Author Archives: Harpa

Er sumur sæll af fé ærnu?

Nú fyllast fjölmiðlar af tíðindum af mánaðarlaunum þessa og hins, aðallega til að vekja öfund pöpulsins. Sumt er auðvitað bráðfyndið, eins og t.d. að áætla tekjur af kleinusölu í Húsdýragarðinum eftir launum föður kleinusalans, en sumt er sárgrætilegt.

Eldur er bestur
með ýta sonum
og sólar sýn,
heilyndi sitt,
ef maður hafa náir,
án við löst að lifa.

Fordómafull sem ég er hefur mér tekist að læra (the hard way) að Hávamál hafa nokkuð til síns máls í þessu erindi um hið mikilvægasta í lífinu.

Að vísu eru Hávamál karlrembukvæði og einungis talað um syni og karla og að vísu er heppilegra fyrir fordómafulla (mig) að skilja “löst” sem “fötlun” … en breytir ekki því að birta, ylur og góð heilsa er mikilvægast af öllu. Þökk sé öllum hinum ágætu virkjunum er birta og ylur ekki vandfengið nútildags. Góð heilsa er aftur á móti meira happdrætti.

Í augnablikinu er ég rosalega frísk, eðlilegri en ég hef orðið í meir en áratug! Hamingja mín stafar af nýju lyfi og nú krossa ég fingur og vona að a) Lyfið verði áfram flutt inn og b) Lifrin í mér þoli lyfið. Hvorugt er náttúrlega fast í hendi ennþá en béið virðist ætla að rætast. Þetta er dýrt lyf og ekki til samheitalyf … en það er örugglega ódýrara fyrir þjóðfélagið að hafa mig á þessu lyfi, vinnufæra í framtíðinni, heldur en standa uppi með öryrkja til lífstíðar. Og ég hef vissulega lagt mig fram: Er búin að prófa nánast öll hin lyfin og allan andskotann annan! Mun fljótlega fá hið gullna tækifæri til að prófa að verða pappírslegur og viðurkenndur öryrki en stefni auðvitað á það að losna einhvern tíma úr þessu helvíti sem ég hef dvalið í æ lengri tíma hvert ár í meir en áratug og geta orðið sæl af verkum vel.

Satt best að segja held ég að lyfjaneysla okkar geðsjúklinganna séu langt langt frá því að vera stórkostlegur baggi á þessu þjóðfélagi. Eðli sjúkdómsins vegna erum við samt heppilegur hópur til að böðlast á, heppilegri en aðrir sjúklingahópar því sjúkdómsins síns vegna eiga margir erfitt með að bera hönd yfir höfuð sér. Þó telja áður ívitnuð Hávamál þunglyndi verstu veikindi sem á menn geta lagst:

Öng er sótt verri
hveim snotrum manni
en sér engu að una. 

Því miður er þetta ágæta kvæðasafn ekki brúkað nóg nútildags 😉 

En Hávamál eru jarðbundin kvæði og nefna aðra möguleika til að gleðjast yfir klikki heilsan. Þeir eru listaðir í þessu erindi:

Era-t maður alls vesall,
þátt hann sé illa heill:
Sumur er af sonum sæll,
sumur af frændum,
sumur af fé ærnu,
sumur af verkum vel.  

Ég hef reynt að vera af sonum sæl enda eru synir mínir bráðmyndarlegir báðir. Hinir glaðsinna möguleikarnir koma vel til greina og jafnvel mætti hugsa sér að einhverjir séu sælir af fé ærnu, þegar allt annað bregst, þótt mér finnist það reyndar frekar ólíklegt, ekki síst af því Hávamál nefna líka að “Margur verður af aurum api”.  Sumir af þeim best launuðu, skv. uppslætti fjölmiðla, eru nefnilega algerir apar, jafnvel gjammandi klapptíkur. Er það eftirsóknarvert? Nei!

Potið að auka við fé ærið verður til þess að margir eru geðvondir – stundum svo geðvondir að þeir verða að ráða sér sérstakt fólk til að tala máli sínu. Ég get ekki ímyndað mér að það sé gaman að starfa sem talsmaður og fagna því að svokallaðir talsmenn (í Hávamálum kallaðir formælendur) skuli fá þokkalega borgaða sína iðju.

Niðurstaða þessarar færslu er að það borgar sig ekki að öfunda þá sem hafa yfir milljón á mánuði í laun. Há laun færa þeim ekki hamingju. Há laun eru ekki trygging fyrir góðri heilsu sem er hið eftirsóknarverðasta í þessu lífi, þótt við heilsulausir getum samt glaðst yfir öðru. Þeir sem ota sínum tota hvað mest eru eins og Jóakim Aðalönd en í pistlinum “Hvorfor være Verdens rigeste and? – et religions-psykolgisk kig ind i Joakim von Ands selvopfattelse” er einmitt reyfað hvussu innihaldslítið og rýrt líf Aðalandarinnar er!

Það er reyndar skemmtilegt og  fordómafullt verkefni að bera saman persónuleika fjáraflamanna og Jóakims Aðalandar, í ljósi þessarar greiningar 😉

 

Þögguð virkjun í Öxará!

Maðurinn hafði á orði í gær að gaman væri að labba upp að gamalli virkjun í Öxará, “einhvers staðar ofan við veginn”, sagð’ann, þessi elska. Við þýfgun kom í ljós að hann var ekkert svo viss um hvar þessi stífla væri en vissi þó að um heimarafstöð var að ræða. Ég samþykkti, eins og góðri eiginkonu sæmir, að tölta með honum á morgun upp með Öxará, þess vegna að Myrkavatni (úr hverju Öxará rennur).

Maðurinn gúgglaði og eins og sést á niðurstöðum sjálfs Gúguls hefur áður verið labbað að þessari stíflu:

 En svo einkennilega vill til að þegar smellt er á krækjuna kemur upp önnur frétt, satt best að segja lítur sú frétt út fyrir að vera “eftir-á-löguð” útgáfa, með annarri fyrirsögn en Stíflan við Öxará. Fréttinni hefur snemma verið breytt því á Vefsafninu, www.vefsafn.is, er afrit af thingvellir.is frá 15. nóvember 2006 og þar er einungis að finna löguðu útgáfuna af fréttinni frá 29.5.2006.

Augljóst er að fréttin er löguð því enn fylgja henni myndir af stíflunni í Öxará þótt ekki sé minnst á stífluna; skipt hefur verið um fyrirsögn svo hún er ekki eins og flýtiminni Gúguls telur og enn fremur hafa menn gert mistök í fyrstu málsgrein; skrifað “… gengu fylgdu Öxará”; svoleiðis mistök geta alltaf átt sér stað í hraðvirkri copy-paste yfirhalningu. Núna heitir þessi frétt Gengið með Öxará, sjá http://www.thingvellir.is/frettasafn/nr/321

Ég hafði ekki gert mér grein fyrir öfgafullri andvirkjunarstemningunni fyrr og finnst reyndar ansi hallærislegt að fréttir skuli “leiðréttar” eða öllu heldur pólitískt-réttrúnaðar-lagaðar á opinberum vef Þjóðgarðsins á Þingvöllum! Þetta gat varla verið rétt – en á hinn bóginn hafa Gúgul og maðurinn ævinlega rétt fyrir sér svo ég var í vanda … hverju skyldi trúað?

Svo leitaði ég og leitaði, hjá Gúgli sjálfum og á timarit.is. Lengi vel fann ég ekki neitt (en datt þess í stað ofan í mikið drama um Svartagil, altso þegar tvær fyllibyttur úr Reykjavík óku í hlað á leigubíl, réðust á bóndann og hröktu hann af bæ og kveiktu svo í öllum bæjarhúsunum!). Fann loks upplýsingarnar sem mig vantaði en það dugði ekki minna en vefsíða svo til ættuð frá Rannsóknarlögreglunni í Reykjavík til að segja sannleikann!

Til er göngufélagið Ferlir. Á síðunni þeirra, ferlir.is,  segir:  “FERLIR stóð upphaflega fyrir FErðahóp Rannsóknardeildar Lögreglunnar Í Reykjavík …”  Þeir halda greinilega í heiðri lög og reglu og heiðarleika þótt fleiri hafi hafi slegist í hópinn. Á undirsíðunni Kárastaðasel – Selgil – Skálabrekkusel – Selgil. segir:

“Um Virkjunina í Öxarárgilinu sagði hann [Ragnar Lundborg Jónsson, bóndi á Brúsastöðum] hana vera frá árnu 1928 og hefði hún verið með fyrstu virkjunum á landsbyggðinni á sínum tíma. Hún hafi ekki verið lengi í notkun, en rafmagn úr henni hafi verið tengt niður í Valhöll. Þar rak Jón Guðmudsson, kenndur við Brúsastaði, þekktur maður í sinni tíð, veitinga- og gistiaðastöðu.”

Nú þarf ég að setja mig inn í sögu Hótels Valhallar en nenni því ekki í kvöld.

Það verður spennandi að sjá hvort stíflu-þöggunar-sinnar eru búnir að rífa gömlu stífluna í Öxará og sótthreinsa umhverfi þjóðgarðsins af illum virkjunum eða hvort rústirnar fá að standa í friði. Auðvitað er ekki fallegt til afspurnar að selveste Öxará hafi verið virkjuð á sínum tíma … en mér finnst nú samt óþarfi að ritskoða fréttir thingvellir.is og ótrúlegt hvað er erfitt að finna upplýsingar um þessa stíflu …

Lifi stíflan enn mun ég birta myndafjöld af dýrindinu fljótlega, því lofa ég 😉

Ástkæra ylhýra málið

Mér til mikillar ánægju las ég fyrsta pistil um norðlensku hjóðvilluna í dag og bíð spennt eftir næsta! Aðallega fannst mér pistillinn skemmtilegur út af kvikindislegri tilhugsuninni af því að hugsanlegir Akureyringar eða sannfærðir málfarskverúlantar kunni að lesa hann 😉 (Ég er sumsé enn að velta fyrir mér hvort Mía litla eða Búdda er æskilegri fyrirmynd í þessu lífi … er þ.a.l. stopp í gjörhyglibókmenntinni en greip þó á lofti að þau Mía og Búddi eru sammála um að allt skuli prófað áður en menn mynda sér skoðun á því. En þetta hjal kemur efni bloggfærslunnar ekkert við og er því sjálfhætt.) En mér fannst líka gaman að skoða, í pistlinum, þennan framburð undir nýju og hressandi sjónarhorni.

Davíð Þór heldur því fram í sínum pistli að raddaður norðlenskur framburður sé í rauninni dönsk áhrif. Það er svo sem ekkert ólíklegt, hvað veit maður? En þar sem ég ólst upp var frekar snobbað fyrir Norðmönnum en Dönum, t.d. sletti amma mín markvisst norsku. Og kom inn hjá mér dýrkun á norskri tónlist, sem og söng dægurlög með norskum textum. Samt sem áður var það svo að Familie Journal, og Hjemmet lágu í stöflum á háaloftinu og í húsi ömmu minnar og Anders And var gáttin að Disney, líklega af því sambærilegar norskar bókmenntir lágu ekki á lausu. (Auðvitað ólst ég upp við það að fólk þyrfti ekki að læra dönsku, maður byrjaði bara að lesa hana og þar með kunni maður dönsku – þetta var allt svo gamaldags norður á hjara veraldar.  Allt annað mál er svo að tala dönsku en það uppgötvaði ég ekki fyrr en komin á fullorðinsaldur. Á svipuðum fullorðinsaldi lagði ég dönsku blöðunum og skipti yfir í Norsk Ukeblad og norska Hjemmet sem reyndust ólíkt efnismeiri og skemmtilegri en þau dönsku.)

Ég er greinilega komin á þann aldur að “mér eru fornu minnin kær” … rifja því upp í leiðinni að í Fríðubúð (ömmu minnar) héngu uppi skilerí með dönsku kóngafjölskyldunni og maður fann til náins skyldleika við þær Margréti, Benediktu og Önnu Maríu. Samúðin var öll með þeirri yngstu, annars vegar vegna þess að aumingja Anna María var alltaf að missa fóstur og hins vegar hið hroðalega áfall þegar Grikkir flæmdu þau Konstantín úr landi, ung og sæt sem þau nú voru, a.m.k. hún! En nú er ég enn og aftur horfin frá bloggefninu …

Mér finnst raddaður framburður ekkert sérstaklega fallegur. Maður reyndi að hugga sig við að þetta væri eðalframburður fyrst eftir að fjölskyldan flutti suður (þegar ég var 11 ára) enda var gert stólpagrín að talandum (en ekki búið að finna upp hugtakið “einelti” þá). Ennþá þarf ég ekki nema klukkustundarsamtal við þvottekta Norðlending til að smitast og byrja að tala alveg eins. En svona dags daglega er ég ekki hrifin af “púnturis” eða öðrum álíka frösum sem eiga að sannfæra okkur á byggilegri hluta landsins um að RÚV sé útvarp allra landsmanna. Enn pínlegra er þegar menn gera sér upp þennan talanda … hef t.d. heyrt framburðinn “únklíngar” … eða herða sinn upphaflega framburð einum of.

Það sem mér finnst miklu meir áberandi í tali norðausturmanna er þó tónfallið. Hinn rísandi tónn í lok málsgreinar eða hryssingsleg syngjandin greinir þá auðveldlega frá Akureyringum og öðru miðjuliði. Sunnlendingum finnst þetta tónfall reiðilegt, a.m.k. fór um manninn minn á því fyrsta ættarmóti sem hann sótti með mér – en hann er náttúrlega kominn af uppkreistingum úr Landsveit og kartöfluætum í Þykkvabænum sem ekki þola mikið. Mér finnst þetta tónfall doldið flott, líklega af því að enn er Mía litla mitt átrúnaðargoð.

Í gær las ég Lost in Translation, grein sem á að vera gagnrýni á kenningar Chomsky en er það ekki, að mati sumra málfræðinga. Nú man ég ekkert af því sem ég lærði um Chomsky nema að hann taldi að grænar hugmyndir svæfu brjálæðislega (sem er út af fyrir sig smart hugmynd). Sú afleidda Chomsky-málfræði sem ég þurfti að kenna á tímabili fólst einkum í tiltekt, þ.e. að grúppa saman og hrísla huggulega sérútbúnar setningar. Svoleiðis málfræði hefur alltaf virkað sem róandi hobbí á mig, alveg eins og algebra, sunnudagskrossgátan og tiltekt í bókahillum heimilisins (ég raða reyfurunum eftir Dewey-kerfi, hvað annað?). Þegar nemendur spurðu af hverju þeir væru að læra þetta (illþolanleg spurning sem ég veit að kennurum finnst ekki gaman að svara) var ég vön að segja þeim að þetta nýttist ágætlega til að hafa ofan af fyrir sér í Akraborginni. En nú er engin Akraborg til lengur …

Verandi svona mikill málfræðisauður get ég því ekkert tjáð mig um greinina nema það að mér fannst hún skemmtileg.

Þeir sem glöptust á að lesa þessa færslu í þeirri trú að hér mundi ég bögga mann og annan fyrir að fara útaf málfarssporinu verða náttúrlega fyrir vonbrigðum. En það virðist reyndar vera nóg framboð af svoleiðis efni og sumt af því er virkilega fyndið, einkum kommentarinn sem var nýbúinn að frétta að “ágætlega” hefði gengisfallið – hvað ætli séu margir áratugir síðan “ágætlega” fór að þýða “svona la-la”, í skásta falli “vel”? “Ágætt” hefur gengisfallið alls staðar annars staðar en í skólakerfinu. En eins og Davíð Þór bendir á í öðrum pistli er búið að finna upp langefsta stigið svo við erum í “ágætum” málum þrátt fyrir gengistap.

Massíf fjölgun geðveikra!

Undanfarið hefur færst í vöxt að þeir sem haga sér ósæmilega séu sjúkdómsgreindir af hinum fordómalausu og heilbrigðu sem geðveikir. Ný dæmi um slíkt eru t.d. óprúttnir og árásagjarnir íbúar í Garðabæ en um þá er m.a. bloggað:

X “(heimilisfaðirinn) Af greinahöfundi talinn vera þekktur ofbeldismaður, þjófur og geðsjúklingur. …”

X “(dóttirin) Sögð vera lygasjúk, geðsjúk og mjög ofbeldissinnuð. …”

(Þessu bloggi sem nafngreinir einstaklingana hefur verið lokað en færslan dúkkar samt upp í óteljandi kommentum við önnur blogg. Ég vitna ekki í lokað blogg og sleppi því tilvísun í heimild.)

og yfirlýsing á costablanca.is, um konu sem síðuhöfundur telur hrella sig og fleiri á Spánarströndu. Hann hefur “orðið fyrir gífurlegum mannorðsmeiðingu [svo!] og viðurstyggilegu skítkasti og áreitni af hálfu geðsjúks einstaklings á netinu.” Síðuhöfundur ítrekar svo að þessi einstaklingur sé geðsjúkur og klikkir út með að erfitt sé að eiga við manneskjuna meðan hún er “laus og ekki undir læknishöndum [svo!] …” 

(Ég vona að minn góði læknir stingi mér ekki í handarkrika sér í viðtalstímanum í næstu viku!)

Verandi geðsjúk / geðveik / veik á geði / veik á sinni o.s.fr., svo mjög að ég er ekki vinnufær og stundum ekki hvunndagsfær, finnst mér þessi fjölgun í mínum sjúkdómaflokki heldur hvimleið. Mig finnst ólíklegt að þeir sem skrifa svona hafi sjúkraskýrslur viðkomandi undir höndum (þetta orðalag er faktískt í lagi 😉 ) og geti því tæplega sjúkdómsgreint einstaklingana sem þeim er í nöp við.

En þeir sem þjást af málfátækt og eiga einungis orðaforða smábarns eru alltof fljótir að stimpla fólk geðveikt. Í íslensku eru til mörg ágætis orð sem mætti brúka í staðinn, s.s. bavíani eða apaköttur (sem fer þó e.t.v. fyrir brjóstið á dýraverndarsinnum); hornkerling; púta (sem kann að stuða aðdáendur íslensku landnámshænunnar); gerpi; skíthæll; drullusokkur; eða lýsingarorð á borð við yxna (sem gæti gert aðdáendur íslensku landnámskýrinnar soldið leiða); brjálaður; trylltur; ruglaður; vitfirrtur; geggjaður … o.s.fr. Menn geta sumsé auðveldlega komist hjá því að nota sjúkdómsgreininguna “geðveikur” eða “geðsjúkur” yfir þá sem þeir eiga hönk upp í bakið á.

Til að gera málið flóknara er sama sjúkdómsgreining einnig brúkuð á afar jákvæðan hátt. Ég mynda-gúgglaði orðið geðveikur og fékk upp fjölda mynda af einhverju geðveiku, t.d. “Geðveikt matarborð”; “geðveikur sófi!”; “GEÐVEIKT Á AKUREYRI!” “Stebbi geðveikur að dansa” … töluvert marga geðveika bíla og geðveika boli o.s.fr.

Mér þætti afskaplega vænt um ef fólk gerði nú okkur geðsjúklingunum til geðs og hætti að blanda okkar sjúkdómi inn í allan andskotann annan! Sé það ekki hægt óska ég eftir meiri fjölbreytni í meintum sjúkdómsgreiningum (sem gætu einnig peppað upp stíl ritenda) s.s. “Af greinahöfundi talinn vera þekktur ofbeldismaður, þjófur og með slæma æðahnúta. …”, eða “orðið fyrir gífurlegum mannorðsmeiðingu [svo!] og viðurstyggilegu skítkasti og áreitni af hálfu nýrnaveiks einstaklings á netinu.” Og matarborðið gæti orðið yxna, sófinn vitfirrtur, á Akureyri væri tryllt og Stebbi örvita að dansa.

Bæjarstjóri og nágrannar

Í mogga (mannsins) í dag er grein eftir Ingibjörgu Pálmadóttur þar sem hún hvetur til þess að leyfa Skagamönnum að kjósa sér bæjarstjóra, úr hópi þeirra 5 sem Capacent telur hæfasta. Ég er frekar sammála þessu því satt best að segja hef ég þungar áhyggjur af því að meirihluti Samfylkingarmanna í bæjarstjórn ráði Steinunni Valdísi Óskarsdóttur til starfans. Af hverju í ósköpunum hefði hún annars átt að sækja um? Er ekki líklegt að hún hafi fyrirfram fengið einhvers konar vilyrði eða hvatningu frá Sveini Kristins eða öðru sínu flokksfólki?

Hugsanlega er Steinunn Valdís ágætis manneskja, ég þekki hana ekki neitt. En sem Skagamaður hef ég engan áhuga á að eignast útbásúnaðan peningaplokkara fyrir bæjarstjóra! Viss hefð hefur skapast fyrir því að bæjarstjóri hér í bæ sé innviklaður í fótbolta, geti sungið og sé liðtækur á harmonikku. Hef aldrei heyrt af hæfileikum Steinunnar Valdísar á svoleiðis sviðum og gæti trúað Capacent til að hafa algerlega gengið fram hjá þeim hæfileikum þegar þeir forgangsröðuðu.

Nú er verið að ráða vana menn í allskonar djobb, t.d. hann Runólf, frægan skuldsetjara, í embætti umboðsmanns skuldara … er þá ekki rétt að leyfa okkur Skagamönnum að hafa áfram einhvers konar Bastíans-líki sem bæjarstjóra? Á virkilega að fara að ráða einhvern sem ætlast til að tekið sé mark á sér í stað þess að vera huggulegur grínari fólksins í bænum?

Ætla má að eitt af verkefnum bæjarstjóra sé að sansa deilur í bænum og ber þar hæst stóra leiðsöguhundsmálið. Í því máli virðist starfandi bæjarstjóri hafa náð fram þeirri sátt að verði lögblinda konan í blokkinni ekki búin að fá annan samastað fyrir 7. nóvember þá muni illkvittni nágranninn ekki fara fram á að lögreglan beri hana út. Þessum árangri hefur sumstaðar verið fagnað. Mér finnst þetta reyndar helv. lélegur árangur og ekki þess virði að bera hann í fjölmiðla. Í ljósi þess að konan hefur búið í þessari blokk í 17 ár (lengst allra íbúa), fékk leyfi allra nágranna á sínum tíma til að fá hundinn en síðan flutti ein meinbægin familía í blokkina og reynist, án uppgefinnar ástæðu, vera á móti hundum og þetta verður til þess að konan þarf að selja sína íbúð og flytja brott; Nei, mér finnst þetta algerlega hörmuleg niðurstaða. Ekki að ég haldi að bæjarstjóri hafi svo sem neitt um þetta að segja, lagalega séð, en e.t.v. hefði sáttasemjara dauðans tekist að tala and-leiðsöguhundsfólkið til. Nú er að treysta á lagabreytingu til að vernda daufblindan einstakling fyrir geðvondu fólki. Og geðvonda fjölskyldan gerir vonandi úttekt á gæludýrum í sinni blokk 😉

Einigrund 5 er þó nánast himnaríki borið saman við Aratún 34 í Garðabæ! Eða Stórholt í Reykjavík! Hér hefur enginn gengið í skrokk á nágrönnum sínum útaf bílskúr eða spreyjað lásaspreyi yfir fjölskyldu, tveggja ára barn meðtalið. Hér hefur ekki þurft að kalla út víkingasveit út af bandbrjáluðum nágranna sem gengur berserksgang. Nei, hér á Skaganum eru menn tiltölulega friðsamir miðað við borg óttans og nærsveitir! Og hvað gera bæjarstjórar í þeim bæjum þegar nágrönnum lýstur saman? Ekkert, virðist vera. Þannig að okkars á þó hrós fyrir að hafa yfirleitt reynt að skipta sér af málinu.

Í mínu hverfi er fólk friðsamt, altént hef ég ekki tekið eftir öðru. Kettir ganga lausir í hópum (hópast stundum í mínum garði) og hundar tölta mismunandi bundnir hér framhjá. Börnin eru almennt kurteis og fullorðna fólkið huggulegt. Mér finnst ég reyndar einstaklega heppin með nágranna, hér á þrjá vegu, en hafði ekki tekið mikið eftir því, reiknaði nefnilega með að svona væri þetta á flestum stöðum. Við skulum vona að aggressívir Garðbæingar eða Reykvíkingar fari ekki að flytja í mitt góða bæjarfélag!

Og ég vil áfram hafa Bastían fyrir bæjarstjóra, ekki ölmusuþiggjanda dauðans!

Glansmyndir fésbókar

Ég hef undanfarið legið dálítið yfir fésbók / snjáldurskruddu / feisbúkk / facebook og reynt að átta mig á fyrirbærinu. Þetta er ótrúlega yfirborðskenndur samastaður enda einungis mögulegar örstuttar færslur (statusar) og megnið af lesendum þeirra nennir í hæsta lagi að smella á “Like” (er með enskt viðmót uppi við sem af dularfullum ástæðum breytist stundum í danskt), gæti trúað að þetta héti “Líkar” á ástkæra ylhýra.

Það sem ég tek mest eftir er hve notendum er umhugað um að sýna einhvers konar glansmyndir af sér sjálfum. Þær síður sem ég skoða eru flest síður fólks á langbesta aldri, þ.e.a.s. á mínum aldri + / – 10 ár. En einnig hef ég skoðað soldið unglingasíður (af óþolandi eðlislægri hnýsni, að mati sonar míns) og sé ekki betur en glansmyndasýningar séu jafn-algengar þar, þótt þær séu í svolítið öðrum stíl.

Hér er rétt að stinga því inní að mikill meirihluti fólks virðist hafa síðurnar sínar galopnar svoleiðis að maður þarf ekki að “vingast” við viðkomandi til að skoða hvað hann skrifar eða hvaða komment eru skrifuð við færslurnar. Og þótt fólk hafi læstar síður dugir að finna eitt komment ólæsts á læsta færslu til að komast inn á þá færslu og skoða öll komment þar. Þannig að læsing á feisbúkk er frekar léleg vörn nema náttúrlega að enginn kommenti nokkru sinni á nokkra færslu hins læsta. Þ.a.l. er fésbókin draumastaður fyrir persónunjósnir, þ.e.a.s. til að snuðra uppi fjölskylduhagi, fjölskyldumyndir o.þ.h. (Vá! Þrjár skammstafanir í einni málsgrein!)

Í rauninni er alveg eins gott að búa sér til linkasíðu í það fésbókarfólk sem maður skoðar eins og að “vingast fésbókarlega” við það. Þessu nenni ég þó alls ekki enda nær meint eðlislæg hnýsnin ekki nema sjaldan yfirhöndinni í mínu sálarlífi. Og það er ekki eins og fólk sé að skrifa neitt merkilegt; eins og ég nefndi í upphafi er samastaðurinn hjal og yfirborðsmennska að stærstum hluta. Svo ég held mig áfram við fámennt fésbókarvinasafn sem dekkar fólkið sem ég nenni í rauninni að fylgjast með – eða er neydd til hafa: Annar sonurinn tók það óstinnt upp þegar ég grisjaði enn betur í “vinagrúppunni” og sagði: “Maður dömpar ekki sínum eigin syni!” – sem kann að vera PC rétt 😉

En að yfirborðskenndu glansmyndinni: Flestir skrifa “status” á borð við: “Er í vinnunni en samt er sól” eða “Hengdi út á snúrur” eða “Fór í ferðalag og tók myndir” eða “Klippti hundinn” (nó offens!) eða “Gaman að hitta ykkur um helgina” eða “sauð kæsta skötu í kvöldmatinn” … o.s.fr.

Ef fólk er ekki algerlega skoðanalausir englar gætir það þess samt að segja nú ekkert sem ekki er fullkomlega PC (pólitískur tísku-réttrúnaður) og linkar í staðinn í hugsanlega umdeilda frétt, með athugasemdinni “Þetta er athyglisvert!” eða “Ótrúlegt en satt!” eða einverju meinleysishjali sem alls ekki getur kallast að hafa skoðun á fyrirbærinu. Annar möguleiki til að halda hreinleikanum og glansmyndinni er að taka þátt (join) fésbókargrúppu með boðskap, t.d. “Bönnum lausagöngu katta” eða “Fyrir þá sem vilja EKKI banna lausagöngu katta” eða “Styðjum konuna sem vill hafa leiðsöguhund í blokkinni sinni” en gæta þess svo gríðarlega vandlega að tjá sig ekkert inni á grúppunni – þá gæti fallið á fésbókarmyndarsilfrið. Flestir skrá sig samt í pólitískt réttar grúppur eins og “Afmælisgjöf til Ómars” eða “Árbæjarsafn” eða “Prjóna.net” o.s.fr., sumsé eitthvað sem höfðar til rómantískra meintra náttúruelskenda á mölinni.

Það eina tíkarlega sem notendur virðast óátalið geta leyft sér er að finna að málfari annarra eða hneykslast á einhverjum málfarsvillum sem einhver skrifaði annars staðar eða fésbókarhafi heyrði einhvers staðar. Að öðru leyti gildir “við höldum okkur utan við þras og þrætur og tökum ekki afstöðu til opinberra mála”-mórallinn og menn linka og segja “Athyglisvert” eins og velþenkjandi englar. Ég bíð eftir að sjá linkað í morðfrétt með yfirlýsingu fésbókarhafa um að fréttin sé “Athyglisverð”.

Afar fátítt virðist vera að menn gangi úr grúppum, sé þó að einhverjir eru núna að yfirgefa “Ísland ekki í ESB” af því stofnandinn ku hafa spreyjað lásaspreyi í augu tveggja ára nágrannabarns síns í Garðabænum. Þeir eru samt afar fáir enda vegur kannski þyngra að það er PC  að vera skráður í grúppu með þessu nafni, gefur skráðum hinn náttúruvæna, græna sjálfstæðisblæ. Sérstaklega ef þeir passa sig á að þegja stafrænt.

Eins og dyggir blogglesendur mínir sjá náttúrlega í hendi sér þá hentar fordómafullri manneskju eins og mér ekkert sérstaklega vel að brúka fésbók til tjáningar, eingöngu. Ég get náttúrlega reynt að læra að setja mig í fésbókarstellingu einu sinni á dag, svona svipað og maður reynir að sýna sína bestu fordómalausu og jákvæðu hlið á sunnudags-AA-fundi. Þetta er líklega góð æfing í jákvæðni. Þó verð ég að viðurkenna að mér finnast færslur sem fara eilítið út af engilssporinu miklu skemmtilegri … kannski af því ég þekki svolítið af englakórnum og sé þess vegna að fésbókarhliðin þeirra er tiltölulega langt frá eðlilegum persónuleika.

Svoleiðis að ég er að hugsa um að hverfa úr bloggsumarfríi, setja í AA-gírinn svona einu sinni á dag og fésbókast en halda annars áfram að takmarka mína “vinaeign” við þá sem mig langar í alvöru til að fylgjast með og kíkja á hina í gríni, þegar hnýsnin grípur mig.

Ferð vestur í Heydal í Mjóafirði

Myndir úr ferðalagi okkar hjóna vestur í Ísafjarðardjúp má sjá á http://www.this.is/harpa/heydalur20_21_juli_2010/heydalur_i_mjoafirdi.html

Ég nota tækifærið og mæli eindregið með gistingu í Heydal – allur viðurgerningur (þ.m.t. kaffið!) er alveg frábær og staðurinn gullfallegur!

Ferð um Þjórsárdal, Hrauneyjar o.fl.

Ég setti inn myndir úr ferðinni okkar Atla þann 13.-14. júlí, í Þjórsárdal, upp í Hrauneyjar og fleiri staði. Þetta var bíltúr með löngum labbitúrum, í sýnishornaveðri. Sjá http://this.is/harpa/hrauneyjar_13_14_juli_2010/hrauneyjar_2010.html

Skyldi vesalings fólkið þola hjólastóla?

Í útvarpsfréttunum áðan heyrði ég ótrúlega frétt: Eitthvert nýflutt lið í Einigrund 5 á Skaganum ætlar að meina Önnu að hafa blindrahundinn sinn! Svo las ég fréttina “Vilja ekki leiðsöguhund í blokkinni”.  Fyrr má nú vera andskotans meinbægnin!  Ég hef mikinn og einlægan áhuga á að vita hvað þetta fólk heitir og hvaðan það flutti … þetta geta augljóslega ekki verið Skagamenn 😉  Svo vorkenni ég hinu aumingja fólkinu sem býr í þessari blokk og er ágætis fólk (altént það sem ég þekki) að liggja nú undir grun um að vera meinbægna liðið …

Myndin er ekki af Exo. Og mér finnst ástæða til að taka fram að ég er enginn sérstakur hundavinur. Aftur á móti finnst mér mikilvægt að þeir sem búa við skert lífsgæði vegna alvarlegra veikinda fái að njóta skárri lífsgæða með hjálp hunda, hjólastóla eða hverra þeirra hjálpartækja sem gefast.

Á kommenti við eitt af moggabloggunum (sem kommenta á fréttina) kemur fram að þótt greindinni sé kannski ekki fyrir að fara geti fólkið sem vill hundinn út þó huggað sig við að hafa 20/20 sjón. E.t.v. getur það líka huggað sig við að hafa lengra formlegt nám en hundurinn – mig minnir að Anna hafi sagt mér einhvern tíma í vetur að það tæki 3 ár að þjálfa svona hund. Aftur á móti reikna ég með að samskiptahæfileikar þessara nýju nágranna séu minni en hundsins.

Ég skil alveg að fólk hafi ofnæmi fyrir dýrum og að þess vegna sé ekki æskilegt að hafa hunda og ketti í fjölbýlishúsum. En í fyrsta lagi hafa blindrahundsandstæðingar ekki gefið upp ástæðuna ofnæmi (skv. útvarpsfréttinni) og í öðru lagi má það vera andskoti mikið og illvígt ofnæmi ef ekki má teyma einn hund, sem er augljóslega ekki gæludýr heldur mikilvægt hjálpartæki, gegnum hluta af sameign í blokk. Miðað við að Akranes er löðrandi í hundum, á gangstéttum og göngustígum, jafnvel lausum, geta svo fárveikir ofnæmissjúklingar (ef um ofnæmi er að ræða) náttúrlega ekki farið út úr húsi nema eiga á hættu alvarlegt lost!

Nei, ég hugsa að einhver í familíunni sé með alvarlega fóbíu fyrir hundum. Það er náttúrlega erfitt vandamál (veit allt um ofsakvíða og fóbíur, bilíf mí!) en lausnin er að sjálfsögðu ekki sú að fjarlægja fóbíuvakann – það vita allir! Ef þetta skyldi vera ástæðan þá kvóta ég færsluna til öryggis undir geðheilsuflokkinn. Og er tilbúin að segja fóbískum hvar leita megi hjálpar.

Sé hvorki um ofnæmi né felmtursröskun af því að vita af hundi að ræða þá stendur eftir eina skýringin: Að þarna sé einfaldlega sérstaklega geðvont fólk sem ekki þolir að horfa upp á æðrulausa veika konu fá aðstoð og aukin lífsgæði. Fullkomin manneskja mundi vorkenna svoleiðis liði en ég er því miður ennþá frekar ófullkomin.