Ég hef undanfarið lesið bloggið hennar Evu Haukdsdóttur, Sápuóperu, mér til mikillar ánægju. Því fer fjarri að ég sé alltaf sammála henni en hún skrifar ákaflega góðan texta og skoðar oftast mál frá ýmsum hliðum. Síðustu tvær færslur Evu fjalla um Facebook, annars vegar “Þú ert með nauðgara á vinalistanum þínum” og hins vegar “Er facebook að gera okkur sjálfhverfari?” Í þeirri síðarnefndu vísar hún í höfundarlausan pistil á Róstrum, “Tengsl milli sjálfsdýrkunar og Facebook-notkunar“. Loks sá ég að Sölvi Tryggvason rær á sömu mið enda heldur hann sig auðvitað í þeim umræðuefnum sem hann telur í tísku hverju sinni, í pistlinum “Fall Fésbókar” í dag en Sölvi stenst náttúrlega engan veginn samanburð við Evu og er í rauninni óþarfi að lesa þá stuttu bullfærslu. Hún minnir mjög á bölsýnisraddir um að internetið væri bara bóla og í versta falli til óþurftar, sem heyrðust víða laust fyrir 1990, hér á landi. Kannski eru orð gömlu frúarinnar í Downtown Abbey (var að horfa á síðasta þáttinn á danska, í dag): “Fyrst kemur rafmagnið, svo sími; Mér finnst ég vera persóna í skáldsögu eftir H.G. Wells!” dálítið lýsandi fyrir viðhorf Sölva, fyrrum andstæðinga internetsins og bænda þegar leggja átti símalínur forðum.
Svo við byrjum á Róstur-greininni þá hefst hún svona: “Facebook-notendur eru almennt úthverfari og uppfullari af sjálfsást en þeir sem ekki nota síðuna samkvæmt rannsókn sem gerð var í Ástralíu, en niðurstöður hennar voru gerðar opinberar í tímaritinu Computers in Human Behavior nú á dögunum.” Málfarið gefur strax tóninn um gæði greinarinnar (þótt ég sé ekki málfarsfasisti að upplagi þá þekki ég orðið unglingaþýðingar hvort sem Pjattrófurnar eða aðrir standa að þeim). Önnur gullkorn fylgja fljótlega: “Spurningar snéru að þáttum á borð við úthverfu, geðfeldni, vandvirkni, taugaveiklunar og opins huga gagnvart því að upplifa nýja reynslu. Einnig tilhneigingar til sjálfsdýrkunar, feimni, einmannaleika, og að lokum því sem einkenndi Facebook-notkun hvers og eins.”
Ég kíkti á rannsóknina sjálfa, “Who uses Facebook? An investigation into the relationship between the Big Five, shyness, narcissims, loneliness, and Facebook usage” og sá að greinarhöfundur Róstra var ekki bara illa máli farinn í sínu móðurmáli heldur illa fær um að skilja enskan texta því það sem eftir er haft er sumt rangt og sumt oftúlkað. T.d. eru höfundarnir ekki prófessorar heldur önnur dósent og hin nemandi. Og þetta er ekki einstæð rannsókn af því flestar svona rannsóknir hafi verið unnar af háskólanemum áður heldur vegna þess að notendahópar sem hafa verið rannsakaðir hafa oftast verið háskólanemar. Í þessari rannsókn var hluti úrtaksins utan háskóla og eldra fólk en háskólanemar (í hópunum var fólk á aldrinum 18-44 ára).
Niðurstöður rannsakenda eru varlega orðaðar, bent er á að úrtakið hafi verið afar lítið og að val þátttakenda kunni að hafa verið mislukkað; jafnvel hafi menn logið til að komast að í rannsókninni. Jafnframt sé hætta á að vægi þeirra sem nota internetið sérstaklega mikið hafi verið of hátt í rannsókninni því allir þátttakendur voru valdir af netinu. Að vísu kom fram að þeir sem hafa sérstaklega sterka sjálfsdýrkunarpersónuleikadrætti nota FB umfram aðra en bent var á að þeir þekkust vel úr af því að þeir leggi ofuráherslu á myndbirtingar. Feimið fólk reyndist ekki nota FB meir en hver annar en fólk sem skoraði hátt á hugsýkiskvarða (höfundur í Róstrum kallar það taugaveiklað) skoðaði FB meir en aðrir, oft án beinnar þátttöku á FB. Einsemd meðal þeirra sem ekki notuðu FB mældist meiri en einsemd þeirra sem notuðu FB. O.s.fr. Það sem einkum stingur í augu í þessari rannsókn sem sýndi “sláandi niðurstöður”, að mati Róstrapennans, er að úrtakið var einungis 1158 FB-notendur og 166 manns sem ekki notuðu FB. Leikmaður eins og ég setur stórt spurningarmerki við fámennið, einkum í samanburðarhópnum, og spyr hvort þetta geti mögulega talist marktæk rannsókn.
Ég hef samt litlar áhyggjur af unglingunum sem lepja vitlaust upp rannsóknarniðurstöður og greina ekki milli vel og illa unninna rannsókna því hver les svo sem Róstur?
Eva Hauksdóttir veltir upp mörgum spurningum í sambandi við þessa grein og vitnar í eigin FB, þar sem henni gengur illa að finna áberandi sjálfsdýrkendur eða “taugaveiklað” lið. Ég hugsa að ég myndi lenda í sömu vandræðum. Aftur á móti nota ég sjálf FB mikið vegna einangrunar og pappírslega séð fell ég undir “taugaveiklaða” fólkið (vegna sjúkdómsins þunglyndis) þótt ég telji mig fremur úthverfan persónuleika að öllu jöfnu (vonandi samt ekki með sjálfsdýrkunarpersónuleikaröskun). Augljóslega notar fólk sem ekki kemst út úr húsi dögum, vikum eða mánuðum saman þau verkfæri sem bjóðast til að eiga samskipti við fólk. Auk þess á ég oft erfitt með tal, sérstaklega í síma, þegar ég er mikið lasin.
Hin færslan hennar Evu, “Þú ert með nauðgara á vinalistanum þínum” fannst mér enn betri. Þar er annars vegar fjallað um vinalista – hins vegar hið áhugaverða sjónarmið að suma glæpi megi fyrirgefa eða a.m.k. líta fram hjá (sýna miskunnsemi) eftir að afplánun lýkur en aðrir fyrnist aldrei í huga fólks. Ég er mjög sammála umfjöllun Evu en finnst þó að hún gleymi ákveðnum hluta fólks, cyberpaths, þ.e. siðblindum, sem eignast hafa víðar veiðilendur með tilkomu samskiptasíðna á netinu, ekki hvað síst FB.
Ég sé ekkert því til fyrirstöðu að hafa kynferðisafbrotamann eða ofbeldismann á mínum vinalista ef ég er viss um að viðkomandi hefur iðrast og afplánað og sé ólíklegur til að endurtaka leikinn. Oft stafar glæpurinn af stjórnleysi sem fylgir fylleríi eða vímuefnamisnotkun, eins og Eva bendir á, og fyllibyttur geta orðið ágætis manneskjur þegar þær verða edrú og ná tökum á lífi sínu.
Öðru máli gegnir um siðblinda. Ég kæri mig ekki um að skaffa álitlegan vinkonulista sem svoleiðis menn geta notað til að húkka næsta fórnarlamb. Eini kosturinn við siðblinda er að þeir eru svo fáir, um eða innan við 1% af körlum, miklu færri konur og þótt þeir svífist einskis er auðvelt að sjá við þeim þekki maður einkennin, því trixin eru þau sömu og aðferðir afar fyrirsjáanlegar. Gallinn er sá að af því svo lítið hefur verið talað um þessa alvarlegu geðröskun hér á landi vara sennilega fáir / fáar konur sig á manngerðinni.
Talandi um vini: Ég hef þá stefnu að halda í tiltölulega fáa vini (talan 99 er óskatala). Um daginn tók ég til og eyddi uppundir 40 manns af listanum. Þetta var fólk af ýmsu tagi, t.d. fólk sem ég þekkti lítið sem ekkert og hafði aldrei nein samskipti við, fólk sem var að drekkja mér í rósum og leikföngum og öðru FB-drasli, fólk sem skrifaði ótal statusa á dag um æseif eða hneykslisfærslur um hvað þessi eða hinn stjórnmálamaðurinn, leiðtoginn, verkalýðsforinginn eða bara einhver í fréttum þann daginn væri heimskur, spilltur o.s.fr., þ.e. fólk sem virtist hafa einstaklega neikvæða sýn á lífið og vera afar upptekið af því að hneykslast á öðrum. Síðarnefnda hópnum fylgdi síðan iðulega dræsa af kommenterum sem stundum fóru langt langt yfir strikið í skikkanlegri framkomu. Ég hugsaði með mér að ef ég sæktist eftir svonalöguðu gæti ég náttúrlega alveg eins legið yfir fésbókarkommentum við DV “fréttir”, moggabloggum um fréttir eða skítkast kommentera á Eyjunni. Eða lesið DV-blogg. Og af því ég sækist ekki eftir illmælgi sérstaklega þá kastaði ég þessum vinum fyrir róða. Það þýðir hins vegar ekki að það megi ekki minnast á pólitík svo ég sjái á minni FB. Það sem skiptir máli er hvernig það er gert.
Ég var orðin hundleið á að skruna kannski meir en skjáfylli niður fésbókina mína á morgnana til að reyna að finna eitthvað sem mig langaði að lesa eða kommentera við, einhvers staðar innan um draslið. Svo það var grisjað.
Ég hélt eftir fjölbreyttum hópi FB-vina; ættingjum, góðum vinum, fyndnu fólki, fólki sem mér finnst ég eiga eitthvað sameiginlegt með, fólki sem mér finnst gaman að vera ósammála, fólki sem ég þekki í kjötheimum og fólki sem er einstaklega jákvætt og gleður mig oft með jákvæðri lífssýn þótt ég sé ekki sammála þeim um alla hluti. Fólkið sem ég á sitthvað sameiginlegt með er ekkert endilega fyndið, orðheppið eða jákvætt en það er nú vegna þess að margir þeirra hafa sinn djöful að draga. Það fólk er raunsætt og gefur mér mikið.
Ein fyrrum FB-vinkona mín (sem mér fannst sjálf oft skemmtileg en þessi kommenterahirð í kringum hana hefði gert dýrling að grátkonu eða púka!) benti á að maður gæti “falið” vini sem maður vildi ekki sjá stöðuuppfærslur frá. Þeir sem eiga yfir þúsund vini, jafnvel mörg þúsund, hljóta að grípa til einhverra svoleiðis ráða. Þetta að “fela” vini minnti mig svolítið á óhreinu börnin hennar Evu. Átti ég að eiga fullan fésbókarskáp af álfum? Mér finnst þetta dálítið óheiðarleg aðferð en sjálfsagt eru margir ósammála mér um það.
En hver sníður sína FB að sínum þörfum. Það þýðir ekkert að vera að væla yfir hvernig FB er, hvort þar séu aðallega sjálfhverfir, úthverfir sjálfsdýrkendur, taugaveiklað, einmana fólk eða að maður geti ekki losnað við fésbókina sína nema brjóta tölvuna. Það þýðir ekkert að væla yfir að maður eigi svo marga vini að aldrei sé neitt bitastætt að finna á fésbókinni manns. Það þýðir ekkert að pósta bréf út og suður til að tilkynna einhverju fólki að það geymi óæskilegan vin í sínu vinasafni. Það eina sem maður getur gert er að passa sína eigin FB, velja sér sína eigin vini og leyfa öðrum að lifa sínu FB lífi eins og hverjum og einum finnst réttast.
Alveg eins og maður passar sitt eigið blogg og sinn eigin tölvupóst. Af hverju ætti annað að gilda um Facebook?
Pingback: » Íslenska umræða: Lítil eru geð guma Erling Ólafsson
hvar lækar maður þetta?
Tja … þetta er náttúrlega blogg og verður því ekki lækað 🙂 Hefði og haldið að einhvern langaði að læka færsluna á undan þessari … en það er ekki heldur hægt. Athugaðu að þetta er blogg en ekki mogga-FB-eftirlíking-af-bloggi eða dv-OMG-eftirlíking-af-bloggi o.s.fr. og yfirleitt er ekki hægt að læka á annað en eftirlíkingar.
Pingback: Álfasaga, hommar og unglingaþýðingar « Málbeinið