Ég nenni bara alls ekki að blogga, kannski vegna veðurs og sólbaða, kannski vegna óhóflegs magns af morðsögum og öðrum litteratúr, kannski vegna einhvers annars … Ætli sé ekki best að lýsa yfir sumarfríi á blogginu og halda áfram að iðka letina.
Hinn hluti fyrirsagnarinnar, ómennskan, á ekki við mig sjálfa í augnablikinu því ég lifi einstaklega hollu og reglusömu lífi akkúrat núna (eiginlega tilneydd því ef ég hef ekki sérstaklega fyrir því á hverjum degi að láta mér líða sem skást verður dagurinn heldur klénn). Mér dettur hins vegar oft ómennska í hug þegar ég skruna niður umræðuþræði á netmiðlum og stöku bloggi – sem betur fer hef ég þó oftast vit á að lesa ekki svoleiðislagað. Og umræðan um frambjóðendur í forsetakjöri er löngu komin út yfir öll velsæmismörk! Þeim rógnum og illmælginni ætti að linna eftir morgundaginn. En ætli gargendur finni sér þá ekki annað áhugamál til að garga yfir í stafræna tóminu. Og hollast að halla sér að uppdiktuðum morðum í sínum Kindli.
Það ganga inflúensur á veturnar og bloggleti á sumrin, ég kannast við það. Svo er ég strax farin að hlakka til næstu kosninga. Eða þannig.