Author Archives: Harpa Hreinsdottir

Um þrenndartaugarverk (trigeminal neuralgia)

Færslur um þrenndartaugarverk eru þessar, í réttri tímaröð:

1. Þrenndartaugabólga eða vangahvot;
2. Lyfjameðferð við þrenndartaugabólgu;
3. Þrenndartaugin og inngrip gegn þrenndartaugabólgu
4. Skurðaðgerðir og aðrar aðgerðir í eða við þrenndarhnoða

(Og ein söguleg færsla, Konustráið hans Péturs og greifynjan af Norðimbralandi.)

Yfirlit um sjúkdóminn er hér: https://heilsuhringurinn.is/2020/01/30/threnndartaugarverkur-trigeminal-neuralgia/ (Höfund vantar en þessi grein er eftir mig.)

Til er íslenskur Facebook hópur fyrir þá sem þjást af þessum kvilla. Ef einhver lesandi telur sig vera með þrenndartaugarverk og vill komast í þennan hóp er best að hafa annað hvort samband við mig (á Facebook eða netfangið harpahreins59@gmail.com) eða Guðlaugu Grétarsdóttur, stofnanda Fb. hópsins, (á Facebook eða á netfangið gudlaug.gretars@gmail.com). Aðstandendur sjúklinga með TN eða ATN hafa einnig aðgang að hópnum.

Ritdómur um Síldarárin

Páll Baldvin Baldvinsson. 2019. Síldarárin 1867-1969. Reykjavík. JVP útgáfa

Ágrip

Þetta verk Páls Baldvins hefur verið lofað með hástemmdum lýsingum (Sjá I. kafla: Verðskuldað lof?) og ég bjóst fyrirfram við að bókin væri áhugaverð og skemmtileg.

Ég skoðaði nokkuð vandlega örlítið brot af textum, myndum og skrám í bókinni og tók stikkprufur úr því efni sem ég taldi mig þekkja til fyrir.

Þótt ekki væru skoðuð nema þessi brot úr bókinni verður því miður að segjast að mýmörg fundust dæmin um villur í verkinu. Meðferð á textum annarra var allt að því háskaleg. (Sjá II. kafla: Klippt og klístað; III. kafla: Meðferð texta og tilvísanir; IV. kafla: Villur og V. kafla: Ritstuldur.)

Meðferð mynda, t.d. ruglandi í myndatextum, ruglandi í tilvísunum til MYNDASKRÁAR, líklega rangfeðrun mynda eða myndir sem ekki eru eignaðar ljósmyndara þótt ljóst sé hver hann er, smekklaust val á myndskreytingu o.fl.  gefur meðferð texta satt best að segja lítið eftir. (Sjá VI. kafla Meðferð mynda.)

Loks má nefna að í flestum þeim rómuðu skrám sem fylgja ritinu aftast er urmull af villum og prófarkalestri áfátt. (Sjá VII. kafla: Skrár.)

Ég ítreka að ég kannaði einungis brot úr bókinni en gerði enga tilraun til að lesa hana alla, ekki einu sinni fletta henni kerfisbundið, eftir að ég áttaði mig á hve umfjöllun Páls var í miklum belg og biðu. Í ítarlegri umfjöllun hér á eftir stytti ég titilinn á bók Páls í Síldarárin.

Umfjöllun

I. kafli: Verðskuldað lof?

Páll Baldvin hefur sjálfur fjallað um svona bókarhlunk eins og Síldarárin hans er, í ritdómi um Sögu Akraness I, sem hann var lítið hrifinn af: „Þyngsta verk ársins er komið út …. Stærð og fyrirferð er slík að bókina er aðeins hægt að lesa á borði …1 Saga Akraness I  vó 18 merkur. Síldarárin vega 14 merkur. Munurinn liggur fyrst og fremst í mismunandi vönduðum pappír.

„Þetta er mikil bók, Síldarárin eru 1.152 blaðsíður í stóru broti og í henni eru rúmlega þúsund ljósmyndir. Bókin er 3,5 kíló og útgáfan mun hafa kostað 50 milljónir“ er sagt um Síldarárin hans Páls Baldvins.2

Á baksíðu hinnar miklu bókar segir að Ísland hafi breyst úr örsnauðu þróunarlandi í tæknivætt velferðarríki: „Síldin reyndist þar mikill örlagavaldur, og ósennilegt er að lífskjör væru hér svo góð sem raun ber vitni ef hennar hefði ekki notið við.“ Í bókinni sé „ …þessari mögnuðu og mikilvægu sögu gerð skil …“.

Þessi kynningarorð á baksíðunni minna óneitanlega á Ávarp Síldarsögusjóðs í Silfri hafsins-Gulli Íslands. Síldarsögu Íslendinga. 2007. (Þetta þriggja binda verk verður hér eftir kallað Silfur hafsins-Gull Íslands):

„Það er ekki vansagt að síldin hafi breytt gangi mála á Íslandi og átt drjúgan þátt í því að auka velsæld þjóðarinnar. … Nú er íslenska þjóðin rík, það á hún meðal annars að þakka þeim grunni sem síldarútvegurinn byggði upp á síðustu öld.“ 3

Söltunarstúlka

Síldarstúlkan móðir mín, Guðrún Einarsdóttir, saltar síld á Raufarhöfn, laust fyrir 1960.

Óneitanlega hvarflar að lesanda að hér eigi þá að endurskrifa áður útgefið viðamikið rit. Á baksíðu Síldaráranna er þó tekið fram að sögunni séu „… gerð skil í margradda frásögn síldarstúlkna og spekúlanta, aflakónga og ævintýramanna“ og að sagan fjalli um „svipult gengi, auðsæld og skort, um rómantík og harma, þrældóm og frelsi …“

Þarna er sem sagt boðuð einhvers konar ný félagsfræðileg nálgun að efninu og segir jafnframt að bókin sé afrakstur áralangrar vinnu höfundar við söfnun heimilda.

Svo búast má við miklu enda hefur Egill Örn Jóhannsson framkvæmdarstjóri Forlagins sagt að þetta sé ekki bara stórvirki heldur mesta þrekvirki sem hann hafi komið nálægt.4 Yfirlýsingar um fjölda mynda, sem sumar hafi meira að segja hvergi birst áður, hafa og ekki verið sparaðar.

 

II. kafli: Klippt og klístrað

Í fyrrnefndum ritdómi um Sögu Akraness I. bindi, skrifaði Páll Baldvin:

„Umgengni höfundar við heimildir er … háskaleg; hann hefur víða farið en skipar heimildum sínum, sem flestar eru sóttar í prentuð rit … ekki í veldisröð eftir trúverðugleika.“ 5  Ég vitna talsvert í þennan ritdóm Páls af því margt í honum á svo ljómandi vel við Síldarárin hans sjálfs, þar á meðal hin háskalega umgengni um heimildir.

Páll hefur sankað að sér ógrynni af heimildum úr ýmsum áttum (mest þó úr dagblöðum), klippir hiklaust út texta eftir aðra og límir alla vega saman án þess að reyna að meta trúverðugleika heimilda eða velta fyrir sér hvað muni passa hverju sinni.

Ég sleppi því að reyna að fjalla um fyrsta hluta Síldaráranna, sem er ekki nema örlítið um síld heldur um ýmislegt annað, sumt áhugavert. Má nefna dæmi svo sem um hvernig kamrar í Reykjavík voru hreinsaðir árið 1911 (bls. 457); um Svartholið í Reykjavík 1872 (bls. 105);  um Friðriku á Bala, í kafla ársins 1856, sem vann sér fátt til frægðar annað en að mót af sumum líkamshlutum hennar er að finna á einhverju safni á Kanaríeyjum (bls. 40); um kaup erlendra manna á íslenskum hrossum eða sauðum (bls. 99) eða kvenmannshári (bls. 108) og þrif í Reykjavík, jafnt húsnæðis sem kroppa (bls. 156). Þessi dæmi ættu að sýna væntanlegum lesendum hve gífurlega víðfeðm efnistök í bókinni eru.

Svo er talsverð umfjöllun um fræga karla á borð við Jón Sigurðsson, Eirík Magnússon bókavörð í Cambridge, Benedikt Gröndal, sem var að öllum líkindum skotinn í eiginkonu Eiríks en öðrum konum einnig, baróninn á Hvítárvöllum og fleiri. Þeir eiga það sammerkt að enginn þeirra hafði áhuga á síld svo vitað sé.

Líklega stafa þessi undarlegu efnistök í bók sem heitir Síldarárin 1867-1969 af því að fátt er um fína drætti í heimildum um síld fram undir aldamótin 1900 og úr því þessi bók á að rekja rúmlega hundrað ára síldarsögu Íslands verður að lengja hana duglega með alls óskyldu efni. Eða eins og höfundurinn sjálfur lýsti slíkum vinnubrögðum í ritdómnum um Sögu Akraness I:

 … sjást þess glögg merki að að höfundurinn leggur sig fram um að gera mikið úr litlu: Saga atvinnuhátta verður ítarleg og fer langt út fyrir efnisramma. Nú skal lopinn teygður. Margt er þar athyglisvert en fátt á erindi í rit sem þetta. 6

Ég fortek ekki fyrir það að Páll Baldvin hafi samið eitthvað af efninu í fyrsta hluta bókarinnar sjálfur, ólíkt megninu af bókinni þar sem næsta fátt mátti rekja til hans í þeim stikkprufum sem ég skoðaði.

Páll Baldvin hefur haft aðgang að ágætu glósusafni um síldveiðar við Ísland, nefnilega Síldarannál Hreins Ragnarssonar, þar sem vísað er í heimildir fyrir stuttri umfjöllun um síldveiðar hvert ár 1866-1998. Hreinn gaf Síldarminjasafni Íslands á Siglufirði eintak af þessum annál á stafrænu formi sem liggur frammi á síðu safnsins 7  Þaðan má finna blaðagreinar á timarit.is með lítilli fyrirhöfn, sem Páll nýtir sér stundum, eða skoða vísanir í aðrar heimildir fyrir hvert og einstakt ár. Yfirleitt er þess ekki getið að annállinn hafi verið notaður nema vitnað sé beint í örstuttar klausur eftir Hrein sjálfan.

Síldarminjasafn Íslands reynist Páli gullkista af heimildum, sem eðlilegt er, og sama gildir um hinn eldri vef Siglufjarðar, siglo.is. Það er hins vegar upp og ofan hversu vönduð vinna hans úr heimildunum er, eins og rakið verður síðar í þessum ritdómi. Sama gildir um umgengi um þriggja binda verkið Silfur hafsins-Gull Íslands.8

Vefsöfn með leitarmöguleika, á borð við dagblaða- og tímaritaritasafnið timarit.is, eða einfaldlega leitarvél bókasafna, leitir.is hafa líka komið sér prýðilega.

Hér tek ég fram að ég er ekki að finna að því að fólk leiti heimilda eða nýti heimildir – það er auðvitað óhjákvæmilegt ef skrifa á bók byggða á heimildum. Ég er hins vegar hneyksluð á því hvernig Páll Baldvin notar heimildir, ef marka má þær stikkprufur sem ég tók: Að breyta texta annarra, að klippa sundur texta annarra og raða upp á nýtt, að breyta nær ævinlega fyrirsögnum á textum annarra án þess að láta þess getið hafa hingað til þótt sóðaleg vinnubrögð. Að reyna ekki að meta heimildir heldur birta hvað sem er í belg og biðu mætti kalla „háskalega“ meðferð heimilda, að planta beinlínis inn villu í beina þýdda tilvitnun er fyrir neðan allar hellur og að taka vandlega merktar þýðingar annars manns orðrétt af vefsíðu án þess að geta að nokkru nema vefslóðar í TILVÍSANASKRÁ eða VEFHEIMILDUM (eða láta að engu getið) er auðvitað bara ritstuldur.

Síldarárin eru í rauninni miklu frekar úrklippusafn Páls Baldvins Baldvinssonar, með einstaka málsgrein eftir hann sjálfan, en rit eftir hann. Egill Helgason tók svo til orða í viðtali við Pál Baldvin í Kiljunni að þessa bók hefði Páll saman setta.9 Hið tvíræða orðalag Egils lýsir bókinni vel. Því ólíkt gömlu Öldunum okkar leggur Páll sig í líma til að texti þekkist ekki, t.d. með því að gefa blaðaúrklippum nær undantekningarlaust nýjan titil, klippa framan af þeim og setja eigin umorðun á þeim texta í staðinn og fleira þess háttar. Það má væntanlega treysta á það að venjulegur lesandi fer ekki að leggja á sig að fletta upp heimildum, í TILVÍSANASKRÁ aftast, því bara það að fletta þessum bókarhlunki kafla af kafla er átak. Og þótt vísað sé í eitthvað í TILVÍSANASKRÁ kann að vera ómögulegt að finna heimildina í PRENTAÐAR eða ÓPRENTAÐAR heimildir, svo ekki sé minnst á VEFHEIMILDIR.

 

III. kafli: Meðferð texta og tilvísanir

Sem áður sagði tók ég nokkrar stikkprufur og bar saman frumtexta og texta Páls. Ég einbeitti mér að textum um efni sem ég kunni einhver skil á áður.

Raufarhöfn

Þessi litaða ljósmynd af Raufarhöfn er líklega tekin milli 1950 og 1960. Hún er fengin af myndasafni Raufarhafnarfélagsins  og sýnir höfnina, báta og verksmiðju.

Á bls. 898 í Síldarárunum hefst umfjöllun um árið 1951 á texta með yfirskriftinni Raufarhöfn. Höfundar textans, Guðgeirs Magnússonar, er getið í meginmáli sem og þess að greinin hafi birst í Vikunni í júlí. Þetta er rangt því grein Guðgeirs birtist í Vikunni í janúar 1951.  Í TILVÍSANASKRÁ er hins vegar rétt farið með árgang og tölublað.

Víða eru felldir stórir bútar úr greininni. Þess vegna verður þessi ágæta grein Guðgeirs heldur tætingsleg í meðförum Páls Baldvins. Í úrklippunni notar Páll úrfellingarmerki (þrjá punkta) en í mörgum öðrum greinum sem hann hefur klippt út er upp og ofan hvort úrfellingar eru táknaðar eða ekki.

Öllu verra er þegar Páll tekur upp á að að breyta texta Guðgeirs smávegis hér og þar. Hér á ég ekki við breytingar á stafsetningu í átt til nútímastafsetningar heldur smábreytingar á orðalagi, sem fellur þá kannski betur að smekk Páls eða eru einfaldlega villur í innslætti greinarinnar. Menn geta borið þessar greinar saman til að sjá hvað við er átt.

Önnur grein eftir Guðgeir Magnússon er tekin upp í Síldarárunum á bls. 1038-1040. Þar ber hún yfirskriftina Mikið úrkast. Fyrirsögnin er líklega hið eina sem Páll hefur lagt til textans því annað eru allt úrklippur úr grein Guðgeirs, sem heitir Þær salta síld á Raufarhöfn, er að stofni til viðtöl við margar síldarstúlkur, og birtist í Þjóðviljanum þann 19. júlí 1964 (29. árg. 160. tbl.) á síðum 2 og 9. Í meðförum á grein Guðgeirs hefur Páll fengið góða útrás fyrir skærin og límið, því hann klippir þessa beinu tilvitnun í parta og skeytir saman upp á nýtt svo viðtölin eru í allt annarri röð, þó orðrétt sé haft eftir. (Nokkrum viðtölum er sleppt, án úrfellingarmerkja.)

Það þarf varla að taka fram hve óþægilegt það er fyrir lesanda Síldaráranna að vita ekki hvar texta í blaðagrein hefur verið breytt, hvar hefur verið fellt úr honum eða hvort honum hefur nánast verið snúið á hvolf, eins og gert er í seinni grein Guðgeirs, að ástæðulausu að því er virðist.

Grein Guðgeirs er í heimild (Þjóðviljanum) bara merkt G.M. en Páll merkir hana (eða ræfilinn af henni) höfundi með fullu nafni í megintexta.

Sama heiður sýnir hann bráðskemmtilegri grein Jökuls Jakobssonar, sem í Síldarárunum heitir Allt brjálað á Raufarhöfn (bls. 990-992) en heitir í frumheimild (Tímanum, 45. árg., 158 tbl., bls. 8-9) Enginn svefn og varla matfriður – bara síld -síld! Greinin í Tímanum er aðeins merkt J en Páll breytir því í Jökull Jakobsson í meginmáli Síldaráranna. Þannig komast þeir Guðgeir og Jökull bæði í meginmál og NAFNASKRÁ en ekki er haft svo mikið við að rekja skammstafanir minni spámanna í blaðamannastétt.

Hreinn Ragnarsson

Faðir minn, Hreinn Ragnarsson

Ef um er að ræða kafla úr safnritum virðist Páll láta duga að eigna ritstjóra verksins textann í TILVÍSANASKRÁ. Hending virðist svo ráða hvort höfundur textans ratar í NAFNASKRÁ eða PRENTAÐAR HEIMILDIR.

Sem dæmi má nefna textabútinn Stöðin á Raufarhöfn, bls. 911-912.
Í TILVÍSANASKRÁ segir að þessi bútur sé byggður á: „Hreinn Ragnarsson. 2007, 3. bindi, bls. 67-68, Ásgeir Jakobsson. 1994, bls. 293-294, Níels Árni Lund. 2016, III, bls. 67-69, 73, 76.“

IV kafli (bls. 65-174) í þriðja bindi safnritsins Silfur hafsins-Gull Íslands, sem þessari blaðsíður 67-68 eru í, heitir Síldarbræðsla og er eftir Guðna Th. Jóhannesson Raunar er vandséð að Páll nýti neitt af þessum 2 bls. en Guðni forseti kemst út á þetta í PRENTAÐAR HEIMILDIR, þar sem nafn greinar hans kemur fram, heiti og bindi safnritsins en ekki blaðsíðutöl greinarinnar.

Ég hef ekki aðgang að bók Ásgeirs Jakobssonar (um Óskar Halldórsson). En stór hluti þessa hrærigrautstexta, Stöðin á Raufarhöfn, er klipptur út úr síðunum í Sléttungu sem vísað er í. Sá galli er á gjöf Njarðar að kaflinn í Sléttungu er ekki eftir Níels Árna Lund heldur Hrein Ragnarsson, eins og kemur fram í aðfararorðum kaflans Síldarþorpið Raufarhöfn, bls. 52-76 í Sléttungu. Hrein er bæði að finna í NAFNASKRÁ og PRENTUÐUM HEIMILDUM en á hvorugri skránni er vísað í skrif hans í Sléttungu III.

Lesandi, sem dettur í hug að fletta textabútnum Stöðin á Raufarhöfn upp í TILVÍSANASKRÁ, mun þá sjá Hreini Ragnarssyni eignaður texti Guðna Th. Jóhannessonar og Níels Árna Lund eignaður texti Hreins Ragnarssonar.

 

IV. kafli: Villur

Sem fyrr sagði er vinna Páls Baldvins fyrst og fremst fólgin í því að klippa út texta eftir aðra og líma saman. Hann gerir enga tilraun til að meta þessa texta og treður stundum inn eigin villum í þessari úrklippur.

Þess vegna hefst klausan Elliði ferst (bls. 1003) þannig: „Þann 10. febrúar var togari Tryggva Ófeigssonar, Elliði, um það bil 15 sjómílur …“  Þetta hræðilega slys, þegar togarinn Elliði fórst, varð í aftakaveðri í febrúar 1962 og fórust tveir skipverja. Bæjarútgerð Siglufjarðar átti  Elliða (og Hafliða), togara frá Siglufirði. Tryggvi Ófeigsson var alls ekki eigandi Elliða heldur átti Tryggvi togarann Júpíter sem bjargaði skipverjum af Elliða.  (Í TILVÍSANASKRÁ vantar einhverja heimild því Páll hefur klippt saman heimild úr dagblaðinu Vísi og einhverja aðra heimild. Þetta meinta eignarhald Tryggva Ófeigssonar á Elliða er ekki að finna í Vísis-fréttinni.)

Í texta sem heitir Brunnskip á línuveiðum, bls. 306, segir af Bendik Mannes á Seyðisfirði og för hans til Raufarhafnar sumarið 1899. Kaflinn er sagður vera úr bók Kari Shetelig Hovland. 1985, bls. 25-26.  Má ætla að Páll Baldvin hafi þýtt þennan bút sjálfur og hann segist láta tilvísanir Hovland halda sér en breyta númerum þeirra. Í Síldarárunum segir:

Eina nóttina lagði skipið við verslunarplássið á Raufarhöfn. Í grárri morgunskímunni var barið að dyrum hjá kaupmanninum og kom Jón Einarsson, sonur Einars í Höfnum, til dyra. Í gáttinni stóð stór maður og fyllti gættina, slíka kempu höfðu þeir bræður, Jón og Sveinn Einarsson, ekki séð.

Jón Einarsson

Jón Einarsson, langafi minn

Þegar ég sá þessa klausu og að Einar Bragi (Sigurðsson skáld?) var talinn munnleg heimild Hovland, skv. Páli, varð ég mjög undrandi.

Í fyrsta lagi hafði ég heyrt þessa sögu áður, í öðru lagi er hún prentuð eftir eiginhandriti Einars Baldvins Jónssonar, sonar Jóns Einarssonar, í III. bindi Sléttungu (bls. 54-55) og í þriðja lagi var mér kunnugt um að skáldið Einar Bragi leigði tvö sumur hjá Sveini Einarssyni og fannst líklegt að hann hefði söguna þaðan. Og Einari Braga var þess vegna fullkunnugt um að Jón og Sveinn Einarssynir voru synir Einars Baldvins Guðmundssonar á Hraunum en ekki einhvers Einars í Höfnum.

Ég athugaði því frumtexann. Í bók Hovland segir:

En natt går skibet inn til denn vesle handelsplassen Raufarhøfn. I grålysningen banker det på døren hos kjøbmannen, og Jon Einarsson lukker opp. Der står en stor mann, han fyller hele døråbningen, de har aldri sett sånn kjempe der i huset. 10

Tilvísun Hovland fyrir þessari klausu er E.B. Jonsson. Í heimildaskránni er hann að finna undir Utrykte kilder: „Einar B. Jónsson, Raufarhøfn: Handrit. H. Ragnarsson ark.“

Þarna hefur einhverjum, líkast til Páli Baldvini sjálfum, tekist að planta röngum texta inn í örstutta beina þýdda tilvitnun í bók Hovland, þ.e. „sonur Einars í Höfnum“. Að auki tekst honum að kalla óprentaða heimild munnlega heimild og breyta nafni heimildarmanns!

 

V. kafli: Ritstuldur

Svo sem komið hefur fram í fjölmiðlum undanfarið hefur Páll Baldvin verið ásakaður um ritstuld. Á bls. 751-752 er texti sem ber yfirskriftina Sumartúr til Íslands, myndskreytt með kviknöktum manni sem sagður er á íslensku fiskiskipi.

Í TILVÍSANASKRÁ segir um heimild fyrir þessum texta: „Sumartúr http://www.siglo.is/frettir/sagan-um-svaninn-sildveidar-landlega-og-slagsmal-o.fl.-a-siglo-1936. Sótt 21.7. 2019.“

Textinn sem Páll tekur traustataki af vef Siglufjarðar heitir SAGAN UM SVANINN! Síldveiðar, landlega og slagsmál o.fl. á Sigló 1935.  Í upphafi textans kemur fram að Edmond Bäck skrifaði þetta niður eftir frásögn föður síns, Johan Bäck. Raunar kemur það sama fram á mynd af handriti Edmonds á vefsíðunni.

Fyrir neðan fyrirsögn á vefsíðunni er borði þar sem nafn þess sem setti frásögnina á vefinn siglo.is kemur fram, þ.e. Jón Ólafur Björgvinsson. Í lok textans kemur skýrt fram að sami maður, Jón Ólafur, þýddi textann með leyfi skrásetjara og fékk einnig sérstakt leyfi til að birta textann og flestar myndir sem hann skreyta á vefsíðunni. Hvorki Jóns Ólafs né þeirra feðga Johan og Edmond Bäck er getið í TILVÍSANASKRÁ eða NAFNASKRÁ. Vefslóðina er hins vegar að finna í TILVÍSANASKRÁ og í skrá yfir VEFHEIMILDIR, án skýringar.

Jóni Ólafi Björgvinssyni brá að sjálfsögðu í brún þegar hann áttaði sig á að textinn í bók Páls sem hann kannaðist svo mjög við var hans eigin þýðing.11 Að venju klippir Páll svo textann dálítið til, án þess að geta þess að nokkru.

Af þessum ritstuldi hefur hlotist nokkur rekistefna, sem von er. Páll Baldvin sagði þetta vera mistök við frágang á heimildaskrá:

 …að heimilda var ekki getið að fullu um þýðingu og styttingu Jóns Björgvinssonar [?]  á tveimur stöðum í bókinni: birt var þýðing hans á texta eftir Edmund Back [svo] sem Jón birti á vefnum Siglo.is og einungis vísað á vefslóð en fylgdi ekki nafn höfundar né þýðanda. Þetta er miður og áafsakanlegt [svo], en nákvæm tilvísun fór framhjá mér, ritstjóra og prófarkarlesurum. Bið ég afsökunar á þessum mistökum því ekkert er fjarri okkur sem unnum ritið til prentunar að sleppa svo mikilvægum upplýsingum. 12

Ekki varð það til að róa Jón Ólaf að þegar Páll Baldvin bað hann fyrst afsökunar sendi hann honum fyrir mistök bréfadræsu í tölvupósti sem reyndist vera innanhúspóstur Forlagsmanna um þetta mál. Þar var farið var háðuglegum orðum um Jón Ólaf.13

Páll Baldvin hefur í samtölum við fjölmiðla lítið viljað tjá sig um ritstuldinn nema hamrað á því að hann hafi ekki verið með vilja framinn og vonandi sé þetta eina dæmið um mistök í skráningu. 14

Það er þá óneitanlega merkilegt að Páll Baldvin sækir á öðrum stað purkunarlaust í smiðju Jóns Ólafs Björgvinssonar án þess að geta hans að nokkru. Þetta er textabúturinn Úr sænsku jólablaði á bls. 839. Í TILVÍSANASKRÁ er einfaldlega ekki vitnað til neinnar heimildar. Í skrá yfir VEFHEIMILDIR er ekki vitnað í slóð á texta Jóns Ólafs. En textar Páls og Jóns Ólafs eru svo sláandi líkir, raunar alveg eins að stórum hluta, að það leikur enginn vafi á því hvaðan efnið er upprunnið. Jólablaðið sem um ræðir, Vi, er ekki að finna í PRENTAÐAR HEIMILDIR í Síldarárunum (en tímarit eru skráð þar) svo hafi Páll ekki stolið orðrétt hluta af stuttum þýddum texta Jóns Ólafs Björgvinssonar að mestu og umskrifað örlítið brot af upphafi klausu Jóns Ólafs hefur sænski textinn úr Vi  og þýðingin með væntanlega fallið Páli í skaut af himnum ofan!

Um þennan ritstuld hefur Páll Baldvin þagað þunnu hljóði þótt Jón Ólafur Björgvinsson hafi reynt að rukka hann um svör frá því fyrri ritstuldurinn uppgötvaðist.

Grein Jóns Ólafs Björgvinssonar, þaðan sem Páll Baldvin sækir efnið, er að finna á vefnum Siglo.is og heitir þar SILLSTULKOR I SIGLUFJORD / Sænsk myndasyrpa frá 1945.

Í lok greinarinnar segir: Íslenskur texti og þýðing: Jón Ólafur Björgvinsson Sænskur texti: VI vikublað Nr: 50, 1945  Ljósmyndir: Jöran Forsslund. Í miðri greininni segir Jón Ólafur þó: „Það er ekki tekið fram hver var blaðamaður eða ljósmyndari, en líklega heitir ljósmyndarinn Jöran Forsslund.“

Síðar fékk Jón Ólafur skönnuð eintök af þessum myndum frá útgefanda, sem og aukamyndir sem teknar voru í þessum leiðangri Vi  til Siglufjarðar sumarið 1945 en ekki notaðar í blaðinu. Við nánari athugun Jóns Ólafs kom svo í ljós að alls ekki var tryggt að Jöran Forsslund hefði tekið þessar myndir. Undir þetta taka fleiri. 15

Það er tæpast tilviljun að Páll Baldvin birtir nokkrar myndir úr sömu syrpu og Jón Ólafur birti úr Vi  1945, hér og þar í bókinni. Þær myndir í Síldarárunum lét Páll kaupa af Sjöberg Bildbyrå, sænsku myndasölusafni sem hafði keypt upp lagerinn hjá Company Saxon & Lindström fyrir nokkrum áratugum, þar á meðal þessar myndir. Akkúrat þessar myndir og fleiri úr sama myndasölusafni eru allar eignaðar Jöran Forsslund eða Jöran Forslund í bók Páls. Þær eru hins vegar alveg ómerktar í safni Sjöberg Bildbyrå, bæði frumeintök og eintök á vef. (Hér má sjá þessar gullfallegu myndir, ásamt fleirum, í safni Sjöberg Bildbyrå.)

 

VI. kafli: Meðferð mynda

Raufarhön

Póstkort af Búðinni á Raufarhöfn sem Einar Baldvin Jónsson og Hólmfríður Árnadóttir (afi minn og amma) létu gera. Á myndinni sést einnig Óskarsbragginn og fleira.

Það gladdi mig mjög að sjá merkilega mynd frá Raufarhöfn, á bls. 693, sem ég hafði aldrei séð áður. Að vísu er ekki stafur um Raufarhöfn á þessari opnu né á síðunum í kring en það einkennir myndanotkun Páls í bókinni að ljósmyndir tengjast ekkert endilega texta.

Páll vísar í rétta heimild fyrir því hvaðan myndin er fengin í MYNDASKRÁ en lætur þess þó ekki getið að þetta er eftirtaka, þ.e.a.s. mynd af mynd, ættuð úr filmusafni Einars Vilhjálmssonar á Ljósmyndasafni Austurlands. (Dæmi eru þó um að þess sé getið í MYNDASKRÁ þegar mynd er eftirtaka, t.d. ljómandi falleg mynd af langalangafa mínum nr. 169 og mynd 288 úr Ljósmyndasafni Austurlands.) Af því að myndin er eftirtaka er ekki bara ljósmyndari óþekktur heldur einnig uppruni myndarinnar.

Enginn er skráður fyrir mjög löngum myndatexta við Raufarhafnarmyndina en í þeim texta er villa: Búðin er þar sögð heita Gamla búðin. Ég veit ekki hvaðan sú villa er komin því ég er með afrit af upphaflegri innámerkingu húsanna á myndinni, sem Páli var send, og þar er Búðin merkt sínu rétta nafni sem og Bræðurnir Einarsson (verslunin og önnur starfsemi í Búðinni hét Verzlunin Bræðurnir Einarsson). Í myndatexta segir að myndin sé líklega tekin 1930 eða 31. Það er ekki ólíklegt en ekki er vísað í heimild fyrir því.

Á næstu opnu, bls. 695, eru myndir sem fanga athyglina: Stúlkur í kojum og Nótabátur og flugvél. Í MYNDASKRÁ segir: „Stúlkur, ljósm. ókunnur. Hreinn Ragnarsson: 2007. 2. b., bls. 75.“

(Það er illmögulegt að sjá að myndirnar tengist textanum Finnskur floti, á sömu síðu, en það gera þær. Heimildin fyrir Finnskur floti er sögð Morgunblaðið 18. árg., 150. tbl., bls. 3, í TILVÍSANASKRÁ.)

Myndirnar í Silfri hafsins-Gulli Íslands, sem ætla má að Páll sé að vísa í undir nafni Hreins Ragnarssonar, eru þar inni í mjög löngum kafla sem Steinar J. Lúðvíksson skrifaði, og heitir Síldarútvegur á 20. öld (bls. 2-164). Á bls. 75 í grein Steinars eru 3 myndir ásamt skýringum og hefur Páll látið ljósmynda tvær þeirra til að setja í bókina sína. Ef Páll hefði einnig lagt á sig að fletta upp í LJÓSMYNDASKRÁ í 3. bindi af Silfri hafsins-Gulli Íslands hefði hann séð að myndirnar eru úr bókinni Hopeaparvien Perässä Islannin Vesillä, eftir Helge Heikkinen, útg. 1981. Nokkurra mínútna Google leit leiðir í ljós að Helge Heikkinen tók þessar myndir sjálfur.16 Steinar J. Lúðvíksson er svo ekki skráður fyrir þessum kafla sínum, í PRENTUÐUM HEIMILDUM í bók Páls Baldvins.

Fleiri villur má nefna í myndatextum sem Páll hefur mögulega samið sjálfur en þá um Raufarhafnarmyndina. T.d. er stutt klausa á bls. 777  um heimsókn danska ríkisarfans og konu hans til Siglufjarðar árið 1938, mynd af þeim hjónum á bryggjunni og myndatextinn fylgir í klausunni. Þar segir m.a.: „Fjær er síldarsöltunarstöð Óskars Halldórssonar en nær er Hrímnir, Hrímnisplan.“ Kunnugir segja mér að það sé af og frá að sjá megi Söltunarstöðina Hrímni og Hrímnisplan á þessari mynd.19

Enn eitt dæmið er mynd nr. 4 á síðu 943, en hún er sögð sýna Guðmund skipstjóra [Jörundsson] í brúnni á togara sínum, Jörundi. Sama mynd er í Morgunblaðinu sem textinn Í róðri á Jörundi er klipptur úr (44. árg., 158 tbl., bls. 10) en þar er myndatextinn „Við stýrið. Á síld er ekki alltaf tími til að raka sig.“ Tvær aðrar myndir af Guðmundi skipstjóra eru bæði í Morgunblaðinu og bók Páls og verður að segjast að stýrimaðurinn líkist honum ekki hið minnsta. Jörundur Guðmundsson, sonur hins fræga aflakóngs Guðmundar skipstjóra, staðfesti að þessi mynd sé alls ekki af föður sínum, í símtali við mig þann 21. janúar 2020.

Myndatexti á bls. 939 er kolrangur. Myndin sýnir brimið ganga yfir báta í Akraneshöfn og birtist fyrir ofan aðalfyrirsögnina 1957 í bók Páls. Í myndatexta segir frá slæmri veðurspá í janúar það ár sem hafi orðið til þess að Akranesbátar hafi siglt til Reykjavíkur. Myndin sýni hins vegar „sjóa sem gengu yfir höfnina á Akranesi fyrr um veturinn …“ og hafi þurft að vakta hvern bát í höfninni og keyra vélar meðan á veðurofsanum stóð. Í MYNDASKRÁ segir að myndin sé tekin af Árna Böðvarssyni, LÍ, Mbl1-1181.

Ljósmynd Árna Böðvarsson fylgdi frétt í Morgunblaðinu 2. nóv. 1956, um mikinn veðurofsa á Akranesi á fyrsta vetrardag [27. október] 1956 Þar er myndatextinn svona:

Þessi ljósmynd er af Akranesi, tekin þar morguninn sem allur þorri Akranesbáta varð að fara út úr höfninni til Reykjavíkur, þar eð skipin voru talin í mikilli hættu við hafnargarðinn vegna hins ægilega brims sem var þennan morgun. Myndin sýnir eina ölduna skella á garðinn, og það er marks um hve há hún er, hve ljósastaurinn fremst til hægri virðist lár í lofti.

Í þessu dæmi býr Páll Baldvin sem sagt til allt aðra sögu í sínum myndatexta en er í heimildinni þar sem myndin birtist.

Sem áður sagði eru myndir oft í engum tengslum við texta. Það er eins og litið hafi verið yfir textablokkina og hugsað sem svo: Hér vantar mynd. Og svo er bara einhver mynd tekin og henni klastrað einhvers staðar í opnuna.

Ósmekklegasta dæmið um svona vinnubrögð er á bls. 1031. Síðuna þekur næstum löng úrklippa úr Morgunblaðinu þar sem klipptur textinn fjallar um að vélbáturinn Leifur Eiríksson hafi farist kvöldið áður, þ.e. 30. ágúst 1963. Einn sjómaður fórst. Inn í þennan texta er klesst ljósmynd af glugga í afgreiðslu Tímans í Bankastræti og myndatextinn fjallar um prentaraverkfall í nóvember 1963!

Á bls. 172 í Síldarárunum er mynd af bát að draga reknet (drifnet). Tilvísun í MYNDASKRÁ er svona, stafrétt: „Drifnet. Hreinn Ragnarsson. 2007, bls. 245.2.b.Guðni Þorsteinsson.“

Í 2. bindi af Silfri hafsins-Gulli Íslands er kafli eftir Jakob Jakobsson sem heitir Veiðarfæri og veiðitækni (bls. 242-278.) Á síðu 245 í þeim kafla eru 2 myndir af reknetum: Önnur sýnir reknet með kapalinn yfir netunum, hin sýnir reknet með kapalinn undir netunum. Í LJÓSMYNDASKRÁ í 3. bindi þessa verks segir að myndirnar séu teknar úr ritinu Veiðarfæri og veiðaraðferðir eftir Guðna Þorsteinsson, Reykjavík.

Myndin á bls. 172 í bók Páls Baldvins er alls ekki myndin sem er á bls. 245 í Silfri hafsins-Gulli Íslands. Hún er ekki einu sinni lík þeirri mynd! Og hver er þessi Guðni Þorsteinsson sem troðið er aftast í óprófarkalesnu tilvísunina í MYNDASKRÁ? Einhver teiknari sem teiknaði mynd af skipi og hafði síðan báðar myndirnar úr Silfri hafsins-Gulli Íslands til hliðsjónar til að geta sett þær saman í eitt net sem skipið dregur? Eða upphaflegur teiknari myndanna tveggja af mismunandi reknetum, sem myndin í bók Páls líkist ekki baun? Þetta er þá eina dæmið sem ég finn um að Páll hafi nennt að skoða frumheimild, þ.e. heimildir sem Silfur hafsins-Gull Íslands vísar í. Og til lítils er skoðað því myndin í Síldarárunum er ekki myndin í Silfri hafsins-Gulli Íslands, sem áður sagði. (Jakob Jakobsson, höfundur kaflans,  fær hvorki pláss í NAFNASKRÁ né PRENTUÐUM HEIMILDUM út á þennan kafla sinn í Silfri hafsins-Gulli Íslands sem Páll Baldvin vísar í.)

Fleiri dæmi um líklega rangfeðrun mynda, ófeðrun mynda, ruglandi í myndatexta, smekkleysi í myndskreytingu og rugli í MYNDASKRÁ mætti tína til. Ég nefni þó aðeins eitt dæmi enn.

Um hina frægu og fögru kápumyndar Síldaráranna segir:

Forsíðumynd: Erla Nanna Jóhannesdóttir í kaffihléi á Siglufirði 1950.
Hans Malmberg. Billedarkivet. Stokkhólmi.

Hans Malmberg tók vissulega myndina. En hún getur ekki verið fengin úr Billedarkivet Stokkhólmi af því það er ekki til (fyrir utan það að sænskt safn héti varla dönsku nafni). Norræna safnið í Stokkhólmi á þessa mynd og líklega hefur Páll Baldvin (sem er myndaritstjóri Síldaráranna) ruglast á bildarkiv Nordiska museet í Stokkhólmi, þ.e. þeim stafræna hluta Norræna safnsins sem birtist á digitalmuseum.se. Myndina má sjá hér. Að auki má bæta við að hafi myndin verið tekin árið 1950 þá hefur Erla Nanna einungis verið 6 ára gömul! Sjálf segist hún muna eftir einhverjum ljósmyndara þegar hún var 13 ára og að myndin sé tekin 1957.18

VII. kafli: Skrár

Svo byrjað sé á jákvæðum nótum skal tekið fram að NAFNASKRÁ er að mestu leyti rétt, miðað við mína stikkprufuskoðun. Þó má spyrja sig hvers vegna aðeins hásetinn Jóhann Þorsteinsson sem haft er eftir í úrklippu Páls um þegar vélbáturinn Leifur Eiríksson fórst (bls. 1031 í bók Páls, klippt saman úr Morgunblaðinu  31. ágúst 1963, bls. 1 og Morgunblaðinu 13. september 1963, bls. 10) ratar í NAFNASKRÁ.  Það gerir ekki skipstjórinn á Sigurgeir Bergmann, Helgi Aðalgeirsson, sem bjargaði mörgum skipverjum, er rætt við í fyrri heimildinni og ratar í megintexta Síldaráranna. Ég reikna með að fleiri svona gloppur séu í NAFNASKRÁ  sé grannt skoðað.

 

Ein af elstu myndunum sem til eru af Búðinni á Raufarhöfn. Sveinn Einarsson og kona hans, Guðrún Guðjohnsen standa fyrir utan. Konan í bíslaginu er líklega Pálína Laxdal Einarsson, langamma mín.

Ein af elstu myndunum sem til eru af Búðinni á Raufarhöfn. Sveinn Einarsson og kona hans, Guðrún Guðjohnsen standa fyrir utan. Konan í bíslaginu er líklega Pálína Hildur Jónsdóttir Laxdal Einarsson, langamma mín.

 

TILVÍSANASKRÁ og PRENTAÐAR HEIMILDIR

Svo sem áður hefur komið fram er margt bogið við tilvísanaskráningu. Ber þar auðvitað hæst að ævinlega er vísað í ritstjóra safnrita sem höfund og þótt hinn raunverulegi höfundur textans rati kannski í NAFNASKRÁ og kannski ekki, rati kannski í PRENTAÐAR HEIMILDIR með kaflaheiti í safnritinu en án blaðsíðutals (eða kannski ekki) að þá er ekki vinnandi vegur að vita hver skrifaði textann sem vísað er í nema hafa safnritið við höndina.

Mætti nefna enn eitt dæmið, tilvísun við textann Ár eftir ár, á bls. 86, þar sem m.a. er vísað í: „Kari Shetelig. 1980, bls. 12-13. Hreinn Ragnarsson. 2007, bls. 29-31. …“ Það er augljóst að síðari tilvísun er í Silfur hafsins-Gull Íslands en í hvaða bindi? Og eftir hvern er textinn?

Með því að skoða efnið getur lesandi grafið upp að því að þarna er vísað í III. kafla 1. bindis Silfurs hafsins-Gulls Íslands og að Hreinn Ragnarsson er raunar höfundur þess kafla en í félagi við Steinar J. Lúðvíksson. Steinars er ekki getið sem höfundar neins kafla í Silfri hafsins-Gulli Íslands í PRENTUÐUM HEIMILDUM eins og áður hefur verið nefnt.

Sá sem ætlar að finna bók Kari Shetelig í PRENTUÐUM HEIMILDUM má leita lengi því þetta eru fornöfn höfundar og bækur hennar eru skráðar undir Hovland, Kari Shetelig.

Sumir þýðendur eru hunsaðir algerlega, t.d. Jón Ólafur Björgvinsson (eins og áður hefur komið fram) en aðrir ekki, t.d. Smári Geirsson og Bjarni Þórðarson. Næstum alls staðar þar sem bók Kari Shetelig Hovland frá 1980 (bókin heitir Norske seilskuter på Islandsfiske) ber á góma í TILVÍSANASKRÁ er bætt við: „Stuðst er við þýðingu Smára Geirssonar og Bjarna Þórðarsonar sem birtist í Austurlandi en textinn er nokkuð styttur.“ Lesandi er að vísu engu nær um hvar nákvæmlega þessi þýðing/þýðingar er(u) því þeir Smári og Bjarni eru ekki skráðir fyrir neinni þýðingu í PRENTUÐUM HEIMILDUM, þar er einungis að finna tímaritið Austurland 1.-30. árgangur.

Undir PRENTAÐAR HEIMILDIR í heimildaskrá má finna: „Hreinn Ragnarsson. 2010. Ms. Word -skrá með síldarannál 1866-1998. Gefin út í 10 eintökum í janúar 2010. Án útg. Sjá http://www. sild.is/sildarsagan/sildarannall-hreins-ragnarssonar“. Þetta plagg er ekki prentað heldur fjölritað og ætti því að skrá það undir ÓPRENTAÐAR HEIMILDIR, þ.e.a.s. ef Páll Baldvin hefur yfirleitt séð pappírseintakið. En í öllum tilvísunum til Síldarannáls Hreins er vísað í vefslóðina svo kannski ætti hann betur heima undir VEFHEIMILDIR.

Það myndi æra óstöðugan að telja upp allar þær villur sem ég fann í TILVÍSANASKRÁ og PRENTUÐUM HEIMILDUM. Báðar skrárnar eru illa prófarkalesnar og fjöldi stafavilla þar að finna, í kaupbæti við hinar villurnar. Það er t.d. upp og ofan hvort bindi í Silfri hafsins-Gulli Íslands eða Sléttungu eru skráð með rómverskum eða arabískum tölum. Ég nefni enn eitt dæmi um hyskni eða lélegan prófarkalestur í uppsetningu PRENTAÐRA HEIMILDA: „Níels Árni Lund. 2016. Sléttunga – safn til sögu Melrakkasléttu. 1.-3. bindi. Raufarhöfn. Reykjavík. Skrudda.“ Bindin heita: Sléttunga I. Safn til sögu Melrakkasléttu. Náttúra og mannlíf; Sléttunga II. Safn til sögu Melrakkasléttu. Fólk og býli og Sléttunga III. Safn til sögu Melrakkasléttu. Raufarhöfn.

Í heimildaskrá yfir ÓPRENTAÐAR HEIMILDIR er að finna fjölda heimilda sem ættu heima undir VEFHEIMILDIR því þær eru sóttar á vefsetrið Sarpur og vefslóð gefin upp hverju sinni (þótt frumeintök séu geymd á þjóðháttadeild Þjóðminjasafns Íslands).

Þar eru og skráð  skjalasöfn ýmis en gleymist að skrá Skjalasafn Húsavíkur, þaðan sem teikning Jóns Jónssonar Víðis, bls. 550, er sögð fengin í MYNDASKRÁ. (Raunar er ekkert til sem heitir Skjalasafn Húsavíkur og líklega er Páll að meina Héraðsskjalasafn Þingeyinga, breytir þó ekki því að skjalasafnið ætti að skrá.)

Í ÓPRENTUÐUM HEIMILDUM er skráð: „Hreinn Ragnarsson, 1980. Þættir úr síldarsögu Íslands 1900-1935. Í vörslu Síldarsögusjóðs.“ Síldarsögusjóður er skráður í Fyrirtækjaskrá til ársins 2009 en þá lést forstöðumaður hans, Gunnar Flóvenz. Sjóðurinn er enn skráður til húsa á hinu gamla heimili Gunnars, í Fyrirtækjaskrá.

Hvernig Páll Baldvin gat skoðað handrit af námsritgerð á safni Síldarsögusjóðs, sem ekki hefur starfað frá 2009, er mér hulin ráðgáta. Þetta er cand.mag. ritgerð Hreins og skv. símtali við starfsmann Landsbókasafns-Háskólabókasafns hefur Páll Baldvin ekki skoðað eintakið þar, ef marka má skráningarblað. Hvergi er vísað í þessa ritgerð í TILVÍSANASKRÁ og satt best að segja held ég að þetta sé upplogin heimild, þ.e. heimild sem ekki hafi verið notuð en þykir kannski gera sig vel að hafa hana einhvers staðar í heimildaskránni.

Ég hef þegar fjallað nokkuð um MYNDASKRÁ í umfjöllun um myndir (sjá einnig tilvísanir í heimildir við þennan ritdóm) og ætla að láta það duga, þótt ég geti talið upp fleiri villur þar.

Hvað varðar skrána VEFHEIMILDIR er einfalt mál að dæma hana: Hún er að stærstum hluta algert rugl! Það er augljóst mál að Páll Baldvin, eða ritstjórinn hans, hefur/hafa ekki hugmynd um hvernig vísa skuli til heimilda á Vefnum. (Og raunar birtist þessi vankunnátta strax á bls. 47 í megintexta bókarinnar, þar sem hann segir frá bók Þóru Andreu Nikólínu Jónsdóttur frá 1858, Nýrri matreiðslubók ásamt ávísun um litun, þvott o.fl. og segir: „… en lesa má bók hennar í stafrænu eintaki á Leitir.is undir hennar höfundarnafni.“ Leitir er leitarvél bókasafna en bók Þóru Andreu liggur frammi á vefsetrinu Bækur.is  og hefði verið eðlilegast að vísa í stafræna eintakið þar.

 

Niðurstaða mín, eftir að hafa skoðað örlítið brot af Síldarárunum Páls Baldvins Baldvinsonar, er í stuttu máli sú að hörmulega sé farið með texta annarra og fátt bendi til að hann hafi sjálfur skrifað mikið meira en myndatexta, inngang að úrklipptum greinum og stöku þýðingu. Finna má fjölda villa í öllu þessu efni þótt einungis hafi verið teknar nokkrar stikkprufur. Reynt er að gefa bókinni fræðilegt yfirbragð með ítarlegum skrám í lokin. Því miður eru þessar skár útbíaðar í  villum.

 

Heimildir

1 Páll Baldvin Baldvinsson. Saga Akraness eitt [ritdómur]. Fréttatíminn, 2. árg. 27. tbl., bls. 30. https://timarit.is/issue/361687

2 Jakob Bjarnar. Hvarf inní grúskið og áratugur farinn. visir.is 22. Nóv. 2019. https://www.visir.is/g/2019191129623

3 Ávarp Síldarsögusjóðs. Silfur hafsins-Gull Íslands. Síldarsaga Íslendinga, 1. bindi. 2007. Ritstjóri: Hreinn Ragnarsson. Reykjavík. Nesútgáfan. Án bls.tals.

4 Páll Baldvin Baldvinsson. Saga Akraness eitt [ritdómur]. Fréttatíminn, 2. árg. 27. tbl., bls. 30. https://timarit.is/page/5818510

5 Egill Örn Jóhannsson í Jakob Bjarnar. Hvarf inní grúskið og áratugur farinn. visir.is 22. nóv. 2019. https://www.visir.is/g/2019191129623

6 Páll Baldvin Baldvinsson. Saga Akraness eitt [ritdómur]. Fréttatíminn, 2. árg. 27. tbl., bls. 30. https://timarit.is/page/5818510

7 Páll Baldvin Baldvinsson. Saga Akraness eitt [ritdómur]. Fréttatíminn, 2. árg. 27. tbl., bls. 30. https://timarit.is/page/5818510

8 Hreinn Ragnarsson. 2010. Síldarannáll. MS Word-skrá með síldarannál frá 1865 til 1998. Gefin út í 10 eintökum í janúar 2010. Án útg. http://www.sild.is/sildarsagan/sildarannall-hreins-ragnarssonar/ (Ég vek athygli á að svona er þetta fjölfaldaða Word-skjal skáð undir PRENTAÐAR HEIMILDIR í Síldarárum Páls Baldvins.)

9 Egill Helgason. 27.nóv. 2019. Kiljan. https://www.ruv.is/sjonvarp/spila/kiljan/27856/89kv8k. Skoðað á vef RÚV þann 16. Jan. 2020.

10  Hovland, Kari Shetelig. 1985. Norske Islandsfiskere på havet. Bergen – Oslo – Stavanger – Tromsø. Univeritetsforlaget AS. Bls. 25.

11 Sjá Jón Ólafur Björgvinsson. 11. jan. 2010. Vafasöm-síldarsögu-sagnfræði ? Copy & paste bókmenntir á Trölli.is. https://trolli.is/vafasom-sildarsogu-sagnfraedi-klippa-og-lima-bokmenntir-o-fl/

12 Páll Baldvin Baldvinsson: Athugasemd við fyrrnefnda bloggfærslu Jóns Ólafs Björgvinssonar á Trölli.ishttps://trolli.is/vafasom-sildarsogu-sagnfraedi-klippa-og-lima-bokmenntir-o-fl/

13 Jakob Bjarnar. 13. janúar 2020.Visir.is. Sendi innanhúspóst Forlagsmanna óvart til Siglfirðingsins.  https://www.visir.is/g/2020200119685

14 Sjá Oddur Ævar Gunnarsson. 13. janúar 2020. Fréttabladid.is. Af og frá að ritstuldur hafi verið með vilja gerður. http://www.frettabladid.is/frettir/af-og-fra-ad-ritstuldur-hafi-verid-med-vilja-gerdur/ og rosa@mbl.is 13.1.2020. Mbl.is Sakar Pál Baldvin um ritstuld. https://www.mbl.is/frettir/innlent/2020/01/13/sakar_pal_baldvin_um_ritstuld/

15 Dóttir Jöran Forsslund, Lena Fejan Forsslund Ljunghill, gat ekki staðfest við Jón Ólaf Björgvinsson að faðir hennar hefði tekið þessar myndir. Jöran Forsslund var ljósmyndaritstjóri á Vi  árið 1945. Sá sem sendi Jóni Ólafi aukamyndir úr þessari ferð og sumar myndirnar úr blaðinu í pdf-skjali taldi að Jöran Forsslund hefði skrifað myndatextana en ekki endilega tekið myndirnar. Þetta kemur fram í skilaboðum frá Jóni Ólafi Björgvinssyni til mín á Facebook 15. jan. 2020 og þann 19. janúar 2020. Og sem fram kom í meginmáli segir eigandi Sjöberg bildbyrå að enginn myndanna sé merkt.

16 Sjá http://mg.kpd.lt/users/www/uploaded/pien%20BalticHerring_v9_3.08_po%20ostatnich%20poprawkach11.pdf

17 Jón Ólafur Björgvinsson í skilaboðum til mín 13. janúar 2010: „… svo segir textinn að það sjáist í hrímnir HF sem afi minn átti en það er bara bull, því hrímnir stendur enn miklu norðar og sét [svo] ekki á þessari mynd.“ Sjá einnig umræðu á opinni Facebókarsíðu Jóns Ólafs Björgvinssonar þann 11. janúar 2020, þar sem nokkrir Siglfirðingar taka undir staðhæfingu um að söltunar- og fiskverkunarstöðin Hrímnir og Hrímnisplan sjáist alls ekki á þessari mynd.

18 Kolbrún Bergþórsdóttir. 28. nóv. 2019. Visir.is. Síldarstúlkan mætir í útgáfuhófið. https://www.visir.is/g/2019191128782

Þessi bloggfærsla er skreytt myndum frá Raufarhöfn, sem um árabil var ýmis hæsti eða næsthæsti söltunar- og bræðuslustaður landsins.

 

 

Þrenndartaugarverkur (trigeminal neuralgia)

Ath. að færslur um þrenndartaugaverk hefjast hér:
https://harpahreins.com/blogg/2015/09/13/threnndartaugabolga-eda-vangahvot/

Efst í hverri færslu um þennan kvilla er krækt í allar færslurnar um hann í tímaröð. Ég biðst afsökunar á að hafa kallað þetta -bólgu þegar rétt heiti er þrenndartaugarverkur eða þrenndartaugarkvilli (en það er erfitt að leiðrétta fyrirsagnir í bloggfærslum vegna þess að Google er búinn að skrá þær hjá sér – leiðrétting getur valdið því að leitarvélin finni ekki færsluna.)

Sjúkdómurinn heitir trigeminal neuralgia á ensku, oft stytt í TN. Ódæmigerður þrenndartaugarverkur er skammstafaður ATN. Íslenskir læknar kalla sjúkdóminn stundum vangahvot, sem er afar misheppnað íðorð og ég mæli með að ekki sé notað.

Til er íslenskur Facebook hópur fyrir þá sem þjást af þessum kvilla. Ef einhver lesandi telur sig vera með þrenndartaugarverk og vill komast í þennan hóp er best að hafa annað hvort samband við mig (á Facebook eða netfangið harpahreins59@gmail.com) eða Guðlaugu Grétarsdóttur, stofnanda Fb. hópsins, (á Facebook eða á netfangið gudlaug.gretars@gmail.com).

Eftirmál af reynslu TN-sjúklings af „þjónustu“ Landspítala-Háskólasjúkrahúss

via GIPHY

Svo sem áður er getið hafði ég samband við Embætti landlæknis (hér eftir skammstafað EL) þann 9. febrúar 2017 og óskaði eftir lögfræðilegri ráðgjöf vegna lögbrota H+T á mér. EL ber leiðbeiningarskyldu sem stjórnvald. Ég sendi aðstoðarmanni landlæknis, sem varð fyrir svörum, hráa tímalínu svo menn gætu séð við hvað var átt.

Fyrir mistök var kvörtun mín afgreidd á ótækan hátt. En sá fulltrúi EL sem það gerði baðst innilega afsökunar og bauð mér fund hjá embættinu.

Fyrir fundinn með þessum aðila og lögfræðingi var ég búin að taka saman stutt plagg með útklipptum greinum úr Lögum um réttindi sjúklinga 74/1997 , sem ég taldi að brotin hefði verið, með stuttum rökstuðningi,  og óskaði eftir mati lögfræðings EL á þessu. Flestar þessara lagagreina eru ágætlega útskýrðar í grein EL frá 20. 7. 2016, sem heitir Biðtími eftir heilbrigðisþjónustu og sem setur jafnframt heilbrigðisstofnunum viðmiðunarmörk um bið eftir þjónustu.

23. maí 2017: Ég mætti á fund til EL. Í ljós kom að aðilinn sem ég ætlaði að funda með var veikur en þess í stað fékk ég fund með Láru Scheving Thorsteinsson, verkefnisstjóra um gæði og öryggi, Birgi Jakobssyni landlækni og einum af lögfræðingum embættisins.

Öll höfðu þau undirbúið sig fyrir fundinn og lesið stutta plaggið mitt um meint lögbrot, Lára hafði og kynnt sér bloggfærslur mínar til að setja sig inn í sjúkdóminn sem um var rætt.

Eftir að hafa rætt hversu sjaldgæfur sjúkdómur þrenndartaugaverkur er og að lyf virki oft vel á dæmigerðan þrenndartaugaverk en miklu síður á ódæmigerðan þrenndartaugaverk (TN2), sem væri enn sjaldgæfari sagði Birgir landlæknir að best væri að H+T byggi til farveg fyrir þessa örfáu sjúklinga sem þurfa að komast í aðgerð við sjúkdómnum. Í því fælist að gera samning við erlent sjúkrahús, t.d. Sahlgrenska. Ég hafði útskýrt skoðanir Svía á að PBC-aðgerð væri í öllum tilvikum æskilegasta fyrsta inngrip við öllum gerðum þrenndartaugaverks og rök þeirra fyrir því.

Mér var lofað að haft yrði samband við framkvæmdarstjóra lækninga á Landspítala-Háskólasjúkrahúss, Ólaf Baldursson, og hann upplýstur um mitt mál. Hans er síðan að ganga eftir að heila- og taugaskurðlæknadeild spítalans starfi skikkanlega og fremji ekki lögbrot á sjúklingum. Jafnframt yrði talað við Aron Björnsson, yfirlækni H+T og reynt að láta hann sjá til þess að sömu vinnubrögð og beitt var á mig yrðu ekki endurtekin.

Ég féll fúslega frá óskum um að ákveðnir aðilar fengju formlega áminningu vegna sinna lögbrota, en áminning er í rauninni eina refsiúrræðið sem EL hefur, gegn því að séð yrði til þess að H+T hagaði sér ekki svona aftur og aðrir sjúklingar með „sjálfsvígssjúkdóminn“ lentu ekki í því sama og ég. Undantekning var að ég óskaði eftir að Margrét Tómasdóttir, svokallaður talsmaður sjúklinga, yrði áminnt fyrir ótilhlýðilega framkomu við sjúkling og vanrækslu, ef unnt væri.

Ég var ánægð með þennan fund, einkum með viðbrögð landlæknis, sem virtist hafa einlægan áhuga á þessu máli. Og ég treysti orðum hans; að hann muni sjá til þess að H+T útbúi svona farveg fyrir okkur þau örfáu sem þjáumst af ódæmigerðum þrenndartaugaverk, þannig að fólk komist strax í aðgerð erlendis en sé ekki dregið á asnaeyrunum eða hunsað mánuðum saman.

Eftirmáli

Það sem ég skil alls ekki ennþá er hvernig heil deild á Landspítala-Háskólasjúkrahúsi gat lokað augum og eyrum fyrir sjúklingi í meir en sex mánuði, þrátt fyrir fjölda læknabréfa um að sjúklingurinn gæti alls ekki beðið eftir aðgerð við einum af sársaukafyllstu taugasjúkdómum sem eru til. Ekki einn einasti læknir á þessari deild sá ástæðu til að taka upp síma og hafa samband við sjúklinginn – mig. Ekki einn einasti læknir á þessari deild sá ástæðu til að bjóða aðstoð sína þegar liðnir voru þrír mánuðir á biðlista, t.d. við að fylla út umsókn um læknisaðgerð erlendis. Þar er svokallaður tengiliður við tvö sænsk sjúkrahús þar sem þessi aðgerð er framkvæmd, Elfar Úlfarsson, ekki undanskilinn.

Þótt ég tali um 6 mánuði á biðlista hér var raunar liðið ár frá því mér var fyrst vísað til heila- og taugaskurðdeildar og tekið fram að ég hefði þjáðst af þrenndartaugaverk í fjögur ár. En alger óreiða í afgreiðslu viðtalstíma, læknaritarar sem ekki geta talað saman, skiptiborð sem virkar eins rúlletta, yfirlæknir sem hlustar ekki á sjúklinginn og vill láta eyða heilu sumri í að greina hann upp á nýtt, tafði auðvitað tímann sem leið þar til ég komst formlega á biðlista H+T.

Þegar sjúklingurinn reyndi svo að bjarga sér sjálfur og sækja um aðgerð í útlöndum, eftir að hafa fengið sitt fyrsta almennilega viðtal við heila-og taugaskurðlækni gegnum Facebook og netsíma, reyndi deildin að koma í veg fyrir að það tækist, með rökum sem vitað var að væru ósönn! Þegar komst svo upp um lygina var hins vegar allt sett á stað með hraði og í símtölum Elfars Úlfarssonar hefur verið gefið í skyn að ég ætti að sýna sérstakt þakklæti fyrir það!

Ég skil ekki og mun aldrei skilja að vinnubrögð heila-og taugaskurðlæknadeildar Landspítala-Háskólasjúkrahúss teljist tæk vinnubrögð. Ég get ekki ímyndað mér að nokkur vinnustaður samþykkti svona vinnubrögð nema umræddur spítali.

 

Þessi færsla er lokafærsla í frásögn af því hvernig heila-og taugaskurðlæknadeild Landspítala-Háskólasjúkrahúss fór með sjúkling með þrenndartaugaverk. Hinar eru, í tímaröð:

I. hluti
II. hluti
III. hluti
IV.hluti
Umfjöllun um sjúkdóminn er að finna í færslunum

1. Þrenndartaugabólga eða vangahvot;
2. Lyfjameðferð við þrenndartaugabólgu;
3. Þrenndartaugin og inngrip gegn þrenndartaugabólgu
4. Skurðaðgerðir og aðrar aðgerðir í eða við þrenndarhnoða
5. Þrenndartaugarverkur/vangahvot: Saga orðanna

Reynsla TN-sjúklings af „þjónustu“ Landspítala-Háskólasjúkrahúss

zuedberg

IV. hluti –frh. af III. hluta

Eftir nokkra daga umbreyttist taugaáfallið í hefðbundna líðan í djúpu þunglyndi, þ.e. „katakónískt“ ástand eða stjarfa. Ég var ekki lengur í sjálfsvígshættu en átti mjög erfitt með tal, hreyfingar, hugsun og þess háttar. Vel að merkja er ég í hópi þeirra 15% með svona þunglyndi sem hef öfuga dægursveiflu og líður skást á morgnana. Það hefur ruglað ýmsa lækna og heilbrigðisstarfsmenn sem lítið þekkja til þunglyndis.

13. febrúar 2017: Ég reyndi enn einn ganginn að ná sambandi við Aron Björnsson eða Elfar Úlfarsson gegnum aðalskiptiborð Lsp í viðtalstíma þeirra 7:30-8:00. Náði mér til mikillar undrunar sambandi við Elfar, sem lofaði að hringja aftur og útskýrði af hverju hann hefði ekki hringt í mig þann 9. febrúar eins og hann átti að gera. Þetta var í fyrsta sinn sem ég náði tali af lækni á H+T frá því ég fór á biðlista hjá þeirri deild þann 9. ágúst 2016.

Um kvöldið hringdi Elfar Úlfarsson aftur í mig. Hann hafði þá komist að því að til væru 3 nálar til að gera PBC-aðgerð í Svíþjóð, allar heimasmíðaðar. Ein nálin væri á Karolinska sjúkrahúsinu í Stokkhólmi og 2 á Sahlgrenska í Gautaborg. Hann væri búinn að standa í því allan daginn milli læknisverka, sagði hann, að ná sambandi við meðlimi Siglinganefndar Alþjóðasviðs SÍ og fá munnlegt loforð frá nefndinni um að úrskurði hennar í mínu máli yrði breytt. Í Svíþjóð væri vetrarfrí þessa viku og því hefði hann ekki náð í lækninn sem ég hafði sótt um að fá að fara til í þessa aðgerð. En hann myndi eyða morgundeginum, frídeginum sínum, í að reyna að ná sambandi við hann.

14. febrúar 2017: Elfar hringdi síðla dags og sagði að hann hefði náð tali af samstarfskonu læknisins og tekist að fá hana til að skrá mig sem „akút-tilvik“ svo ég kæmist fram fyrir fólk á biðlista. Ég ætti að mæta í innritun á Sahlgrenska sjúkrahúsið þann 9. mars og fara í aðgerðina þann 10. mars.

Í þessu símtali spurði ég á hve mörgum sjúklingum Hjálmar Bjartmarz hefði gert þessa aðgerð í fyrra, í ljósi þess að H+T hefði teflt fram þeim rökum að Hjálmar stæði engum að baki í þrenndartaugaraðgerðum og ég hefði einungis haft tal af einum sjúklingi sem hann hefði gert PBC-aðgerð á. Elfar neitaði að svara spurningunni. Hann neitaði því líka að hann hefði sagt við þann sjúkling þau orð sem sjúklingurinn hafði haft eftir honum við mig.

15. febrúar 2017: Siglinganefnd Alþjóðasviðs SÍ tók aftur upp umsókn mína dags. 30. janúar, ógilti fyrri úrskurð sinn og kvað upp nýjan. Nú fengi ég greiddar ferðir, aðgerðarkostnað og dagpeninga fyrir mig og fylgdarmann. Rök fyrir nýja úrskurðinum voru: „Í dag hafa Sjúkratryggingum Íslands borist læknisvottorð frá Elfari Úlfarssyni heila- og taugaskurðlækni, þar sem staðfest er að ekki er hægt að útvega nauðsynlega nál sem þörf er á að nota við aðgerð.“ Þetta með nálarskortinn var raunar hið sama og ég hafði sagt starfsmönnum Alþjóðasviðs og hafði látið ritara Arons Björnssonar, yfirlæknis H+T vita af þann 13. janúar 2017.

Hér að neðan má sjá hinn nýja úrskurð Siglinganefndar Alþjóðasviðs Sjúkratrygginga Íslands:

siglingarnefnd_2

Nú, þ.e. eftir að Alþjóðasvið SÍ, tók við gengu mál hratt og algerlega snurðulaust fyrir sig. SÍ hefur sérstakan fulltrúa hjá Icelandair sem afgreiðir flugmiða eftir því sem best hentar sjúklingi og fylgdarmanni. Einnig hefur stofnunin tengiliði víða á Norðurlöndum og samdægurs og flugmiðar voru afgreiddir hafði tengiliðurinn í Gautaborg samband í tölvupósti og bauð fram aðstoð sína. Sömu sögu mátti segja af Sahlgrenska sjúkrahúsinu; bæði fékk ég upplýsingabækling mjög fljótt frá þeim og tengiliður sem sér um erlend samskipti hafði einnig samband og bauð fram alla sína aðstoð sem unnt væri að veita, frá því að aðstoða við leigubíla til þess að finna svör við hverjum þeim spurningum sem ég hefði, í tölvupósti.

Á Sahlgrenska sykhuset

Innritunin ytra tók hátt í fjórar klukkustundir og auk þess að tala við hjúkrunarfólk og fá að skoða deildina sem ég myndi e.t.v. leggjast inn á, fékk ég viðtal við svæfingalækni og langt viðtal við lækninn sem gerði aðgerðina. Hann var raunar mjög undrandi á því að svo til engar upplýsingar fylgdu mér frá H+T og spurði hvers vegna ég væri akút-sjúklingur sendur af Elfari Úlfarssyni. Ég svaraði því hreinskilnislega og lesendum þessa bloggs er auðvitað ljóst af hverju svo var. Sömuleiðis upplýsti ég hann um gang sjúkdómsins, lyf sem ég tæki, rannsóknir sem ég hefði farið í, sjúkdómsgreiningu taugalæknis á taugadeild Lsp og yfirleitt allt annað sem skipti máli því H+T hafði vitaskuld litlar sem engar upplýsingar um mig, eftir að hafa hunsað mig algerlega í 6 mánuði á biðlista þrátt fyrir þrjú læknabréf þar sem staðhæft var að ég þyldi enga bið eftir bót við TN2 sjúkdómnum. Við töluðum saman á ensku en þegar ég sagði að upphaflega hefði mér verið vísað til H+T með læknabréfi 8. mars 2016 missti læknirinn sig í sænsku og hálfhrópaði: „Ett år“! Svo ég reikna með að menn ástundi önnur vinnubrögð á heila- og taugaskurðdeild Sahlgrenska sjúkrahússins en á H+T á Lsp hérlendis.

Læknirinn sagði mér hvernig aðgerðin væri gerð og hver væru helstu eftirköst sem mætti búast við. (Um þau hafði ég raunar spurt Elfar Úlfarsson en hann svaraði því til að það væri betra að sænski læknirinn útskýrði þau.) Hann varaði mig við því að árangur af aðgerðinni við ódæmigerðum þrenndartaugaverk væri miklu síðri en væri um dæmigerðan að ræða og þrátt fyrir að hafa gert yfir 1000 svona aðgerðir gæti hann ekki vísað í neina tölfræði um slíkt því sá ódæmigerði væri það sjaldgæfur. En þetta væri samt rétt aðgerð fyrir þá sem lyf virkuðu ekki á eða væru hætt að virka á til forsvaranlegrar sársaukastillingar. Loks sagði hann að auðvitað myndu svo íslensku læknarnir taka við mér og gæta þess að mér liði sæmilega þegar ég kæmi heim.

Ég giska á að þetta viðtal við lækninn hafi verið hátt í klukkustund, fylgdarmaðurinn var með mér og viðtalinu  lauk á því að við hrósuðum öll hans ágæta aðstoðarlækni.

Snemma morguninn eftir fór ég þessa aðgerð, sem væntanlega hefur tekið svona hálftíma. Síðan var ég höfð í 7 klst á vöknun og vandlega fylgst með hvort þvaglát væru í lagi o.fl. sem getur gengið úr lagi í svæfingu. Þegar vöknun lokaði var mér boðið að leggjast inn yfir nótt en ég afþakkaði það, fór út og reykti langþráða sígarettu og tók leigubíl upp á hótel.

Verstu eftirköstin voru hræðilegur höfuðverkur sem ég vaknaði af fyrstu nóttina en lét sér segjast við Parkodín Forte. Hálft andlitið var koldofið og enn er dofinn að ganga til baka en að því er virðist frekar hratt. Stóri kjálkavöðvinn er enn talsvert lamaður en virðist hægt og bítandi vera að jafna sig.

Hinn skelfilega sári verkur hvarf en seinnipart dags og á kvöldin er ég enn með alls konar verki, stingi eins og þegar tannlæknadeyfing er að hverfa, verki sem eru líklega harðsperrur af því að halda uppi kjálkanum með einhverjum öðrum vöðvum en stóra kjálkavöðvanum, ég hef mikinn sviða í munni o.fl. Mögulega er ég enn með þrenndartaugaverkinn en hann hefur mjög látið undan síga ef eitthvað af þessum smáverkjum er hann. Fólk fær auðvitað alls konar verki, en ég er löngu búin að trappa mig af tradolani, sem er fremur auðvelt, og vinn í hægri niðurtröppun fleiri lyfja.

Mér er ljóst að árangur aðgerðarinnar er tímabundinn, hann gæti meira segja verið óvenju skammvinnur í mínu tilviki af því ég er með ódæmigerðan þrenndartaugaverk (TN2). En bara það að ná einhverri pásu frá þessum brjálæðislega sára stanslausa verk sem hefur plagað mig frá apríl 2012 og geta minnkað töku lyfja er þess virði.

Heimkomin

17. febrúar 2017: Heimkomin hringdi ég í Margréti Tómasdóttur, talsmann sjúklinga og spurði hvað hún ætlaði að aðhafast í mínum málum, eftir útreiðina sem ég hlaut hjá H+T, og spurði undir hvaða svið hún heyrði. Hún var mjög hvefsin í símann, sagðist ekkert ætla að gera því ég hefði komist í aðgerðina, talaði ofan í mig í símtalinu, margendurtók að hún nennti ekki að hlusta á þetta aftur o.þ.h. Það var til einskis að benda henni á að til væru fleiri sjúklingar en ég með sama sjúkdóm sem þyrftu að leita til H+T í framtíðinni, hún hlustaði einfaldlega næsta lítið á mig. Hún sagðist heyra undir gæðaráð Lsp en gat ekki svarað spurningu minni um hvert væri hlutverk þess ráðs. Að lokum skellti hún á mig símanum.

10. apríl 2017: Elfar Úlfarsson heila- og taugaskurðlæknir hringdi óvænt í mig, í tilefni þess að nú væri mánuður liðinn frá aðgerðinni. Hann spurði hvernig gengi og hvernig ég hefði það og var hinn alúðlegasti. Undir lok símtalsins benti ég honum á að hann hefði sagt Siglinganefnd ósatt og ég hefði orðið lífshættulega veik af hinum sjúkdómnum þess vegna. Elfar sagðist sár að eftir svo huggulegt spjall sem við hefðum átt skyldi ég bera þetta upp á hann. Ég sagði honum að mér væri nákvæmlega sama hvað hann vildi kalla þetta sem hann gerði en næst þegar ég þyrfti að leita til H+T vegna TN2 skyldi hann sjá til þess að viðtökur yrðu aðrar: Að ég fengi klassaþjónustu og hana strax! Sama ætti að gilda um þá örfáu aðra sjúklinga með þennan sjúkdóm sem væri vísað til deildarinnar. Þessu jánkaði Elfar.

Í næstu færslu segi ég frá viðbrögðum Embættis landlæknis við ábendingum um lagabrot H+T og stuttri lýsingu á þessari sögu sem ég hef rakið í undanförnum tölusettum færslum. Þær eru, í tímaröð:

I. hluti
II. hluti
III. hluti

Reynsla TN-sjúklings af „þjónustu“ Landspítala-Háskólasjúkrahúss

zoidberg_3faersla

III. hluti – frh. af II. hluta

7. febrúar 2017: Umsókn mín til Siglingarnefndar Alþjóðasviðs Sjúkratrygginga Íslands var tekin fyrir. Að sögn starfsmanns Alþjóðasviðs, sem sat fundinn með nefndinni, var hún rædd í þaula og síðan hringt í Elfar Úlfarsson, heila-og taugaskurðlækni á H+T, sem jafnfram gegnir því hlutverki að vera tengiliður deildarinnar við sjúkarhúsið í Lundi og Sahlgrenska sjúkrahúsið í Gautaborg.

Að sögn sama starfsmanns fullvissaði Elfar nefndina um að þann 3. febrúar hefði Hjálmar Bjartmarz staðfest að hann kæmi til Íslands í mars og biðlisti eftir PBC-aðgerð á Sahlgrenska væri lengri en tíminn að komu Hjálmars. Elfar staðfesti við Siglinganefnd að „sú aðgerð sem sótt er um hluti af þeim aðgerðum sem Hjálmar Bjartmarz mun gera í þeirri ferð“ ásamt því að votta að sérfræðingar H+T fullyrtu að árangur Hjálmars af þrenndartaugaraðgerðum væri fyllilega sambærilegur við árangur annars staðar.

Á grundvelli þessara upplýsinga hafnaði Siglinganefnd ósk minni um að Sjúkratryggingar Íslands (hér eftir skammstafað SÍ) myndu greiða ferðir og dagpeninga, auk aðgerðarkostnaðar á Sahlgrenska sjúkrahúsinu í Gautaborg. SÍ féllst á að greiða mér sömu upphæð og Hjálmar Bjartmarz fengi greitt fyrir aðgerðina og smyrja ofan á ferðakostnaði Hjálmars fyrir þá tvo daga sem hann myndi vinna á Íslandi, alls rúmlega 1,5 milljón, í aðgerðgerðarkostnað, kysi ég að leita á Sahlgrenska á eigin vegum. Ég hef ekki hugmynd um hvort sú upphæð dugir fyrir aðgerðinni  í Svíþjóð.

Starfsmaður Alþjóðasviðs hringdi einnig sjálfur í Elfar Úlfarsson eftir fund Siglingarnefndar til að tvítékka á upplýsingunum og fékk sömu svör. Svo enginn vafi leikur á að Elfar Úlfarsson fullvissaði Siglinganefnd og Alþjóðasvið um að Hjálmari væri ekkert að vanbúnaði að gera PBC-aðgerð á mér þegar hann kæmi til landins í mars. Enginn óskaði hins vegar eftir útskýringum á hvers konar þrenndartaugaraðgerðir H+T væri að meina í sinni vottun um ágæti Hjálmars né heimildum fyrir þeirri staðhæfingu.

Í þessu sambandi vil ég geta þess að í símtali við mig þann 3. mars 2017 viðurkenndi Elfar Úlfarsson að H+T hefði vitað að Hjálmar Bjartmarz hefði enga nál til að gera PBC-aðgerðina þegar hann talaði við Siglinganefnd Alþjóðasviðs fyrir hönd H+T en deildin hefði treyst á að geta fengið lánaða nál til verksins einhvers staðar í Svíþjóð og „Hjálmar var líka farinn að leita að nál“. Skv. þessu gaf Elfar öðru stjórnvaldi vísvitandi rangar upplýsingar. Ég get hins vegar ekki kært úrskurðinn á þeim forsendum því hann var seinna felldur úr gildi.

Hér er mynd af úrskurði Siglingarnefndar þann 7. febrúar.

Úrskurður Siglinganefndar

 

8. febrúar 2017: Ég fékk að vita úrskurð Siglingarnefndar. Þegar ég sá hvernig deildin, sem hafði hunsað mig mánuðum saman, hafði gripið til þeirra ómerkilegu bolabragða að bregða fyrir mig fæti með röngum upplýsingum þegar ég reyndi að bjarga mér sjálf fékk ég taugaáfall sem steypti mér ofan í mjög djúpt þunglyndiskast á engri stund. Því fylgdu þær verstu sjálfsvígshugsanir sem ég hef fengið allan þann tíma sem ég hef slegist við alvarlegt þunglyndið sem ég er haldin. Í samráði við geðlækninn minn tók maðurinn minn sér frí úr vinnu og sat yfir mér sjálfsvígsvakt í nokkra sólarhringa.

9. febrúar 2017: Ég hringdi í Margréti Tómasdóttur, talsmann sjúklinga á Lsp og tilkynnti henni að ég hygðist fremja sjálfsvíg. (Þess má geta að gamalt gælunafn þrenndartaugaverks, fyrir daga ópíums, var „sjálfsvígssjúkdómurinn“, því fólk kálaði sér frekar en að lifa við verkina. Og þunglyndi eins og ég er haldin er það slæmt að margur hefur stytt sér leið yfir í eilífðina af svoleiðis sjúkdómi.)  Sem áður hefur verið nefnt hafði hún ekkert gert í mínum málum en við þessi tíðindi virtist hún tilbúin til þess að rísa úr stólnum og bað mig að gera mér ekki mein strax því nú myndi hún tala við H+T.

Sama morgun hringdi ég í Embætti landlæknis og óskaði eftir lögfræðilegri aðstoð embættisins í mínum málum með tilvísan til leiðbeiningaskyldu stjórnvalds. Ég talaði við aðstoðarmann landlæknis og sendi henni þann hluta þeirrar hráu tímalínu sem var tilbúin, sem erindi til kvartananefndar, að hennar ráði.

10. febrúar 2017: Margrét Tómasdóttir talsmaður sjúklinga hringdi í mig árla morguns og lét mig vita að nú hefði hún gert mig að forgangssjúklingi hjá Hjálmari Bjartmarz, sem kæmi til landsins í annarri viku mars, og læknir af H+T myndi hafa samband við mig þennan sama dag. Hún bað um afrit af tímalínu sem hún vissi ég að hefði tekið saman og ég sendi henni hana. Hins vegar virtist hún ekki ná þeirri staðreynd að Hjálmar Bjartmarz hefði enga nál til að framkvæma þessa aðgerð og því skipti mig litlu máli hvenær hann kæmi.

Þar sem ég var orðin forgangssjúklingur hjá Hjálmari Bjartmarz í tímasettri komu hans var augljóst að H+T gat ekki gripið til þess ráðs að „gleyma mér óvart“ (en sjúklingur sem hafði farið í PBC-aðgerð hjá honum árið áður hafði einmitt reynsluna af því, frétti fyrir tilviljun úti í bæ að Hjálmar væri kominn til landsins og tekinn til starfa en tókst síðan vegna persónulegra kynna við einn af læknum H+T að minna nægilega á sig til að komast í aðgerðina sem hún hafði verið á biðlista eftir lengi). H+T var væntanlega komin í nokkur vandræði vegna þessa og vegna upplýsinga sem Elfar Úlfarsson hafði, fyrir hönd deildarinnar, gefið Siglinganefnd, þegar hér var komið sögu.

Enginn læknir af H+T hringdi í mig þennan dag, þrátt yfir loforð Margrétar. Í símtali við Elfar Úlfarsson þann 13. febrúar kom fram að hann hefði átt að hringja í mig en verið önnum kafinn allan daginn að hringja á sjúkrahús í Svíþjóð og reyna að fá lánaða nál til að gera aðgerðina, vitaskuld án árangurs.

Til þessa hef ég reynt að segja söguna eins hlutlægt og ég get en síðasta efnisgreinin í þessari færslu er persónulegri. Hún verður að fylgja með því ég held að mjög margir hafi ekki hugmynd um hvernig djúpt þunglyndiskast lýsir sér.

Næstu daga einbeitti ég mér að því að reyna að bægja dauðaþrá og sjálfsvígshugsun frá mér, át hæsta skammt af tradolan á dag, að ráði heilsugæslulæknis (af því ég þorði ekki að taka oxycontín sem einnig stóð til boða) til að slá aðeins á þrenndartaugaverkinn, var ófær um alla hluti vegna þunglyndiskastsins en frétti seinna að geðlæknirinn minn hefði, eftir samráð við manninn minn, haft samband við Elfar Úlfarsson. Sjálf gat ég ekki talað við geðlækninn í síma heldur eyddi eftirmiddögum og kvöldum sitjandi hríðskjálfandi upp við vegg uns nógu hár lyfjaskammtur gerði mér kleift að sofna á nóttunni. Þannig eru verstu þunglyndisköst sem ég fæ.

Frh. í næstu færslu.

Þessi færsla, fyrri færsla og þær næstu tengjast færslum um þrenndartaugaverk, sem eru:

1. Þrenndartaugabólga eða vangahvot;
2. Lyfjameðferð við þrenndartaugabólgu;
3. Þrenndartaugin og inngrip gegn þrenndartaugabólgu
4. Skurðaðgerðir og aðrar aðgerðir í eða við þrenndarhnoða
5. Þrenndartaugarverkur/vangahvot: Saga orðanna

Reynsla TN-sjúklings af „þjónustu“ Landspítala-Háskólasjúkrahúss

Sérfræðingur í mannalækningum

II. hluti – frh. af I. hluta

Október leið og nóvember leið og desember leið árið 2016 án þess að nokkur læknir af H+T hefði samband við mig. Ég hringdi reglulega í læknaritara Arons Björnssonar án nokkurs árangurs. Upplýsingar voru ávallt á sömu leið en hún gat þó staðfest að ég væri á biðlista eftir aðgerð hjá Hjálmari Bjartmarz þegar hann kæmi til landsins, sem enginn vissi hvenær yrði því ekki næðist í hann.

Ég varð æ veikari og óbærilegir stanslausir verkirnir mögnuðu upp djúpa þunglyndið sem ég er haldin. Um talsvert skeið hafði ég verið nánast fangi á eigin heimili, ég gat mjög takmarkað umgengist fólk og alls ekki gert neitt á kvöldin vegna TN-sársaukans, þrátt fyrir að eta verkjalyf í síhækkandi skömmtum auk annarra lyfja.

12. janúar 2017: Loks greip ég til þess ráðs að hafa samband við fyrrverandi nemanda minn sem er heila- og taugaskurðlæknir í Svíþjóð og spurði hana í Facebook-skilaboðum hvort hún teldi áformaða aðgerð líklega til árangurs fyrir mig (því þá hafði ég talað við sjúkling sem hafði gengist undir þessa aðgerð hjá Hjálmari Bjartmarz árið áður og verið fárveik í þrjár vikur eftir aðgerðina en náð svo bata). Ég hafði sjálf lesið mér til um aðgerðina og horft á myndbönd af henni, á netinu.

Þessi fyrrverandi nemandi minn svaraði Facebook-skilaboðunum strax og hringdi samdægurs í mig. Í löngu símtali útskýrði hún hvernig þessi aðgerð væri gerð á sjúkrahúsinu sem hún vann á en þar sérhæfa menn sig í akkúrat þessari aðgerð við þrenndartaugaverk, bæði dæmigerðum og ódæmigerðum. Hún gat líka sagt mér prósentutölur um hve lengi bati héldist en raunar bara um dæmigerðan þrenndartaugaverk, hin tegundin er svo sjaldgæf. Og ég fékk að vita að á þessu sjúkrahúsi, Sahlgrenska í Gautaborg, væru gerðar 3-4 svona aðgerðir á dag og að sjúkrahúsið ætti 2 heimasmíðaðar nálar til verksins.

Meira máli skipti þó að hún sagði mér að í Lundi ættu menn engar nálar til að gera þessa aðgerð og hefðu ekki átt um skeið, því fyrirtækið sem framleiddi nálarnar væri hætt störfum. Heila- og taugaskurðlæknadeildin í Lundi hefði sent sína sjúklinga í biðröð á Sahlgrenska og biðröðin lengdist því hratt.
(Þótt H+T virtist um megn að ná sambandi við yfirlækni heila- og taugaskurðlæknadeildar sjúkrahússins í Lundi mánuðum saman tókst mér í fyrstu tilraun, þann 10. febrúar 2017, að ná símasambandi við hjúkrunarforstjóra á göngudeild þessarar deildar, sem staðfesti að engar nálar til að gera PBC-aðgerðir hefðu verið til lengi í Lundi og að fyrirtækið sem framleiddi þær hefði lagt upp laupana.)

13. janúar 2017: Ég hringdi í læknaritara Arons Björnssonar og lét hana vita að í Lundi hefðu ekki verið til nálar til að framkvæma aðgerðina í talsverðan tíma og sjúklingum þaðan væri vísað á Sahlgrenska, spurði svo hvort H+T ætti verkfæri eða hvort þessi Hjálmar Bjartmarz tæki með sér sín tól og tæki ef og þegar hann kæmi til landsins. Hún taldi að Hjálmar sæi um tækjamál sjálfur. Ég benti á að hann gæti þá ekki gert þessa aðgerð og reiknaði með að hún bæri þau skilaboð til ósýnilegu og óínáanlegu læknanna á H+T, sem var falin umsjá með mér þann 9. ágúst 2016. Enn hafði enginn náð í Hjálmar og ekkert var vitað um komu hans, að hennar sögn.

18. janúar 2017: Yfirlæknir HVE sendi nýtt læknabréf til Arons Björnssonar, yfirlæknis H+T, þar sem hann benti á að ég hefði verið 5 mánuði á biðlista, að lífsgæði mín væru mjög skert vegna TN2 og nefndi hið alvarlega þunglyndi einnig. Hann upplýsti að ég hefði sjálf aflað mér upplýsinga um sérhæfðan lækni og PBC-aðgerðir í Gautaborg og óskar í bréfinu eftir að ég „fái áheyrn“ svo hægt sé að leiðbeina mér um framhaldið. Þessu bréfi var ekki svarað.

Þegar hér var komið sögu var runnið upp fyrir mér að læknum á H+T deild Lsp væri ekki sérlega umhugað um sjúklinga og að ég stefndi hratt í lífshættulegt ástand. Ég hafði aflað mér afrita af öllum gögnum um mig sem vörðuðu TN2-sjúkdóminn, að undanskildu vottorði frá Aroni Björnssyni yfirlækni H+T um að enginn starfandi læknir á H+T kynni að framkvæma aðgerðina sem ég þyrfti því hann hunsaði beiðni um það.

29. janúar 2017: Ég fyllti út og sendi umsókn til Siglinganefndar Alþjóðasviðs Sjúkratrygginga Íslands ásamt öllum nauðsynlegum fylgigögnum (vottorðum, göngudeildarnótum, læknabréfum o.þ.h.) þar sem ég óskaði eftir að fá að fara í PBC-aðgerð á Sahlgrenska sykhuset í Gautaborg.

31. janúar 2017: Ég hringdi í læknaritara Arons Björnssonar en af því hún var veik þennan dag var mér gefið samband við annan læknaritara, sem heldur utan um biðlista H+T, alla nema sérstakan biðlista eftir aðgerðum Hjálmars Bjartmarz. Þegar ég hafði sagt henni lauslega af mínum málum upplýsti hún mig um að til væri sérstakur talsmaður sjúklinga á Landspítalanum og gaf mér upp beint símanúmer þess. Ég hringdi strax á eftir í þennan talsmann sjúklinga (en „talsmaður“ eða „umboðsmaður“ sjúklinga er algerlega ósýnilegur á vef Lsp, finnst ekki einu sinni við Google site-leit á vefsvæði spítalans). Talsmaðurinn heitir Margrét Tómasdóttir.

Ég sagði Margréti frá mínum málum, benti á öngþveitið sem virtist ríkja á H+T, brot lækna þar á lögum um réttindi sjúklinga, brot þeirra gegn tilmælum Embættis landlæknis um upplýsingaskyldu og biðtíma eftir aðgerð o.fl. Hún lofaði að athuga þessi mál. Þess ber að geta að þegar ég hringdi aftur í hana þann 9. febrúar hafði hún nákvæmlega ekkert aðhafst í mínu máli.

2. febrúar 2017: Ég hringdi í læknaritara Arons Björnssonar, sem sagðist hafa heyrt að líklega kæmi Hjálmar Bjartmarz til landsins í mars en engar nákvæmar tímasetningar lægju fyrir.

frh. í næstu færslu.

Þessi færsla, fyrri færsla og þær næstu tengjast færslum um þrenndartaugaverk, sem eru:

1. Þrenndartaugabólga eða vangahvot;
2. Lyfjameðferð við þrenndartaugabólgu;
3. Þrenndartaugin og inngrip gegn þrenndartaugabólgu
4. Skurðaðgerðir og aðrar aðgerðir í eða við þrenndarhnoða
5. Þrenndartaugarverkur/vangahvot: Saga orðanna

Reynsla TN-sjúklings af „þjónustu“ Landspítala-Háskólasjúkrahúss

 

Zeudberg læknir

I. hluti

Inngangur

Ég hef þjáðst af ódæmigerðum þrenndartaugaverk (TN 2) í kjálka frá apríl 2012. Hann hefur aðallega lýst sér eins og verið væri að draga úr jaxlana vinstra megin með naglbít og svíða góminn í leiðinni. Oftast náði ég verkjalausum hálftíma eftir að ég vaknaði á morgnana en svo tók verkurinn við og versnaði uns mér tókst að sofna um kvöldið af nógu krassandi lyfjum. Lyf hafa virkað afar takmarkað á verkinn sjálfan, eins og oftast er raunin með TN2. Greining taugalæknis er „trigeminus taugaaffection af týpu II“. Formleg greining er Disorder of trigeminal nerve, unspecifed G50.9 því sjúkdómurinn er það sjaldgæfur að hann hefur ekki eigin kóða í ICD-10.

Hér verða helstu samskipti mín við heila-og taugaskurðlækningadeild Landspítala-Háskólasjúkrahúss (hér eftir skammstafað Lsp) rakin. Ég álít að á mér hafi verið gróflega brotið, í ljósi þess hve alvarlegur þessi sjúkdómur er og í ljósi þess að ég er haldin öðrum lífshættulegum sjúkdómi, þ.e. djúpu ólæknandi þunglyndi, svo ekki sé minnst á lagabrot (sjá t.d. V. kafla 18. og 19. grein og II. kafla 5 gr. b, c og d í Lögum um réttindi sjúklinga 74/1997).

Það sem mér blöskrar einkum er alger skortur á sambandi lækna við sjúkling, alger skortur á upplýsingum til sjúklings,  algert áhugaleysi um hvernig sjúklingi líður og hvernig alger óreiða virðist einkenna þessa deild, mögulega sjúkrahúsið í heild. Ekkert af þessu hefur neitt með kostnað eða mannafla að gera.

Tímalína atburðarásar

2. mars 2016: Samsláttur æðar og þrenndartaugar sást í segulómun. (Íslenskir læknar taka þetta oftast sem sönnun þess að sjúklingur sé haldinn þrenndartaugaverk en í rauninni er þetta bara ein af þremur kenningum um orsök sjúkdómsins.)

8. mars 2016: Fráfarandi yfirlæknir HVE sendi læknabréf til Arons Björnssonar, yfirlæknis heila-og taugaskurðdeildar Lsp þar sem segir að ég hafi þjáðst af trigeminal neuralgia í mörg ár, beðið er um að brugðist sé skjótt við og athugað með „viðgerð“.

Mér var úthlutað viðtalstíma hjá Aroni í símtali þegar ég var erlendis. Við nánari athugun reyndist sá viðtalstími vera á annan í páskum. Næsti viðtalstími var einnig gefinn í gegnum síma, 9. maí, og fylgt eftir með SMS-áminningu.

9. maí 2016: Þegar ég mætti á göngudeild heila- og taugaskurðdeildar (hér eftir skammstafað H+T). kom í ljós að hvorki ég né viðtalstíminn fannst í tölvu móttökuritara. Ég komst samt í fimm mínútna viðtal við Aron, sem virtist mjög skilningsríkur en fyllti svo út göngudeildarnótu um „verk vinstra megin í andliti, nánar tiltekið í vanga og kinn og kannski kjálka vinstra megin.“ Af þessu má ráða að Aron hlustaði alls ekki á mig í þessu fimm mínútna viðtali, annars hefði hann varla skrifað allt annað en ég sagði. Hann greindi mig með Atypical facial pain. G50.1 og vísaði mér til taugalæknis á taugalækningadeild Lsp.

24. maí 2016: Taugalæknir tók ítarlega sjúkrasögu og fór yfir hvaða rannsóknir ég hefði farið í (sem voru 2 sneiðmyndatökur og segulómun).

20. júní 2016: Taugalæknir sendi mig í beinaskanna. Ekkert óeðlilegt sést.

13. júlí 2016: Taugalæknir sendi mig í sneiðmyndatöku á Röngtendeild Lsp. Ég sagði honum í síma að ég hefði farið tvisvar sinnum áður í svona myndatöku hér á Akranesi, en það breytti engu. Stúlkum á Röngtendeild Lsp þótti skondið að að sjúklingur af Akranesi kæmi í þessa 5 mínútna myndatöku til þeirra því sneiðmyndatækið á sjúkrahúsinu á Akranesi er miklu nýrra og fullkomnara. Ekkert óeðlilegt sást.

9. ágúst 2016: Síðasti viðtalstími hjá taugalækni Lsp, hann gekk frá endanlegri sjúkdómsgreiningu, vísaði mér til H+T og sagði að ég myndi heyra frá þeim í október.

Taugalæknirinn sendi svo ítarlega göngudeildarnótu til þess yfirlæknis HVE sem var löngu hættur störfum. Fram kemur að lyfjameðferð teljist fullreynd og hann meti að vel komi til greina að reyna „balloon“ eða glycerol aðgerð á þrenndarhnoða. Orðrétt segir: „Hef verið í sambandi við Aron Björnsson og finnst honum koma til greina að reyna balloon meðferð og mun hann taka það upp við Hjálmar Bjartmarz sem ætti þá að geta skoðað sjúkling næst þegar hann kemur til starfa. “

Ég vek athygli á að frá 9. ágúst 2016 telst ég sjúklingur H+T og vissulega var rétt hjá taugalækninum að H+T ætti að hafa samband við mig í október því hafi sjúklingur verið á biðlista í 3 mánuði ber lækni að hafa samband við hann skv. viðmiðunarmörkum Embættis landlæknis um biðtíma eftir aðgerð,  sem sett voru 15. júní 2016. Ég vek líka athygli á hvernig sjúklingurinn (ég) er, þegar hér er komið sögu, orðinn að einhvers konar bolta sem menn gefa á milli sín: Aron á taugalækninn – taugalæknirinn gefur til baka á Aron sem hefur ákveðið að gefa næst á einhvern Hjálmar o.s.fr.

7. október 2016: Í október hafði hvorki heyrst hósti né stuna frá H+T og verkurinn var orðinn nánast óbærilegur. Nýr yfirlæknir HVE skrifaði læknabréf til Arons Björnssonar yfirlæknis H+T þar sem segir m.a.: „Óskað er eftir að konan komist í aðgerð hjá Hjálmari Bjartmarz, heila-og taugaskurðlækni í Lundi, Svíþjóð. Meðferð fullreynd.“ Þessu bréfi var ekki svarað.

18. október 2016: Sérfræðilæknir minn (geðlæknir) sendi læknabréf til yfirlæknis HVE og samrit til Arons Björnssonar. Þar segir m.a. að afar brýnt sé að finna úrræði til að slá á TN-verkina því þeir geri líf mitt illbærilegt og það er ítrekað seinna í bréfinu. Þessu bréfi var ekki svarað.

Frá því í október hringdi ég reglulega í læknaritara H+T. Hún virðist skilja hlutverk sitt sem einhvers konar varðhunds til að varna því að sjúklingur næði tali af lækni á þessari deild. Svör hennar, þegar spurt var um þennan Hjálmar Bjartmarz voru yfirleitt á þá lund að enginn vissi hvenær hann kæmi til landsins því ekki næðist í hann. Það þótti mér nokkuð merkilegt á tímum talsíma og tölvupósts, sem og í ljósi þess að maðurinn er yfirlæknir heila-og taugaskurðlæknadeildarinnar í Lundi.

Ég vissi ekki einu sinni nöfn þeirra lækna sem ynnu á H+T, nema Arons. Hann var með hálftíma viðtalstíma snemma á morgnana (frá 7:30-8:00) en hringja þurfti gegnum aðalskiptiborð Lsp. Eftir nokkrar árangurslausar tilraunir, meðal annars að prófa að bíða í símanum í þennan hálftíma, komst ég að því að aðalskiptiborð Lsp gefur símtöl ekki í réttri röð og lukkan ræður hvort samband næst. Ég var orðin það veik, bæði af þrenndartaugaverk og þunglyndi, að ég gafst upp á að rífa mig á fætur eldsnemma morguns (eftir svefnlitlar nætur) til reyna að ná sambandi við manninn. Læknaritari Arons gætti þess, eins og áður sagði, vandlega að ég næði hvorki sambandi við hann né nokkurn annan heila- og taugaskurðlækni.

Frh. í næstu færslu

Þessi færsla og þær næstu tengjast færslum um þrenndartaugaverk, sem eru:

1. Þrenndartaugabólga eða vangahvot;
2. Lyfjameðferð við þrenndartaugabólgu;
3. Þrenndartaugin og inngrip gegn þrenndartaugabólgu
4. Skurðaðgerðir og aðrar aðgerðir í eða við þrenndarhnoða
5. Þrenndartaugarverkur/vangahvot: Saga orðanna

Vefprjón, mósaíkprjón og óprjónaðar lykkjur

mósaíkprjón

Barbara Walker í mósaíkprjónaðri peysu

Hérlendis virðist ríkja einhver misskilningur í heitum á prjónaðferðunum vefprjóni og mósaíkprjóni. Hér verður saga þessara aðferða og heita rakin.

Segja má að þrjár konur, Mary Thomas, Elizabeth Zimmerman og Barbara Walker, beri höfuð og herðar yfir aðra sem fjallað hafa um prjónaðferðir og prjónaskap á síðustu öld. Það er því rétt að athuga hvað þær hafa um umfjöllunarefnið að segja.

VEFPRJÓN

Í Mary Thomas’s Book of Knitting Patterns, fyrst gefin út 1943 en hér er stuðst við endurprentun frá 1973, eru prjónaðferðir flokkaðar í nokkra flokka. Einn flokkurinn heitir SLIP-STITCH MOTIFS AND PATTERNS, sem snara mætti sem „munstur sem byggja á óprjónuðum lykkjum“. Þar er lýst ýmsum munstrum sem ganga í endurnýjun lífdaga nú um stundir en hið eina sem hún kennir við vefnað, þ.e. Woven Rib og Woven Check or Hopsaic Stitch (s. 95-96) eru einföld munstur þar sem tekin er óprjónuð önnur hvor lykkja og garnið látið liggja yfir þær á réttunni. Áferðin verður svipuð og rangan á bosnískum inniskóm, sem margir hafa spreytt sig á að prjóna undanfarið.

Í eldri bók sama höfundar, Mary Thomas’s Knitting Book, fyrst gefin út 1938, hér er stuðst við endurprentun frá 1972, minnist hún á prjónaðferðina Woven Knitting, sem þýða mætti sem ofið prjón, mögulega vefprjón (s. 109). Þar eru notaðir tveir litir, önnur hvor lykkja er prjónuð í hvorum lit og lausi liturinn ávallt festur í hverri lykkju (líkt og í tvíbandaprjóni). Prjónað er slétt á réttu og brugðið á röngu. Rangan á síðan að snúa út. Um aðferðina segir höfundur: Þessi gerð af klæði var notuð snemma á Viktoríutímunum til að prjóna karlmannsvesti, og var einnig nefnd „Vestisprjón [Waistcoat Knitting] “. Prjónið lítur svona út (myndin er skönnuð úr bókinni):

Vefprjón

Woven/Waistcoat knitting

Barbara Walker nefnir einnig ofið prjón (Woven stitch) í bók sinni A Treasury of Knitting Patterns, útg. 1968, hér vitnað í endurútgáfu frá 1998, s. 94. Hún lýsir nokkrum afbrigðum af þessu prjóni og birtir mynd sem sýnir þær. Hér er myndin:

vefprjón

Sjá má útfærslu í lit af einni næstefstu aðferðinni, að vísu með þremur litum, á þessari slóð.

Heitið vefprjón er miklu þekktara nú til dags yfir norska aðferð sem er ýmist kölluð vevstrik eða doppeltvev. Annemor Sundbø lýsir aðferðinni í bók sinni Usynlege trådar i Strikkekunsten, útg. 2009, s. 32-33. Þar kallar hún hana doppeltvev en í námskeiðum sem Annemor hefur haldið er aðferðin kölluð vevstrik, að sögn þátttakenda sem um slík námskeið hafa bloggað.

Sú aðferð byggir á garðaprjóni í tveimur litum, á réttu er prjónað úr öðrum litnum en af röngunni úr hinum litnum (hvor litur er s.s. notaður í hálfan garð). Eftir hverja umferð verður því að klippa á garnið og þess vegna hentar aðferðin best til að prjóna trefla eða einhver stykki sem eiga að vera með kögri (garnendarnir nýtast í kögur). Munstrið er myndað með því að taka óprjónaðar lykkjur úr umferðinni á undan (sem er þá í öðrum lit). Óprjónuðu lykkjurnar eru alltaf teknar í sama lit og mætti því kalla annan litinn munsturlit og hinn bakgrunnslit.

Þetta er gömul aðferð, segir Annemor Sundbø, og stundum kölluð „Mor Astrups strikketeknik“ eftir Ebbu Astrup, sem varð forstöðukona á barnaheimili laust eftir aldamótin 1900. Sagt er að Ebba hafi prjónað trefla á börnin með þessari aðferð.

Einhverjar prjónakonur munu kannast við uppskrift af karlmannstrefli sem Christine Einarsson seldi meðan Prjónasmiðja Tínu starfaði. Uppskriftin heitir Tígull og má sjá mynd af honum á síðu fyrirtækisins á Vefsafninu. Munstrið er sláandi líkt mynd af trefli sem Annemor Sundbø birtir í fyrrnefndri bók, en hvaða munstur sem byggir á skálínum og tveimur litum má útfæra í þessa prjónaðferð. Líklega yrðu tíglar og sikk-sakk munstur alltaf vinsælust. (Sjá má tvær aðrar útfærslur af treflum, byggðum á myndinni í bók Sundbø, á síðu prjónara á Ravelry.)

Hér eru myndir af minni eigin prufu í vefprjóni, sú efri sýnir stykkið á réttu, sú neðri sýnir hvernig rangan lítur út.

Vefprjón

Vefprjón á réttu

Vefprjón

Vefprjón á röngu

 

MÓSAÍKPRJÓN

Skv. Richard Rutt fann Barbara Walker upp mósaíkprjónið (sjá A History of Hand Knitting, útg. 1987, s. 205). Hún gerir þessari aðferð skil í sérstakri bók, Mosaic Knitting, sem kom út 1976 og einnig í tveimur sinna safnbóka munstra, Charted Knitting Designs: A Third Treasury of Knitting Patterns, útg. 1986 og A Fourth Treasury of Knitting Patterns, sem kom út árið 2000.

Mósaíkprjón er garðaprjón þar sem hver garður er prjónaður í sínum lit. Einfaldast er auðvitað að prjóna í tveimur litum en í rauninni skiptir litafjöldi ekki miklu máli því einungis er prjónað með einum þræði í einu og þá heill garður. Óprjónaðar lykkjur mynda munstur á réttunni. En ólíkt norska vefprjóninu sem var lýst hér að ofan er munstrið gert með óprjónuðum lykkjum í báðum litunum. Og auðvitað má nota þessa aðferð í sléttprjóni eingöngu þótt hún sé hugsuð fyrir garðaprjón.

Líklega er auðveldast að útskýra þetta með myndum. Hér að neðan eru myndir af prufu sem ég var að prjóna, fyrri myndin af réttunni og hin síðari af röngunni. Neðsta myndin er svo af munstrinu.

Mósaíkprjón

Mósaíkprjón á réttu

Mósaíkprjón

Mósaíkprjón á röngu

 

Munstur fyrir mósaíkprjón

Munstur fyrir mósaíkprjón

 

Það er stutt síðan íslenskar prjónakonur uppgötvuðu mósaíkprjón en ég giska á að aðferðin verði vinsæl innan tíðar því það er mjög gaman að prjóna með þessari aðferð.  Rétt er að vara við að þótt prjónað sé með garðaprjóni verður prjónlesið lítt teygjanlegt vegna bandanna sem liggja á röngunni, fyrir aftan óprjónuðu lykkjurnar. Eðli mósaíkprjóns er að munstur verða geómetrísk og beinar línur eru oft ríkjandi, geómetrískar skálínunur verða hins vegar alltaf í norska vefprjóninu.  (Ég biðst afsökunar á slettunni geómetrískt en orðalagið „munstur sem minnir á rúmfræðilegar myndir“ er of óþjált, finnst mér.)

Þeim sem hafa áhuga á mósaíkprjóni er bent á að skoða dæmin á The Walker Treasury Project. Munstrin fylgja ekki heldur er vísað í þau í bókum Barböru Walker.

MUNSTUR MEÐ ÓPRJÓNUÐUM LYKKJUM

Eins og nefnt var í upphafi, þegar vísað var í bækur Mary Thomas, er til fjöldi munstra sem gerð eru með því að taka lykkjur óprjónaðar. Á ensku eru slíkar aðferðar oftast kallaðar yfirheitinu “Slip stitch knitting”.

Skv. munnlegri heimild kunnu íslenskar prjónakonur að gera einföld munstur með óprjónuðum lykkjum a.m.k. frá miðri síðustu öld. Sú aðferð hafði ekkert sérstakt heiti.

Má í þessu sambandi benda á peysuuppskrift sem birtist í Húsfreyjunni í mars 1957 (krækt er í uppskriftina). Peysan er eitt af elstu dæmunum um hringlaga berustykki/axlarstykki í íslenskri prjónauppskrift og líklega þýddi Elsa E. Guðjohnson þessa uppskrift úr sænsku (uppskriftin hafði árið áður birst í sænsku prjónablaði). Munstrið er hvítt, blátt og rautt en það er ekki gert með tvíbandaprjóni (eins og íslenskar lopapeysur nútímans) heldur er þessi hluti axlarstykkisins prjónaður fram og til baka og munstrið gert með að taka upp óprjónaðar lykkjur. Úrtökur eru í einlitu röndunum með vissu millibili. Opið (vegna þess að munstrið er prjónað fram og til baka) er á bakinu og gert ráð fyrir að settur sé rennilás til að loka því.

Hér er mynd sem sýnir munstrið á peysunni:

Óprjónaðar lykkjur

Munstur með óprjónuðum lykkjum

NIÐURSTAÐA

Það eru kannski engar stórkostlega niðurstöður af þessari umfjöllun nema þær að það er algerlega út í hött að kalla mósaíkprjón vefprjón s.s. ég hef heyrt fleygt að sumir vilji gera, og að heitið vefprjón getur átt við ýmsar prjónaðferðir aðrar. Loks má benda á að munstur með óprjónuðum lykkjum eru mjög fjölbreytt og engan veginn hægt að fella þau undir yfirheitið vefprjón, þó ekki væri nema vegna þess að mörg þeirra líkjast vef ekki hið minnsta.

 

Þrenndartaugarverkur/vangahvot: Saga orðanna

Þetta er fimmta færsla í færsluflokki um þrenndartaugarverk. Hinar eru, í tímaröð:

1. Þrenndartaugabólga eða vangahvot;
2. Lyfjameðferð við þrenndartaugabólgu;
3. Þrenndartaugin og inngrip gegn þrenndartaugabólgu
4. Skurðaðgerðir og aðrar aðgerðir í eða við þrenndarhnoða

(Og ein söguleg færsla, Konustráið hans Péturs og greifynjan af Norðimbralandi.)

Það er rétt að geta þess að ég sé að orðið þrenndartaugabólga, sem ég hef notað í þessum færslum, er ekki heppilegt orð yfir trigeminal neuralgia, því engin er bólgan. Mér sýnist að þrenndartaugarverkur sé heppilegra orð og breyti heitunum þegar ég set færslurnar upp í vef. Ekki er vænlegt að breyta fyrirsögnum færsla löngu eftir að þær voru birtar því það ylli vandkvæðum í leitarvélum á Vefnum.

Þessi færsla fjallar um þau orð sem notuð hafa verið yfir sjúkdóminn og einnig hvernig greint er milli þrenndartaugarverks og þrenndartaugarkvilla.

Latneskir og grískir stofnar

Latneska heitið á þrenndartaugarverk er neuralgia trigemini.

Þrenndartaugin sjálf heitir nervus trigeminus á latínu. Karlkyns nafnorðið nervus þýðir taug og trigeminus stendur þarna sem lýsingarorð í nefnifalli. Nafnorðið trigeminus (kk.) þýðir þríburi (en stjörnumerkjafróðir lesendur kannast sjálfsagt við geminus (gemini í ft.) sem þýðir tvíburi).

Taugin heitir því, í beinni þýðingu latínunnar, þríburataug. Það var hún og kölluð í elsta orðasafninu þar sem ég finn hana nefnda, í Fylgiriti Árbókar Háskóla Íslands, 1937, s. 92. Fylgiritið er eftir Guðmund Hannesson og heitir NOMINA ANATOMICA ISLANDICA: ÍSLENZK LIFFÆRAHEITI.

Í sjúkdómsheitinu neuralgia trigemini, sem er miðaldalatína, er búið að skeyta saman grísku orðunum neûron (νεῦρον) og algos (ἄλγος). Neuron þýðir taug og algos þýðir þjáning eða kvöl, afleidda orðið algia þýðir hið sama, stundum þó líðan og jafnvel þrá (eins og sést í orðinu nostalgía, sem þýðir bókstaflega þrá eftir að komast heim).

Bein þýðing á neuralgia trigemini væri því væntanlega þríburataugarkvöl.

Íslensk orð

Líklega hafa menn ekki haft neitt íslenskt orð yfir neuralgia trigemini fyrr en laust fyrir síðustu aldamót. Til þess bendir m.a. þýdd grein í Lesbók Morgunblaðsins 5. apríl 1959, s. 181, þar sem gamalt franskt-enskt heiti sjúkdómsins, tic douloureux, er notað. Ítarleg leit í Ritmálssafni Orðabókar Háskóla Íslands og á timarit.is hefur ekki skilað neinum gömlum dæmi um íslensk heiti á þessum kvilla.

Í Orðabanka Íslenskrar málstöðvar eru gefin upp íðorðin þrenndartaugarverkur og vangahvot, sem þýðing á enska sjúkdómsheitinu trigeminal neuralgia.

Ég veit ekki hvenær þrenndartaug náði fótfestu á kostnað þríburataugar en giska á að ekki sé langt síðan. Í Nomina Anatomica: Líffæraheiti. (1996.) Ritstjóri Magnús Snædal. Reykjavík: Heimskringla. Háskólaforlag Máls og menningar, er þrenndartaug gefin sem íslensk þýðing á Nervus trigeminus. Í auglýsingu lyfjafyrirtækja, sem birtist víða haustið 2000, segir hins vegar [um Tegretol]: „1967 Nýtt lyf, karbamazepín kemur á markað. Vinnur gegn verkjum í svonefndri þríburataug og vissum tegundum flogaveiki.“ Hér er vísað í auglýsinguna í Morgunblaðinu 23. sept. 2000, s. 17.

Það kann að valda þessum ruglingi á orðanotkun kringum aldamótin síðustu að skv. fyrrnefndum Orðabanka Íslenskrar málstöðvar er orðið þrenndartaug notað í Íðorðasafni lækna en þríburataug í Líforðasafni, þ.e. orðasafni líffræðinga.

Íslenska íðorðið vangahvot hýtur að vera fremur nýtt af nálinni en virðist ryðja sér óðum til rúms sem heiti á neuralgia trigemini. Ég finn engin dæmi um orðið eldri en um síðustu aldamót og það er ekki að finna í Ritmálssafni Orðabókar Háskóla Íslands. En í  ICD-10 kóðanum, þ.e. þeim sjúkdómaflokkunarkóða sem ísl. heilbrigðiskerfi notar, er einungis vangahvot gefið sem þýðing á ensku heitinum trigeminal neuralgia eða tic doloureux. Númer sjúkdómsins er G50.0.

Vangahvot er alveg sérstaklega illa heppnað íðorð að mínu mati. Í fyrsta lagi er mörgum þrenndartaugaverkjarsjúklingi ágætlega ljóst að sársaukinn er ekki bundinn við vanga: Þeir sem eru með verki frá kjálkataug eða augntaug þrenndartaugar eru líklega ekki mjög uppteknir af kinninni á sér.

Í öðru lagi er orðið hvot hvorukynsorð. Þetta gamla orð líkist kvenkynsorðinu hvöt óþarflega mikið sem stuðlar að rangri beygingu þess. Sem dæmi má nefna klausuna:

„Í hefðbundinni (idiopathic) vangahvot er ekki um skyntap að ræða. Þegar vangahvot er orsökuð af ….“ í  Ari J. Jóhannesson o.fl. (2015). Handbók í lyflæknisfræði. 4. útg., s. 364. Reykjavík:Háskólaútgáfan og Landspítali Háskólasjúkrahús.

Orðið hvot er væntanlega tekið úr læknisfræðitextum frá því seint á 18. öld, ef marka má upplýsingar Ritmálssafns Orðabókar HÍ. Annars vegar nefnir Sveinn Pálsson hvot sem dæmi um verk í Registr yfir Íslenzk Siúkdóma nøfn. (Framhalldit.) í Riti þess (konunglega) Islendska Lærdóms-Lista Felags X, útg. 1789, s. 52: „Verkr (dolor) … hvotverkr, hvot (dol. intermittens) […]“. Dolor intermittens þýðir sársauki sem kemur og fer, með hléum.

Hins vegar er orðið að finna í Stuttu Agripi umm Icktsyke Edur Lidaveike : Hvar inne hun er wtmaalud, med fleirstum sijnum Tegundum; Þar i eru løgd […] eftir Jón Pétursson. Bókin fjallar vitaskuld um gigt (iktsýki), kom út árið 1782 og á s. 33 segir: „Þeir eð hafa Miadmaverk, finna stundum smaa-Hvøt i Lærenu eður Kálfanum, sem þar kvikade nockuð lifande, aan þess að þreyngiast þar af.“

Hvot þýddi sem sagt seint á 18. öld verkur, kannski verkur sem kemur og fer, kannski tilfinning eins og eitthvað skríði innanum mann. Málsögulega séð getur hvot þýtt stingur því orðið ku dregið af sögninni að hváta sem merkti stinga. Þeir sem líklegastir eru til að hafa yfirhöfuð heyrt þessa sögn eru væntanlega dyggir aðdáendur Egils sögu sem muna þegar Egill karlinn þurfti að stinga nefinu ofan í feld í ástarsorg, þ.e.a.s. hváta brúna miðstalli í feld.

Einhverjum sniðugum lækni hefur síðan dottið í hug að splæsa saman orðinu vanga og orðinu hvot og búa þannig til vangahvot, sem bókstaflega þýðir verkur/stingur í kinn, og nota fyrir íslenskt heiti á þeim sársaukafulla sjúkdómi trigeminal neuralgia. Sá hefur mögulega verið lesinn í Egils sögu.

Orðsins hvot verður líka vart í öðru samhengi í Íðorðasafni lækna. Þar er boðið upp á samheitin taugahvot og taugaverkur yfir neuralgia, líffræðingar hampa samheitunum taugahvot og taugapína yfir sama. Sjúklingar sem hafa talið sig þjást af úttaugaverkjum ættu því að læra, áður en þeir leita læknis, að þeir þjást af taugahvot og muna að beygja orðið í hvorukyni. Þetta staðfestir m.a. auglýsing um ágæti Gabapentíns (Neurontins) í Læknablaðinu 88(6), 2002, s. 466: „Nú hefur Neurontin frá Pfizer fengið ábendingarnar „meðferð á taugahvot í kjölfar herpessýkingar (postherpetic neuralgia) og sársaukafullum sykursýkitaugakvilla“.“ Ég vek athygli á að í auglýsingunni er greint milli taugahvots og taugakvilla þótt erfitt sé að ímynda sér ástæðuna fyrir því af samhenginu.

Myndin fylgir fyrrnefndri auglýsingu Pfizer í Læknablaðinu 15. júní 2002.

Myndin fylgir fyrrnefndri auglýsingu Pfizer í Læknablaðinu 15. júní 2002.

 

Þrenndartaugarverkur eða þrenndartaugarkvilli?

Til að flækja mál kann að vera að einhverjir læknar greini ódæmigerðan þrenndartaugarverk sem þrenndartaugarkvilla. Stundum er í erlendum heimildum greint milli trigeminal neuralgia og trigeminal neuropathy eða trigeminal neuropathic pain og er þá hið síðarnefnda notað um stöðugan sársauka sem stafar af skaða á þrenndartauginni. Því miður er næsta vonlítið að bæta trigeminal neuropathy með aðgerðum sem virka á trigeminal neuralgia (sjá t.d. lýsingu sjúklings á blogginu Theachybrain.com  eða greinar á borð við Jonathan H Smith og F Michael Cutrer. (2011.) Numbness matters: A clinical review of trigeminal neuropathy. Cephalalgia 31(10), s. 1131–1144. International Headache Society.).

Í Orðabanka Íslenskrar málstöðvar er enska orðið neuropathy þýtt sem taugakvilli, skilgreiningin sem fylgir er: „Meinsemd eða sjúkdómur í taug(um)“. Enska orðið er leitt úr miðaldalatínu, neuropathia. Sú latína er samansplæsing á grísku orðunum neûron, sem þýðir eins og áður hefur komið fram taug, og paþeia, kvenkyns mynd orðsins paþos, sem þýðir pína, kvöl eða jafnvel óhapp (eitthvað sem hendir mann).

Málsögulega séð er erfitt að gera greinarmun á algia, þ.e. kvöl, og paþeia, þ.e. pína. En í læknisfræðilegum textum hefur –pathy smám saman farið að merkja sjúkdóm, tilfinningu eða jafnvel meðferð meðan –algia hélt sinni fornu merkingu.

Svoleiðis að þrenndartaugarkvilli (trigeminal neuropathy) er verkur sem rekja má til einhvers konar skaða eða meinsemdar á tauginni meðan þrenndartaugarverkur (trigeminal neuralgia) kviknar óforvarendis (jafnvel þótt vinsælasta orsakaskýringin sé sú að mýli þrenndartaugar hafi skaðast af aðliggjandi æð). Vilji menn leita sér upplýsinga á Google Scholar mæli ég með því að leita eftir báðum sjúkdómsheitunum.

Ensk heiti

Hér verður látið duga að telja upp vinsælustu önnur heitin á trigeminal neuralgia, með örlitlum skýringum ef þurfa þykir:

  • trifacial neuralgia
  • tic douloureux (svo nefnt af franska skurðlækninum Nicolaus André 1756, þýðir sársauka-kippir)
  • facial neuralgia
  • Fothergill’s disease (eftir enska lækninum John Fothergill, sem lýsti sjúkdómnum 1773)
  • prosopalgia (gríska orðið prosopo þýðir andlit)

 

Lokaorð

Upphaflega hafði ég hugsað mér að skrifa einnig um sögu sjúkdómsgreiningar og læknisráða við þrenndartaugaverk. Ég veit ekki hvort af slíku verður, það bíður a.m.k. um sinn.

Færslurnar um þrenndartaugarverk voru fyrst og fremst skrifaðar vegna þess að ég fann nánast engar upplýsingar um þetta á íslensku. Reynsla mín af læknum af ýmsu tagi, sem ég hef leitað til frá því sjúkdómurinn (þrenndartaugarverkur eða þrenndartaugarkvilli) kviknaði í apríl 2012 bendir til þess að almennt viti læknar engin deili á þessum sjúkleika og hafi flestir aldrei heyrt hann nefndan. Það stendur þá upp á sjúklinginn að afla sér upplýsinga. Ég vona að einhverjir hafi og gagn af upplýsingamiðlun minni á íslensku, með því fororði að ég er ekki læknismenntuð og því kann að vel að vera að eitthvað sé missagt í þessum færslum: Menn hafi þá það sem sannara reynist.