Author Archives: Harpa

Rafbækur: Hætta lesbrettaeigendur að lesa á íslensku?

Leiti menn að íslenskum rafbókum í sitt lesbretti, síma eða spjaldtölvu má skoða eftirfarandi: 

Emma.is íslenskar rafbækur. Þar má finna ókeypis rafbækur, en flestar bækurnar kosta eitthvað, misjafnlega mikið þó. Stærsti kosturinn við emma.is er, að mínu mati, að bækurnar eru bæði á EPUB og MOBI formi og að forlagið tekur að sér að gefa út rafbækur eftir fólk, að uppfylltum vissum skilyrðum. Emma.is segist gera rafbók úr handriti á tölvutæku formi á svona 5-14 dögum að jafnaði og bjóða til sölu á vef sínum, yfirleitt kostar þetta 15 þúsund á bók. (Sjá síðurnar Spurt og svarað og Um Emmu. Emma.is leyfir ekki sölu á bókum sem eru komnar úr höfundarétti.

Forlagið selur talsvert af rafbókum í sinni vefverslun. Það selur bæði eigin bækur og bækur sem önnur forlög hafa gefið út. En: “Rafbækur frá Forlaginu eru ekki fáanlegar fyrir Kindle”! Skýringin sem Forlagið gefur á þessari ákvörðun er: 

  
Skýringin er í raun afar einföld. Amazon er bóksali sem jafnframt selur Kindle lestrartölvur. Þeir vilja ekki að aðrir bóksalar selji bækur inn á þeirra tæki. Kindle lestrartölvur taka því aðeins skráarsniðum sem Amazon notast við en ekki við öðrum almennum skráarsniðum sem notast er við í rafbókargerð (.ePub). Forlagið vill gjarnan selja bækur inn á Kindle, en til þess þarf Amazon-bóksalinn að hefja sölu íslenskra rafbóka. Það hafa þeir ekki viljað til þessa en vonandi breytist það áður en langt um líður. Það er hagur Forlagsins að selja sem flestar rafbækur, og þ.a.l. inn á Kindle lestrartölvur. Um leið og Amazon opnar sínar flóðgáttir fyrir íslenskum bókaútgefendum þá verðum við með!

Þessi skýring Forlagsins heldur ekki vatni en um hana verður fjallað í næstu færslu. Allar rafbækur á vef Forlagsins eru á EPUB-formi með DRM-læsingu.

Himnar�ki og helv�ti eftir Jón Kalman StefánssonSem dæmi um verðlagningu íslenskra rafbóka í vefbúð Forlagsins má taka Hungurleikana, rafbókin (fyrsta bókin) kostar 1990 kr.; Einvígið eftir Arnald Indriðason, sem Vaka-Helgafell gaf út, er á 2.990 kr., sama verði og bókin innbundin kostar, eða Himnaríki og helvíti eftir Jón Kalman Stefánsson á 3.990 kr. Bjartur gaf út Himnaríki og helvíti og hún fæst á Panama.is í kilju á 2.480 krónur, harðspjaldaútgáfan er uppseld. Bókin er til í enskri þýðingu í Amazon Kindle Store, Heaven and Hell, og kostar þar 9,39 dollara (1.120 kr.). Margar bækur Arnalds Indriðasonar má kaupa í Amazon Kindle Store á ensku eða þýsku en Einvígið er ekki komin þar í sölu ennþá.

Rafbókin Gamlinginn sem skreið út um gluggann og hvarf eftir Jonas Jonasson kostar 2.990 kr. hjá Forlaginu, sem er nákvæmlega sama verð og kiljan kostar. Ef lesandi vill lesa þessa rafbók í Kindlinum sínum á ensku þá kostar hún 13.60 dollara (1.630 kr.), á þýsku kostar hún 10,79 dollara (1.290 kr.) í Amazon Kindle Store. Vilji menn lesa bókina á frummálinu þá er hægt að fá rafbókina Hundraåringen som klev ut genom fönstret och försvann lánaða í gegnum Norræna húsið, að vísu á EPUB formi með DRM læsingu eða kaupa hana á bokus.com á 55 sænskar krónur (990 kr.), einnig sem EPUB-skrá.

Eymundsson  býður upp á töluvert úrval rafbóka, einkum á ensku. Tekið er fram að ekki séu seldar bækur fyrir Kindle-lesbretti en ekki færð sérstök rök fyrir því. 
  
  
Sumar af sömu rafbókunum og Forlagið selur má líka finna á Skinnu. Íslensku rafbókabúðinni. Verðlagning er svipuð, stundum eru þó bækurnar eilítið ódýrari. Skinna miðlar líka ókeypis bókum, t.d. bókum sem eru komnar úr höfundarétti og mörgum þeim sömu og á Rafbókavefnum. Þeim bókum má hlaða niður jafnt á EPUB sem MOBI formi en sölubækurnar eru margar einungis EPUB skrár.

Á Rafbókavefunum eru “íslenskar rafbækur í opnum aðgangi”, þ.e. þar er allt efni ókeypis og án afritunarlæsingar. Allar bæði EPUB og MOBI skrár til að  Má þar nefna efni Netútgáfunnar (íslensk fornrit og þjóðsögur) og efni sem ekki er lengur varið höfundarréttarlögum. Menn eru hvattir til að leggja meira efni til og eru ítarlegar og góðar leiðbeiningar um hvernig búa megi til rafbók, undir flipanum Leiðbeiningar. Rafbókavefurinn er verk Óla Gneista Sóleyjarsonar og hefur hann unnið mikið þrekvirki með þessum vef.

Lestu.is var opnuð með pompi og prakt í janúar 2011 og sögð fyrsta rafbókasíða landsins. Þetta er áskriftarvefur og kostar áskriftin 1.290 kr. á mánuði, ársáskrift kostar 12.900 kr. í 12 mánuði. Rafbækurnar þar eru af ýmsum toga en eiga það sammerkt að höfundarréttur er ekki á þeim. Satt best að segja er stór hluti nákvæmlega sömu bækur og sækja má ókeypis af Rafbókavefnum, t.d. Íslendingasögur. Áætlanir virðast ekki hafa gengið eftir sé túlkun mín á ódagsettum fréttum rétt; Þar segir að fyrir áramót sé stefnt að því að 100 bækur væru komnar inn og ég held að það eigi við áramótin 2011-2012. Líklega eru hátt í hundrað bækur inni á Lestu.is núna. Þær eru á EPUB, MOBI og flettibókaformi.
 

Dæmi um verðlag á rafbókum
 
 

Skáldverk Forlagið
Eymundsson
Kilja 
á íslensku
MuBook / mibook (Danmörk) Bokus.com / Livrel24  (Svíþjóð) Amazon Kindle Store (Bandaríkin) Hægt að fá 
lánaða úr 
sænsku rafbókasafni gegnum bókasafn

 Norræna hússins

Gamlinginn sem 
skreið út um gluggann 
og hvarf
2.990 kr.  2.990 kr.  167,50 DKK (= 3.340 kr.) 55 SEK (983 kr.) 13.60 USD (1.624 kr.)
 – á ensku- 
10,79 USD (1.288 kr.)
– á þýsku – 
Himnaríki og helvíti 3.990 / 3.799 kr 2.480 kr. 147,92 DKK (2.960 kr.) 75 SEK  (1.350 kr.)
-á ensku- 
9,39 USD (1.121 kr.) Nei
Hungurleikarnir I 1.990 kr. 2.290 kr.  147,50 DKK( 2.940 kr.) 84 SEK(1.500 kr.) 4,27 USD (510 kr.)
Utangarðsbörn ekki til 1.690 kr. 30,19 DKK  (600 kr.) 55 SEK (983 kr.) 14,97 USD (1.788 kr.)
Ég er Zlatan Ibrahimovic ekki til 3.599 kr. 172,50 DKK (3.450 kr.) 124 SEK (2.215 kr.) 9,99 USD (1.193 kr.)

Heaven and hell eftir Jón Kalman StefánssonVerðlagning íslenskra og danskra rafbóka er alveg fáránleg! Bækurnar kosta yfirleitt hið sama og pappírsútgáfurnar, eru jafnvel dýrari. Fyrir íslenska lestrarhesta sem eiga lesbretti eða spjaldtölvur er auðvitað miklu ódýrari  kostur að lesa þessar bækur á sænsku (ókeypis úr rafbókasafni) eða ensku. Bækur eftir Yrsu Sigurðardóttur fást í Amazon Kindle Store og kosta á bilinu 7,40 – 13, 50 dollara (895 – 1.612 kr.), bækur Arnalds Indriðasonar kosta þar um 13 dollara á ensku (1.550 kr.) og tæpa 11 dollara á þýsku (1.275 kr.). Rafbókin Brakið eftir Yrsu kostar 3.990 kr. og Einvígið eftir Arnald kostar 2.990 kr. hjá Forlaginu – hvorug bókin er komin út í enskri þýðingu í Amazon Kindle Store en þess verður áreiðanlega ekki langt að bíða.

Í næstu færslu fjalla ég um hvernig kostnaður við að gefa út bók á Íslandi skiptist, velti fyrir mér hvað kosti að gefa út rafbók og fjalla um undarlegan málflutning forsvarsmanna íslenskra bókaútgefenda þegar kemur að bókum fyrir Kindil. En ég vil ítreka að við óbreyttar aðstæður munu stórlesendur sem eiga lesbretti eða lesa í símum og spjaldtölvum lesa æ meir á erlendum málum og æ minna á íslensku. Og þessi þróun er mjög hröð. 
 

Rafbækur og Kindillinn minn ástkæri

Við Fr. Dietrich lesum á KindilÍ sumar eignaðist ég Kindil og festi ást á honum umsvifalaust. Ég hef engan áhuga á æpöddum eða öðrum tölvugræjum með snertiskjám. Ekki heldur neinum lesapparötum sem eru með baklýstum skjá. Það er vonlaust að brúka svoleiðis græjur eins og bækur, ýmist vegna þess að tækið er miklu  þunglamalegra en bók eða vegna þess að það er illmögulegt að lesa á skjáinn í mikilli sól. Og ég les mjög gjarna í sólbaði. Þarf varla að taka fram hversu mikið þægilegra er að taka með sér 100+ bækur í sólarstrandarfrí til útlanda þegar þær vega einungis 300 gr eða bókastaflana sem ég hef troðið í töskurnar til þessa 😉

Kindillinn minn er með oggolitlu lyklaborði svo ég get skrifað glósur um leið og ég les, þótt ég hafi ekki nennt því til þessa. Hann tengist þráðlausu neti og húkkar sig inn á 3G net ef háhraðanet er ekki í boði.  Þ.a.l. get ég keypt mér bók hvenær sem er og nánast hvar sem er (svo framarlega sem farsímasamband er í hvarsemerinu). Ég get líka skoðað tölvupóst og vefinn í honum en það er seinlegt og óhöndugt. Kindillinn er fyrst og fremst lesbretti.

Ég reikna með að lestrarhestar kaupi sér gjarna Kindil. Spjaldtölvur og snjallsímar höfða til annars markhóps. Og ég held að bókalestur í Kindli sé hrein viðbót við annan bókalestur, að Kindla noti fyrst og fremst fólk sem les mikið og mun áfram lesa prentaðar bækur. Kannski er helst að Kindill höggvi skarð í kiljulestur, a.m.k. í mínu tilviki því ég er löngu búin að lesa erlendu kiljurnar áður en þær koma út þýddar á íslensku.

Mér finnst tvennt dálítið skrítið þegar kemur að bókum fyrir Kindil:

  • Á Norðurlöndunum (Íslandi meðtöldu) virðast menn sniðganga skráarform sem Kindill les og bjóða einungis upp á skráarform fyrir spjaldtölvur, snjallsíma og sum önnur lesbretti.
  • Íslensk útgáfufyrirtæki eru ótrúlega sein í svifum hvað varðar rafbókaútgáfu og verðlagning á þessum fáu nýlegu bókum sem bjóðast algerlega út úr kortinu.

 

 

Norrænar rafbækur

Nú er hægt að kaupa danskar, norskar og sænskar rafbækur á netinu. Vilji menn lesa á dönsku má benda á þessar tvær búðir:

MuBook segist bjóða upp á ódýrar danskar bækur. Þar má finna ókeypis bækur og upp í rándýrar bækur; Sé listinn yfir mest seldu bækurnar skoðaðar  er t.d. Askepot eftir Kristina Ohlsson á rúmar 30 krónur danskar (600 kr. íslenskar) – sú bók heitir Utangarðsbörn á íslensku og kostar 1.690 kr. í kiljuútgáfu; Kvinden i buret e. Jussi Adler-Olsen kostar 88,50 DKR (1.770 kr.) – kiljan á íslensku, Konan í búrinu, kostar 2.290 kr.; Englemagersken e. Camillu Läckberg kostar hins vegar 212,50 DKR (4.250 kr.) – íslenska kiljan, Englasmiðurinn, kostar 2.170  kr.  Allar þessar bækur eru á EPUB-formi , sem Kindill les ekki. Þær eru hins vegar ekki með afritunarvörn heldur einungis vatnsmerki og því hægt að breyta þeim í mobi-skrá fyrir Kindil í forritinu Calibre.
Mibook auglýsir að hún sé stærsta danska rafbókabúðin með um 245.000 titla (en væntalega eru þar taldar með bækur á ensku). Þar eru rafbækurnar aðeins ódýrari, t.d. kostar Englemagersken hennar Camillu Läckberg 207 DKR (4.140 kr.) í þessari búð. Lausleg skoðun bendir til að bækurnar séu yfirleitt á EPUB-formi með DRM-læsingu.

Bokus.com er sænsk rafbókabúð “där alla böcker bor” virðist geyma gott úrval af rafbókum um ýmist efni, á sænsku, ensku, finnsku, rússnesku og dönsku. Rafbókin Askungar eftir Kristina Ohlsson kostar þar 55 sænskar krónur (983 kr. íslenskar) en pappírskiljan af sömu bók kostar bara 39 sænskar krónur (en svo þarf auðvitað að borga póstsendingargjald). Rafbókin Änglamakerskan eftir Camilla Läckberg kostar 126 sænskar krónur (2.265 kr.). Einnig má leita fanga í Livrel24 sem selur bækur á sænsku. Bækurnar virðast flestar vera á EPUB-formi, án afritunarvarnar en með vatnsmerki.

Ég ber það ekki við að skoða norskar rafbókabúðir – nógu dýrar eru norskar bækur á pappír!

Vilji menn lesa norrænar bækur á ensku í sínum Kindli þá kostar bókin hennar Kristina Ohlsson, Unwanted  heitir þýðingin, 14,97 dollara (tæpar 1.800 kr.) en Englasmiðurinn virðist ekki enn hafa verið þýdd á ensku – af öðrum bókum Läckberg má t.d. kaupa rafbókina Hafmeyjuna, The Drowning, í Amazon Kindle Store fyrir 10,79 dollara (1.295 kr).

(Ég kíkti á vinsældarlistann á Amazone Kindle Store og þar voru rafbækurnar á bilinu um 5-16 dollara; Fyrsta bókin í Hungurleikunum kostar t.d. 4,27 dollara sem eru 512 kr. Yfirgnæfandi meirihluti bóka þar er á ensku.)

Þeir sem hafa útlánaskírteini í bókasafni Norræna hússins geta fengið lánaðar sænskar rafbækur á netinu, sjá upplýsingar á síðunni Hvað er rafbók. Bækurnar eru yfirleitt á EPUB eða PDF formi, með DRM-læsingu. Bækurnar í sænska rafbókasafninu eru af ýmsum toga en vinsælastar eru auðvitað glæpasögurnar og sögurnar sem ég hef nefnt hér á undan standa þar til boða. Hægt er að fá lánaðar tvær bækur á viku og hafa þær í láni í fjórar vikur. Mörg dönsk bókasöfn bjóða upp á rafbókalán og vonandi tekst bókasafni Norræna hússins að ná samningum við eitthvert af þeim.

  

Hvað gera Kindil-eigendur þegar einungis EPUB-skrár eru í boði?

KindillDRM stendur fyrir Digital rights management og er notað til að læsa stafrænum skrám, t.d. rafbókaskrám, svo ekki sé hægt að deila þeim frítt um víðan völl. Þetta er stundum kallað afritunarlæsing.  Það kemur þó fyrir lítið því á torrent-bönkum úir og grúir af ólæstum rafbókaskrám. Enginn skortur er á smáforritum sem brjóta upp slíka læsingu. Þegar læsingin er farin er ekkert mál að nota Calibre til að breyta t.d. EPUB skrá í MOBI skrá, sem Kindill les. Calibre er reyndar hið mesta þarfaþing lesi menn rafbækur því þar má flokka sitt bókasafn og raða skipulega upp. Forritið er ókeypis.

Í næstu færslu fjalla ég um rafbækur á íslensku.

Leti og ómennska

Ég nenni bara alls ekki að blogga, kannski vegna veðurs og sólbaða, kannski vegna óhóflegs magns af morðsögum og öðrum litteratúr, kannski vegna einhvers annars … Ætli sé ekki best að lýsa yfir sumarfríi á blogginu og halda áfram að iðka letina.

Hinn hluti fyrirsagnarinnar, ómennskan, á ekki við mig sjálfa í augnablikinu því ég lifi einstaklega hollu og reglusömu lífi akkúrat núna (eiginlega tilneydd því ef ég hef ekki sérstaklega fyrir því á hverjum degi að láta mér líða sem skást verður dagurinn heldur klénn). Mér dettur hins vegar oft ómennska í hug þegar ég skruna niður umræðuþræði á netmiðlum og stöku bloggi – sem betur fer hef ég þó oftast vit á að lesa ekki svoleiðislagað. Og umræðan um frambjóðendur í forsetakjöri er löngu komin út yfir öll velsæmismörk! Þeim rógnum og illmælginni ætti að linna eftir morgundaginn. En ætli gargendur finni sér þá ekki annað áhugamál til að garga yfir í stafræna tóminu. Og hollast að halla sér að uppdiktuðum morðum í sínum Kindli.

Gulli og Múlinn og Sagan

Súper MúliJæja! Enn og aftur ætlar Akraneskaupstaður að ganga til samninga við Gunnlaug Haraldsson um ritun 3. bindis Sögu Akraness, í þetta sinn upp á krít. Sagnir herma að þeir Árni Múli Jónasson bæjarstjóri og sagnaritarinn mikli ætli að skrifa undir samning á morgun.

Í færslu sem ég skrifaði fyrir ári síðan, Verður tilbúið næsta sumar. Ég hef alveg þokkalega samvisku, rakti ég sögu handritsins sem nú kallast 3. bindi Sögu Akraness og spannar nítjándu öld. (Þeir sem hafa áhuga á Sögu Sögu Akraness, vefrits sem stefnir í að verða álíka langloka og Saga Akraness ef svo heldur fram sem horfir, geta hlaðið niður því sem tilbúið er í þeirri sögu á pdf-formi.)

  • Skil á þessu bindi voru fyrst staðfest árið 2001, þ.e.a.s. fyrsta bindi (af þáverandi áætluðum þremur bindum) um byggðasögu 1700-1900. Eftir að Ritnefnd um sögu Akraness undir forsæti Gísla Gíslasonar þáverandi bæjarstjóra (sem nú stjórnar Faxaflóahöfnum) staðfesti þessi skil kom í ljós að talsvert vantaði inn í stykkið og gerður var nýr samningur við Gunnlaug Haraldsson um að skrifa það sem á vantaði.
  • Snemma árs 2003 sagði Gunnlaugur ritnefndinni að hann væri nánast búinn að ljúka sögu Akraness til ársins 1941.
  • Í mars 2005 segir Gunnlaugur Ritnefndinni að nú vanti einungis herslumuninn á að klára Sögu Akraness frá landnámi til 1941 og er bókað á 55. fundi Ritnefndarinnar: „mætti stefna að útgáfu 1. og 2. bindis vorið 2006.“ Því sama hélt Gunnlaugur fram á spjallþræði Akraneskaupstaðar í febrúar 2005.
  • Í ítarlegu minnisblaði Gunnlaugs Haraldssonar í apríl 2008 kemur fram að „Nítjánda öldin 1801-1850 (213 bls.) – bíður prentvinnslu.“
  • Í janúarbyrjun 2010 sagði Gunnlaugur í viðtali við Vísi.is „að hann sé búinn að rita sögu Akraness til 1942 en þá stöðvaðist ritunin.“
  • Í nóvember 2010 staðfesti Kristján Kristjánsson, einn eigenda Uppheima, bókaforlagsins sem gaf út 1. og 2. bindi Sögu Akraness, að 3. bindið sé nú þegar skrifað.
  • Í júní 2011 hafði Skessuhorn eftir Gunnlaugi Haraldssyni að „fyrir liggur að „færa til nútíðarmáls“ handrit mitt að III. bindi (1801-1900) sem safnað hefur ryki í 6-7 ár.“

Á árabilinu 2001, þegar fyrst voru staðfest skil á ritun Sögu Akraness á 19. öld, til ársins 2011 hefur Akraneskaupstaður gert fjölda samninga við Gunnlaug Haraldsson um ritun Sögu Akraness. Alls hefur Akraneskaupstaður pungað út 110 milljónum fyrir sagnaritun Gunnlaugs Haraldssonar og útgáfu á fyrstu tveimur bindunum í Sögu Akraness.

Ritnefnd um Sögu Akraness hélt fund þann 23. mars 2012. Það stingur óneitanlega í augu að einungis tveir af fimm nefndarmönnum mættu á fundinn, formaður Ritnefndar og tveir nefndarmenn voru fjarverandi. Fundargerðin er á hálfgerðu dulmáli:

1. Saga Akraness, 3. bindi. Farið var yfir stöðu málsins, bæði út frá fjárhagsáætlun Akraneskaupstaðar svo og mögulegri aðkomu söguritara að verkinu á næstu mánuðum.

Aðilar málsins munu skoða málið nánar á næstu dögum.

Á fundi bæjarráðs Akraness 25. maí sl. var bókað:

9.  0906053 – Saga Akraness – ritun.
Drög að samningi um ritun Sögu Akraness III bindis ásamt tölvupósti Gunnlaugs Haraldssonar dags. 23. mai 2012.
Bæjarráð samþykkir samninginn fyrir sitt leyti.  Bæjarstjóra falin undirritun hans.  Einar [Brandsson] óskar bókað að hann sé ósammála ákvörðun bæjarráðs.   

Á bæjarstjórnarfundi í gær, 12. júní 2012, var fundargerð bæjarráðs lögð fram. Til máls tók Einar Brandsson, fulltrúi Sjálfstæðisflokksins, en aðrir þögðu þunnu hljóði eins og venjulega (efst í fundargerðinni sem ég kræki í er krækja í hljóðskrá af fundinum). Í máli Einars kom fram að samningurinn sem bæjarráð samþykkti er þriggja ára samningur Akraneskaupstaðar við Gunnlaug Haraldsson um að bærinn greiði honum 14,5 milljónir á þremur árum fyrir að ganga frá textanum í 3. bindi Sögu Akraness. Ég veit að Kristján Kristjánsson hefur sett það skilyrði að hann verði sjálfur ritstjóri þessa bindis (væntanlega til að gloríur í myndbirtingu endurtaki sig ekki) svo varla er ætlast til að bæjarstjóri undirriti samning við Gunnlaug um allsherjarritstjórn eins og síðast. En mögulega er uppsetning (layout) verksins innifalin í samningnum þótt verði svo að semja við Kristján um eftirlit með þeirri uppsetningu síðar og bærinn verði auðvitað að borga lungann af prentkostnaði því bækurnar seljast vægast sagt takmarkað.

Á fjárhagsáætlun þessa árs, 2012, er gert ráð fyrir 4,2 milljónum í Sögu Akraness. Má af ummælum á bæjarstjórnarfundi í gær ætla að Gunnlaugur fái 4 milljónir í ár – kannski fara tvöhundruðþúsundin upp í þennan tæpa fjögurhundruðþúsundkall sem móðgelsi bæjarstjórans yfir ritdómi kostaði bæinn?  Á langtímaáætlun bæjarins var gert ráð fyrir að eyða 4 milljónum næsta ár, 2013, í Sögu Akraness. Þær 4 milljónir renna beint í vasa Gunnlaugs ef samningurinn hans og Árna Múla verður undirritaður á morgun. Loks hljóðar samningurinn við Gunnlaug Haraldsson upp á rúmar 6 milljónir fyrir vinnu árið 2014. Í samningnum er sá varnagli sleginn að bæjarstjórn eigi eftir að samþykkja þessar fjárveitingar fyrir árin 2013 og 2014. Nú á sem sagt að semja við sagnaritarann upp á krít. Og augljóst að ef bæjarstjórn Akraneskaupstaðar samþykkir ekki fjárveitingarnar sem bæjarstjórinn lofar upp í ermina á kaupstaðnum er þessum 4 milljónum sem Gunnlaugi verða réttar í ár kastað á glæ. Fyrir svo utan það að enginn í bæjarstjórn, bæjarráði eða ritnefnd um Sögu Akraness virðist hafa kveikt á því að Akraneskaupstaður er margbúinn að greiða Gunnlaugi áður fyrir ritunina um þetta tímabil. Af hverju sækir okkar góði bæjarstjóri ekki bara handritið og skellir því í prentsmiðju?

Í dag, 13. júní 2012,  hélt bæjarráð fund. Þar er bókað:

9.  0906053 – Saga Akraness – ritun.
 Samningur við Hjálmar Gunnlaug Haraldsson um ritun Sögu Akraness, III bindi. Samningurinn gerir ráð fyrir verktíma árin 2012 – 2014.
 Afgreiðslu frestað.

Ég reikna með að afgreiðslu bæjarráðs í dag hafi verið frestað af því þeir Árni Múli og Gunnlaugur skrifa ekki undir samninginn fyrr en á morgun …

Skóli og geðveiki

Gagnrýnin hugsunKannski hefði fyrirsögnin frekar átt að vera “námskrárfræði og geðraskanastaðlar” … Ég hef sumsé brugðið mér í gamalt hlutverk, “hinnar greindu alþýðukonu”, og lesið yfir ritgerð mannsins um stefnur og strauma í námskrárfræðum: Sé ekki betur en margt sé líkt með skyldum, þ.e. poppfræðum sem varða skóla og geðveiki.

Nú eru nokkur ár síðan ég var eitthvað í alvörunni að pæla í námskrá framhaldsskóla og hvernig maður matsaði kennsluáætlun þokkalega við svoleiðis. Og ég er búin að gleyma miklu og hef alveg misst af umræðu síðustu ára um nýju námskrána með skemmtilega geggjuðu yfirmarkmiðunum. En eftir að hafa gegnt hlutverkinu “greind alþýðukona sem les námskrárfræði” síðasta árið (maðurinn hefur nefnilega alltaf prófað sínar greinar og texta á mér: Skilji ég ekki textann þarf að laga hann) hef ég einhverja hugmynd um út á hvað þessi nýja námskrá gengur, út á hvað síðasta námskrá gekk og að framhaldsskólakennarar eru almennt ekki svo vitlausir að halda að þetta skipti einhverju máli í kennslu.

Skömmu eftir stríð (seinni heimstyrjöldina) hófust vinsældir “ferskrar skynsamlegrar markmiðssetningar” í námskrá. Ég man eftir helstu uppskriftarfræðingunum úr ukkinu; Bobbit og Tyler og Bloom og kannski Taba. Í einfölduðu máli má segja að uppskriftarpoppfræðingarnir sem eru sívinsælir á Menntavísindasviði og líklega í félagsfræðigreinum almennt telji að í námskrárgerð sé best að byrja með hreint borð (sumsé kasta öllum hefðum fyrir róða), setja yfirmarkmið og greina svo æ smærri undirmarkmið sem eiga að þjóna yfirmarkmiðunum beint, án tillits til faga og fræðigreina. Þessi undirskipun eða beina þjónkun er hins vegar ómöguleg í flestum fögum.

Ég skrunaði yfir almennan kafla nýju námskrárinnar og þrátt fyrir aldarfjórðungsreynslu af kennslu í framhaldsskóla fannst mér að textinn hlyti að fjalla um eitthvað annað en skóla – er hann kannski saminn af fólki sem hefur lítið komið inn í svoleiðis stofnanir?  Hvað í ósköpunum er “menntun til sjálfbærni”, hugtak sem er margtuggið í þessum texta? Ég sé helst fyrir mér áfanga í tóvinnu … Taldir eru upp sex grunnþættir alls náms, síðan níu svið lykilhæfni o.s.fr.; Námskráin er sumsé draumur hvers sortéringarsinna!

Svo tékkaði ég á markmiðum í mínu fagi, íslensku (s. 93), sem eiga á mjög dularfullan og illskiljanlegan hátt að þjóna hinum sex grunnþáttum og hinum níu lykilhæfnisviðum og sé ekki betur en námskröfur slagi hátt í mastersnám á háskólastigi, t.d.:

Nemandi skal hafa öðlast leikni í að lesa allar gerðir ritaðs máls að fornu og nýju sér til gagns og gamans, skilja lykilhugtök og greina mismunandi sjónarmið.

eða

Nemandi skal geta hagnýtt þá þekkingu og leikni sem hann hefur aflað sér til að sýna þroskaða siðferðisvitund, víðsýni, sköpunarhæfni og samlíðan í málflutningi sínum, umfjöllun og verkum.

Ég er ansi hrædd um að helstu ráðamenn þjóðarinnar, t.d. þeir sem sitja í ríkisstjórn eða á Alþingi hafi nú ekki náð þessum tveimur markmiðum, a.m.k. ekki því síðarnefnda. Er raunhæft að krefast þessarar getu af nýstúdentum?  Hver ætli séu þessi lykilhugtök og mismunandi sjónarmið sem talin eru í fyrra dæminu? Og heldur einhver í alvöru að nemendur leggist almennt í Grágás, Íslensku hómilíubókina, dróttkvæði, annála, stærðfræðitexta, rannsóknarskýrslur, manntöl, áttvísi, læknisfræði o.m.fl. sér til gagns og gamans, skilji þar í einhver dularfull lykilhugtök og greini mismunandi sjónarmið í hvers lags texta sem er eins og að drekka vatn, eftir að hafa klárað stúdentspróf?

Blessunarlega hugsa ég að fólkið á gólfinu, þ.e. nemendur og kennarar, láti þá hátimbruðu smíð sem nýja námskráin er bara eiga sig og haldi áfram að kenna og (vonandi) læra eins og tíðkast hefur til þessa.

En mér datt í hug, lesandi um þessa tæknihyggju í námskrárgerð, þ.e. að halda að hægt sé að setja einhver absólút yfirmarkmið ótengd fögum (sem má þess vegna kalla grunnþætti og svið lykilhæfni) og fella síðan allt nám og öll fög í undirmarkmið sem eiga að þjóna yfirmarkmiðunum …  að sams konar  tæknihyggja speglist ákaflega vel í sjúkdómastöðlum og þeirra sortéringum. Má nefna DSM (Diagnostic and Statistical Manual of Mental Disorders) Bandarísku geðlæknasamtakanna sem fyrst kom út 1952 eða náfrænda hans, ICD (International Statistical Classification of Diseases and Related Health Problems) sem Alþjóðaheilbrigðisstofnun Sameinuðu þjóðanna gefur út og er einmitt brúkaður hér á landi.

DSM á rætur sínar að rekja til flokkunarkerfis Bandaríska hersins, sem spratt m.a. af þörf á að greina alls kyns krankleik á geði þeirra hermanna sem snéru heim úr seinna stríði. Í hverri nýrri útgáfu DSM hefur skilgreindum geðröskunum fjölgað og skilgreiningar orðið nákvæmari. Fyrstu þunglyndislyfin, þríhringlaga geðlyfin, voru upp fundin (óvart) laust eftir 1950. Svo merkilegt sem það nú er hefur þróun þunglyndislyfja og aukið framboð haldist nokkuð í hendur við aukna smásmygli í og aukið framboð á skilgreiningum þunglyndis í DSM.

Alveg eins og tæknihyggja í námskrárgerð hefur ekki sýnt sig í betra námi eða betri skólum hefur tæknihyggja í þunglyndisgreiningu og fleiri gerðir þunglyndislyfja sem passa við sífellt nákvæmari skilgreiningar og undirgreiningar ekki sýnt sig í fækkun þunglyndissjúklinga. Kannski mætti líta á lyfin eins og undirmarkmiðin í tæknihyggjunámskrárgerð: Lýsingarnar hljóma sosum ljómandi vel en praktísk not eru heldur léleg.

Kann að vera að nákvæmlega sama aðalatriðið gleymist: Við erum nefnilega að tala um eitthvað sem snertir fólk, þátttakendur í margbreytilegu mannlífi. Kann að vera að hátimbruð markmið og smættun ofaní mælanleg undirmarkmið líti vel út á pappír en gagnist minna þegar fólk á að nota þau á annað fólk, hvort sem er til að koma því til nokkurs þroska og til að mennta það eða til að lækna það.

Sem betur fer held ég að bæði góðir kennarar og góðir geðlæknar geri sér þessar takmarkanir vel ljósar. Alveg eins og kennari þarf að geta tekið því að nemendur kjósi að baka Borg á Mýrum og bjóða öllum upp á að éta hana, í stað þess að flytja fyrirlestur um Borg eða skrifa ritgerð um Borg, tekur góður geðlæknir tillit til umhverfis og væntinga síns sjúklings og styður hann í því sem hann vill gera til síns bata.  Eftir margra daga bakstur, mælingar og útreikninga og kökumódelsmíð með glassúr má ætla að nemendur gjörþekki umhverfið á Borg á Mýrum, líklega betur en hefðu þeir búið til Power Point glærusýningu og flutt fyrirlestur um efnið. Eftir vandlegar og ítarlegar pillutilraunir árum saman og raflostmeðferðir má ætla að þunglyndissjúklingur þekki orðið nokkuð vel hvað virkar, öllu heldur hvað virkar ekki, við sínum sjúkdómi.

Í praxís taka góðir geðlæknar væntanlega jafnlítið mark á DSM/ICD og þunglyndislyfjaáróðri og góðir íslenskukennarar taka lítið mark á vaðli um grunnþætti, lykilhæfnisvið og innantómu markmiðskjaftæði í námskrá.

  

Svona aukalega sting ég því inní þessa færslu að lokum að sem ég var að lesa eigið blogg árið 2006 komst ég að því að síðsumars það ár hef ég hnakkrifist við Helga nokkurn Ingólfsson og ekki vandað honum kveðjurnar (sem var að vísu gagnkvæmt). Ásteitingarsteinninn var fyrirhuguð stytting náms til  stúdentsprófs … Það er svo sem ekkert allt jafn sorglegt í lestrinum um lífið mitt sem hvarf í blakkátið/tómið mikla 😉 

Af fráhvörfum og erfiðu endurliti

Eftir að hafa verið laus við Rivotril í þrjár vikur byrjaði ég að trappa niður Imovane (zopiklon), þ.e. svefnlyfið sem ég hef tekið að staðaldri. Þá tók ekki betra við! Ég er búin að taka eina töflu (7,5 mg) í nokkra mánuði og hélt það yrði lítið mál að helminga skammtinn, hef oft gert það áður en þá ævinlega verið að taka Rivotril einnig. Á öðrum degi varð ég helvíti veik; fannst eins og höfuðið væri í skrúfstykki, ekkert blóð í höfðinu á mér, gat hvorki legið, setið né staðið o.s.fr. Og að sjálfsögðu fylltist ég kvíða yfir að vera að deyja af því mér leið eins og ég væri að deyja og tilhugsunin gerði líðanina enn skelfilegri svo mér fannst ég örugglega vera að deyja 😉  Þegar fæturnir voru farnir að skjálfa stjórnlaust undir mér gafst ég upp og tók hálfa Rivotril. Þar með hef ég öðlast reynsluna af því að falla, til þessa hefur fallreynsla mín einskorðast við að gefast upp á að hætta að reykja … þrisvar.

Nú, ég hafði samband við minn góða lækni og bað um ráð. Svo byrjaði ég upp á nýtt að hætta á Imovane með hægari tröppun og það gengur prýðilega eða þannig; ég þarf helst að vera á spani allan daginn og á bágt með að vera kjur en að öðru leyti er þetta svipað og Rivotril-tröppurnar. Skoðaði nokkrar greinar um z-lyfin (zopiklon, Stillnocht o.fl.) og sá að nútildags eru þau talin síst skárri en benzólyf, í Ashton-benzódrínlyfjafræðum er því meira að segja haldið fram að z-lyf séu eitraðri en benzólyf. Líklega voru það reginmistök að setja upp áætlun um að hætta á Rivotrili og taka samtímis svefnlyf – en þau mistök eru gerð og ekki aftur snúið með þau – nú spila ég úr þessu eftir bestu getu og skv. skynsamlegum ráðleggingum.

Svo er ég búin að fatta tvennt: Annars vegar að Voltaren-hlaup slær pínulítið á vöðvabólguna sem fylgir þessari lyfjatröppun og hins vegar að ég brenni eins og maraþonhlaupari og þarf að passa að borða á tveggja tíma fresti, annars lendi ég í blóðsykurfalli. Vonandi hægir þetta skynsamlega átlag líka á kílóatapinu sem fylgir lyfjahættingunum.

– – –

Ég er að lesa yfir eigið blogg frá janúar 2005 að telja, til að átta mig á gangi sjúkdómsins og hvort læknisráð hafi eitthvað virkað. Þegar ég hóf lesturinn ímyndaði ég mér að ég gæti lesið þetta eins og hverja aðra heimildaskáldsögu eða heimild; af því ég man nákvæmlega ekkert frá því á miðju ári 2004 til síðla árs 2007 og minningar síðan þá eru mjög brotakenndar taldi ég að ég gæti einhvern veginn nálgast þetta efni af fjarlægð, eins og ég væri að lesa um ævi ókunnrar manneskju. En því er ekki að heilsa. Mér finnst mjög erfitt að lesa hugsanir mínar og um líf mitt. Kannski er erfiðast af öllu að sjá vaxandi örvæntinguna sem fylgir síauknu þunglyndinu og hvernig ég og fjölskylda mín höfum haldið dauðahaldi í vonina, vonina um að nú myndi þessi eða hinn lyfjakokteillinn virka, vonina um að raflostmeðferðin fyrri virkaði o.s.fr. Þessar miklu vonir sem bregðast æ ofan í æ – þessi leit að hálmstráum, bara einu oggolitlu hálmstrái sem fyndist ef nógu vel væri að gætt – finnst mér hræðilega sorgleg. Ég held mér myndi finnast þetta jafn sorgleg lesning þótt ég vissi ekki að textinn fjallaði um mig.

Þegar í lestrinum var komið haust 2006 varð ég að leggja frá mér bloggið og taka mér nokkurra daga pásu. Um vorið 2006 fór ég í raflostameðferð og ég las færslu eftir færslu þar sem kom fram að fjölskyldan taldi að mér hefði batnað töluvert, að það væri allt annað upplit á mér, en í færslunum kemur fram samt vel fram vaxandi örvænting yfir tóminu sem ég upplifi; gleymi öllu jafnharðan, kann ekki á tölvuforrit, get ekki lesið, heimilisbankinn lokar hvað eftir annað aðgangi mínum og ég skrifa niður lykilorð en gleymi jafnharðan hvar ég hef lagt frá mér skrifuð minnisatriði … Yfir sumarið rennur upp fyrir mér að ég hef gleymt nokkrum vikum, svo nokkrum mánuðum og þar sem ég hætti að lesa er mér orðið ljóst að meir en ár hefur strokast gersamlega út úr lífi mínu: Ég á enga minningu ár aftur í tímann. Seinna meir á ég eftir að átta mig á því að blakkátið nær tvö og hálft ár aftur í tímann en ég gafst sem sagt upp á að lesa og persónan sem ég er að lesa um (ég sjálf) hefur ekki enn áttað sig á því. Og ekki heldur áttað sig á því að þessar minningar koma aldrei aftur.

Fyrir utan fráhvörf og sársaukafulla fyrsta spors vinnu segi ég allt fínt og líður með skásta móti, svona miðað við allt og allt. Sólin: Hún vermir, hún skín og hýrt gleður mann, eins og segir í kvæðinu. Og Langisandur hefur sjaldan verið eins langur, eins gylltur og eins þakinn börnum að leik og síðustu daga. Þetta er ekki veður til að blogga 🙂

Sviðsrannsókn í þunglyndisfræðum

Mýldur með pilluEitt af því sem borgar sig að skoða í vangaveltum um þunglyndi, þunglyndislyf og annars konar þunglyndismeðferð er hvar fókus geðlækninga er: Á hvað blína fræðimenn í geðlækningum? Fyrir skömmu rakst ég á sviðsrannsókn (scope review) á umfjöllun um meðferðarþolið þunglyndi (Treatment resistant depression). Ég minnist þess ekki að hafa séð akkúrat þessa aðferð notaða áður en sé í hendi mér hversu miklar vísbendingar aðferðin getur gefið. Í sviðsrannsókn felst að líta yfir sviðið og athuga umfjöllunarefni fræðilegra greina (ólíkt “review”rannsóknum þar sem farið er í saumana á mörgum rannsóknum á einhverju afmörkuðu efni).

Í þessari sviðsrannsókn var leitað í sex gagnabönkum (t.d. Medline, PsycArticles og PsychInfo) að fræðigreinum sem snertu meðferðarþolið þunglyndi. Sviðið var afmarkað við einpóla þunglyndi, greinar með enskum útdráttum, sjúklinga á aldrinum 18-65 ára og útgáfutíma á árunum 2005-2010. Sjá Emily Jenkins og Elliot M. Goldner. Approaches to Understanding and Addressing Treatment-Resistant Depression: A Scoping Review. Depression Research and Treatment 2012.  Hvorugur höfunda státar af gráðufjöld og líklega er þetta vefrit, sem byggir á Creative Commons dreifileyfi, ekki virðulegt ritrýnt rit en ég tel fullvíst að höfundarnir kunni að vel að telja og séu læsir og treysti því niðurstöðum þeirra. Alls fundu þau 345 greinar sem uppfylltu fyrrnefnd skilyrði. Síðan skoðuðu Jenkins og Goldner um hvað greinarnar fjölluðu.

Í ljós kom að stærstur hluti greinanna eða 80% þeirra fjallaði um einhvers konar ráð eða meðferð við sjúkdómnum en í einungis 10% greinanna var reynt að greina ástæður eða hvata þessa vágests, t.d. af hverju gengur svo illa að ráða bót á meðferðarþolnu þunglyndi. Annar tíundipartur snérist um greiningarviðmið og skilgreiningar, helstu stefnur og strauma í meðferð, vangaveltur um hvers lags rannsóknir vantaði o.fl..

Þegar skoðað var hvaða viðmið lágu að baki greinunum eða hvers lags rannsóknarrammi þeim var markaður reyndust yfir 80% greinanna í þessum gagnabönkum byggðar á líffræðilegum forsendum, alls 281 grein. Hægt var að skipa líffræðilegu viðmiðunum og meðferð byggðri á þeim nánar niður: 

  • Lyfjameðferð (145 greinar);
  • Taugaskurðlækninga eða taugafræðileg meðferð (104 greinar, um raflækningar, segulómunarörvun, skreyjutaugarörvun o.fl.); 
  • Greinar sem fjölluðu um mögulegar líffræðilegar orsakir meðferðarþolins þunglyndis (30 greinar sem fjölluðu m.a. um heilamyndatöku og líkamleg mælanleg einkenni sem mögulega tengjast slíku þunglyndi) 
  • Greinar sem ekki féllu undir áðurnefnt (2 talsins).

Sá hluti greinanna sem ekki fjallaði um líffræðilegt efni réðist af eftirtöldu: 

Sálfræðilegum viðmiðum, þetta voru 3% greinanna (11 talsins);
Félagsfræðileg viðmið lágu að baki 1% greinanna (2 greinum alls);
Á samþættum viðmiðum byggðust 2% greina í gagnabönkunum (6 greinar), þ.e. um sálfræðilega og líffræðilega meðferð notaða samtímis.
Aðrar greinar voru 13% greinafjöldans (45 talsins), t.d. greinar um skilgreiningu meðferðarþolins þunglyndis, greinar um stefnur og strauma í meðhöndlun þess o.fl.

Höfundarnir fjalla síðan stuttlega um helstu efnisþætti í flokkunum. Í stóra lyfjameðferðarflokknum eru mest áberandi greinar um ýmiss konar stoðlyfjagjöf (augmentation), þ.e.a.s. lyf af ýmsum toga sem gætu mögulega nýst þeim sem ekki ná bata af þunglyndislyfjum eingöngu. Þar er aragrúi greina um fámennar litlar rannsóknir sem menn telja að gefi vísbendingar um gagnsemi einhvers tiltekins lyfs í stoðlyfjagjöf en vantar tilfinnanlega stórar almennilega gerðar rannsóknir, að sögn Jenkins og Goldner. Sem dæmi um stoðlyfjaumfjöllun eru nefndar greinar um gagnsemi Seroquels, litíum, MAO hemla, þríhringlaga geðlyfja, skjaldkirtilsvakahormóna, svæfingarlyfs, sýklalyfs o.fl. Satt best að segja kannaðist ég við margt úr stoðlyfjaflórunni af eigin raun.

Næstvinsælasta þemað, þ.e. greinar sem tengdust taugaskurðlæknisfræði eða taugafræðilegri örvun, einkennist af umfjöllun um gagnsemi einstakra aðferða og mati á áhættuþáttum. Að sögn höfunda eru margar rannsóknir sem greint er frá fámennar, athugun á hvernig þátttakendum hefur reitt af stendur of stutt og niðurstöðum sumra rannsókna ber ekki saman.

Meirihluti þeirra ellefu greina sem byggðu á sálfræðilegum viðmiðum snérust um gagnsemi hugrænnar atferlismeðferðar við meðferðarþolnu þunglyndi. Niðurstöðum úr þeim tveimur sem flokkaðar voru sem félagsfræðilegar bar ekki saman (í annarri var útkoman sú að áföll á lífsleiðinni tengdust meðferðarþolnu þunglyndi, í hinni kom út að engin tengsl væru milli áfalla og meðferðarþolins þunglyndis). Ég hirði ekki um að rekja aðra umfjöllun en mæli með grein Jenkins og Goldner hafi menn áhuga á þessu rannsóknarefni.

Meginniðurstaða höfunda þessarar sviðsrannsóknar er auðvitað sú að áherslan á lyfjameðferð við meðferðarþolnu þunglyndi yfirskyggi sviðið. Greiningin “meðferðarþolið þunglyndi” byggist einmitt á að svoleiðis þunglyndi svarar ekki þunglyndislyfjagjöf. Lyfjaáherslan beri vott um líffræðilega smættun – að sjónarhorn í geðheilbrigðisfræðum sé bjagað og veiti ekki nægilegt svigrúm til að gefa félagslegum og sálfræðilegum kveikjum sjúkdómsins almennilegan gaum, segja Jenkins og Goldner

Sortéringaráráttan og það sem henni fylgir

Allir ganga í gegnum sortéringar- og söfnunarskeiðið, líklega einhvern tíma í barnæsku en sumir vaxa aldrei upp úr þessari iðju. Ég man t.d. eftir nokkrum servéttusöfnunarskeiðum; þegar lífið snérist um að safna og flokka servéttur í seríur og sett … og býtta við aðra til að fullkomna seríurnar og settin og fylla í flokkana “fermingarservéttur”, “flugvélaservéttur” o.s.fr. … en var örugglega vaxin uppúr þessu fyrir ellefu ára aldur.  Eftir á séð held ég að servéttusöfnun og flokkun sé nákvæmlega einskis virði nema sem skemmtilegt dedú í sjálfri sér.

En margir trúa mjög á gagnsemi sortéringa, á ofmælt gagnið af því að setja allan andskotann í einhvers konar kerfi og finna stað. Í mínu fagi má nefna tilraun til að hanna einhvers konar alheimsmálfræði (Chomsky) eða hið eina rétta kerfi til að greina bókmenntaverk (nýrýni) eða hina einu réttu aðferð til að skrifa ritgerð (byggða á engilsaxneskum hefðum í ritun). Nú held ég að Chomsky hafi aldrei haldið því fram að hægt væri að smætta almennt málhæfi ofan í hríslumyndarfræði. Bókmenntafræðinga langaði suma mjög til að smætta bókmenntaverk ofan í föflu, fléttu, innri og ytri tíma o.s.fr. en fyrr eða síðar rann upp fyrir flestum að sköpunargáfa og gildi góðra bókmennta verður ekki mæld með svona flokkunarkerfi. Hugmyndir sem móðurmálskennarar sumir göptu við á sínum tíma, sem náðu kannski hámarki í þeirri staðhæfingu að í rauninni væri óþarfi að láta nemendur skrifa ritgerðir því aðalatriðið væri að þeir skiluðu nógu ítarlegri áætlun um óskrifaða ritgerð, hafa vonandi dáið drottni sínum.

Flokkunarkerfi geðsjúkdómaSortéringafræðin lifa samt góðu lífi í sumum fræðum. Líklega þykir einhverjum sem þau séu til marks um vísindalega hugsun. En í rauninni eru sortéringafræði fyrst og fremst einföld skólaspeki (enda rosalega þægilegt að prófa úr svoleiðis á krossaprófum). Að telja upp fimm ullabjökk heimsins á fingrum sér er ekki ósvipað og að telja upp fimm tegundir fornra íslenskra bókmennta, sjö hljóðskiptaraðir sterkra sagna í íslensku, þrjú grunnmarkmið (flokkana þekkingu, leikni og hæfni) sem eiga að nást alveg jafnt í íþróttaáföngum og stærðfræði skv. nýrri námskrá fyrir framhaldsskóla … svo ekki sé minnst á æ viðameira flokkunarkerfi í krankleik á geði. Öll svona sortéring gefur ólíkum fræðum vísindalegt yfirbragð. Þótt augljóst sé að upptalning á hljóðskiptaröðum í sterkum íslenskum sögnum hjálpar fólki ekki í baun í að tjá sig lipurt og ljóst á íslensku, að íslenskur bókmenntaarfur verður varla smættaður oní fimm velaðgreindar sortir, að hæfni í leikfimi hlýtur að vera annars konar en hæfni í stærðfræði … og að flokkun þunglyndis í skilgreinda og mælanlega undirflokka færir menn ekki nær skilningi á því hvernig þunglyndum sjúklingi líður. Einhvers staðar las ég að sá sem lýsti líðan í þunglyndi hefði áreiðanlega ekki upplifað þunglyndi sjálfur; það er nefnilega ólýsanlegur hryllingur.

Til að ljúka þessari stuttu pælingu um sortéringaráráttunni er tilvitnun í gamlan sortéringartexta. Nákvæm flokkunin gefur honum óneitanlega vísindalegt og fræðilegt yfirbragð og er gott að hafa fullkomlega á hreinu hvernig skapa má menn á fjóra ólíka vegu, ekki síður en þekkja sundur væga, meðalþunga og djúpa geðlægð, þunglyndi sem geðhvarfasýki II, ódæmigert þunglyndi, þunglyndi frá óyndi o.s.fr.:

[Um holdgan Drottins]

MAGISTER: Fjórum háttum skapaði Guð menn. Einum hætti fyrir utan föður og móður sem Adam. Að öðrum hætti af karlmanni einum sem Evu. Þriðja hætti frá karlmanni og konu sem altítt er. Fjórða hætti frá meyju einni saman sem Kristur var borinn.

(Elucidarius e. Honorius Agustodunensis, líklega saminn um 1100, elsta norræna handritið talið frá síðari hluta 12. aldar.)

Nýju lyfin keisarans

Ég er næstum búin að lesa The Emperor’s New Drugs eftir Irving Kirsch og finnst málflutningur hans vel rökstuddur og sannfærandi. Ég get heldur ekki séð að það hafi gengið vel að hrekja þann málflutning; einna helst reyna menn að stagla fram og aftur um hvort mælist sannanlega 16% bót mikið þunglyndra af þunglyndislyfjum og hvort megi kjafta það hlutfall upp með nýjum mælingartækjum. En meira að segja hörðustu andstæðingar Kirsch virðast núorðið samþykkja að batann sem lítið eða í meðallagi þunglyndir hljóta af lyfjum megi að mestu skrifa á lyfleysuáhrif.

LyfleysuáhrifFyrstu niðurstöður Kirsch o.fl. eftir að hafa skoðað 38 klínískar rannsóknir á virkni ýmiss konar þunglyndislyfja á meir en 3000 þunglyndissjúklinga (u.þ.b. 40% af þeim rannsóknarniðurstöðum voru aldrei birtar heldur dagaði uppi hjá Bandarísku matvæla- og lyfjaeftirlitstofnuninni) voru að þunglyndislyf sýndu bót umfram lyfleysu í um 25% tilvika. Eftir því sem hann skoðaði fleiri og nýrri rannsóknir lækkaði sú tala. Enginn munur mældist milli ýmissa lyfja, þ.e. ekkert eitt lyf virkaði betur en önnur í þessum rannsóknum. Þótt sjúklingum höldnum vægu eða meðalþungu þunglyndi batnaði talsvert í þessum rannsóknum var enginn munur á bata þeirra sem batnaði af lyfleysu og þeirra sem batnaði af virku lyfi. Eini raunverulegi munurinn sem mældist á lyfleysu og virku lyfi var í hópi þeirra sem greindir voru með alvarlegt þunglyndi.

Rétt er að taka fram að þeim sem batnar helst af lyfjum eru þeir sem eru haldnir vægu eða meðalþungu þunglyndi. Í þeirra tilvikum mælist samt enginn munur á bata hvort sem þeir eta lyfleysu eða  þunglyndislyf. Áhrifin eru þau sömu, þ.e. jafn jákvæð. En sjúklingum höldnum slæmu þunglyndi batnar síður. Munurinn sem mælist á virku lyfi og lyfleysu er ekki til marks um að þeim sjúklingum nýtist lyf betur en hinum minna veiku heldur skýrist af því að lyfleysa virkar síður á illa haldna þunglyndissjúklinga en á hina. Af hverju það stafar er síðan óvíst.

Kirsch setur fram tilgátur um af hverju lyfleysa virkar síður en þunglyndislyf á þá sem eru mikið þunglyndir, því síður eftir því sem sjúklingarnir eru veikari. Báðar tilgáturnar gera ráð fyrir að svoleiðis þátttakendur í lyfjarannsókn beri kennsl á lyf og lyfleysu og tvíblindni rannsóknanna sé því hjóm eitt. Annars vegar er líklegt að þessir mikið veiku sjúklingar hafi haft viðvarandi þunglyndi lengi og hafi prófað ýmis lyf áður en þeir tóku þátt í rannsókninni. Þeim séu því vel kunnar algengar aukaverkanir af þunglyndislyfjum og geti þannig þekkt hvort þeir eti lyfleysu eða lyf meðan á lyfjarannsókn stendur. Þeir geri sér engar vonir um að lyfleysa virki og af því þeir þekkja muninn skapist einhvers konar afleidd lyfleysuáhrif af vissunni, byggðri á reynslu, um að þeir þiggi nýtt virkt þunglyndislyf. Hin tilgátan er sú að vegna þess hve veikir þessir sjúklingar eru fái þeir hærri skammta af lyfinu sem verið er að prófa. Ekkert bendir til þess að hærri skammtar skili betri árangri en því hærri sem lyfjaskammturinn er því meiri eða algengari eru aukaverkanir af lyfinu. Hærri skammtur => meiri aukaverkanir => auðveldara fyrir þátttakanda í rannsókn að þekkja hvort hann tekur virkt lyf eða lyfleysu => vægi hreinna lyfleysuáhrifa minnkar.

Svo er spurningin: Hversu mikill var batinn sem mældist af lyfjum? Bandaríska matvæla- og lyfjaeftirlitið (FDA) notar Hamilton geðlægðarskalann (HRDS) til að meta þunglyndi og það var gert í öllum þeim lyfjarannsóknum sem skilað var inn til FDA og Kirsch skoðaði. Læknar meta sjúklinga eftir þessum skala sem nær frá 1 upp í 51. T.d. er gefið 1 stig ef sjúklingi finnst lífið ekki þess virði að lifa því, 4 stig ef sjúklingur hefur gert alvarlega tilraun til sjálfsvígs, 2 batastig má fá fyrir að sofa út nóttina í stað árvöku o.s.fr. Klínískt marktækur bati af þunglyndislyfjum mældist að meðaltali tæp 2 batastig á Hamilton-kvarðanum, sem er lítill munur. Bresk heilbrigðisyfirvöld (NICE, þ.e. National Institute for Health and Clinical Excellence – Klínískar leiðbeiningar Landspítalans fyrir þunglyndi og kvíða eru byggðar á samsvarandi leiðbeiningum NICE) tekur einungis 3 stig eða meira gild sem klínískt marktækan bata.

Lyfjafyrirtæki hafa brugðist við þessum lélegu niðurstöðum með því að birta einungis jákvæðar rannsóknarniðurstöður, hampa þeim og margbirta þær jákvæðustu. Neikvæðu lyfjarannsóknarniðurstöðurnar líta ekki dagsins ljós svoleiðis að geðlæknar og aðrir læknar sjá þær ekki. Raunar má lyfjafyrirtæki láta gera eins margar rannsóknir og það vill og dugir að sýna fram á klínískt marktækan mun í tveimur rannsóknum af ótölulegum fjölda. Í mínum augum er það svipað og ef ég mætti kasta fimm teningum fimmtíu sinnum eða oftar og þegar ég fengi loksins sömu tölu á öllum teningum yrði það eina kast tekið gilt sem Yatzí en horft framhjá hinum atrennunum.

Gagnrýni á málflutning Kirsch

Enginn hefur borið brigður á tölfræðiúrvinnslu Kirsch og þ.a.l. ekki hrakið þá fullyrðingu að almennt og yfirleitt sýnist ekkert gagn af þunglyndislyfjum umfram gagn af lyfleysu. Svo virðist sem andstæðingar Kirsch einbeiti sér að þessum u.þ.b. 16% mjög þunglyndra sem virðast fá einhverja bót af þunglyndislyfjum umfram mælanleg lyfleysuáhrif. Markmið þeirra er fyrst og fremst að hrekja tilgátur Kirsch um að skýringin á batanum sé einfaldlega sú að lyfleysa virki verr á þessa sjúklinga en aðra. Til þess að hrekja tilgátur hans setja þeir fram aðrar tilgátur og reyna jafnvel að meta lyfjarannsóknargagnagrunninn upp á nýtt. Dæmi um þetta er nýleg grein Michael E. Thase o.fl. Assessing the ‘true’ effect of active antidepressant therapy v. placebo in major depressive disorder: use of a mixture model  í  British Journal of Psyciatry desember 2011 þar sem ákv. mælingarmódel var notað til að meta upp á nýtt fimm lyfjarannsóknir á escitalopram (Cipralex). Sú niðurstaða fékkst að 20-25% mjög þunglyndra sjúklinga fengju klínískt marktæka bót af lyfinu. Gagnrýni á þessa grein felst svo einkum í gagnrýni á mælingarmódelið …

Í annarri grein eftir Michael E. Thase, sem hefur að eigin sögn tekið þátt í öllum þunglyndislyfjarannsóknum lyfjafyrirtækja frá dögum Prozac á níunda áratug síðustu aldar, viðurkennir hann að tölfræðilegar niðurstöður Kirsch verði ekki hraktar, sjá The Small Specific Effects of Antidepressants in Clinical Trials: What Do They Mean to Psychiatrists? í Current Psychiatry Reports desember 2011. Greinin virðist fyrst og fremst vörn fyrir geðlækna (afskaplega léleg vörn finnst mér, sem betur fer reynir Thase ekki að verja þunglyndislyfjarannsóknirnar sem hann tók sjálfur þátt í að gera og hvernig lyfjafyrirtæki hafa hagrætt niðurstöðum þeirra með sérstöku úrvali birtra niðurstaðna). Niðurstaða hans er að af því þunglyndislyf geti hugsanlega nýst einhverjum litlum sjúklingahópi sé stundum rétt að ávísa þeim, ofboðslega aukningu í þunglyndislyfjareseptum megi skrifa á heimilislækna fyrst og fremst og í takt við tískuna klikkir hann út með að gott sé að beitt sé samtímis sálfræðimeðferð og lyfjameðferð við djúpu þunglyndi. Meðferðin sem geðlæknar veita sé mikilvægari en lyfin þegar komið er út í lífið sjálft, þ.e. út fyrir ramma tilbúinna rannsóknaraðstæðna, segir Thase. Hann virðist þó gera því skóna að meðferð hjá geðlækni feli ávallt í sér lyfjameðferð þegar mikið veikir þunglyndissjúklingar eiga í hlut.

Eftir 60 Minutes þáttinn um Kirsch og Nýju lyfin keisarans í febrúar sl. sendu Bandarísku geðlæknasamtökin (APA) frá sér tilkynningu þar sem skoðanir Kirsch eru fordæmdar, hann sakaður um að kynda undir hættulegar hugmyndir o.fl. En í tilkynningu APA eru engin rök fyrir staðhæfingum samtakanna. Raunar minnir þessi tilkynning mig mjög á „En hvað nýju fötin keisarans eru glæsileg og sitja vel og hvað slóðinn er stórkostlegur” í sögunni frægu 😉

Um miðjan mars 2012 kom tilkynning frá stjórnarformanni Bandarísku geðlæknasamtakanna, John M. Oldham, þar sem hann segir að CBS, sjónvarpsstöðin sem gerði 60 Minutes þáttinn um niðurstöður Kirsch, hafi meinað sér  að koma fram í þættinum. (Sjá Antidepressants and the Placebo Effect, Revisited í Psychiatric News 16. mars 2012.) Oldham segist hafa sent CBS bréf og beðið um að það væri birt á heimasíðu þáttarins en ekki varð orðið við þeirri ósk. Í bréfinu segist hann hafa lagt áherslu á að mörgum sjúklingum farnist vel á þunglyndislyfjum undir handleiðslu síns heimilislæknis eða sérfræðilæknis og þátturinn gæti hvatt þá til að hætta lyfjatöku, jafnvel hætta í viðtölum hjá sínum lækni, sem gæti haft alvarlegar afleiðingar í för með sér. Oldham tekur undir með Michael Thase (sjá krækju í greinar hans hér að ofan) um að meðferð geðlækna sé aðalatriði en lyfin aukaatriði. En þess utan sé sannað mál að þunglyndislyf skipti meginmáli í meðhöndlun alvarlegs þunglyndis, af þeim hljóti fólk oft tímabundinn bata, þau komi í veg fyrir endurtekin veikindi og þau bjargi mannslífum.

Andsvör Kirsch við tilkynningu Bandarísku geðlæknasamtakanna má sjá hér.

Eigin niðurstaða

Nýju fötin keisaransTja … eftir að hafa lesið megnið af Nýju lyfjunum keisarans (The Emperor’s New Drugs), horft á 60 Minutes innslagið um málflutning Kirsch og skoðað gagnrýni þeirra sem ætla má að vert sé að taka mark á hallast ég óneitanlega að því sem Kirsch heldur fram. Ég get ekki annað séð að nýju lyfin keisarans geri álíka gagn og skjólið sem nýju fötin keisarans veittu: Sumsé ekkert.

Til vara má hugga sig við að lyfleysuáhrifin framkalla bata hjá mjög mörgum sem eta þunglyndislyf og til frekari vara að e.t.v. virki þunglyndislyf eitthvað á alvarlegt þunglyndi. Því miður eru þessar varaskeifur til lítils gagns fyrir mig ef ég skoða eigin reynslu af miklu lyfjaáti síðasta áratuginn: Ég get ekki séð að nokkurt gagn hafi verið í þeim lyfjum nema e.t.v. einu þeirra sem hætti að virka eftir 3-4 mánuði og hefur sannanlega ekki virkað síðan … hafi það þá yfirhöfuð virkað á sínum tíma. Aukaverkanir af lyfjatöku hafa oft verið slæmar og eftir á séð stundum rýrt lífsgæði mín verulega.

Loks er ég sammála Thase og Oldham um að meðferð hjá geðlækni feli í sér ótal margt annað en lyf og geti verið mjög til bóta fyrir sjúklinginn.

Máttur lyfleysunnar

LyfleysaSem stendur er ég að lesa mér til um rannsóknir á virkni þunglyndislyfja, kannski öllu heldur gagnrýni á slíkar rannsóknir. Mér var bent á bók Irving Kirsch The Emperor’s New Drugs: Exploding the Antidepressant Myth, sem kom út 2009, og innslag í 60 Minutes frá því núna í febrúar þar sem talað er við Kirsch o.fl. Ég hlóð strax niður bókinni en vegna einmuna veðurblíðu undanfarið hef ég ekki borið við að lesa bók í tölvu. Hins vegar er ég búin að horfa á þáttinn, skanna umræðu um hann og nokkra umræðu um staðhæfingar Kirsch. Sjálfsagt blogga ég um bókina þegar ég er búin að lesa hana.

Eftir því sem ég les mér meira til verður mér ljósara hve þunglyndislyfjagjöf stendur á ótraustum grunni. Kenningar um að þunglyndi stafi af boðefnarugli í heila eru hugmyndasmíð en hafa aldrei verið “vísindalega sannaðar” með neins konar mælingum. Og svo virðist sem vísindalegu rannsóknarniðurstöðurnar sem eiga að sýna fram á verkan einstakra þunglyndislyfja séu aðallega jákvætt úrval úr rannsóknafjöld; þegar grannt er skoðað sýna margar rannsóknir litla sem enga verkun en þeim niðurstöðum er hins vegar ekki flaggað. Til að auka enn á vaxandi tortryggni mína eru svo upplýsingar sem sýna hvernig skilgreiningar/mælikvarði þunglyndis og uppfynding lyfja sem byggja á akkúrat þessum skilgreiningum eða mælikvörðum haldast í hendur; hænan og eggið eru upp fundin á sama tíma. (Fínt yfirlit yfir þetta er kafli Joanna Moncrieff  The Myth of the Antidepressant: An Historical Analysis í De-Medicalizing Misery. Psychiatry, Psychology and the Human Condition, útg. 2011. Þá bók má, eins og bók Kirsch, auðveldlega hlaða frítt niður af vefnum.)

Ég horfði sem sagt á 60 Minutes þáttinn með viðtalinu við Irvin Kirsch en eiginlega finnst mér þó þægilegra að lesa lungann úr handriti þáttarins. Kirsch heldur því eindregið fram að virkni þunglyndislyfja mælist sáralítið meiri en virkni lyfleysu (hveitipilla). Hann hefur fjallað um þetta efni frá því á tíunda áratug síðustu aldar og auðvitað hlotið óvægna gagnrýni. Meginrök hans eru að máttur lyfleysu sé almennt mjög mikill til bóta hvers konar krankleik en sviðsljósið beinist þó mest að rannsóknarniðurstöðum hans á þunglyndislyfjarannsóknum. Helstar eru þær að í vægu eða meðalþungu þunglyndi sýni þunglyndislyf engu meiri jákvæða virkni en lyfleysa, í djúpu þunglyndi mælist örlítill munur þunglyndislyfjum í hag.

Irving Kirsch nýtti sér amrísk upplýsingalög og fékk afhentar ALLAR rannsóknir sem lyfjafyrirtæki höfðu látið gera á virkni nokkurra þunglyndislyfja. Einungis þær rannsóknir sem sýndu fram á meiri virkni lyfsins sem verið var að prófa en lyfleysu voru birtar. Ég blogga betur um þetta þegar ég hef lesið bók Kirsch en bendi á að aðrir hafa fundið sama út, sjá t.d. grein Ericks H. Turner, Roberts Rosenthal o.fl., Selective Publication of Antidepressant Trials and Its Influence on Apparent Efficacy  sem birtist í New England Journal of Medicine snemma árs 2008. Mér finnst svolítið uggvekjandi að sjá niðurstöðurnar um þunglyndislyfið sem ég et, Mirtazapín (Míron), sjá mynd 3 í greininni. Birtar greinar og rannsóknir sýna umtalsvert betri verkan lyfsins en kemur fram þegar allar rannsóknarniðurstöður sem Bandaríska lyfjaeftirlitið hefur fengið um gagnsemi þessa lyfs eru skoðaðar, munurinn er raunar mjög mikill. 

Ég tek fram að ég kann lítið í tölfræði og get því ekki staðið í tölfræðilegum deilum um þetta efni en mér sýndist á þeirri fræðilegu umræðu sem ég skoðaði um rannsókn Turner, Rosentahl o.fl. og skoðanir Kirsch að menn væru yfirleitt að hnotbítast um smáatriði. Raunar eru Turner og Rosentahl ósammála Kirsch í túlkun þótt niðurstöður þeirra um muninn mikla á birtum lyfjafræðirannsóknum og öllum rannsóknum séu nánast samhljóða því þeir telja að þunglyndislyf sýni nokkurn marktækan klínískan mun umfram lyfleysu. (Sjá Efficacy of antidepressants í British Medical Journal apríl 2008.

Málefnalegustu rökin gegn Kirsch finnast mér vera þau að skýringin á því að enginn marktækur munur mælist á virkni algengra þunglyndislyfja og lyfleysu gegn vægu og meðaldjúpu þunglyndi í öllum klínískum rannsóknum sé sú að í hópi þeirra sem prófuðu væru líklega einhverjir sem væru ekkert haldnir þunglyndi heldur bara eitthvað domm af öðrum orsökum. Ef þátttakandi er alls ekki haldinn þeirri boðefnavillu sem á að leiðrétta þá leiðréttist náttúrlega ekki neitt með sérhannaða lyfinu og þ.a.l. mælist enginn árangur. Það að þunglyndislyf sýni nokkuð betri verkun en lyfleysa við djúpu/alvarlegu þunglyndi sýni að þunglyndislyfið virkar. Til að trúa þessum rökum þarf auðvitað að gefa sér að þunglyndi stafi af einhvers konar ójafnvægi í boðefnaskiptum í heila og að í rannsóknarhópa í klínískum rannsóknum á geðlyfjum hafi ekki verið nógu vel valið.

Mótrök Kirsch o.fl. eru að lyfleysa virki almennt og yfirleitt miklu verr á mikið veika þunglyndissjúklinga en þá sem eru haldnir vægu eða meðaldjúpu þunglyndi, sem er svo sem ekkert ótrúlegt miðað við hve maður verður yfirmáta vonlaus á allt eftir endurteknar djúpar þunglyndisdýfur.

En … þetta er byrjunin á vangaveltum um hversu lengi það hefur verið vel vitað að þunglyndislyf skila litlum sem engum bata umfram oblátur (hveitipillur/lyfleysu), hvort borgi sig yfirleitt að eta þunglyndislyf og pælingum um hvenær geðlæknum hefði mátt vera ljóst að kenningar um boðefnarugl í heila sem orsök þunglyndis standast ekki …