Þennan fingravettling átti Svíinn Sten Svantesson Sture. Hann var af stórmennum kominn því faðir hans var Svante Stensson Sture, ríkismarskálkur, greifi, fríherra og á tímabili landstjóri yfir Eistlandi. Svante var og vinur konungs, Eiríks XIV, en því miður var sá kóngur geðveikur, talinn hafa þjáðst af geðklofa, og vó Nils Svanteson, bróður Stens í brjálæðiskasti. Menn konungs drápu föðurinn, Svante, og annan bróður, Erik Svantesson, við sama tækifæri. (Eiríkur XIV Svíakonungur kemur reyndar líka við prjónasögu Svíþjóðar því hann er talinn fyrstur Svía hafa eignast prjónaða sokka, árið 1562. Sokkarnir voru enskir, prjónaðir úr silki og rándýrir.) Eiríkur konungur má eiga það að hann iðraðist þessa óhæfuverks ákaflega þegar af honum bráði.
Móðir Stens Svantessonar Sture var Märta Erikdotter Leijonhufvud. Hún var systir drottningar Svíþjóðar á tímabili, þ.e. Margaretu Eiriksdotter Leijonhufvud, sem hafði raunar upphaflega verið trúlofuð Svante Stensson Sture en Gústaf konungur Vasa sleit trúlofuninni og kvæntist Margaretu sjálfur. Svante fékk eiginlega Mörtu í staðinn. Marta þessi var kunn að stórmennsku, eignaðist 15 börn með Svante sínum, sá iðulega ein um börn og bú því Svante var mikið að heiman og hlaut viðurnefnið Marta konungur af sínum skörungsskap. Í anda sumra kvenhetja Íslendingasagna varðveitti hún blóðug klæði feðganna og lét koma þeim fyrir í skreyttri járnkistu í grafhvelfingu Sture fjölskyldunnar í dómkirkjunni í Uppsölum. Því miður hefur dálítið verið rutlað með klæðin síðan og hluta þeirra stolið í aldanna rás en það sem eftir er þykir mikilvægur skerfur í klæðasögu Svía
Sture drápin voru framin 24. maí 1567. En þá hafði eigandi fingravettlingsins verið látinn í tvö ár. Sten Svantesson Sture var nefnilega skipherra á herskipi konungs og féll í sjóorustu við Rügen 1565, 21 árs að aldri. Einhverjum fötum hans var einnig komið fyrir í járnkistunni, þ.á.m. þessum fingravettlingi. Hann var upphaflega nældur við skipherrahattinn hans Stens en hattinum hefur fyrir löngu verið stolið.
Fingravettlingurinn er prjónaður úr silkigarni og gullþræði. Prjónafestan er um 9 lykkjur á sentimetra. Upphaflega voru litirnir í munstrinu gulur, grænn og appelsínugulur og grunnurinn skarlatsrauður (að sögn Agnesar Gejer) en sumir litirnir hafa upplitast mjög (mér finnst reyndar þessi staðhæfing Gejer um „karmosinröd botten“ tæplega geta staðist). Á vísifingri, baugfingri og litlafingri eru prjónaðir hringir úr gullþræði. Orðin „FREVCHEN SOFIA“ eru prjónuð í hring um miðjan vettlinginn (segir Agnes Gejer, Richard Rutt og Nancy Bush segja þessi orð prjónuð yfir lófann). Handarbreidd er 7 cm og vettlingurinn er 17 cm langur. Það er mjög lítill vettlingur og þess vegna giska menn á að Sofia þessi hafi átt hann því hann geti ekki hafa passað á Sten. Sjá má stærri mynd af vettlingnum með því að smella á myndina sem fylgir færslunni.
En hver var Sofia? Til þessa hafa menn talið að þetta hafi verið einhver þýsk stúlka (fröken Soffía sem sagt) sem hafi verið trúlofuð Sten Svantesson Sture og fingravettlinginn hafi hún sjálf prjónað og gefið Sten í tryggðapant. Nýverið hefur svo verið sett fram sú kenning að „frevuchen“ hafi á sextándu aldar sænsku þýtt prinsessa. Þessi kenning er eignuð Lise Warburg, mjög frægri danskri veflistarkonu sem jafnframt hefur skrifað talsvert um textílsögu – í hana vitnar Nancy Bush í grein um hanska í tímaritinu Knitting Traditions 2010. Ég hef því miður ekki komist yfir frumheimildina.
Af frásögn Nancy Bush af því sem Lise Warburg heldur fram má ráða að Sofia sé engin önnur en Sofia Gustavsdotter Vasa, dóttir Gústafs Vasa Svíakonungs og Margaretu Eiriksdotter Leijonhufvud. Sofia Vasa var þremur árum yngri en Sten Svantesson Sture og skv. þessu voru þau trúlofuð þegar Sten féll. Þremur árum síðar giftist hún dusilmenninu Magnúsi II hertoga af Sachsen-Lauenburg, fyllibyttu sem lagði margoft hendur á hana og var ömurlegur eiginmaður. Magnús þessi var bróðursonur fyrri konu Gústafs Vasa, sem sagt ekki skyldur Sofiu en nátengdur fjölskyldu hennar. Jóhann III Svíkonungur, sem tók við þegar Eiríkur XIV var settur af vegna geðveiki (og seinna myrtur með arseniki), var albróðir Sofiu og rak Magnús hertoga úr landi þegar þau Sofia höfðu verið gift í tíu ár. Eina son sinn missti hún ungan af voðaskoti. Eftir það bjó hún ein til dauðadags en hún lést 64 ára að aldri. Hún varð sinnisveik á sínum hjónabandsárum og jafnaði sig aldrei. Sofia hefur verið sögð „óhamingjusamasta barn Gústafs Vasa“ – líklega hefur hún mornað og þornað og aldrei táð tanna frá því fullorðinsaldri var náð. Sjá má yfirlit yfir æviferil Sofiu hér.
Kenningin er skemmtileg en í fyrsta lagi finnst mér allt eins líklegt að „freuvchen“ hafi verið þýska orðið yfir fröken og í öðru lagi má benda á að þau Sten Svantesson Sture og Sofia Gustavsdotter Vasa voru systrabörn og spurning hvort hjónaband þeirra hefði verið löglegt í Svíþjóð á sextándu öld?
En hvort sem einhver þýsk frauka að nafni Sofia eða Sofia Svíaprinsessa prjónaði og átti þennan fingravettling er þetta fallegur vettlingur. Hann er með elsta prjónlesi sem varðveist hefur í Svíþjóð.
Heimildir aðrar en krækt er í úr texta:
Bush, Nancy. 2010. „Romantic Gloves“ í Knitting Traditions 2010;
Gejer, Agnes. 1964. Textila skatter i Uppsala domkyrka från åtta åhundraden;
Rutt, Richard. 1987. A History of Hand Knitting.