Réttlætir tjáningarfrelsi einelti?

Nornahamar fem�nistaUndanfarna daga hafa netheimar logað eins og oft gerist og kveikjan er að þessu sinni Hildur Lilliendahl eins og oft gerist.

Upphaf máls í þetta sinn var að Fr. Lilliendahl var talin ein af áhrifamestu konum landsins skv. víðlesnu kvennablaði. Í umræðuþræði við frétt af þeirri upphefð skrifaði maður nokkur ósmekkleg skilaboð gegnum fésbókina sína; skilaboð þar sem hann grínast með að keyra yfir Hildi (ég tek glottmerkið sem svo að þetta hafi átt að vera grátt gaman eða einhvers konar vantrúarkaldhæðni) og storkar henni síðan til að birta þessi ummæli í víðfrægu albúmi sínu yfir karla sem ku hata konur. Hildur tók auðvitað umsvifalaust skjámynd af skilaboðunum en lét ekki duga að koma þeim bara fyrir í albúminu sínu heldur birti úrklippuna á fésbók.

Það varð til þess að einhver gerði símaat í sambýlismanni Hildar Lilliendahl og símaatið varð umsvifalaust að frétt: Úrklippan af smekklausu skilaboðunum fylgdi fréttinni. Nú er alls óvíst hvort sami maður og skrifaði fésbókarummælin stóð einnig fyrir símaatinu en tilefni atsins var úrklippan með smekklausu ummælunum. Um leið og fréttin af því að gert hefði verið símaat í sambýlismanninum út af smekklausu ummælunum birtist linkuðu rétthugsandi femíniskir fésbókarnotendur í fréttina og ýmis ósmekkleg ummæli í garð smekklausa-ummæla-mannsins mátti sjá við svoleiðis linka.

Hið næsta sem gerist er að Facebook lokar aðgangi Hildar Lilliendahl í fjórða sinn. Það er í sjálfu sér ekkert sérlega dularfullt því Hildur Lilliendahl braut notendaskilmála Facebook í fjórða sinn. Það er nefnilega óheimilt að birta skjáskot af ummælum annars Facebook-notanda nema með skriflegu leyfi þess notanda. Umsvifalaust birtast fréttir á netmiðlum um að aðgangi Hildar Lillendahl hafi verið lokað í fjórða sinn, menn fara mikinn og kalla þetta pólitískar ofsóknir (af hálfu Facebook væntanlega) og aðför að tjáningarfrelsinu o.s.fr. og meðfylgjandi eru birt smekklausu ummælin sem Hildur Lilliendahl tók skjámynd af, klippti til og birti. Rétthugsandi femíniskir fésbókarnotendur deila nú þeim fréttum ákaft og ýmis ósmekkleg ummæli í garð smekklausa-ummæla-mannsins og Facebook má nú sjá við svoleiðis linka.

Bloggarinn ágæti, Eva Hauksdóttir, sem er nýbúin að blogga skemmtilega færslu um nornabrennur, kyndir nú undir einni slíkri í færslunni Verjum tjáningarfrelsi Hildar Lilliendahl. Í þeirri færslu er að sjálfsögðu birt skjáskot af smekklausu ummælunum – svona ef það skyldi hafa farið framhjá einhverjum – og Eva hefur skrifað, hringt og efnt til undirskriftasöfnunar, allt til að verja rétt Hildar Lilliendahl til að brjóta reglur þess amríska umræðuvettvangs Facebook. Og auðvitað linka réttsýnir femíniskir fésbókarnotendur í bloggið Evu og deila á sínum fésbókum og ýmis ósmekkleg o.s.fr.

Einhverjir eru búnir að fletta upp ósmekklega skilaboðamanninum í þjóðskrá og aðrir hafa flett honum upp á ja.is. Það er bara tímaspursmál hvenær einhverjir rétthugsandi tjáningarfrelsiselskendur færa sig úr sýndarheimum í kjötheima, henda grjóti í hús mannsins, teppa símann hans með hótunum, velta honum upp úr tjöru og fiðri eða þaðan af verra. Skjáskotið af ummælum hans lifir áfram víða á vefnum. Líklega er heppilegast fyrir hann að sækja um nafnbreytingu eða flytja úr landi úr því sem komið er: Skömm þessa manns verður uppi meðan netheimar byggjast.

Hildur Lilliendahl er Pussy Riot Íslands, hlutskipti hennar er jafnvel líkt við við aðstæður rithöfundarins Salman Rushdie eða pakistönsku stúlkunnar Malala Yousafzai. Hildur sætir jafn ómaklegum ofsóknum og þau fyrir skoðanir sínar: Ósmekklegum fésbókarummælum, símaati og fésbókarlokun! Eða eins og einn aðdáandi hennar orðar það:

Hins vegar ef við notum eitthað [svo] hlutlægt mat á hvað hetja er þá væri það einmitt einhver sem stendur á sinni sannfæringu samkvæmt sinni réttlætiskennd, þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir til skoðanakúgunar, þöggunar og hótanir um líkamsmeiðingar og skemmdarverk. Ég fæ ekki séð hver munurinn er á Hildi í þessu sambandi og Salmon [svo] Rushdie eða Malölu, Rushdie var aðeins hótað, líkt og Hildi, er hann ekki bara paranoid?

Réttsýnir og rétthugsandi netnotendur munu væntanlega halda áfram að úthrópa manninn sem var svo vitlaus að skrifa ósmekkleg fésbókarskilaboð um Hildi Lilliendahl og leggja sitt af mörkum til þess að Fr. Lillendahl megi brjóta reglur Facebook vegna þess að málstaður hennar er svo göfugur. Ég hugsa að hinir réttsýnu og rétthugsandi séu fjarskalega mikið á móti einelti á netinu en finnist í þessu tilviki í góðu lagi að leggja sjálfir smekklausa skilaboðamanninn í rækilegt óafturkræft einelti … allt er eineltið jú í þágu hins góða málstaðar.

29 Thoughts on “Réttlætir tjáningarfrelsi einelti?

  1. Helgi Ingólfsson on October 29, 2012 at 21:40 said:

    Æ, Harpa mín, ertu ekki að þræða stórhættulegt jarðsprengjusvæði, þegar þú gagnrýnir það sem bæði feministar og andfeministar eru sammála um?

    Þrátt fyrir allt havaríið og húllumhæið veit ég ekki um neinn, sem vill skerða tjáningarfrelsi blessaðrar stúlkunnar. Þvert á móti veit ég um fáar sem eiga jafn greiðan aðgang að netmiðlum og hún. Nema Evu Hauksdóttur, auðvitað, svo að þú verður að fara extra varlega í gagnrýnina. Ýmsir virðast telja allt í lagi að virða að vettugi reglur, ef málstaðurinn er nógu göfugur eða þannig. Finnst þér ekki ljótt af kennara að sussa á nemendur í kennslustund og biðja þá að hafa hljótt? Eru slíkar reglur ekki bara augljóslega ranglátar og asnalegar, ef blessuðum skinnunum liggur svo mikið á hjarta?

    Æ, annars, hvað er ég sosum að tjá mig – ég sem sjálfur hef mátt sæta alls konar þöggunartilburðum. En það er víst enginn hetjuskapur eða róttækni fólgin í því að gagnrýna siðagrunn og vafasama aðferðafræði ofstækistrúleysingja. Þá er nú eitthvað annað að úthúða pungrottum.

    P.S. Hvað er annars „vantrúarkaldhæðni“, sem þú nefnir svo? Er það eitthvert sérstakt form af kaldhæðni, sem sumir mega bara nota, en ekki aðrir?

    P.S.S. Nú, var nýlegur nornabrennupistill Evu ekki í tilefni af atlögunni að háskólakennaranum? Ég hélt að það væri stækasta dæmið um nútímalega tilraun til táknrænnar aftöku.

    P.S.S.S. Hefurðu annars kíkt inn á grefillinn.com nýlega? Hann er stórskemmtilegur þessa dagana.

  2. Form ICBS on October 29, 2012 at 21:46 said:

    Ég get ekki séð að þessari síðu á facebook hafi verið lokað. Hefur hún kannski verið opnuð aftur? http://www.facebook.com/snilldur?ref=pymk&fref=pymk

  3. Fékk að kenna aðeins í dag og sagði sisona við tvær unglingsstúlkur: “Jæja, stelpur mínar, nú skuluðið loka feisbúkk og fara að vinna verkefnið.” Ég sé núna að ég hef náttúrlega verið að skerða tjáningarfrelsi þeirra með óafsakanlegum hætti! Má líklega þakka fyrir að ekki var tekið skjáskot af þessum ummælum …

    Mér er svo sem sama þótt Hildur Lilliendahl baði sig í fjölmiðlaljósi líði henni betur við það og ég hef heldur ekkert á móti Ásdísi Rán eða öðrum þeim kvenpeningi sem sést oft á síðum netmiðla, fjarri því. (Vér Fr. Dietrich styðjum læðurnar, einkum þó gular.) En mér er ekki sama um þá sem stíla inn á hjarðhegðun fávísra og garga upp eineltisstuðið í netheimum, undir formerkjum þess að þeir séu, þegar allt kemur til alls, að verja góðan málstað. Tilgangurinn helgar ekki alltaf meðalið. Bloggfærsla Evu Hauksdóttur, sem ég nefni í þessari færslu, er þessari gáfuðu konu og góða bloggara til skammar.

    Litla fröken Lilliendahl náði að fletta upp einhverjum dómum sem hinn illi kommentari (með gálgahúmorinn) hefur hlotið vegna fíkniefnaneyslu og var aðeins byrjuð að birta úr þeim á sinni Facebook þegar lokað var á’ana í dag, að sögn Evu Hauksdóttur. Eva, sem var á sínum tíma hoppandi yfir óréttlætinu þegar níumenningarnir svokölluðu voru kallaðir fyrir dómstóla vegna skrílsláta, er ekki yfir það hafin að tengja í þessa dóma … kannski til að sýna að kommentarinn sem stríddi Fr. Lilliendahl er skríll? Eða tryggja að mannorð hans verði örugglega troðið ofan í svaðið til frambúðar?

    Svo ég snúi mér að orðskýringum:

    Vantrúarkaldhæðni er vitaskuld það að láta út úr sér einhvern hroða en merkja hroðann með broskarli. Verði vantrúarfélagi hankaður á hroðanum er alltaf hægt að halda því fram eftirá að viðkomandi hafi nú bara verið að grínast og hinir séu asnar sem fatti ekki djókinn.

    Já, ég sá ljómandi skemmtilega plötuauglýsingu inni á greflinum 😉 Lá við að ég óskaði þess að platan kæmi út …

    Legg ekki í að túlka nornabrennupistil Evu akkúrat núna.

  4. Formaður blágrænuþörungavinafélagsins: Síða Hildar er til á Facebook og Hildur getur krækt í hvaða efni á vefnum sem er og skrifað komment með krækjunni. Hún getur líka sent Fb.skilaboð. Hún getur hins vegar ekki skrifað ummæli við færslur annarra og ekki skrifað statusa án krækju í efni á vefnum. (Sem hlýtur að vera rosalegt handikapp fyrir svo vinsæla konu.)

  5. Eydís Hörn on October 29, 2012 at 23:20 said:

    Harpa, þú ert svo glögg að sjá í gegnum orðin. Til dæmis sérð þú í hendi þér að maðurinn meinti ekkert af því sem hann sagði um limlestingar og honum er alls ekki alvara þegar hann biður Hildi um að setja þetta á vegginn sinn (eða einhvern vegg). Er það samt ekki leyfið sem þurfti? Þú ert líka sniðug að flokka fólk, þá veit maður hvar maður hefur það. Rétthugsandi femenismi vefst hins vegar fyrir mér (sennilega af því ég er ekki eins glögg og þú), það hljómar vel en í samhenginu af skrifum þínum er eins og það sé kannski ekki eftirsóknarvert. Geturðu hjálpað mér með þetta?

  6. Björgvin on October 30, 2012 at 00:44 said:

    Ágætis innlegg í umræduna. Ef ég skil thetta rétt thá ertu ad gagnrýna thad ad endurbirta komment sem einhver birti sjálfur á netinu. Thar er ég ósammála og ef einhver setur eitthvad á netid fyrir althjód ad sjá finst mér bara ekkert ad thví ad endurbirta thad. Hins vegar finnst mér ótharfi ad úthúda thví sama fólki og jafnvel hóta theim limlestingum (thegar thad var málid ad gagnrýna thannig framkomu).

    Varast skal ad grínast í netheimum thví hver og einn veit ad skrif geta audveldlega misskilist og sérstaklega thegar um er ad ræda ókunnuga einstaklinga sem eru ad gera “grín” á annarra manna kostnad.

    Ég gæti t.d. túlkad glottmerkid sem ögrun… en vid gætum talad um thad í allan dag hvad thetta blessada glottmerki hafi táknad án thess ad komast ad hinni sönnu nidurstödu. Hvad ef ég set glottmerki á eftir naudgunarhótun? Er naudgunarhótunin thá í gamni gerd og their sem kippa sér upp vid hana thá ad gera úlfalda úr mýflugu?

    Og spurning hvort thessi madur hafi ekki verid ad leggja Hildi í einelti? Ég hef nú séd fleiri dæmi um thad ad fólk leggi Hildi í einelti. Má hún ekki vekja athygli á thví? Erum vid ekki öll á móti einelti í hvada mynd sem hún sýnir sig? Er thad einelti ad sýna fram á hvernig adrir leggja í einelti? Er thad einelti ad neita ad vera í thöggunarleik?

    Vid erum samt sammála um thad ad mér finnst heldur ekki ad fólk eigi svo ad ofsækja thessa menn med hótunum eda illum kommentum – thrátt fyrir ad thad er thad sem thessi madur sem er til umrædu núna gerdi á hlut Hildar (og fleiri). Veit ekki betur en hinir thessu sömu menn halda uppi áframhaldandi einelti í gard Hildar… en á hún ad láta thad vidgangast og halda thví út af fyrir sig en ekki vekja athygli á thví í samfélaginu?

    Er thad eingöngu í lagi ad vekja athygli á einelti thegar um er ad ræda börn sem hafa svipt sig lífi? Smá útúrdúr…

  7. Hildur on October 30, 2012 at 02:13 said:

    Fyrirgefðu, ég nenni ekki að lesa nema svona fjórðung af þessu en
    a) hvað áttu við með að ég hafi ekki látið duga að setja hann í albúmið heldur sett hann á Facebook? Það kom, þér til upplýsingar, aldrei til greina að setja hann í albúmið – enda ekki um neitt svona generalt kvenhatur að ræða heldur persónulega morðhótun.
    b) Hvernig dettur þér í hug að þessi birting hafi orðið til þess að það var gert „at“ í símanum heima hjá mér? Ég hef ekki tengt þetta tvennt saman og hef faktískt aldrei haldið að þetta tengdist.
    c) at? Rilí? Nú myndi ég ekki kalla það símaat þegar fullorðið fólk hringir heim til fullorðins fólks til þess að hafa í hótunum en to each their own. Kannski er þetta eitthvað sem þú dundar þér við á síðkvöldum þegar þig vantar eitthvað til að flissa yfir. Fyrir sumum okkar er þetta bara áreiti/ofsóknir/einelti/hótanir. Og fokking óhuggulegt þar að auki.

    d) Á öðrum stað sá ég þig tjá þig um það í kvöld að ég hefði óskað eftir því að ritstjóri yrði laminn. Í öll skiptin sem þú hefur rætt þessa tilvitnun í mig (þau skipti eru ca. 20.000) hefurðu gefið til kynna á einn eða annan hátt að mér þyki eðlilegt að fólk sé beitt líkamlegu ofbeldi, fremur en að þetta séu hálfkæringsviðbrögð sett fram í mikilli reiði af lesanda til höfundar.

    Í öll skiptin hefurðu líka alveg látið undir hælinn leggjast að nefna að umrædd orð voru viðbrögð við fullyrðingu ritstjórans um að tiltekin stétt (karla) fengi meira að ríða en aðrar vegna þess að hún hlustaði ekki á neitun.

    Eða með öðrum orðum; kennurum tekst að fá rosalega mikið á broddinn af því að þeir hika ekki við að nauðga. Þannig græða þeir voðalega mikið.

    Það var inntakið í orðum ritstjórans sem ég brást við með orðunum; nennir einhver að lemja hana?

    En flott að þér þótti eðlilegt að taka mínum viðbrögðum hátíðlega og láta eins og Hlín hefði hvorki agíterað fyrir kynferðisofbeldi né gert lítið úr körlum, konum eða kennurum.

    Til hamingju með að vera málefnaleg.

  8. Hildur on October 30, 2012 at 02:45 said:

    P.s. Litla fröken Lilliendahl? Ertu í alvöru? Líður þér svona illa yfir því að vera 25 árum eldri en ég eða hvur andskotinn er í gangi? Hvers vegna langar þig til að gera lítið úr mér?

    Ég nenni ekki einu sinni að fara yfir rangfærslurnar í þessu áframhaldi sem ég slysaðist til að lesa. Þú ert illa innrætt.

  9. Helgi Ingólfsson on October 30, 2012 at 08:01 said:

    Sko Harpa! Hvað sagði ég ekki? Espar upp erkifeministann! Svo er blessuð stúlkan svo uppfull af reiði að hún tekur ekki einu sinni eftir því sem þú ert í reynd að gagnrýna varðandi lokunina, þ.e. að lokunin tengist ekki skerðingu tjáningarfrelsis, heldur einföldum reglum – svona “I accept”-dæmi. En hún, verandi erkifeministi, ræður auðvitað hvað telst málefnalegt og hvað ekki, ekki satt? Og svo þurfa prímadonnur víst ekki að sýna virðingu í framsetningu á gagnrýni sinni – en ef aðrir reyna það sama, gætu þeir verið kærðir til andskotans.

  10. Það borgar sig, Hildur, að lesa allan textann sem þú vilt gagnrýna en ekki bara fjórðung.

    Hvað varðar athugasemdir þínar:

    a) Mér datt ekki annað í hug en þú færir að óskum mannsins um að komast í albúmið úr því þú tókst allt annað sem hann sagði mjög alvarlega.

    b) Skv. frétt af símaatinu tengist það umræddu skjáskoti, sjá Hildi Lilliendahl hótað – fékk nafnlaust símtal.

    c) Ég get vissulega tekið undir að það geti verið óhuggulegt að verða fyrir símaati. Færslan er hins vegar ekki um það.

    d) Ég benti á hvatningu þína til að einhver lemdi Hlín Einars en sú hvatning birtist á blogginu þínu, á Fb. spjallþræði í gærkvöld til að benda á að baráttan fyrir tjáningarfrelsi væri í rauninni bara barátta fyrir tjáningarfrelsi sumra en ekki annarra, þ.e. sumum leyfist meira en öðrum í nafni tjáningarfrelsis.

    Hvað varðar P.s.ið þá biðst ég forláts á að vera undir of miklum áhrifum frá Brekkukotsannál 😉

    Og hinu meinta illa innræti mínu hefur verið gert svo rækileg skil af vantrúarfélögum að það ætti nú að vera alger óþarfi að benda á það einn ganginn enn …

  11. Mér finnst athyglisvert í ljósi vatnsglasstormsins í netheimum að skoða ummæli við frétt Vísis í gærkvöldi, Gæti hugsað sér að bakka aftur yfir Hildi – sviptur ökuréttindum ævilangt. Þar hefur Vísir étið upp upplýsingar af bloggi Evu Hauksdóttur reikna ég með, þ.e. fundið dóm um manninn sem skrifaði ósmekklega um Fr. Hildi Lilliendahl. Í athugasemdum tekur til máls vinur ósmekklega mannsins og staðhæfir að maðurinn hafi beðið Hildi afsökunar og beðið hana að fjarlægja skjáskot af ummælum sínum. Sjálfur eyddi hann ummælunum skömmu eftir að þau birtust. Það væri áhugavert að fá þetta staðfest hjá Hildi Lilliendahl ef hún treystir sér til að lesa gegnum svo löng ummæli sem þessi eru.

  12. Eydísi Hrönn og Björgvin verð ég að hryggja með því að ég svara ekki kommentum þeirra sem geta ekki komið fram undir fullu nafni. Gerði undantekningu með Hildi því af málflutningi og stíl var algerlega augljóst að Hildur Lilliendahl hefði sjálf skrifað þessar athugasemdir.

  13. Elín Sigurðardóttir on October 30, 2012 at 09:03 said:

    Þetta er dásamlega skemmtileg umræða. Eitt gullkorn Evu er: “Annað sem hefur vakið athygli mína í dag er að sjá þá djúpu virðingu sem ríkir fyrir rétti stórfyrirtækja á borð við facebook til að setja tjáningarfrelsinu skorður.” Ég set þessa athugasemd hérna því Eva leyfir bara facebookummæli.

  14. Ég vek athygli á að Eva Hauksdóttir hefur leiðrétt mistök sín. Mér finnst það bera vott um mikinn styrk og trausta sjálfsmynd og dáist að Evu fyrir vikið. Hún verður áfram minn uppáhaldsbloggari og virðing mín fyrir henni sem manneskju hefur aukist mjög.

  15. Helgi Ingólfsson on October 30, 2012 at 10:08 said:

    Harpa: Ég sé hvergi í texta þínum að þú talir um “LITLU Fr. Lilliendahl”, eins og Hildur fjargviðrast yfir í aths. nr. 8. Ég sé hvergi annað en, í versta falli, “Fr. Lilliendahl” – er það ekki alveg klárt? Er nokkuð athugavert við það að kalla hana “fröken”, ef hún hefur ekki gengið í það heilaga (úps)?

    Þetta er ekki eitthvað sem þú ert búin að breyta í færslunni, er það nokkuð? Er það ekki örugglega Hildur, sem bætir þarna “LITLU” inn í? Það lætur þig nefnilega líta verr út frá hennar sjónarhóli – þetta hljómar þannig máske meira eins og “Little Miss Sunshine” eða “Little Miss Understanding” – þótt það “LITLA” sé frá henni sjálfri komið, svo að hún geti komist að þeirri niðurstöðu sinni (í aths. 8) að þú sért “illa innrætt”.

    Bara svona smápæling.

  16. Kristinn on October 30, 2012 at 10:33 said:

    Skoðaðu innleg nr. 3, Helgi.

  17. Helgi Ingólfsson on October 30, 2012 at 10:39 said:

    Kristinn: Já, úps, biðst velvirðingar. Athugasemd mín nr. 15 er ekki gild.

  18. Góð Harpa! Skömmin er náttúrulega ekki þeirra sem setja fram morðhótanir og “gera símaat”, heldur hinna sem kippa sér upp við það að hrellirinn sé aukinheldur með refsidóma á bakinu og leggja svona grínara í einelti með því að segja frá.

    Er til nafn yfir þessa rökfærslu?

    http://blog.pressan.is/evahauks/2012/10/29/harpa-hreinsdottir-og-eineltid/

  19. Í þessari færslu og í umræðuþræði vakti ég athygli á því að smekklaust grátt gaman um að keyra yfir Fr. Lilliendahl er ekki afsökun fyrir því að hirða æruna af manninum sem skrifaði það smekklausa gráa gaman með því t.d. að vitna í gamla dóma sem hann hefur hlotið fyrir fíkniefnaneyslu og fíkniefnaeign og dreifa skjáskoti af ummælum hans sem allra víðast. Maðurinn hefur að sögn beðið Hildi Lilliendahl afsökunar á frumhlaupi sínu og hefur löngu eytt þessum skilaboðum. Þegar margir netnotendur leggjast á eitt við að dreifa skjáskoti af skilaboðunum (með mynd af manninum og fullu nafni) og draga upp gamlar syndir hans með ötulli gúgglun og leit í dómasafni, fletta upp heimilisfangi hans o.fl. og vanda honum ekki kveðjurnar er það einelti, meira að segja einelti af verstu sort. Sem þú tókst dyggan þátt í, Eva.

    Ég nenni ekki í rökfærsluleikinn við þig, Eva mín. Aðrir eru miklu hæfari en ég í hjakkið um strámenn og ad hominem. Kannski er það af langri sambúð með rökfræðingi sem mér finnast þessar rökfærsluhampanir þínar og sumra vantrúarfélaga vera lélegur samkvæmisleikur sem ég nenni ekki að taka þátt í?

  20. Helgi: Vissulega varð mér það á að kalla Fr. Lilliendahl “Litlu fröken Lilliendahl”. Það var þó ekki af einbeittum ásetningi til að smækka hana eða smætta (en femínistar lenda ótrúlega oft í svoleiðis smættun og smækkun, þetta hugtak er t.d. mikið uppáhald kvennabókmenntafræðinga) heldur af því að alltaf þegar mér dettur Fr. Lilliendahl í hug minnir hún mig á litlu fröken Gúmunsen. Veit ekki af hverju og bið Fr. Lilliendahl hér með afsökunar á að ég skuli hafa kallað hana litla.

  21. Helgi Ingólfsson on October 30, 2012 at 13:59 said:

    Harpa (aths 20):

    Þá flýgur mér í hug kersknifull staka, sem ég vona að enginn taki óstinnt upp þótt ég varpi fram:

    Feministans feisbúkk-hjal
    færa þarf í letur.
    Litlu fröken Gúmunsen
    líður máske betur.

    (ég bið þig að afsaka slaka stuðlun og afspyrnulélegt rím í þriðja vísuorði, ég er bara ekki skárri á þessu sviði.)
    —–

    Í alvöru talað:

    Ég held að fáir hugsandi menn beri blak af þeim, sem látið hafa frá sér fara illmælgi í garð Hildar Lilliendahl vegna skoðana hennar. En í því samhengi má huga að þrennu: a) Hún hefur sjálf ekki, að mér skilst, alltaf verið barnanna best í orðavali (sem að sjálfsögðu réttlætir ekki ummæli þessa Stefáns); b) Eins og þú bendir á hérna, Harpa, þá verða menn að kunna sér hóf í að svara fyrir sig – hérna má velta fyrir sér hvort hin ofsafengnu og næstum hysterísku netviðbrögð við ummælum mannsins (sem, eins og þú margnefnir í færslu þinni, eru ósmekkleg), séu ekki úr öllu samræmi og komin út á svið nornaveiða, og c) Loks eru þetta 2 aðskilin mál, tjáningarfrelsið og brot á reglum Facebook (eins og hin rökvísa Eva ætti að sjá manna best). Tjáningarfrelsi Hildar hefur ekki verið skert af neinum nema henni sjálfri, ef hún hefur brotið fyrirtækisskilmála, sem hún gekkst sjálfviljug undir, ekki satt? Er íslenskt þjóðfélag virkilega svo illa statt að það setur samasemmerki á milli tjáningarfrelsis og fésbókarnotkunar?

  22. Pingback: Harpa Hreinsdóttir og eineltið | Pistlar Evu

  23. Eydís Hörn on October 31, 2012 at 23:14 said:

    Ég veit ekki hvort það hefur mikið að segja Harpa að koma fram undir fullu nafni þar sem þú getur ekki einu sinni lesið eiginnafn mitt rétt. Ég heiti Eydís Hörn og er Hermannsdóttir. Ég á enga nöfnu (beggja nafna) og því læt ég þetta oft duga. Ástæðan er sennilega leti en ekki að ég sé að fela mig. Ég þekki þig ekki Harpa og vissi svo sem ekki að þú værir til en mikið svakalega þykir mér þú hafa lítið gott fram að færa.

  24. Ég biðst afsökunar á að hafa mislesið seinna nafn þitt, Eydís Hörn. Mér finnst leiðinlegt að þér finnist að athygli sem vakin er á grófu neteinelti sé “svakalega” “lítið gott”.

  25. Eydís Hörn on November 3, 2012 at 19:59 said:

    Hvers vegna gæsalappir, Harpa? Eru þetta orð sem þú ert ósátt við, orðalag eða skildirðu ekki inntakið?

  26. Gæsalappirnar tákna að þetta er bein tilvitnun.

  27. Rakel on November 6, 2012 at 10:18 said:

    Það á vitaskuld að tjarga og fiðra alla sem voga sér að brjóta reglur facebook. Hvað heldur þessi Hildur eiginlega að hún sé? Þetta er skelfileg þróun ef fólk fer að halda að eitthvað gefi þeim leyfi til að brjóta reglur facebook!!! 😉

  28. Rakel on November 6, 2012 at 10:23 said:

    Hey, og blikk-broskarlinn minn var bara að tákna “létt kaldhæðni” en alls ekki “vantrúarkaldhæðni” (ekki að það sé neitt að henni samt) 🙂

  29. Kannski þeir sem brjóti skilmála Facebook vísvitandi ættu ekki að hneykslast á því þegar lokað er á þá (hvað þá að stjórnmálavæða lokunina) heldur miklu frekar beina spjótum sínum að reglum netsamfélagsins, í þeim tilgangi að fá þeim breytt.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Post Navigation