Geð, sál, líkami, staðalímynd

Ég ákvað að hverfa til upphafsins og blogga af fingrum fram, örsnöggt … eins og í gamla daga … vangaveltur en ekki heimildablogg.

Undanfarið hef ég verið að reyna að fá einhverja yfirsýn yfir 12 ára sjúkrasögu mína, kannski öllu heldur yfirsýn yfir “lækningasögu” þessarar löngu þrautagöngu. Af því stór hluti þessara ára er í blakkáti og minnistruflanir hrjá mig töluvert reyndi ég að fara skipulega gegnum sjúkraskýrslur, setja upp aðalatriðin í töflu og fletta svo upp frekari upplýsingum á eigin bloggi (sem kemur í ljós að er ómetanleg gagnageymsla).

Ég er sosum ekki komin að neinni niðurstöðu ennþá, á eftir að vinna úr skipulegu töflunni. En mig langar að setja fram tvær tilgátur sem ég á eftir að skoða hvort standist: Geðlækningabatteríið virðist í fyrsta lagi greina sál frá líkama og í öðru lagi byggja á eigin kennisetningum fremur en veikindum sjúklings. Þessar bráðabirgðaniðurstöður komu mér mjög á óvart. Fyrirfram bjóst ég við að sálfræðingar væru kannski frekar á vængnum “sál” versus “líkami” en læknismenntaðir litu frekar á heildina. (Til að rugla mann í ríminu er í tísku að hampa sálfræði sem raunvísindum, þ.e. leggja ofuráherslu á tækni í sálfræðimeðferð, yfirleitt byggðri á atferlisfræðum einhvers konar. Einblíning á HAM (og afleiður, s.s. DAM) nálgast áherslur hörðustu sporatalibana á skýrslutæknivinnuna í tólf spora vinnu.  En sálfræðimeðferð er annars ekki til umræðu í þessari færslu.)

Eftir þeim upplýsingum sem finna má í sjúkraskýrslum um mig að dæma virðist óþol fyrir lyfjum hafa skipt litlu máli ef um var að ræða möguleika á að lækna þunglyndið með lyfjum. Þótt komi fram að ég sé með stöðugan handskjálfta eða líði einhvern veginn frekar illa af lyfjum skal samt gjörprófað hvort þau geti læknað þunglyndið. Dæmi um slíkt er Lítíum, sem ég át árum saman. Af hverju ég var sett á Litíum er mér ekki ljóst því sú sjúkdómsgreining sem væntanlega lá til grundvallar var ekki kynnt mér fyrr en mörgum árum síðar en virðist hafa verið tilgáta sem lengi var haldið til streitu. Fyrir þeirri tilgátu eru engin rök. Það virðist sem sagt ekki hafa skipt miklu máli þótt ég gæti illa spilað á píanó, ætti erfitt með hannyrðir (skjálfhentar prjónakonur ættu að geta sett sig í þessi spor) eða almennt og yfirleitt hafi mér liðið illa á þessu lyfi. (Ég get tekið miklu meir krassandi dæmi af lyfjagjöf og aukaverkunum en Lítíum er ágætt svona vægt meðaldæmi, gerði mig ekki sérlega veika en mér leið illa á því árum saman og það truflaði hvunndaginn, “minnkaði lífsgæði” myndi geðlækningafrasinn hljóma.)

Svona eftir á séð finnst mér merkilegt að “líkamlegar” aukaverkanir hafi ekki þótt skipta neinu sérstöku máli af því markmiðið var að lækna “geðsjúkdóm”. Þetta kannast auðvitað margir geðsjúklingar við: Fólk er látið gadda í sig SSRI-lyfjum þótt því sé pínulítið flökurt alla daga, kynhvötin hverfi og alls konar leiðindi fylgi með. Svo versnar í því þegar lækninum dettur í hug að prófa eldri lyf eða lyf sem eru alls ekkert ætluð við akkúrat þeim sjúkdómi sem sjúklingurinn er haldinn o.s.fr.

Sem stendur, í minni athugun,  finnst mér því ofuráhersla geðlækningabatteríisins á að finna lyf sem læknar geðsjúkdóm eða heldur honum niðri burtséð frá því að sjúklingnum líður bölvanlega á þessu lyfi benda til þess að í geðlækningum sé alls ekki horft á líkama og sál sem heild. Þar á bæ er til eitthvað sem heitir “geð” og á að lækna. Ef eitthvað annað gengur úr skorðum við þessar lækningatilraunir verður bara að hafa það. (Öfgarnar á hinn veginn eru að greina alls ekki milli líkama og geðslags. Það sést þegar öfgafólki í líkamsrækt og lyfjaandstöðu dettur í hug að mikil kroppatamning, helst hlaup, geri líkamann óheyrilega frískan og komi þá einnig í veg fyrir geðsjúkdóma; Að “mens sana in corpore sano” sé óumdeild staðreynd sem ekki þurfi að ræða meir.)

Að greina svo skýrt milli sálar/geðs og líkama eins og gert er í lyfjagjöf eða raflækningum geðlæknisbatteríisins væri kannski ásættanleg afstaða ef tækist alla jafna að lækna geðsjúkdóma á auðveldan hátt með lyfjum. En í mínu tilviki (og margra) hefur það hreint ekki tekist. Og þrátt fyrir stöðugt Lítíum-át á árum áður ýmist versnaði mér eða batnaði, líklega algerlega ótengt þessu lyfi. Fyrstu árin fékk ég stök þunglyndisköst en lagaðist á milli. Þau voru tilviljanakennd, þ.e. ekki bundin árstíma eða aðstæðum. Svo fjölgaði þunglyndisköstum á hverju ári, þau stóðu lengur og nú er svo komið að mér hefur ekki batnað neitt að ráði í meir en ár. Allskonar lyfjakokteilar hafa litlu breytt um þetta.

Hitt sem ég tel mig hafa tekið eftir er að ég uppfylli ekki kennisetningar eða staðlaða ímynd geðlækningabatteríisins um þunglyndissjúkling. Staðlaða myndin virðist vera sprottin úr bókmenntum, svei mér þá! Þótt búið sé að hanna allslags kóða og greiningarlykla fyrir þunglyndi, sem meðferð er síðan miðuð við að einhverju marki, er grunnhugmyndin enn gamla melankólían og heimshryggðin. Líklega á hinn góði þunglyndissjúklingur að hnípa þegjandi úti í horni með tárvota vanga og svartsýnina skínandi úr hverjum andlitsdrætti.

Mín ógæfa (þegar kemur að hlutverki hins staðlaða geðsjúklings) er af þrennum toga.

Í fyrsta lagi sný ég öfugt (í þessu eins og öðru), þ.e.a.s. líður skást á morgnana en verst seinni part dags og á kvöldin. Sjúklingaviðtöl á geðdeildum eru ævinlega á morgnana. Og raunar hitti ég geðlækninn minn líka ævinlega á morgnana. Eðlilega (fyrir mig) er ég með hressasta móti akkúrat þá. Ég man eftir að hafa hitt einn sjúkling sem snéri eins og svo lesið um annan, í Sýnilegu myrkri. Alla jafna er upplitið á öðrum þunglyndissjúklingum á geðdeild voðalega trist á morgnana, sömu sjúklingar eru svo þokkalega hressir að horfa á sjónvarp á kvöldin. En ekki ég. Þess vegna er ég oft “kvótuð” sem “hress” eða “glaðleg” í þessum skýrslum. Líka þegar ég hef verið fárveik. Enda eru fáir til vitnis um annað því starfsfólkið er náttúrlega flest að sinna sjúklingum sem eru frammi og ég hef yfirleitt dregið mig í hlé eftir kvöldmat (sem á spítölum er kl. 17.30). Geðlæknirinn minn hefur ekki séð mig síðla dags í um áratug.

Í öðru lagi hverfur mér ekki mál nema fárveikri og þá seinnipartinn og á kvöldin. Ég hafði atvinnu af því í aldarfjórðung að tala, tala og tala, allan daginn, ýmist ein upp við töflu/kennaraborð eða vafrandi milli vinnandi nemenda eða á kennarastofu (venjulegar kennarstofur líkjast talsvert fuglabjargi). Og eiga stanslaus samskipti við uppundir hundrað manns á hverjum degi. Þetta skilja allir framhaldsskólakennarar. En í vöktun á geðdeildum er það að blanda geði við aðra sjúklinga, t.d. taka þátt í samræðum, eða eiga sæmilega auðvelt með að tjá mig á skýran og skilmerkilegan hátt á morgunfundum, talið merki þess að ég sé hreint ekki svo mjög veik.

Og í þriðja lagi vann ég svo lengi svo veik að ég er sérfræðingur í að setja upp grímu, reyna að líta út eins og normal manneskja og akta normal fram í rauðan dauðann. Man ennþá þegar niðurstaða úr einhverju mati nemenda á mér var nær einróma sú að ég væri sérstaklega glaðlyndur og skapgóður kennari. Þá þurfti ég að hafa mig alla við að mæta í vinnuna og lagðist örskömmu síðar inn á geðdeild. Önnur ástæða fyrir því að ég kann afar illa við að gráta fyrir framan aðra eða bera harminn sem skikkju er að í ákv. kreðs sem ég hef stundað í meir en tvo áratugi eru manni kennd ýmis trix til að komast í gegnum daginn. Meðal þeirra verkfæra eru “Fake it till you make it” og svo náttúrlega að “taka Pollýönnu á’etta”.

Þannig að ég fell illa að hinu harmræna þögla lúkki og hollingu sem er staðalímynd þunglyndissjúklings meðal þeirra sem vinna við geðlækningar og geðhjúkrun.

Af reynslu og af þeim gögnum sem ég hef verið að skoða undanfarið virðist það hvað sjúklingurinn segir um eigin líðan ekki skipta nærri eins miklu máli og hve vel hann fellur að fyrirfram tilbúinni staðalímynd. Tilbúnar óumbreytanlegar kennisetningar um hvernig þunglyndissjúklingur skuli líta út og bera sig ráða ríkjum í geðlækningabatteríinu. Þetta er í rauninni enn verri brennimerking en þunglyndissjúklingur eins og ég finnur fyrir frá venjulegu fólki í umhverfi sínu.

Þetta eru ennþá bara tilgátur. En ég er ansi hrædd um að þær standist og verði enn skýrari þegar ég hef skoðað þetta betur. Sérstaklega verður áhugavert að skoða hvernig lyfjagjöf, líðan og sjúkdómsmynstur falla saman (öllu heldur er tilgátan sú að þetta falli alls ekki saman) og velta fyrir sér rökunum fyrir lyfjagjöfinni.

One Thought on “Geð, sál, líkami, staðalímynd

  1. Kjære Harpa, jeg må si at jeg har lest bloggen med en uforbeholden gratulasjon til deg. DU HAR JO SKJØNNT DET PSYKIATRISKE PLOTT. De er der jo for seg selv og sine egne lidelser, det er bare flax hvis noen i det hele tatt blir friske. Samme om en tar innsatte eller ansatte. Ja det er kanskje ikke alle ansatte på lavere nivå.
    Jeg merker meg at du oppfattes ikke akkurat som en tradisjonell depresjonspasient med tårvote kinn ute i kroken. Du står frem helhjertet med all din kampvilje og nysgjerrighet, og åpent og ærligt vil du finne ut om det finnes noe som kan lege/ helbrede. Bipolar I eller II er det nyeste navnet på depressjon og er mer i likhet med hvordan “you seems to me” ikke hvordan du ser ut men hvordan du oppfattes av meg, med kropp og sjel. En hver celle i kroppen har sjel, de er ikke bare i hjernen Det er nå min erfaring. Har du forresten sett hjemmesiden hos

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Post Navigation