Páll Baldvin Baldvinsson. 2019. Síldarárin 1867-1969. Reykjavík. JVP útgáfa
Ágrip
Þetta verk Páls Baldvins hefur verið lofað með hástemmdum lýsingum (Sjá I. kafla: Verðskuldað lof?) og ég bjóst fyrirfram við að bókin væri áhugaverð og skemmtileg.
Ég skoðaði nokkuð vandlega örlítið brot af textum, myndum og skrám í bókinni og tók stikkprufur úr því efni sem ég taldi mig þekkja til fyrir.
Þótt ekki væru skoðuð nema þessi brot úr bókinni verður því miður að segjast að mýmörg fundust dæmin um villur í verkinu. Meðferð á textum annarra var allt að því háskaleg. (Sjá II. kafla: Klippt og klístað; III. kafla: Meðferð texta og tilvísanir; IV. kafla: Villur og V. kafla: Ritstuldur.)
Meðferð mynda, t.d. ruglandi í myndatextum, ruglandi í tilvísunum til MYNDASKRÁAR, líklega rangfeðrun mynda eða myndir sem ekki eru eignaðar ljósmyndara þótt ljóst sé hver hann er, smekklaust val á myndskreytingu o.fl. gefur meðferð texta satt best að segja lítið eftir. (Sjá VI. kafla Meðferð mynda.)
Loks má nefna að í flestum þeim rómuðu skrám sem fylgja ritinu aftast er urmull af villum og prófarkalestri áfátt. (Sjá VII. kafla: Skrár.)
Ég ítreka að ég kannaði einungis brot úr bókinni en gerði enga tilraun til að lesa hana alla, ekki einu sinni fletta henni kerfisbundið, eftir að ég áttaði mig á hve umfjöllun Páls var í miklum belg og biðu. Í ítarlegri umfjöllun hér á eftir stytti ég titilinn á bók Páls í Síldarárin.
Umfjöllun
I. kafli: Verðskuldað lof?
Páll Baldvin hefur sjálfur fjallað um svona bókarhlunk eins og Síldarárin hans er, í ritdómi um Sögu Akraness I, sem hann var lítið hrifinn af: „Þyngsta verk ársins er komið út …. Stærð og fyrirferð er slík að bókina er aðeins hægt að lesa á borði …1 Saga Akraness I vó 18 merkur. Síldarárin vega 14 merkur. Munurinn liggur fyrst og fremst í mismunandi vönduðum pappír.
„Þetta er mikil bók, Síldarárin eru 1.152 blaðsíður í stóru broti og í henni eru rúmlega þúsund ljósmyndir. Bókin er 3,5 kíló og útgáfan mun hafa kostað 50 milljónir“ er sagt um Síldarárin hans Páls Baldvins.2
Á baksíðu hinnar miklu bókar segir að Ísland hafi breyst úr örsnauðu þróunarlandi í tæknivætt velferðarríki: „Síldin reyndist þar mikill örlagavaldur, og ósennilegt er að lífskjör væru hér svo góð sem raun ber vitni ef hennar hefði ekki notið við.“ Í bókinni sé „ …þessari mögnuðu og mikilvægu sögu gerð skil …“.
Þessi kynningarorð á baksíðunni minna óneitanlega á Ávarp Síldarsögusjóðs í Silfri hafsins-Gulli Íslands. Síldarsögu Íslendinga. 2007. (Þetta þriggja binda verk verður hér eftir kallað Silfur hafsins-Gull Íslands):
„Það er ekki vansagt að síldin hafi breytt gangi mála á Íslandi og átt drjúgan þátt í því að auka velsæld þjóðarinnar. … Nú er íslenska þjóðin rík, það á hún meðal annars að þakka þeim grunni sem síldarútvegurinn byggði upp á síðustu öld.“ 3
Síldarstúlkan móðir mín, Guðrún Einarsdóttir, saltar síld á Raufarhöfn, laust fyrir 1960.
Óneitanlega hvarflar að lesanda að hér eigi þá að endurskrifa áður útgefið viðamikið rit. Á baksíðu Síldaráranna er þó tekið fram að sögunni séu „… gerð skil í margradda frásögn síldarstúlkna og spekúlanta, aflakónga og ævintýramanna“ og að sagan fjalli um „svipult gengi, auðsæld og skort, um rómantík og harma, þrældóm og frelsi …“
Þarna er sem sagt boðuð einhvers konar ný félagsfræðileg nálgun að efninu og segir jafnframt að bókin sé afrakstur áralangrar vinnu höfundar við söfnun heimilda.
Svo búast má við miklu enda hefur Egill Örn Jóhannsson framkvæmdarstjóri Forlagins sagt að þetta sé ekki bara stórvirki heldur mesta þrekvirki sem hann hafi komið nálægt.4 Yfirlýsingar um fjölda mynda, sem sumar hafi meira að segja hvergi birst áður, hafa og ekki verið sparaðar.
II. kafli: Klippt og klístrað
Í fyrrnefndum ritdómi um Sögu Akraness I. bindi, skrifaði Páll Baldvin:
„Umgengni höfundar við heimildir er … háskaleg; hann hefur víða farið en skipar heimildum sínum, sem flestar eru sóttar í prentuð rit … ekki í veldisröð eftir trúverðugleika.“ 5 Ég vitna talsvert í þennan ritdóm Páls af því margt í honum á svo ljómandi vel við Síldarárin hans sjálfs, þar á meðal hin háskalega umgengni um heimildir.
Páll hefur sankað að sér ógrynni af heimildum úr ýmsum áttum (mest þó úr dagblöðum), klippir hiklaust út texta eftir aðra og límir alla vega saman án þess að reyna að meta trúverðugleika heimilda eða velta fyrir sér hvað muni passa hverju sinni.
Ég sleppi því að reyna að fjalla um fyrsta hluta Síldaráranna, sem er ekki nema örlítið um síld heldur um ýmislegt annað, sumt áhugavert. Má nefna dæmi svo sem um hvernig kamrar í Reykjavík voru hreinsaðir árið 1911 (bls. 457); um Svartholið í Reykjavík 1872 (bls. 105); um Friðriku á Bala, í kafla ársins 1856, sem vann sér fátt til frægðar annað en að mót af sumum líkamshlutum hennar er að finna á einhverju safni á Kanaríeyjum (bls. 40); um kaup erlendra manna á íslenskum hrossum eða sauðum (bls. 99) eða kvenmannshári (bls. 108) og þrif í Reykjavík, jafnt húsnæðis sem kroppa (bls. 156). Þessi dæmi ættu að sýna væntanlegum lesendum hve gífurlega víðfeðm efnistök í bókinni eru.
Svo er talsverð umfjöllun um fræga karla á borð við Jón Sigurðsson, Eirík Magnússon bókavörð í Cambridge, Benedikt Gröndal, sem var að öllum líkindum skotinn í eiginkonu Eiríks en öðrum konum einnig, baróninn á Hvítárvöllum og fleiri. Þeir eiga það sammerkt að enginn þeirra hafði áhuga á síld svo vitað sé.
Líklega stafa þessi undarlegu efnistök í bók sem heitir Síldarárin 1867-1969 af því að fátt er um fína drætti í heimildum um síld fram undir aldamótin 1900 og úr því þessi bók á að rekja rúmlega hundrað ára síldarsögu Íslands verður að lengja hana duglega með alls óskyldu efni. Eða eins og höfundurinn sjálfur lýsti slíkum vinnubrögðum í ritdómnum um Sögu Akraness I:
… sjást þess glögg merki að að höfundurinn leggur sig fram um að gera mikið úr litlu: Saga atvinnuhátta verður ítarleg og fer langt út fyrir efnisramma. Nú skal lopinn teygður. Margt er þar athyglisvert en fátt á erindi í rit sem þetta. 6
Ég fortek ekki fyrir það að Páll Baldvin hafi samið eitthvað af efninu í fyrsta hluta bókarinnar sjálfur, ólíkt megninu af bókinni þar sem næsta fátt mátti rekja til hans í þeim stikkprufum sem ég skoðaði.
Páll Baldvin hefur haft aðgang að ágætu glósusafni um síldveiðar við Ísland, nefnilega Síldarannál Hreins Ragnarssonar, þar sem vísað er í heimildir fyrir stuttri umfjöllun um síldveiðar hvert ár 1866-1998. Hreinn gaf Síldarminjasafni Íslands á Siglufirði eintak af þessum annál á stafrænu formi sem liggur frammi á síðu safnsins 7 Þaðan má finna blaðagreinar á timarit.is með lítilli fyrirhöfn, sem Páll nýtir sér stundum, eða skoða vísanir í aðrar heimildir fyrir hvert og einstakt ár. Yfirleitt er þess ekki getið að annállinn hafi verið notaður nema vitnað sé beint í örstuttar klausur eftir Hrein sjálfan.
Síldarminjasafn Íslands reynist Páli gullkista af heimildum, sem eðlilegt er, og sama gildir um hinn eldri vef Siglufjarðar, siglo.is. Það er hins vegar upp og ofan hversu vönduð vinna hans úr heimildunum er, eins og rakið verður síðar í þessum ritdómi. Sama gildir um umgengi um þriggja binda verkið Silfur hafsins-Gull Íslands.8
Vefsöfn með leitarmöguleika, á borð við dagblaða- og tímaritaritasafnið timarit.is, eða einfaldlega leitarvél bókasafna, leitir.is hafa líka komið sér prýðilega.
Hér tek ég fram að ég er ekki að finna að því að fólk leiti heimilda eða nýti heimildir – það er auðvitað óhjákvæmilegt ef skrifa á bók byggða á heimildum. Ég er hins vegar hneyksluð á því hvernig Páll Baldvin notar heimildir, ef marka má þær stikkprufur sem ég tók: Að breyta texta annarra, að klippa sundur texta annarra og raða upp á nýtt, að breyta nær ævinlega fyrirsögnum á textum annarra án þess að láta þess getið hafa hingað til þótt sóðaleg vinnubrögð. Að reyna ekki að meta heimildir heldur birta hvað sem er í belg og biðu mætti kalla „háskalega“ meðferð heimilda, að planta beinlínis inn villu í beina þýdda tilvitnun er fyrir neðan allar hellur og að taka vandlega merktar þýðingar annars manns orðrétt af vefsíðu án þess að geta að nokkru nema vefslóðar í TILVÍSANASKRÁ eða VEFHEIMILDUM (eða láta að engu getið) er auðvitað bara ritstuldur.
Síldarárin eru í rauninni miklu frekar úrklippusafn Páls Baldvins Baldvinssonar, með einstaka málsgrein eftir hann sjálfan, en rit eftir hann. Egill Helgason tók svo til orða í viðtali við Pál Baldvin í Kiljunni að þessa bók hefði Páll saman setta.9 Hið tvíræða orðalag Egils lýsir bókinni vel. Því ólíkt gömlu Öldunum okkar leggur Páll sig í líma til að texti þekkist ekki, t.d. með því að gefa blaðaúrklippum nær undantekningarlaust nýjan titil, klippa framan af þeim og setja eigin umorðun á þeim texta í staðinn og fleira þess háttar. Það má væntanlega treysta á það að venjulegur lesandi fer ekki að leggja á sig að fletta upp heimildum, í TILVÍSANASKRÁ aftast, því bara það að fletta þessum bókarhlunki kafla af kafla er átak. Og þótt vísað sé í eitthvað í TILVÍSANASKRÁ kann að vera ómögulegt að finna heimildina í PRENTAÐAR eða ÓPRENTAÐAR heimildir, svo ekki sé minnst á VEFHEIMILDIR.
III. kafli: Meðferð texta og tilvísanir
Sem áður sagði tók ég nokkrar stikkprufur og bar saman frumtexta og texta Páls. Ég einbeitti mér að textum um efni sem ég kunni einhver skil á áður.
Þessi litaða ljósmynd af Raufarhöfn er líklega tekin milli 1950 og 1960. Hún er fengin af myndasafni Raufarhafnarfélagsins og sýnir höfnina, báta og verksmiðju.
Á bls. 898 í Síldarárunum hefst umfjöllun um árið 1951 á texta með yfirskriftinni Raufarhöfn. Höfundar textans, Guðgeirs Magnússonar, er getið í meginmáli sem og þess að greinin hafi birst í Vikunni í júlí. Þetta er rangt því grein Guðgeirs birtist í Vikunni í janúar 1951. Í TILVÍSANASKRÁ er hins vegar rétt farið með árgang og tölublað.
Víða eru felldir stórir bútar úr greininni. Þess vegna verður þessi ágæta grein Guðgeirs heldur tætingsleg í meðförum Páls Baldvins. Í úrklippunni notar Páll úrfellingarmerki (þrjá punkta) en í mörgum öðrum greinum sem hann hefur klippt út er upp og ofan hvort úrfellingar eru táknaðar eða ekki.
Öllu verra er þegar Páll tekur upp á að að breyta texta Guðgeirs smávegis hér og þar. Hér á ég ekki við breytingar á stafsetningu í átt til nútímastafsetningar heldur smábreytingar á orðalagi, sem fellur þá kannski betur að smekk Páls eða eru einfaldlega villur í innslætti greinarinnar. Menn geta borið þessar greinar saman til að sjá hvað við er átt.
Önnur grein eftir Guðgeir Magnússon er tekin upp í Síldarárunum á bls. 1038-1040. Þar ber hún yfirskriftina Mikið úrkast. Fyrirsögnin er líklega hið eina sem Páll hefur lagt til textans því annað eru allt úrklippur úr grein Guðgeirs, sem heitir Þær salta síld á Raufarhöfn, er að stofni til viðtöl við margar síldarstúlkur, og birtist í Þjóðviljanum þann 19. júlí 1964 (29. árg. 160. tbl.) á síðum 2 og 9. Í meðförum á grein Guðgeirs hefur Páll fengið góða útrás fyrir skærin og límið, því hann klippir þessa beinu tilvitnun í parta og skeytir saman upp á nýtt svo viðtölin eru í allt annarri röð, þó orðrétt sé haft eftir. (Nokkrum viðtölum er sleppt, án úrfellingarmerkja.)
Það þarf varla að taka fram hve óþægilegt það er fyrir lesanda Síldaráranna að vita ekki hvar texta í blaðagrein hefur verið breytt, hvar hefur verið fellt úr honum eða hvort honum hefur nánast verið snúið á hvolf, eins og gert er í seinni grein Guðgeirs, að ástæðulausu að því er virðist.
Grein Guðgeirs er í heimild (Þjóðviljanum) bara merkt G.M. en Páll merkir hana (eða ræfilinn af henni) höfundi með fullu nafni í megintexta.
Sama heiður sýnir hann bráðskemmtilegri grein Jökuls Jakobssonar, sem í Síldarárunum heitir Allt brjálað á Raufarhöfn (bls. 990-992) en heitir í frumheimild (Tímanum, 45. árg., 158 tbl., bls. 8-9) Enginn svefn og varla matfriður – bara síld -síld! Greinin í Tímanum er aðeins merkt J en Páll breytir því í Jökull Jakobsson í meginmáli Síldaráranna. Þannig komast þeir Guðgeir og Jökull bæði í meginmál og NAFNASKRÁ en ekki er haft svo mikið við að rekja skammstafanir minni spámanna í blaðamannastétt.
Faðir minn, Hreinn Ragnarsson
Ef um er að ræða kafla úr safnritum virðist Páll láta duga að eigna ritstjóra verksins textann í TILVÍSANASKRÁ. Hending virðist svo ráða hvort höfundur textans ratar í NAFNASKRÁ eða PRENTAÐAR HEIMILDIR.
Sem dæmi má nefna textabútinn Stöðin á Raufarhöfn, bls. 911-912.
Í TILVÍSANASKRÁ segir að þessi bútur sé byggður á: „Hreinn Ragnarsson. 2007, 3. bindi, bls. 67-68, Ásgeir Jakobsson. 1994, bls. 293-294, Níels Árni Lund. 2016, III, bls. 67-69, 73, 76.“
IV kafli (bls. 65-174) í þriðja bindi safnritsins Silfur hafsins-Gull Íslands, sem þessari blaðsíður 67-68 eru í, heitir Síldarbræðsla og er eftir Guðna Th. Jóhannesson Raunar er vandséð að Páll nýti neitt af þessum 2 bls. en Guðni forseti kemst út á þetta í PRENTAÐAR HEIMILDIR, þar sem nafn greinar hans kemur fram, heiti og bindi safnritsins en ekki blaðsíðutöl greinarinnar.
Ég hef ekki aðgang að bók Ásgeirs Jakobssonar (um Óskar Halldórsson). En stór hluti þessa hrærigrautstexta, Stöðin á Raufarhöfn, er klipptur út úr síðunum í Sléttungu sem vísað er í. Sá galli er á gjöf Njarðar að kaflinn í Sléttungu er ekki eftir Níels Árna Lund heldur Hrein Ragnarsson, eins og kemur fram í aðfararorðum kaflans Síldarþorpið Raufarhöfn, bls. 52-76 í Sléttungu. Hrein er bæði að finna í NAFNASKRÁ og PRENTUÐUM HEIMILDUM en á hvorugri skránni er vísað í skrif hans í Sléttungu III.
Lesandi, sem dettur í hug að fletta textabútnum Stöðin á Raufarhöfn upp í TILVÍSANASKRÁ, mun þá sjá Hreini Ragnarssyni eignaður texti Guðna Th. Jóhannessonar og Níels Árna Lund eignaður texti Hreins Ragnarssonar.
IV. kafli: Villur
Sem fyrr sagði er vinna Páls Baldvins fyrst og fremst fólgin í því að klippa út texta eftir aðra og líma saman. Hann gerir enga tilraun til að meta þessa texta og treður stundum inn eigin villum í þessari úrklippur.
Þess vegna hefst klausan Elliði ferst (bls. 1003) þannig: „Þann 10. febrúar var togari Tryggva Ófeigssonar, Elliði, um það bil 15 sjómílur …“ Þetta hræðilega slys, þegar togarinn Elliði fórst, varð í aftakaveðri í febrúar 1962 og fórust tveir skipverja. Bæjarútgerð Siglufjarðar átti Elliða (og Hafliða), togara frá Siglufirði. Tryggvi Ófeigsson var alls ekki eigandi Elliða heldur átti Tryggvi togarann Júpíter sem bjargaði skipverjum af Elliða. (Í TILVÍSANASKRÁ vantar einhverja heimild því Páll hefur klippt saman heimild úr dagblaðinu Vísi og einhverja aðra heimild. Þetta meinta eignarhald Tryggva Ófeigssonar á Elliða er ekki að finna í Vísis-fréttinni.)
Í texta sem heitir Brunnskip á línuveiðum, bls. 306, segir af Bendik Mannes á Seyðisfirði og för hans til Raufarhafnar sumarið 1899. Kaflinn er sagður vera úr bók Kari Shetelig Hovland. 1985, bls. 25-26. Má ætla að Páll Baldvin hafi þýtt þennan bút sjálfur og hann segist láta tilvísanir Hovland halda sér en breyta númerum þeirra. Í Síldarárunum segir:
Eina nóttina lagði skipið við verslunarplássið á Raufarhöfn. Í grárri morgunskímunni var barið að dyrum hjá kaupmanninum og kom Jón Einarsson, sonur Einars í Höfnum, til dyra. Í gáttinni stóð stór maður og fyllti gættina, slíka kempu höfðu þeir bræður, Jón og Sveinn Einarsson, ekki séð.
Jón Einarsson, langafi minn
Þegar ég sá þessa klausu og að Einar Bragi (Sigurðsson skáld?) var talinn munnleg heimild Hovland, skv. Páli, varð ég mjög undrandi.
Í fyrsta lagi hafði ég heyrt þessa sögu áður, í öðru lagi er hún prentuð eftir eiginhandriti Einars Baldvins Jónssonar, sonar Jóns Einarssonar, í III. bindi Sléttungu (bls. 54-55) og í þriðja lagi var mér kunnugt um að skáldið Einar Bragi leigði tvö sumur hjá Sveini Einarssyni og fannst líklegt að hann hefði söguna þaðan. Og Einari Braga var þess vegna fullkunnugt um að Jón og Sveinn Einarssynir voru synir Einars Baldvins Guðmundssonar á Hraunum en ekki einhvers Einars í Höfnum.
Ég athugaði því frumtexann. Í bók Hovland segir:
En natt går skibet inn til denn vesle handelsplassen Raufarhøfn. I grålysningen banker det på døren hos kjøbmannen, og Jon Einarsson lukker opp. Der står en stor mann, han fyller hele døråbningen, de har aldri sett sånn kjempe der i huset. 10
Tilvísun Hovland fyrir þessari klausu er E.B. Jonsson. Í heimildaskránni er hann að finna undir Utrykte kilder: „Einar B. Jónsson, Raufarhøfn: Handrit. H. Ragnarsson ark.“
Þarna hefur einhverjum, líkast til Páli Baldvini sjálfum, tekist að planta röngum texta inn í örstutta beina þýdda tilvitnun í bók Hovland, þ.e. „sonur Einars í Höfnum“. Að auki tekst honum að kalla óprentaða heimild munnlega heimild og breyta nafni heimildarmanns!
V. kafli: Ritstuldur
Svo sem komið hefur fram í fjölmiðlum undanfarið hefur Páll Baldvin verið ásakaður um ritstuld. Á bls. 751-752 er texti sem ber yfirskriftina Sumartúr til Íslands, myndskreytt með kviknöktum manni sem sagður er á íslensku fiskiskipi.
Í TILVÍSANASKRÁ segir um heimild fyrir þessum texta: „Sumartúr http://www.siglo.is/frettir/sagan-um-svaninn-sildveidar-landlega-og-slagsmal-o.fl.-a-siglo-1936. Sótt 21.7. 2019.“
Textinn sem Páll tekur traustataki af vef Siglufjarðar heitir SAGAN UM SVANINN! Síldveiðar, landlega og slagsmál o.fl. á Sigló 1935. Í upphafi textans kemur fram að Edmond Bäck skrifaði þetta niður eftir frásögn föður síns, Johan Bäck. Raunar kemur það sama fram á mynd af handriti Edmonds á vefsíðunni.
Fyrir neðan fyrirsögn á vefsíðunni er borði þar sem nafn þess sem setti frásögnina á vefinn siglo.is kemur fram, þ.e. Jón Ólafur Björgvinsson. Í lok textans kemur skýrt fram að sami maður, Jón Ólafur, þýddi textann með leyfi skrásetjara og fékk einnig sérstakt leyfi til að birta textann og flestar myndir sem hann skreyta á vefsíðunni. Hvorki Jóns Ólafs né þeirra feðga Johan og Edmond Bäck er getið í TILVÍSANASKRÁ eða NAFNASKRÁ. Vefslóðina er hins vegar að finna í TILVÍSANASKRÁ og í skrá yfir VEFHEIMILDIR, án skýringar.
Jóni Ólafi Björgvinssyni brá að sjálfsögðu í brún þegar hann áttaði sig á að textinn í bók Páls sem hann kannaðist svo mjög við var hans eigin þýðing.11 Að venju klippir Páll svo textann dálítið til, án þess að geta þess að nokkru.
Af þessum ritstuldi hefur hlotist nokkur rekistefna, sem von er. Páll Baldvin sagði þetta vera mistök við frágang á heimildaskrá:
…að heimilda var ekki getið að fullu um þýðingu og styttingu Jóns Björgvinssonar [?] á tveimur stöðum í bókinni: birt var þýðing hans á texta eftir Edmund Back [svo] sem Jón birti á vefnum Siglo.is og einungis vísað á vefslóð en fylgdi ekki nafn höfundar né þýðanda. Þetta er miður og áafsakanlegt [svo], en nákvæm tilvísun fór framhjá mér, ritstjóra og prófarkarlesurum. Bið ég afsökunar á þessum mistökum því ekkert er fjarri okkur sem unnum ritið til prentunar að sleppa svo mikilvægum upplýsingum. 12
Ekki varð það til að róa Jón Ólaf að þegar Páll Baldvin bað hann fyrst afsökunar sendi hann honum fyrir mistök bréfadræsu í tölvupósti sem reyndist vera innanhúspóstur Forlagsmanna um þetta mál. Þar var farið var háðuglegum orðum um Jón Ólaf.13
Páll Baldvin hefur í samtölum við fjölmiðla lítið viljað tjá sig um ritstuldinn nema hamrað á því að hann hafi ekki verið með vilja framinn og vonandi sé þetta eina dæmið um mistök í skráningu. 14
Það er þá óneitanlega merkilegt að Páll Baldvin sækir á öðrum stað purkunarlaust í smiðju Jóns Ólafs Björgvinssonar án þess að geta hans að nokkru. Þetta er textabúturinn Úr sænsku jólablaði á bls. 839. Í TILVÍSANASKRÁ er einfaldlega ekki vitnað til neinnar heimildar. Í skrá yfir VEFHEIMILDIR er ekki vitnað í slóð á texta Jóns Ólafs. En textar Páls og Jóns Ólafs eru svo sláandi líkir, raunar alveg eins að stórum hluta, að það leikur enginn vafi á því hvaðan efnið er upprunnið. Jólablaðið sem um ræðir, Vi, er ekki að finna í PRENTAÐAR HEIMILDIR í Síldarárunum (en tímarit eru skráð þar) svo hafi Páll ekki stolið orðrétt hluta af stuttum þýddum texta Jóns Ólafs Björgvinssonar að mestu og umskrifað örlítið brot af upphafi klausu Jóns Ólafs hefur sænski textinn úr Vi og þýðingin með væntanlega fallið Páli í skaut af himnum ofan!
Um þennan ritstuld hefur Páll Baldvin þagað þunnu hljóði þótt Jón Ólafur Björgvinsson hafi reynt að rukka hann um svör frá því fyrri ritstuldurinn uppgötvaðist.
Grein Jóns Ólafs Björgvinssonar, þaðan sem Páll Baldvin sækir efnið, er að finna á vefnum Siglo.is og heitir þar SILLSTULKOR I SIGLUFJORD / Sænsk myndasyrpa frá 1945.
Í lok greinarinnar segir: Íslenskur texti og þýðing: Jón Ólafur Björgvinsson Sænskur texti: VI vikublað Nr: 50, 1945 Ljósmyndir: Jöran Forsslund. Í miðri greininni segir Jón Ólafur þó: „Það er ekki tekið fram hver var blaðamaður eða ljósmyndari, en líklega heitir ljósmyndarinn Jöran Forsslund.“
Síðar fékk Jón Ólafur skönnuð eintök af þessum myndum frá útgefanda, sem og aukamyndir sem teknar voru í þessum leiðangri Vi til Siglufjarðar sumarið 1945 en ekki notaðar í blaðinu. Við nánari athugun Jóns Ólafs kom svo í ljós að alls ekki var tryggt að Jöran Forsslund hefði tekið þessar myndir. Undir þetta taka fleiri. 15
Það er tæpast tilviljun að Páll Baldvin birtir nokkrar myndir úr sömu syrpu og Jón Ólafur birti úr Vi 1945, hér og þar í bókinni. Þær myndir í Síldarárunum lét Páll kaupa af Sjöberg Bildbyrå, sænsku myndasölusafni sem hafði keypt upp lagerinn hjá Company Saxon & Lindström fyrir nokkrum áratugum, þar á meðal þessar myndir. Akkúrat þessar myndir og fleiri úr sama myndasölusafni eru allar eignaðar Jöran Forsslund eða Jöran Forslund í bók Páls. Þær eru hins vegar alveg ómerktar í safni Sjöberg Bildbyrå, bæði frumeintök og eintök á vef. (Hér má sjá þessar gullfallegu myndir, ásamt fleirum, í safni Sjöberg Bildbyrå.)
VI. kafli: Meðferð mynda
Póstkort af Búðinni á Raufarhöfn sem Einar Baldvin Jónsson og Hólmfríður Árnadóttir (afi minn og amma) létu gera. Á myndinni sést einnig Óskarsbragginn og fleira.
Það gladdi mig mjög að sjá merkilega mynd frá Raufarhöfn, á bls. 693, sem ég hafði aldrei séð áður. Að vísu er ekki stafur um Raufarhöfn á þessari opnu né á síðunum í kring en það einkennir myndanotkun Páls í bókinni að ljósmyndir tengjast ekkert endilega texta.
Páll vísar í rétta heimild fyrir því hvaðan myndin er fengin í MYNDASKRÁ en lætur þess þó ekki getið að þetta er eftirtaka, þ.e.a.s. mynd af mynd, ættuð úr filmusafni Einars Vilhjálmssonar á Ljósmyndasafni Austurlands. (Dæmi eru þó um að þess sé getið í MYNDASKRÁ þegar mynd er eftirtaka, t.d. ljómandi falleg mynd af langalangafa mínum nr. 169 og mynd 288 úr Ljósmyndasafni Austurlands.) Af því að myndin er eftirtaka er ekki bara ljósmyndari óþekktur heldur einnig uppruni myndarinnar.
Enginn er skráður fyrir mjög löngum myndatexta við Raufarhafnarmyndina en í þeim texta er villa: Búðin er þar sögð heita Gamla búðin. Ég veit ekki hvaðan sú villa er komin því ég er með afrit af upphaflegri innámerkingu húsanna á myndinni, sem Páli var send, og þar er Búðin merkt sínu rétta nafni sem og Bræðurnir Einarsson (verslunin og önnur starfsemi í Búðinni hét Verzlunin Bræðurnir Einarsson). Í myndatexta segir að myndin sé líklega tekin 1930 eða 31. Það er ekki ólíklegt en ekki er vísað í heimild fyrir því.
Á næstu opnu, bls. 695, eru myndir sem fanga athyglina: Stúlkur í kojum og Nótabátur og flugvél. Í MYNDASKRÁ segir: „Stúlkur, ljósm. ókunnur. Hreinn Ragnarsson: 2007. 2. b., bls. 75.“
(Það er illmögulegt að sjá að myndirnar tengist textanum Finnskur floti, á sömu síðu, en það gera þær. Heimildin fyrir Finnskur floti er sögð Morgunblaðið 18. árg., 150. tbl., bls. 3, í TILVÍSANASKRÁ.)
Myndirnar í Silfri hafsins-Gulli Íslands, sem ætla má að Páll sé að vísa í undir nafni Hreins Ragnarssonar, eru þar inni í mjög löngum kafla sem Steinar J. Lúðvíksson skrifaði, og heitir Síldarútvegur á 20. öld (bls. 2-164). Á bls. 75 í grein Steinars eru 3 myndir ásamt skýringum og hefur Páll látið ljósmynda tvær þeirra til að setja í bókina sína. Ef Páll hefði einnig lagt á sig að fletta upp í LJÓSMYNDASKRÁ í 3. bindi af Silfri hafsins-Gulli Íslands hefði hann séð að myndirnar eru úr bókinni Hopeaparvien Perässä Islannin Vesillä, eftir Helge Heikkinen, útg. 1981. Nokkurra mínútna Google leit leiðir í ljós að Helge Heikkinen tók þessar myndir sjálfur.16 Steinar J. Lúðvíksson er svo ekki skráður fyrir þessum kafla sínum, í PRENTUÐUM HEIMILDUM í bók Páls Baldvins.
Fleiri villur má nefna í myndatextum sem Páll hefur mögulega samið sjálfur en þá um Raufarhafnarmyndina. T.d. er stutt klausa á bls. 777 um heimsókn danska ríkisarfans og konu hans til Siglufjarðar árið 1938, mynd af þeim hjónum á bryggjunni og myndatextinn fylgir í klausunni. Þar segir m.a.: „Fjær er síldarsöltunarstöð Óskars Halldórssonar en nær er Hrímnir, Hrímnisplan.“ Kunnugir segja mér að það sé af og frá að sjá megi Söltunarstöðina Hrímni og Hrímnisplan á þessari mynd.19
Enn eitt dæmið er mynd nr. 4 á síðu 943, en hún er sögð sýna Guðmund skipstjóra [Jörundsson] í brúnni á togara sínum, Jörundi. Sama mynd er í Morgunblaðinu sem textinn Í róðri á Jörundi er klipptur úr (44. árg., 158 tbl., bls. 10) en þar er myndatextinn „Við stýrið. Á síld er ekki alltaf tími til að raka sig.“ Tvær aðrar myndir af Guðmundi skipstjóra eru bæði í Morgunblaðinu og bók Páls og verður að segjast að stýrimaðurinn líkist honum ekki hið minnsta. Jörundur Guðmundsson, sonur hins fræga aflakóngs Guðmundar skipstjóra, staðfesti að þessi mynd sé alls ekki af föður sínum, í símtali við mig þann 21. janúar 2020.
Myndatexti á bls. 939 er kolrangur. Myndin sýnir brimið ganga yfir báta í Akraneshöfn og birtist fyrir ofan aðalfyrirsögnina 1957 í bók Páls. Í myndatexta segir frá slæmri veðurspá í janúar það ár sem hafi orðið til þess að Akranesbátar hafi siglt til Reykjavíkur. Myndin sýni hins vegar „sjóa sem gengu yfir höfnina á Akranesi fyrr um veturinn …“ og hafi þurft að vakta hvern bát í höfninni og keyra vélar meðan á veðurofsanum stóð. Í MYNDASKRÁ segir að myndin sé tekin af Árna Böðvarssyni, LÍ, Mbl1-1181.
Ljósmynd Árna Böðvarsson fylgdi frétt í Morgunblaðinu 2. nóv. 1956, um mikinn veðurofsa á Akranesi á fyrsta vetrardag [27. október] 1956 Þar er myndatextinn svona:
Þessi ljósmynd er af Akranesi, tekin þar morguninn sem allur þorri Akranesbáta varð að fara út úr höfninni til Reykjavíkur, þar eð skipin voru talin í mikilli hættu við hafnargarðinn vegna hins ægilega brims sem var þennan morgun. Myndin sýnir eina ölduna skella á garðinn, og það er marks um hve há hún er, hve ljósastaurinn fremst til hægri virðist lár í lofti.
Í þessu dæmi býr Páll Baldvin sem sagt til allt aðra sögu í sínum myndatexta en er í heimildinni þar sem myndin birtist.
Sem áður sagði eru myndir oft í engum tengslum við texta. Það er eins og litið hafi verið yfir textablokkina og hugsað sem svo: Hér vantar mynd. Og svo er bara einhver mynd tekin og henni klastrað einhvers staðar í opnuna.
Ósmekklegasta dæmið um svona vinnubrögð er á bls. 1031. Síðuna þekur næstum löng úrklippa úr Morgunblaðinu þar sem klipptur textinn fjallar um að vélbáturinn Leifur Eiríksson hafi farist kvöldið áður, þ.e. 30. ágúst 1963. Einn sjómaður fórst. Inn í þennan texta er klesst ljósmynd af glugga í afgreiðslu Tímans í Bankastræti og myndatextinn fjallar um prentaraverkfall í nóvember 1963!
Á bls. 172 í Síldarárunum er mynd af bát að draga reknet (drifnet). Tilvísun í MYNDASKRÁ er svona, stafrétt: „Drifnet. Hreinn Ragnarsson. 2007, bls. 245.2.b.Guðni Þorsteinsson.“
Í 2. bindi af Silfri hafsins-Gulli Íslands er kafli eftir Jakob Jakobsson sem heitir Veiðarfæri og veiðitækni (bls. 242-278.) Á síðu 245 í þeim kafla eru 2 myndir af reknetum: Önnur sýnir reknet með kapalinn yfir netunum, hin sýnir reknet með kapalinn undir netunum. Í LJÓSMYNDASKRÁ í 3. bindi þessa verks segir að myndirnar séu teknar úr ritinu Veiðarfæri og veiðaraðferðir eftir Guðna Þorsteinsson, Reykjavík.
Myndin á bls. 172 í bók Páls Baldvins er alls ekki myndin sem er á bls. 245 í Silfri hafsins-Gulli Íslands. Hún er ekki einu sinni lík þeirri mynd! Og hver er þessi Guðni Þorsteinsson sem troðið er aftast í óprófarkalesnu tilvísunina í MYNDASKRÁ? Einhver teiknari sem teiknaði mynd af skipi og hafði síðan báðar myndirnar úr Silfri hafsins-Gulli Íslands til hliðsjónar til að geta sett þær saman í eitt net sem skipið dregur? Eða upphaflegur teiknari myndanna tveggja af mismunandi reknetum, sem myndin í bók Páls líkist ekki baun? Þetta er þá eina dæmið sem ég finn um að Páll hafi nennt að skoða frumheimild, þ.e. heimildir sem Silfur hafsins-Gull Íslands vísar í. Og til lítils er skoðað því myndin í Síldarárunum er ekki myndin í Silfri hafsins-Gulli Íslands, sem áður sagði. (Jakob Jakobsson, höfundur kaflans, fær hvorki pláss í NAFNASKRÁ né PRENTUÐUM HEIMILDUM út á þennan kafla sinn í Silfri hafsins-Gulli Íslands sem Páll Baldvin vísar í.)
Fleiri dæmi um líklega rangfeðrun mynda, ófeðrun mynda, ruglandi í myndatexta, smekkleysi í myndskreytingu og rugli í MYNDASKRÁ mætti tína til. Ég nefni þó aðeins eitt dæmi enn.
Um hina frægu og fögru kápumyndar Síldaráranna segir:
Forsíðumynd: Erla Nanna Jóhannesdóttir í kaffihléi á Siglufirði 1950.
Hans Malmberg. Billedarkivet. Stokkhólmi.
Hans Malmberg tók vissulega myndina. En hún getur ekki verið fengin úr Billedarkivet Stokkhólmi af því það er ekki til (fyrir utan það að sænskt safn héti varla dönsku nafni). Norræna safnið í Stokkhólmi á þessa mynd og líklega hefur Páll Baldvin (sem er myndaritstjóri Síldaráranna) ruglast á bildarkiv Nordiska museet í Stokkhólmi, þ.e. þeim stafræna hluta Norræna safnsins sem birtist á digitalmuseum.se. Myndina má sjá hér. Að auki má bæta við að hafi myndin verið tekin árið 1950 þá hefur Erla Nanna einungis verið 6 ára gömul! Sjálf segist hún muna eftir einhverjum ljósmyndara þegar hún var 13 ára og að myndin sé tekin 1957.18
VII. kafli: Skrár
Svo byrjað sé á jákvæðum nótum skal tekið fram að NAFNASKRÁ er að mestu leyti rétt, miðað við mína stikkprufuskoðun. Þó má spyrja sig hvers vegna aðeins hásetinn Jóhann Þorsteinsson sem haft er eftir í úrklippu Páls um þegar vélbáturinn Leifur Eiríksson fórst (bls. 1031 í bók Páls, klippt saman úr Morgunblaðinu 31. ágúst 1963, bls. 1 og Morgunblaðinu 13. september 1963, bls. 10) ratar í NAFNASKRÁ. Það gerir ekki skipstjórinn á Sigurgeir Bergmann, Helgi Aðalgeirsson, sem bjargaði mörgum skipverjum, er rætt við í fyrri heimildinni og ratar í megintexta Síldaráranna. Ég reikna með að fleiri svona gloppur séu í NAFNASKRÁ sé grannt skoðað.
Ein af elstu myndunum sem til eru af Búðinni á Raufarhöfn. Sveinn Einarsson og kona hans, Guðrún Guðjohnsen standa fyrir utan. Konan í bíslaginu er líklega Pálína Hildur Jónsdóttir Laxdal Einarsson, langamma mín.
TILVÍSANASKRÁ og PRENTAÐAR HEIMILDIR
Svo sem áður hefur komið fram er margt bogið við tilvísanaskráningu. Ber þar auðvitað hæst að ævinlega er vísað í ritstjóra safnrita sem höfund og þótt hinn raunverulegi höfundur textans rati kannski í NAFNASKRÁ og kannski ekki, rati kannski í PRENTAÐAR HEIMILDIR með kaflaheiti í safnritinu en án blaðsíðutals (eða kannski ekki) að þá er ekki vinnandi vegur að vita hver skrifaði textann sem vísað er í nema hafa safnritið við höndina.
Mætti nefna enn eitt dæmið, tilvísun við textann Ár eftir ár, á bls. 86, þar sem m.a. er vísað í: „Kari Shetelig. 1980, bls. 12-13. Hreinn Ragnarsson. 2007, bls. 29-31. …“ Það er augljóst að síðari tilvísun er í Silfur hafsins-Gull Íslands en í hvaða bindi? Og eftir hvern er textinn?
Með því að skoða efnið getur lesandi grafið upp að því að þarna er vísað í III. kafla 1. bindis Silfurs hafsins-Gulls Íslands og að Hreinn Ragnarsson er raunar höfundur þess kafla en í félagi við Steinar J. Lúðvíksson. Steinars er ekki getið sem höfundar neins kafla í Silfri hafsins-Gulli Íslands í PRENTUÐUM HEIMILDUM eins og áður hefur verið nefnt.
Sá sem ætlar að finna bók Kari Shetelig í PRENTUÐUM HEIMILDUM má leita lengi því þetta eru fornöfn höfundar og bækur hennar eru skráðar undir Hovland, Kari Shetelig.
Sumir þýðendur eru hunsaðir algerlega, t.d. Jón Ólafur Björgvinsson (eins og áður hefur komið fram) en aðrir ekki, t.d. Smári Geirsson og Bjarni Þórðarson. Næstum alls staðar þar sem bók Kari Shetelig Hovland frá 1980 (bókin heitir Norske seilskuter på Islandsfiske) ber á góma í TILVÍSANASKRÁ er bætt við: „Stuðst er við þýðingu Smára Geirssonar og Bjarna Þórðarsonar sem birtist í Austurlandi en textinn er nokkuð styttur.“ Lesandi er að vísu engu nær um hvar nákvæmlega þessi þýðing/þýðingar er(u) því þeir Smári og Bjarni eru ekki skráðir fyrir neinni þýðingu í PRENTUÐUM HEIMILDUM, þar er einungis að finna tímaritið Austurland 1.-30. árgangur.
Undir PRENTAÐAR HEIMILDIR í heimildaskrá má finna: „Hreinn Ragnarsson. 2010. Ms. Word -skrá með síldarannál 1866-1998. Gefin út í 10 eintökum í janúar 2010. Án útg. Sjá http://www. sild.is/sildarsagan/sildarannall-hreins-ragnarssonar“. Þetta plagg er ekki prentað heldur fjölritað og ætti því að skrá það undir ÓPRENTAÐAR HEIMILDIR, þ.e.a.s. ef Páll Baldvin hefur yfirleitt séð pappírseintakið. En í öllum tilvísunum til Síldarannáls Hreins er vísað í vefslóðina svo kannski ætti hann betur heima undir VEFHEIMILDIR.
Það myndi æra óstöðugan að telja upp allar þær villur sem ég fann í TILVÍSANASKRÁ og PRENTUÐUM HEIMILDUM. Báðar skrárnar eru illa prófarkalesnar og fjöldi stafavilla þar að finna, í kaupbæti við hinar villurnar. Það er t.d. upp og ofan hvort bindi í Silfri hafsins-Gulli Íslands eða Sléttungu eru skráð með rómverskum eða arabískum tölum. Ég nefni enn eitt dæmi um hyskni eða lélegan prófarkalestur í uppsetningu PRENTAÐRA HEIMILDA: „Níels Árni Lund. 2016. Sléttunga – safn til sögu Melrakkasléttu. 1.-3. bindi. Raufarhöfn. Reykjavík. Skrudda.“ Bindin heita: Sléttunga I. Safn til sögu Melrakkasléttu. Náttúra og mannlíf; Sléttunga II. Safn til sögu Melrakkasléttu. Fólk og býli og Sléttunga III. Safn til sögu Melrakkasléttu. Raufarhöfn.
Í heimildaskrá yfir ÓPRENTAÐAR HEIMILDIR er að finna fjölda heimilda sem ættu heima undir VEFHEIMILDIR því þær eru sóttar á vefsetrið Sarpur og vefslóð gefin upp hverju sinni (þótt frumeintök séu geymd á þjóðháttadeild Þjóðminjasafns Íslands).
Þar eru og skráð skjalasöfn ýmis en gleymist að skrá Skjalasafn Húsavíkur, þaðan sem teikning Jóns Jónssonar Víðis, bls. 550, er sögð fengin í MYNDASKRÁ. (Raunar er ekkert til sem heitir Skjalasafn Húsavíkur og líklega er Páll að meina Héraðsskjalasafn Þingeyinga, breytir þó ekki því að skjalasafnið ætti að skrá.)
Í ÓPRENTUÐUM HEIMILDUM er skráð: „Hreinn Ragnarsson, 1980. Þættir úr síldarsögu Íslands 1900-1935. Í vörslu Síldarsögusjóðs.“ Síldarsögusjóður er skráður í Fyrirtækjaskrá til ársins 2009 en þá lést forstöðumaður hans, Gunnar Flóvenz. Sjóðurinn er enn skráður til húsa á hinu gamla heimili Gunnars, í Fyrirtækjaskrá.
Hvernig Páll Baldvin gat skoðað handrit af námsritgerð á safni Síldarsögusjóðs, sem ekki hefur starfað frá 2009, er mér hulin ráðgáta. Þetta er cand.mag. ritgerð Hreins og skv. símtali við starfsmann Landsbókasafns-Háskólabókasafns hefur Páll Baldvin ekki skoðað eintakið þar, ef marka má skráningarblað. Hvergi er vísað í þessa ritgerð í TILVÍSANASKRÁ og satt best að segja held ég að þetta sé upplogin heimild, þ.e. heimild sem ekki hafi verið notuð en þykir kannski gera sig vel að hafa hana einhvers staðar í heimildaskránni.
Ég hef þegar fjallað nokkuð um MYNDASKRÁ í umfjöllun um myndir (sjá einnig tilvísanir í heimildir við þennan ritdóm) og ætla að láta það duga, þótt ég geti talið upp fleiri villur þar.
Hvað varðar skrána VEFHEIMILDIR er einfalt mál að dæma hana: Hún er að stærstum hluta algert rugl! Það er augljóst mál að Páll Baldvin, eða ritstjórinn hans, hefur/hafa ekki hugmynd um hvernig vísa skuli til heimilda á Vefnum. (Og raunar birtist þessi vankunnátta strax á bls. 47 í megintexta bókarinnar, þar sem hann segir frá bók Þóru Andreu Nikólínu Jónsdóttur frá 1858, Nýrri matreiðslubók ásamt ávísun um litun, þvott o.fl. og segir: „… en lesa má bók hennar í stafrænu eintaki á Leitir.is undir hennar höfundarnafni.“ Leitir er leitarvél bókasafna en bók Þóru Andreu liggur frammi á vefsetrinu Bækur.is og hefði verið eðlilegast að vísa í stafræna eintakið þar.
Niðurstaða mín, eftir að hafa skoðað örlítið brot af Síldarárunum Páls Baldvins Baldvinsonar, er í stuttu máli sú að hörmulega sé farið með texta annarra og fátt bendi til að hann hafi sjálfur skrifað mikið meira en myndatexta, inngang að úrklipptum greinum og stöku þýðingu. Finna má fjölda villa í öllu þessu efni þótt einungis hafi verið teknar nokkrar stikkprufur. Reynt er að gefa bókinni fræðilegt yfirbragð með ítarlegum skrám í lokin. Því miður eru þessar skár útbíaðar í villum.
Heimildir
1 Páll Baldvin Baldvinsson. Saga Akraness eitt [ritdómur]. Fréttatíminn, 2. árg. 27. tbl., bls. 30. https://timarit.is/issue/361687
2 Jakob Bjarnar. Hvarf inní grúskið og áratugur farinn. visir.is 22. Nóv. 2019. https://www.visir.is/g/2019191129623
3 Ávarp Síldarsögusjóðs. Silfur hafsins-Gull Íslands. Síldarsaga Íslendinga, 1. bindi. 2007. Ritstjóri: Hreinn Ragnarsson. Reykjavík. Nesútgáfan. Án bls.tals.
4 Páll Baldvin Baldvinsson. Saga Akraness eitt [ritdómur]. Fréttatíminn, 2. árg. 27. tbl., bls. 30. https://timarit.is/page/5818510
5 Egill Örn Jóhannsson í Jakob Bjarnar. Hvarf inní grúskið og áratugur farinn. visir.is 22. nóv. 2019. https://www.visir.is/g/2019191129623
6 Páll Baldvin Baldvinsson. Saga Akraness eitt [ritdómur]. Fréttatíminn, 2. árg. 27. tbl., bls. 30. https://timarit.is/page/5818510
7 Páll Baldvin Baldvinsson. Saga Akraness eitt [ritdómur]. Fréttatíminn, 2. árg. 27. tbl., bls. 30. https://timarit.is/page/5818510
8 Hreinn Ragnarsson. 2010. Síldarannáll. MS Word-skrá með síldarannál frá 1865 til 1998. Gefin út í 10 eintökum í janúar 2010. Án útg. http://www.sild.is/sildarsagan/sildarannall-hreins-ragnarssonar/ (Ég vek athygli á að svona er þetta fjölfaldaða Word-skjal skáð undir PRENTAÐAR HEIMILDIR í Síldarárum Páls Baldvins.)
9 Egill Helgason. 27.nóv. 2019. Kiljan. https://www.ruv.is/sjonvarp/spila/kiljan/27856/89kv8k. Skoðað á vef RÚV þann 16. Jan. 2020.
10 Hovland, Kari Shetelig. 1985. Norske Islandsfiskere på havet. Bergen – Oslo – Stavanger – Tromsø. Univeritetsforlaget AS. Bls. 25.
11 Sjá Jón Ólafur Björgvinsson. 11. jan. 2010. Vafasöm-síldarsögu-sagnfræði ? Copy & paste bókmenntir á Trölli.is. https://trolli.is/vafasom-sildarsogu-sagnfraedi-klippa-og-lima-bokmenntir-o-fl/
12 Páll Baldvin Baldvinsson: Athugasemd við fyrrnefnda bloggfærslu Jóns Ólafs Björgvinssonar á Trölli.is. https://trolli.is/vafasom-sildarsogu-sagnfraedi-klippa-og-lima-bokmenntir-o-fl/
13 Jakob Bjarnar. 13. janúar 2020.Visir.is. Sendi innanhúspóst Forlagsmanna óvart til Siglfirðingsins. https://www.visir.is/g/2020200119685
14 Sjá Oddur Ævar Gunnarsson. 13. janúar 2020. Fréttabladid.is. Af og frá að ritstuldur hafi verið með vilja gerður. http://www.frettabladid.is/frettir/af-og-fra-ad-ritstuldur-hafi-verid-med-vilja-gerdur/ og rosa@mbl.is 13.1.2020. Mbl.is Sakar Pál Baldvin um ritstuld. https://www.mbl.is/frettir/innlent/2020/01/13/sakar_pal_baldvin_um_ritstuld/
15 Dóttir Jöran Forsslund, Lena Fejan Forsslund Ljunghill, gat ekki staðfest við Jón Ólaf Björgvinsson að faðir hennar hefði tekið þessar myndir. Jöran Forsslund var ljósmyndaritstjóri á Vi árið 1945. Sá sem sendi Jóni Ólafi aukamyndir úr þessari ferð og sumar myndirnar úr blaðinu í pdf-skjali taldi að Jöran Forsslund hefði skrifað myndatextana en ekki endilega tekið myndirnar. Þetta kemur fram í skilaboðum frá Jóni Ólafi Björgvinssyni til mín á Facebook 15. jan. 2020 og þann 19. janúar 2020. Og sem fram kom í meginmáli segir eigandi Sjöberg bildbyrå að enginn myndanna sé merkt.
16 Sjá http://mg.kpd.lt/users/www/uploaded/pien%20BalticHerring_v9_3.08_po%20ostatnich%20poprawkach11.pdf
17 Jón Ólafur Björgvinsson í skilaboðum til mín 13. janúar 2010: „… svo segir textinn að það sjáist í hrímnir HF sem afi minn átti en það er bara bull, því hrímnir stendur enn miklu norðar og sét [svo] ekki á þessari mynd.“ Sjá einnig umræðu á opinni Facebókarsíðu Jóns Ólafs Björgvinssonar þann 11. janúar 2020, þar sem nokkrir Siglfirðingar taka undir staðhæfingu um að söltunar- og fiskverkunarstöðin Hrímnir og Hrímnisplan sjáist alls ekki á þessari mynd.
18 Kolbrún Bergþórsdóttir. 28. nóv. 2019. Visir.is. Síldarstúlkan mætir í útgáfuhófið. https://www.visir.is/g/2019191128782
Þessi bloggfærsla er skreytt myndum frá Raufarhöfn, sem um árabil var ýmis hæsti eða næsthæsti söltunar- og bræðuslustaður landsins.