Author Archives: Harpa

Orðhengilsháttur, Ármann, Andri Snær o.fl.

Ég lét duga að lýsa yfir blöskrun minni á ummælum Andra Snæs, jafnt í grein / bloggfærslu hans sem og í Kastljósi, á fésbókinni. Fannst einhvern veginn ekki tilefni til að eyða meira púðri á manninn. En nú hafa a.m.k. tveir séð tilefni til að skrifa þokkalega langt mál um orðanotkun og fordóma Andra Snæs í fyrrnefndum tjáningum svo þetta fer að verða efni í bloggfærslu.  

Ármann Jakobsson skrifar varnarfærslu fyrir Andra Snæ, “Geðveik umræða“, í Smuguna á sunnudag. Hann staðhæfir að umræða um grein Andra snúist annars vegar um “notkun hans á geðveiki sem myndmáli” og hins vegar um “kynjahlutfall á fundi í Háskólanum um greinina”. Ármann fjallar svo einungis um fyrrnefndu umræðuna í sinni grein.

Hann telur umræðu um notkun Andra Snæs á geðveiki sem myndmáli einkennast af orðhengilshætti þeim sem HKL nefnir í Innansveitarkroniku (hann talar þar m.a. um að “íslendíngar beygi sig lítt fyrir skynsamlegum rökum, fjármunarökum varla heldur …” svo þetta er svo sem ágætt innlegg í umfjöllun Andra Snæs) og Ármann bætir við: “Ef þetta er ekki að drepa málum á dreif, þá kann ég ekki helskó að binda.” Ég er búin að liggja yfir þessari málsgrein en sé samt ekkert vit í henni; þarna er slengt saman algerlega óskyldum orðtökum og úr verður þvæla. En kannski var hún hugsuð sem lýsandi dæmi um orðhengilshátt? Eða stafi af því að höfundur sé með inngrónar táneglur (leggist bloggynja í myndhverfingaham)?

Hvers konar skóblæti er annars í gangi þarna hjá vistfemínistunum?

Að því búnu slengir Ármann fram ýmsum PC-skoðunum á geðveiki, s.s.: “Geðveikt fólk er eins og allir aðrir, nema geðveikt.”; “Geðveiki er ekki góð veiki.” og tiltekur staðgóða eigin þekkingu á geðrænum sjúkdómum, annars vegar fengna frá móður sinni og hins vegar frá geðveiku fólki sem hann hefur kynnst. Það er náttúrlega ekki annað hægt en vera sammála þessu og fagna góðu uppeldi Ármanns.

Aftur á móti staðhæfir hann: “Því er haldið fram að það ali á fordómum í samfélaginu að nota geðveiki í myndmáli eins og Andri gerir í grein sinni. Ég er ekki sannfærður um það sjálfur. Fordómar gegn geðsjúkum eru yfirleitt sprottnir af hræðslu, afneitun og hugsunarleysi, eins og aðrir fordómar …” og  “Myndhverfingar af þessu tagi breyta auðvitað ekki fordómum gegn geðsjúkum enda er það ekki tilgangurinn. En ef menn ætla að kenna Andra um fordóma gegn geðsjúkum á Íslandi eru þeir sömu að misskilja illa hvernig fordómar virka.”

Ég er einmitt ein af þeim sem misskilja svona illilega hvernig fordómar virka og finnst Andri Snær yfirmáta hrokafullur og fordómafullur í garð geðsjúkra. Mér er líka óskiljanlegur einhver æðri tilgangur myndhverfinga Andra Snæs, sem ku ellefutaka orðin geðveiki / geðveikur í sínum pistli um orkuver og álver (ég taldi þetta ekki sjálf og biðst afsökunar ef rangt er talið). Þegar Andri Snær kemst á flug og segir: “Geðveikin er núna augljós í jarðvarmabransanum”, undir fyrirsögninni “Er kókaín í heita vatninu?” – á þá geðsjúkur óvirkur alki eins og ég að líta á þetta sem frumlega myndhverfingasköpun til marks um glæsilegan stíl skáldsins? Eða dæmi um algera vanþekkingu á bæði fíkn og geðveiki og ósmekklega samhnýtingu þessa tveggja, byggða á botnlausum fordómum Andra Snæs?

Og “Hérlendis er fjallað um sturlun sem norm, jafnvel lífsnauðsyn og æði er æðsta dyggðin …” hugnast kannski þeim skáldpiltum sem dreymir um að verða litlir laxnessar en í augum þeirra sem heimsækja geðdeild öðru hvoru, af illri nauðsyn, er hneyksli að sjá fullorðinn mann láta þetta út úr sér á prenti. ´

Í Kastljósþætti sagði Andri Snær m.a.: “Þá er ég kannski bara með megavöttin og segi: Strákar þið eruð ruglaðir. Þá fer maður að nördast ofan í tonnin og allt þetta drasl sem ég veit ekkert hvort almenningur sé vel inn í …”  Þetta eru náttúrlega hvorki fordómar í garð ruglaðs fólks né aðdróttun um heimsku almennings úti á landi, er það? Sennilega bara ein af þessum skemmtilegu veltilfundnu myndhverfingum.

Og litlu seinna bætir ástmögur græningjanna við: „Ég segi við þá: Strákar þið eruð eitthvað vangefnir, þurfiði 650 megavött ef Alcoa færi þarna niður.” Enn ein stórbrotin myndhverfingin, í þetta sinn á kostnað þroskaheftra.  Ég er hrædd um að Ármann þurfi að fara að tvíreima helskóna ef hann ætlar að drepa allt mál Andra Snæs (ekki þó á dreif).

Satt best að segja sé ég engan mun á málflutningi Andra Snæs og hins galvaska hundaræktanda úr Dalsmynni, sem tilkynnti í gær: „Hann er algjörlega geðveikur þessi hundaeftirlitsmaður. Hann leggur mann í einelti,” (Sökuð um ólöglega hundaræktun á Akranesi, visir.is 22. sept. 2010.) Hún gengur þó ekki svo langt að brigsla andstæðingi sínum um að vera vangefinn og drekka kókaínblandað vatn, eins og Andri Snær. Þótt hún sé ósammála hundaeftirliti bæjarins.

Mjög góður pistill eftir Júlíu Margréti Alexandersdóttur, Nauðsynlegur orðhengilsháttur, birtist á visir.is í dag. Greinin er lágstemmd og málefnaleg (ólíkt færslu bloggynju) en Júlía Margrét kemst að ólíkri niðurstöðu og Ármann Jakobsson, sem segja má að kristallist í þessum orðum: “Ástæðurnar fyrir þessum fordómum [í garð geðsjúkra] eru margþættar en mjög margir leggja að því líkum að fjölmiðlar og staðalímynd sem birtist oft þar af geðsjúkum, skipti þar sköpum. Tungumálið er verkfæri. Því er ekki hægt að halda því fram að grein á við grein Andra Snæs skipti engu máli. Sama þótt um óvitaskap hafi verið að ræða.”

Merkilegar afsakanir finna menn Andra Snæ, fullorðnum höfundi bókafjöldar. Ýmist brúkar hann óheppilegar myndhverfingar eða hann talar / skrifar af óvitaskap. Er maðurinn barn?

Úr því byrjað var að draga Nóbelsskáldið inn í umræðuna læt ég þessu lokið með að benda á líkindi Andra Snæs við Ólaf í Ystadal, þann mikla alþýðuvísindamann. Sá að Tryggvi Þór hafði sams konar karakter í huga, í fyrrnefndum Kastljósþætti. Það er leiðum að líkjast.
 

Blogg um blogg

Já, þetta er leim umfjöllunarefni, ég veit það. Og vona að forkar íslenskrar tungu (hér í ekki í merkingunni gafflar heldur andstæðrar merkingar við reiðareksmenn) gefist umsvifalaust upp á að lesa þessa færslu – um leið og þeir reka viðkvæmar glyrnurnar í slettuna “leim”.

En meðan skipaðar eru nefndir um nefndir og skrifaðar skýrslur um skýrslur … jafnvel nefndir til úttektar á skýrslu um skýrslu um skýrslu … þá má afsaka blogg um blogg.

Mér finnst bloggheimurinn verða æ leiðinlegri. Þar er t.d. ekki þverfótað fyrir fólki sem bloggar oft á dag um veimiltítulegar skoðanir sínar á einhverjum fréttum sem birtust í einhverjum netmiðli. Þetta er veimiltítulegt því yfirleitt er enginn rökstuðningur eða umfjöllun önnur en einfaldur halelújasöngur eða einfalt skítkast eftir því hvernig “bloggara” hugnaðist fréttin. Á bloggrúntum forðast ég svoleiðis blogg eins og heitan eldinn enda er ég afar hrifin af Facebook til einmitt þessa en finnst blogg eiga að vera bitastæðara.

Fastir bloggarar netmiðla blogga oft bara um eitt áhugamál, on and on. Vinsælasta áhugamálið er náttúrlega pólitík. Vandinn er sá að yfirleitt leiðist mér pólitík. Svoleiðis að ég skruna líka nett framhjá þeim bloggum. Annað vinsælt áhugamál eru trúmál – einsleitu bloggin eru annað hvort áróður fyrir þjóðkirkjunni eða áróður gegn þjóðkirkjunni; Hvort tveggja frekar leiðinleg umræða til langframa og gætir mikilla endurtekninga í málflutningnum.

Ég sakna margra fínna bloggara (hafði meira að segja gaman af því að rífast við suma þeirra) eins og Pipruðu kennslukonunnar og Gurríar, sem eru nánast eða alveg hættar að blogga, geðsjúklinga og alka sem hafa læst bloggunum sínum, bloggara sem ég var alltaf ósammála og margra annarra.

Sem betur fer eru þó enn einhverjir sem blogga um fjölbreytt efni, skrifa skemmtilega og tengja við sitt daglega líf á stundum. Ég ætla einmitt að bæta tveimur svoleiðis í listann yfir blogg sem ég les. Og nota tækifærið til að fagna því að Gísli málbein er aftur farinn að blogga!

Eigið blogg? Ja, ég þverbrýt allar reglur, blogga langlokur sem einungis fluglæst fólk nennir að lesa, held mig engan veginn við eitt umfjöllunarefni, held mig ekki einu sinni við sama stíl o.s.fr. Hef hugsað mér að halda uppiteknum hætti meðan ég hef einhverja lesendur. Mætti jafnvel spyrja sig hvort bloggynja þurfi endilega lesendur úr því henni finnst svona gaman að þessu sjálfri 😉 

Þetta er óvenju stutt færsla enda kannski ekki mikið meira sem hægt er að blogga um blogg. Þess vegna er myndin líka óvenju stór, til að fylla upp í plássið.

Málfarsstígurinn vandrataði

Málvillupúkinner hér til umræðu og hinn breiði vegur málvillna sem leiðir beint til helvítis, sbr. “Glatist tungan glatast þjóðin”! Getur einhver upplýst hvaðan þessi frasi er kominn? Mig grunar að þetta sé fengið úr einhverri ræðu frú Vigdísar en væri gaman að vita hvort klisjan er eldri. [Myndin á að sýna málvillupúkann, sem mun líklega steypa þjóðinni í glötun en tengist ekki neinum af þeim sem eru nafngreindir í færslunni.]

Hér á heimilinu er stundum fjörug fræðileg umræða um málnotkun og málvöndun. Tveir heimilismanna eru aðdáendur Eiðs Svanbergs Guðnasonar og hans molaskrifa. Einn heimilismaður vill horfa á málin undir afskaplega víðu sjónarhorni og vitnar til skiptis í BBC-framburð og samræmda forngrísku sem kennd var í grískum skólum til skamms tíma, grískum börnum og unglingum til mikils ama, bókmenntum og listum til einskis framdráttar. Svo er það ég sem hef áratuga reynslu af því að kenna íslensku, þ.m.t. reynslu af ítroðslu helstu “villu-leiðréttinga” í beygingu sagna og nafnorða. Svoleiðis að við kvöldmatarborðið þykist hver hafa til síns ágætis nokkuð. David Attenbourough

Rök víðsýna heimilismannsins felast einkum í því að í hinum siðmenntaða heimi hafi ávallt þótt ástæða til að brúka tungumálið til að skilja milli pöpuls og menntamanna. Þetta sé gert á ýmsa vegu. Á Bretlandi er mikilvægt að tileinka sér réttan framburð, RP (received pronounciation) sem kannski er þekktastur í máli þula hjá BBC. Ég minnist ársins í enskudeild HÍ þegar þessi posh framburður var æfður í hljóðveri og lagt kapp á að ná breskum staccato talanda, nánast með handaklappi.  Í Amríku, heldur sami heimilismaður fram, er mikilvægt að sletta latneskum orðum og passa vel upp á að hafa latneska fleirtölumynd rétta, segja t.d. hippopotami, berist talið að mörgum flóðhestum. (Reyndar ku menntaðir kanar segja hippopótamæ en enginn Latverji hefði svo framborið orðið, a.m.k. ekki á gullöldinni.)

Það sjá allir að gjörbylting á framburði eða æxlun latínusletta er meiriháttar lærdómur. Nútildags hafa flestir fallið frá viðurkenndum snobbframburði íslensku, enda úrval framburðarafbrigða heldur fátæklegt. Svo var þó ekki; er skemmst að minnast baráttunnar gegn því skemmtilega afbrigði flámæli, gott ef ekki var lagt til að útskrifa ei flámælta presta eða kennara (man ekki hvort þetta náði fram að ganga). Svo hart var gengið fram í flámælisbardaganum að maður telst heppinn að ná að heyra þennan framburð, yfirleitt þá í tali háaldraðs fólks.  Einn íslenskukennara minna í menntaskóla útlistaði fyrir okkur nemendunum hvernig hann æfði upp hv-framburð, eftir segulbandsspólum. Slíkt held ég að enginn leggi á sig núna. Enda var árangurinn ekki sá að við nemarnir fylltumst aðdáun á tiltækinu heldur var þetta efni í endalaus skemmtiatriði og eftihermur á skólaskemmtunum.

Þannig séð er gott  og þægilegt að á Íslandi þykir það mikilvægast af öllu að kunna að beygja “rétt” innan við tíu orð til að sýna að maður sé menntaður eða a.m.k. á einhvern hátt betri en ótíndur almúginn. Þetta er auðveldlega yfirstíganlegur andskoti en spurningin er hins vegar til hvers leikurinn er gerður. Beyging

Vinsælast er að hamra á “réttu” þolfalli eða þágufalli með ópersónulegum sögnum, aðallega þolfalli þar sem í málvitund meirihlutans væri þágufall réttara. Dæmi um þetta eru “mig langar” eða “mig dreymir”. Flestar sagnir sem tákna líðan og löngun eru ópersónulegar og frumlagið í þf. eða þgf. En viti menn: Til eru tvær svoleiðismerkjandi sagnir sem beygjast eftir persónum og frumlagið er því í nefnifalli. Þetta eru þær frægu “hlakka” og “kvíða”. Ég leyfi mér að fullyrða (af löngu kennslureynslunni) að “ég hlakka” og “ég kvíði” brýtur í bága við máltilfinningu flestra. Þess vegna hef ég yfirleitt gripið til þess ráðs að kenna sagnbeyginguna sem svo að þetta væru rímsagnir, ráðlagt nemendum að setja “smakka” í stað “hlakka” og “ríða” (sem beygist reyndar ekki alveg eins) í stað “kvíða” til að geta puntað sínar ritsmíðar með hinni einu kórréttu beygingu. Það er hægt að gera þetta að skemmtilegum samkvæmisleik, sé maður þannig innstilltur. Tilgangurinn er sá einn að ekki sé hægt að hanka nemandann á rangri beygingu, honum til hnjóðs. Nemendur mínir hafa yfirleitt fyrir löngu áttað sig á því að “mig hlakkar” er upplagt eineltistilefni og vilja því gjarna læra trix til að hafa þetta í samræmi við það sem málfarslöggan býður. (Þetta er sosum ekkert ný beyging, sjá neðanmálssöguna s. 55 í Þjóðólfi frá 1892.) Á hinn bóginn mætti spyrja sig af hverju það er ekki gúterað að þessar tvær sagnir hafi einfaldlega skipt um beygingarflokk og beygist nú ópersónulega, eins og hinar líðunar-sagnirnar? (Vissulega eru líka til persónulegar líðunar-sagnir, t.d. “ég óttast” en þær eru fáar.) Má ekki alveg eins samþykkja þetta eins og að samþykkja að sögnin “þvo” beygist nú veikt, er “þvoði” í þátíð, en beygðist sterkt, var “þó” í þátíð.

Árangurinn af þessari stífu málvöndunarstefnu mátti t.d. sjá í mogga mannsins í gær, hvar stóð með a.m.k. 24 punkta letri í íþróttakálfinum: “Ég hef lengi dreymt um atvinnumennsku (mogginn gleymdi að loka gæsalöppunum). Ég hef reyndar margoft séð þessa villu hjá nemendum sem eiga að tjá sig um drauma Guðrúnar í Laxdælu. Þetta er villa að því leyti að engum málnotanda finnst eðlilegt að segja “ég dreymi”. En það er búið að berja inn í svo marga að mörg séu vítin að varast í sögnum á borð við “dreyma” og “langa” og “hlakka” og “kvíða” að til öryggis þverbrjóta menn gegn eigin málvitund og útkoman er þessi.  

Næstvinsælast, í skólakerfinu, er að hamra á beygingu hins einstæða orðs “fé”. Fé hefur verið aleitt í sínum beygingarflokki frá dögum gotnesku. Hingað til hefur reynst tiltölulega auðvelt að skaffa tengingu með því að benda á að enginn segi “fésmálaráðherra” og með því að muna “fjármálaráðherra” sé auðvelt að finna rétt eignarfall. Þetta kann að breytast og verða erfiðara nú, þegar nýyrðið “fésbók” ryður sé æ meir til rúms.

Mér þætti gaman að vita hve löngum tíma er eytt í beygingaræfingar ofantalinna sagna og nafnorðsins fjár, í skólakerfinu. Satt best að segja held ég að þetta séu rándýr orð, miðað við kaup og kjör kennara, sem þó eru ekkert til að hrópa húrra fyrir.

Eiður Svanberg, átrúnaðargoð sumra heimilismanna, hefur nýlega gert að umtalsefni svokallaða “reiðareksstefnu” málfræðinga, sem hann telur kristallast í grein Gísla Sigurðssonar í síðasta helgarmogga (altso helgarinnar fyrir þessa). Reiðareksstefnan virðist m.a. felast í því að samþykkja beygingu sumra orða sem þau hafi stofnlægt -r, þar sem hin eina rétta málstefna sé að útrýma errinu úr aukaföllum. Þetta eru orðin “læknir” og “vísir”. Eins og flámælinu forðum hefur þessu aumingja erri verið nánast útrýmt, var það þó orðin viðtekin málvenja á sinni tíð og í rauninni óskiljanlegt af hverju það mátti ekki vera.

Greinin sem Eiður reynir að kasta rýrð á fjallaði reyndar ekki aðallega um læknira eða vísira heldur var megininntak hennar að fyrst yrði til tungumál og svo málfræði, þ.e. að málfræði væri nokkurs konar greining á tungumálinu. Fyrsti málfræðingurinn svokallaði, sem skrifaði Fyrstu málfræðiritgerðina (sem er reyndar um hljóðfræði og stafsetningu) reyndi akkúrat þetta: Hann lýsti framburði eins og hann var einhvern tíma kringum 1150 og greinir hvert hljóð. Síðan lagði hann til hvernig væri skynsamlegt að tákna hljóðið í ritmáli. Vissulega fóru handritaskrifarar lítið eftir þessum fyrstu stafsetningarreglum en af því ekkert var bloggið gat höfundur þeirra ekki orðið Fyrsti kverúlantinn. Öllum sem hafa lesið þessa fínu greiningu Fyrsta málfræðingsins er náttúrlega ljóst að íslenska hefur gjörbreyst, að við myndum tæplega skilja Snorra karlinn, hvað þá Egil forföður okkar allra … en samt er hefur þjóðin ekki glatast. Glötunin er því ekki fólgin í framburðarbreytingum og líklega ekki heldur í stafsetningu.

Yfirvofandi glötun er heldur ekki bundin orðaforða því hann hefur a.m.k. aukist að mun frá léttlestrarbókum þeim sem tamt er að kalla bókmenntaarf þjóðarinnar. (Og enn bætast við spennandi og innihaldsrík orð, eins og “reiðareksstefna” svo íslenskan ríður feitum hesti frá málfarsmolum … geti tunga þá yfirleitt riðið hesti … frá molum.) 

Nei, glötunin er örugglega fólgin í beygingarkeldum sem mönnum láist að krækja fyrir. Af því þær eru svo fáar ætti ekki að vera neitt mál að stuðla að því að þessi vesalings þjóð lifi af, sérstaklega ef við tökum upp spanskreyr í skólakerfinu en að sjálfsögðu var bent á það í athugasemdum við blogg Eiðs að það auma kerfi væri sökudólgurinn. Enda er það svo að frá því skólar voru stofnaðir á Íslandi hefur skólakerfið verið að bregðast. Þetta vita allir. 

Hér á heimilinu hefur náðst vopnaður friður með því að deiluaðilar eru sammála um að það að geta tjáð sig á lipran og ljósan hátt sé eftirsóknarverðast trítls um málfarsstigu heimsins 🙂

Valdoxan

Nýtt lyfSívaxandi kvíðinn fékk mig til að leita frekari upplýsinga um hið ágæta þunglyndislyf sem ég brúka nú, Valdoxan. Verður að segjast eins og er að ekki er um auðugan garð að gresja; Nóg er af upplýsingasíðum en þær eru flestar sami halelúja-söngurinn, upphaflega kyrjaður af framleiðendum lyfsins. Lyfið er nú leyft í Evrópu, fékk markaðsleyfi 9. feb. 2009, en ekki er búist við að markaðsleyfi í Bandaríkjunum fáist fyrr en 2012. (Ágæt yfirlitsgrein er á wikkunni, Agomelatine, en borgar sig líka að lesa athugasemdir við hana. Matsskýrsla Evrópsku lyfjastofnunarinnar (EMEA) er fróðleg en lengri en wikkugreinin.  Lyfjaupplýsingar á íslensku eru í Word skjali á vef Lyfjastofnunar.)

Það sem opinberum síðum ber yfirleitt saman um er að Valdoxan sé glæný blanda, virki mjög vel en sé ansi dýrt lyf og því eru læknar (t.d. á Bretlandi) hvattir til að prófa önnur lyf fyrst á sjúklingnum. Sömuleiðis ber þessum síðum saman um að aukaverkanir séu yfirleitt vægar, gangi fljótt yfir og í rauninni sé einungis hin sjaldgæfa aukaverkun á lifrarstarfsemi einstakra sjúklinga eitthvert sérstakt áhyggjuefni.

Ath.: Ég er ekki lyfjafræðingur og heldur ekki vísindakona, eins og formóðir mín Guðríður Þorbjarnardóttir. Þess vegna er útlistunin sem hér fer á eftir ansi alþýðleg og gæti jafnvel verið misskilningur. Væri ágætt ef mér fróðara fólk leiðrétti ef þess þarf.

Það sem er spes við Valdoxan er að það örvar 2 melatónín- upptakara (viðtakara?), auk þess að blokka einn serótónin-upptakara. SSRI-lyfin blokka serótónin-upptakara, reyndar held ég að það séu aðrir upptakarar, en lógíkin bak við það er að með slíkri blokkun er komið í veg fyrir að heilinn taki upp gamalt serótónin og þannig er hann neyddur til að framleiða meira nýtt og ferskt serótónin … skortur á því boðefni er talin ein skýring þunglyndis.

Melatónín áherslan er hins vegar ný. Í fyrrnefndum halelúja-söng lyfjaframleiðenda er gert mikið úr rangri dægursveiflu sem fylgi þunglyndi, þ.e. dægurvillu og meðfylgjandi svefnleysi. Þ.a.l. sé örvun melatónín-upptakara mjög af hinu góða. Margir þunglyndissjúklingar kannast við svefntruflanir, hvort sem er ofsvefn eða of lítinn svefn sem t.d. stafar af árvöku. Þess vegna hljómar þessi eiginleiki lyfsins frekar vel. Og þess vegna verður að taka það á kvöldin. (Það er reyndar líka merkilegt við þetta lyf hve hratt það frásogast: Þéttni í blóði nær hámarki 1 – 2 klst. eftir að taflan er tekin og helmingunartíminn er svo aðeins 1 – 2 klukkustundir. Lyfið rennur því hratt af manni, ef svo má að orði komast.)

Ég hef þveröfuga reynslu af virkni melatóníns. Einhvern tíma árið 1997 fékk ég náttúrulyfið Melanin (minnir að það hafi heitið það) sem svefnlyf … aðallega af því ég mátti ekki fá venjuleg svefnlyf af því ég var (og er) óvirkur alki. Það lyf virkaði þveröfugt og ég hef sjaldan verið jafn vansvefta um ævina. Þessu var ég búin að steingleyma þangað til ég fór að velta því fyrir mér af hverju ég svæfi svona ömurlega illa eftir að ég fór að taka Valdoxan. Nú veit ég svarið. Núna í sumar svaf ég í svona 6 – 7 tíma, í mismunandi stuttum blundum, yfir nóttina og gat alls ekki sofnað á daginn. Svo stuttur svefn er alltof lítill fyrir mig.  Þetta hefur aðeins skánað og eftir að ég byrjaði aftur að taka inn míní-skammt af kvíðastillandi lyfi á kvöldin, í septemberbyrjun, næ ég yfirleitt 8 tíma svefni. Vakna samt nokkrum sinnum á hverri nóttu. Á einum af örfáum sjúklingaumræðuþráðum, sem ég fann um þetta lyf, kemur svefnleysisaukaverkunin vel fram, sjá http://www.definitivemind.com/forums/showthread.php?t=135.

Flestallar upplýsingasíðurnar um Valdoxan gera lítið úr kvíða, nefna hann sem algenga aukaverkun en gera svo sosum ekkert úr því. Sumar nefna ekki kvíða, t.d. halelújasíða lyfjafyrirtækisins sem framleiðir lyfið í Evrópu en þar er svarið við spurningunni um algengustu aukaverkanir Valdoxans einfaldlega svona: “VALDOXAN is very well tolerated. The most common adverse reactions are nausea and dizziness. Adverse reactions are usually mild or moderate and occur within the first 2 weeks of treatment. These adverse reactions are usually transient and do not generally lead to cessation of therapy.”  EMEA-síðan nefnir heldur ekki kvíða í upptalningu á algengustu aukaverkunum.

Ég finn fyrir talsvert miklum kvíða og hann fer stigvaxandi. Mér datt fyrst í hug að úr því að Valdoxan virkar sem kraftaverk á eigið þunglyndi hefði kvíðakvikindið notað tækifærið til að blómstra. En nú er ég að velta fyrir mér hvort helv. kvíðinn sé kannski aukaverkun af kraftarverkalyfinu. Fleiri en ég hafa þessa reynslu, sjá http://www.medhelp.org/posts/Depression/Valdoxan—Wonder-drus/show/1058477

PlaceboÍ fréttatilkynningu frá 31. ágúst sl. er gert mikið úr því hve Valdoxan komi vel út í samanburðarrannsóknum við aðra algenga geðlyfjaflokka. (Þeir sem auðveldlega hrífast af tölfræðilegum upplýsingum ættu endilega að lesa fréttatilkynninguna.) Á upplýsingasíðu lyfjaframleiðandans frá 9. sept. sl. er minnst á sex rannsóknir þar sem Valdoxan var borið saman við lyfleysu (placebo) og önnur geðlyf en einungis þrjár þeirra sýndu fram á yfirburði Valdoxans. Ástæðan er gefin sú að galli hafi verið í hinum þremur rannsóknunum. Í EMEA plagginu sem ég vísaði í hér að ofan er minnst á sömu rannsóknir og þar segir að í þessum þremur rannsóknum hafi enginn munur verið á árangri Valdoxans og lyfleysu. Gefið er varlega í skyn að e.t.v. hafi önnur lyf truflað rannsóknina.  Þetta á við rannsóknir á lyfjatöku í 6 – 8 vikur.

EMEA nefnir að í fyrstu langtímarannsókn hafi enginn munur komið fram á hverjir veiktust aftur á 24 vikna tímabili, etandi ýmist lyfleysu eða Valdoxan. Í seinni rannsókn hafi komið fram munur og það sýni sig að 21% þeirra sem tóku Valdoxan í 24 vikur hafi veikst af þunglyndi. Í sama streng tekur síða lyfjaframleiðandans.

Af þessum 21% líkum á að lyfið dugi ekki hef ég þungar áhyggjur. Ég efast nefnilega ekki eitt augnablik um að Valdoxan virki á mig. Ég var orðin svo fráhverf lyfjum og vantrúuð á að finna lyf sem virkaði að ég hefði örugglega ekki notið lyfleysuáhrifa nema þá “nocebo”, sem ég veit því miður ekki hvað kallast á íslensku, e.t.v. hryllingsáhrif? Hafandi loksins batnað vel af lyfi er svekkjandi að það skuli vera fimmtungslíkur á að það hætti að virka. En það þýðir svo sem ekkert að mála skrattann á vegginn fyrirfram 😉 Og miðað við geðlyfjabransann eru víst fimmtungslíkur ekkert svo miklar.

Mér finnst líka skrítið að lyfið virki – fatta ekki alveg hvernig það getur verið mér svona áhrifaríkt miðað við þessa þungu áherslu á melantónin-upptakarana. Í rauninni eru önnur lyf, sem ég hef árangurslaust prófað, kannski miklu vænlegri til árangurs, sé maður hallur undir serótónín-kenningar. Af langri reynslu geðsjúklings er ég samt dálítið sammála karlinum sem segir: “Note that in psychiatry, medications are chosen by a process similar to throwing mud on the wall then determining which one of the mud balls stick, through statistical analysis. Medications are generally not chosen because they actually treat the pathophysiology of the mental illness. They are chosen primarily because of statistical improvement versus placebo.” (Romeo B. Mariano, á The Definite Mind Forums.)
Helv. kvíðinn er líka áhyggjuefni en ekkert við honum að gera nema taka aðra sort af pillum og einhenda sér í æfingar og hugræn atferlistrix. Sykuróþolinu (óskráð aukaverkun) er auðvelt að lifa með … maður passar sig bara að borða ekki meir en 2 súkkulaðimola í einu.

Loks er náttúrlega áhyggjuefni hvort einhverjar slæmar óvæntar aukaverkanir komi fram eftir að lyfið hefur verið einhvern tíma á markaði … annað eins hefur nú gerst.

  

T….leg þessa dagana

Ég er búin að vera eitthvað ónóg sjálfri mér undanfarna daga. Raufarhafnska orðið lýsir þessu best en kona á mínum aldri þorir náttúrlega ekki að nota það.

Ýmiss konar sannfærandi pestareinkenni hrjá mig, t.d. kölduflog, hitaflog, magaverkur, höfuðverkur o.s.fr. Þetta er sosum ekkert illvígt – hefur oft verið miklu verra. Mér er ljóst að það er kvíði sem er að mér. Kvíðaeinkenni eru nefnilega gasalega lík flensueinkennum. Nema þegar hann magnast upp í ofsakvíða; þá kemur nokkurs konar generalprufa af hjartaáfalli.

Ég hef aldrei skilið þau skrauthvörf yfir þunglyndi eða kvíða sem finna má í skáldskap (“Bak við mig bíður dauðinn” – fílingurinn). Líkamleg einkenni þessara sjúkdóma  eru hvunndagsleg og órómantísk. (Raunar hef ég aldrei gripið þá hugmynd að það sé eitthvað rómantískt yfirhöfuð við sjúkdóma … hvíta dauða meðtalinn.) Á sama máta finnst mér ósmekklegt þegar menn, jafnvel skáld, gera sér þann leik að gera lítið úr geðsjúkdómum, t.d. með því að stimpla hvern þann geðveikan sem hefur aðra skoðun á álversbyggingum eða alls kyns umsvifum en þeir. (“Það er geðveiki að tífalda bankakerfi á sjö árum” … “Hérlendis er fjallað um sturlun sem norm, jafnvel lífsnauðsyn og æði er æðsta dyggðin …”) Græningjar sem telja sig vinstrisinnaða vini alþýðunnar eru sérlega slæmir með þetta. Næstverstir eru æstir nágrannar sem þykjast eiga harma að hefna. Raunar er upphafning og niðurlæging geðsjúkdóma jafn pirrandi fyrir þann sem haldinn er slíkum sjúkdómi. Í núverandi ástandi er ég þess vegna jafnpirruð útí liðið með silfurskeiðina í kjaftinum og frenjurnar á moggabloggunum. Leiði Jóhann sáluga Sigurjónsson hjá mér.

En sem sagt … ég hef það ekki nógu gott í augnablikinu. Það kristallaðist hjá tannlækninum í síðustu viku – þrátt fyrir að ég tæki skýrt fram að ekki mætti snerta ódeyfða tönn snerti hann hálfdofna tönn og kom við þá ódofnu við hliðina. Þetta var nóg til að sannfærandi byrjun á ofsakvíðakasti gerði vart við sig. (Vel að merkja þarf aðeins að hreinsa tennurnar en það er ekki hægt nema ég sé koldeyfð! Merkilegt nokk er ég ekkert hrædd við sprautur og finnst deyfingin aðeins óþægileg. Þetta er mjög sértækur kvíði!) Normal lesanda finnst þetta eflaust yfirmáta hystería í mér. En málið er að kvíðaröskun er fullkomlega órökréttur sjúkdómur og hefur ekkert með sjálfstjórn, skynsemi eða almennan kjark að gera. Þess vegna er hún sjúkdómur. Ef svona kvíði væri eitthvert eðlilegt fyrirbæri og sjúklingurinn gæti bara unnið bug á honum með því að herða sig upp væri hann náttúrlega ekki sjúkdómur. Ég varð frekar fúl við þennan indæla tannlækni, fannst að hann tæki ekki nógu mikið mark á mér. Auðvitað veit ég ekkert um tannlækningar. En af langri (og óæskilegri reynslu) er ég sérfræðingur í eigin kvíða og veit vel að beri eitthvað út af í tannlæknaheimsóknum getur það auðveldlega orðið til þess að ég þrói svo mikla tannlæknafóbíu að ég komist ekki til tannlæknis. Þess vegna á að taka fullt mark á mér.

Svo ákvað ég að æfa mig í leikhúsi á sunnudaginn. Það gekk ljómandi vel enda setið við borð en ekki í sætaröð. (Já, það breytir ótrúlega miklu fyrir mig.) Aftur á móti leið mér eins og ég væri með 40 stiga hita allan sunnudagsmorguninn og fram að leiksýningunni, laust eftir hádegið. Fyrirkvíðinn fyrir hugsanlegu ofsakvíðakasti er næstum eins slæmur og kastið sjálft.

Það er í sjálfu sér gott skref að viðurkenna vandamálið og gera sér grein fyrir því. Ég geri mér líka mætavel grein fyrir því að helv. kvíðinn er svona áberandi núna af því ég er svo góð af þunglyndinu. Þunglyndi hefur nefnilega þann eiginleika að breiðast yfir allar tilfinningar og frysta mann svo ein þunglynd kona verður að Morra, til sálar og líkama. Þannig séð er það sosum kostur að finna fyrir kvíða, sýnir að ég er ekki Morri í augnablikinu.

Aðalmálið er samt að finna út hvernig maður geti breytt ástandinu. Og það er sko hreint ekki auðvelt. Kvíðastillandi lyf draga langt en mér finnst þreytandi hvað lyfið mitt virkar á minni og einbeitingu svo ég tek ekki slíkt nema ég neyðist til. Hugrænu atferlistrixin sem ég lærði á kvíðanámskeiðinu í vor virka líka en þau virka ekki nóg. Óhefðbundnari ráð, t.d.  að hlusta á rás 1 (þar sem menn eru yfirleitt frekar rólegir, vitsmunalegir og spila almennilega tónlist) og sauma út á meðan virka líka. Slökunaræfingar fyrir svefninn eru fínar en ég næ yfirleitt aldrei neinum slökunarfíling að degi til, þrátt fyrir góðan ásetning og æfingar. Reglusamt líf (fara á fætur, skipta deginum í búta, hafa eitthvert plan fyrir hvern dag, helst að fara eitthvað út og hreyfa sig o.s.fr.) virkar líka, slær t.d. eitthvað á þeytivindu hugsana sem fylgja kvíðanum. Mér sýnist að ég þyrfti að æfa mig að sitja í sæmilega stórri byggingu, í stólaröð, og þá eru messur náttúrlega upplagðar (og algerlega ókeypis, einnig fyrir heiðingjana, svo sem rækilega hefur komið fram í umfjöllun presta í fjölmiðlum undanfarið). Fyrir nokkrum árum brúkaði ég einmitt þetta ráð og hafði gott af. Núna þarf ég að yfirstíga einhvern sálrænan þröskuld til að fá mig í þesslags æfingar en það tekst sjálfsagt.

Í dag er ég að hugsa um að nota rásar 1 trixið, leyfa mér að leggja mig (og eyðileggja þannig reglusemi dagsins) og reykja mig bláa (sömuleiðis alger rústun reglusemi). Splæsi á mig hálfri Rivotril og gef skít í skýra hugsun og minni. Á það skilið. Viskum sjá hversu langt þetta dregur.

Þessi færsla er óskáldleg með afbrigðum. Hún hefur engan boðskap og engan tilgang nema þann að koma skipulagi á óreiðuna í hausnum á mér. En ég hef komist að því að blogg mitt um eigin geðveiki, lummulegt sem það kann að vera, virðist hjálpa öðrum í sömu stöðu. Það er alltaf gott að vera ekki einn í heiminum. Og þótt tilgangur svona færslu sé fyrst og fremst að létta á eigin sálarkirnum þá þykir mér vænt um ef hún getur hjálpað öðrum. Enn gleðilegra væri ef þessi skrif opnuðu augu einhverra þeirra sem vilja hafa geðveiki í flimtingum og finnst slíkt sniðugt. Það er nefnilega voðalega ósniðugt og lítið skemmtilegt að vera geðveikur.

Færeyska umræðan á Facebook

Eiginlega ætlaði ég að blogga um færeysk nöfn. Mér finnst nefnilega svo skemmtilegt að það skuli vera hægt að kenna sig við stað, auk þess að eiga möguleikana á föðurnafni (eða kenna sig móður) og ættarnafni. Færeysk nafnalög eru að þessu leytinu miklu frjálslyndari en okkar nafnalög. (Sjá Løgtingslóg nr. 31 frá 26.03.2002, með áorðnum breytingum, reyndar kemur fram á hagstofusíðu Færeyja að menn fara ekkert sérlega mikið að lögum í nafngiftum því mörg nöfn eru víst ekki á “listanum yfir góðkend nøvn”.)

Ég sé fyrir mér hversu miklu flottara það hljómaði að heita “Harpa af Vallholti” í staðinn fyrir Harpa Hreinsdóttir. Eða “Harpa af Skaganum” og þá mundu allir halda að ég væri skyldi Oddi … sem ég er ekki.

Þegar ég fór að skoða fésbókarumræðuna á síðu Árna Zachariassen sá ég mökk af undurfögrum nöfnum en reyndar einnig ansi hvunndagsleg nöfn. (Hér er rétt að taka fram að það að hafa Facebook-síðuna sína galopna öllum jafngildir opinberri birtingu og ekkert sem kemur í veg fyrir að vísa í eða vitna til slíkrar síðu. Enda segir í notkunarskilmálum Facebook: “When you publish content or information using the “everyone” setting, it means that you are allowing everyone, including people off of Facebook, to access and use that information, and to associate it with you (i.e., your name and profile picture).” , nr. 4, undir Privacy.) Ég er samt ekki viss um að það sé kórrétt að vitna í nöfnin í umræðunni, áhugasamir geta bara loggað sig inn á fésbókina og skoðað þau sjálfir. Ástæða þess að ég datt inn í þessa umræðu var auðvitað sá frægi færeyski stjórnmálamaður, Jenis Kristjan Av Rana. Mér finnst reyndar staðurinn sem hann kennir sig við ansi hallærislegur en það gerir væntanlega óheppileg líking við íslenska tungu, maður sér nánast fyrir sér fílsrana. Eða afar ræfilslegt nes.

Síða Jenis Kristjans Av Rana er ekki síður áhugaverð. Ég fékk að vísu nett sjokk við að sjá afkomanda minn listaðan sem einn af nýjustu vinunum hans Jenis en hugga mig við það að drengurinn hyggst áreiðanlega ekki gerast bókstafstrúarmaður, sennilega ekki heldur færeyskur ríkisborgari. Nei, honum gengur sjálfsagt eitthvað annað til með nýstofnuðum fésbókarvinskap við þennan mann, ekki síður en Tungnamanninum sem ég sá einnig í ný-vinahópi Jenis(ar?).

Því miður reikna ég með að eitthvað af hinum fáu Íslendingum sem hafa nýlega vingast við Jenis af Rana séu skoðanabræður hans. Tel mig meira að segja þekkja líklega ritendur svokallaðra “stuðningsbréfa” til hans, sem nýlega birtust í einhverjum fjölmiðli íslenskum. Þið þurfið samt ekki að gá: Árni Johnsen er ekki FB vinur hans Jens okkar.

Jenis tilkynnir keikur að hann ætli að taka þátt í mánaðarlangri bænastund á fésbókinni þar sem beðið er fyrir 72.000 börnum sem eru í lífshættu í Pakistan. Það er fallega hugsað af honum. Enda skrifar systir hans, Varna Av Rana: “Og so leika fólk í, tí tú ikki etur døgurða saman við 2 íslendskum konum….. Tey skuldu heldur gjørt sum tú.” Neðar á síðunni er lýsingu Vörnu á atgervi bróður hennar í æsku og minnir á lýsingu Magnúsar Stephensen í æsku, eins og hann lýsti sér sjálfur.

Annars fær venjuleg bloggynja hér uppi á Íslandi nettan hroll við lestur síðu Jens hins færeyska. Má þó hugga sig við að þeir atkvæðamestu í orði eru danskir prestar. Þó er vísað í síðu einhvers fríkirkjufélagsskapar hérlendis, sem er sprottinn upp úr Ungt fólk með hlutverk, en á síðunni segist presturinn (nafnlaus en með mynd … kannski er þetta frægur maður þótt ég kannist ekki við andlitið) muni fjalla um afþökkun Jenis Av Rana á að sitja til borðs með samkynhneigðu pari … en sú umfjöllun er framtíðarinnar.

Sá eini færeyski prestur sem ég kannast soldið við hefur ekki einu sinni fésbókarsíðu. Það er skynsamlegt af honum, finnst mér.

En, sem sagt: Maður getur haft gaman af nafngiftunum hugnist manni ekki skoðanirnar.

Einelti

er tískuorð í dag. Séu menn ósammála er handhægt að brigsla andstæðingnum um að vera geðveikur (svo sem ég hef bloggað um áður) en næsta skref að ásaka hann um að leggja sig í einelti. Nýjasta dæmið er sr. Örn Bárður Jónsson sem sakar fjölmiðla um að leggja kirkjuna (væntanlega þjóðkirkjuna) í einelti. Þetta hefur sjálfsagt verið bragð hjá sr. Erni til að koma lunganum af prédikun sinni í fjölmiðla og tókst með ágætum. En er hægt að leggja stofnun í einelti? Væru ekki, með sömu rökum, allir stjórnmálaflokkar landsins lagðir í einelti oft á ári … af fjölmiðlum? Svo ekki sé nú minnst á aumingja Actavis, Bónus, Arionbanka o.fl. svo maður velji nú dæmin af handahófi.

Einelti er útskýrt í orðabók sem stöðugar ofsóknir gegn einhverjum. Það er spánný túlkun að svoleiðis geti beinst gegn öðrum en einstaklingi / einstaklingum. Oft tekur samfélag viðkomandi þátt í eineltinu, t.d. er augljóst að konurnar sem ásökuðu fyrrum biskup á sínum tíma urðu fyrir skefjalausu einelti náungans.

Í þessu sambandi má benda á að kirkjan stóð löngum fyrir áhrifaríku einelti, kallað bannfæring eða bann, sem hún beitti allt fram á 18. öld. Kannski sr. Örn gæti brúkað þetta góða eineltistrix á fjölmiðla? Eða hefur hin lúterska evangelíska kirkja glutrað banninu formlega úr sinni verkfærakistu?

Einelti er grafalvarlegt mál. Ég hef heyrt hræðilegar sögur af slíku, einkum úr öðrum grunnskólanum hér í bæ. Þetta eru gamlar sögur og ég vona að tekið hafi verið til í svoleiðis málum núna. Svo hef ég bæði heyrt um og orðið vitni að einelti á mínum vinnustað (einnig er hér nokkuð um liðið). Satt best að segja held ég að einelti á vinnustöðum fullorðinna sé óhugnalega algengt. Minnipokamenn ýmiss konar nota tækifærið til að upphefja sjálfa sig með því að gogga í þann sem á undir högg að sækja eða bara einhvern sem er líklegur til að bera ekki svo mjög hönd yfir höfuð sér. Það að líkja opinni fjölmiðlaumræðu um stofnun á borð við þjóðkirkjuna við svoleiðis sálarmisþyrmingu er næsta ósmekklegt.

Merkilegt nokk hefur enginn lagt mig í einelti fyrir geðrænu sjúkdómana. Ekki ennþá a.m.k. Ég hugsa að meginástæðan sé sú að ég hef þá ekki leyndarmál og stend mig yfirleitt þokkalega vel í starfi þrátt fyrir þetta handikapp … eða jafnvel vegna þess. En ef goggað yrði í mig þegar ég er sem veikust gætu afleiðingarnar orðið hræðilegar. Frísk er ég ekki í vandræðum með að svara fyrir mig.

Reyna geðsjúklingar of mikið?

Yfirdrifin samúð“Þunglyndi er ekki merki um veikleika, það er merki um að þú hafir reynt að vera sterk/ur allt of lengi. Settu þetta sem status hjá þér ef þú þekkir einhvern sem hefur, eða hefur sjálf/ur glímt við þunglyndi. Ég þori – þorir þú?”

Þetta er fésbókarstatus sem sást hjá mörgum á dögunum. Ég veit ekki af hverju fólk át þetta upp hvert eftir öðru, líklega af samúð með okkur geðveika fólkinu. Það er ansi misskilin samúð og sjálf vildi ég gjarna vera laus við samúð af þessu tagi. 

Þunglyndi er alls ekki “merki um að þú hafir reynt að vera sterk/ur allt of lengi”. Þunglyndi er eins og hver annar sjúkdómur sem stafar af efnafræðilegu rugli í líkamanum. Eins og gildir um marga aðra sjúkdóma getur þunglyndi blossað upp við áreynslu en það er ekki hægt að alhæfa um að áreynsla valdi þunglyndi.  Auðvitað getur svo þunglyndið birst án þess að menn “reyni að vera sterkir”, alveg eins og hvaða efnaskiptasjúkdómar sem er.

Ég reyndi að setja í FB-statusinn minn: “Gyllinæð er ekki merki um veikleika, hún er merki um að þú hafir reynt að vera sterk/ur allt of lengi. Settu þetta sem status hjá þér ef þú þekkir einhvern sem hefur, eða hefur sjálf/ur glímt við gyllinæð. Ég þori – þorir þú?” Það er álíka mikið vit í þessu og frumútgáfunni. Og sennilega eru færri slæmir af gyllinæð en af þunglyndi.

Mér hefur fundist vænlegast að kannast hreinskilnislega við sjúkdóminn. Sama aðferð og kennd er í AA nýtist prýðilega á þunglyndi (reyndar líklega á marga aðra sjúkdóma einnig). Maður viðurkennir vanmátt sinn og þiggur hjálp. Hjálpin er einkum fólgin í efnafræðilegum lausnum, lyfjum, en sjálfshjálpin felst í að viðurkenna geðveikina og leitast við að lifa lífinu skynsamlega til að halda sjúkdómnum niðri, t.d. passa upp á svefn, hreyfingu og ýmislegt annað.

En öll heimsins skynsemi kemur að litlu haldi í slæmu þunglyndiskasti. Þá snýst allt um að lifa kastið af, hanga í voninni að í einhverri fjarlægri framtíð taki eitthvað betra við og hanga í voninni um að einhvern tíma finnist lyf sem virkar. Þetta eru hræðilegir tímar.

Ég var fyrst lögð inn á geðdeild vorið 1998, í slæmu þunglyndiskasti. Síðan hef ég hlotið mikla æfingu í að kljást við þennan sjúkdóm og sætta mig við að stundum er ég algerlega fötluð vegna hans. Líkamleg einkenni eru mjög sterk, t.d. jafnvægisskortur, alls konar verkir, stífir vöðvar, kölduköst, svitaköst o.fl. Mér finnst einbeitingarskorturinn, minnisleysið, nístandi tómleikinn og margt fleira líka ansi líkamlegt enda álít ég að heilinn í mér sé partur af líkamanum.

Undanfarin ár hef ég þurft að haga lífi mínu eins og nunna í klaustri; Reglusemin keyrir um þverbak! Það hefur samt alls ekki dugað til en gerir kannski tímann milli kastanna ofurlítið léttbærari. Erfiðast er kannski að þurfa að hanga á því að manni hafi verið gefin þessi spil, í lífinu, og verði að spila úr þeim eftir bestu getu.

Aukaverkanir lyfjaEn núna loksins er kraftaverkið að gerast! Mér sýnist af lauslegri athugun að nú sé ég að prófa 25. lyfið. Hin 24 eru ekki öll geðlyf heldur allskonar samansafn af lyfjum sem öll áttu að gera mér þunglyndi eða kvíða eða aukaafurðir þessa léttbærari. Í stöku tilvikum er um að ræða lyf við allt öðru sem voru samt prófuð í von um að aukaverkanirnar slægju á geðveikieinkennin. Svo hef ég tvisvar reynt raflækningar, legið inni á geðdeild nokkrum sinnum, aðeins prufað sálfræðiaðstoð og er á því að slík nýtist talsvert við kvíða en hef ekki fengið bót á þunglyndi þannig … og reynt allskonar húmbúkk sem velmeinandi fólk hefur haldið að mér. Geðveikt fólk verður flinkt í reynsluvísindum.

Í vetur sá ég fram á að einungis gamall MAO-blokki væri óprófaður, lyf sem er löngu búið að taka af markaði hér á landi. Þá prófaði ég að vera algerlega lyfjalaus, í þeirri von að ég kæmist af án lyfja, enda hef ég yfirleitt orðið meira eða minna veik af aukaverkunum og þegar svoleiðis bætist ofan á veikindi er ekki gaman að vera til.

Svo tók við frjálsa fallið ofan í myrkrið og kuldann nú í vor; ég veikist skelfilega hratt og hef innan við sólarhring til umráða áður en frostið tekur við og ég verð að uppvakningi. Skelfingin sem grípur mig verður alltaf meiri og meiri af því ég veit hvað er í vændum. Þá datt lækninum mínum í hug að prófa glænýtt lyf. Ég hafði svo sem ekki nokkra trú á því, hafandi almennt heldur slæma reynslu af lyfjum, en féllst á þetta, ekki hvað síst vegna þess að lyfinu áttu að fylgja fáar og sjaldgæfar aukaverkanir, sem ég sá óneitanlega sem plús. Auk þess verður fólk í minni stöðu að gera eitthvað, það er beinlínis lífsspursmál í endurteknum þunglyndisköstum.

Þetta lyf reyndist kraftaverkalyf. Strax í maí byrjaði mér að batna og batinn hefur haldist. Fjölskyldumeðlimir telja að ég hafi ekki verið svona frísk síðan fyrir 1998. En af því ég hef áður náð nokkrum bata af öðrum lyfjum, sá bati hefur svo reynst tálsýn og lyfin ekki virkað nema örstuttan tíma, og af því ég er ekki viss um að ég lifi það af að þurfa enn einu sinni að hætta vinnu á miðri önn og hverfa til heljar, og af því ég hef lært að helv. biðlundin er það sem gefst skást í baráttu við þunglyndi og kvíða … þá hangi ég fullfrísk (í augnablikinu) heima og gef þessu lyfi séns á að virka til langframa. Eins og ég sakna þess að vera að kenna!

Viðbrigðin eru óskapleg.  Allt í einu get ég gert allt mögulegt án vandkvæða. Mesti munurinn er kannski sá að fúnkera vel í hvunndeginum og að geta lesið bækur án þess að gleyma jafnóðum. 

Svo er ég jafnheppin áfram að vera bent á ólíklegustu ráð; Sóknarpresturinn í Árbæjarkirkju, sr. Þór Hauksson, skrifar í kommenti við næstsíðustu færslu: “Bara í síðustu viku fékk ég tvo skjólstæðinga senda frá geðlækni þannig að veröldin er ekki eins svört hvít og þú heldur. Hún er full að þenkjandi fagfólki sem þekkir sín mörg og það á við um flesta presta.” Ég hef ekkert á móti því að spjalla við þann ágæta prest sem þjónar á Skaganum en er hrædd um að mér féllust hendur ef minn ágæti læknir vísaði mér á hann, mér til lækninga. Eiginlega er ég dálítið hissa á þessum ónefnda geðlækni og í rauninni afskaplega fegin að ég er ekki viðskiptavinur hans.

Þannig að ef kraftaverkalyfið skyldi nú hætta að virka á ég bæði Marplan og presta eftir … til prófunar. 

P.s. Nú beinist kirkjuumræðan nokkuð að þeirri afgreiðslu sem konurnar hlutu á sínum tíma víða í þjóðfélaginu, nefnilega að þær væru geðveikar og því ekki mark takandi á þeim. Ég hef ekki hugmynd um hvað stendur í sjúkraskýrslum þessara kvenna og þær gætu þess vegna allar hafa leitað til geðlæknis og fengið lyf. En mér finnst þetta koma málinu álíka lítið við og hugsanlegar heimsóknir til kvensjúkdómalækna eða möguleg taka “pillunnar”. Vitfirring fylgir einungis litlum hópi geðsjúkdóma. Ef fórnarlamb er jafnframt veikt á geði, á þá ekki að taka mark á því? Gildir þetta ekki líka um fatlaða? Er þá í fínu lagi að hunsa allar ásakanir um brot ef fórnarlambið hefur leitað til geðlæknis?

Þeir sem halda í alvörunni að viðtal við geðlækni og geðlyf skipti máli í ásökunum á borð við Sigrúnar Pálínu o.fl. ættu kannski sjálfir að láta tékka á sínu eigin geði. Þetta gildir að sjálfsögðu líka um þá sem brugðust svona við á þeim upplýstu tímum 1996!

Hjálmar, Karl, hinir karlarnir og kirkjan; Ég gefst upp!

Ég var að hugsa um að blogga um Hjálmar Jónsson, sem hvíþvær sig í viðtali í mogganum í gær, og Karl biskup sem hvítþvær sig í mogganum í dag … ekki í venjulegu viðtali heldur einhverju sem mogginn kallar “burðarvital”. Það er vissulega þung byrði að lesa það viðtal svo nafngiftin er ekki alveg út í hött, í þessum snepli sem berst hér á heimilið í vanþökk mína.

En svo sé ég að mér núna. Einkum eftir að hafa lesið frásagnir kvenna í DV núna áðan. Mér er um megn að hugsa meir um þessi mál. Þótt ég hafi a.m.k. tvisvar á ævinni kynnst mönnum sem voru að ná sér niður eftir að hafa haldið sig vera Guð í mestu maníunni hef ég aldrei kynnst þeirri ofurtrú á sjálfum sér sem finna má í þessum viðtölum; þessir menn hafa m.a. vald yfir sannleikanum. Það að halda áfram að sveigja sannleikann til löngu eftir að menn eru komnir út í horn, upp að vegg … að bakka eitt hænufet í einu en neita samt að viðurkenna snitti fyrr en menn eru beinlínis neyddir til þess er ekki í samræmi við minn skilning á iðrun, hvað þá yfirbót. Þessir menn næðu ekki langt í sporavinnu því þeim er um megn að viðurkenna vanmátt sinn.

Það sem er skelfilegast er að nú staðhæfa þeir báðir að þeir hafi allan tímann trúað Sigrúnu Pálínu og fleiri konum. Hvernig geta þeir sagt þetta og fundist ekkert að því að hafa bara staðið hjá vegna þess að yfirmaður þjóðkirkjunnar, sem var sakaður um þessi hryllilegu brot, var frekja eða nýkominn af fundi þar sem var klappað fyrir honum? Sá sem velur að þegja yfir glæpsamlegum verkum vegna meðvirkni er samsekur.

Hvernig getur fólk í þjóðkirkjunni setið messu hjá sr. Hjálmari eða sr. Pálma eða sætt sig við Karl Sigurbjörnsson sem æðsta mann þjóðkirkjunnar?  Hvernig getur fólk leitað til sálusorgara innan kirkjunnar nútildags hafandi þessa menn sem fyrirmynd, ekki árið 1996 heldur í viðtölum 2010?  Hvernig er það hægt?

Ég segi ekki að ég verði beinlínis þunglynd á að hugsa um þetta. En kvíðinn blossar upp og kemur m.a. fram í mikilli reiði og hringspólandi hugsunum, sem er afskaplega óhollt fyrir mig. Samt stend ég algerlega utan við þetta mál. Það gleðilega er að ég get dáðst að þeim konum sem aldrei hafa hvarflað og að þeim konum sem nýverið hafa komið fram og sagt sögu sína. Þær eru hetjur! Án þess að kasta rýrð á aðrar dáist ég mest að Sigrúnu Pálínu, Guðrúnu Ebbu og Stefaníu Þorgrímsdóttur.

Mín eigin sáluhjálp á undir því að ég hætti að velta þessu fyrir mér. Best að snúa sér að meinlausum morðsögum, hannyrðum, píanóspili eða öðrum jákvæðari umhugsunarefnum en málefnum þjóðkirkjunnar.

Þrá presta eftir sálgæslu og þögn

Í umræðunni um málefni þjóðkirkjunnar undanfarið eru tveir meginþræðir: Annars vegar upprifjun á kynferðisbrotum Ólafs sáluga Skúlasonar biskups og hins vegar upphrópanir um þagnarskyldu presta. Í rauninni fléttast þessir þræðir ansi mikið saman.

PresturÖllum sem horfðu á Kastljós núna áðan, þ.e. viðtalið við Sigrúnu Pálínu Ingvarsdóttur, hlýtur að vera ljóst að það er fjarri því að núverandi biskup Íslands geti sagt satt um hennar mál. Karl biskup er í nákvæmlega sömu hjólförunum og meirihluti presta var 1996 (sjá færsluna hér á undan). Í rauninni verður að teljast líklegt að Sigrúnu hafi almennt verið trúað 1996. En einhverra hluta vegna völdu langflestir prestar að þegja um málið og sumir völdu að reyna að þagga niður í henni og þeim öðrum konum sem vildu koma í veg fyrir að kynferðisafbrotamaður sæti á biskupsstóli. Miklar og harðvítugar deilur grasseruðu innan þjóðkirkjunnar á þessum tíma og kann að vera að prestar hafi aðhyllst þögn og þöggun þessara mála af því allt var fyrir í báli og brandi. E.t.v. hefur þeim sumum verið fyrirmunað að skilja að gróf kynferðisleg áreitni væri eitthvað til að gera veður út af?  (Minnir mig á karlmenn sem ég hef heyrt segja: “Ég lenti í nauðgun” – þar sem þeir voru gerendur og konurnar svo tíkarlegar að kæra þá.)

Prestarnir völdu að þegja 1996. Þeir einu sem opinberlega gerðu eitthvað voru: Sr. Kristján Björnsson, sem  sendi kirkjumálaráðherra bréf með beiðni um að hann viki biskupi tímabundið úr embætti meðan mál hans sættu dómstólameðferð. Því var ekki sinnt. Sr. Halldór Gunnarsson í Holti lagði fram tillögu á fundi Prestafélags Íslands um að félagið skoraði á biskup að víkja meðan mál hans væri fyrir dómstólum. Prestarnir samþykktu dagskrártillögu um að vísa tillögu sr. Halldórs frá. Og sr. Geir Waage, formaður Prestafélags Íslands, lagði fram ályktun fyrir PÍ þar sem sagði:  “Vegna hinnar alvarlegu kröfu um algjöran trúnað getur ósannaður áburður um trúnaðarbrest ónýtt stöðu prests til að gegna þjónustu sinni og haldið vakandi efasemdum um heilindi hans og hæfi til að gegna embætti. … Sé um alvarlegt trúnaðarbrot að ræða gildir einu hvort það varðar við lög eða ekki. Brotið eða ásakanir um brot fyrnist ekki. Trúnaðarrof bætist ekki af sjálfu sér.” Séra Baldur Kristjánsson, biskupsritari og varaformaður PÍ, sagði hins vegar: “Þarna er því lýst yfir að sekt og sakleysi skipti ekki máli þegar um presta ræðir. Eftir því er nóg að bera eitthvað upp á prest til að eyðileggja hann. Það getum við aldrei samþykkt.” Enda samþykktu prestarnir ályktunina ekki og enginn þeirra efaðist opinberlega um heilindi biskups síns og hæfi til að gegna embætti, þrátt fyrir vægast sagt vafasamar aðferðir við sálgæslu árið 1979.

Núverandi kattarþvottur þeirra sem drápu málinu á dreif 1996 og sópuðu því undir teppið er álíka pínlegur og þegar vitnað er í hermenn sem fremja ofbeldisverk og segjast eftir á einungis hafa verið að framfylgja skipunum foringjans. Þeir sem gegndu prestsembættum 1996 og jafnvel sérstökum trúnaðarstöðum að auki ættu að átta sig á því að þá, eins og nú, jafngilti þögnin samþykki. Skoði maður mál Sigrúnar Pálínu frá 1996 er ljóst að prestar litu á þagmælsku sem gulls ígildi og héngu á henni einsog hundar á roði.

En núna hefur þetta allt í einu snúist við. Svo hallærislegt sem það nú er þá beinast ásakanir yngri presta einmitt að einum þeirra þriggja sem ekki þagði 1996, sumsé sr. Geir Waage. Hann má þó eiga það að hann hefur hingað til verið samkvæmur sjálfum sér, ólíkt sumum þeim sem kusu á dögunum að fórna honum á altari umræðunnar, kannski til að draga athyglina frá algerum vanmætti þjóðkirkjunnar til að fást við óþægileg mál á borð við mál Sigrúnar Pálínu, enn þann dag í dag.

Í Kastljósi í gær ræddu þeir sr. Þórhallur Heimisson og Illugi Jökulsson um hlutverk íslensku þjóðkirkjunnar og var helst á sr. Þórhalli að skilja að meginhlutverk kirkjunnar væri ýmiss konar sálgæsla eða félagsþjónustustarf. Þetta virðist einnig vera uppáhaldshlutverk eða draumahlutverk í málflutningi yngri presta. (Hér á ég við presta sem eru innan við fimmtugt.)

sálgæslaAf því umræðan undanfarið hefur sveigst að merkilegu hlutverki sem prestar ku gegna í barnaverndarmálum og nauðsyn þess að þeir upplýsi rétt yfirvöld þegar perrarnir leita til þeirra er athyglisvert að innan við 1 prómill af tilkynningum til Barnaverndarnefndar í Reykjavík í fyrra var frá prestum; nánar tiltekið 3 af rúmlega 4.300 tilkynningum. Árið þar áður er hlutur presta í tilkynningum til Barnaverndarnefndar Reykjavíkur rúmlega hálft prómill (2 af 3.814 tilkynningum). (RÚV 26. 8. 2010.) Í þessu sambandi er vert að taka fram að sr. Geir Waage er prestur í Reykholti í Borgarfirði svo meint skoðun hans á þagnarskyldu presta skekkir ekki þessar tölur 😉 Annað hvort steinhalda prestar sér almennt saman eða þeir frétta sjaldan af ofbeldi gegn börnum. Mér finnst síðarnefnda skýringin mun líklegri. Ég held nefnilega að fólk ræði svoleiðis vandamál sín við aðra en presta; raunar held ég að þeir sem frétta langoftast af ofbeldisverkum hvers konar frá ofbeldismönnunum sjálfum eða þolendum séu áfengisráðgjafar en ekki prestar.

Nám í guðfræði er gamaldags meistaranám (þ.e. 5 ára háskólanám). Einhver hluti þess er í sálfræði, félagsfræði og tengdum greinum en ég held að sá hluti sé ekki mjög veigamikill. (Væri gaman ef einhver gæti upplýst það, t.d. hve margar einingar slík fög vega miðað við heildareiningafjölda.) Til samanburðar má nefna að nú er gerð sú krafa til framhaldsskólakennara að þeir hafi meistarapróf í sinni kennslugrein (5 ára háskólanám) auk eins árs í uppeldis-og kennslusfræðum. Þetta er grunnkrafan en náttúrlega afla margir framhaldsskólakennarar sér frekari menntunar, ekkert síður en prestar. Grunnskólakennurum og leikskólakennurum er nú gert einnig að ljúka 5 ára háskólanámi.

Nú dettur okkur framhaldsskólakennurum ekki í hug að við séum þess umkomnir að veita meiriháttar sálgæslu né langar okkur sérlega til þess að gegna slíku hlutverki (þótt við höfum slatta af einingum í uppeldisfræði, sálfræði og félagsfræði). En prestar, sem hafa styttra grunnnám að baki, eru alls óhræddir við að stinga sér í sálgæslulaugina – sumir virðast meira að segja þrá sem dýpsta og myrkasta laug. Þó ættu þeir að hafa nóg verkefni fyrir við hæfi, þ.e.a.s. að reyna að efla trú fólks, ekki hvað síst trú fólks á prestum.

Ég efast ekki um að prestar séu upp til hópa hið vænsta fólk, af þeirri einföldu ástæðu að flest fólk er hið vænsta, einkum ef á reynir. En ég held jafnframt að þeir ættu að halda að sér höndum áður en þeir geisast inn á annarra svið. Mér finnst miklu heppilegra að fólk í kreppu leiti til sálfræðinga, geðlækna, áfengisráðgjafa eða einhvers sérmenntaðs fólks í staðinn fyrir að bögga prestinn sinn, sama hversu velviljaður hann er. Og ég tek undir með Illuga Jökulssyni í því að líklega væri heppilegra að ráða þorpssálfræðing en stóla á prestinn, í smærri byggðarlögum.  Satt best að segja hefur maður heyrt minna af blammeringum og bömmer sálfræðinga undanfarið en presta, svo ekki sé nú minnst á biskupa.

PresturPrestar eru prýðilega launaðir. Eftir sitt grunnnám hafa þeir 473.551 kr. í grunnlaun (sjá Yfirlit yfir laun skv. ákvörðun Kjaradóms). Ofan á þau laun bætast greiðslur fyrir embættisverk hvers konar, t.d. fermingar, skírnir, giftingar og jarðarfarir, en slíkt getur gefið ágætlega í aðra hönd í fjölmennum sóknum eða hjá vinsælum prestum. Byrjunarlaun framhaldsskólakennara í flestum framhaldsskólum (með eins ár lengra grunnnám en prestar) eru um 300.000 kr. Líkast til er erfiðara að halda safnaðarsauðunum innan þjóðkirkjunnar þessa dagana en troða í unglinga ýmiss konar fróðleik svo ég sé ekkert ofsjónum yfir ágætum launum prestanna.

Aftur á móti er ég ekkert gasalega hress með að þurfa að borga svoleiðis fólki, sem skattgreiðandi. Það er nefnilega ríkið sem greiðir þeim laun. Ómerkileg sóknargjöld, 850 – 900 kr. á mánuði á kjaft, sem við fólkið utan trúfélaga greiðum í staðinn til ríkisins, hrökkva auðvitað ekki langt til að greiða prestum landsins laun.

Eftir að hafa undanfarna daga reynt að setja mig aðeins inn í þjóðkirkjusirkúsinn er ég fegin að nú skuli eiga fljótlega að leggja fram á Alþingi tillögu um aðskilnað ríkis og kirkju. Ég geri mér þó engar vonir um að hún verði samþykkt, það að losna við hina lútersku evangelísku kirkju sem þjóðkirkju útheimtir stjórnarskrárbreytingu. En þetta er þó altént byrjunin.