Það hefur fátt markvert borið til tíðinda upp á síðkastið. Kannski er það þess vegna sem netheimar loga dag eftir dag yfir smotteríi. Og orðbragðið í “umræðum netverja” (kommentum Facebook-notenda) er þess lags að alþýðukonu upp á Skaga setur hljóða.
Fyrst kom sú hryllingsfrétt að halda ætti Fegurðarsamkeppni Íslands í haust. Hildur Lilliendahl Viggósdóttir og aðrir vaskir femínistar skráðu sig eins og skot í keppnina, gættu þess að láta netmiðla vita af þessu og sumir femínistar fóru að safna handarkrikahári fyrir haustið. Facebook-kommenterar fóru offari yfir væntanlegri kúgun kvenna. Svona keppni er nefnilega kúgun kvenna og valdstjórnartæki illa innrættra karla því allir vita að ekki er hægt að keppa í fegurð. Það er hins vegar hægt að keppa í stauraburði og fótamennt og ýmsu öðru sem karlar keppa aðallega í. Femínistarnir hafa a.m.k. ekkert við svoleiðis að athuga. Þarf varla að taka fram að Fegurðarsamkeppni Íslands hefur aldrei verið eins rækilega auglýst og núna. Enda sett met í skráningu í hana.
DV gerði þá stórkostlegu uppgötvun að forsetafrúin hefði flutt lögheimili sitt til Englands fyrir hálfu ári. Kommenterar eru flestir á sveif Dorritar enda kemur hún alþýðlega fyrir, segir skemmtilegar vitleysur á íslensku, klæðist stundum lopapeysu og á hund sem hún elskar úr af lífinu. (Til skýringar: Það er sætt þegar útlendingar misþyrma íslenskri tungu. Það er ekki sætt þegar ambaga veltur upp úr Íslendingi, allra síst framsóknarmanni og allra allra síst framsóknarkonu.) Þess vegna fjalla kommentin við fréttina dévaffs og afleiddar fréttir netmiðla aðallega um að lögheimilislög séu hvort sem er svo vitlaus að það verði að breyta þeim svo forsetafrúin geti löglega átt lögheimili á Bretlandi og þurfi ekki að fremja lögbrot eða jafnvel að skilja við forsetann okkar allra. Ráðamenn sem DV hefur náð í hafa þau ein svörin að enginn hafi kært. Næsta holl hliðhollra kommentera bendir á að skattalögin séu hvort sem er svo vitlaus að það sé skiljanlegt að Dorrit hafi þurft að flytja lögheimilið til Englands. Raunar hefur komið fram að hún hefur aldrei greitt auðlegðarskatt hér á landi þótt lögheimilið hafi verið úti á Álftanesi en það skiptir ekki máli, skattalögin eru samt vitlaus. Engum hefur dottið í hug líkleg raunveruleg ástæða sem er að Dorrit vilji komast á svig við lög um gjaldeyrismál, sem sé komast hjá því að skipta pundunum sínum í krónur ef hún skyldi græða að ráði. Skiptir sosum ekki máli því allir vita hvað gjaldeyrislögin eru vitlaus. Niðurstaðan er hin sama: Aumingja forsetafrúin að þurfa að flytja til útlanda af því íslensk lög eru svo vitlaus og hún svo óheppin að vera svo auðug í útlandinu ….
Eftir tveggja daga netstorm um bágt hlutskipti forsetafjölskyldunnar, a.m.k. frúarinnar og Sáms, dró nýja bliku á loft og fljótlega var skollið á ofsaveður í netvatnsglasinu: Í ljós kom að aðstoðarmaður ráðherra hafði sent fundarboð á rangt netfang! Við tók drama sem í gærmorgun var farið að líkjast Dreyfusmálinu franska.
Kjarninn í málinu var að ráðherra vildi ræða við tvo forsvarsmenn undirskriftarsöfnunar. Mér finnst líklegast að aðstoðarmaður ráðherra hafi einfaldlega farið línuvillt í netfangalista tölvuþjónustu háskólans og sent boðið á netfangið aj, sem er netfang deildarstjórans yfir öðrum manninum (sem rekur velþekkt blogg undir skammstöfuninni AK).
Þessi mistök reyndust afdrifarík. Lögmaður mannanna taldi að í þeim fælust hótun um atvinnumissi og fór mikinn. Lögmaður þessi ratar reglulega í fréttir DV, síðast vegna þess að hún var yfir sig hneyksluð á að vera rukkuð fyrir styrktarsímtöl sonar síns. Í netheimum er Helga Vala góður lögfræðingur, samfylkingarkona m.m., enda eldar hún reglulega grátt silfur við Brynjar Níelsson, sem alþýða netheima veit að er vondur lögfræðingur því hann er sjálfstæðismaður m.m. Maðurinn sem ekki fékk allan tölvupóstinn skrifaði tvær bloggfærslur um dramatíkina í lífi sínu, í hinni seinni kom fram að dagurinn hafi verið lýjandi og nóttin erfið og hann þarfnaðist sárt að fá hvíld og ró. Skiljanlegt í ljósi þeirra skelfilega örlaga sem biðu hans ef marka mátti Fb.kommentera og uppslætti dévaffsins.
Þegar ekki lá fyrir annað en að sparka þessum aðstoðarmanni ráðherra fyrir að hafa sent fundarboð á rangt netfang og helst ráðherranum með brast á blæjalogn. Maðurinn sem átti yfir höfði sér atvinnumissi (og kannski ríkisborgaramissi og guð-má-vita-hvar-etta-hefði-endað) birti bloggfærslu um að allt hefði þetta verið eðlilegt! Aðstoðarmaðurinn hafði víst líka hringt í hann og sent honum SMS, auk þess að senda tölvupóst á netföng sem hún taldi að tilheyrðu manninum: Fundarboðið hafði verið sent honum á einkanetfang en afrit á netfang yfirmannsins á vinnustaðnum. Aðstoðarmaðurinn hafði margbeðist afsökunar og gefið skýringar sem “fórnarlambinu” fundust fullkomlega trúverðugar. Ef marka má þessa bloggfærslu var Dreyfusarmálið nýja aldrei neitt mál nema í vatnsglasi Facebook-sítengdra. (Ég tek fram að mér þykir ólíklegt að obbinn af þeim drekki latte.)
Nú er spurningin: Hvað næst? Mun einhver framsóknarráðherrann sjást með lausan hund? Mun Vigdís missa út úr sér málvillu? Mun Brynjar Níelsson tjá sig um Fegurðarsamkeppni Íslands eða handarkrikahár? Hverfur Lúkas á ný? Hvaða flog fá Facebook-kommentarar næst?
Ég er að lesa bók eftir Einar Kárason þar sem hann og faðir hans fara í leiðangur til að ná í tóbak í verkfallinu mikla 1983 og fóru alla leið til Hafnar í Hornafirði og komu við í hverri einustu sjoppu.
Alla leiðina voru þeir að tjékka á því hvort ruv væri komið inn en það reyndist ekki þeim til léttis því þá hefði leiðangurinn verið farin til einskins ss verkfallið búið.
Einar segir að það hefði verið settur maður á vakt á ríkisútvarpinu ef ske kynni að einhvað gerðist sem varðaði almannaheill en hann þurfti aldrei að opna mækinn allan tímann í þær 6 vikur sem verkfallið varði ss ekkert fréttnæmt.
Það er verst að svona getur aldrei endurtekið sig svo að fólk geti verið til friðs og notað tímann í annað en að bögga hvort annað. 🙂
kv.gua
Já það er dapurlegt hvernig þingmenn Sjálfstæðisflokks og Framsóknar eru fórnarlömb forheimskraðar alþýðu sem leyfir sér að hafa skoðanir á einu og öðru.
Legg til að höfundur þessa pistils gefi reglulega út lista yfir málefni sem má ræða og hvernig má ræða slík málefni.
Efast ekki um að með slíku framlagi mætti nálgast þá tíma sem bláa höndin breiddi visku sína yfir almenning og flatneskjuleg umræðan var alsráðandi.
Ætli Jakobína Ingunn geri sér enga grein fyrir mismuninum á því að segja um öskurapa að hann sé öskurapi og að banna honum beinlínis að öskra?
Já, þessar verkfallsvikur 1983 voru að mörgu leyti skemmtilegar … allt nema strætóverkfallið því þá þurfti ég að hjóla úr Fossvoginum oní bæ og þá var keyrt á mig … Man eftir að hafa hamstrað sígarettur utan af landi handa nikótínþurfi borgarbúum og man að RÚV lá niðri en minnir að sú staðreynd hafi einmitt ýtt ýmsum nýjum útvarpsstöðvum úr vör/í loftið.
En ekkert verkfall er svo máttugt að það slokkni á netinu (sem betur fer). Fyrir venjulegt fólk er best að líta á facebook-gargendur netsins sem brandara (lélegan að vísu). Ég hef stundum áhyggjur af því að þeir sem bölsótast hvað mest og tjúna sjálfa sig og aðra upp úr öllu valdi af smámunum muni festast algerlega í slíku og eitra út frá sér. Það er því mér til hugarhægðar að sjá sömu nöfnin (og sama skítkastið) aftur og aftur í nýjum og nýjum nethviðum svo þessi háværi hópur, sem að eigin mati hefur alltaf rétt fyrir sér, virðist ekki hafa mikil áhrif nema innbyrðis.
Form ICBS
Nefni ekki bann í þessari færslu heldur velti fyrir mér hvort að hinn sauðsvarti almúgi sem ræðir um allskonar vitleysu og leggur aumingja valdhafanna í einelti þurfi ekki ráðleggingar til þess að komast í sama landslag flatneskunnar og ríkti hér fyrir hrun.
Tjáningarfrelsið viðist vera sumum eilíft undrunar og áhyggjuefni. Það sem vex undan tjáningarfrelsinu er auðvitað hrein lagkúra miðað við hina djúpu hugsun og fjálgu útskýringar sem núverandi valdhafar láta frá sér.
Sem dæmi má nefna skýringar Bjarna Ben á vafningsmálinu.
Verkfallið mikla var 1984.
Mér finnst þetta skemmtileg færsla, hvorki til hægri eða vinstri. Skemmtileg áminning um það að við erum að svolítið að tapa okkur í þeim hlutum sem ekki skipta máli í “hinu stærra samhengi”. Mér finnst að þetta séu hugleiðingar sem eiga erindi til allra. Rock on!!!
Gott blogg! Takk fyrir mig.