Author Archives: Harpa

Skinka dauðans

Í fyrrakvöld bauð danska ríkissjónvarpið upp á myndina Blondinens Hævn sem Íslendingar þekkja betur undir titlinum Legally Blonde. Ég hef ábyggilega séð þessa mynd hátt í fimm sinnum en finnst hún alltaf jafngóð! (Sama gildir ekki um framhaldsmyndina því miður … en aðdáendur Reese Witherspoon ættu að reyna að hafa upp á meistaraverkinu The Election sem er um heldur grimmari skinku en í Blondinens Hævn – mæli með henni. Election-ljóskan er afbrigði af skinku, eiginlega “góða pabbastelpan-in-extreme”, þótt mig minni reyndar að hún alist upp hjá einstæðri móður, í myndinni. Ég held annars að svipurinn á Election-skinkunni segi allt sem segja þarf. )

Ljóskan í Legally Blonde sýnir óvænta hæfileika og reyndar kemur á daginn að yfirburða ljóskuþekking gerir henni kleift að vinna mál annarrar ljósku og rústa ræfils morðingjanum sem fór flatt á að vera með ljótt permanent ár eftir ár. Virðist sem æðsta boðorð þessarar erkiskinku sé að vera sæt (og bleik) hverju sem á gengur.

Fólk af minni kynslóð man ágætlega eftir erkitýpu ljóskunnar sem var Svínka (Miss Piggy) í Prúðuleikurunum. Erkitýpan er alltaf til en mismunandi eftir kynslóðum; má nefna Marilyn Monroe, Marlene Dietrich, Jean Harlow o.fl. o.fl. frá því hljóðið í kvikmyndum var fundið upp. (Fyrir þá tíma var skinkutýpan oft dökkhærð og máluð um augun eins og þvottabjörn.)

Sé leitað aftur í þjóðararfinn má nefna væluskjóður á borð við Helgu Þorsteinsdóttur á Borg eða Hrefnu Ásgeirsdóttur, konu Kjartans. Sú fyrrnefnda var gífurlega ljóshærð, hárið var “sem gull barið” og náði niður fyrir mitti, hin kann að hafa verið dökkhærð miðað við nafnið en er prúð og stillt eins og ljóska þeirra tíma.

Þessi ofurkvenlega týpa með leyndu hæfileikana þarf sumsé ekki endilega að vera ljóshærð! Þessi vegna er tegundarheiti nútímans, skinka, miklu betra en orðið ljóska. Skinka vísar líka á svo ljómandi skemmtilegan hátt til hennar Svínku, á gullaldarárum RÚVsins!

En athugum betur skinkuafbrigðið “prinsessan-hans-pabba-síns”, þ.e. undurþægu ljóskuna með mismunandi hárlit, a la Helga á Borg.

Í gærkvöldi horfuðum við hjónin á vídjó-ið Taken með Liam Neeson, sem staffið á vídjóleigunni sór að væri “geðveikislega spennandi”. Það reyndist rétt mat starfsfólks. Liam Neeson kálaði einn og sjálfur albönsku mafíunni í París og slatta af óbreyttum borgurum, sem voru á röngum stað á röngum tíma, án þess að blása úr nös. Þetta hefur maður sosum séð áður, í Bond-myndum. En ólíkt 007 var Liam þessi ekki að verja leyndarmál ríkisins eða koma í veg fyrir heimstyrjöld heldur einungis að bjarga litlu sætu skinkunni sinni; stúlkunni hans pabba síns! Stúlkukindin var með skinkutaktana á hreinu; hoppaði, gargaði og hvíaði eins og lítil meri í hestalátum en var samt pottþétt hrein mey, þótt’ún gengi með naflann beran! 

Meydómurinn reyndist líka hið dýrasta djásn og gerði stúlkuna gífurlega markaðshæfa meðal moldríkra útrásarvíkinga í París. Kapphlaup Liams snérist náttúrlega ekki bara um að ná litlu sætu pabbaskinkunni á lífi heldur einnig að ná henni óspjallaðri. Minnir albanska mafían óneitanlega á athæfi dusilmenna í Íslendingasögum sem taka upp á því, til að ná sér niðri á hetjunni, að “fífla” frændkonu hetjunnar og lækka hana þar með í verði! Yfirleitt leiðir þessi leiða hegðun til manndrápa og eftir að hafa séð Taken er ég ekkert hissa á því!

Þar sem setið er um kennara þessa dagana og reynt að hanka þá á málfari og stíl … og gera þeim enn einu sinni ljóst að kennsla er ekki starf heldur köllun sem menn eiga að uppfylla 24 tíma á sólarhring … get ég alls ekki nefnt konkret dæmi um skinkur í skólastofum. En ég fullvissa dygga lesendur mína að þær eru til, ekki ein eða tvær heldur stundum heilu skinkuhóparnir í sumum áföngum. Sem betur fer er sjaldgæft að pabbarnir grípi inn í þyki skinku kennari óvæginn í dómum (= vondur við sig) en er þó til í dæminu. Lukkulega eru feður á Skaga ekkert í líkingu við Liam Neeson!

Ég er spennt að komast að því hvernig Skinka haustsins 2009 verður klædd og hvernig hollingin er á týpunni þetta árið. Verður mittið upp við brjóst? Verður brjóstaskora? Hve síðar (eða stuttar) skulu leggings vera? O.s.fr.

Að lokum vil ég benda á öllu alvarlegri gerð af skinku, sem er smitaður einstaklingur af svínaflensu. Var einmitt að lesa í einhverju blaði um vesalings flugfarþega frá Majorku sem máttu sitja undir því þessa löngu leið að hóstandi útskriftahópar voru um alla vél!  Sem sagt “svínaflenskuskinkur”. Ef maður þekkir óvininn má betur verjast og því birti ég hér til vinstri mynd af svoleiðis skinku, sem getur verið af hvoru kyninu sem er og leynst hvarvetna í umhverfi manns, t.d. á vinnustöðum. Skilaboðin sem fylgja myndinni í aðvörunartölvupósti nútímans eru að ef einhver samstarfsmaðurinn lítur svona út skal senda hann heim áður en hann nær að smita!  Ég var að hugsa um að festa myndina upp á sérstaka svínaflensuauglýsingatöflu sem sett hefur verið upp við hlið kennarastofunnar en þar sem ég geri ráð fyrir að vera ekki í sérstöku uppáhaldi stjórnenda þessa dagana læt ég það eiga sig …

Sumar-blogg-frí

Ég hef svo mikið að gera við að vera til … og lesa og pikka inn ættargögn og vinna að ÆM og aðeins í garðinum o.s.fr. að ég lýsi yfir sumarfríi á blogginu. Sjáumst í haust.

Stórfjölskyldan verður að nota tölvupósthring til samskipta … munið að ég og Freyja stöndum utan fésbókar. Hlakka til að sjá ykkur á sunnudaginn kemur!

Harpa

Dottin í fortíðina

Ég ákvað að slá inn bréfin sem ég fékk á Laugarvatni um síðustu helgi, þ.e. bréfin sem afi skrifaði sumar og haust 1946 til ömmu á spítalanum. Nú sé ég hvaðan blogggenin mín koma því honum tekst ótrúlega vel að skrifa skemmtileg bréf á fárra daga fresti þótt ekki gerist ýkja margt á Raufarhöfn, a.m.k. eftir að síldin lét sig hverfa (ég er komin fram í september í bréfasafninu). Sumt er óskýrt, t.d. get ég ekki lesið almennilega úr öllum gælunöfnum og þarf e.t.v aðstoð við það. Svo þurfti ég að fletta upp orðinu “flæsa” en skil hins vegar ágætlega “dulbeidd”, notað um kvíguna sem talin er kálflaus en af því ég skannaði bréfahrúguna veit ég að hún er með kálfi, hvað kemur í ljós svona í október.

Dyggir fjölskyldulesendur munu kunna að meta þessa klausu, frá 3/9 1946:

Krakkar voru í Lundi á skemtun á sunnudaginn og komu í Valþjófsstaði og heilsuðu Balda og Gunnu. Þau seigja Gunnu hafa stækkað mikið í sumar, hún sé orðin nærri eins há og Baldi, og vel feit. Baldi kvað vera ákaflega duglegur að tína ber, en Gunna heldur löt við það. Baldi sendi Frænda ber í bauk og hafði verið fljótur að tína það, enda kvað vera mikið af berjum í Núpasveit, en minna í Axarfirði.

Menn hafa greinilega haft soldið aðrar skoðanir á vexti barna á þessum tíma og nú. Ekki skrítið að mamma skammaðist sín seinna fyrir horgrindina sína elstu og hafði hana aldrei í stutterma bolum svo ekki sæjust beinin 🙂 Lukkulega hef ég lagast síðan, ekki hvað síst fyrir aukaverkanir lyfja … Mér hefur líka alltaf þótt leiðinlegt að tína ber í óhófi, man þegar ég var send með Árna og Lillu í einhvern tveggja daga maraþon-berjamó, sem krakki. Eiginlega finnst mér best að kaupa bara bláber frá Kanada, í Einarsbúð!

Um dapurleg örlög Silla og æskilegan fjölda systra

Deyr fé

deyja frændr

deyr Silli ið sama!

Nú hefur verið gefið út dánarvottorð fyrir besta vin Vífils, sem Silli var kallaður en hét fullu nafni Volkswagen Passat. Silli “hné niður” á götu í borg óttans fyrir nokkru, var dreginn í skjól hjá mágkonunni og hennar hænum og skoðaður í dag: Því miður greindist gírkassinn brotinn og bramlaður og of dýrt að blása nýju lífi í Silla, skinnið. Eigandinn hefur verið í talsverðri lægð undanfarið en er nú að jafna sig á sorginni og farinn að huga að öðrum farskjótum því enginn er unglingur án bíls! Líffæri Silla verða gefin frændum hans = hann verður dreginn á partasölu fljótlega.

Af öðrum er allt fínt að frétta nema ég virðist vera að eitra fyrir sjálfri mér með sjálflækningum / oflækningum. Fer þó fjarri að ég taki læknanemaglósur í sátt (sjá síðustu færslu), meira að segja þótt óljósar heimildir séu fyrir því að læknakennarinn sé stúdent úr ML og jafnvel Skagamaður að upplagi. Það gleður mig náttúrlega að hann sé ekki úr MR-klíkunni en þrátt fyrir það er ég sama sinnis um fáránlegar leiðbeiningar til læknanema um meðhöndlun miðaldra kvenna. Ég kenni brotthvarfi Litíums (og Seroquels, þótt engin Einblind, Tvíblind og Þríblind styðji það) um að skjaldkirtilshormón er í sögulegu lágmarki og ég því e.t.v. komin með ofvirkan kirtilsfjanda í stað vanvirks. Ráðið við því er að trappa niður þau lyfin í samráði við útlenda heimilislækninn sem ég hef tekið ástfóstri við, eftir aðeins eina heimsókn 😉

Það var auðvitað mjög gaman um helgina, á míní-ættarmótinu uppi á Laugarvatni! Mesta furða hvað hægt er að troða mörgum manneskjum í eitt íbúðarhús en munaði náttúrlega helling um að hafa krakkana í tjaldi inni í sólstofu 😉 Maðurinn var í slíkum önnum að júbba að hann komst ekki yfir mikla myndatöku – og í rauninni mætti segja að þessar fáu sem teknar voru ættu að vera læstar með lykilorði. En manninum finnst þær aðallega sanna að enginn skyldi eiga meir en eina systur! Ég birti því tvær myndir sem sönnunargagn á þessari heimspekilegu teóríu en hef vaðið fyrir neðan mig (eða nefið) og passa að enginn þekki þolandann á myndunum.  Fyrri myndin sýnir systur í samsærislegri hópvinnu (Ragna virðist vera potturinn og pannan), sú síðari árangurinn.  Ógislega fyndið! (fyrir okkur systur).

Ef sjúklingur sé miðaldra einkennalaus kona – ekki reyna að lækna hana!

Ég hef verið að lesa mér til um skjaldkirtilsræfilinn minn, auðvitað í þeirri von og trú um að nú hafi hann tekið sér tak og látið sér batna eftir því sem ég kastaði fleiri lyfjum fyrir róða. (Má nefna að Lítíum er svarinn óvinur skjaldkirtla!) 

Síðast þegar ég hitti minn góða lækni nefndi ég við hann að hafa lesið á sæmilega virtum læknisfræðilegum síðum að mörgum (konum) virtist líða betur því nær 1 sem TSH gildi væri – en læknar miða við TSH 4 og allt þar undir sé í fínu lagi! (Man ekki fyrir hvað tölurnar standa fyrir … enda er ég ekki læknir heldur sjúklingur.)  Minn góði læknir sagði umsvifalaust að þetta gæti sosum staðist en þá þyrfti að gefa miklu fleira fólki lyf við vanvirkum skjaldkirtli en nú er gert og það yrði ógislega dýrt, fyrir þjóðfélagið væntanlega. (Þar sem mikill meirihluti latra skjaldkirtilsbera eru konur þýðir það náttúrlega að það sé of dýrt að lækna of margar konur af þessum kvilla – eða viðurkenna að þetta sé kvilli, sé sjúklingurinn kona. Þetta sagði minn góði læknir ekki en er vitaskuld væntanlega það sem hann meinti, í ljósi fræðanna. Vel að merkja líkist myndskreytingin honum ekki hið minnsta.)

Ég hrataði inn á kennsluvef Dr. Rafns Benediktssonar, efnaskipti.com. Vefurinn er hugsaður sem leiðarvísir um innkirtla- og efnaskiptasjúkdóma á námskeiði 4. árs læknanema í lyflæknisfræði við læknadeild Háskóla Íslands. Þetta er skipulegur kennsluvefur, á þokkalega góðri íslensku, a.m.k. það sem ég las um skjaldkirtil. Á glærusjóinu um “skjaldbrest”, glæru 2, segir:

  • Hið dæmigerða vandamál?
  • Uppgötvast hátt TSH
  • Einkennalaus miðaldra / eldri kona
  • Hvað nú?

Á síðustu glærunni, glæru 20, er þessari mikilvægu spurningu svarað:

  • Skimun ekki ráðleg – hvað ætla ég að gera við niðurstöðuna?
  • Varast ofmeðhöndlun.

Inn á milli eru raktar rannsóknir sem þær Einblind, Tvíblind og Þríblind hafa gert, í félagi við Lyfleysu. Síðan ég las úttekt á rannsóknum á fylgikvillum raflostmeðferða við þunglyndi hvar kom fram að öllu máli skipti hver spurði, hvenær og hvar en ekki spurningarnar sjálfar er ég ansi hreint vantrúuð á heilagleika Einblindar, Tvíblindar og Þríblindar, a.m.k. sé um að ræða mælingu á líðan kvenna, hvort sem þær hafa verið stuðaðar 12 sinnum eða vilja meina að þær kenni sér krankleika vegna mælanlegrar vanvirkni skjaldkirtils. Á milliglærum kemur svo fram að sé sjúklingur með skjaldkirtilsvandamál karlmaður eigi að skoða málin betur því 5 sinnum líklegra sé að hann sé í alvörunni veikur (!)

Ég er einmitt ein af þessum “einkennalausu” miðaldra konum sem mælast með latan skjaldkirtil. Í mínu tilviki fylgir mikil þreyta (sem má allt eins kenna lyfjagjöf, hér áður fyrr, eða alltof lágum blóðþrýstingi sem hefur fylgt mér alla tíð). Sömuleiðis má kenna einhverju öðru en lötum skjaldkirtli um þyngdaraukningu og kulvísi. Og þótt ég hafi skriðið  um Helvítisgjána oftar en einu sinni er ástæðulaust að tengja þá lífsreynslu lötum skjaldkirtli (því ég er miðaldra og kvenkyns) þótt margar rannsóknir sýni fram á tengsl letinnar við útrás þunglyndis. Ætli megi ekki bara rekja þetta allt til breytingaskeiðsins; pre-breytingaskeiðs, breytingaskeiðs og póst-breytingaskeiðs?

Meðan konur álíta lækna guði og samþykkja orðalaust hvað sem þeim hrýtur af munni og svara svo spurningalistum í stíl við hvað þær halda að kæmi blessuðum lækninum (kk) best er ekki von á öðru en sparsemisfimbulfambi þá kemur að krankleika kvenna.

Ég álít lækna dauðlegar verur. Enda er ég búin að hlæja mig máttlausa að sumum orðunum þeirra, eins og t.d. titlinum “faraldsfræðingur” (þeir eru með tölfræðina á hreinu!) sem getur eiginlega ekki þýtt annað en förulæknir, í stíl farandi kvenna Íslendingasagnanna. Hvk-orðið faraldur í eignarfalli  (beygist eins og Haraldur) er til í orðtakinu “að vera á faralds fæti” Aftur á móti er til kk-orðið faraldur (beygist eins og leiðangur) sem í eignarfalli er faraldurs og má ætla að sérfræðingarnir séu að meina að þeir séu “faraldursfræðingar”. Íðorðasafn læknisfræði gefur íðorðasafni í tölvufræði ekkert eftir 😉

Ég á enn eftir að finna út hvað “utanstrýtueinkenni” séu – á mannamáli …

Mikilvægi kroppatamningar versus ómerkilegt bókvit

Í því góða lókalblaði Skessuhorninu er sagt frá “Stórhækkun styrkja til íþrótta og tómstunda á Akranesi”  (20. maí, s. 9). ÍA hafði einhvern tíma gert sniðugan samning við bæinn um stighækkandi styrki ár frá ári og átti styrkveiting til þeirra þetta árið því að vera heilar 10 milljónir “en við gerð fjárhagsáætlunar og í ljósi stöðunnar í þjóðfélaginu var ákveðið að hækka upphæðina verulega” (sjá frétt á vef Akraneskaupstaðar).

Ég fatta reyndar alls ekki af hverju “staðan í þjóðfélaginu” hvetur litla fátæka kardimommubæinn minn til að blæða næstum þriðjungi meira en þurfti í ÍA!!  ÍA hefur sína föstu tekjustofna, hvar Lottóið gefur mest, og auk þess er varla hægt að halda því fram að frammistaða stjarnanna (þ.e. fyrrum fótboltaliðsins í meistaradeild) kalli á sérstaka viðurkenningu!

Í frétt Skessuhornsins er vitnað í nokkra sem telja mikla grósku og öflugt starf í íþróttum bæjarins um þessar mundir. Ég skal ekki rengja það en mig langar aftur á móti til að vita hvaða máli þessi gróska skiptir í rauninni, sérstaklega þar sem verið er nær eingöngu að meina keppnisíþróttir og þar af vegur fótboltinn hundraðfalt á við aðrar íþróttagreinar. Ég hef ekki orðið vör við að slík gróska skili öðru en gera nokkra myndarlega unga menn hjólbeinótta fyrir lífstíð og veita þeim góða reynslu í hoppa á hækjum. Ef einhver ætlar nú að fara að pípa um forvarnargildi íþrótta, einkum fótbolta, vísa ég svoleiðis rökum út í hafsauga og hef fyrir því ágætar heimildir, úr félagsskap sem ég hef stundað í tvo áratugi, sem ég get hins vegar ekki gefið upp. Efnaneysla íþróttamanna er síst minni en efnaneysla venjulegra kyrrsetuunglinga.

Ég skal með ánægju upplýsa aðrar heimildir um efnafræði fótbolta, úr því opna starfi sem kennsla í FVA er. Mér sýnist, eftir veturinn, að því lengra sem piltur kemst á fótboltabraut lífsins, því meira noti hann af neftóbaki sprautuðu undir efri vör. (Þetta er séríslensk hallærisredding og þessir piltar gleðjast mjög þegar þeir ná í smyglað snus, sem ekki er skortur á.) Þessir ármenn Akraness hafa setið tíma eftir tíma hjá mér og litið út til munnsins eins og kanínur, mér til óblandinnar gleði því ég er höll undir þá dýrategund. Á sama tíma og reykingingum var endanlega úthýst á lóð FVA í ár fór maður að finna sundurklipptar sprautur (án nála) í kennslustofum eftir kennslustundir. Upptökin að þessum þægilega sið er ÍA. Að óska eftir meiri grósku í fótboltanum finnst mér nú dálítið beggja handa járn!

En ástæðan fyrir því að ég nenni yfirleitt að vekja máls á þessari íþróttatilbeiðslu ráðamanna hér í bæ er að við eigum nú, í fyrsta sinn að ég held, Ólympíukeppanda í stærðfræði! Þetta er *Skagamaðurinn Ingólfur Eðvaldsson, sem að loknum stúdentsprófum mun einbeita sér að undirbúningi Ólympíukeppninnar sem fram fer í Bremen, Þýskalandi, um miðjan júlí í sumar. Ég hef ekki séð neinar fréttir af myndarlegri styrkveitingu til Ingólfs vegna þessa … og fékk reyndar staðfest rétt áðan að Akranesbær sjái sig alls ekki færan um að styrkja hann með því að borga honum einhver laun meðan á sex vikna stífum undirbúningstíma stendur, hvað þá ferðastyrk. Í forbífarten má nefna að önnur bæjarfélög, t.d. borg óttans, styrkja sína menn en e.t.v. mega þau bæjarfélög sjá af krónum í annað en fótmennt, ólíkt mínum litla bæ!  Akranesbær ber sjálfsagt fyrir sig aumum fjárhag á þessum síðustu og verstu tímum og væri það skiljanlegt ef ekki kæmu til fréttir eins og ég endursagði hér að ofan. Ætla mætti að Akranesbær væri kleifhugi þegar að íþróttamennt kemur og svo illa að sér að telja einungis það íþrótt sem stunduð er neðan klofs.

Mér þætti ofsalega gaman að vita hvað Eydís Aðalbjörnsdóttir, formaður Fjölskylduráðs bæjarins, segir við þessu 😉 Vill svo skemmtilega til að hún er líka formaður Skólanefndar bæjarins og ætti því að vera kunnug því starfi sem fram fer ofan hálss á venjulegu fólki, svo ekki sé talað um afburðafólki. Eða er þetta allt runnið undan rifjum Gísla bæjó (sem er ágætlega söngvinn alveg eins og starfsbróðir hans Bastían og hefur að nokkru leyti sömu lífssýn, hefur mér fundist)?

Við nánari eftirgrennslan kemur í ljós að Fjölskylduráð bæjarins hefur næsta lítil völd og áhrif og það er Bæjarráð Akraneskaupstaðar sem hefur hafnað þessum afreksmanni og Skagamanni um lúsarlaun á vinnskólataxta í sex vikna æfingatímabili fyrir Ólympíuleikana, sjá fundargerð bæjarráðs frá 7. maí 2009:

19. 0905002 – Styrkbeiðni – Ólympíuleikar í stærðfræði.
Bréf Ingólfs Eðvarðssonar, dags. 04.05.2009, þar sem óskað er eftir styrk sem nemur bæjarstarfsmannslaunum í 6-8 vikur,vegna þátttöku í Ólympíuleikunum í stærðfræði sem haldnir verða í Þýskalandi 13.- 22. júlí nk.
Bæjarráð getur ekki orðið við erindinu.

Eru engir aðrir Skagamenn en ég hissa á forgangsröð Bæjarráðs og Fjölskylduráðs þegar kemur að styrkjum til íþrótta- og tómstundastarfs? Hefur þetta fólk ekki haft spurnir af því að stærðfræði er íþrótt og keppt í henni á Ólympíuleikum? Eða meta kjörnir fulltrúar okkar aldrei hæfileika ofar axla? Er það ekki þröngsýni eða a.m.k. lágur  og lítill metnaður!

* Þess ber að geta að Ingólfur ávann sér einnig sæti í Ólympíuliðinu í eðlisfræði en varð að velja milli þessara tveggja greina því undirbúningur hvorrar um sig er það mikill. Bloggynja bendir á að það er sosum ekki allt vaðandi í afreksmönnum á Ólympíuleika, í hvaða grein sem er, hér á okkar góða Skipaskaga, sem þó mætti ætla af bókun Bæjarráðs, lesinni í samhengi við fréttina af stórhækkuðum styrk sama ráðs til íþrótta- og tómstundastarfa hér í bæ! Kona þakkar fyrir að Ragga Run og Kolbrún Ýr kepptu ekki í stærðfræði, á sínum tíma, því þá hefðu þær væntanlega aldrei fengið krónu í styrk!
 

  

Messa og ljúfir dagar

Þetta eru ljúfir dagar! (Hér undanskil ég yfirferð og eftirtekjur prófúrlausna, sem ég kláraði fyrir hádegi í gær …)

Við hjónin fórum í menningarferð til borgar óttans í gær, skoðuðum ljósmyndir frumburðar í Kringlunni og hlustuðum síðan á langt átjándu aldar þungarokksstykki, nefnilega H-moll messu Bachs, í flutningi Vox Academica. Stykkið var flutt í Langholtskirkju þar sem við höfum einmitt einu sinni hlustað á það áður, í flutningi Kórs Langholtskirkju. Við eru sammála (nema hvað … við erum orðin svo sammála með árunum að það vekur manni ugg – hvar er sjálfstæðið?) um að flutningurinn sem við heyrðum í gær sé umtalsvert betri en sá sem við höfðum áður heyrt. Ekki hvað síst var það vegna þess að í þungarokksköflum (t.d. Gloria) setti kórinn allt í botn og maður beið eftir að þakið lyftist og hönd guðs skaffaði sosum eins og eitt kraftaverk! Í alvöru! Einsöngvararnir voru fínir og  heldur hógværir og ekkert að þenja sig um of (enda gefur textinn þeirra ekki mikið tilefni til þess) en í fyrri upplifun af verkinu læf var a.m.k. einn einsöngvari þeirrar skoðunar að óperudívustælar gerðu sig vel í sópranhlutverki. Síðast en ekki síst söng þessi kór textann með klassískum gullaldarlatínuframburði en ekki þeim ömurlegu ítölskuskotna framburði sem maður heyrir allt of oft.  Það  gladdi svo mitt gamla hjarta  að hitta svo gamla latínukennarann minn í hléinu.

Stjórnandinn, Hákon Leifsson (Tumi), var með mér í II. bekk í Héró. Ég var soldið að spekúlera hvort sama vetur hefði Jens sá sem kallar sig Guð verið í almennum III. bekk og var að velta fyrir mér, meðan ég reytti arfann, hvað lífshlaup unglinga verður  ólíkt þótt unglingatýpurnar hafi ekki verið ýkja ólíkar og hvernig við sum endum á allt öðrum stað en lagt var upp til.  Órannsakanlegir vegir guðs, geri ég ráð fyrir.

(Sem sjá má er ég enn undir sterkum kristilegum áhrifum eftir að hafa setið í kirkju – án mikilla óþæginda – í tvo-og-hálfan tíma, gefandi því lítinn gaum að úti var LOGN og 20 stiga hiti.)

En mikið rosalega er þessi kirkja smekklaust innréttuð! Í stað altaristöflu er risastór abstrakt glerlistagluggi sem er út af fyrir sig allt í lagi. Fyrir framan hálfan risagluggann hefur verið skellt risastóru pípuorgeli úr ljósum viði, með sissí rómantískum útskurði, algerlega úr takti við allt annað innanhúss! Áhrifin eru þau sömu og ef ég keypti fjóra Loðvíks 16. rókókóstóla í nýja eldhúsið Atla, við hans nýja eldhúsborð!  Kannski væru þessir gripir OK hvor í sínu lagi en saman? OMG!

Ég sat úti við vegg – svo ég gæti farið með veggjum ef ég fengi gervihjartaáfall – og á þessum vegg voru risastórir kringlóttir keramikdiskar sem ábyggilega áttu að tákna eitthvað en voru aðallega ljótir. Frammi í forstofu hékk listaverk; tré í laginu eins og kross og fljúgandi síld þar í toppi, altént einhver fiskur með ugga sem minntu á vængi. Þetta er sumsé æðri list og alþýðukonur eins og ég fatta ekki hvað fiskur gerir í trjátoppi enda ekki nógu lærð í kristinni táknfræði til þess. Alþýðukonur eins og ég fatta hins vegar mjög vel að eitthvað mega óstand er á klóaki og frárennslisrörum kirkjunnar; fúkka- og klóakfýlan var að drepa mann og ekki bætti úr skák að reynt er að maska lyktina með vinnukonuvatni í brúsa, einhvers konar “air-freshener”. Af því verið var að taka tónleikana upp var ekki hægt að hafa opið út meðan á þeim stóð, því miður.

Í dag hef ég tsjillað, klárað blóðuga reyfarann, reytt smá arfa en passað mig voðavel á að vera sá aumingi sem ég er og séð að skv. veðurspá má dúlla við svona verk fram eftir vikunni (vonandi eru ekki endalausir andskotans fundir í vinnunni!). Maðurinn þrætir fyrir að hafa stillt plastpoka merktum “Pússningarsandur” á eftir-hádegis-pallinn minn en ég sé í gegnum þetta og veit að nú finnst manninum að ég ætti að sandskúra pallinn þar til fjalirnar verða hvítar, eins og gert var í gamla daga. Til þess vantar mig þó strigapoka eða álíka þjóðlega tusku. En ég er að hugsa um að gá hvernig gefst að skrúbba með svona sandi – ekki er pallasápa það skemmtilegt eða auðvelt verkfæri (veit ég af fyrri reynslu) – nú þarf bara að kaupa skrúbb því slík græja er ekki til á þessu heimili.

Sem sagt: Þetta eru ljúfir dagar og morgundagurinn verður ekki síðri, finn ég á mér.

P.S. Ég ætlaði að skrifa um rafrænt einelti fullorðinna kedlinga (af báðum kynjum en einkum kvenkyni) eftir að hafa horft á áhugaverða samantekt Elínar Hirst um þessi efnistök og uppátæki unglingsstúlkna hér á landi, en þar sem sú umfjöllun passar engan veginn við færsluna verður hún að bíða.

Að sögn elstu manna … um Einar frá Hermundarfelli

Þar sem Sesselja þríspyr mig í kommenti við síðustu færslu get ég ekki annað en hnoðað í nýja færslu um þennan Hermundarfellsmann þótt ég þrísegi ekki tíðindin (þess þurfti bara við Njál eða af Njáli).*

Einar þessi var aðallega húsvörður við Barnaskóla Akureyrar í sinni tíð (held ég, athugið að ég nenni ekki að lesa fleiri bindi). Hann er mér og mínum manni í fersku óþægilegu minni frá því einungis var til rás 1 og karlinn hélt úti þættinum “Mér eru fornu minnin kær”, sem okkur minnir að hafi einkum fjallað um frostaveturinn mikla 1918 (þegar kollurnar frusu á hreiðrunum á Sléttu og Skagamenn fóru fótgangandi yfir Flóann til Borgar óttans og það allt …) Maðurinn þurfti að hlusta á þennan harmagrát árum saman, vinnandi í gróðurhúsi frá blautu barnsbeini, þar sem útvarpið átti að stytta mönnum stundir. Ég var svo heppin að vinna bara eitt sumar í gróðurhúsi og á þeim vinnustöðum sem tóku þá við var ekki mikið um rás 1.

Þetta er inngangur til að skýra fyrirframgefna andúð á aumingja Einari Kristjánssyni. Í gær æxlaði ég mér hin bindin af ævisögunni og hellti mér í Ungs manns gaman, sem er 2. bindið, meðan ég horfði á júróvissjónið. Í því bindi segir hann frá sumardvöl á Raufarhöfn, 1929.  Þetta leit nokkuð vel út til að byrja með: “Á Raufarhöfn voru snotrar og glaðlegar yngismeyjar, eins og annars staðar á byggðu bóli …” (s. 22) og svo talar hann fallega um Lúllu Lund (í 1. bindinu var heilsíðumynd af henni … ætli hann hafi verið skotinn í henni?).  Svo snýr hann sér að Búðinni og fólkinu þar.

Til að byrja með er ósmekkleg kjaftasaga um að Jón (langafi minn) hafi ofurverðlagt allt í útibúinu á Kópaskeri og platað bændur. Miðað við framhaldið (s. 24 og áfram) er þessi saga örugglega lygi.

Hann telur að heimilisfólk í Búðinni hafi verið “kaupmaðurinn Sveinn, og kona hans, Guðrún Pétursdóttir. … Þau hjónin áttu að einkabarni son, Pétur að nafni.”  Svo segir hann frá tannkýlinu Péturs, “á miðju sumri 1930” sem varð að blóðeitrun og leiddi hann til bana 1930, “með þessum sviplega hætti og var þá rétt um tvítugsaldur.” Skv. Íslendingabók var Pétur Guðjohnsen Sveinsson fæddur 1904 og dó 1929 (11. september, skv. dánartilkynningu í dagblaði). Í Ættarsögunni miklu, sem enn er í smíðum og óvíst er að verði lokið á næstunni, skiptir talsverðu máli að hann og amma voru jafnaldra og góðir vinir, t.d. græddi hún örugglega á því að fá að læra sumt af því sem Pétri var kennt.  Ég fæ út að Pétur hafi verið 25 ára þegar hann dó en ekki “rétt um tvítugsaldur”. (Myndin er sjálfsagt tekin skömmu áður en hann dó.)

“Guðrún yfirgaf Raufarhöfn ekki löngu síðar og flutti til frændfólks síns í Reykjavík. Hún hafði ekki búið þar lengi er hún hlaut skjótan dauðdaga í ökuslysi.” Þetta er náttúrlega ósköp trist en á hinn bóginn haugalygi! Guðrún Pétursdóttir Guðjohnsen var fædd 1878, giftist Sveini Einarssyni kaupmanni 16. júní 1903 og var gift honum í rúmlega hálfa öld. Sveinn dó rúmlega áttræður, árið 1954, en frú Guðrún varð fyrir bíl í Reykjavík 17. nóvember 1955, eftir að hafa dvalið í Reykjavík í 5 ár til að leita sér lækninga. Ég fæ út að hún hafi verið 77 ára þegar hún lést af slysförum og fullyrðingar Einars á Hermundarfelli um þessa konu og hennar fjölskyldumál eru náttúrlega alveg út úr kú!

Víkur sögunni nú að ömmu minni og afa: “Einar Baldvin, sonur Jóns, bjó einnig í “Búðinni” og var föðurbróður sínum til aðstoðar við verslunina. Einar var hæglátur alvörumaður, vandaður og traustvekjandi. Kona hans var Hólmfríður Árnadóttir frá Bakka við Kópasker. Þau áttu börn á ýmsum aldri. Hómfríður hafði alist upp hjá Guðrúnu og Sveini frá því að hún var á barnsaldri. Hún var bráðmyndarleg í sjón, glaðlynd og þokkarík. Aldrei var hún nefnd annað en Fríða í Búðinni.  … Þar sem ég taldi til náinnar frændsemi við Fríðu, fannst mér sjálfsagt að koma mér í kunningsskap við hana og var það engum vandkvæðum bundið, því hún var félagslynd og gestrisin. Ég hafði því ekki lítið gaman af að heimsækja hana í eldhúsið þegar ég átti frívakt …” (s. 24)

Ég tek að sjálfsögðu undir karakterlýsingar á ömmu og afa. Hitt er náttúrlega nánast pjúra lygi. Til að mynd ólst Fríða amma alls ekki upp hjá Sveini og Guðrúnu heldur var tekin í fóstur af Jóni og Pálínu, foreldrum Einars afa. Ég vona að höfundur ævisögunnar ljúgi líka til um “nána frændsemi” því maður sem ekki tekur betur eftir væri betur kominn í annarri ætt! Mér er ókunnugt um hversu miklum tíma amma mín eyddi í eldhúsinu en tel ólíklegt að hann hafi verið langur; til hvers voru þá vinnukonurnar? Sjálfsagt hefur amma Fríða vorkennt þessum sveitalega slöttólfi austan Fjallgarðs og gefið honum kaffi og spilað soldið fyrir hann, af meðfæddri greiðasemi við lítilmagnann.

Einar á Hermundarfelli tekur svo til að lýsa Sveini Einarssyni sem einhverju ofurnísku fríki (s. 24 – 26). Ég hef það ekki eftir.

Einhver góð sál hafði bent mér á þessar æviminningar og þar gæti ég fundið frásagnir frá Raufarhöfn fyrri tíma, sem e.t.v. gætu nýst mér. Vissulega fann ég svoleiðis frásagnir en árangurinn er sá að ég trúi ekki orði af neinu sem finna má í þeim fjórum bindum sem Einar Kristjánsson frá Hermundarfelli gaf út, þar af þrjú bindi ævisaga hans sjálfs en hið fjórða frásagnir af öðrum. Best gæti ég trúað að skyldur Einari þessum sé ákveðinn tollvörður með sama nafni, sem laug blákalt að mér í síma, ekki einu sinni og ekki tvisvar heldur þangað til hann var gersamlega kominn út í horn með sitt lygimál og neyddist til að afhenda mér hluti sem hann var að reyna að lúra á áratugum saman, án þess að eiga hætis hót í þeim! Einhvern veginn finnst mér að meðferð þessara tveggja Einara á sannleikanum sé svipuð.

Ég er verulega farin að efast um að kollurnar hafi frosið á hreiðrunum 1918, þær gerðu það hins vegar 18hundruðogeitthvað (sjá Jón Trausta einhvers staðar) og eftir þetta tek ég sjálfsævisögum óbloggandi fólks með mörgum varnöglum. (Minnið er valt en blogg er traust. Feisbúkk er húmbúkk!)

* Ég verð að fara að snúa mér að einhverjum nútímabókmenntum – liggur orðið við að ég tali 13. aldar íslensku svona dags daglega. Elsku maðurinn benti mér á að búa til valáfanga um ljóðagerð Nýhílista, með sérstakri áherslu á Eirík Örn Nordahl og Ingólf nokkurn stærðfræðing og netpennavin um skeið (man ekki föðurnafnið).  Best að skoða það í sumar 😉 

**  Almáttugur minn, ég var að fatta að sonur Einars frá Hermundarfelli er vinur foreldra minna og að barnabarn hans situr fundi með manninum mínum. Varnagli: Kannski er allt hitt satt í öllum hinum bindunum en vill bara svo óheppilega til að minningar frá akkúrat sumrinu 1929 hafi skolast til í minni hans.

Blogglægð

Ég er í einhverri blogglægð þessar vikurnar. Veit ekki hvað veldur nema niðurtröppun lyfja gerir mig húðlata án samviskubits. Í sumum kreðsum myndi þetta teljast batamerki hjá jafnfullkominni manneskju og mér 🙂

Talaði lengi við Rögnu í gærkvöld og heyrði ýmis plön um familie-sammenkomst um hvítasunnuna. Það gæti verið gaman. Við Hrefna gætum tékkað á júbílöntum en ég nenni eiginlega ekki að borða með þeim. Hvað ætlar Hrefna að gera?

Verandi ei á Feisbúkk þarf maður að brúka talsíma, jafnvel heimilissíma, og tölvupóst. Ég veit t.d. ekki lengur á hvaða vinnustað litli bróðir er; var honum skilað eftir að hafa verið sjanghæjaður? Og er Freyja búin að vinna sig í hel við liðsinni litlu óöruggu fjarnemanna sinna?

Eina fréttnæmt hér er að unglingurinn, sem ég hafði von um að væri að rísa úr öskustónni í vetur en það reyndist tálvon, sefur álíka mikið og ég (= firna mikið) og einnig án samviskubits. Þetta væri kannski OK ef hann væri ekki í prófum núna, þessi elska. Hann hefur grennst um tíu kíló og stækkað um hálfan metra (áætlað) og ekkert lát á. Mér finnst að það ætti að finna einhver úrræði fyrir unglinga með neikvæðan prófkvíða. Mætti t.d. koma til móts við þá og leyfa þeim að taka prófin milli kl. 2 og 4 að nóttu til (þegar þeir eru upp á sitt besta), leyfa þeim að drekka 2 l af Pepsi Max í hverju prófi og gefa þeim nett raflost á tíu mínútna fresti, svo þeir sofni ekki í prófinu. Í mínum skóla er dobía af úrræðum fyrir prófkvíðakeis – sem því miður vilja ekki fallast á að þetta sé læknisfræðilegt vandamál, sem það er … en engin úrræði fyrir fluggreinda unglinga sem stefna að því að vera þetta 13 – 14 annir að ljúka fjölbraut.

Ég hef trú á að þetta lagist þegar unglingurinn hættir að hækka.

Blogglægðin stendur sjálfsagt eitthvað lengur. Flestir dagar fara í að sofa eða lesa reyfara þar sem blóðið drýpur af hverri síðu! Til mótvægis las ég ævisögu Einars frá Hermundarfelli, 3. bindi. Spurning hvort ég ætti ekki að lesa hin tvö bindin milli morðbókmennta?

Upp og niður

Það er eitthvert f* bakslag í mér núna – mér finnst heimurinn almennt frekar fánýtur og leiðinlegur. Takist mér að rífa mig út úr húsi mun líðanin batna (en ég er bara svo innilega búin að fá nóg af því að rífa mig upp, út, frá o.s.fr. að ég orka því ekki lengur). Ég hugsa að styrkleiki dýfunnar sé lítill og hún standi stutt yfir. Augljóslega er ég ekki á hraðferð í Helvítisgjána, af því hef ég næga reynslu til að meta dæmið og sjálfsagt er þetta rugg á sálarlífinu bara fráhvarfsónot eða af stöðu himintungla. Kannski batnar mér ef ég er duglegri að lesa reyfarann “Ren ondskab”, sem er faktískt soldið ógislegur.

Í kringum mig gerist þó margt skemmtilegt og skondið. Má nefna að nú höfum við loksins fengið nágranna á efri hæðina. Þeir nágrannar fluttu reyndar úr næsta húsi og eru þannig séð ekki spánnýir fyrir okkur. En það er gaman að fá börn í húsið.

Unglingurinn minn er að tærast upp af ást, nokkur kíló á mánuði, svei mér þá. Ég fékk náðarsamlegast leyfi til að tilkynna að hann er að deita stúlku – þó sagði unglingurinn áhyggjufullur að nú þyrfti hann að svara hundrað spurningum frá ömmunum. Ömmurnar verða bara að skrá sig á feisbúkk 😉

Þetta er myndarleg stúlka og greindarleg í þeim örsamtölum sem ég hef átt við hana. Hún býr í Mosó svo notkun strætós 57 hefur nokkuð aukist, auk þess sem hratt gengur á veglykil unglingsins (sem við gáfum honum í jólagjöf og vakti gífurlegan fögnuð!).

Maðurinn sekkur æ dýpra í sín grísku fræði. Nú er ég búin að hundskamma hann fyrir að sofna út frá eða ofan á penna! (Hlítur að vera einsdæmi.) Penninn var rauður tússpenni og lokið ekki á. Þetta er annað sængurverið sem maðurinn spillir með rauðu bleki og löngu ljóst að rautt blek er algerlega þvottekta.

Frumburðurinn er svo til búinn að öllum sínum verkum og getur útskrifast með BA (og vonandi láði) í vor. Ritgerðin er á seinustu stigum. Hann rétt leit hér inn um helgina og virðist vera að tærast upp af sporti; Nú er æft og æft fyrir Laugaveginn í sumar. Mér er óskiljanlegt hvaðan frumburðurinn hefur fengið þessi sportgen (í miklum mæli). Hlítur að vera stökkbreyting!