Svo ég tengi fyrirsögnina: Ég er tossi þegar kemur að því að skilja skýringarmyndir! Hef fyrir löngu sjálfgreint mig með átakanlegan skort á rýmisgreind (sem fyrir daga greiningarfræðanna miklu hét rúmskynjun). Ekki skrítið í því ljósi að mér veittist nám í evklíðskri rúmfræði erfitt og fannst það hundleiðinlegt, álíka leiðinlegt og hin rúmfræðin sem átti að læra fyrr, dæmi á borð við: Ef keila dettur ofan í píramída fullan af vatni … o.s.fr. Því miður var ekki búið að starta frelsisbaráttu tossanna á þeim tíma svo ég neyddist til að leggja ómælda vinnu í að læra þetta helvíti til að ná prófum. Passaði að gleyma því strax eftir próf.
Nú er ég að setja mig inn í fitjunarfræði, merk vísindi sem ekki voru kennd í skólum í gamla daga nema mjög takmarkað. Þökk sé nýrri tækni, einkum YouTube og öðru vídjódóti á vefnum: Mér hefur loksins tekist að skilja silfurfit, ekki hvað síst eftir að ég fattaði að það myndi vera hið sama og heitir “twisted German cast-on” í flestum kennslumyndböndum (nema á Garnstudio þar sem aðferðin heitir “Gammel Norsk rett“, “Gömul norsk aðferð” í íslensku útgáfu síðunnar). Til að flækja málin er húsgangsfitin á Garnstudio kölluð silfurfit í íslenskri útgáfu síðunnar. Hin raunverulega og rétta silfurfit er víst stundum kölluð tvöföld fit.
Mér þótti fyrirfram augljóst að sú fit sem er kennd í skólum væri skólafit. En málið er ekki svo einfalt, það er nefnilega húsgangsfit sem er kennd í skólum, skólafit er aftur á móti prjónuð fit. Á hinn bóginn er til flóknara afbrigði af skólafit á Garnstudio sem er kallað keðjuaðferð en sagt vera “einnig kölluð prjónað uppfit.” (Mér þætti gaman að vita hver þýðir eiginlega textann á Garnstudio á íslensku, sá virðist halda að uppfit sé hvorukynsorð …). “Prjónaða uppfitið”, þ.e. “keðjuaðferðin” er hið sama og heitir kaðaluppfit í þeim prjónafræðum íslenskum sem ég er að lesa þessa stundina.
Eftir miklar spekúlasjónir um hvað væri eiginlega gullfit (engar nýtilegar upplýsingar að finna á Vefnum um hana nema að orðið er gamalt) datt mér í hug að skoða Íslenska orðabók, munandi að Elsa E. Guðjónsson skrifaði hannyrðaorðskýringarnar í þeirri bók. Elsa klikkaði ekki: Gullfit mun vera sama og hundafit. Og skólafit heitir líka breiðafit. Þegar ég sá að Elsa telur húsgangsfit og silfurfit það sama runnu á mig tvær grímur og ég hætti að treysta henni …
Eftir stendur: Hver fjandinn er Halldórufit? Ég veit að hún er kennd við Halldóru Bjarnadóttur, eins og Halldóruhællinn frægi (sem ég hef hugsað mér að vara fólk við því nýuppfundinn Tómatahæll virðist mun árennilegri) og ég veit að hún þótti léleg fit en mér hefur ekki tekist að komast að því hvernig Halldórufit er.
Affellingafræði verða að bíða um sinn en þau eru sko ekki einfaldari en uppfitjunarfræðin! Næst liggur fyrir að kenna sjálfri mér að prjóna rétta brugðna lykkju. Ég prjóna nefnilega snúna brugðna lykkju, sem kemur yfirleitt ekki að sök því ef ég prjóna fram og til baka prjóna ég snúnar sléttar lykkjur á réttunni og tvöfaldur snúningur gerir ósnúið, alveg eins og tveir mínusar breyttust í plús í stærðfræðinni. Skv. Elsu E. Guðjónsson var svona snúið prjón (stundum kallað austrænt snúið prjón) algengasta prjónaaðferð á Íslandi frá því Íslendingar lærðu að prjóna. Á vorum rétttrúnaðartímum þykir þetta hins vegar ekki fínt, nú eiga allir að prjóna vestrænt og ósnúið. Svo ég verð að læra að prjóna ósnúna brugðna lykkju (kann ósnúna slétta lykkju). Til að flækja málin var brugðin lykkja kölluð snúin lykkja þar sem ég ólst upp svo raunar prjóna ég snúna snúna lykkju, skv. orðfæri bernsku minnar …
Svo er það tækniorðaforðinn sem ég á alveg eftir að tileinka mér. Fór í tvöfalda afmælisveislu áðan og notaði tækifærið til að stökkva á handavinnukennara í grunnskóla sem þar var gestkomandi og þýfga um prjónakennslu. Varð margs vísari nema fékk ekkert gott íslenskt orð yfir Entrelac. Kaðlaprjón, hélt handavinnukennarinn að þetta væri kallað. Það getur eiginlega ekki verið því kaðlaprjón hlýtur að vera að prjóna hefðbundna kaðla og fléttur … entrelac á lítið skylt við það. Einhver sem veit þetta?
—-
Svona smá innlegg í tossafræðin: Ég sakna þess að leikfimi, nútildags stundum kölluð íþróttir, sé ekki dregin inn í tossa-brottfalls-útaf-stöðnuðu-skólakerfi-s-umræðuna. Leikfimi er það aleiðinlegasta sem ég man eftir úr minni skólagöngu. Öll heimsins stærðfræði kemst ekki í hálfkvisti við leikfimi! Nú er ég stúdent í leikfimi en ég held að þetta sé eina fagið sem aldrei hefur komið að nokkrum einustu notum í mínu lífi. Ég tek fram að sum stærðfræði nýtist prýðilega í prjóni, t.d. margföldun tomma með sentimetrum eða sú ómissandi undirstöðuregla þríliða (sem mér skilst raunar að sé ekki lengur kennd í skólum). En ég hef aldrei þurft að fara í kollhnís, hvorki áfram né aftur á bak, aldrei þurft að (reyna að) standa á höfði né höndum og aldrei þurft að brúka megrandi og styrkjandi gólfæfingar fyrir kviðvöðva og læri, hvað þá að ganga í takt. Leikfimi var gersamlega handónýtt nám, sem eytt var óratíma í árum saman. Leikfimi og sund voru einu fögin sem ég var raunverulegur tossi í … svo það er kannski ágætt að þau reyndust gagnslaus þegar upp er staðið 😉
—
Að lokum eru tvær vísur úr ágætu kvæði, Gripið í prjóna, sem birtist í Speglinum í janúar 1966. Í kvæðinu er fjallað um nýja tækni, hvernig skólakerfið klikkar nútildags og hvernig mætti bæta vinnulag á Alþingi: Allt eru þetta málefni sem eru mjög til umræðu akkúrat núna.
Þessi iðn nú þekkist valla
þrátt fyrir tækni-væðing alla,
langskólun og lærdómsstrit.
Fráleitt mundi finnast drengur
sem fær er um að þekkja lengur
húsgangs- eða hunda-fit.
Þetta er heilnæm handavinna
sem hollt þeim einkum væri að sinna,
er semja lög og sitja þing.
Vinnutímann vel skal nota,
þá væri ráð að sitja og pota
í duggarasokk og sjóvettling.
fléttuprjón? Tíglaprjón? Blúnduprjón?
þetta hér fyrir ofan eru alltsvo tillögur að þýðingu á orðinu entrelac
Fléttuprjón er góð tillaga. Takk Freyja 🙂