hláturveltist hjá fegurðardrottningunni og kettinum!
Bíð spenntur eftir siðblindunni, ég þekki ansi vel unglingavandamálin sem þú lýsir ég man eftir börnum mínum þau voru svona. Er hættur að vinna svo eineltið á sér bara stað innan heimilisins hjá mér !!! Svo er ég að spekulera hvort Poirot hafi verið í gærkvöldi, líklega hef ég misst af honum. Æ. Og zetuhugleiðing þín ég held að hún sé ekki rétt, eða hvað: Hresstst var þetta skrifað held ég, en ég get haft rangt fyrir mér. Það var gaman að kenna z í gamla daga!! Kveðja. Fyrirgefðu þetta pár mitt.
Hresstst!
Við fegurðardrottningarnar eigum svooooooo margt sameiginlegt! Bíð spennt eftir næstu siðblindufærslu…..
Já, en Björn: Þú þekkir mig og sérð auðvitað strax hvað við fegurðardrottningarnar eigum sameiginlegt í “andlegri færni” (flokkunarhugtak stolið úr títtnefndum öryrkjamatsstaðli)!
Erling og Þorvaldur: Liggur við að ég nái í hauspoka hannyrðakonunnar – við skulum vona að Eiður Svanberg lesi ekki bloggið mitt! Iðrast nú í dufti og ösku fyrir að hafa týnt niður essum í gömlu útgáfunni af hressts en hef mér til afbötunar að nú er ég alþýðukona en ekki íslenskukennari 😉
Sjálfhætt var við Poirot í gærkveldi vegna rafmagnstruflana. Ég hringdi á bilanavakt OR og talaði við eintakið “gamli karl dauðans”, nokkurn veginn á þessa leið (heyra fyrir sér hryssingslegan neftóbakblandaðan talanda þess síðarnefnda, takk):
Ég: Er hugsanlegt að sé eitthvað að rafmagninu og eru líkur á að komi högg á næstunni? Þarf maður að taka rafmagnstæki úr sambandi?
Gamli k.d.: Sá að ljósin hérna blikkuðu, veit ekkert um það, hringdu bara í Landnet.
Ég: En ég kaupi rafmagnið frá ykkur og veit að það er nýbúið að vera rafmagnslaust í Álverinu og spennutruflanir í vonda veðrinu um daginn og stóra höggið á síðasta ári eyðilagði mökk af raftækjum hér á Skaganum. Getið þið ekki hringt í Landsnet og athugað þetta?
Gamli k.d.: Nei, við hringjum ekki í Landsnet! Þú getur bara hringt sjálf.
Ég: En myndi Landsnetið ekki láta ykkur vita af eitthvað alvarlegt er að?
Gamli k.d.: Jú, þeir mundu sjálfsagt láta okkur vita seinna en þeir hafa ekki látið okkur neitt vita svo þú getur bara hringt í Landsnet. Það blikkuðu hjá okkur ljósin en við vitum ekki neitt.
Ég: Þakka þér kærlega fyrir upplýsingarnar (í silkimjúkum tóni og passað að enginn norðlensku hreimur gægðist fram, sem var auðvelt í akkúrat þessum orðum).
Svo slökkti ég á nauðsynlegustu tækjum, þ.e. tölvudóti og sjónvarpi og fór að setja mig inn í þróun lífstykkja. Hyggst setja mig inn í þróun örorkumatstaðalins fljótlega en verð að segja að lífstykkin eru talsvert meira spennandi, sem og hroðalega ljótir þjóðbúningar í sumum sænskum héröðum.
Siðblindufærslan er þar komin að búið er að safna heimildum, búið að lesa þær yfir, byrjað á líffræðilegum orsökum en svo tafði það mig um næstum tvo klukkutíma að fletta upp íslenskum orðum yfir mismunandi staði í heilabúi mannsins. Svoleiðis hugtök liggja ekki á lausu. Og þau eru hörmuleg sum, vitið þið kannski hvað er “bakhliðlægur hluti framheilabarkar” og “fremri gyrðilgári”? (Er reyndar doldið hrifin af gyrðilgára-orðinu.)
En fyrir þá sem bíða spenntir get ég upplýst að líffræðilegu orsakirnar eru stórvægilegar og uggvænlegar og þróunarfræðilegu skýringarnar mjög skemmtilegar og spennandi. Félagslegu skýringarnar eru ómerkilegar og skipta voða litlu máli.
Einelti skólastjóra er þó meira aktúelt (fyrir þig, Þorvaldur minn, brúka ég þetta orð) og færsla um slíkt hefur forgang.
Hlakka til þá vitnast hvílíkir öðlingar hafa stýrt mínum fjölbrautaskóla í aldanna rás. Vonandi verð ég ekki fyrir vonbriggðum (með norðlenskum hreim). Libbðu heil.
Nei, þú sérð mætavel hussu óeineltandi stjórnendur þú hefur haft um langa tíð. Það eru ekki allir svo heppnir. Tek skýrt fram að í FVA hafa líka yfirleitt verið prýðis stjórnendur.