Elstu varðveittu prjónastykki í Evrópu tengjast flest kaþólsku kirkjunni enda rík stofnun og voldug. Meðal þess sem elst er talið af varðveittu prjónlesi eru sex skjóður sem taldar eru hafa geymt helga dóma, þ.e.a.s. einhverjar líkamsleifar dýrlinga.
(Myndin til vinstri er af Chur-skjóðunni og krækir í stærri mynd. Hér má sjá myndir af endurgerðri skjóðunni og einnig hér. Litum hefur verið breytt í seinna dæminu um endugerð og skjóðan er ranglega kennd við Sion.)
Svissnesku skjóðurnar eru taldar frá fjórtándu öld og svo líkar eru þær að þær eru taldar af sama uppruna. Fimm þeirra fundust í dómkirkjunni í Sion (Sitten) en ein í dómkirkjunni í Chur. Sion er í vesturhluta Sviss en Chur er í austurhluta landsins.
Hver skjóða er prjónuð í hring úr fínspunnu silkigarni. Prjónið er slétt tvíbandaprjón. Prjónafesta er um 7 lykkjur á sentimetra.
Skjóðurnar eru ferhyrndar og á bilinu 20,5-34 cm langar, 16-26 cm á breiddina. Þær eru saumaðar saman í botninn sem skreyttur er 9-15 löngum skúfum. Opið er dregið saman með löngum streng með dúskum/skúfum á hvorum enda. (Svarthvíta myndin til hægri er af einni skjóðanna sem fundust í Sion. Litla myndin krækir í stærri mynd.)
Sjá má skannaðar myndir af öllum skjóðunum úr bók Richards Rutt, A History of Hand Knitting, á síðunni Medieval Knitting Notes. (Þar eru þær sagðar frá 13. öld en Rutt telur þær ekki alveg svo gamlar.) Endurgerðir þessara skjóða má m.a. sjá hér, hér og hér.
Hér er grein um fléttuðu strengina á þessum skjóðum.
Einnig hefur fundist prjónuð skjóða í dómkirkjunni í Sens í Frakklandi, líklega frá þrettándu eða fjórtándu öld. Hún er talsvert ólík svissnesku skjóðunum, er t.d. miklu minni og virðist mega greina letur efst á henni. Skjóðunni er skipt í fjóra fleti með strautböndum. (Krækt er í mynd af skjóðunni frá Sens.)
Þessa bloggfærslu má einnig finna á vefnum Saga prjóns sem ég vinn alltaf öðru hvoru í þótt hægt gangi. |
Smelltu á myndina til að opna pdf-skjal með munstrinu af Chur-skjóðunni. Litirnir í munstrinu samsvara greiningu Richards Rutt. Smelltu á myndina til að opna pdf-skjal með munstrinu af einni af Sion-skjóðunum. Litirnir í munstrinu samsvara greiningu Richards Rutt. |
Heimild fyrir utan efni á vef sem er krækt í:
Rutt, Richard. 1989. A History of Hand Knitting. Interweave Press, Colorado 1989 (fyrst gefin út 1987), s. 50-52
Ætli verði ekki hægt að leggja þessa færslu út sem ísmeygilega gagnrýni á ýmsa sértrúarsöfnuði og sömuleiðis sýna hversu höfundur er hallur undir kristindóm úr því hún lætur sér sæma að blogga um hluti sem tengjast kaþólsku (hrollur) kyrkjunni? Og það án þess að orði sé eytt að voðaverkum ýmissa kyrkjunnar manna? Verður ekki sömuleiðis að hafa einn eða tvo broskalla til að ekki birtist langur athugasemdapistill á bloggum nokkurra valinkunnra sómamanna sem telja sig eiga undir högg að sækja og andstæðingana galna?
Hm … líklega er þetta rétt hjá þér, Þorvaldur lyftustjóri. Best að strá broskörlum yfir færsluna um biskupssokka sem er í farvatninu … og þá næstu sem má ætla að verði um biskupshanska. Og svo verður prjónaður kyrtillinn Jesúsar rifjaður upp fyrir páska um leið og nýmælin um að hann hafi í rauninni verið nálbrugðinn (nýmælin eru að ég er nýbúin að komast að þessari nálbrugðnu hugmynd). Muna sumsé broskarlasáld svo þrettándi postulinn fari ekki á límingunni 😉
Býsna magnað handverk. Svakalegir hippar hafa þessir miðaldamenn verið – ég hélt fyrst að þetta væri kögurskjóðan sem Janis Joplin átti.:-)
P.S. Biskupssokkar – OMG! Hvers konar sokkum ætli næsti biskup klæðist? Nælonsokkum?
Er að hugsa um að prjóna svona undir veraldlegt góss.
Össs (til að vitna í suma), Harpa mín. Vekur ekki goðagremi að geyma góss af þessum heimi í svo helgiættuðum pokum?