Eftir því sem ég varð virkari notandi Facebook fækkaði persónulegum færslum á þessu bloggi. Mikilvægi slíkra pistla er samt ómælt, fyrir mig. Það hjálpar mér mjög að eiga heimildir um þann hluta lífs míns sem er í algeru óminni og þau mörgu ár sem eru að hluta í óminni þegar ég skoða sjúkrasögu mína og veg og met hvað hafi verið skynsamleg inngrip heilbrigðiskerfisins og hvað hafi verið skaðlegar firrur byggðar á hindurvitnum. Svoleiðis að statusa-skrif gætu komið sér vel einhvern tíma seinna, það er aldrei að vita.
Mér gengur ótrúlega allt í haginn! Ef þú smælar framan í heiminn smælar heimurinn framan í þig, söng Megas um árið, og reynist hafa rétt fyrir sér. (Ég bendi samt á þann augljósa varnagla að sé maður í djúpu þunglyndiskasti er ekki hægt að smæla framan í eitt né neitt svo þetta er sosum ekkert allsherjarráð fremur en góð ráð eru yfirleitt.) Til marks um þann góða bata sem mér hefur hlotnast eftir að hafa gefið vestrænum geðlækningum langt nef í aprílbyrjun má nefna að ég hef gerst smáborgari og keypt seríur og plantað í tvo glugga: Líklega er þetta í fyrsta sinn í minni búskapartíð sem skreytt er með seríum fyrir jól! Og svo hef ég dregið fram jóladúka og slatta af skrauti og plantað þessu á áberandi stöðum hist og her hér innanhúss í stað þess að skreyta á heilagan Þodlák svo sem venja hefur verið. Búin að kaupa sirka helminginn af jólagjöfunum OG pakka þeim inn!
Jól liðinna ára eru í blakkáti en eftir því sem ég kemst næst hefur eina markmiðið í desember verið að lifa af, einn dag í einu, í mínu lífi í mörg ár. Stundum hef ég ekki getað keypt jólagjafir og treyst á mína nánustu til að redda þeim. Aðfangadagskvöld hefur útheimt alla mína orku. Ég hlakka til jólanna í fyrsta sinn í mörg ár.
Samskipti við lækna (og kuklara), lífeyrissjóði, Virk og aðra sem ég þarf að leita til hafa verið til algerrar fyrirmyndar. Ég er svo lúsheppinn öryrki að eiga ekkert undir Tryggingastofnun (fyrri samskipti við þá stofnun sannfæra mig um að það er mikil guðsblessun að þurfa ekki að standa í að tala við starfsfólk þar). Samskipti dags daglega eru aðallega við köttinn. Þetta er að vísu fluggreindur köttur, skáldmæltur mannfræðingur af tignum ættum … en eigi að síður bara köttur. Ég hlakka mjög til að eiga meiri samskipti við fólk á næsta ári.
Dagurinn í dag lofar góðu. Ég er farin að leyfa mér örlitla óreglu og svaf út í morgun. Nú eru tvær vikur síðan ég lagði síðustu flísinni af Rivotril, að venju fann ég fyrir fráhvörfum, t.d. svefnleysi, en veit að svoleiðis lætur undan eftir u.þ.b. þrjár vikur í hverri tröppu. Það gladdi mig að tala við sérfræðilækni í vikunni sem taldi að helv. kjálkaverkirnir sem ég sit uppi með gætu vel stafað af Rivotril-tröppun, þetta er sá fyrsti í heilbrigðiskerfinu sem tekur undir þetta álit mitt, sem er einungis byggt á klínískri reynslu af sjálfri mér. Það skiptir mig þó litlu máli að þetta séu sárasjaldgæf einkenni af því að hætta á þessu viðbjóðslega lyfi – ég hef ekki einu sinni nennt að andmæla heilbrigðiskerfisstaffi sem vill rekja þessa verki til einhvers annars – aðalmálið er hvort tekst að laga þetta og ég hef trú á að það sé hægt, til vara að þetta dofni með tímanum.
Og á eftir er skemmtileg ferð til borgarinnar handan Flóans, með vinkonu minni (maðurinn sést ekki nema í mýflugumynd því nú er álagstíminn mikli í hans vinnu), sem lýkur á Mahaliu Jackson tónleikum. Eftir þá verð ég aldeilis komin í jólastuðið 😉
Til hamingju með þennan áfanga þú átt þetta svo sannanlega skilið. Þvílíkur baráttuvilji og sjálfshjáp er því miður of sjaldgæfur. kv. gua
Takk Gúa mín 🙂
Ég mundi læka þetta ef þetta væri feisbúkkfærsla
Lýst vel á þetta!
Góð lesning og vafalaust holl fyrir marga.
þetta er frábært!
Til hamingju Harpa mín með þinn góða árangur.Baráttu kveðja.UK
Tek undir með öðrum, innilegar hamingjuóskir. Það er ekki bara baráttuvilji sem hefur drifið þig áfram, þú ert svo helvíti skýr í kollinum. Þetta gat ekki farið öðruvísi.
Takk öll, elskuleg 🙂
Til hamingju með árangurinn.
Kveðja.
Jamm. Mundu bara að mér þykir vænt um þig og þína.
Ég held þú verðir að búa til “like” takka. Mig langar svo oft til að “læka” á bloggið þitt
Gangi þér vel
MKS