Ef ég passa mig undurvel verður þessi dagur ekki svo slæmur. Ég splæsti á mig heilli svefntöflu í gærkvöldi og náði því að sofna og sofa í átta tíma. Auk þess náði ég klukkutíma blundi núna áðan með velheppnaðri hugartæmingu og hjartsláttarhægingu. Í hvert sinn sem ég næ að sofna aðeins bráir svolítið af mér og ég er nokk normal fyrst á eftir. Þetta er lang áhrifamesta endurræsing miðtaugakerfis sem ég veit um. Svo held ég að ég sé hvort sem er flesta daga örmagna því stöðugur kvíði er afar orkufrekur … líkast til er hjarta og allskonar líkamsstarfsemi í álíka aksjón og í tækjasal, þótt setið sé kjur.
Í gær tókst mér að komast gegnum daginn með því ómerkilega trixi að splæsa saman glærusjó. Ég var of lasin til að sauma (þá hugsar maður á meðan), lestur var algerlega út úr myndinnni, hvað þá “hreyfing úti í góða veðrinu”, en klastur við glærur fól í sér að samræma leturgerðir, klippa og líma, sem var hæfilega andlaus handavinna, þó með lágmarks eftirtekt, sem reddaði lunganum af deginum.
Í dag er svipað í gangi, þ.e. að snara krossaprófum yfir í gagnvirkt form. Álíka andlaust og lágmarks eftirtekt. Og ég þarf hvort sem er að vinna þessa vinnu í uppfærslu og tiltekt kennsluvefja.
Mér fannst ég dugleg að fara á fund í morgun, í nafnleysingjafélaginu, en hef fallið frá þeirri hugmynd að æfa mig í bíó í kvöld; hef ekki nokkurn áhuga á amrísku unglingamyndinni sem verður sýnd en datt í hug – snemma í vikunni – að ég þyrfti að æfa mig í ofsakvíðakastshöndlun, áður en ég fer í leikhús fljótlega. Núna er ég á því að ég sé of lasin í ekta general-ofsakvíðaprufu. Verð að höndla sýningu á Íslandsklukkunni einhvern veginn öðru vísi. (Kannski gerir hönd guðs mig ofsakvíðalausa það kvöld? Maður veit sosum aldrei 😉
—
Það litla sem ég les þessa dagana (ef lestur skyldi kalla) eru ferðabækur ríkra Englendinga, sem flöndruðu um hið afskekkta Ísland á síðustu öldum. Kláraði Dagbók í Íslandsferð 1810 (e. Holland) nýverið, í gærkvöldi skoðaði ég bara myndir úr Íslandsferð Mayers 1836 en byrjaði svo á Íslandsleiðangri Stanleys 1789 núna áðan. Fordómarnir sem birtast í þessum bókum eru afar heillandi ósvífnir og hæfilega fjarlægir í tíma og rúmi. Auk þess gerir ekkert til að gleyma á milli lestra; það er hvort sem er enginn söguþráður í svona bókum og vandséð að ég þurfi nokkru sinni að kunna nein skil á þessum “fræðum”.