Author Archives: Harpa

Myndir úr Krítarreisu

Jæja, þá erum við komin heim úr mánaðarferð til Krítar. (Og ég er búin að þvo 10 þvottavélar, við búin að ræsta húsið og ég hef árangurslaust reynt að ná öskunni af pallinum mínum og árangursríkt reitt heilan ruslapoka af arfa úr hluta beðanna hér í garðinum!).

Myndir og snubbótt ferðasagan eru á http://this.is/harpa/krit2010/krit2010.html

Svo held ég áfram í hálfgerðu bloggfríi áfram …

Blogg-sumarfrí

Jæja, þá er komið að því! Ég hef ákveðið að taka mér sumarfrí frá bloggi … veit ekki alveg hve langt en sjálfsagt eitthvað fram í júlí. Fyrirliggjandi eru hollir lífshættir og einbeiting að kvíðafræðum – verður spennandi að sjá hvernig ég höndla leikshúsferðina á föstudaginn 😉  Æfingar á tónleikasetu og kvíðanámskeiðið hljóta að skila sér og vonandi heldur ofsakvíðinn sig til hlés.

Hafið það gott í sumar!

Kardimommu-vörnin

Í Kardimommubænum yfirheyrir Bastían bæjarfógeti einn ræningjanna, stendur svo upp og tilkynnir eitthvað á þessa leið: “Já, en hann segist vera góður!”  [Því miður get ég ekki flett upp í Kardimommubænum því verkamaður heimilisins er farinn að sofa og bókin er geymd inni í því herberginu …]

Kannski halda menn að sérstakur saksóknari sé jafn góður og hinn bláeygi Bastían? Halda mattadorarnir og jafnvel ofbeldismenn að þeir séu sjálfir Kasper eða Jesper eða Jónatan? (Bloggynju sýnist t.d. að Björgólfi Thor finnist nóg að “skila Soffíu frænku heim” og þá sé málið dautt …)

Það er a.m.k. doldið skondið að sjá hvern meinta glæponinn eða dæmda glæponinn halda eindregið fram sakleysi sínu í fjölmiðlum; gæsluvarðhald, fangelsi, stefnur og fréttir um siðlausar peningagjafir eru víst allar bara misskilningur. Jafnvel ofbeldi sem á sér nánast ekki hliðstæðu er blásið af og yfirlýst sem misskilningur!

Dæmi um útgefin aflátsbréf á ýmsu formi eru hér á eftir, reyndar dálítið handahófskennt úrval, sem byggðist helst á skásta leitarmöguleikanum, en ætti að gefa nokkra mynd af týpískum meintum glæpamanni, dæmdum eða ódæmdum,  sem “didn’t do it … wasn’t there”.  Ég ímynda mér þessa menn ekki eins og þá indælu ræningja í Kardemommubæ heldur frekar eins og þeir vilja lýsa sér, sjá myndina til hægri …

„Ég er ekki kynferðisbrotamaður og ég er ekki þetta skrímsli sem verið er að lýsa,” segir Bjarki Már Magnússon í samtali við DV í dag. (Til samanburðar er fróðlegt að renna yfir málavexti neðarlega í Hæstaréttardómnum hér.)

“Hr. Jóhannesson hyggst verja sig af fullum krafti gegn ásökunum Glitnis Banka og endurtekur sakleysi sitt gagnvart þessum fölsku staðhæfingum sem lagðar hafa verið fram.” (Yfirlýsing frá Jóni Ásgeiri Jóhannessyni [titill fréttar].)

Magnús Guðmundsson segist saklaus (fréttinni fylgir yfirlýsing Magnúsar).

Björgólfur Thor vill ljúka skuldauppgjöri með sóma (fréttinni fylgir yfirlýsing Björgólfs Thors).

Jón Sigurðsson: Ég hef engin lög brotið.

Lárus Welding harmar málsókn skilanefndar (fréttinni fylgja bútar út yfirlýsingu Lárusar).

“Pálmi Haraldsson, oft kenndur við Fons, hótar að stefna Steinunni Guðbjartsdóttur, formanni slitastjórnar Glitnis, persónulega vegna stefnu slitastjórnar Glitnis á hendur honum…” (úr þessari frétt – einhverjir bútar úr yfirlýsingu Pálma).

Endursögn á lokum Kardimommubæjarins er svona: “Í fangelsinu líkaði rœningjunum svo vel, að þá fór að langa til að gerast heiðarlegir menn . . . Í lok leikritsins kemur svo í ljós hvernig þeir fá tœkifœri til að vinna mikla hetjudáð í Kardemommubœ og eignast marga og góða vini. Allir fá rœningjarnir vinnu við sitt hœfi og eru þeir að lokum orðnir heiðarlegir menn.” (Sjá “Kardemommubærinn – leikrit á hljómplötu“, á Wikipedíu)

Einhvern veginn held ég að þeir náungar sem vitnað er í hér að ofan turnist ekki eins og þeir Kasper, Jesper og Jónatan. Ekki heldur aðrir sem ég sleppti að nefna, ekki einu sinni konur sem hafa óvart brúkað morð fjár, frá “saklausum” eiginmanni eða sem “styrki” í prófkjörsbaráttu o.s.fr. Einhvern veginn held ég að þessu liði sé ekki viðbjargandi. Þótt það haldi því endalaust fram hversu saklaust og hjartahreint það í rauninni sé og hafi meira að segja selveste Bubba með sér í liði 😉

P.s. Ég kvótaði færsluna í flokkin “Geðheilsa” en aldrei þessu vant er ég ekki að efast neitt um eigin geðheilsu þegar ég hugsa um efni færslunnar.

Vífill teflir við Vífil

Kemst ekki hjá því að vekja athygli á frábærri mynd Mána, sjá mynd dagsins á lason.is eða http://www.lason.is/index.php?showimage=22

Glymur o.fl.

Heilsan skánar dag frá degi. Kannski er kraftaverkalyfið loksins eitthvað farið að virka, kannski er þetta árangur kvíðanámskeiðsins, kannski árangur af löngum labbitúrum = æfingum fyrir Krít 😉  Ég nenni ekki að grufla í því en síðustu dagar hafa verið ótrúlega léttbærir miðað við síðustu mánuði!

Við maðurinn höfum í vikunni trítlað út í Innsta-Vogsnes … maðurinn myndaði fugla en ég skoðaði fjörur; Bæði hæstánægð með sína iðju. Svo gengum við “á Akrafjall” á uppstigningardag, reyndar bara upp í Berjadalinn og að brú Rótarý-manna, sem ég skoðaði af hæfilegri aðdáun. Fannst rétt að láta Háahnúk bíða aðeins en tel mig reyndar alveg færa í svoleiðis göngu núna. Ætli við drífum hana ekki af í næstu viku ef verður sæmilega léttskýjað einhvern daginn.

Í gær mæltum við okkur mót við Mána og hittumst á leiðinni upp að Glym. Ég hef aldrei áður gengið þessa leið og eftir að hafa lagt saman í huganum þær vegleysur upp og niður gil sem við maðurinn gengum á leiðinni uppeftir reiknast mér svo til að samanlagt séu þær á við Háahnúk, bæði í hækkun (og lækkun) og lengdarmetrum. Opinbera leiðin, til baka, var náttúrlega bara pís-of-keik. Að vísu stenst “göngubrúin” yfir Botnsá engan veginn samanburð við Rótarý-brúna yfir Berjadalsá!

Tók nokkrar myndir á litlu bleiku ódýru myndavélina, án þess að finna fyrir minnimáttarkennd vegna græja karlmannanna. Myndirnar eru hér.

Planið í dag er að sjá efsta mann á lista VG baka vöfflur og þiggja af honum veitingar. Maðurinn getur ekki hugsað sér að fara á svo vinstrisinnaða samkomu. Ég hef ekki orðið vör við að hægra liðið geri neitt annað til lokkunar en gefa unglingum bjór til að lokka þá í Félag ungra sjálfstæðismanna … hvað mér finnst bera vott um skítlegt eðli. (Þessi síðasta málsgrein kann að afla mér einhverra kommenta 😉

Brain is pain

Lærði þennan frasa á kvíðanámskeiðinu áðan – helv. fínn frasi! Skýrir margt 😉  Ég verð æ ánægðari með þetta námskeið og eygi loksins von um að geta gert eitthvað sjálf til að mér batni eitthvað. Það er náttúrlega undir því komið hversu dugleg ég verð að nýta ýmis ráð og æfingar, sem er vel að merkja meir en að segja það en sennilega ekkert verra en halda út líkamsræktarnámskeið (sem mér hefur reyndar gengið bölvanlega að tolla á, til þessa). Meðan meinta kraftarverkalyfið virkar álíka og Vígðalaug við nærsýni er eins gott að grípa hvaða góð ráð sem gefast.

Ég var sama sem hætt við að fara til þurrabúðarinnar í dag, leið ömurlega, en ákvað að taka mig til, fara út á strætóstöð og hætta við þar, ef ég væri enn á valdi hörmunganna. Þetta trikk dugði og ég er æðislega fegin enda líður mér margfalt betur eftir námskeiðstímana í dag. Af hverju eru ekki höfð svona námskeið inni á geðdeild? (Eða bara einhver námskeið?)

Hef ákveðið að horfa á Poirot í kvöld og lesa Örvæntingarfull í Odessa, sem lofar ljómandi góðu, þrátt fyrir að vera flokkuð sem chick-bókmenntir (sá þá flokkun í einhverri dagblaðsumsögn … er komin með “stelpu-bækur” upp í kok eftir ofskömmtun af Sophie Kinsella … en úkraínska umhverfið er mun skemmtilegra só-far).

Geðdeildir og fordómar í tilefni glæsilegs viðtals

Aldrei þessu vant horfði ég á Ísland í dag (hef annars fyrir reglu að forðast umgengni við fyrirtæki sem Jón Ásgeir og familía eiga) – tilefnið var viðtal við Láru K Brynjólfsdóttur, sem ég frétti af af einskærri tilviljun. Í stuttu máli sagt fannst mér Láru (sem ég þekki ekki neitt) mælast einstaklega vel en það setti að mér hroll við sumar lýsingarnar, eins og að sjálfsvígskandidötum sé fleygt í fangaklefa hafi þeir ekki tímasett sjálfsvígið á skrifstofutíma! Á hvaða öld lifum við?

Ég hef enga reynslu af B-gangi 33 C en rengi hennar frásagnir alls ekki – kannast auk þess við sumt annað sem hún lýsti eins og t.d. afskiptaleysi hjúkrunarfólks og áhugaleysi þótt ég hafi einstaka sinnum dvalið á annarri deild. Auðvitað á þetta alls ekki við um alla en því miður suma. Mín reynsla er líka hreint ekki eins krassandi og reynsla Láru … var meira sem áhorfandi að gutli í vinnunni, sem á þeim tíma snerti mig ekki sérlega mikið. Eftir á séð er samt undarlegt að aðalsamskiptin og aðalþerapían á geðdeild skuli hafa verið sjúklinganna á milli og jafnvel sjúklinganna sjálfra að leiðrétta ranghugmyndir starfsfólks.  Mætti bera þetta saman við kennslu:  Einstaka kennara er skítsama um nemendur en langflestir reyna sitt besta til að skila hverjum og einum nemanda aðeins áleiðis, sumir kennarar leggja á sig ómælda vinnu til þess. Sama finnst mér að ætti að gilda um hjúkkur á geðdeild, jafnvel aðra starfsmenn einnig. Í kennslu er návígið það mikið að þeir kennarar sem nenna ekki vinnunni sinni hrökklast nú oftast úr starfi. Veit ekki með geðdeild.

Mjög lýsandi dæmi, að mínu mati, er þetta sem Lára skrifar á bloggið sitt:

Hérna er ein gullinn settning sem starfsmaður spítalans sagði við mig daginn eftir sjálfsvígtilraun mína   : þegar fávitum fer að fjölga í kringum þig er þá ekki komin tími til að líta í eigin barm:  Þetta er ástæðan fyrir því að mér finnst að fagaðilar eigi að vinna á spítala, þessi einstaklingur sem lét þessi orð frá sér hefur ekkert lært um geðræn vandamál en vinnur samt hvað nánast með okkur sjúklingunum….. þarna er hann að gera lítið úr mér og mínum sjúkdóm.” (Sjá “Það sem betur má fara”, 09. maí 2010 klukkan 14:17, http://girlinterrupted.bloggar.is/gagnasafn/2010/05/)

Frasinn “Þegar fíflunum fjölgar í kringum mann er kominn tími til að líta í eigin barm” er einmitt einn af þeim vinsælli í nafnleyndu alka-samtökunum. Einhvern tíma heyrði ég (kann að vera rangt) að starfsmenn á geðdeild mættu ekki hafa legið á geðdeild áður. En það er kannski kominn tími til að setja einnig þau skilyrði að starfsmenn hafi ekki farið í áfengismeðferð til að tryggja að ófaglærðir (og faglærðir) séu ekki að sinna geðsjúku fólki út frá eigin talibanatrúboðshugsjón eða þeirri einu lífsleikniaðferð sem þeir hafa lært (góð aðferð við alkóhólisma, meðvirkni meðtalin, en gagnast náttúrlega ekki á alla aðra sjúkdóma!). Ég hef það nefnilega á tilfinningunni (er kannski svona paranojuð og þá búin að vera lengi) að sumt staffið á geðdeild sé óhóflega hallt undir alkafrasa og að AA-hugmyndafræðin leysi allan vanda.

Til samanburðar: Finnst einhverjum eðlilegt að starfsmaður kvensjúkdómadeildar segði eitthvað álíka við konu sem hefur misst fóstur, er vart mönnum sinnandi og segir ýmislegt vanhugsað í þeirri hugaræsingu? Af samanburði (enda hef ég talsverða reynslu af hvoru tveggja) er líðanin enn verri í þunglyndi og kvíða og auðvitað ætti maður að gera ráð fyrir að starfsmaður á geðdeild stæði sig eins og manneskja en ekki eins og frík, undir slíkum kringumstæðum. 

[Sem minnir mig á að mig hefur undanfarið blóðlangað að segja við næsta AA mann sem kvartar undan kvefpest: Ja, þú hefur bara ekki unnið sporin nógu vel!  En þetta er náttúrlega útúrdúr og sýnir eingöngu tíkarlegt innræti bloggynju 😉 ]

Það sem ég man skást af síðustu geðdeildarvist var að eftir hræðilega helgi, þar sem mér leið ólýsanlega illa en hélt fésinu því mér er illa við að gráta fyrir framan aðra og fékk margar heimsóknir þessa helgi, var það samdóma álit staffsins, aðallega hjúkrunarkvenna ef ég man rétt  (á einhverjum mínímalískum fundi) að mér hefði bara hreint liðið prýðilega og verið kát og hress þessa helgi. Só möts fyrir innsæið í sjúkdóminn eða bara þekkingu byggða á reynslu. Ég man að mér þótti ég algerlega svikin og efaðist náttúrlega um eigin geðheilsu (kannski rétti staðurinn til þess, ég viðurkenni það); Af hverju leið mér eins og mig langaði að deyja þegar sérmenntaða fólkið taldi mig káta og hressa? Vantaði bara að það segði að það væri ekkert að mér! Þegar ég andmælti þessu samdóma áliti var eins og málið væri að láta mig éta andmælin ofan í mig … í minningunni er þetta eins og ég væri orðin króuð af úti í horni, gott ef ekki upp við þvottavél, og læknirinn spurði hvort ég teldi mig betur geta metið eigið hugarástand en sérmenntað starfsfólk! Ég fór auðvitað að hágráta þegar ekki einu sinni hann trúði mér! Núna, þegar ég skrifa þetta, finn ég hvað ég er ennþá ofboðslega reið en á þessum tíma gat ég auðvitað ekki borið hönd yfir höfuð mér, nema kannski með tíkarlegu sparki undir beltisstað, sem ég iðraðist síðar mjög.

Svoleiðis að nú vil ég allt til vinna til að lenda ekki inn á geðdeild. Það er brjálæðislegur hávaði í sjónvarpi þar alla daga, bækurnar eru í alvöru við það að grotna í sundur og það er alveg satt sem Lára segir að læknir eða sálfræðingur sinnir manni svona 5 mínútur á dag en annars geta sjúklingarnir bara átt sig og reynt að hafa hver ofan af fyrir öðrum. Margar konur eru betur settar því þær geta þó prjónað en karlarnir verða bara að ráfa stefnulaust um. Fönduraðstaðan á minni deild fólst einkum í því að mála á gifs-styttur og var opin eitthvað um 2 tíma á dag nema þegar föndurkonan var veik. Þarna er engin sérstök batadagskrá í gangi, fræðsla um geðsjúkdóma eða uppbyggingarstarf  nema örsjaldan (prestur einu sinni í viku, tónlistarþerapía í mýflugumynd o.s.fr.) Sem betur fer reyki ég og það bjargaði dögunum að fara út til að reykja. Geðdeild er í rauninni afar reykingahvetjandi. Hápunktar dagsins voru matartímar (það er a.m.k. eitthvað um að vera) en því miður er spítalamatur nánast óætur.

Ég lagðist fyrst inn á geðdeild 1998, á A-ganginn á deildinni sem Lára lýsir, og þar var akkúrat sama sagan þá. Þannig að ég held að afskiptaleysi gagnvart sjúklingum, jafnvel hunsun, hafi ekkert með fjárveitingar að gera. Í lok síðasta árs sýndist mér að geðdeildin hin væri það vel mönnuð að starfsfólk væri álíka margt, jafnvel fleira, en sjúklingarnir.

Það sem kannski gæti lagað geðdeildir einna mest er að starfsfólkið lærði (t.d. á námskeiðum) að bera virðingu fyrir sjúklingunum, byggða á þekkingu á geðsjúkdómum. Sjúklingarnir völdu nefnilega ekki að vera svona veikir eða geta ekki hagað sér eins og Dorrit í teboði alla daga. Alveg eins og kennarar eiga að sýna nemendum virðingu byggða á skilningi þótt þeir séu á einhvern hátt fatlaðir eða ekki námsmenn par excellance. Ég vorkenni hjúkkum ekki neitt að sýna sjúklingum umhyggju og alúð, frekar en kennurum að vera almennilegir við nemendur sína. Báðar stéttir eru menntafólk en það að hafa klárað nokkur ár í háskóla gefur fólki ekki leyfi til að niðurlægja skjólstæðinga sína, hvorki á spítölum eða í skóla.

Af mér er annars það að frétta að mér batnar ekki hætis hót af hinu nýja kraftaverkalyfi … en úr því það á að vera svona mikið kraftaverkalyf er best að fullreyna áður en því er hent. Marga daga líður mér djöfullega. Ég er t.d. örugglega alltof veik til að höndla geðdeildarvist í augnablikinu. Aftur á móti er talsverður ávinningur af kvíðanámskeiðinu sem ég sæki einu sinni í viku, þar læri ég margt nytsamlegt en er ekki nærri nógu dugleg að æfa mig milli tíma. Leiðbeinendur á því námskeiði eru yndislegir og klárir og skipulagðir og tala aldrei niður til nokkurs þátttakanda.

Og svo er ég byrjuð að skoða grískar eyjar og strendur og ferjusiglingar milli staða og svoleiðis … Það er ljúft!

Kaupþing líka næst og menningarlegt

Á þessum síðustu og verstu tímum er huggulegt að lesa hrós um Kaupþing, sjá upplýsingasíðu Heimis Pálssonar, lektors í norrænum málum í Uppsölum:

“Som lektor i nordiska språk, särskilt isländska, här i Uppsala betraktar jag mig som ettslags kulturambassadör. Därför tar jag gärna del i evenement där det är fråga om isländsk kultur. Det har gjort mitt jobb här mycket lättare (och roligare) att Kaupthing Bank donerade ungf. 100.000 SEK till lärosätet, och därför har jag kunnat aktivt bidra till isländska kulturprogram i Uppsala (och Stockholm).”

Þessi klausa er ekki yngri en frá 2008 (skv. uppfærsludags. á síðunni)  og minnir óneitanlega doldið á klappstýrutakta sem þá tíðkuðust. Spurning hins vegar hversu smekklegt það var að þiggja svona styrk?

En eitthvað þurfti jú að spreða fénu sem hrúgaðist upp með mismunandi ólöglegum hætti … og kannski ágætt að nota smáaurana  gera starf háskólakennara léttara og skemmtilegra.  

Tek skýrt fram í þessu sambandi að ég kann ágætlega við Heimi Pálsson og tel hann fullfæran um að halda á lofti íslenskri menningu, styrkjalausan. 

this.is/harpa

Ég var orðin svo leið á andlausu kennsluefnispúli og langaði í eitthvað skapandi … svo ég eyddi hellings tíma í að hanna skel fyrir persónulega heimasíðu mína. Sjá má afraksturinn á this.is/harpa og ég tek fram að ég reyndi að vera eins feminín í hönnuninni og ég gat. Byrjaði með grunnsíðu, sótta af netinu, en endaði á að skrifa megnið í Notepad og hefði sennilega verið fljótari að nota bara Netscape og Notepad eins og venjulega.

En þetta verður sumsé staðurinn fyrir áhugamál, s.s. hannyrðir (stafrænar og unnar á höndum), myndir og alls kyns persónulegt stöff í framtíðinni – skil einungis kennsluefnið eftir á fva-servernum. Að greiða úr og uppfæra fjölda vefja er hellings vinna og ég reikna ekki með að því verki ljúki fyrr en einhvern tíma seint í haust.

Vinnan (verkefnið styrkta)

Ég var að klára að endurvefa Njálu-síðu úr “bits & pieces”, sjá http://www.fva.is/harpa/njala/njalmenu.htm.  Hefur tekið viku! Sama má segja um uppfærslu á Agli í Sýberíu en Laxdæla var minna mál.

Svo er Laxness-stöffið meira og minna endurskipulagt og jafnvel endursamið … Þeir sem ætla að sjá Íslandsklukkuna ættu að renna yfir þann vef, sér til upprifjunar. Má meira að segja taka próf 😉

 Annað er sosum ekki títt – lífið lufsast áfram í hægagangi og svona frekar kalt og dimmt umhverfis mig. Rakst þó á þann óvænta plús við tóbaksneyslu að Stanley karlinn (sjá upptalningu á ferðasögum í síðustu færslu) telur að holdsveiki í Færeyjum hafi stórminnkað með aukinni tóbaksnotkun! Er hugsanlegt að yfirfæra þetta á “ástandið í þjóðfélaginu í dag”, þ.e.a.s. að brúkun tóbaks og sjaldgæfi holdsveiki hangi enn saman?