Author Archives: Harpa

Tröppun, tónlist og sívaknandi ég

Lengra milli færslna (er n?) er batamerki, a.m.k. stundum. Nú hef ég trappað niður helminginn af Litíum-inu. Fyrstu dagarnir voru slæmir, aðallega vegna þess að ég varð svo geðvond að mig langaði að kála hverjum þeim sem varð á vegi mínum.  Þetta var dulítið óþægilegt þegar ég var að hugga nemendur, stappa í þá stálinu, afhenda þeim annareinkunnir og svoleiðis sömu dagana og þurfti þá að líta út eins og múmínmamma, á meðan. (Ekki hefur komið fram að múmínmömmu langi til að kála nokkrum manni!) Svoleiðis að ég þurfti að dópa niður geðvonskuna og svo trappa niður dópið.

Hjú! Þessa meðalatröppun er bæði löng og leiðinleg.  Hugsið ykkur alka sem þyrfti fyrst að hætta að drekka koníak, svo viskí, svo vodka o.s.fr. en mætti slá á verstu fráhvörfin með einum bjór á dag; Ekki gæfuleg meðferð það og óendanlega seinleg og kvalafull!

Næst er hin Litíum-taflan. Ég fæ smá frí á milli þar til ég vendi mér í hana um miðjan maí. Bæ ðe vei hef ég ekki farið í neina maníu (því miður, mér er sagt að sjúklingnum finnist það gaman), einna helst að ég sé örlítið ör á morgnana. (Sem mætti skýra með þessari þörf til mannvíga, sem gæti líka verið óþekkt Njálusyndróm sem herjar á kennara við tíundu kennslulotu sömu bókar?)

Kostirnir eru þeir að ég skelf ekki, mér finnst margt fyndið; ég sef að vísu mikið og er löt en finnst miklu meira gaman í vökutímanum. Svo finnst mér líka sumt drepleiðinlegt, eins og að reikna út annareinkunnir. Þetta er eðlileg ég. Og eðlileg ég fer ekki að djöflast hér inni í mínu fína bónaða húsi með hefilbekk eða tálguhníf! Kannski má skoða þessa iðju á pallinum í sumar?

Við maðurinn fórum á kaffihúsakvöld Kirkjukórsins á fimmtudaginn. Þar voru marengstertur í hrönnum!  Kórinn söng vel (svona eftir því sem ég hef vit á), Gunnar Gunnarsson skálmaði á flygilinn og Tómas R. var með sinn bassa, í hléi og sem undirspil, og rúsínan í pylsuendanum var lag og ljóð eftir kollega minn og frænda hans. Það var gífurlega flott!  Textinn vegur salt milli þess að vera óhugnalegur og um friðsælan dauða, með vísunum út og suður, sem koma flott út. Lagið er þannig að það má syngja af stórum kór eða trúbadúr með gítar; örugglega jafnflott í hvort sinn. Þetta lag var tvíflutt og ég hlakka til að komast yfir disk / almennilega upptöku.

Við sátum alveg fremst í salnum, við hringborð, og eiginlega uppi í píanói, bassa og sópran. Tvisvar sinnum fann ég fyrir smá óþægindum (fannst að ekkert súrefni væri eftir í salnum, handa mér) en með skynsamlegum öndunaræfingum og tuldri við mig, inni í mér, komst ég út úr þessari aðkenningu að kvíðakasti í bæði skiptin. Miðað við þetta gæti ég setið á miðjum bekk í leikhúsi.

Næstu tónleikar mín og mannsins verður H-moll messan hans Bachs, um miðjan maí. Þar er ég svakalega veik fyrir Agnus Dei og finnst það Agnus Dei-a fegurst. Svoleiðis að ég sveiflast frá ABBA til Bachs á hálfum mánuði, með viðkomu í Kirkjukór Akraneskirkju.

Við maðurinn erum að hugsa um að ganga á Akrafjall (merkilegt nokk afþakkaði unglingurinn að koma með) svo ég geti dáðst að fagurri rótaríbrúnni yfir Berjadalsána. Ég veit nú ekki hversu úthaldsgóð (öllu heldur -lítil) ég er en ætti altént að hafa mig upp Selbrekkuna og svo má taka statusinn og ákveða framhaldið.

Því miður hef ég ekkert unnið í Ættarsögunni miklu undanfarið.  Veldur því aðallega að ég hef þurft að lesa nýjustu bók Lizu Marklund og Rauðbrystinginn Jons Nesbø (?).  Rauðbrystingurinn er æði!  Þær eru báðar í láni núna en ég tek við pöntunum 🙂

Ég er staðföst og læt ekki lokka mig inná Feisbúkk (horfandi á rígfullorðið fólk í fáránlegum leikjum klukkutímunum saman og auk þess í vinahópi Britneyjar Spears!).  Þannig að fréttir af ættarmóti verða að berast mér í venjulegum tölvupósti og sniglapósti, eins og ég fékk einmitt nýverið.

Harpa:1, Seroquel:0!!!

Þetta eru mikilvægustu úrslit helgarinnar á mínu heimili! Það versta er búið (2 fyrstu næturnar og seinnipartar daga) og í lok næstu viku verður eins og ég hafi aldrei snert á Seroqueli. Þar lýkur 9 vikna tröppun! Hárlosið, sem var búið að gefa í skyn að væri ímyndun í mér, er hætt; baðkerið og hárburstar ekki lengur útbíað í hárum en hins vegar fullt af illhærum í vinstra kollviki, sem bendir til að litla góða hárið sé einmitt að fara að vaxa þar!

Næst snúum við okkur að Lítíum-ógeðinu en ég hef ekki trú á að það verði eins erfitt; mun þó væntanlega gleðjast yfir að geta safnað nöglum sem líta út eins og neglur en ekki bárujárn. (Þetta er óskráð aukaverkun af Litarex og því gef-í-skyn-ímyndun mín, svona stundum alla vega.)  Ég hugsa að ég láti Litarexið bíða fram undir næstu helgi. Þar erum við að tala um tvær tröppur. Og næst … sjáum til!

Meirihluti kjósenda á þessu heimili er dulítið spældur en nær sér niður á að hía á kosningasigur minnihlutans hér á bæ. Mér er slétt sama! Auðvitað kaus ég Gutta og Ólínu, ekki hvað síst af því ég held að þau hafi bæði svo gott af því að kynnast hvort öðru! Auk þess vita þau ýmislegt um skóla og menntakerfið í landinu sem er meira en hægt er að segja um kvótakónga og fiskverkunarkonur vestrá Fjörðum eða Nesi. (Nei, ég er ekki snobbuð – bara lífsreynd og raunsæ eftir að hafa unnið í þremur frystihúsum á mínum yngri árum.)

Listar sem troða Skagamönnum í fimmta sæti eða neðar, eins og Akranes sé eitthvert trilluþorp í kjördæminu, geta bara snapað gams og étið það sem úti frýs fyrir mér!

Gleðilegt sumar! Og smávegis af spons-hugmyndum.

Ég óska öllum lesendum mínum (og örfáum ólesandi ættingjum) gleðilegs sumars. Óvísindalegt tékk síðasta vetrardag leiddi í ljós að einungis sirka 5% nemenda minna – nýnema og kannski annars árs – vissu að það byrjaði einhver sumarmánuður þennan fimmtudag, hvað þá að hann héti því gullfallega nafni harpa! Núna vita a.m.k. 85% nemenda í þessum áfanga af gömlu mánuðunum og undurfagra nafninu þessa, miðað við 15% fjarvistir í gær.

Ég fór á ABBA tónleika hjá Tónlistarskólanemendum í gærkvöldi, með vinkonu minni. Þeir voru ekki hnökralausir en náðu þó ABBA fílingnum vel með glansgöllum, ABBA hreyfingum o.þ.h. Mér fannst mjög gaman. Í tilefni þess hvað ég var hress á eftir sagði ég manninum hvað ég ætlaði að kjósa á laugardaginn. Maðurinn saup hveljur og bað mig vinsamlegast að segja ekki sonunum.

Tók svo eina rispu við manninn, með hálfum huga því mér er svo sama um pólitík, um fémútur, sponsora, betlistafi o.fl. Ég var líka nýbúin að horfa á álíka stöff um lyfjafyrirtæki í síðasta Kompás þættinum á vefnum (sá var í janúar en ég hef verið heldur sein að fatta hlutina almennt séð og lítið hirt um fjölmiðla síðastliðið ár).

Svo sá ég að fyrirlestraröðin í HÍ, um mannlíf og kreppu, var sponsuð af …. lyfjafyrirtækjum (Frumtök, Actavis) og þremur annars konar fyrirtækjum. Sem sagt: Þegar góðir fyrirlesarar gáfu sitt efni og fluttu ókeypis og leyfðu birtingu var HÍ það leim að þurfa að borga upptökufyrirtækinu (Kukl ehf) fyrir að koma þessu á vefinn og þurfti til þess að betla út aura hjá hagsmunaaðilum kreppunnar!

Fyrst og fremst vorkenni ég fyrirlesurum að láta fara svona með sig. Var t.d. Guðrúnu Nordal ljóst að hún var í boði Frumtaka (hagsmunasamtaka frumlyfjafyrirtækja) og Brims, sem annað hvort er brimbrettafatnaðarverslun eða sjávarréttafabrikka einhvers konar? Fór hagfræðingurinn Gylfi Zoega út í að fjalla um heilsutengd efni svo Actavis borgaði upptöku og klippingu á hans fyrirlestri? Vissu allir hverjir sköffuðu pening?

Í annan stað má benda á að í flestum framhaldsskólum og grunnskólum eru nemendur sem geta tekið upp efni, klippt og látið birtast í “fullum gæðum” á vefnum. Væntanlega er einhver kvikmyndaklúbbur í HÍ sem gæti hið sama fyrir minna verð. Þess utan laggar myndin alltaf við og við hjá mér, sennilega vegna þess að ég er ekki enn komin með ljósleiðara og ef notandi tölvu er ekki með hraðvirkasta samband sem völ er á þá skipta “full gæði” í skránni sem liggur frammi voða litlu máli.

Fyrir einhverjum árum hafði kennarastofa FVA fundið út kosti sponsunar / betls. Við vorum til í að enda kennslustundir með yfirlýsingum eins og “Þessi íslenskutími var í boði Baugs hf”, “Þessi efnafræðitilraun var í boði Norðuráls” o.s.fr.. En það sem við litum þá á sem brandara er núna greinilega alvara í tilraunum HÍ til að gera sig sýnilegan og höfða til “fólksins í landinu”.

Sem sjá má er ég pirruð á lyfjafyrirtækjum og sponsun. Reyndar er ég nýbúin að fara yfir kaflana um málafærslumanninn Eyjólf Bölverksson, sem stóðst ekki digran gullhring (um arm) og tók að sér að verja vonlaust keis á Alþingi. Hann var auðvitað drepinn, eftir að Snorri goði hafði hlegið að styrktaraðila-gullhringnum hans og spáð honum illu.

Ég er enn í niðurtröppun. Þetta er verk sem tekur tímann sinn! Engin trappa hefur verið stigin síðan síðustu helgi en ég ætti að komast á stigapallinn núna um helgina (með tilheyrandi óþægindum). Enn þarf ég að sofa a.m.k. 2 tíma á dag, auk 10 tíma nætursvefns, sem segir mér að annað hvort er ég svona veik eða svona lyfjuð ennþá. Eina leiðin til að komast að hvort er er náttúrlega að minnka lyfin óendanlega hægt og bítandi. Kannski verður einhvers staðar náð jafnvægi? Besti hugsanlegi árangur væri að geta verið lyfjalaus, þó ekki væri nema í nokkra mánuði. Ég er næstum búin að gleyma því hvernig ég er í raun og veru.

Nú, ég var búin að setja manninum fyrir að koma með mér á karlakórstónleika kl. 17 (ég er svo svag fyrir karlakórum: Brennið þið vitar og Stenka Rasin gefa gæsahúð!) – en þá færði þessi sami maður mér óvænta sumargjöf: Hnausþykkan blóðugan reyfara sem ég hef einungis heyrt jákvæða dóma um! Svo karlakórarnir þrír verða að halda tónleikana sína án mín 🙂

Mér líst vel á sumarið: Páskaliljurnar virðast ætla að hafa þetta af þetta vorið og í sumar verðum við maðurinn á eyjahoppi á Tylftareyjum. Annars hefði ég verið til í Krít eins og venjulega.

Þessa dagana

er allt fínt að frétta af mér.  Reyndar svo fínt að ég hef verið að dúlla við ýmislegt sem ég hafði enga orku til áður og þ.a.l. lendir bloggið dálítið aftarlega á merinni í dugnaðinum.  Maðurinn veltir mér upp úr því að ég sé í rauninni núll og nix eftir að hafa gengið af Feisbúkk og skellt eftir mér dyrunum. Ég læt hann hins vegar vinna fyrir mig ýmis skítverk á feisbúkk, s.s. persónunjósnir ef á þarf að halda en losna við tímaeyðsluna í Feisbúkkar-ekki-neitt. (Sem minnir mig á, Einar: Hvenær í sumar er þetta ættarmót sem er auglýst inni á Feisbúkk? Er það ekki örugglega í júní?)

Eftir síðustu hremmingar var ég séð og tók helgina í hoppið 50 mg niður í 25 mg af “jafnvægisstillandi lyfinu”. Enn fremur tróð ég í mig róandi, svo ég gengi ekki frá familíunni, og reyndi að sofa sem mest, sem er ekki auðvelt í þessu lyfjahoppi. Þetta gekk upp og nú er bara eitt hopp eftir, sennilega um næstu helgi.

Þarf varla að taka fram að mér líður miklu betur – ekki að ég sé ólatari en áður en ég er þó a.m.k. í tengslum við umheiminn og nógu vel að mér í umhverfinu til að vera ekki alltaf að detta (í bókstaflegri merkingu). Hugsandi um erfiðu skammtatröppurnar niður og svo til þess að ég tók 300 mg af þessu lyfi á sólarhring segir mér að ég hafi verið engu betur sett þá en uppvakningur.

Næsta “jafnvægisstillandi” lyf bíður handan við hornið … Með þessu áframhaldi get ég farið að spila á píanó aftur!

Nú er það alls ekki svo að ég stefni á að verða lyfjalaus. Ég hef sáralítið átt við aðalþunglyndislyfið (gamalt og lummó) en vil náttúrlega komast að því hve mikið ég get minnkað töku þess og notið samt lækningamáttarins. Stefnan er hins vegar ekki að hætta á því. Mér dettur ekki í hug að ég sé skyndilega hætt að vera þunglynd og kvíðin og geti bara dansað um og droppað blómadropum og lifað hamingjusömu lífi forever and ever. Á einhverjum tímapunkti getur vel verið að ég hafi þurft á öllum þessum lyfjum að halda en hvorki mér né mínum góða lækni orðið ljóst hvenær sá tími var liðinn og kominn tími til að bakka út úr pilluhrúgunni. Einhvern tíma seinna gæti ég þurft aftur á þeim að halda.

Ég þakka góðar óskir og ábendingar um Detox- meðferð en því miður hef ég enga trú á þeirri hreinsun. Svo myndi ég auðvitað miklu frekar taka Detox í Hvalfirðinum en Póllandi, bara svona af ættjarðar- og nærsveitunga- stuðningi!

Aðrar fréttir eru fáar, sem betur fer því unglingurinn er á Akureyri; leigði pláss í sumarbústað með vinum sínum sjö. (Ekki myndi ég vilja þrífa þann bústað á eftir!) Það er náttúrlega gleðilegt að Kristín Þóra, okkars keppandi, vann keppnina en vonandi hafa Skagamennirnir ekki haldið alltof mikið upp á það. Ég tékka reglulega á vindhraða á Holtavörðuheiði og undir Hafnarfjalli um þessar mundir …

Amman var að spyrja af hverju unglingurinn hafi verið í DV í síðustu viku. Okkur foreldrunum skilst að Vífill hafi sent inn fréttaskot um sig. Fréttaskotið var að hann vissi ekki símanúmerið hjá Obama. Þetta rataði á forsíðu! Svo var síða inni í blaðinu þar sem Vífill sagði af sér helstu fréttir, sem voru þær helstar að af honum væri ekkert að frétta. Síðan hafði hann hugsað sér að rukka DV um 5000 kr. því það er sem upphæðin sem menn fá fyrir fréttaskot. Á síðustu metrunum kikkaði einhver sómatilfinning inn og DV á ennþá fimmþúsundkallinn.

Sloppadagur og kjútípæ

Það sem í uppeldi mínu kallaðist “leggjast í kör fullfrísk manneskjan eins og aumingi!” heitir núna “taka sloppadag svo maður (öllu heldur kona) höggvi ekki mann og annan í fjölskyldunni (ekki bókstaflega, þetta er metaphorically speaking og sýnir áhrif þess að kenna Eglu tvisvar á ári í tuttugu ár!).” – Svo er Leó að spyrja mig hvort ég sakni ekki Eglu? Ég er að reyna að bakka út úr Eglu og verða obbolítið kvenlegri en ekki hugsa um hve væri gaman að gubba framan í þennan eða bíta hinn á barkann.

 Ath. að myndskreytingar við þessa færslu koma færslunni ekkert við. En finnst ykkur þessi litli ekki vera mikið kjútípæ?  Og hann hefur næstum ekkert breyst, þessi elska.

Ég hef sumsé tekið svoleiðis sloppadag  í minni kör enda eru allir hinir á heimilinu frískir á ferð og flugi, í heimsókn í annað kjördæmi eða að skutlast með pizzur hér innanbæjar. Úfin og ótótleg sef ég og les til skiptis og et bara óhollt  og drekk sterkt kaffi og lítrana af sódavatni og með þessum góðu ráðum hefur mér tekist að líða nokk vel í dag. Enda bakkaði ég í mitt eigið niðurtröppunarplan í gær. Virðist skila sér. (Þarf að reykja tvo pakka yfir daginn ef vel á að vera.)

Nú er ég búin með Hetjurnar frá Navarone, en það var soldið skrítið að til þess að skilja hana varð maður að hafa séð myndina Byssurnar frá Navarone (djíses hvað Gregory Peck er sætur!). Maðurinn hafði af hyggjuviti sínu fengið myndina lánaða, alveg sjálfur og einn.  Seinni bókin er sem sagt ekki skrifuð eftir fyrri bókinni heldur eftir myndinni sem var gerð eftir fyrri bókinni. Hálflesnar eru bók eftir Kinsella sem er ekki alveg að gera sig, tveir hálflesnir reyfarar sem ég fann á dönsku í Hagkaup (kaupi alltaf danska reyfara ef ég rekst á þá) og svo náttúrlega Njála en ég hef ákveðið að dagurinn á morgun dugi alveg í að setja mig inn í lögfræðikjaftæðið og hvurnig fyrsta mál klúðraðist fyrir fimmtardómi.

Þarna höfum við annað krútt og ég átti aldrei séns hjá þessum ljósu lokkum og spékoppum!  Sennilega hef ég byrjað að æxla með mér þunglyndi /óyndi / geðhvarfasýki eitt tvö þrjú og allan þann pakka þegar þetta krullaða kjútípæ mætti á svæðið.

Sem sjá má, innan um allan vaðalinn, er ég svona aðeins að vinna í Ættarsögunni miklu.  Verst að það er svo helv… seinlegt að skanna! Og familíunni hefur verið flest betur gefið en myndataka! Og það er snjór á næstum hverri mynd; skaflar, ísjakar o.s.fr.  Ekki skrítið að ég sé kuldaskræfa og inniklessa, eftir vetrartráma bernskunnar! Skil ekki hvernig nokkur hefur getað búið þarna við heimskautsbaug, jafnvel þótt veiddist þar síld. Skil ekki hvernig nokkur maður lætur draga sig úr húsi þegar hitamælirinn sýnir fyrir neðan 0°.  Mundi ekki fara á skíði þó mér væri borgað fyrir það!

Svartagallsraus um geðlyfjatröppun I

Svartagallið (melankólían) í mér bullar og sýður meðan ég dúlla mér hægt og rólega við að hætta á hverju lyfinu á fætur öðru. Eftir að ég sendi lækninum mínum lista yfir 17 geðlyf/ geðdeyfðarlyf/ sefandi lyf/ róandi lyf og svefnlyf – í rauninni hefðu þau átt að vera 18 því ég gleymdi einu – á listanum var semsagt lyfjasafn síðasta áratugs en borið saman við veikindi, innlagnir, raflost o.fl. síðustu fimm ára (sem ég sendi líka í lista) virtust því meiri lækningar hafa því verri árangur. Mér er það fullljóst að þetta eru gasalega vönduð læknisráð, könnuð í tví- og þríblindum rannsóknum út og suður … svo líklega er ástæðan sú að ég er öfugsnúin í geðveikinni og lyfjaleiknum eins og í öðru.

Ég var helvíti reið í dag og í gær. Sjálf hafði ég sett upp plan til að hætta á einu lyfi í einu, hægt, svo ég yrði sem minnst veik af hættingunni.  Þ.á.m. er Seroquel, hvar ég byrjaði í 300 mg og var komin úr 100 ofan í 50 mg þegar læknirinn minn breytti þessu í 25 mg. Nú getur vel verið að ég sé óvenju næm fyrir lyfjum eða ógeðslegum aukaverkunum og fráhvarfseinkennum almennt: Ég umhverfðist við lækkunina 100 mg niður í 25 mg og hef nánast haldið fjölskyldunni í gíslingu vegna geðvonsku þar til ég ákvað í gærkvöldi að ráða þessu sjálf. Sjálfræðið felst í 50 mg í viku og svo reynum við 25 mg. Sjálfræðinu fylgir geðstillandi lyf eftir þörfum, að mínu mati,  en ekki neinum helvítis dóseringum annarra.

Til þess að æsa mig nú ekki yfir of mörgu í einu einblíni ég á Seroquel í bili. Um lyfið segir, á Lyfjuvefnum: “Seroquel inniheldur virka efnið quetíapín. Lyfið er sefandi og er notað til að meðhöndla geðklofa og meðal til alvarlegar geðhæðarlotur. Það hefur áhrif á mörg boðefni í heila eins og serótónín og dópamín. Quetíapín er óvenjulegt sefandi lyf og notkun þess fylgja vægar hreyfitruflanir sem líkjast einkennum parkinsonsveiki og ósjálfráðra hreyfinga. Álitið er að með sefandi lyfjum, sem aðeins vægar hreyfitruflanir fylgja, sé síður hætta á að síðkomnar hreyfitruflanir láti kræla á sér ”

Það er nefnilega það! Ég hef auðvitað aldrei greinst með geðklofa (runan af greiningum mismunandi lækna gegnum árin hafa sleppt úr þessu og einnig margföldum persónuleika, guðisélof!). Ég hef aldrei greinst með geðhæðarlotur. (Aftur á móti var ég stundum ansi dugleg og rösk áður en ég veiktist.) Núverandi læknir hefur haldið því fram í nokkur ár að ég væri með geðhvarfasýki II (geðhvarfasýki án maníu) og þess vegna látið mig taka þetta lyf. (Að mig minnir – það er náttúrlega hægt að segja geðsjúklingi sem missir nokkur ár úr minni alls konar tröllasögur!) Ég hef nú loksins náð þeirri heilsu að bera mína eigin skoðun á borð sem er að þetta kjaftæði með geðhvarfasýki II gæti ekki staðist og ég og læknirinn orðið sammála um ég uppfylli ekki skilyrði til þess.

Svoleiðis að af hverju var ég látin taka þetta Seroquel ógeð árum saman? Lyfið er svo sefandi að maður druslast um hálfdrukknaður í hálfu kafi. Það er t.d. ofboðslega erfitt að labba upp stiga. (Ég er búin að pæla í því í nokkur ár hvaða lyf ylli þessum stigavandræðum, sem og dettingum í stiga – og víðar – nú er ég búin að finna það!) Ég myndi fagna upplýsingum um tvíblinda rannsókn á fullfrísku fólki og áhrifum þess að taka 300 mg Seroquel í svona tvo ár. Átti fólkið erfiðara með stiga? Var það túlkað sem lyfleysuáhrif?

Ég vona svo að helvítis kippirnir, svipað og manni sé gefinn selbiti, gangi til baka fljótlega.

Ég er líka að trappa niður Litíum, sem ég tek af álíka obskúrri skýringu og Seróquelið.  Hef engar áhyggjur því um leið og skammturinn var minnkaður niður fyrir læknandi þéttni í blóði hvarf mér handskjálfti og lífið varð um stund merkilega normal. Að hætta á restinni verður ábyggilega ekkert mál.  Wellbútrín / Zyban hraðtrappaði ég og hendi síðan út í hafsauga enda varð ég fárveik af því ógeði – og dauðvorkenni reykingamönnum sem ætla að brúka þetta lyf til að hætta!)

Það er slatti af lyfjum í krúsinni enn … svo ég lét þetta heita Svartagallsraus I hluta, gefandi þar með séns á II og III hluta. Mætti einnig ræða orðanotkun og orðskilning á spítölum, s.s. hverjum skilningi sjúklingar og læknar skilja algeng og sjaldgæf orð yfir líðan.

Nú ætla ég að leggja mig aftur í r-rúsi fram að kvöldmat og halda svo áfram að taka einn klukkutíma í einu í Seroquel-tröppu dagsins.

Tákn fálkans

Af hverju ætli menn (lesist karlar) séu svona svag fyrir fuglkvikindinu fálka?  Í 5 ár átti ég heima við súlu með steindum fálka þeim sem settist á Keldunesbæinn í miðri fæðingu árið 1711. Þetta þótti náttúrlega vita á eitthvað í denn.

Svo er ég búin að finna mynd af ljósbláa fálkafánanum í fórum afa míns sjálfstæðismannsins (fáninn brann eins og allt annað þar á bæ), ljómandi lekkera mynd af svipuðum fálka en með kórónu og því öfugt tákn við ljósbláa frelsisflygildið … endaði sá ljósblái ekki á glímufélagi og Schola Reykjavicensis?

Ég er líka að velta fyrir mér hvort skipti máli að fálkinn snúi til hægri eða vinstri; Einnig hvers vegna fálki Sjálfstæðisflokksins er að pissa í sig.

Skin og skúrir fálkans

endurbætt lógóÉg hef dúllað mér við það í morgun að lesa moggafréttir og bloggafleiður af þeim. Beinar tilvitnanir í sjálfstæðismenn eru svo óþægilega ofanaf-flettandi að annað hvort gerast þessir menn sjálfkrafa upp til hópa sjálfbjarga einhverfir (sem m.a. eiga erfitt með að greina milli aðal- og aukatriða, sem og túlka umhverfi sitt) eða eru hreinlega paff og geta ekki logið nógu hratt.

Ef mogginn styður sjálfstæðisflokkinn – hvað stendur þá í hinum blöðunum?

Þeir sem reyna að styðja “sjúkrahúsliggjandi”, “var ekki þar”, “var hættur” “var ekki tekinn við”, “ekki ég heldur ákveðnir einstaklingar” o.s.fr. nota fiffið með að kalla hneykslaða sjálfstæðismenn á eigin flokki (já, þeir finnast) hýenur, öllu vinsælla er þó “slefandi hýenur” sem “elta blóðslóð” o.s.fr. Manni dettur dulítið í hug að hinir hollu-fram-í-bláan-dauðann-sjálfstæðismenn hafi aldrei komist lengra á lestrarbraut en að Tarzan apabróður (án þess að ég sé með þessu að kasta nokkurri rýrð á Tarzan).

Ég rakst þarna úti á blogg manns sem ég passaði fyrir ævalöngu, þá magaveikt ungabarn sem róaðist við að horfa á kertisloga; Afskaplega gullfallegt barn! Nú hefur fullorðna barnið lagfært gamalt lógó sem ég linka í af síðunni hans; Afskaplega smart lógó verð ég að segja.

Það eina sem mér er ekki ljóst við lógó-ið (og sennilega frummyndina líka) er hvort fálkinn sé í spreng eða hvað?  Ef önnur löppin er hvít og feit og hin löppin dökk með kló: Þá er þessi fálki greinilega að pissa í sig. Hér stillir bloggynja sig um að linka í alla þá sem tala um hvítþvegin bleijubörn eða bleijubörn með jukkið upp á bak – nokkuð vinsælt líkingamál þessa dagana en á illa við á dögum Pampers.

Líkræða

Nú fékk ég bók með ýmsum pappírum í, frá Ástu frænku, í gær. Þetta reyndust hins vegar alls ekki vera þeir pappírar sem kallaðir eru “bréfin” og eru týndir. Nei, a.m.k. einn langur texti, skrifaður með pennastöng og kolsvörtu bleki, ársettur 1907, er líkræða yfir Guðrúnu Grímsdóttur Laxdal. Líkræðan er ofboðslega löng og ofboðslega margt sem hefur prýtt þessa ekkjufrú.

Svo er mökkur af ljóðum, í ungmennafélagsstíl eða þjóðernisrómantík. Ég er að reyna að þekkja skriftina – þau gætu verið eftir Pálínu. (Maður er soldið sjóaður eftir póstkortalesturinn!)  Fram kemur að yrkjandi hefur mikið álit á Guðmundi frá Sandi og eins gott að fara þá að rifja þá upp eitthvað annað en “Ekkjuna við ána”, en á árum áður lærði frumburðurinn þetta kvæði utan að og æfði flutning í kaupstaðarferðum á Selfoss. Ég held að ég hafi líka verið látin læra “Ekkjuna við ána” utan að.  En nú er ég komin eilítið út fyrir efnið …

Svo er þarna einhvers konar hringhendulykill, ansi sniðugur.  (Kannski pikka ég hann upp handa Finnboga 😉 Loks er töluvert um rímfræði og skrifara (sem ég held að sé Pálína) mjög í mun að taka upp gömlu íslensku heitin og þar í er mánuðurinn “farfugl” (kemur eftir hörpu). 

En “bréfin” eru ekki þarna og augljóslega einhver annar ættingi með þau.

Mér gengur annars nokkuð vel að semja ættarsöguna miklu en þetta er heldur tafsamt og seinlegt verk. Sem er ágætt því ég get ekki hugsað mér að fara að prjóna lopapeysur þegar allir hinir eru að prjóna lopapeysur, eftir uppskrift. Á mínum aldri má kona vera þversum í tilverunni.

Fallandaforað, feisbúkk og grunnskólaritunardútl

Freyja: Eftir gáfulegt komment þitt um þröskulda og dráttarvélar fór ég að tékka og komst að því að hér eru bara þrír þröskuldar: Tveir við útidyr + bakdyr og svo þetta Fallandaforað innan úr þvottahúsi.  Ég ætti kannski að hætta að þvo þvott? Er músin ennþá í þínu þvottahúsi? Kannski fæ ég mér mús í mitt.

Ég er sammála Einari um að Fallandaforaðið og dettingar séu viðbrögð æðri máttarvalda við úrsögn úr Feisbúkk. En nú fékk ég uppljómun og veit fyrir hverja Feisbúkk er: Fólkið sem vinnur eftir stimpilklukku! Nú geta jafnt grunnskólakennarar í Kardemommubæjum sem ráðuneytisstarfsmenn unað sér í Feisbúkk daginn út og inn 🙂  Gaman fyrir þau!

Ég er að byrja enn eina yfirferðarlotuna (hvað ætli ég hafi farið yfir margar ritgerðir um ævina?  Eitthvað um 2000 held ég …). Og enn og aftur fórna ég höndum og spyr mig hvað í ósköpunum grunnskólinn hafi verið að kenna nemendum í 10 ár!  Sveitungi minn orti: “Að lesa og skrifa list er góð / læri það sem flestir.” Ég reikna með að svona sirka helmingur nemenda læri að lesa hjá foreldrum sínum eða öðrum skyldmennum, aftan á mjólkufernur, seríospakka o.þ.h. Ætti þá ekki að vera tími til að kenna að skrifa? 

Ég er með kenningu:  Kenningin er sú að í grunnskólum sé lögð áhersla á einnar blaðsíðu ritgerðir. 

Þá skrifar krakkinn: “Í þessari ritgerð ætla ég að skrifa um Stubb.  Meginmál: Stubbur er ekki stór Stubbur er fimm ára Stubbur á tvo bræður bræður Stubbs heita óli og pétur. Lokaorð: Í ritgerðinni skrifaði ég um stubb og vona að þú lesandi góður hafir haft gagn og gaman að.”

Ég er svo að slást við andskotans stubbamódelið, notað öll tíu árin í grsk. (fyrir utan þann hrylling sem svokallaðar “heimildaritgerðir” eru í grsk.),  upp eftir öllum áföngum og afkenna tiktúrur grunnskólans. Það gengur yfirleitt þokkalega á önn eða tveimur. En ég spyr mig: Hvað eru kennararnir að gera í kennslustundum úr því þeir eru sannanlega ekki að kenna að skrifa og áhöld um að þeir kenni að lesa?

Ég hef þá kenningu að þá séu þær (megameirihluti grsk. er kvenkyns, oft vinstri sinnaðar feminískar barbíur).  Að þá séu stóru barbíurnar að halda við bleiku prinsessuppeldi leikskólans og séu í leiknum “við stelpurnar” alla daga. Strákunum má fleygja fram á gang þar sem þeir geta snapað gams og hugsanlega leitað skjóls á bókasafninu eða bara farið út í fótbolta. Sem betur fer kenni ég 102 og þar eru nemendur talsvert eðlilegri en í 103. (Þetta er náttúrlega smekksmunur en mér finnst óþægilegt og subbulegt þegar nýnemastelpur aðhyllast sömu fatatísku og maður sér í Rauða hverfinu í Amsterdam. Sennilega þykir þetta ekki óþægilegt á að horfa í grunnskólum. Í 102 eru nemendur eðlega klæddir.) 

Nú er ég komin langt frá efninu, eins og kvenlegra kvenna er siður. En óleysta spurningin er: Hvurn andskotann er verið að kenna í ritun í grunnskólanum í 10 ár?  (Guðni O., ég gæti þegið stuðning núna þegar fúríur af báðum kynjum klaga mig í manninn, skólastjórann, hví-hópinn á kennarastofunni, synina báða og föður minn. Síminn hjá honum er 486 1221 en áttræður öldungur klagaði mig fyrir föður mínum eftirlaunaþeganum núna í vor og kannski langar aðra að fara þá leið 😉

Það væri gaman að sjá tölfræði yfir það hvers konar stúdentar fara í Kennó. Eitt er víst og það er að ekki eru það dúxarnir!