MacLean í denn

Ég hef aðeins reynt að bakka aftur í óspilltu, ógeðveiku árin mín.  Þetta er svona freudískt endurlit án þess að ég telji líkur á að höndla stórasannleik.  Nema hvað: Ég fékk lánaðar tvær McLean bækur á bókasafni Kardímommubæjarins. Því miður mundi ég endinn á báðum bókunum (eftir meir en 30 ár!) en gat samt alveg notið þess að lesa harðspjalda-reyfara í gullaldarþýðingu Andrésar Björnssonar, útvarpsstjóra

 … og prófdómara í munnlegum prófum í íslenskuskor, í denn.  Það var alger hryllingur því karlinn tuðaði eitthvað allan tímann og maður fipaðist í þessum þó réttu svörum sem maður kunni við að reyna að heyra hvað karlinn var að tuða. Nú nýverið rann upp fyrir mér að vegna gáfna hafi hann þulið eins og Njáll – sem gekk afsíðis og þuldi og mátti enginn trufla hann þegar hann var að leysa mál eins og hvernig meðalbóndi í Fljótshlíðinni ætti að fara að því að greiða skaðabætur fyrir dráp fjórtán manna. Þetta var útúrdúr…

Í Nóttinni löngu segir:  “En öllu má nú nafn gefa. Hvílíkur morgunverður – kaffi, harðar kexkökur og …. Nú áttum við aðeins eftir fjórar dósir með kjöti, fjórar með grænmeti, ein tíu pund af þurrkuðum ávöxtum og svolítið af frosnum fiski, einn bauk með kexi, þrjá smápoka með blásnu korni og tíu dósir með mjólk.” (s. 136) Þegar hér er komið sögu hefur farþegaflugvél nauðlent á Grænlandsjökli, sem betur fer rétt hjá frumstæðri veðurathugunarstöð, frostið úti er yfirleitt um 40° C og auk þess morðingjar á sveimi. Mér finnst þetta mjög raunsæ bók, allt nema þessir smápokar með blásnu korni.  Hvað er blásið korn? Er það ekki poppkorn? Því miður er ekki hægt að finna útgáfudag bókarinnar og ég nenni ekki að leita að honum í Gegni.

Mér finnst blásið korn miklu fallegra en poppkodn. Blásið korn … líður ljúflega af tungu lesandans … eins og bleikir akrar …

 Ég er líka búin að lesa Neyðarkall frá Norðurskauti en rakst ekki á neitt málræktarlega sniðugt í henni.

Næst verða það sjálfsagt Byssurnar í Navarone og Arnarborgin.  Svo þyrfti ég reyndar að lesa svolítið í Njálu.

16 Thoughts on “MacLean í denn

  1. Blásið korn, er það ekki frekar svona eins og rice puffs?

  2. Ég man hvað ég varð fúll þegar ég komst að því að þetta með að setja sykur í bensínið, sem gegnir lykilatriði í Nóttinni löngu, gengur ekki upp í alvörunni, sykur leysist nebblega ekki upp í bensíni og hefur engin áhrif á vélar.

  3. freyja systir on February 19, 2009 at 22:08 said:

    í alvöru, var þetta bara plat? var ekki einmitt aðalmálið í sögunni hver hefði sett sykurinn í bensínið? Er kannski ekki heldur neitt kalt á Grænlandi?

  4. jújú, ferlega kalt á Grænlandi, konan fór einu sinni þangað… hafði eitthvað að gera með fisk. en þetta með sykur í bensín virkar ekki. Einu hugsanlegu áhrifin sem það getur haft er að sykurinn getur stíflað leiðslur, af þvi að hann leysist ekki upp í bensíninu.

  5. Ó nó! Tek undir að þetta eru gífurleg vonbrigði! Þú heldur því þá væntanlega fram að ráðið að hella volgu vatni í bensíngeymana, af því sykur binst vatni meir en tvöfalt betur en bensíni, og veiða svo fljótandi sykurlaust bensín ofanaf (því vatnið er þyngra og leitar botns, með sykrinum) hafi bara verið prump-ráð?

    Þessi nákalda sannleikssvifting hefur sömu áhrif á mig og “Dalur var í hválnum …”

    Til greina hefði komið að Hillcrest ofursti (björgunarliðsins) hefði getað nýtt flugvélabensínið ef vondir hefðu ekki kveikt í flugvélinni! Af hyggjuviti mínu hef ég uppgötvað fyrir löngu síðan að ekki er hægt að nota flugvélabensín í annað en flugvélar og íkveikjur. Hvað segja bifvélasérfræðingar í systkinahópnum?

  6. Hrefna on February 20, 2009 at 09:12 said:

    Ég fæ nettan nostalgíufiðring vitandi þig vera lesandi McClean … Nóttinn langa var í miklu uppáhaldi. Ég mun aldrei fyrirgefa Bosse bildoktor úr SVT sem sýndi fram á þetta með sykurinn …

  7. Jújú, getur alveg keyrt á flugvélabensíni, þetta er beisikklí sama stöffið, bara með hærri oktantölu. Hitt er svo annað mál að það þarf að stilla kveikjuna rétt svo að vélin fullnýti orkuna í flugvélabensíni, sem er miklu meiri en í venjulegu. En rétt er að taka fram að það er bannað að keyra bíla á flugvélabensíni hér á landi þar sem að það er ekki neitt veggjald í verði þess.
    Bosse bildoktor mokaði heilu kílói af sykri ofan í blöndunginn á gömlum Volvo Amazon og það gerðist ekki neitt. Þá tók hann krukku og fyllti af bensíni og hellti kíló af sykri saman við og hrærði í og ekkert gerðist.

  8. Var þessi Bosse bildoktor sænskur? (heppinn að vera ekki danskur því nafnið minnir óþægilega á sérstaka tegund …)

    Það eru greinilega allir á kafi í þessu sykur ómettaða bensíni og virðast menn alls ekki til í að ræða aðalatriði þessarar færslu, sem var blásið korn!

  9. freyja systir on February 21, 2009 at 17:43 said:

    Samkvæmt netheimildum er hægt að blása ýmsar tegundir af korni t.d. hveiti, bygg, hrísgrjón og maís. Fyrst þetta voru litlir pokar þá grunar mann að þetta hafi verið flugvélasnakkið í gamla dag. Fær maður ekki núorðið lítnn hnetupoka? Var þetta kannski japönsk eða kínversk flugvél? Þar er löng hefð fyrir blásnum hrísgrjónum.

    Ég fletti annars upp puffed í orðabókinni minni hér í tölvunni og eina þýðingin sem fæst er “rogginn” svo ef sú orðabók hefði verið notuð við þýðinguna hefði eflaust staðið þarna “þrír litlir pokar af montkorni”;-)

  10. Montkorn þótti munaðarvarningur á haftaárunum eftir stríð og fylgði nokkur eftirvænting flugferðum á þessum árum en montkorn var einmitt oft borið farþegum.

  11. Héðan í frá mun ég ekki láta poppkorn inn fyrir mínar varir á kósíkvöldunum um helgar heldur eingöngu blásið korn. Og mikið af því…

    péess: Er einmitt að lesa Njálu núna, kom mér skemmtilega á óvart að Hallgerður ,,hafði allt í sukki” -sukk er sem sagt alls ekki uppfinning frá 2007. En Skarphéðinn er minn maður. Hann er ekki svo nefndur að ekki sé haft á orði að hann hafi verið glottandi, sama hvað gengur á. Æ lov it!

  12. Ég held að Skarphéðinn hafi verið “sjálfbjarga einhverfur”. Svo var hann náfölur eins og hann væri ekki þessa heims. Uppáhaldspersónan mín er Hallgerður.

  13. Ætli hann hefði beinlínis kafnað í mannviti ef hann hefði hætt að þylja?

  14. Andrés eða Njáll?

  15. Eiríkur on March 15, 2009 at 17:02 said:

    Nóttin langa og Neyðarkall frá norðurskauti voru nú bestar af þessum bókum, minnir mig. En það var ekki Andrés útvarpsstjóri sem þýddi þær heldur Andrés Kristjánsson ritstjóri Tímans.

  16. Harpa on March 15, 2009 at 20:27 said:

    Ó, úpps … rangur Andrés. En breytir því ekki að bækurnar eru á gullaldarmáli.

    Nú er ég búin að lesa nokkrar í viðbót og þótt ég sé sammála þér Eiríkur um bestu bækurnar þá er nú Arnarborgin alltaf góð.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Post Navigation