Author Archives: Harpa

Dútl um dagana

Vinnufélagi minn spurði mig, áhyggjufullur á svip, hvort ég fyndi mér eitthvað til að gera hér heima. (Kannski er þetta oftúlkun á svip og orðum vinnufélagans … en ég skildi þetta svona.)  Ég skil reyndar manna best að fólk telji vinnu æðsta og hafi áhyggjur af fólki sem ekki stundar slíka og eyðir í hana sinni mestu orku. Enda hefur stór hluti veikindaleyfis farið í að sætta sig við líf án þátttöku á vinnumarkaði (vonandi tímabundna fjarveru).

Málið er samt að mér leiðist alls ekki. Blessunarlega á ég mörg áhugamál og tekst ótrúlega vel að fylla dagana með iðkun þeirra … stundum duga dagarnir ekki í allt það sem mig langar að gera. Hér skal tekið fram að það er einungis rúmur mánuður liðinn frá því mig byrjaði beinlínis að langa eitthvað.

Á hverjum degi þarf ég helst að spila soldið á mitt pjanóforte; sauma í Scheving og hlusta á rás 1; hlusta á tónlist (er núna heit fyrir Vreeswijk-lögum, t.d. þessu); gramsa á Vefnum; lesa (er núna með Þegar kóngur kom í takinu og finnst hún meiriháttar frábær!); prjóna Möbíus (að endanlegri atrennu að herðaslái lokinni taka við tvær peysur sem á að klára) o.fl.. Auk þess þarf ég að fara út að labba einu sinni á dag og hitta eitthvert annað fólk en Atla og köttinn (álitamál hvort þau eru bæði fólk en bæði eru ákaflega skáldmælt).

Þetta vefst svo allt saman svoleiðis að ég hangi á Vefnum finnandi efni sem tengist hinu dótinu. Má nefna að ég fann Sonju-nótur í austurrískri fornbókaverslun og pantaði um helgina, ég datt svo í að skanna allt efnið í Sæmundi fróða Jóns Hjaltalín, til að gá hvort vitnað sé í kanadískan tannlækni um að fótaböð komi í veg fyrir tannpínu. Í Sæmundi fróða er áhugavert efni um Húsapótek og saga hörmunga í tíðarfari, sem ég á eftir að lesa en líst vel á. [Ég fékk svo líka nótur af Sonju sendar frá einum dyggum lesanda og þakka kærlega fyrir þær! Segið svo að borgi sig ekki að blogga! Nú vantar mig varíasjónir Merikantos um Mustalainen, þ.e. Til eru fræ …]

Áhugi á hjálækningum fyrri alda er mikill og má því til sönnunar sýna þetta brot þar sem útlistað er hvernig megi bæta minni. Veit ekki hvort ég prófa uppskriftina einhvern tíma. Líklega er betra að bera þetta undir sinn góða lækni fyrst …

Við minne, Tak salltpetur og mil vel, og meinga við vyn, og dreck þar af, það það mún gióra gott minne.

(Sjá JS 227 8vo, s. 67v á handrit.is.)

Þáskildagatíð

Tilefni færslunnar er feikigott viðtal við Erling Sigurðarson og Sigríði Stefánsdóttur í mogganum (mannsins) í dag (s. 14 – 17 í sunnudagskálfinum). Þar segir Sigríður: “Maður getur ekki lifað í þáskildagatíð; það þýðir ekki að hugsa um í hvaða sporum við værum ef þetta hefði ekki gerst.” Frasinn / spakmælið hringlaði í kúpunni og ég held ég hafi heyrt það áður. Þetta er afskaplega vel heppnaður frasi, sem ég er alveg sammála. Hvað þýðir að ergja sig yfir orðnum hlut eða sökkva sér í vangaveltur um hvernig lífið hefði getað orðið ef eitthvað hefði ekki orðið? Nei, þá er nú betra að halda sig í deginum í dag! Mér finnst ég hafa fengið nokkuð góða æfingu í þeirri lífspeki og mæli með henni. En ég þekki alveg fólk sem lifir í þáskildagatíð.

Stundum vilja þáskildagatíðarsinnar mjög beita sinni speki á aðra. Dugir hér að vísa til einkenna hemúla, skv. Muminpappans Bravader skrivna av Honom Själv þar sem segir:

“En hemul har hemskt stora fötter och ingen humor, förklarade jag [muminpappan]. Näsan är lite tillplattad och håret växer i obestämda tottar. En hemul gör ingenting därför att det är roligt, utan bara för att det borde göras, och berättar hela tiden för en vad man själv borde ha gjort och … “(Muminpapappans Bravader [1950] 1961: 16)

Ég reikna með að flestir þekki einmitt hemúla sem vita óspart hvernig aðrir hefðu átt að haga sér. Svoleiðis skyldurækin þáskildagatíð er kannski enn verri lífspeki en sú sem sumir lifa sjálfir í … eða hvað? (Ég er ekki frá því stundum detti bloggynja sjálf í hemúlafarið.)

Af daufu bergmáli þáskildagatíðarfrasans kviknuðu minningar um aðra frasa, flesta ættaða úr AA eða meðvirknifræðum. Í viðtalinu sem ég nefndi í upphafi kemur einmitt fyrir uppáhaldsfrasi Al-anon nú um stundir, að ég held: “Eymd er valkostur”.  Ég hef reyndar ýmislegt við þennan að athuga en hugga mig við það að hann er sennilega ekki hugsaður út frá eigin þunglyndi. Skárri er þessi: Maður velur “að hanga í harminum”. Þennan má líka brúka á þunglyndi því hann gerir ráð fyrir að harmurinn sé kannski ekki óumflýjanlegur, hins vegar sé hægt að kjósa leið fram hjá honum eða a.m.k. að sleppa því að velta sér beinlínis upp úr honum.

Stundum hefur mér flogið í hug að meðvirknifrasar ýmsir séu dulinn mega-áhrifavaldur á íslenskt mál. Ef gengið er út frá tölulegum upplýsingum SÁÁ, þar sem beinlínis virðist mælast að 25% karlmanna í árgangi leiti í meðferð fyrir fimmtugt og ef gert er ráð fyrir að einhverjir aðstandendur hvers þeirra leiti sér aðstoðar – þá er ótrúlega stór hluti þjóðarinnar innanborðs í fíknar- eða meðvirknisamtökum. Svo ekki sé talað um alla þá allskonar meðvirkni sem rúmast innan CODA.  Vegna nafnleyndar fer þetta hins vegar ekki hátt. Mér vitanlega hefur enginn skoðað áhrif beinna þýðinga úr amrískum meðvirkni-bókum á málfar en ég held að þau gætu verið töluverð.

Má taka sem dæmi “Góðir hlutir gerast hægt”. Þessi frasi fór óendanlega í taugarnar á mér fyrir meir en áratug. En málvöndunarsinnar innan AA hafa lagt sig í líma við að brúka heldur “Með hægðinni hefst það” sem hugnast mér miklu betur. Væri spennandi að vita hvort fyrrnefndi frasinn höfði einkum til aðstandenda og hinn síðarnefndi til óvirkra alkóhólista … ég hef á tilfinningunni að svo sé en hef svo sem ekkert annað fyrir mér.

Áhrif páskaeggjamálshátta minnka ár frá ári!

P.S. Kann að gleðja einhverja dygga lesendur að bloggynja er í miklum heilastarfsemibata: Ég rúllaði upp sunnudagskrossgátunni á engri stund!

Samtíningur

érna áðan (málsgreinin byrjar svona svo ég geti notað upphafsstafinn!) settist bloggynja við tölvu sína og gramsaði hér og þar. Afraksturinn var annars vegar sá að ég fann Stjórn á stafrænu formi; reyndar er upplausnin á myndunum alveg hroðalega lág og kostar mikla vinnu að sansa þær svo hægt sé að lesa eða sjá lýsingu (skreytingu) almennilega. Hannyrðakonur og aðrir áhugamenn geta sumsé farið á Stafrænt handritasafn Árnastofnunar, fundið þar AM 227 fol og smellt á Skoða. Leit á handrit.is og Sagnaneti skilaði aftur á móti engum niðurstöðum. Þrátt fyrir þessa annmarka gleðst ég yfir þó þessum möguleika.

Öllu merkilegra þótti mér að hafa upp á laginu um hana Sonju! Ég hef bara heyrt það með norskum / dönskum texta; “Sonja, Sonja / Stjerneøjne har du / som i mørket brenner i mit sind / alle mine drømmes dronning var du / ? ” … síðar í kvæðinu, eftir að mælandi hefur rekið vin sinn í gegn, endar viðlagið á “Sonja, Sonja, jeg forbanner dig”. Þetta er eldgamalt dægurlag sem amma spilaði flott á sitt Hornung & Møller pjanóforte og söng með. Fyrir mörgum árum komst ég að því að Ólafur frá Mosfelli hafði sungið þennan sniftara, í íslenskri þýðingu, inn á plötu. E.t.v. er það platan sem talað er um hér. Ég þarf að skoða þetta betur.

En sem sagt fann ég lagið um hinu svikulu Sonju, á serbó-króatísku (!). Reikna þar með að þetta blessaða lag sé austur-evrópskt þjóðlag sem á tímabili hafi verið álíka mikill slagari og “Eitt sinn einn ég gekk / yfir Rauða torg” eða “Svörtu augun” eða einhver rússnesk / austur-evrópsk þjóðlög önnur. Soldið undarlegt að læra textann á norsku (dönsku). Héðan má hlaða þessum sorgarsöng niður. Hér má hlusta á útgáfu á You Tube. (Afskaplega róandi að hlusta á þetta meðan maður bloggar.)  Hér er textinn á serbó-króatísku.

Þetta hefur náttúrlega tekið tímann sinn … en guði sé lof fyrir Vefinn!

Annað er svo sem ekki títt nema í áætlun er að kaupa næturljós fyrir köttinn. Já, ég veit að í fornum ritum segir að köttur hafi sjón svo skarpa að hún kljúfi myrkur … þetta hefur Jósefína sagt mér … en þótt Fr. Dietrich kljúfi myrkur með augnaráðinu breytir það ekki því að hún er skíthrædd við sama myrkur. Þess vegna sefur hún jafnan í gluggakistunni í svefnherberginu því handan götunnar skína bæði götuljós og öryggisljós á FVA og er þetta líklega bjartasti gluggi hússins að næturlagi. Maðurinn og ég teljum að annað hvort sé Jósefína myrkfælin að eðlisfari eða hér í íbúðinni sé slæðingur sem aðeins hún verði vör við – af því hún er svo næm, þessi elska. Til að losna við að kötturinn vekji okkur á nóttunni, skelfingu lostinn, er líklegast rétt að nota sama ráð og á myrkfælna krakka.

Ég veit að Jósefínu dreymir um að líta út eins og kattarrófan á myndinni til hægri.

Jósefína horfir á heiminn

Fyrst vill bloggynja taka fram að Möbíusinn úr færeyska ullargarninu smellpassar eftir að hafa farið á 60° straufrítt í vélinni og látið pressa sig. Sjá litlu montmyndirnar sem linka í stærri montmyndir.

Ég innvígði tvær konur í merkisheim Möbíusarprjóns í dag og gekk það ótrúlega vel, sérstaklega þegar tekið er tillit til þess að sjálf þarf ég að hugsa mig um til að vita hvor höndin (á mér) er sú hægri (veit að hin höndin er þá vinstri hönd) og á þess vegna erfitt með að leiðbeina öðrum nema máta allt við mig jafnóðum.

Þótt bloggynja hefði það huggulegt í dag verður ekki það sama sagt um aumingja kattarrófuna! Laust eftir hádegi heyrðist kall mikillar kveinunnar, óps og ýlfrunar; Hafði þá litla ljósið lent í slagsmálum við ótótlegt ógelt fresskvikindi hér úti! Þessi flagari rispaði aumingja Jósefínu í eyrað og stóð kló upp úr hausnum á henni þegar hún kom inn (delinn missti klóslíður!) sem og var feldurinn hennar fagri tættur á einstaka stað. Eftir að hafa gráið hást yfir óréttlætinu og jafnað sig svolítið á teppinu sínu dreif Jósefína sig í vakt-stöðu og hefur af og til kíkt út í rigninguna og slabbið. Heimilisfólk hér telur að litla stýrið hafi hugsað sér að rífa eyrun af helv. fressinu, við fyrsta tækifæri. Bloggynju finnst að mætti rífa af því fleira …

Myndin sýnir Jósefínu horfa á sinn heim og sína baklóð.

Eins og þetta sér ekki nóg upplifelsi fyrir heilan dag í kattarævi … þá vildi svo ömurlega til að eigandi Jósefínu kom heim áðan, útbíuð í hundahárum og lyktandi eins og smalahundur! Auðvitað þarf þessi eigandi að koma sér í sturtu hið bráðasta en sá þó sóma sinn í því að þvo sér umsvifalaust um hendur og skipta út nokkrum fatalufsum; annars væri ólíft í húsinu.

Sem betur fer veit Jósefína ekki ennþá að snoðklippti hundurinn Kubbur er á leiðinni í heimsókn á næstunni. Dýrið er svo mjúkt og snyrtilegt núna að má nota hann sem parkettmoppu. Líklega verður að loka Jósefínu inni í svefnherbergi meðan Kubbur er í heimsókn (svo hún fái ekki taugaáfall) … en svo er auðvitað hætta á að hér verði óíbúðarhæft fyrir eina silkimjúka ráma kisu, heitandi keisaraynjunafni m.m.  …

Myndin sýnir, svo ekki verður um villst, hve kötturinn tónar vel við eldhúsinnréttinguna og einnig hvussu erfitt er fyrir einn kött að nálgast flugurnar skríðandi á eldhúsloftinu!

Draumalandið er Karlalandið!

Ég fatta alls ekki hvað á að virka svona vel í þessari mynd, þ.e.a.s. af hverju fólk á að hrífast af henni; Ömurleg jarðarfarartónlist, tölvubreyttar umhverfismyndir og megnið af viðmælendum karlar – sem vældu nokkurn veginn sama sönginn og tónlistin þannig vel við hæfi. Hvert er pojntið? Á Ísland að verða land stóreygra karla, gjarna eins og barnsrass í framan …  jafnvel um allt höfuðið? Grimmhildurin í myndinni var kvenkyns (iðnaðarráðherra) en “góða” konan var Erla Stefánsdóttir (!!!). Alcoa er væntanlega Ókindin.

Guði sé lof að ég hef ekki lesið bókina. Af hverju kokgleypir fólk þetta?

Sara Lund bjargaði kvöldinu 😉

Scheving og Möbíus

Hannyrðalistirnar í þurrabúðinni virkuðu eins og vítamínsprauta á bloggynju og hefur hún nú druslast til að finna fullt af hálfkláraðri handavinnu og hyggst ljúka henni á árinu! Reyndar tefur Möbíus-prjón svolítið því það er svo ansi þægilegt við sjónvarpið og auk þess gengur bölvanlega að finna hinar réttu stærðir, svo sem sést á meðfylgjandi mynd. Þessi tveir Möbíusar eru á leiðinni í þvottavél, á 60°, og viskum sjá hvort þeir láta sér ekki segjast við þá meðferð. (Þeir eru greinilega of stórir fyrir háls og of litlir fyrir herðar … hvað á maður að gera við svona millistykki? Sennilega var líka heldur ósmart að pressa stykkin …)

Montmyndirnar litlu vísa á stærri útgáfur af sömu myndum.

Eitt af því sem ég dró fram var listaverkið Kýrin Meskalína, byggt á mynd Gunnlaugs Schevings. Ég á ekki von á að verða kærð fyrir höfundarréttarbrot en hannyrðin er samt tvímælalaust svoleiðis brot.  Við alþýðan verðum að brúka svona aðferðir til að eignast okkar Scheving – við vorum aldrei í útrásinni eins og Landsbankinn, sem ég reikna með að eigi upprunalega verkið. Sem sjá má eru ský og landslag dálítið færð í stílinn, sem varð til þess að fræðimaður heimilisins gaf útsaumsmyndinni þetta nafn.

Annað óklárað er t.d. ansi fín hörpudiskapeysa sem má klæðast á sumrin, svört peysufatapeysa (eða byggð á slíkri) sem á að vera grunnur undir tilraun til svindl-baldýringa-æfinga, einn einn áttblaðarósarpúðinn í groddalegan risafléttusaum (í smyrna-stramma) o.s.fr.  Svo sé ég í hendi mér að það megi bjarga hinum fínu en draslkenndu eldhússtólum mannsins með útsaumuðum sessum – t.d. með miðaldamyndum af köttum – og gefst þá frábært tækifæri til að prófa refilsaum.

Staðföst sem ég er mun ég ekki blogga um Ice-eitthvað (stefni á að verða eini bloggari landsins sem ekki hefur tekið þetta mál upp á bloggi). Ég læt duga að vitna í feminu docta þessa heimilis, sem segir í enn óútgefinni stjórnmálasögu sinni, De Historia Politica Islandorum, IV. bindi: “Á þessu stigi málsins kemur vel til greina að éta erlendar samninganefndir og verða þær þar með úr sögunni.” (Dietrich, Jósefína. 2010, s. 897. Bloggynja snaraði úr latínu.) 

Dolfallin yfir fegurð í þurrabúðinni

Í gær skrapp ég til þurrabúðarinnar-handan-Flóans. Segir ekki mikið af þeirri ferð nema ég var svo heppin að fá að koma í heimsókn til Guðrúnar Guðmundsdóttur, höfundar Ævispora (sýningar í Þjóðminjasafni sem ég hvet fólk enn og aftur til að láta ekki fram hjá sér fara!).  Ég er eiginlega ennþá agndofa yfir öllum þessum fallegu listaverkum sem ég skoðaði þar. Meira að segja unglingurinn hreifst með og skoðaði myndir af verkunum yfir reglubundnu pizzuátinu í gærkvöldi. (Á miðvikudagskvöldum er maðurinn af bæ og við hin neyðumst því til að panta skyndibita …) Það þarf talsvert til að hrífa unglinginn svo ég hlýt að hafa afar sannfærandi.

Í strætó á leiðinni heim komu hugmyndir fljúgandi til mín. Ég er enn að vinna úr þeim. Mér datt svo í hug áðan að kannski væri enn sniðugra að ljúka við þau mörgu hálfkláruðu stykki sem ég á, sum byrjuð í næst-næst-síðasta þunglyndiskasti en önnur yngri. Gæti tekið mér elju listakonunnar til fyrirmyndar.

Kærar þakkir fyrir mig!

P.S. til hannyrðakvenna á Skaganum: Ég er búin að skila Íslensku teiknibókinni (bók Björns Th. Björnssonar), bókinni um handritið Stjórn (e. Selmu Jónsdóttur) og bókinni um handrit (e. Jónas Kristjánsson) á Bókasafn Akraness 🙂

P.p.s. Tek fram að ég hélt mig aðallega í 101 Reykjavík og var ánægð með það sem svæðið hafði upp á bjóða.

Hvers virði er nám? Um týndar meistararitgerðir

Ég hvet þá sem skiluðu MA ritgerð til HÍ vorið 2007 að athuga hvort ritgerðin þeirra hefur skilað sér upp á Lbs. Háskólabókasafn og / eða hvort hún er skráð í Gegni! 

Vorönn 2007 notaði ég allar starfandi heilafrumur til að skrifa 15 eininga (30 ECTS) MA ritgerð. Ritgerðin var um ljóðabréf Bjarna Gissurarsonar og var skilað í apríl 2007, í tveimur bindum auk geisladisks með mynd af handritinu sem ég skrifaði upp úr. Sjá má bindi I og bindi II hér.Fyrir þessa ritgerð fékk ég 8,5 sem ég veit ekki hvort þykir hátt eða lágt gefið … gæti jafnvel verið algengasta einkunn fyrir MA ritgerð. Að eigin áliti er þetta kannski fullhá einkunn því grunnvinnan er mjög góð en skortir nokkuð á úrvinnslu enda var ég ekki í neinu standi til slíks og var í rauninni sama hvernig veröldin veltist eða fórst, á ritunartíma. Á dögunum uppgötvaði ég fyrir tilviljun að ritgerðin mín var ekki skráð í Gegni. (Ég var að fletta upp námsritgerðum og datt í hug að gá hvort eitthvert stafrænt efni væri tengt minni eigin ritgerð – en komst sem sagt að því að hún var ekki til! Ég kalla eintök sem læst eru inni á skrifstofu kennara eða eintak geymt í kassa á læstri Bókmenntafræðistofnun Hugvísindadeildar ekki vera sérlega mikið til í þeim heimi sem venjulegt fólk þekkir.)

Þann 22. febrúar sendi ég bréf um þetta til skrifstofu Hugvísindasviðs, deildarforseta Íslensku-og menningardeildar (sem var, að mig minnir, skorarformaður íslenskuskorar þegar ég skilaði ritgerðinni) og sviðsstjóra Þjónustusviðs Landsbókasafns Íslands-Háskólabókasafns. Þótt í svarbréfum vísi hver á annan og enginn axli ábyrgð (álíka og í sögunni, þið munið; Kötturinn sagði: Ekki ég. Hundurinn sagði: Ekki ég …o.s.fr.) mega menn eiga að þeir brugðust skjótt við. Annar leiðbeinandinn minn dreif í að grafa upp eintakið í kassanum á Bókmenntafræðistofnun – hans vegna vona ég að það hafi ekki verið margir kassar sem í þurfti að leita – og afhenti á skrifstofu Hugvísindadeildar með hraði. Hugvísindadeild sendi eintakið upp á Þjóðarbókhlöðu, einnig með hraði, og þar er verið að vinna í að skrá hana inn, eins og skjámyndin úr Gegni, sem ég tók núna áðan, ber með sér. Af því ég reikna ekki með brjálæðislegri eftirspurn eftir þessari ritgerð, sem auk þess hefur ekki exísterað í 3 ár nema í lokuðum fámennum kreðs, get ég svo sem við vel viðbrögðin unað og tel reyndar að tveggja daga afgreiðsla málsins, innan íslensku- og menningardeildar og skrifstofu Hugvísindasviðs, hljóti að vera hraðamet.

Aftur á móti veit ég ekki um hina, hversu happí þeir eru! Skv. upplýsingum í tölvupósti frá sviðsstjóra Þjónustusviðs Landsbókasafns Íslands-Háskólabókasafns virðast, að athuguðu máli, MA ritgerðir þeirra sem útskrifuðust vorið 2007 almennt ekki hafa skilað sér til safnsins. ??? Var þetta að fattast núna? Hvar týndust þessar ritgerðir? Og hvað ætli þær séu margar?

Nú gæti ég auðvitað snúið upp á mig og sagt að mér sé sosum slétt sama hvort þessi ritgerð er skráð eða ekki skráð, aðgengileg sem námsritgerð eða ekki o.s.fr. En mér er reyndar alls ekki sama. Mér finnst það helv. hart að hafa eytt eins misseris fullri vinnu í pródúkt sem er svo bara glutrað niður, einhvers staðar á stuttri gönguleið úr 101 í 107. Mér líður eins og lýst er í þessu ljóði!

Ég veit að ýmis vandkvæði voru á að brúka póst úr HÍ vorið 2007 því þegar ég var orðin mjög langeyg eftir útskriftarskírteini hringdi ég á skrifstofu Nemendaskrár? Heimspekideildar? Og var tjáð að ekki væri hægt að senda slíkt í pósti heldur yrði ég að sækja það sjálf eða fá einhvern í Reykjavík til að sækja fyrir mig skírteinið (guði sé lof að ég bý ekki á Raufarhöfn!). Skýringin var að það væri svo dýrt fyrir HÍ að senda ábyrgðarpóst. Ég reikna því fastlega með að MA ritgerðir hafi verið sendar (eða ekki sendar?) upp á Þjóðarbókhlöðu með öðrum hætti en Íslandspósti. Sem móðir pizzasendils til nokkurra ára hef ég svo sem ekkert á móti því. En öfugt við oss pizzapantendur höfum við MA-ritgerðarhöfundar 2007 ekkert fylgst með pródúktinu enda gert ráð fyrir að slíkt væri í öruggum höndum annarra.

Sem betur fer tók ég aukaeintak til að senda þeirri manneskju sem mér þótti líklegast að myndi lesa þessa ritgerð, hefði a.m.k. mikinn áhuga á honum Bjarna blessuðum. Sú manneskja hefur ekki verið innan vébanda HÍ. Svoleiðis að skrifin í kapp við myrkrið, vorið 2007, voru ekki algerlega út í bláinn og marklaus. Ég gleðst núna yfir þessu. Af því enginn, þ.m.t. leiðbeinendur mínir, matsnefnd, íslenskuskor eða skráningaraðili námsritgerða, tók eftir því að MA ritgerðir vorið 2007 voru aldrei skráðar á Gegni og rötuðu aldrei í hillur Þjóðarbókhlöðu, má ætla að sömu aðilum þyki nú ekki sérlega mikið til slíkra ritgerða koma. Þótt hver og ein sé a.m.k. eins misseris vinna.

Loks vil ég geta þess að enginn þeirra aðila sem ég hef haft samband við út af Ritgerðarhvarfinu mikla hefur látið svo lítið að biðjast afsökunar. Það hlýtur að stafa af því að hver og einn álítur sig einmitt ekki bera sök á þessari handvömm heldur einhvern annan. Væri áhugavert að sjá úttekt á sjálfsmatsskýrslum þessara þeirra aðila sem heyra undir HÍ … það hlýtur að vera gott að hafa svona yfirdrifið sjálfsöryggi, hvort sem um ræðir deild eða svið eða skrifstofu.

Ég ráðlegg eindregið þeim nemendum sem eru að skrifa MA ritgerðir við Hugvísindasvið að fylgjast með því hvort þær rata rétta leið og séu skráðar eða hvort þær lokist eingöngu inni á skrifstofum, jafnvel ofaní kassa!

Jósefína les í fornum ritum

að köttur heiti á latínu Musio en einnegin megi kalla köttinn Cattus, Muricepts, Murilegus og Muscio. Köttur er dýr sem er óvinur músa og hefur sjón svo skarpa að hún klýfur náttmyrkrið. Enn fremur hefur Jósefína lesið að:

“Kötturinn (musio) hlýtur nafn sitt af því að hann ræðst á mús (mus). Sumir segja að kötturinn heiti cattus, dregið af föngun (capture); aðrir að hann heiti cattat (sér) vegna þess að sjón hans er svo skörp (acute) að hún yfirvinnur myrkur.” Jósefína snaraði úr fræðum Ísidórs af Sevilla, sjá tilvísun neðst í þessari færslu. Jósefína ákvað að láta Bartolomaeus Anglicus, svigakarl á sömu síðu, lönd og leið því upptalning hans á eiginleikum kattar endaði svo ansi ógislega. 

(Sjá Miðalda-ókindafræði sem Jósefína fann á Vefnum. Sjá má formóður Jósefínu á myndinni úr Ókindafræðum Harley, frá sirka 1230-1240, þar sem hún hefur einmitt handsamað músina illu. Í Teiknibók Villard de Honnecourt, frá sirka 1230, eru myndir af köttum sem hafa komið sér vel í miðaldaútsaumi eða málun. Sjá nánar um Jósefínu á hennar eigin fésbókarsíðu; Jósefína Dietrich af facebook.com.)

Sést af þessari færslu hve bloggynja, eigandi Jósefínu, er hugmyndasnauð á þessum þriðjudagsmorgni, enda fór dagurinn í gær í að skoða fagrar handritamyndir – íslensk handrit sem leitað var að eru að sjálfsögðu ekki aðgengileg á Vefnum en fullt af útlendum mátti þar finna – og lesa reyfara.

Til hamingju Óli!

Eins og aðrir í mínum litla góða bæ gladdist ég óumræðanlega yfir þeim fréttum að Wernersbræður ættu nú að borga myndarlega sekt fyrir að hafa beitt verulega ósvífnum brögðum svo við lasnir bæjarbúar yrðum tilneyddir til að skipta við þá og einungis þá. Ég er náttúrlega ekkert viss um að téðir Wernersbræður eigi fyrir þessari sekt. Þeir ætla  ekki að greiða hana heldur rekja málið fyrir dómstólum, að sögn. Sennilega ekki ódýrara fyrir þá.

Ég var svo vitlaus (má rökstyðja að það hafi ég verið bókstaflega) að skipta við Lyf og heilsu hér áður fyrr enda nánast  í næsta húsi. En þegar Ólafur Adolfsson óskaði W.bræðrum til hamingju með opnun lágvöruapóteksins síns, í heilsíðuauglýsingu (um áramótin síðustu?), hætti ég umsvifalaust að skipta við það apótek nema rétt kaupa eyrnatappa í neyð eða fótleggjavax þegar bráð nauðsyn bar til. Eftir að hafa skoðað úrskurð Samkeppniseftirlitsins hef ég ákveðið að kaupa ekki einu sinni eyrnatappa framar af Apótekaranum heldur versla eingöngu við Apótek Vesturlands. (Verst að ég skuli orðin þó þetta frísk og pillunum hafi fækkað svo mjög … en maður veit aldrei hvað verður. Það er náttúrlega fúlt að hitta ekki meir þær góðu afgreiðslukonur í Apótekaranum … Á hinn bóginn mun labbitúr upp í sveit gera mér gott og vonandi gefast sem flestar ferðirnar uppeftir.)

Í tilefni þessa paufaðist ég í morgun, í ófærðinni, upp í mýri þar sem Apótek Vesturlands er staðsett og kunni ekki við að kaupa dót undir fimmþúsundkallinum, þess vegna eignaðist Jósefína þennan fína bursta og ég krem o.s.fl., þótt mig vantaði bara eitt snitti af öðru. Ég horfði vorkunnaraugum á vesalings fólkið sem verður að versla í Bónus (í sama húsi) – sem betur fer þarf ég ekki að skipta við þá Bónusfeðga og hef reyndar ekki gert frá því þeir byggðu sér huggulegt útibú í útjaðri míns góða bæjar. Nei, þá er nú betra að halda sig við Einarsbúð, eins og almennilegur Skagamaður!

Mér vitanlega er Ólafur Adolfsson, eigandi Apóteks Vesturlands, úr Ólafsvík. En hann er óneitanlega Skagamaður núna, Vestlendingur ársins 2009, og fyrrum ÍA fótboltastjarna! Þarf að segja meira? Árás á þennan lyfsala er í rauninni árás á fótboltamann í okkar liði … og hér í mínum litla góða bæ hafa menn fótbolta fyrir guðið sitt, hvað sem þeir nú kunna að gera á Snæfellsnesi. Þetta hefðu þeir Steingrímur og Karl átt að fatta.

Annað er sosum ekki títt. Við maðurinn fórum á tónleika í gærkvöldi … mjög huggulegir og reyndar einnig bráðfyndnir tónleikar Kammerkórs Akraness ásamt hliðargrúppum sem “írska” hljómsveitin (The Beginners?  Held hún heiti það.) endaði.

Krakkarnir í götunni eru hamingjusamir í snjónum en kettirnir í götunni eru ekki sama sinnis. Vesalings Jósefínu blöskrar þetta blauta kalda ódó og verður að halda sig meira og minna inni. Annað en hundar sem láta siga sér nánast út í hvaða veður sem er! Maðurinn horfði á Gunnhildi litlu af Hjarðarholtinu steypa sér út um gluggann sinn í morgun … og beint ofan í skafl! Aumingja Gunnhildur.

Ég er búin að lesa Stóru kattabókina og sé nú betur hvernig kötturinn fer að því að temja fólkið sitt. Svo kláraði ég líka Svörtuloft, svona la-la bók en mér finnst Sigurður Óli algerlega óþolandi karakter, minnir mig á Jardine heitinn (í Taggart) sem mér fannst einmitt einnig verulega óþolandi. Sennilega er Sigurður Óli reistur á Jardine, líkindin eru það mikil. Heftir kallar gætu kannski lært eitthvað af því að samsama sig löggunni Sigurði Óla ef glæpasagnir hafa þá yfirleitt freudískt lækningargildi.