Enn og aftur fæ ég að heyra frá fólki sem telur að kennarar séu í djobbinu allan sólarhringinn og séu nemendum sínum einhver rosasterk fyrirmynd! Reyndar efast ég ekkert um að slíkir kennarar eru til; þeir kenna 6, 7 og 8 ára börnum, sem eru nógu saklaus til að halda að góða konan í skólanum sé líka góða konan utan skólans. Fljótlega upp úr 9 ára aldri átta börnin sig á að heimurinn er ekki svo saklaus og einfaldur og leggja þessa goðsögn á hilluna.
En foreldrar ganga hins vegar oft um með svona glýju í augum þótt krakkarnir séu löngu orðnir stórir og jafnvel fluttir að heiman. Ein svoleiðis mamma hefur heiðrað næstsíðustu færslu mína með kommentum þar sem sést að hún heldur í sína barnatrú. Móðirin segir: “Ég leit mjög upp til kennaranna minna þegar ég gekk í skóla og álít þá vera ákveðna fyrirmynd, alveg eins og aðrir sem vinna ábyrgðarfull störf. Þar að auki var okkur kennt í Kennaraháskólanum að við værum ákveðin fyrirmynd.” Og ég ítreka að hún er alls ekki ein um þessa skoðun!
Ég leit ekki sérstaklega upp til kennara minna í skóla enda voru þeir allrahanda, allt frá því að hafa sómt sér vel í Heyrnleysingjaskólanum til þess að vera auðnulausar fyllibyttur. Inn á milli voru ágætis karlar (mín kynslóð var aðallega menntuð af körlum) en ekki neitt sem mann langaði til að líkjast. Í HÍ reyndi maður að velja kúrsa eftir kennurum eins og hægt var (og þess vegna er málfræðihluti minnar menntunar undarlega sundurlaus) og satt best að segja sá ég fáar fyrirmyndir þar, gekk t.d. ekki slefandi aðdáendum Júlíu Kristevu á hönd, hvað þá nýrýni. Í HÍ uppgötvaði ég reyndar, mér til furðu, hvað mörg skólasystkini mín höfðu lesið afskaplega lítið um ævina og voru þess vegna ginkeypt fyrir “bókinni”, “karlinum” eða “suðurameríska töfraraunsæinu”.
Fyrir tveimur árum fékk ég námsorflof og lauk 30 einingum á MA stigi í íslensku. Þá var ég aldeilis stálheppin með kennara og kúrsa, að einum kúrsi undanskildum. En nei, ég sá ekki role-model í þessum kennurum þótt góðir væru.
Eina skiptið sem ég stundaði nám í Kennó, 15 eininga diplómu nám á meistarastigi, lærði ég í þaula hvernig ekki skal kenna. Þessi reynsla var fín bólusetning gegn vonlausum kennsluháttum og algeru öngþveiti í skipulagningu.
Snúum okkur að mér sem kennara. Ég hef ekki nokkra trú á að nemendur mínir vilji hegða sér eins og ég, ganga í fötum eins og ég eða á annan hátt taka sér mig til fyrirmyndar. Ég er t.d. skínandi edrú alla daga og eins og alltaf kemur fram í fjölmiðlum öðru hvoru eru margir unglingar lítt hallir undir svoleiðis ástand. Ég segi mínum nemendum einhvern tíma á önninni að best sé að vera edrú og það sé hollt og fullorðinslegt að drekka kaffi (en ekki þetta eilífa kók sem þau sötra daga langa á göngunum). Ég veit ekki um einn einasta nemanda sem hefur farið eftir þessu.
Hvað varðar bloggið mitt eru afar fáir nemendur sem nenna að lesa svo langan og massívan texta, á fullorðinsmáli. Þessir krakkar hafa nóg með gsm-símann sinn, twitter, facebook, MSN og fleiri áreiti sem eru allt í kringum einn ungling. Þau komast ekki yfir langar bloggfærslur ofan á þetta og missa auk þess fljótt áhugann á mínum efnisflokkum. Það er helst að einhverjir sem eiga við geðræn vandamál að stríða lesi færslur mínar um slík vandamál og vonandi finna þeir einhverja samkennd eða huggun í þeim.
Ég held að unglingar hafi nákvæmlega jafnlítinn áhuga á kennaranum sínum og á bensíntittinum sem dælir á bílana þeirra, bókaverðinum sem hjálpar þeim að finna bækur eða eldhússtaffinu sem selur þeim hádegismat. Utan vinnustaðar og vinnutíma vekur þetta fólk ekki sérstaka athygli.
Þess vegna leiðast mér afar mikið svona “jedúddamía” komment frá miðaldra konum … hef þó að mestu verið laus við þau eftir að hafa afskrifað leðjuslaginn á er.is (Barnalandi).
Ég legg nú til, sem málamyndagjörning, að tollverðir taki sig á og verði fyrirmynd okkar hinna 24 stundir á sólarhring. Sama gildir um UPS stúlkur. Og hér komum við að tíðindum ársins: Pakkinn minn skilaði sér áðan! Þurfti ekki nema eitt dónalegt símtal og smávegis fræðslu (til hugsanlegra viðskiptavina) og vúuuppps: Pakkinn í hús. Auðvitað var hann kirfilega merktur nafni og heimilisfangi mínu svo “stúlkan í mat” sem hlýtur að heita Fríða María Sigurðardóttir, hefði getað stungið miða í umslag til mín í stað þess að leyfa honum að úldna í 12 daga í Keflavík, ekki hvað síst miðað við að UPS-þjónusta felur í sér að pakkann á að bera út um leið og flugvélin er lent. (Við erum sumsé ekki að tala um skipapóst í þessu sambandi).
Innihald pakkans var enn glæsilegra en ég þorði að vona. Megi viðtakendur vera sama sinnis.
P.s. Hvað varðar heilsufar mitt er allt við það sama. Ég hangi uppi og kenni á sjálfstýringunni. Það gengur svo sem prýðilega. Svo er náttúrlega svolítið peppandi að rusla upp einni færslu á dag, maður er þá að hugsa um annað þessa tíu mínútur – korter sem ritstörfin taka 😉 Aftur á móti gengur hægar með krónuprjónaða sjalið – ég er stundum of veik til að einbeita mér að einföldustu stykkjum á kvöldin.