Í gær hringdi ég í konuna sem ætlar að hafa eróbikk námskeið næstu 6 vikurnar, tvisvar í viku, frá 20 – 21. Um sexleytið fann ég íþróttabuxurnar (sem ég enn passa í) og leitaði dauðaleit að svörtum strigaskóm … sennilega hef ég hent þeim svo ég fann til hvítu strigaskóna í staðinn.
Klukkan 7 hætti ég við að mæta í íþróttahúsið og batnaði um leið flökurleikinn og sjóveikisyndrómið. (Ath. að hér er ég ekki að tala illa um íþróttahús eða þá sem þar sprikla; hér er ég eingöngu að tala um fokkings kvíðaeinkenni!)
Eftir þessa örlagaríku ákvarðanir var ég örmagna og fór að sofa klukkan átta, eins og þægu börnin.
—
Best að velta sér ekkert upp úr þessu. Ég er annars komin á línuna “og hvað get ég gert í því” sem ég hygg að sé ein af praktísku slagorðalínunum í algerlega nafnleynda félagsskapnum mínum. Mér finnst ég skilja þenna sjúkdóm minn nánast alveg í botn (nema ég skil ekki af hverju mér var úthlutað honum í genetíska happdrættinu). Málið er ekki lengur að skilja, málið er að framkvæma. Í því er batinn fólginn. Því miður er eitt af einkennum þessa sjúkdóms voðalegt framtaksleysi og skortur á drift. Þess vegna gengur mér helv… illa að kveða hann niður með handafli.
—
Nú er að hefjast þessi venjulega geðveiki sem ríkir síðasta skólamánuðinn, í kennslu og prófum. Í dag er próf úr Eglu. Á föstudag taka tveir hópar próf úr Laxdælu. Níutíogþristarnir taka próf í næstu viku úr Börnunum í Húmdölum. Svo þurfa börnin að fá yfirlit yfir ýmis skil og útreiknaða annareinkunn í lok nóvember.
Ég kvíði þessu sosum ekki neitt, þetta er árviss viðburður (misseris-viss viðburður). En að fara út að labba eða í eróbikk hopp? Nei … það er of erfitt fyrir litlar konur.
Fáðu þér hund, þá ertu neydd til þess að fara út að labba kvölds og morgna og helst í hádeginu
Konan í næsta húsi á tvo hunda en ég efast um að hún myndi lána mér þá ….
Á mínum vinnustað var ég að taka að mér hlutverk jólakattarins, Grýlu og Leppalúða, meðan flestir hinna eru í skemmtilegum nissaleik.
Mæli með Rope Yoga, Það er svo rólegt og yndislegt. Eróbikk er allt of stressandi.
Boot camp?
Kick-boxing?
Af hverju skrifar Einar undir sem örverpi? Hljómar soldið skringilega, er annars til orðið rörverpi?
Ég hef heyrt þetta kallað skróp jóga því fólk hættir fljótlega að nenna að mæta……
Hvað með örverpill?
Það er ekki hægt að vera fyrrverandi örverpi nema foreldrar manns hafi komið með nýtt barn!
Örverpill hlýtur að vera frekar lítill verpill.
Takk takk … það eru einmitt svona ráð sem mig vantar (NOT!)
En spennandi málfræðipæling með nýyrðaívafi gerir sig alltaf vel á spjallþráðum.
akkuru?
Er annars “verpi” sé eitthvað sem einhver annar hefur orpið? Hvað þá með dalverpi? Mér finnst þetta orð skuggalega líkt orðinu “gerpi” og hvað væri þá “örgerpi”?
Á mínu heimili hefur orðið “gæskni” (disclaima stafsetningarábyrgð) verið til umræðu. Maðurinn minn þykist ekki hafa heyrt það og skilur ekki hvað ég meina með því að einhver sé “óttalegt gæskni”. Ert þú spesíalistinn með einhverja skilgreiningu á þessu orði?
Off kos er ég spesíalisti – ég hef fimm háskólagráður! Þú ert að tala um gægsni sem er gamalt og gott orð og nú geturðu stafað það rétt ofan í Gísla og flett upp í Ritmálsdæmaskrá Íslenskrar orðabókar til að lesa sögu orðsins.
Bjúgverpill hefur náttúrlega þekkst lengi en ekki endilega undir íslenska nafninu heldur boomerang. Ætli Einar West sé ekki að vísa til þess hve laus hann er við landið og kastað hvað eftir annað út í lönd en kemur þó alltaf heim aftur. Svo hefur hann ekki munað verp-hvað …
Er farin að sofa, vaknaði kl. 5 í morgun og svaf næsta lítið eftir það.
ég á tvo hunda. Eiginmaður minn yrði gvuðslifandi feginn að losna við annan eða báða. ekki það ég myndi tíma að láta þá, en lána, já, það kæmi til greina…..
Hana Harpa, þú getur ekki neitað þessu kostaboði frænkunnar. Eitt stykki voffi með skilaákvæði og niðurfelldri persónuábyrgð er akkúrat það sem þú þarft. Svo getur þú meir að segja labbað á inniskónum heim í hádeginu til að vera hundinum selskapsdama og taka einn rúnt með hann út í hægðaleik. Mitt tipps er samt að taka strikið með hundinn niður í flæðarmál til hæginda, það sparar plastpoka. Er að spökulera að reyna að þjálfa naggrísinn Norbert upp í því sama.
Býður þetta ekki upp á skortsölu á hundinum og þeim heilsubennefittum sem því fylgja?
Ég finn ekki “Ritmálsdæmaskrá Íslenskrar orðabókar” á netinu og er þess vegna doldið lost varðandi velskilgreinda merkingu og uppruna orðsins gægsni.
Pósthólfið þitt virkar ekki
Flott blogg hjá þér, gæskan . .. . Þú veist örugglega ekki hver ég er.. Nú, ég er hún amma þín,.. hehe, nei bara djók. Minn er sko bara að fylgjast með öllu í skóginum og svona. Minn getur ekki samvisku sinnar vegna leyft þér að deila nesti með mínum. En pósthólfið þitt virkar ekki :/ endilega skoða það eitthvað
Ætli myrk skilaboðin hafi eitthvað að gera með “Litlar stúlkur og úlfar”?