eða á ég að segja “brothætt lífsleiðin framundan” þar sem tímar geta augljóslega ekki verið brothættir … hitt er bara svo helv. hátíðlegt.
Ég meldaði mig veika á föstudag og lagðist í maraþon-svefn. Blíðlega sagði ég sjálfri mér að þetta væru eftirstöðvar af flensusprautu fyrr í vikunni. Kalt raunsætt mat ber á móti og segir algera dellu. Svo reikna ég með að einhvers staðar sé fólk sem finnist að þessir kennaraaumingjar geti sko vel mætt meðan báðir fætur eru jafnlangir!
Minn krankleiki er ekki í fótum heldur höfði. Enda á ég ekki hvítar sokkabuxur heldur nokkra hatta.
Ég gafst upp á svefni kl. 4.15 í morgun. Það var sosum ekkert alslæmt því ég er þá búin að klára ritgerðahauginn, lokins, fyrir 7 í morgun! Þetta athæfi gerir mig að hinum fullkomna kennara, sem fer yfir verkefnin á nóttunni.
Ég sleppti bíóferð með fjölskyldunni á föstudagskvöld og sleppti fjölskyldu-flatböku-orgíu í gær. Mér þótti það mjög leiðinlegt, sérstaklega að missa af austfirsku systurinni. En málið var að öll einkennin virtust vera að leggjast á mig (hér væri betra að segja að allar sorgirnar væru að leggjast á mig, þungar sem blý!) og því tók ég ekki sénsinn á að fara til þurrabúðar og umgangast fólk.
Vonandi gengur þetta nett yfir, eins og hver önnur pest, en endar ekki í Helvítisgjánni eins og svo oft áður. Vingjarnlegar leiðbeiningar eru afþakkaðar: Ég kann öll þessi ráð, frá “fara út að hreyfa sig soldið” upp í “sjósund er allra meina bót”. Af minni reynslu er aukasæng skásta ráðið og taka klukkutíma í einu. Verst að ég get ekki notað nema hálft ráðið, í vinnunni.
Þetta gekk ágætlega – þau að austan tala ágæta íslensku ennþá og gátu alveg gert sig skiljanleg. Maðurinn þinn tók myndir af pizzunum fyrir át svo að þú getur sé hvað var á borðum.
Maðurinn tók m.a. eina flotta af ungviðinu. Ég sendi á foreldra þegar maðurinn hefur munað eftir að senda mér myndina.
Megi hugarvíl hvergi þrífast.
Baráttukveðjur!
Er búinn að berja myndina augum á vef mannsins. Plönum bara næstu pizzaorgíu hjá þér á Skaganum.
Áfram Harpa. Upp með sokkana, útaf með dómarann