Mér hefur lengi verið kunnugt um að Churchill kallaði sitt þunglyndi, sem karlinn sökk öðru hvoru í, svarta hundinn. Þegar svarti hundurinn var í heimsókn var karlanginn ekki mönnum sinnandi. Ég vorkenni honum svo sem ekkert mikið því hann gat alltaf sturtað í sig svo sem einum pela af viskíi á dag og þá er manni meira sama um þetta sem hann vildi kalla hund (hér tala ég af eigin reynslu). Til langframa er viskí-aðferðin hins vegar ekki mjög gagnleg, ekki einu sinni þótt maður púi vindla með.
Aldrei hef ég sett sérstakt samasem-merki milli okkar Churchills þótt bæði þjáumst við af sama sjúkdómi. Enda sér hver maður að við erum ekki sérlega lík (a.m.k. útlits). Af þessari mynd að dæma er ég t.d. umtalsvert flinkari í “fake it till you make it” en hann.
Svo hef ég bara átt hund í æsku, litla heimska vingjarnlega tík sem var brún og hvít og glaðlynd.
Í fyrra las ég Þar sem vegurinn endar, eftir Hrafn Jökulsson. Mér fannst hún algerlega frábær! Þar kom fyrir setning um að Hrafn hefði verið lagður inn á Lsp (eða Vog) með svörtu hundana. Þetta fannst mér sniðugur orðaleikur (út frá Winston og rauðu hundunum).
Ég hef verið að renna yfir bókina Ofsi, eftir Einar Kárason. Þar er persóna með geðhvarfasýki, Eyjólfur ofsi heitir sá. Bókin gerist á Sturlungaöld og endar á Flugumýrarbrennu. Satt best að segja finnst mér þetta hundleiðinleg bók og hennar helsti kostur er að hún er stutt. Ég fatta ekki hvað þeir sjá við hana sem koma henni í efsta sæti metsölulista Eymundsson.
Sagan er brotakennd þannig að hver persóna fær nokkrar blaðsíður um sig, sem eru þá oftast útdráttur úr Sturlungu, svona svipað og kennari fær ef sett er fyrir verkefnið: “Settu þig í spor Guðrúnar Ósvífursdóttur þegar Bolli biður hennar” eða “Skrifaðu dagbókarsíðu í orðastað Kjartans þegar hann kemur að landi og fréttir að Guðrún sé gift” o.s.fr. Allir kennarar landins hafa lesið mýgrút af slíkum úrlausnum.
Auðvitað skrifar Einar Kárason betur en framhaldsskólanemendur, þó ekki væri nema vegna þess að hann er kominn til vits og ára. Hins vegar hefur hann pikkað upp hugmynd Hrafns Jökulssonar og er troðandi svörtum hundum (metafórunni) upp á þennan óinteressant Eyjólf nánast hvar sem persónan fær orðið.
Það sem var sniðugt í bók Hrafns Jökulssonar, sem er brotakennd sjálfsævisaga, er hroðalega ósniðugt í bók sem á að gerast á Sturlungaöld, þegar menn töldu melankólíu stafa af ójafnvægi í vessum líkamans en alls ekki af hundum yfirleitt, hvorki svörtum né móálóttum. (Og er ekki vafamál að svartir hundar hafi verið til í landinu á þessum tíma?)
Ég verð alltaf soldið pirruð þegar ég sé svona ómerkilegar eftirhermur – þetta er eiginlega eins og stolin ritgerð.
“Cardinal Crescence died so likewise desperate at Verona, still he thought a black dog followed him to his death-bed, no man could drive the dog away, Sleiden. (com. 23. cap. lib. 3.)” — Robert Burton, The Anatomy of Melancholy, 1621
Ég er með kolsvarta tík sem heitir Dimma í pössun en hún veldur síður en svo depurð, er fremur til upplífgunar enda hef ég sjaldan notið eins mikillar aðdáunar frá nokkru kvikindi. En varðandi Sturlungahunda þá held ég að það séu til belegg fyrir hundarækt á þessum tíma og nýlegir fornleifauppgreftir hafa sýnt að menn fluttu hér inn alls konar kvikindi fyrr á öldum, kjölturakka og slíkt sem á ekkert skilt við íslenska fjárhundinn.
Ég var (og er) líka mjög hrifin af bókinni hans Hrafns.
Ég er með svartan hund sem heitir Dimma í pössun þessa dagana og hún veldur manni almennt séð bara eintómri gleði. Varðandi miðaldir þá var örugglega allt fullt af svörtum hundum hér á þeim tíma. Nýlegir fornleifauppgreftir hafa líka sýnt að menn fluttu hingað til alnds alls kyns hundkvikindi sem áttu fátt skylt við þennan íslenska.
Kolbrún í Kiljuni hélt ekki vatni yfir þessari bók en mér finnst sú kona heldur leiðinleg en Páll var ekki svo hrifinn.
Var að lesa bókina hanns Hrafns og hún er alger snild vildi að hún hefði verið lengri.
Ég hef nú kallað þetta að fara í kolakjallarann meikar einhvernvegin sens fyrir mig. kv.gua