Gömlu karlar dauðans og hanaslagur sporgöngumanna

Ég var reyndar að hugsa um að skrifa um Útsvar og fatastíl keppenda, til að bregðast ekki mínum góða frumburði. Þess vegna kíkti ég á seinni hluta þáttarins í gær. En hafandi velt fyrir mér hver hinn velklæddi keppandi Norðurþings gæti verið (ég kannaðist soooo við hann) og á endanum fattað að þetta var Sævar frændi – þá horfði ég náttúrlega bara á það liðið.  Mér fannst Norðurþing vera með miklu huggulegra lið, t.d. athyglisvert afbrigði af skeggtísku, svo er ég náttúrlega n-þingeysk að ætt og uppruna. Þegar Sævar o.fl. tróðu uppi í leikfélaginu Hugleik í denn, var gaman að fara í leikshús! Það er heldur verra með leikrit Hugleiks yngra, og á ég þar við hina hryllilegu sýningu Baðstofuna.

Eins og frumburðurinn veit þá þykir mér fyrrum “Gettu-betur-strákar” alls ekki eiga erindi í Útsvar. Í rauninni er þetta svipað og að senda óperusöngkonu í Júróvissjón. Svo nenni ég ekki að tala meira um það stóð (ég hef nú lítið fylgst með) en er soldið paff yfir hve kvenkynið sést sjaldan.  

Áðan fór ég í fjölmennt sextugsafmælisboð skólameistarans míns.  Þar var margt um manninn enda hefur hann Hörður vasast í mörgu.  Tónlistaratriðin voru flott; Þjóðlagasveitin verður æ betri og æ meira orgínal … en ég treysti mér ekki til að vera til loka í veislunni þótt ég missti af KK.

Undanfarið hefur kennarastofan logað í illdeilum um hvað muni best til bjargar í kreppu og hverjum sé þessi kreppa að kenna. Það er náttúrlega óþarfi að taka fram að það eru karlkyns kennarar sem bítast um svörin.  Þeir minna mig mest á íslenska hana í hanasamkeppni. Meira að segja hafa sumir tekið upp “hanastellingu”; standa og reigja sig sem mest þeir mega og liggur við að vanti bara stélið til að fullkomna líkinguna. Ég hef þess vegna tekið þann kostinn að dvelja meir inni á vinnuherbergi og ræða merkilegri mál, s.s. stöðlun sovéskra kommúnista á brauðbakstri … sem er ákaflega sérstakt mál og við kennararnir höfum fengið prufur af staðlaða kommúnistabrauðinu undanfarið. Ef einhver hefur áhuga á svoleiðis brauði get ég bent á sérfræðing.

Kennarastofan endurspeglar heiminn ytra; þetta er svona mikrókosmos-dæmi eins og menn voru svo hrifnir af á 17. og 18. öld. Í ytri  heiminum eru stjórnmálamenn að snúa sér í pólitískan hring eða hvæsa illilega á spyrjanda þáttar. Hér vísa ég til Davíðs og hins fræga Kastljóssviðtals í vikunni.  Náttúrlega kíkti ég ekki á þetta viðtal fyrr en í morgunsárið … heyrði fyrst samræður sem einkenndust af “víst”, “þú ert ekkert skárri” og “þú getur ekki sannað það!” (þessi síðasttalda var einmitt uppáhaldssetningu litlu þunnu nemendanna í ML um árið). Svo datt mér í hug að taka hljóðið af og sjá hvernig Davíð, sem ég hef aldrei séð læf, ýmist hallar sér aftur með útbreiddan faðminn eða skellir olnbogunum í borð og allt að því goggar í Sigmar. Hvað hefði gerst hefði borðið verið mjórra? Svo fann ég út að þægilegast og mest upplífgandi var að hraðspóla gegnum viðtalið – þá heyrir maður ekki orðaskil heldur bara gagg og hreyfingarnar líkjast afrískum dansi, eða hanaati (ég hef heldur aldrei séð svoleiðis læf).

Aldnir stjórnmálamenn snúa til baka (en virðist vanta flokk), s.s. Jón Baldvin. Ég get ekki séð að hann hafi skánað í tíu ára útlegð, sá brot af einhverju viðtali þar sem hann var státnari og óskýrmæltari en fyrr. Ég hugsa til þess með hryllingi ef næsta þing samanstendur af mönnum eins og Jóni Baldvini, Árna Johnsen, Ómari Ragnarssyni og Sturlu trukkabílstjóri. Er t.d. hugsanlegt að Davíð Oddsson verði með Árna Johnsen á framboðslista? Allir sannir Íslendingar vona svo náttúrlega að Steingrímur Hermannsson snúist á sveif með með öðrum ellibelgjum. Svo höfum við óvinsælan forseta sem lagði sitt á vogarskálarnar til að ræsa út sem flesta víkinga og forsetafrú sem virðist ekki stíga neitt voðalega mikið í vitið …

En maður getur sosum alltaf flutt til Færeyja eða Krítar, ef þetta verður svakalega slæmt. Bara halda því fram að maður sé Finni til að afsaka hreiminn því hvern langar að verða aðhlátursefni eins og Íslendingar eru nú í útlöndum?

7 Thoughts on “Gömlu karlar dauðans og hanaslagur sporgöngumanna

  1. Ljótu Hálfvitarnir eru frábærir og súrt að sjá þá tapa fyrir monthönunum úr Kópavogi (ókei, það er reyndar bara sá í miðið sem pirrar mig af alvöru). Ég myndi reyndar frekar segja samlíkinguna vera að senda Júrókeppanda á óperusvið 😛

    Treystum á að Fljótsdalshérað hendi Gettubetur liðinu út (þeir mættu meira að segja með æpandi stuðningslið með sér þarna í gærkvöldi). Héraðsbúar eru líka með þessa flottu konu innanborðs…

    Og já, Hugleikur (leikfélagið) er snilld.

  2. Sammála… Héraðsbúarnir eru flottir 🙂

  3. freyja systir on March 1, 2009 at 14:23 said:

    ég er alveg sammála þér varðandi þessar yndilegu gáfur íslenskra karlmanna sem kreppan hefur laðað fram. Gott að við höfum svona marga sem vita nákvæmlega hvað hefði átt að gera og líka nákvæmlega hvað á að gera næst. Spurning hvort að okkur vanti ekki helst fleiri lönd svo allir þessir stjórnunarhæfileikar fái notið sín. Útrás á því sviði kannski?

  4. Ég man ekki betur en að þegar einhver óperusöngkona gaulaði “AAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAANDVAKA” í undankeppni Eurovision hér á Íslandi þá hafir þú einmitt greitt henni þitt atkvæði.

  5. Harpa on March 2, 2009 at 15:53 said:

    Máni: Skýli mér bakvið heilaskemmdir af rafmagni; Ég man ekkert eftir þessu lagi! Ég man eftir “Hægt og hljótt” sem var okkar framlag fyrir svona 30 árum + og undurfögur söngkonan hafði greinilega lært að syngja. Andvaka? Hver, hvar, hvenær?

  6. freyja systir on March 2, 2009 at 16:08 said:

    Talandi um júróvisjón þá hef ég velt því fyrir mér hvort textinn í laginu “er það satt” fjalli í rauninni um fjármálakreppuna og góðærið sem er búið.

  7. Einar on March 3, 2009 at 21:04 said:

    Vil benda ykkur á að endurreisnin er hafin

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Post Navigation