(ég kunni ekki við að hafa titilinn “Barbídúkka í búleik” ef einhverjir skyldu enn kannast við þann gamla brandara.)
Í heilan mánuð hafa iðnaðarmenn skrælt hálfa íbúðina oní stein og byggt hana svo upp á nýtt. Það versta var tíminn þegar verið var að skoða skólplagnir með myndavélarkafbát og leggja þær upp á nýtt, innan í þeim gömlu, sem voru á síðasta snúningi. (Ath. Ef hús er um 50 ára gamalt og skólplagnir eru úr steini og einhvern tíma fyrir ekki langalöngu var skipt yfir í hitaveitu með hitaveituafrennslisskólpvatni – ÞÁ ættu menn að fá Ásgeir með röramyndavélina.
En sumsé meðan strákarnir með rörin á sinni könnu voru að leita að endum röranna var doldið ókræsilegt hér um að litast því grafa þurfti gíga hér og þar um gólfin og einnig djúpa gröf úti í garði. (Þeir slepptu því að grafa oní garðgröfina og mér þótti það vel við hæfi því ég var að kenna Grafarþögn akkúrat þá … Atli er búinn að hálfmoka oní hana.)
Núna er komið glansandi nýtt og fínt og æðislegt baðherbergi. Komið er ljóst korkparkett á hálfan flötinn sem það á að lenda á, sennilega stærri parturinn af íbúðinni. (Öll gólf flotuð þegar búið var að steypa í gígana og mér fannst þau æðisleg enda höfum við einu sinni gert þau mistök að leggja parket á óflotað gólf.)
Eldhúsið var endanlega skrælt í gærkvöldi og núna áðan fór ég að dást að litunum: Þetta eldhús hefur verið pastel-blátt, pastel-bleikt, dökk-grænt, dökk-lambaskítsgult, ÍA-gult og nú síðast þokkalega ljósgult (sem ég málaði sjálf yfir ÍA og dökkgræna litinn). Í dag smíðuðu strákarnir nýjan sökkul undir nýju eldhúsinnréttinguna sem er verið að smíða úti í bæ. Á morgun geta þeir ríslað sér við að kork-parkettleggja að sökklinum, reikna ég með.
Sirka 50% af þeim fjölda iðnaðarmanna sem nú hafa komið við sögu eru gamlir nemendur. Hins vegar var Pólverjinn Róman ekki gamall nemandi og hélt að hann gæti eitthvað skipað mér fyrir verkum í minni eigin íbúð með því að benda á nýmálað eldhúsloftið og segja: “Mála, mála fínt! Ekki reykja inni!” og skálma svo einbeittur fram í þvottahús til að kveikja í og svo út. Ég þóttist ekkert skilja. Hann hefur sjálfsagt haldið að ég væri lítil pen kona sem gerði eins og mennirnir segðu. Svona gerast kúltúrsjokkin.
Sem betur fer búum við á efri hæðinni (þökk sé okkar ágætu nágrönnum sem við söknum sárt) og þar er eldhús og baðherbergi og svona dót sem maður vill hafa í kringum sig.
Af heilsufari er bara þetta sama gamla leiðinlega að frétta: Ég þurfti að melda mig veika í yfirsetu í dag. Hugsanlega var ég með svona slæma magapest – hugsanlega var þetta enn ein birtingin á þunglyndi / kvíða og því drasli. Ef ég læt undan þessu á morgun enda ég á að komast ekki út úr húsi. Svo ég ætla í yfirsetur á morgun. Prófayfirferð í einum áfanga er lokið en ég held að ég hafi aldrei á ævinni verið jafnlengi að fara yfir próf! Ég er orðin svo leið á að vera aumingi að ég gæti gubbað!
Frábært að þetta sé að verða búið. Vona að heilsan komi skjótt. Kær kveðja frá Langasandinum.
Hætta ða blogga – fara á feisbúkk!
Það er magapest að ganga, sá átta ára hér var að enda við að gubba…
Hvað er pojntið við feisbúkk? Annars gleymdi ég að telja upp sundlaugar-græna skipalakkið sem var undir panelnum í eldhúsinu 😉
Það verður aldeilis fínt hjá ykkur þegar allt verður búið. Vonandi getið þið haldið jólin í íbúðinni.
af hverju er EInar alltaf að tala um feisbúkk?
Þökk sé Facebook veit ég t.d. núna að Einar er að fara að á Hótel Rangá í kvöld og þar hyggst hann brenna. Á Einars Facebook stendur:
“Einar er að fara á Hótel Rangá í kvöld og í Þórsmörk í fyrramálið.”
Og í gærkvöldi kom uppfærslan:
“Einar ætlar að brenna á Hótel Rangá á morgun eftir vinnu.”
Þetta hlýtur að vera eitthvað svona hreinsunareldsdæmi, hreinsa sálina og verða frjáls dæmi. Vonandi að þetta sé hættulaust bara.
Já og önnur gagnsemi Facebook er að þar má nýta sér afturvirkar stjörnuspár, sbr:
http://blogg.kj.is/?p=2318