Author Archives: Harpa

Blessuð ullin og blessað danska sjónvarpið

Þessi þjóð væri löngu útdauð ef ekki væri fyrir blessaða sauðkindina eða öllu heldur ytra byrði hennar! Í morgun umvafði ég mig lopateppi með ermum, keypt á góðum kjörum, enda eins gott því í skólanum virtist loftræstingin, stillt á 18°, hafa tekið völdin um helgina. (Sennilega er loftræstingarkerfið keypt af Miðjarðarhafsþjóð einhverri og aktar því ágætlega sem loftkæling!) Á eftir ætla ég að taka afstöðu til hinna fjölmörgu ullarpeysa sem ég á, úr skoskri ull og írskri ull og svo náttúrlega lopanum okkar góða – því miður stingur hann helv. mikið svo mikla prinsessu sem ég er.

Enga á ég peysuna úr færeyskri ull en mér skilst að svoleiðis peysa (eins og aðallöggan í Forbrydelsen klæddist í fyrri seríu) sé prjónuð úr óþveginni ull og ekki megi þvo hana. Aðallöggan gekk líka í peysunni í hátt í tuttugu þætti án þess að peysan léti á sjá. Hendur færeyskra prjónakvenna verða silkimjúkar (og angandi af lanólín og annarri fitu) og peysurnar eru vatnsheldar enda ganga færeyskar rollur ekki með regnhlíf og regnið er ærið á eyjunum þeim.

Ég á líka flísar í hrönnum og er þ.a.l. jafnfylgjandi kókflöskum og öðrum endurnýtanlegum plastflöskum og ég styð reyfin sem kindur landsins eru almennt látnar ganga úr í lifanda lífi en hirt eru af skrokkunum á haustin um leið og kjötfjallið er hækkað meir. Akkúrat í augnablikinu er ég í tveimur flísum, loppin á puttum.

Síðan ég lauk samningu á og gaf út Ættarsöguna miklu og Ættarsöguna minni hefur langtímahandavinna orðið svokallað “langsjal”. Það ber nafn með rentu því miðað við mína prjónafestu verður sjalið um 4 m langt, sé farið eftir uppskriftinni. En ég er auðvitað alltaf til í að bregða út af uppskrift! Sjalið er prjónað með krónuprjóni (skítlétt munsturprjón, þegar maður hefur fattað það!) úr þjóðlegu “loðbandi” sem fyrrum hét “eingirni”. Næst þegar ég prjóna svona þjóðlegt sjal ætla ég reyndar ekki að nota íslenska ullargarn, því það stingur, heldur reyna að ná í norskt þelband.

Í morgun gat ég kennt mér til hita (verkleg sýnikennsla í ritun tekur á!) en hef kólnað eftir því sem líður á daginn. Ætli þetta sé ekki einhver andsk. lurða? Eða refsing æðri máttar fyrir að hafa skrópað á Æðruleysismessu í gær af því mig langaði svo miklu meira að horfa á íslenska glæpaþáttinn? Nú kemur sér vel að hafa addað Guði Almáttugum í fésbókarvinasafnið fámenna! (Minnir reyndar að Guð hafi addað mér …)

Planið er: Skella saman góðum opnum ritgerðarefnum handa mínum elskanlegu fyrir morgundaginn, setja einnegin saman vítalista handa sömu  (t.d. “mér persónulega finnst”) og horfa svo á Morse lögregluforingja í danska sjónvarpinu,  undir þykku flísteppi, prjónandi sjalið endalausa á meðan. Pantaði 3 Prins Póló í matinn en ekkert helv. grænmetisgums í kvöld!  Er að vinna upp ógeð á kjöti, sérstaklega lambakjöti. Það lækkar heimilisreikninginn og grennir jafnframt fólk komið á efri ár, einsog bloggynjuna sjálfa.

Áhrif kryppunnar á Kringluna

Bloggynja brá sér til þurrabúðarinnar handan Flóans í dag, aðalerindið var að hitta sinn góða lækni en aukaerindi að reyna að eyða sotlu fé í flíkur. Í þessu seinna skyni sótti ég Kringluna heim, haldandi fast við eitt af meginprinsippum í mínu lífi sem er að fara aldrei í Smáralind (í þeirri von að þessa verði getið í minningargreinum í fjarlægri framtíð:”… og aldrei fór hún í Smáralind!”).

Nema hvað: Ég skannaði Kringluna uppúr og niðrúr. Meginniðurstaðan er sú að það er ótrúlegt hvað fást nákvæmlega eins eða nauðalík föt í öllum búðunum! Undantekning var Spútnik en af því ég hafði líka skoðað að gamni í Rauðakrossbúðinni við Hlemm sá ég að þar væri betra úrval af svipuðum fötum, á betra verði. Fyrir utan ballkjóla náttúrlega … en hvenær á ég að klæðast flegnum svörtum ballkjól?  Varla í vinnunni.

Ég fór með það markmið að kaupa buxur. Leit samviskusamlega af öllum peysum (síðan ég taldi peysurnar mínar um daginn …) Í öllum búðunum fengust svartar buxur, svartar gallabuxur, dökkbláar gallabuxur, bláar gallabuxur, ljósbláar gallabuxur, ljósar gallabuxur, hvítar gallabuxur … og síðan var mor af leggings, sumt dulbúið sem gallabuxur (=gallabuxnaleggings). Nú hafði ég allt eins hugsað mér að kaupa dökkbrúnar buxur eða flöskugrænar en þær eru greinilega ófáanlegar núna. Enn fremur hafði ég nú ekki hugsað mér að kaupa gallabuxur, verandi einmitt í svörtum gallabuxum á búðarrápinu. Eini munurinn milli búða var verðið.  Eftir að hafa kíkt á svipaðar svartar buxur á verðbilinu 25.000 – 3.990 krónur keypti ég þessar á 3.990. Enda pössuðu þær mér best.  Ég mátaði að vísu hrúgu af svörtum buxum og svörtum gallabuxum á öllu regnbogans verðlagi en sá ekki betur en ég ætti svipuð eintök í skápnum heima.

Nú kann vel að vera að einhverjum finnist ég nísk. En ég get svo svarið það að þegar kúnna er ætlað að borga 15.000 kall fyrir einfaldan bol eða 30.000 fyrir einar buxur finnst mér það algerlega út í hött!  Nema kúnninn hafi hugsað sér að bera verðmiðann á flíkinni áfram til að sýna hvað hann / hún verslar í fínum búðum 😉  Mér finnst ég ekkert sérstaklega nísk heldur er mér illa við að láta hafa mig að fífli, í fatabúðum jafnt og annars staðar. Mig vantar sosum ekkert peninga og er tiltölulega lítið kreppt.

Niðurstaðan af þriggja tíma búðarápi var að það væri sennilega skást að versla í Hagkaup því þar fengjust hvort eð er samskonar flíkur og í hinum búðunum en á skárra verði. Samt keypti ég mjög lítið af því mér fannst þetta eitthvað svo leim og hallærisleg föt sem boðið var uppá … nema peysur náttúrlega en hver búðin skartaði fegurri eintökum af svoleiðis flíkum.

Tímaeyðslan dæmdist réttlætanleg af því ég fann nýjan reyfara eftir Tess Gerritsen sem ég keypti umsvifalaust!  Þar verður krufið undir drep, reikna ég með.

Ég punta með hinni ágætu mynd  Íslandsópinu sem mér barst í tölvupósti í dag. Því miður get ég ekki tengt í höfund eða uppruna myndar því til þess skortir mig vitneskju … Að sjálfsögðu kemur þessi mynd þessari bloggfærslu ekkert við – hún er bara huggulegri en dökkar buxur 😉

Sjúkdómavæðing skólakerfisins

Undanfarið hefur grátkór þeirra sem finnst að skólar skuli einnig akta sem heilsuhæli orðið æ háværari. Og ég verð æ leiðari á þessu!  Vissulega eru einhverjir nemendur haldnir streitu, kvíða, prófkvíða, ofsakvíða, þunglyndi, depurð, kreppuáhyggjum, ofvirkni, athyglisbresti, lesblindu, skrifblindu og eru skilnaðarbörn, jafnvel margföld skilnaðarbörn og eiga alkóhólíska, atvinnulausa, geðsjúka eða einfaldlega leiðinlega foreldra. Eins og Kabúl-farar sögðu forðum: “Shit happens!”

Ég hef aftur á móti þá gamaldags skoðun að aðalhlutverk skóla sé að kenna nemendum, sumsé að þar fari fram nám en ekki þerapía. Auðvitað vil ég taka tillit til þeirra sem eiga við talsverð vandamál að stríða en það sér hver maður (a.m.k. framhaldsskólakennari) að þegar meir en helmingur nemenda í venjulegum nýnemaáfanga kemur með þau skilaboð úr grunnskóla að hann sé smáður og hrjáður þá er eitthvað einhvers staðar ekki í lagi.

Mér finnst það stórkostleg móðgun við þá sem eiga við vandamál að stríða að aðrir geti hampað smávandræðum eins og hverjum öðrum límmiða sem eigi að gefa þeim eitthvert meint forskot í einkunnagjöf kennara! Ég sat yfir rúmlega 50 manns í dag, í prófi. Þar sá ég greinilega nemanda með raunverulegan prófkvíða, sem væntanlega er að skila úrlausn talsvert fyrir neðan getu.  Án þess að hafa tekið saman tölur þá hugsa ég að meir en 25 þessara nemenda hafi einhverja kvíða eða lesblindugreiningu. Meirihlutinn af þessu er bara blöff! Ef nemandi getur hraðlesið blaðsíðu og svarað lesskilningsspurningum á nó tæm af því það má fara þegar verkefninu er lokið þá er meinta lesblindan hans orðin dulítið vafasöm. Ef nemandi rúllar upp prófi á engri stund, af því má fara þegar úrlausn er skilað, er afar hæpið að veita sama nemanda lengri próftíma í lokaprófi af því hann sé svo hroðalega prófkvíðinn.

Skilaboð að utan, eins og frá Menntavísindasviði HÍ (fyrrum Kennó), að aðalatriði í framhaldsskólakennslu sé umhyggja (!!!) gera auðvitað sitt til að sjúkdómsvæða skólakerfið. Óljósari skilaboð, gjarna fregnuð úr slúðurhópum foreldra, um að kennari sé fyrirmynd nemenda allan sólarhringinn og starfið samsvari þannig munklífi miðalda virka á sama hátt því það sem foreldrar hafa einkum yfir að kvarta er að kennari krakkans sé ekki nógu umburðarlyndur, tillitssamur eða einfaldlega á sama væluskjóðulevel og hálft þjóðfélagið virðist stefna á.

Ef helmingur kennara við FVA fengi uppáskrifað hjá ráðgjafa úti í bæ að hann væri svo kvíðinn og þunglyndur að hann gæti ekki sinnt fullu starfi yrði ég mjög reið og sár. Ég er nefnilega einmitt í alvörunni með þessa sjúkdóma.  Og ég vildi fegin geta unnið meira því mér finnst starfið mitt skemmtilegt og veit að ég sinni því vel. Það að vera ekki upp á sitt besta einhvern mánudaginn eða vera nett kvíðinn og skjálfhentur af timburmönnum eftir helgina er ekki sjúkdómur. Aftur á móti má auðveldlega telja sér trú um að svo sé og telja sér í leiðinni trú um að sama gildi um nemendur … og á endanum verðum við öll aumingjar og sitjum og grenjum í kór!

Er það þannig sem framhaldsskólakennarar vilja enda? Ég mæli með því að þeir fari að hugsa sig aðeins um! Og að ekki verði hvaða postulum sem er hleypt inn í skólana til að æfa kennara í grátkór og að blað KÍ, Skólavarðan, breytist í eitthvað annað en umfjöllun um leikskóla og muldur grenjuskjóða um blessuð börnin á þessum síðustu og verstu tímum. (Tek fram að þetta böggar mig ekki mikið – ég fletti Skólavörðunni í gegn og skutla henni beint í endurnýtanlega blaðakassann … það er samt helvíti skítt  að stéttarfélagsgjaldið mitt skuli ekki bara fara í fúavörn heldur einnig í þessa pappírsvitleysu!)

Dyggir lesendur mínir sjá hvað ég er forskrúfuð og þversum á því að ég er sjálfsagt eini bloggari landsins sem ekki nennir að blogga um Davíð …

Dýrseldar einokunarkerlingar í þjóðbúningabransa!

Tæpast hefur farið fram hjá dyggum lesendum mínum að ég erfði þjóðbúninga á afmælinu mínu og hef verið afskaplega upptekin af því að skoða, lesa mér til o.s.fr. og yfir mig glöð og hreykin yfir að hafa eignast þessar gersemar!

Í ljós hefur komið að mig vantar blússu, öllu heldur skyrtu, við upphlutinn. Ég hélt að það væri nú ekki mikið mál, þetta er óskaplega einföld flík (skv. sniðum og myndum í bók Fríðar Ólafsdóttur, Íslenskur búningur. Upphlutur á 20. öld, sem kom út 1994). Svo ég hringdi í Heimilisiðnaðarfélag Íslands sem gaf mér samband við Þjóðbúningastofu. Þar sagðist ung kona geta selt mér gamla upphlutsskyrtu úr bómull, eilítið farna að gulna, á 10.000 kr. Ég spurði hvað ný skyrta myndi þá kosta. Hana þarf að sérsauma, sagði stúlkan, og kostar það 28.000 kr. fyrir utan efni. Ég fór að flissa og spurði hvort þær væru virkilega að handsauma þessar einföldu skyrtur – já, sagði stúlkan, hluti er handsaumaður. Ég sagðist ekki sjá að það væri mikið verk að rigga upp einni svona skyrtu. Jú, það er heilmikið verk, sagði Þjóðbúningastofustúlkan; sjálf sauma ég nokkrar á dag. (!!) Breytti svo “á viku” þegar ég hló illkvittnislega.

Svo hringdi ég í annað “Þjóðbúninga”eitthvað í símaskránni og komst að því að Þjóðbúningastofan Nálaraugað selur skyrtusaum á 30.000, fyrir utan efni og Þjóðbúningafatagerð Sólveigar selur sama á 21.000 + skattur + efni.

Þetta er náttúrlega hreinasta brjálæði og helvítis okur!  Þetta félag, Heimilisiðnaðarfélag Íslands, “… fær styrki til rekstrar skólans frá ríki og Reykjavíkurborg en að öðru leyti er starfsemi félagsins fjármögnuð með framlögum og sjálfboðaliðsvinnu félagsmanna.” 

Félagið rekur verslun og þjónustudeild: “Þjónustudeildin er eini aðilinn sem selur allt til þjóðbúningagerðar og veitir ítarlegar upplýsingar um búninga.” “Félagið rekur Heimilisiðnaðarskólann sem skipuleggur markvisst nám í mörgum greinum heimilisiðnaðar, handmennta og lista.” 

Sem sagt: Nokkrar kerlingar hafa ákveðið hvernig íslenskur þjóðbúningur á að vera (sbr. Þjóðbúningaráð, sem er einhvern veginn tengt Heimilisiðnaðarfélaginu). Þær einoka efnissölu, ef einhver vildi nú gera eitthvað á eigin spýtur, þær gæta þess að ekki sé hægt að labba út í búð og kaupa sér peysuföt heldur verður að sauma sjálf á þeirra námskeiðum eða láta sauma á sig á svipuðu verði og skaðabætur þær sem Hafliði nokkur Másson hlaut um árið!

Sem dæmi um námskeið má taka þetta:

Þjóðbúningur kvenna – upphlutur eða peysuföt
Saumaður er upphlutur eða peysuföt.
Kennari: Jófríður Benediktsdóttir
Fjöldi kennslustunda: 50 (11 skipti)
Tími: Miðvikud. kl. 19-22, 16. sep.- 2. des. Fyrsti tími verður máltaka og mátun.  Annar tími 30. sep. og síðan vikulega.
Námskeiðsgjald kr. 79.500. Efni ekki innifalið. Nemendur mæta með saumavél og áhöld.”

Til samanburðar má taka námskeið sem Símenntunarmiðstöð Vesturlands auglýsir í nýjasta bæklingi sínum, s. 7:

Þjóðbúningagerð

Á námskeiðinu munu þátttakendur sauma þjóðbúning.

Grundaskóli Akranesi Mán. 28. sept – 7. des. kl. 18:30 – 21.30 Leiðbeinandi Una Løvdal klæðskeri.Verð: 39.900.

Einokunarfélagið / Heimilisiðnaðarfélag Íslands, kennir 11 sinnum, þrjá tíma í senn. Símenntunarmiðstöð Vesturlands býður upp á samskonar námskeið, 11 sinnum, þrjá tíma í senn. Munurinn er sá að lærði klæðskerinn á Skaganum tekur um helmingi minna fyrir kennsluna en Jófríður sú sem kennir fyrir Heimilisiðnaðarfélag Íslands (og vill auk þess svo skemmtilega til að sama Jófríður á einmitt Saumastofuna Nálaraugað, sem metur skyrtusaum á sama prís og Heimilisiðnaðarfélagið …) Gæti munurinn legið í útlendu eftirnafni? Eða í því að Una Løvdal virðist ekkert tengd einokunarkerlingunum í Heimilisiðnaðarfélaginu og ekki einokunarsaumastofunum sem virðast einhvern veginn vera á hægra brjósti sama Heimilisiðnaðarfélags?

Markmið einokunarkvennanna er þetta: “Félagið vinnur að því að viðhalda þjóðlegum íslenskum heimilisiðnaði, auka hann og efla og stuðla að vöndun hans og fegurð. Einnig að vekja áhuga landsmanna á því að framleiða fallega og nytsama hluti, er hæfa kröfum nýs tíma en hafa rót sína í hinum gamla og þjóðlega menningararfi.”

Þetta með “stuðla að vöndun og fegurð” er út í hött meðan félagið hefur einungis nokkra samþykkta, staðlaða búninga á sinni stefnuskrá (miðað við lestur bloggynju á Hugi og hönd, tímariti þeirra, frá upphafi) meðan hreinasta anarkí ríkti í íslenskum þjóðbúningum áður fyrr. Það er ekki fyrr en með Sigurði málara, homma sem dó úr vesöld, sem einhver samræming kemst á, a.m.k. í skatteruðum hrútaberjamunstrum og skautbúningi, fyrir um einni og hálfri öld.  Ég reikna fastlega með að vönduð og fögur upphlutsskyrta eigi að vera hvít eða ljós og í stíl við svuntu, þótt svoleiðis skyrtur hafi verið alla vega á litinn úr alla vega efni uns stílistinn Sigurður og seinna Heimilisiðnarafélagið fann upp sitt samræmda göngulag fornt í þeim efnum! (Um þetta dugir að skoða Til gagns og fegurðar eftir Æsu Sigurjónsdóttur og fyrrnefnda bók Fríðar Ólafsdóttur um íslenska upphlutinn.)

Einokunin og stjórnsemin beinist einungis að konum því engum heilvita manni dettur í hug að klæðast samþykktum íslenskum þjóðbúningi, sem sést á þessu frímerki hér til hliðar. En einhverja karl-kúnna fá þær Heimilisiðnaðarkonur e.t.v. inn á milli.  

Hvað er svo til ráða? Ég myndi fagna því ef þeir góðu Bónusfeðgar létu sauma peysuföt, upphluti og gamla faldbúninginn í útlöndum, baldýra og skattera í tölvustýrðum saumavélum og sauma úr efnum sem þvola þvott í vél! Silfurvíravirki fékkst í Búlgaríu fyrir áratugum fyrir algert slikk og er væntanlega hobbí eða ferðamannaiðnaður þeirra þar austur frá.  Svoleiðis að milludótið og víravirkið ætti ekki að vera vandamál. Og mundi stokkabelti úr gylltu áli ekki gera sig vel? Það væri a.m.k. heldur léttara að bera og félli tæpast á það! Ef einhver tæki sig til og léti framleiða litskrúðugri og miklu ódýrari dress væri kannski séns á að þau yrðu þjóðbúningur en ekki rándýrir safngripir eins og núna.

Fljótlega ætla ég í HM og kaupa mér ljómandi fallega mussu, sem virðist vera orkeruð að ofan, hafa hana hvíta eða ljósa og vonast til að hægt sé að punta hana með ermahnöppum (ekki að það sé sáluhjálparatriði). Gangi hún ekki tékka ég á Hagkaup. Í ítrustu neyð væri hægt að kaupa eitthvert lekkert gardínuefni eða sængurverasett í Rúmfatalagernum, með huggulegri brókaði eða damaskáferð og sauma helv. skyrtuna sjálf; því þótt ég kunni á þessari stundu ekki að þræða saumavél get ég ekki séð annað en verkið sé álíka erfitt og að sauma öskupoka, miðað við upplýsingar frá öðrum en Heimilisiðnaðarfélaginu!

E.S. Voru það ekki kerlingarnar í Heimilisiðnaðarfélagi Íslands sem supu hveljur og vígbjuggust þegar Stuðmenn létu prenta hvíta boli með upphlutsmynd framan á?  Gott ef sú framleiðsla var ekki bara stöðvuð! – annars man ég þetta ekki svo naujið.

Og voru það ekki einmitt þær líka sem urðu hysterískar þegar Reykjavik Grapevine birti mynd af blökkukonu í skautbúningi Kvenfélags Laugdæla, árið 2004? (Litla myndin krækir í stærri og fegurri útgáfu.)

Er Lísbet Lína?

Í dag kláraði ég Luftkastellet der blev spængt, sumsé þriðju bókina Stieg Larssons og þá síðustu vegna ótímabærs fráfalls höfundarins. (Ansans!!!)

Ég er ósammála því að bókin sé langdregin. Hins vegar er allt í lagi að hraðlesa eitthvað af þessum rúmu 700 síðum – tók mig föstudag til sunnudags að klára hana, inn á milli ýmiss annars.  Ég var duglega að hoppa yfir nákvæma umfjöllun um sænsk stjórnmál frá því um 1970 en kannski hafa einhverjir aðrir lesendur einmitt sérstaklega gaman af þeim köflum.

Ég er sammála því að Lisbeth Salander er sama erkitýpa og Lína langsokkur. (Hún á fullt af peningum, pabba sem er nánast sjóræningi, lítur undarlega út, er svo sterk að hún ræður við alla vonda karla, kerfið reynir að ná yfir hana böndum en tekst ekki því hún er ákaflega asósíal o.s.fr.  Sem sagt afar lík Línu)

Aftur á móti fór ég að hugsa um hver væri þá apinn Níels? Er Mikki Blómkvist Níels?  Að loknum lestri Stúlkunnar sem lék sér að eldinum fannst mér að svo gæti vel verið – Blómkvist eltir tippið á sér en er annars reikull í rásinni og lítill bógur, miðað við Lísbet, situr nánast á öxlinni á henni þegar vondir koma.

Eftir þessa þriðju bók finnst mér aftur á móti systkinin Mikael Blomkvist og Annika Giannini vera dæmigerð Tommi og Anna; þæg, góð og til í að hjálpa óþægu stúlkunni Lisbeth / Línu.  Hver er þá apinn?

Mér finnst allt í lagi að spilla fyrir spenntum tilvonandi lesendum með því að upplýsa að hún Lisbeth Salander heldur upp á apa, a.m.k. apana sem má fóðra á Gíbraltar 😉  En meira segi ég ekki!

Ein dugleg í ammælisgjöfunum!

Af því ég hafði bannað fólki að gefa mér stóra pakka (sem næstum allir fóru eftir) og afþakkað alla skartgripi (er þó mjög ánægð með þennan eina sem ég fékk því hann er verulega spes og mun gera sig vel í kennslu!) … af þessum sökum fékk ég aðallega umslög í afmælisgjöf. Í dag tók ég svo á mig rögg og fór að versla fyrir eitthvað af innihaldi umslaganna. Hér er afraksturinn:

1. Keypti nýjan gemsa; bað manninn í búðinni um þann einfaldasta og ódýrasta því á þessu heimili hefur sýnt sig að dýrustu gemsarnir endast styst. Því miður tók ég óvart gjafakortið í Kringluna með mér og maðurinn í Omnis-búðinni á Skaganum hefði ekki þegið það svo ég lánaði sjálfri mér, af mínu debetkorti, upp í meinta eyðslu afmæliskorts.

2. Keypti diskinn með Sigríði Thorlacius og hef spilað einu sinni í gegn með “singalong” töktum. Lofar góðu.

Svo lagði ég mig …

Í eftirmiddaginn fór ég aftur af stað í innkaupaleiðangur og keypti nokkrar spjarir (aðallega á Vífil) á svokölluð “Outlet” (Útlátum eða Afrennsli) sem búðir á Skaga eru duglegar að halda í kreppunni. Það er ekki mér að kenna að þetta var svívirðilega ódýrt og hjó aðeins ogguskarð í gjafakortið frá kennurunum. Heldur ekki mér að kenna að einu sætu kjólarnir til sölu létu mig líta út eins og rúllupilsu og voru þar með úr sögunni! (Loðband í næstu búð tekur vart að nefna, það var nánast gefins.)

En kennararnir hafa þó splæst sæmilega duglega í snyrtivörur sem eru þyngdar sinnar virði; grammið af meiki miklu dýrara en grammið af eiturlyfjum á borð við Winston. Ég sé nefnilega fram á það að verandi orðin fimmtug þarf ég að fara að nota eitthvað haldbetra á andlitið en kalt vatn! Svo ég keypti sparsl fyrir konur til að gera andlit slétt og samlitt. (Sé núna að mig vantar þá væntanlega kinnalit eða eitthvað til að gera fésið mislitt á ný, ofaní sparslið …). Og nýjan ælæner af því sá sem ég keypti fyrir um áratug var einfaldlega að klárast! 

Reyndar eyddi ég líka af gjafakorti kennaranna í magalyf sem eiga að virka á svona sætan og huggulegan maga (innanverðan) sem magadoktorinn sagði mér. Orðrétt sagði hann (og ég fékk í hnén!): “Þú ert jafn falleg að innan sem utan”. VÁ!!!  Við ræddum þetta aðeins á kennarastofunni, konurnar, og öllum fannst þetta sætt og læknirinn mikill kavalér. Allar voru líka á því að þær myndu kýla þann kvensjúkdómalækni kaldan sem léti svonalagað út úr sér. Þannig að svona gullhamrar geta verið beggja handa járn …

Maskara er ég tiltölulega nýbúin að kaupa en hef hins vegar voða lítið notað hann því gallinn við allt svona sparsl og lit er að þessu þarf að ná aftur af sér áður en maður fer að sofa. Og það er vesen! Meira segja þótt maður eigi einhvers konar hreinsikrem.

Nú hefur allt í einu dottið í manninn (háskólanemann sem lærir 18 tíma á sólarhring) að fara að þrífa! Ég á að mæta í nudd eftir hálftíma og kemur ekki til greina að ég taki upp tusku núna!

Botninn í námskeiðahaldi

Í dag sátum við starfsmenn FVA svo lélegt námskeið að það er óumblogganlegt!

Ærdrukknanir og fyrirkvíðanlegur andskoti

Þetta er stutt færsla. Langa færslan um orðafátækt ungs fólks bíður betri tíma. Sömuleiðis rökstuddar staðhæfingar um að sé texti mikið lengri en einn lítill skjár á farsíma sé sá texti of erfiður til að lesa hann.  Mun enn á ný verða rifjuð upp kenning Heimis Pálssonar um homo loquens og homo laborans. En þetta issjú bíður sumsé. 

Ég hafði einnig hugsað mér að skrifa langt kaldhæðnislegt mál, með tilvitnunum í Bjart í Sumarhúsum, um þann árvissa sið gangnamanna að drekkja rollunum sem þeir hafa sótt upp á fjall (með harðfylgi, heyrist manni). En nú nenni ég því ómögulega – þeir drekktu bara 40 ám í ár og hvað eru 40 rollur milli vina? Samt legg ég til námskeið fyrir verðandi gangnamenn þar sem þeir prófa m.a. sjálfir að synda smáspöl klæddir  10 lopapeysum hverri yfir annarri. Þannig gætu þeir skilið sínar vesalings kindur eilítið betri skilningi, held ég.

Ætli maður fái hærra verð út úr tryggingum per drukknaða rollu en per slátraða rollu?

Á morgun fer ég í magaspeglun. Í bæklingnum sem maður fær fyrirfram stendur að þetta sé ekkert mál. Ég hef nú heyrt a.m.k. tvennar sögur farandi af því! Svo ég er eðlilega skjálfhent og kvíðafull núna en verð væntanlega pollróleg á morgun. Hyggst þó þiggja hvaðeina þríhyrningsmerkt sem boðið verður upp á!

Af hverju má ekki reykja í 8 klst fyrir magaspeglun? Ekki reyki ég með maganum og lítil hætta á að hann fyllist af reyk, er það ekki?

Ammæli!

Fyrirsögnin er sérstaklega stafsett fyrir kverúlanta sem pirrast yfir því sem annað fólk skrifar og einnegin hvernig annað fólk skrifar 😉

Í gær var sumsé haldið upp á afmælið mitt í faðmi fjölskyldanna (minnar og tengda-).  Þetta er nú þó nokkur fjöldi sé allt talið! Sem afmælis”barn” þurfti ég ekki að gera nokkurn skapaðan hlut, hvað þá dýfa hendi í kalt vatn eða sjá um veitingar, einna helst að vera almennileg við gestina. Drengbarnið, sem ég verð að fara að kalla eitthvað annað því nú er þetta drengbarn orðið hæst heimilisfólks, blés upp nokkrar blöðrur en gerði lítið annað en frumburðurinn og maðurinn stóðu í ströngu. (Frumburðurinn er með rosasterk lungu eftir öll sín miklu hlaup svo hann var blöðrumeistarinn enda voru þessar blöðrur með afbrigðum stífar!)

Þeir feðgar grilluðu og grilluðu glás af souvlaki-pinnum, með kjúklingi eða fiski eftir því hvað fólk lysti að láta í sig … inni á borðum var svo risabaunasalat, kartöflusalat, tzatziki o.fl. Pulsur voru og hafðar, fyrir yngstu kynslóðina.

Mesta furða hvað tókst að þjappa mannskapnum í sæti, miðað við gólfpláss og stólaeign, og ég held að fólki hafi bara þótt þetta ágætis brönsj og sammenkomst.

Ég fékk margar afar glæsilegar gjafir, sem ég er ekkert að telja hér upp. Þó má nefna að ég varð gjörsamlega paff yfir einum pakkanum! Mamma færði mér nefnilega peysuföt og upphlut ömmu og sagði að þetta skyldi ég erfa (enda er ég sú systranna sem kemst helst í þetta – sorrí Ragna og Freyja!). Þetta kom mér fullkomlega á óvart og ég er feikilega glöð og ánægð að eignast þennan fjársjóð (og mun lána í ættinni ef þarf).   Við vorum lengi í gærkvöldi að skoða gersemarnar, stokkabeltið, millurnar, pilsið … jú neim itt.  Meira að segja hárnet og hanskar fylgja. Manninum tókst að klæða mig í upphlutinn og ég sá að ekki mundi veita af stúlku í að klæða mig í svona flókin föt. Maðurinn vill líka endilega að ég mæti í dressinu í vinnuna á morgun, t.d. í peysufötunum, með stífað brjóst og orkeraðar ermar … en ég held að krakkaskinnin yrðu kannski hrædd að sjá mig svo svartklædda, auk þess sem ég er ekki enn búin að fatta hvernig mér tekst að láta skotthúfuna tolla ef hreyfir vind eða ef ég hreyfi mig. En í dag hef ég stúderað nøje vefsíðuna buningurinn.is og hyggst leita mér fyllri upplýsinga um leið og ég kemst á almennilegt bókasafn!

Ætli ég verði ekki að fara að stunda messur til að hafa tækifæri til að klæðast þessu dýrindi? Vinnustaður minn er óþjóðbúningavænn með öllu þessum stigum upp og niður, sem helst þarf að hlaupa til að ná á réttum tíma í kennslustund. Ég hafði hugsað mér að reyna kannski aftur við línudans í vetur (ef heilsan leyfir) og það er alveg öruggt að peysuföt gera sig ekki í þeirri dansmennt. Ætti ég að reyna að starta vikivakaklúbbi og æfa ágiskaða endurgerða þjóðdansa?  Best að nefna þetta við íslenskudeildina.

Frumburðurinn lagði sig í líma í morgun við að læra á rosaflottu kaffivélina sem mér var gefin og mun framleiða expresso, latte, macchiato, cappuchino og så videre næstu árin skulum við vona. Mér fannst þetta reyndar doldið flókin vél og eiginlega veitti mér ekki af annarri stúlku í að hella upp á, á morgnana. Drengbarnið var að læra á gripinn áðan og ég get þá a.m.k. þóst ekki kunna á vélina þegar hann er heima svo einhver helli upp á handa mér.

Ég er uppi á röngum tíma og hefði þurft að fæðast meir en öld fyrr og vera af því standi sem gat haldið hjú í öll leiðinleg verk (beisiklí allt nema útsaum)  Eitt stykki hjú í kennslu (sem færi yfir verkefni o.þ.h.) væri líka vel þegið.

Mín elskanlegu

Titillinn vísar að sjálfsögðu til nemenda minna! Þeir eru eins og hugur manns; hlýtur að vera einstakur árgangur í nýnemauppskeru haustsins!  Þessir krakkar mæta vel, sýna áhuga, vinna eftir getu og eru með á nótunum í kennslustundum, sem er einmitt risakostur í augum kennara. (Átt er við að ekki þurfi að svara spurningunni: “Í hvaða kafla erum við?” oftar en kannski tvisvar í kennslustund.)

Af því blessaðir unglingarnir haga sér svona vel þá hefur mér tekist að mæta til vinnu, hef mætt alla daga vikunnar og stóla á morgundaginn líka. Af því ég er svo þunglynd og langt niðri núna úða ég í mig pillum við skjálftanum og leik síðan glaðbeittan kennara í performans dagsins; hegg mann og annan eins og fullkomlega geðfrísk manneskja.

Í frímínútum leik ég glaðbeittan kennara í frímínútum.  Guði sé lof fyrir leikarahæfileika í genunum, ég segi ekki annað!

Helstu trixin sem ég brúka annars eru “einn dagur í einu”, “með hægðinni hefst það” og “feik itt till jú meik itt”.  Þetta síðasttalda útheimtir að taka til dress á kvöldin og reyna að líta vel út í vinnunni – útlitið eitt dregur langt ef sálin er lítil og smá. Á morgun ætla ég að vera á hælum!

Svo eru það litlu hlutirnir: Ég raða samviskusamlega niður plúsum og mínusum og passa að hafa mínusana ekki of marga. Í dag get ég plúsað við að hafa straujað (enda þarf ekki heilabú í það); hafa prjónað 3 umferðir; hafa spilað Söng Sólveigar tvisvar í gegn og hafa reykt sæmilega vel. Ég hef nefnilega áhyggjur af því að nú reyki ég of lítið, eftir að ég tók upp á að reykja úti, og heilinn sakni síns rúss og niktótínþéttni í blóði sé fulllág.

Helsta áhyggjuefnið framundan er hvernig mér tekst að komast gegnum afmælið mitt, sem ég held upp á á laugardaginn. Hugsanlega verður mér eitthvað farið að batna, mér finnst einhver smábati í dag, hugsanlega verð ég að poppa pillunum eins og óhamingjusöm amrísk húsmóðir í úthverfi … Ég hef haft samband við minn góða lækni og er ekki frá því að það eitt hafi aðeins lyft þokunni svörtu – aftur á móti kunni hann engin töfraráð (ég bjóst hvort sem er ekki við því) og mælti einungis með hærri pilluskömmum. Sem ég er lítið upprifin yfir og vil forðast. En … pillur, massi af winston (sem allir vita að er ógislega óhollt – þessu bæti ég við til að pota ekki í hann Þorgrím og hina postulana) og þokkalegt dress ætti að koma mér gegnum daginn.

Þótt velmeinandi alþýðukonur veifi framan í mann gagnslausum ráðum, frá jurtaseyðum og hvannarót upp í miðlaheimsóknir og heilunaryfirlagningar þá veit ég ósköp vel að heilinn er ekkert spes heldur gengur fyrir efnaskiptum og það eina sem virkar á hann er að fá helv. efnaskiptin í lag, með pillum eða stuði.  

Svo ég ljúki færslunni í hring: Bestu tímar dagsins eru á morgnana, frá svona kl. 6, þegar ég vakna, og framundir hádegi, meðan ég er að kenna. Það er ofboðsleg hvíld fólgin í því að þurfa að hafa auga á hverjum fingri og sinna hressum og jákvæðum unglingum!  Það eina sem ég hef undan þeim að kvarta er að enn og aftur kemur upp sami vandinn við að fá þessi börn til að trúa á drauga! Nútíma hryllingssaga gengur ágætlega í einum áfanganum en Laxdælunemendur eru hroðalega raunsætt fólk sem sættir sig ekki við smávegis andsetningu og almennan íslenskan draugagang!  Hugsanlega get ég kennt draugakafla með slökkt ljós og blaktandi kertaloga, þegar lengra líður á önnina. Það ætti að hjálpa ef maður hefur hljóðeffekta með.