Svo ég vendi kvæði mínu strax í kross frá fyrirsögninni þá fór ég á bókasafnið áðan til að vita hvort þangað hefði borist bókin Hælið eftir Hermann Stefánsson. Enginn hafði heyrt á hana minnst og bókaverðir fengu upp það sama og ég í Gegni, nefnilega að ekkert bókasafn á þessa bók. (Og heldur ekki þessa eftir okkar nýja ágæta bæjarlistamann sem er með í 1005 hollinu, a.m.k. minnir mig að þetta sé talan 1005 sem heiti tímarits hefst á …) Af prinsippástæðum kaupi ég bókina ekki sem rafbók, ég kaupi nefnilega ekki íslenska rafbók á höfundaréttarvörðu epub-formi fyrir 2.500 kr. til þess að þurfa svo að brjóta hana upp og konvertera til að geta lesið hana á mínum Kindli …
En prinsipp eru náttúrlega til að brjóta þau svo ég upplýsi að ég var í þessu að fjárfesta í Polis eftir Nesbø, á sænsku reyndar. Hún var að vísu ólæst en auðvitað epub-skrá. Ég þarf nefnilega að vita hvort Harry Hole hjarir enn eftir að hafa verið skotinn í tætlur og rotta byrjuð að gæða sé á honum (líkinu) í lok síðustu bókar … það þarf væntanlega sterk bein til að vakna aftur til lífsins eftir svoleiðis trakteringar.
Er nýbúin að lesa nýjustu bók Kristinar Ohlsson, Davidsstjärnor. Hún er helv. góð eins og hinar bækurnar hennar. Yfirleitt er ég svona tveimur þremur bókum á undan íslensku þýðingunum á skandinavískum reyfurum … get upplýst að Marco effekten hans Jussi Adler-Olsen er fantagóð en hef gefist upp á Mons Kallentoft, alkóhólískir órar hinnar skyggnu lögreglukonu eru orðnir of fyrirferðarmiklir.
Svo potast ég hægt og bítandi gegnum The Island eftir Victoriu Hislop. Þetta var metsölubók fyrir nokkrum árum, hefur verið þýdd á Norðurlandamálin nema íslensku. Eiginlega nenni ég alls ekki að klára hana en af því ég hef ákveðið að heimsækja Spinalonga (gríska nafnið er Kalydon), pínupons-eyju fast við Krít, í sumar verð ég náttúrlega að klára söguna frægu sem gerist akkúrat þarna. Á Spinalonga voru holdsveikir geymdir fram til 1957 en eyjan er nú óbyggð.
Til mótvægis við morðin og holdsveikrarómantíkina hef ég Ritið og TMM og Skírni og Sögu. Er búin að lesa nýjustu heftin af þeim þremur síðasttöldu og langt komin með að lesa um ýmsar tegundir af minni í Ritinu. Og svo les ég prjónauppskriftir lon og don af stakri ánægju. Verst að ég er of fljót að lesa, annars gæti ég lesið prjónandi. (Þarf að fletta svo hratt að það er ekki vinnandi vegur að prjóna á meðan.) Er á útkikki eftir prjónastykkjum sem eru einföld, helst fljótleg og ekki ljót. Þetta fer ekki vel saman svo það þarf að leita vel. Veðrið er mér einkar hliðhollt í þessu bardúsi.
Náttúrlega skanna ég helstu vefmiðla og blogg daglega en yfirleitt ristir þetta svo grunnt að tíu mínútur með morgunkaffinu duga prýðilega í svoleiðis lestur. Ég hef samt gaman af því að sjá hvernig fólk getur trompast yfir fegurðarsamkeppni einn daginn, lögheimilisflutningi Dorritar næsta dag … og fylgist grannt með rómantíseríngu tossanna, mikil ósköp 😉
Sæl og blessuð, Harpa.
Klént þykir mér það bókasafn, sem ekki keypti “1005” – sem að sjálfsögðu er uppselt núna í sínu efnisbundna formi.
Mitt eintak er lesið í tætlur, nánast, allt annóterað með rauðu og uppábrett með svínaeyrum.
Eigi veit ég hvort þú kunnir að meta “Hælið” sem svakamálasögu … en hitt veit ég að ekki ósennilega kynnir þú að meta ýmsar fínar vangaveltur Hermanns um geðheilbrigði í sögunni. Þar er t.d. eitt og annað að finna um forneskjulegar lækningaaðferðir á Kleppi (sem er AFAR miðlægur í sögunni).
Ljóðabálkur ykkar nýja bæjarlistamanns í “1005” heitir “Bréf frá borg dulbúinna storma” og hann þótti mér skemmtilegur – og hann gefur tilefni til margvíslegra greiningarmöguleika. Í honum leiðast lífsgáski og lífsháski hönd í hönd – svo klisjukennt sem það annars hljómar.
Annars reyndi ég að fjalla eitthvað um “1005” í bloggi á dögunum. fyrst enginn annar nennti því. Mér finnst skorta nokkuð á umfjöllun fjölmiðla þar. En þeir eru hvort eð er sjálfhverfir, ekki satt?
Er búinn með nýjasta hefti “Sögu” og þótti í síðra lagi; er að lesa “TMM” – læt alltaf smásögur bíða þar til síðast. Kaupi hvorki “Ritið” né “Skírni” enda leyfir fjárhagskvóti heimilisins til tímaritakaupa ekki meira. (Jú, National Geographic berst hingað mánaðarlega – og ég hef u.þ.b. 10 mínútur á mánuði til að lesa það. Ég á hvert einasta hefti NG síðan 1981 – ég giska á að þessir 30 árgangar vegi samanlagt á við 6 lyftustjóra.)
Og gettu hvað ég er að lesa þess utan þessa dagana? Jú, mikið rétt, “Inferno” eftir Dan Brown! (Ég er nefnilega fyrir löngu bólusettur fyrir norrænu sakamálasögunni – fannst Wallander eiginlega bara framhald á Sjöwall og Wahlöö, og allt niðrímóti þaðan í frá. Sem í daufri skuggsjá…)
Bestu kveðjur – gangi allt í haginn.
Helgi Ing
P.S. Góðir síðustu blaða-/bloggpistlar tveir hjá bónda þínum. Færðu honum þakkir fyrir. Og nefndu að aðrir hafi hrósað þeim í mín eyru.
Segi ekki bókavörðunum að einhverjum finnist klént að kaupa ekki tímaritið – eitt af því sem ég hef lært á ævinni er að eiga ævinlega góð samskipti við bókaverði. En ég las bloggið þitt eftir kvöldmatinn og sá að helv. tímaritið heitir víst með rómverskum stöfum, ég fór bara eftir minni og byggði á Gegni … Skítt að pappírseintökin séu uppurin, ég hefði einmitt svo gaman af að lesa um gamlar geðlækningar (sem ég er ekki viss um að séu neitt verri en nýjar geðlækningar, þegar upp er staðið), svo ekki sé nú talað um morð á Kleppi. Og bæjarlistamaðurinn er nottla fyrrverandi uppáhaldsnemandi (tek fram að ég á marga uppáhaldsnemendur af ýmsu tagi, svona ef tossavinirnir skyldu lesa bloggið mitt, það er aldrei of varlega farið tjái kennari sig um nemendur …) Svo ég trúi því vel að hennar ljóðabálkur sé góður. Mögulega brýt ég odd af oflæti mínu og borga fáránlega verðið fyrir fáránlega skráaformið á ebaekur.is.
Las vandlega ritdóminn um ð-ævisögu og þótti klénn. Hafi valið staðið milli þess að skrifa skemmtilega og áhugaverða bók, annars vegar, og hins vegar að skrifa bók með upptalningu þeirri sem Má Jónssyni er þóknanleg er ég fegin að fyrri kosturinn var valinn.
Smásagan (eftir Skagamanninn) í TMM er góð. Löggan Katrín er persóna í lengri morðsögum skáldsins og gaman að rekast á þann góða kunningja í smásögu.
Ég kaupi ekkert af þessu, fæ þetta á því góða bókasafni (með þeim góðu bókavörðum). Bókasafnið er svo helvíti almennilegt að panta Hug líka, þótt ég sé eina manneskjan sem fær það lánað og það ekki nema stöku tölublöð. Maðurinn kaupir Skírni og ég les eintökin hans.
Svo þú ert að lesa Dan Brown? Ég er ekkert sérlega hrifin af honum, las nottla DaVinci lykilinn eins og allir og fannst siðblindi kardínálinn áhugaverð persóna en er annars lítið fyrir fantasíur sem fara úr böndunum (líklega vegna ákv. ógeðs síðan ég las Nafn rósarinnar …). Svo ég hugsa að ég láti Inferno eiga sig. Hins vegar bíð ég spennt eftir lokabindinu í sænskum þríleik um nornir í fjölbraut, sú fyrsta hefur verið þýdd en er einhverra hluta vegna flokkuð sem unglingabók, heitir Hringurinn (að mig minnir). Ég las hana á íslensku, þá næstu á sænsku og hugsa að ég haldi mig bara við frummálið áfram. Tek fram að mér þótti Sjöwall og Wahlöö afar leiðinlegir höfundar en þættirnir, Beck heita þeir, eru fínir. Svipað gildir um Wallander. Þú ættir að gefa henni Kristinu Ohlsson séns 😉
Í kvöld er ég búin að lesa 12% af Polis og enn er aðalpersónan, Harry Hole, í dái. Það kemur ekki í veg fyrir plott um að myrða hann. Annað sem borið hefur til tíðinda í þessum 12% eru a.m.k. 2 morð og nokkur afar ógeðsleg eldri nauðgunar-+ morðmál. Bókin lofar sem sagt góðu.
Hafðu það sömuleiðis sem best – ég tölti inn í svefnherbergi og skilaði hrósinu til mannsins, sem hékk bak við hurð. Hann hangir stundum fyrir svefnið, það ku vera gott við brjósklosi. Svoleiðis að það er eitthvað sem mig grunar að sé handklæðaslá úr Ikea í rúmlega tveggja metra hæð bak við hurðina …
Nei, sko, tímaritið heitir víst 1005, en það er skrifað IOOV utan á það, sem gæti valdi misskilningi.
Sammála þér um ritdóminn um “ð-ævisögu” í Sögu – það er hæpið að dæma rit út frá því sem ekki er þar að finna eða út frá því sem ritdómari hefði frekar viljað hafa þar.
Ertu viss um að þú sért komin með nýjasta TMM í hendur? Smásagan hans Ævars Arnar, sem ég held að þú vísir til, stórfín man ég – gerist á kúrekahátíð/ -krá í útlöndum, ekki satt? – var í síðasta hefti. Ég er alla vega kominn með í hendur splunkunýtt hefti, sem barst bara á dögunum.
Ohlson skrifa ég bak við eyrað. Nesbö (nenni ekki að leita að skandínavíska ö-inu) er ágætur, það litla sem ég hef lesið af honum, 2 bækur held ég, en …: “Annað sem borið hefur til tíðinda í þessum 12% eru a.m.k. 2 morð og nokkur afar ógeðsleg eldri nauðgunar-+ morðmál. Bókin lofar sem sagt góðu.” Og svo þykir fólki söguþráður Dan Brown fráleitur.
Annars les ég Brown til að athuga hvort þessi bók hans rísi undir nafni. Sú síðasta, The Lost Symbol, var mögulega alversta bók sem ég hef lesið. En mér finnst einhvern veginn meira huggandi ef glæpirnir eru framkvæmdir í fallegu menningarlegu umhverfi – Il Duomo, kirkjuturn Giottos, Botticelli. Brown tókst einhvern veginn að rústa Louvre fyrir manni – nú er bara að sjá hvort honum takist það sama með Uffizi. Mér þykir þetta alltént þekkilegra glæpaumhverfi en tuttugasta litháenska mafíugengið úr norrænu krimmunum. Svo þykir mér dásamleg þessi þráhyggja Brown að lengdarmæla allt – við fáum að vita hvað dómkirkjuhvolfið er breitt, hvað turn Giottos er hár, hvað Ponte Vecchio er löng, hvað skip vondu karlanna er langt. Upp á fet – og þá þarf maður alltaf að vera að deila í með þremur til að fá út metrana. Er þetta ekki eitthvað á Asberger-rófi, að þurfa að setja allt fram í mælanlegum stærðum? Nú, skiptir víst ekki máli, allt og allir eru komnir einhvers staðar á róf. “Á róli á rófinu” – titill kominn á sjálfsævisögu mína.
Góðar stundir og kveðjur til frk. Jósefínu. (Ætti hún ekki skilið að verða bæjarlistamaður í eitt ár – sem er víst mörg ár á hennar mælikvarða?)
Hm … já, ég hef greinilega lesið næstnýjasta hefti TMM en þá á ég bara eftir hið nýjasta, sem er gott. Glæpirnir í Polis eru ekki framdir í fallegu menningarlegu umhverfi en þeir eru að öðru leyti frekar raunsæislegir. Hins vegar er Harry Hole ekki raunsær alki að mínu mati og ég er hálffegin að hann skuli liggja í dái, hinar löggurnar eru áhugaverðari persónur, skilurðu.
Ég hef ákveðna andúð á Il Duomo (ef þú átt við dómkirkjuna í Mílanó) síðan mér var bannað að stíga þar inn íklædd stuttbuxum um árið en maðurinn og synirnir striksuðu athugasemdalaust framhjá verðinum, klæddir mun styttri stuttbuxum. Gat fallist á að fá lánað síðpils í sumar þá ég skoðaði munkaklaustrið á Patmos enda allt morandi af munkum þar, sem klæddust svipuðum pilsum, en í þessari ítölsku dómkirkju brá ekki fyrir munki, ekki einu sinni presti. En menningarlegt og fallegt umhverfi fyrir morðin … ja, hver hefur sinn smekk. (Ég er nýbúin að lesa skandinavískan reyfara sem snérist talsvert um uppdigtað sænskt miðaldahandrit og æviferil Poe, man ekki nafnið á gripnum en greip hann með mér úr bókasafninu, á pappír, á íslensku. Við sögu kom jafnframt upphafsmaður krufninga á Ítalíu og ýmist tímaflakk en aðalatriðið var að myrta liðið í bókinni fannst ekki bara myrt heldur einnegin flegið, sem mér þótti athyglisverð tilbreyting 😉 )
Er ekki nógu Asberger-sinnuð sjálf til að fíla ensk mál og vog, er t.d. orðin hundleið á að margfalda tommur með 2,54 cm, á blaði ef ég hef ekki tölvu. Hef þó lært utanað að fjórar tommur eru 10,16 cm … sem er mikilvægur fróðleikur þegar prjónauppskriftir eru lesnar (hefur með prjónafestu að gera).
Fr. Jósefína má ekki vera að því að vera bæjarlistamaður því hún undirbýr nú framboð sitt fyrir bæjarstjórnarkosningar (ekki veitir nú af að hækka greindarvísitöluna þar). Fyrir nýafstaðnar alþingiskosningar stofnaði hún Minnsta flokkinn, er formaður hans og Eiður Svanberg, frændi hennar sem hér dvelur í tímabundnu fóstri, er varaformaður. Kosningabaráttan var lífleg, fór fram á Facebook og þegar upp var staðið reyndist Minnsti flokkurinn alls ekki bera nafn með rentu. Þú ættir að vingast við Fr. Dietrich á Facebook! Hér er sýnishorn af nýlega ortum kveðskap hennar, hún var eitthvað angurvær eitt kvöldið:
Til er á köttum kló sem ekki er brýnd,
kannski er nú bóseindin mín týnd.
Eins eru mýs sem ekki’er hægt að ná,
og ótal krásir engir munnar fá,
og tágrönn hró sem tapa allri vigt,
og trýni sem‘ei finnur nokkra lykt,
og einnig tönn sem aldrei bítur neitt
og enginn getur sumar flugur veitt.
„Til eru ljóð, sem lifna og deyja í senn,“
og litlar kisur skilja engir menn.
Sæl og blessuð enn á ný, Harpa (og ég meina ekkert trúarlegt með því að segja “blessuð”. Bara sisona kveðja í samræmi við þjóðlegar menningarhefðir).
Frábært er að sjá hve Fraüleinin er hagyrt. Annars minnir þetta mig ögn á ljóð eftir þjóðskáld. Sem hann orti, held ég, til ömmu minar. En mér gæti skjátlast.
Klassískt kveðið hjá kettinum og dýrt – en bóseindin brýtur ljóðið upp og móderniserar. Bóseind, hm – gæti verið úr sögu eftir Dan Brown. Alla vega ef það er Higgs-bóseindin sem er jú öllum týnd.
Já, meðan ég man, Il Duomo, sem ég var að tala um, er dómkirkjan í Flórens, fræg fyrir hvolf Brunelleschis, stílhrein og skrautlítil. Dómkirkjan í Mílanó – þessi sem hrellir þig í minningunni – er Ambrósíusarkirkjan, tertulaga spíralavirki í síð-gotneskum stíl – en eflaust kalla Mílanesingar hana líka Il Duomo, því að það þýðir jú bara dómkirkja og í Mílanó er líka biskup.
Annars hef ég örlítið verið að hnusa að umræðunni um “rómantíseringu tossans”, svona úr öruggri fjarlægð. Hefurðu veitt eftirtekt hvernig annar bloggarinn í þessum orðaskylmingum reynir að gera hinn að tossa? Fyrst með því að brigsla honum um að vera ekki ritfær (sem hann er þó prýðilega) og síðan með því að brigsla honum um að vera ekki skýr í hugsun (sem hann er þó líka prýðilega). Þetta þykir mér ekki heiðarlegt í málefnalegri umræðu.
Annars skil ég ekki í þessum fréttamanni að endurvekja þetta hræðilega orð, sem ég hélt að öllum væri gleymt. Auk þess er þetta bara hrein og klár dönskusletta. Ég fór í orðsifjabókina hans Ásgeirs Blöndals og þar er talið líklegt að orðið sé af sama stofni og “þurs” – eigum við ekki bara að nota það ágæta íslenska orð og tala um “þursana”, svona til að þjóðlegrar menningar sé gætt í samræmi við stefnuskrá nýrrar ríkisstjórnar?
Svo er auðvitað spurningin hvort ekki verði bara aftur að taka upp getuskiptingu í skólakerfinu (*gasp*), með A-bekk og B-bekk. En A og B væri þá ekki notað sem gæðaflokkun, heldur sem praktísk flokkun fyrir framtíðarstörf. A-bekkur gæti þá staðið fyrir “Almennt virkir í núverandi skólakerfi” og B-bekkur stæði fyrir “Borgarstjóraefni”.
Á hinum endanum er að sjálfsögðu sú framtíðarsýn að tossavæðingin verði normið í skólakerfinu og enginn geti orðið heilaskurðlæknir nema að hafa verið tossi.
Fr. Dietrich vísar oft til þjóðskáldanna enda telur hún sig til þeirra. Áhugavert að Davíð skuli hafa ort þetta til ömmu þinnar, það vissi ég ekki. Já, og Fr. Dietrich álítur að hún eigi bóseind þá sem flestir (sem ekki vita betur) kenna við Higgs. Hún geymir hana undir öspinni.
Jú, ég hafði tekið eftir rökræðuaðferð heimspekingsins í tossaumræðunni. Af máli hans má ráða að það að andstæðingurinn sé bæði framsóknarmaður og doktorsnemi í lögfræði sé þvílíkt handikapp að ekki þurfi að taka mark á neinu sem svoleiðis maður segi og gildi einu hvort það hljómi skynsamlega eður ei. Að sjálfsögðu er síðan hnýtt í framsóknarlögfræðinginn að hann sé illa skrifandi og óskýr í hugsun, það eru klassískar röksemdir þeirra sem telja sig eina rétthugsandi (þú manst eftir vantrúarkrúttunum …). Séu skylmingarnar bornar saman finnst mér sá sem stendur hallnari fætinum, altso framsóknarmaðurinn, ólíkt ritfærari og rökfastari og skynsamari, en hans málstaður er hins vegar ekki heilagur.
Hef stundum verið að velta fyrir mér hvort sjoppuafgreiðslumaður sem hangir á Facebook í sínum síma lon og don og lætur kúnnana eiga sig á meðan, neitar að læra að gera upp kassann af því það er svo leiðinlegt, getur ekki fyllt á hillur í sjoppunni af því það er ekki nógu skapandi, mætir iðulega of seint eða alls ekki á sínar vaktir o.s.fr. haldi sinni vinnu og fái sín laun? Er gerð sama krafa um endalausan skilning og vorkunn til vinnuveitenda og til skóla?
Tek samt fram að ég er hvorki framsóknarmaður né höll undir lögfræði ….
Hvað segirðu, undir öspinni? Ég hélt að Higgs-bóseindin byggi í gaddavírnum.
—-
Ég tel í hæsta máta virðingarvert að vera í doktorsnámi í lögfræði; svoleiðis fólk þurfum við, jafnvel þótt framsóknarmenn séu. Og ég þekki ýmsa mæta framsóknarmenn – þótt oftast nær þori þeir ekki koma fram undir nafni eða sverja að þeir kjósi eitthvað annað. Nú hefur blessuðum manninum verið borið á brýn að geta ekki tjáð sig í rituðu máli og að vera grautarkenndur í hugsun (sem ég tel hvorugt vera) – þá skortir bara að andstæðingurinn vefengi lesskilning hans, þá er þrenningin fullkomnuð.
—-
Færi ekki bara þannig fyrir sjoppuafgreiðslumanninum þínum góða að hann yrði rekinn og færi hæstánægður á atvinnuleysisbætur, þannig að hann gæti hangið á Facebook allan daginn án þess að einhver vinnuveitandi dissaði hann, enda væri það hvort eð er samfélaginu að kenna að útvega honum ekki nógu skemmtileg eða skapandi atvinnutækifæri?
Ef maður sé tossi sé það öðrum að kenna. Svo já, atvinnuleysisbætur eru meira lokkandi en leiðinlegir vinnuveitendur, ef þannig stendur á.