1. Mér er hugsanlega eitthvað að batna en sá bati er lúshægur og nánast ósýnilegur. Í þessu svokallaða annarfríi tókst mér að fara í bíó til borgar óttans, tókst í þriðju atrennu, en komin aftur heim rúmlega sex um eftirmiddaginn var ég örmagna og hékk meir af vilja en mætti uppi til 8.30 og fór þá að sofa. Vildi gjarna liggja áfram í rúminu. Vildi helst alltaf liggja í rúminu um ókomna tíð!
2. Vefurinn minn er að fokkast algerlega upp útaf einhverjum vírus. Ég horfi á tæplega 15 ára vinnu étast í sundur fyrir augunum á mér. (Minnir mig á flugvélabókina Stefáns Kings þar sem litlir vondir hnoðrar átu heiminn og umhverfið og skildu eftir ekkertið.) Sé ekki betur en það verði mega-mál að kúpla þessu í lag, ef það er þá hægt … Blessunarlega er ég svo stónd (koldofin) af þunglyndinu að ég syndi í gegnum vandamálið eins og gullfiskur.
3. Ritgerðir nemenda eru svo lélegar að mér rennur kalt vatn milli skinns og hörunds! Til hvers í andskotanum var ég að eyða þessum tíma í að kenna þeim að skrifa ritgerð þegar þau fara flest ekkert eftir því heldur eru föst í sissý endursögn grunnskólans eða jafnvel sínum gömlu grunnskólaverkefnum! Það verður ýl og víl í lok vikunnar ef mér tekst að komast í gegnum bunkann fyrir þann tíma. (Ég er með athyglisbrest andskotans, sem fylgir venjulega slæmu þunglyndiskasti! Þess vegna vinnast öll verk hægt. En kosturinn er sá að ritgerðirnar fara ekki eins mikið í taugarnar á mér og frískri.)
4. Ætlaði að blogga um Skólavörðuna en er of veik til þess. Legg þó til að í næsta tölublaði verði skrefið stigið til fulls og efnisflokkar verði:
- Hvernig á að sauma margnota bleiju?;
- Hvaða snuð eru hættuleg og hver eru í lagi? – Viðtal við Herdísi Storgaard;
- Kenningar atferlissinna um hvernig best verði vanið af koppi versus póstmódernískar kenningar um sama efni;
- Ævi og ástir ritstjórans með sérstakri áherslu á barneignir;
- Hvernig ætti að undirbúa sig sem best fyrir fæðingu með markmiðssetningu í anda Bruners?;
- Hvort er dýrara, í ársreikningi KÍ, fúavörn eða útgáfa Skólavörðunnar?
Ég gæti meira að segja tekið að mér að skrifa sumar þessara greina sjálf! En auðvitað er kennaraskólamenntað fólk hæfara, um það skal ég ekki deila.
Muna svo að leggja til fljótlega að við kennararnir höldum Skólavörðubrennu á lóðinni og bjóðum kollegum okkar úr framhaldsskólum í nágrenninu (Borgarnesi og Mosó) að vera með! Mætti bjóða Aðalheiði FF-stýru í léttar veitingar og huggulega brennu (vonandi mengar rándýr glanspappír ekki mikið meðan hann brennur …). Kannski færi betur á að hafa brennuna utan við einhvern af vel fúavörðum bústöðum stéttarfélagsins? Ude på landet?
Muna að leggja til að fulltrúar okkar á næsta stéttarfélagsfundi beri upp þá tillögu að útgáfu Skólavörðunnar verði hætt, nema sem leikskólablaðs, og félagsgjöldin okkar verði bara brennd beint í seðlum strax í stað þess að fara fyrst í gegnum prentsmiðju og ruslafötur víða um land.
5. Til að nefna eitt jákvætt: Helv. ritgerðirnar eru þó skárri lesning en helv. Skólavarðan! Þannig séð er ég heppin …
Guð gefi að ég komist í vinnuna á morgun …