Dagurinn hefur auðvitað að mestu runnið mér úr greipum vegna þess hve mikill kramaraumingi ég er. (Þetta finnst lækninum mínum doldið ljótt orð en hann er náttúrlega alinn upp fyrir sunnan … ég man ekki betur en kramaraumingi hafi verið tiltölulega hvunndagslegt orð þarna á norðausturhorninu og gæti reyndar tínt til verri orð en það, einkum eitt sem ég passa voðavel að nefna aldrei í viðtölum við þann góða lækni þegar ég bögglast við að lýsa slappri líðan.)
Í allan dag hef ég verið að reyna að fixa hljóðskrár á vefsíðu. Í denn, meðan ég hafði þrekið, hefði ég rúllað þessu upp inn á milli verka. En fyrst var að finna vél á vef til að breyta gömlum real-audio skrám í mp3 (vildi ekki hlaða niður forriti til ‘ins arna) og það tókst mæta vel. Svo er að láta þær keyra á vefsíðu. Það gengur illa. Þ.e.a.s. þær keyra eins og englar (ef hljóðskrá má kalla svo og ef englar keyra) í IE og Operu en eru með tiktúrur í Google Chrome. Kann ekki við að vekja soninn til að tékka á Firefox. Stefnan er að nota eins hreinan HTML-kóða og unnt er, sleppa XML og javascript fiffum sem mest og því miður eru menn ekki nógu harðir á stöðlunum ;( Ég hef ekki ofið neitt í marga mánuði en stefni æ meir í Back to the Basic og KISS (Keep it simple Stupid!) og held að því einfaldari kóði því langlífari verði vefsíður. Nefni t.d. Netútgáfuna sem gott dæmi um hverju slík stefna hefur skilað. Já, svo nota ég enn eldgamlan Netscape Editor til að vinna grunninn (þrátt fyrir Dreamweaver áróður mannsins) og handskrifa svo meira og minna kóðann inn í grunninn, í Notepad. Dálítið erfitt fyrir konu með athyglisbrest, þetta er nákvæmnisvinna og þýðir ekki að gleyma að loka sosum eins og einum hornklofa eins og gefur að skilja …
Fyrir utan þetta dútl (hljóðskrárnar eru sýnishorn af forníslensku og hinn dramatíski flutningu Arne Torp á endurgerðri Atlakviðu með fimmtu aldar frumnorrænu-framburði) hef ég afrekað fátt. En ég hef reiknað út að ef mér tekst að klára að gera upp og breyta svona einni málsögusíðu á dag þá muni þetta verk einhvern tíma klárast, verk klárast nefnilega þótt þau séu unnin hægt. Og ég reyni að hugsa sem minnst um hvernig ég var áður en sjúkdómurinn greip mig í heljarkrumlurnar, þegar ég gat kennt meir en fulla stöðu og verið í fullt af skemmtilegum aukadjobbum með og allt var svo gaman og gekk svo hratt og ég lifði svo hratt. Núna lifi ég mjög hægt.
Fór reyndar til heimilislæknis í dag og lagði spilin á borðið: Sagði honum að við geðveika fólkið fengjum oft ýmis mjög sannfærandi sjúkdómseinkenni og nú vildi ég bara fá að vita hvort þau væru raunveruleg eða hvort ég væri hysterísk. (Lækninum fannst hysterísk ekki fallegt orð, ekki heldur móðursjúk. Af þessu má ráða að læknar séu almennt soldið viðkvæmir fyrir orðalagi sjúklings um sig.) Í ljós kom að öll einkennin nema eitt voru hystería. Gott fyrir mig að vita það. Aftur á móti hurfu þau ekki við þessar upplýsingar, því miður.
Eftir ráðfæringar við manninn, undir hinum ljúffenga kvöldverði sem hann snaraði fram handa sinni konu og kettinum, lét ég slag standa og pantaði tíma í nálastungum. Var búin að ræða þetta við stingjarann einhvern tíma í fyrra; sá þekkir vel til þunglyndis og lofar engu, í mesta lagi hugsanlegum séns. Best að taka þann séns – ég hef þá alltaf prófað. Og vestræn læknislyf skila mér hvort sem er ekki betri árangri en hugsanlegum séns svo maður getur allt eins leitað fleiri sénsa. Ég blæs á grænmetisfæði, dítox, hómópatíu, heilun og þess háttar. En mætti sosum prófa andalækningar, þær eru enn óprófaðar: Þekkir einhvern góðan andalækni? Er Friðrik enn að störfum? 😉 Handayfirlagning og særing er einnig óprófuð en ég held ég láti það eiga sig.
Í gærkvöldi hraðlas ég reyfara, Fyrirgefningu eftir Lilju Sigurðardóttur. Ég man að ég var frekar hrifin af fyrri bókinni hennar, Spor, en komst að því við lestur þessarar að ég man ekki snitti úr fyrri bókinni. Og þessi seinni var alltof fyrirsjáanleg. Annars er ég enn á flettistiginu, skoða bækur, les hér og þar, sá reyndar að ég þyrfti einhvern tíma að skruna yfir Íslensku Hómilíubókina því textinn í henni er svo frábærlega flottur; íslenskan er gull! Og þeir sem sömdu þessar stólræður höfðu hvorki aðgang að orðabókum né orðum heldur sömdu sín eigin orð nokkurn veginn jafnóðum, a.m.k. mörg þeirra. Alltaf gaman að finna góðan texta.
Labbaði heim af Heilsugæslustöðinni og steig ölduna, sem bendir til að helv. þunglyndið sé ennþá í blóma. Og hengdi upp úr einni þvottavél með harmkvælum (svimi, flökurleiki, skjálfti o.s.fr. helltist yfir mig). Þannig að ég verð að sætta mig við að vera kramaraumingi áfram. Og langir “hressandi” göngutúrar eru ekki á dagskrá (sem betur fer dettur engum í hug að stinga upp á þeirri vitleysu við mig, nema sonurinn þegar hann vill peppa upp geðveika móður sína með einhverjum krassandi brandara).
Þótt afrakstur dagsins sé lítill er samt afrakstur. Maður verður bara að minnka kröfurnar og lifa annars konar lífi en áður. Og passa að missa sig ekki í reiði og pirring heldur hanga á æðruleysisbæninni og rækta sinn (kvikindislega) húmor. Var ekki líka hið raunverulega svar við tilgangi lífsins / lífshamingjunni að maður ætti að rækta garðinn sinn? (Í stað þeirrar lummulegu skoðunar að svarið við heimspekinni væri sjálfsvíg? Og kaldhæðnin einkum fólgin í að síðarnefndi spekingurinn lést í bílslysi áður en honum tókst að fremja sjálfsvígið?) Maður stjórnar ekki þunglyndi. En maður getur svolítið stjórnað því hversu mikið skal hangið í harminum eða hve maður lætur eftir sér að tjúnast upp í gagnslausri reiði og pirringi út í allt og alla og öfund út í þá sem hafa fundið meint Eldóradó. Af því mér gengur merkilega illa að forðast drullupolla og neikvæðni hef ég ákveðið að líta á þá eins og hvert annað svartagallsraus og reyna að sjá hversu fyndin umræðan í rauninni er, alveg eins og mér þótti alltaf lúmskt gaman af Láka jarðálfi sem ég las fyrir strákana litla 😉
Og nú er ég orðin of þreytt til að finna myndskreytingar við færsluna …
ja.. ég hef mikið velt þessu fyrir mér með “andalæknanna” síðasti svoleiðis var Einar Jónsson frá Einarsstöðum sem einhvað hvað að hér á landi, kannski er “símlínan” þarna á milli einhvað biluð eða ekki kominn ljósleiðari til að auðvelda sambandið milli heimanna. Ég fékk allar “andabækur” ömmu minnar og hef lesið þær og pælt mikið í þessu fyrirbryggði. kveðja gua