Author Archives: Harpa

Fés og fararheill og flottur fyrirlestur.

Kl. 6 í morgun ákvað ég að nýta morgunsárið til að taka niður þvott og brjóta saman. Árrisul húsfreyja getur komið ýmsu í verk, skal ég segja ykkur. En ekki tókst betur til en svo að ég hrasaði um (tæknilega gallaðan og asnalegan) þröskuldinn á leiðinni þvottahús-eldhús. Verandi með fullt fangið af þvotti datt ég á andlitið, sem betur fer vinstri vangann. Þetta var helvíti vont og ég er fyrst núna, um kvöldið, að fá tilfinningu í tennur og varir – hefur liðið eins og ég kæmi koldofin frá tannlækni í allan dag. Svo verður spennandi að sjá hversu gul, blá og marin ég verð og hvað geta spunnist skemmtilegar kjaftasögur út frá því! (Ekki er til bóta að ég er að kenna unglingunum Grafarþögn … hvar kona er barin eins og harðfiskur og ber þess merki.)

(Ég er búin að detta beint á hnakkann, á bílastæði skólans, aftur fyrir mig á olnbogann um miðja nótt hérna heima – hann bólgnaði ansi mikið og a.m.k. þrisvar í stiganum í skólanum. Er orðin leið á dettiæfingum!)

Svo vil ég vekja athygli á frábærum fyrirlestri, Endurtekin stef um ofsa, óhóf og ágirnd, sem Guðrún Nordal flytur í vefvörpun HÍ.  Þetta eru um tugur stuttra fyrirlestra (yfirleitt 10 mín – korter), ég hef ekki horft /hlustað á þá alla en af þeim sem ég hef skoðað er hennar langbestur, flutningur yfirlætislaus en örlítil svipbrigði og tónfall gerði hann hæfilega lifandi í þessu litla rými. Allir sem hafa áhuga á Sturlungu, Njálu og útrásarvíkingum ættu að geta fundið þar eitthvað við sitt hæfi  

Öll fyrirlestrarrunan er á http://www.hi.is/is/mannlif_og_kreppur

Sljákkar í bloggynju

Ég get ekki bæði lesið Njálu, hoppað í tveimur mismunandi líkamsræktum og skrifað ÆM 848 4to (Ættarsöguna miklu). Soleiðis að ætla má að færslum fækki. Enn fremur taka ættarbréfin (póstlisti) sinn tíma og ég veit ekki hvernig ég væri hefði ég ekki haft vit á að komast af Feisbúkk – kalin á hjarta …

Sökk, sökking sökk!

Hvað er hægt að segja annað sitjandi við gluggann og sjá allar tegundir af veðri á fimm mínútum, þ.m.t. hagl?  Og krókusarnir nýbúnir að blómstra!

Til að veita geðvonskunni útrás las ég enn einu sinni yfir dagskrá SM (ekki sadista samt) á ráðstefnu sem er akkúrat í gangi núna. Mér fannst að ég gæti gert alveg helling annan en að hlusta á þessa örfyrirlestra, t.d. bloggað tíkarlega á þokkalegu máli, með eðlilegri fyrirsögn og er nú einmitt að því / verandi einmitt að því / bloggaði ef ég mætti og gæti o.s.fr.

Það er einhver slagsíða á ráðstefnunni … eitthvað sem mætti kannski kalla MR-heilkennið. Yfirleitt kemur þetta heilkenni best í ljós í spurningakeppni framhaldsskólanna og það merkilega er að nokkrir skólar pródúsera fólk með þessa lífssýn, ekki bara MR.

Ármann Jakobsson er MS-ingur sem kennir við MR. Hann vakti athygli á sér og sínum í vetur með því að “uppgötva” þau sannindi að það væri æskilegt að tala við nemendur um fornbókmenntir!  Stundum skrifaði hann bara eitt orð á töflu í heilan tíma. Vá! … Mér finnst að Váið ætti einkum að vera fyrir því að maðurinn tylldi í kennslu.  (En hann er náttúrlega í vernduðu umhverfi þar sem heilkennið “að hafa ekki fattað að heimurinn er til utan MR og hefur verið lengi” ýtir undir skrítilegheit, jafnvel svo rammt að fráhvarf frá þeim þykja merkileg uppgötvun.

Það væri ofsalega gaman að vita hvernig Ármann hugsar sér að fornbókmenntakennsla fari fram annars staðar, t.d. í þeim lágstéttarskólum sem heita fjölbraut, þar sem konur hafa troðið sér í kennarastétt og ýmsar aðrar byltingar hafa átt sér stað. Ég hef aldrei séð þennan Ármann læf en í kastljósþættinum sem ég hraðspólaði í gegnum í tölvunni minnti hann mig mjög á hobbita. Mér fundust hobbitar sætir í gamla daga.

Nú hefur Ármann fattað þetta: “Ritunarkennsla virðist stundum ekki mjög mikils metin í skólakerfinu. Sérstök ritgerðareinkunn er gefin af gömlum vana en ritun er sjaldnast ætlað rými í stundaskrám, móðurmálskennarar fara yfir ritgerðir ofan á alla aðra vinnu en ritgerðum fækkar í öðrum námsgreinum. ” (Feitletrun bloggynju.)

Sérstök ritgerðareinkunn er auðvitað hvergi gefin nema í afdönkuðum fornskólum.  Annars staðar er gert ráð fyrir því að ritgerðir séu innifaldar í kennslu og námsmati áfanga. Í venjulegum fjölbrautaskóla stynja nemendur sáran undan ritgerðaáþján í fjölda faga, meira að segja stærðfræði.

Ég sé að tískuskólinn Verzló, sem hefur verið í hópi skóla duglegustum að kraka til sín fé fyrir fjarnemendur sem aldrei sjást og eru þá sennilega álfar, hafa líka sérstaka ritgerðareinkunn fyrir stúdentspróf. Sjálf hef ég tveggja ára reynslu af þessu fyrirbæri þá ég kenndi við ML.  Vitlausara fag og einkunn finnst varla.

Soffía, sem ég minnist sem hressar og skemmtilegrar konu, hefur klárað master og verkefnið verið að skoða ritgerðir nemanna úr Versló 2006 (það hlýtur að hafa tekið tímann sinn að fá leyfi þessara tvöhundruð nemenda fyrir notkun á þeirra texta) og “rannsóknarspurningin” (djíses, ég hélt þetta væri bara í kennó 😉 er: Er ungt fólk hætt að nota viðtengingarhátt? Ég hef ekki hugmynd um svarið en hverjum er ekki sama? Það er næstum jafn mikil tímasóun að leita svarsins (sem hlýtur að vera neikvætt því annars væri rannsóknarspurningin “Notar ungt fólk viðtengingarhátt?”) og að hraðsökkva sér ofan í ljóðabréfaskil gamals prests, vitandi allan tímann að vinnan væri til einskis og ekki þarf nema nokkur stuð til að ljóðabréfin poppi út. Það eina jákvæða er að Soffía er eflaust jafn skemmtileg og mig minnir og ábyggilega allt í lagi að hlusta á’ana.

Mætti halda að ég væri spæld fyrir að fara ekki á ráðstefnuna. En nei, ég er glöð að hafa sleppt henni. Vill þar t.d. svo til að ég er íslenskukennari eða framhaldsskólakennari sem kenni íslensku. Ég er enginn fokkings móðurmálskennari (sem mér finnst alltaf að sé einnig leikskólakennari / grsk. kennari upp í svona 3. bekk). Þess vegna eiga samtök móðurmálskennara alls ekki við mig, auk þess sem ég vil ekki tengjast misvísandi skammstöfuninni. Enda er ég ekki í SM.

Í gær var ég að útlista fyrir 2 x 102 hvernig skynsamlegt verklag væri að skrifa stutta ritgerð, sem þau fá einkunn fyrir en gildir bara inni í aðaleinkunn fyrir ÍSL 102, rétt eins og skriflegu íþróttamenntirnar gilda bara sem hluti af þeirri grein o.s.fr. Ég spurði þessa krakka hvað þeim hefði verið kennt í grunnskólum (þau koma úr a.m.k. fimm grunnskólum) og þeim hafði verið kennt að ritgerð væri endursögn “svo kennnarinn viti að ég hafi lesið bókina”. Þess vegna byrja ég ævinlega á því að afkenna grunnskólakennsluna. Jafnframt reyni ég á dramatískan hátt að venja þau af “og vona ég að þú lesandi góður hafir haft gagn og gamna af” í lokin og “hafir gagn og gaman af” í upphafi.

Bara þetta tvennt, að afkenna ofantalið, er stór árangur í nýnema-ritunarkennslu. Svo getur maður farið í þetta hefbundna; praktísk not af þankahríð, flokkun hugmynda, uppkast í bútum o.s.fr.

Af því nú lifum við á þeim tímum að ritendur eru örugglega fleiri en lesendur verðum við að búa við þá staðreynd að ritunin líkist ekki endilega stpr.ritgerðum MR og Versló (guði sé lof!) og að eina rétta sóknin, beri maður hag íslenskunnar fyrir brjósti, er að auka lestur.

“þakka þeim sem hlýddu” (þessa lokasetningu hef ég fengið í ritgerð, man ekki hvort það var stúdentsprófsritgerð eða bara venjuleg).

Vetrarsól, villutrúaráhrif Facebook-ar og heilsufarslýsingar að venju

Vitið þið hvað er verst við að skjálfa eins og espilauf (minnir mig á að ég hef alltaf ætlað að tékka á hvort þetta sé sama og asparlauf…)?  Það er að reyna að fá sér vatnssopa úr glasi fyrir framan nemendur! Eftir hádegi í dag var ég alveg búin að klára batteríin og skalf frá hnakka og niðurúr. Svo var ég að reyna þetta með báðum höndum á plastglasi (passa að kremja ekki glasið) og hitta á munninn og ná að súpa á þrátt fyrir munnherkjur. Ég sagði svo vandræðalega við blessuð börnin að ég væri ekki í þynnku og blessuð börnin voru svo kurteis að hlægja með mér nett að þeim obskúra möguleika. Best ég venji mig á að snúa baki við nemendum þegar svona stendur á.

– Þetta gengur yfir (vonandi) og er annað hvort aukaverkun af lyfi  eða aukverkun af því að trappa niður lyf.

Ég er búin að lesa Vetrarsól, eftir Auði Jónsdóttur, og er yfir mig hrifin!  Það er eitthvað við bækurnar hennar sem snertir taug … reyndar er ég oft pirruð út í aðalpersónu og finnst hún að sumu leyti óttalegur ræfill / full meðvirkni.  Þetta á við Fólkið í kjallaranum og Vetrarsól.  Skrítið að vera svona hrifin af bók en langa samt til að hrista sögumanninn duglega! – Skv. þeir edrú-fræðum sem sumir hafa gagnrýnt þá er skýringin á því að manni mislíkar einhver oft sú að maður er nauðalíkur í fasi og hugsun þeim leiðinlega: Menn einblína á þá þætti sem þeir eiga sameiginlega og hatast við þá.  Ég er alveg til í að kaupa þá skýringu því undanfarin misseri hef ég verið óttalegur aumingi og ég sem þoli ekki aumingjahátt!  Það sýnir hvað bókin er góð að hún skuli snerta mig / pirra mig.

Ég tók könnun inni á Facebook í gærkvöldi, eggjuð til þess af frumburðinum. Könnunin var til að sýna hvaða kennari maður væri við FVA ef maður væri kennari. Ég svaraði samviskusamlega öllum spurningum út frá sjálfri mér og ýtti svo á “see results” takkann.  Birtist þá ekki: “Til hamingju! Þú ert Leó, einn besti kennari skólans … bla bla”.  Ég er á bömmer yfir þessari niðurstöðu. Svo reyndi ég að sannfæra Njáluhópinn minn um að Facebook væri verkfæri djöfulsins (við erum nýbúin að skauta yfir kristnitökukaflana og enn soldið lituð af þeim). Njáluhópurinn hló og ég sá að þau voru öll ánetjuð. Kenninguna um verkfæri djöfulsins prófaði ég svo á yngri syninum en hann lét mig vita af því að sjálfur hefði hann “addað” biskupnum sem sínum vini, inni á Facebook!  Það endar með því að ég verð alein utan Fésbókar. Þetta er eins og að hafa aldrei farið í Smáralind.  Hvort tveggja á við um mig. Og er náttúrlega tær geðveiki.

Íþróttir og stjórnmál: I love it!

Ég er byrjuð á Ættarsögunni miklu!  Satt best að segja fannst mér að upphafsetningin ætti að vera: “Á ofanverðum dögum Haralds konungs í Noregi …” til þess að ná sem flestum merkilegum skyldmennum inn í Æ.m. Svo sá ég að til þess entist mér ekki æfin og lét duga að hefja Ættarsöguna miklu um 1850 og þá lauslega fram undir 1900. Þótt byrjunin væri nýmóðins er Æ.m. skrifuð eins og Íslendingasaga, þ.e.a.s. alls konar angar og flækjur myndast við hlið aðalþráðar.  Í Íslendingasögunum leiðir svoleiðis lagað oftast til þess að einhver er drepinn. Læf, eins og Æ.m. fer þetta yfirleitt í að útskýra flókin fjölskyldutengsl manna, á tímum þegar fína fólkið tók ekki niður fyrir sig í pöpullinn!

Nema hvað; ég er rétt að skríða yfir aldamótin 1900 í þessu ættarverki.

En að öðru og vítaverðara efni! Sem ég sat snemma á sunnudagsmorgni og þaullas Íþróttasíðu Morgunblaðsins út í hörgul, eins og ævinlega (NOT! þetta er brandari) sá ég að einhver breskur íþróttaálfur, nefndur Owen, er að bjóða sig fram í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Norðvesturkjördæmi, undir nafninu Örvar! Til að koma nú sönnunargögnum fyrir tróð ég mynd af Örvari við hliðina á umfjöllun um gang Ættarsögunnar miklu en myndin af Óweni er hér til hliðar.  Það leikur ekki nokkur vafi á því að þetta er sami maðurinn, leikandi tveimur skjöldum!

Báðir með tvo hvirfla?  Ætluðu þeir að verða tvíburar?

Þetta finnst mér mjög spúkí!

Til að ganga í augun á frumburðinum

skal tilkynnt að nú tekst mér að vera 3/4 af þolfimitímanum og fæ þá að fara. Ég er elst í hópnum – fyrsta sinn sem ég upplifi mig sem eitthvað gamla – og obbinn af hinum fimu stúlkum í kickboxinu eru fyrrverandi, núverandi eða tilvonandi nemendur mínir. Þær eru ósköp næs og leggja mig ekki í einelti, þrátt fyrir ágætis aðstæður til þess.

Markmiðið er að vera heilan tíma.  Ég er bara svo dj… slöpp og úthaldslítil.  Reikna með að það lagist eftir því sem á námskeiðið saxast. (Búnir 4 tímar og ég hef bara skrópað í einn … vegna magapestar eða kvíða – það er ekki nokkur vegur að þekkja þetta tvennt í sundur.)

Mér finnst kickbox frekar skemmtileg íþróttaiðkun og mun njóta þess að hugsa um kýlingar þeirra sem mér þykja leiðinlegir, alveg austur – vestur, þegar mér hefur tekist að ná sporunum, a.m.k. 50% af þeim. Ég missti af Salsa tímanum á þriðjdag. Þetta er mun skemmtilegra en pallaþramm og hopp.

Hin líkamsræktin – var mikið pallar í þessa tvo – fjóra tíma sem ég mætti- var alltof mikil stappa af missveittum konum (og einum karli) í alltof litlum sal. Auk þess kunnu allir á pallana nema ég. Ég var sko ekki að fíla þetta! Svo fatta ég ekki af hverju tónlistin er höfð svo hávær (gildir bæði um Jaðarsbakka og Vesturgötuhúisð) að enginn heyrir orð af því sem þolfimikennarinn er að hrópa. Vill til að ég er flink að lesa af vörum 😉

Þetta saxast …

Fundin Rannveig og skemmtileg nektarmynd að auki

Í dótinu sem ég fékk uppi á Laugarvatni um daginn leyndist mynd af hinni dularfullu Rannveigu Dýrleif Stefánsdóttur.  Þetta er myndarstúlka og nú þarf bara að finna út hvort hún var lagsmær eða fóstudóttir Pálínu. Ég setti Freyju fyrir að leita í Ísl.bók … svo mætti skoða Haganes fólkið og á endanum verð ég sokkin ofan í Skagfirðingabækur fyrri tíma.

Skrítin tilviljun er að skv. æskumyndum af afa hefur hann verið blámaður til höfuðsins.  Skyldi Hans Jónatan vera forfaðir okkar?  Og af hverju erfði ég ekki þetta hár? Eiginlega er þetta þó ekki skrítnara en að Einar yngri sem rekur Einarsbúð og afgreiðir okkur í hverri viku skuli vera svona sláandi líkur Einari afa, kaupmanni á Raufarhöfn.  Kannski er þetta eitthvað sammannlegt verslunarmannaútlit?

P.S. á miðvikudegi: Þögn systkinanna veit ekki á gott og sennilega eru þau að baktala mig inni á Feisbúkkinu. Svo ég tók hina fögru nektarmynd út (upp á karríer viðkomandi) og lofa að nota bara andlitsmynd af viðkomandi í framtíðinni 🙂

P.P.S. Það að myndirnar á blogginu mínu eru óralengi að hlaðast inn er væntanlega bilun á myndageymslunni minni, á this.is/harpa

Um allt og ekkert

Í gær fór ég til borgar óttans, öðru nafni þurrabúðarinnar handan Flóans!  Sem betur fer hafði ég ekki náð að líta á vegagerðarsíðuna og vissi því ekki að Kjalarnesið var á nippinu með að vera fært. (Skil ekki hvernig nokkur manneskja getur búið þarna!) Strætóstjórinn var eitthvað stressaður en ég hélt að hann væri kannski nýr og þess vegna óöruggur með sig … fór svo frammí eftir Grundarhverfið og bað hann viljandi að loka hurðinni (sem blakti þarna aðeins í rokinu). Ég held nefnilega að sú tiktúra að bara megi segja “loka dyrum” en ekki “loka hurð” sé tilhæfulaus tiktúra einhverra gömlu kadla o.s.fr. í gamla daga. Úr því hægt er að höggva mann (og annan) sverði og samþykkja þær leifar verkfærisþágufalls (ablatívus instrumentalis), hlýtur sama að gilda um dyr og hurð; menn loka (einhverju) hurðinni (verkf.þágufall, eiginlega merkingin “með hurðinni”)

Áður en ég missi mig út í fjarlægari orðskýringar og fimbulfamb í anda Þórbergs, get ég þess að erindið í þurrabúðina var að ræða stöðu og horfur í mínu heilabúi og hvað væri nú skynsamlegt að gera þegar ég hef verið geðveik í áratug, geðveikin fremur eykst en minnkar samfara auknu meðalaáti. Við vorum búin að undirbúa okkur bæði, ég og læknirinn minn, og ég er mjög ánægð með hvernig tókst til í þessu uppgjörsviðtali. Svo gerðum við plan og nú er að sjá hvussu lukkast til með það plan.

Svo fór ég á bókamarkaðinn, harðákveðin í að kaupa ekki snitti, kom út með tvær bækur og það kalla ég vel sloppið! Ég var alveg voðalega þreytt þegar ég kom heim.  Kannski þess vegna sem ég tjúnaði upp einhverja samstarfsmenn mína með því að taka ekki undir halelújasönginn um grunnskóla þessa litla góða bæjar, á kennarastofunni. Mér er sosum nokk sama hvað þessir samstarfsmenn halda og hef yfirleitt ekki nennt að vera ósammála þeim enda hafa þeir minni reynslu af því að láta krakkaormana sína ganga í aðra grunnskóla (í öðrum Kardimommubæ) hvað þá dreifa börnum á báða skólana okkars K-bæjar.

Úr því ég var hvort sem er byrjuð að móðga kom ég því að við einhverja að mér fyndist óþolandi pxxxx skrækir kvenfólks á sextugsaldri.  Sný ekki aftur með það!  Þetta tengist hópamyndun,

Ég reikna með að hvíslandi hvíandi hópurinn verði alls ekki hamingjusamur yfir þessari færslu og skil hann vel, bilíf mí. Þær geta rætt um illa móðurmálskennara inni á feisbúkk því þar tók ég pokann minn og kvaddi og enginn vegur að ég frétti af því.

P.s.  Hvað hét aftur kerlingin í Friends sem hafði verið gift einum vininum og byrjaði gjarna setningar á “Oh, my god!”?

Gömlu karlar dauðans og hanaslagur sporgöngumanna

Ég var reyndar að hugsa um að skrifa um Útsvar og fatastíl keppenda, til að bregðast ekki mínum góða frumburði. Þess vegna kíkti ég á seinni hluta þáttarins í gær. En hafandi velt fyrir mér hver hinn velklæddi keppandi Norðurþings gæti verið (ég kannaðist soooo við hann) og á endanum fattað að þetta var Sævar frændi – þá horfði ég náttúrlega bara á það liðið.  Mér fannst Norðurþing vera með miklu huggulegra lið, t.d. athyglisvert afbrigði af skeggtísku, svo er ég náttúrlega n-þingeysk að ætt og uppruna. Þegar Sævar o.fl. tróðu uppi í leikfélaginu Hugleik í denn, var gaman að fara í leikshús! Það er heldur verra með leikrit Hugleiks yngra, og á ég þar við hina hryllilegu sýningu Baðstofuna.

Eins og frumburðurinn veit þá þykir mér fyrrum “Gettu-betur-strákar” alls ekki eiga erindi í Útsvar. Í rauninni er þetta svipað og að senda óperusöngkonu í Júróvissjón. Svo nenni ég ekki að tala meira um það stóð (ég hef nú lítið fylgst með) en er soldið paff yfir hve kvenkynið sést sjaldan.  

Áðan fór ég í fjölmennt sextugsafmælisboð skólameistarans míns.  Þar var margt um manninn enda hefur hann Hörður vasast í mörgu.  Tónlistaratriðin voru flott; Þjóðlagasveitin verður æ betri og æ meira orgínal … en ég treysti mér ekki til að vera til loka í veislunni þótt ég missti af KK.

Undanfarið hefur kennarastofan logað í illdeilum um hvað muni best til bjargar í kreppu og hverjum sé þessi kreppa að kenna. Það er náttúrlega óþarfi að taka fram að það eru karlkyns kennarar sem bítast um svörin.  Þeir minna mig mest á íslenska hana í hanasamkeppni. Meira að segja hafa sumir tekið upp “hanastellingu”; standa og reigja sig sem mest þeir mega og liggur við að vanti bara stélið til að fullkomna líkinguna. Ég hef þess vegna tekið þann kostinn að dvelja meir inni á vinnuherbergi og ræða merkilegri mál, s.s. stöðlun sovéskra kommúnista á brauðbakstri … sem er ákaflega sérstakt mál og við kennararnir höfum fengið prufur af staðlaða kommúnistabrauðinu undanfarið. Ef einhver hefur áhuga á svoleiðis brauði get ég bent á sérfræðing.

Kennarastofan endurspeglar heiminn ytra; þetta er svona mikrókosmos-dæmi eins og menn voru svo hrifnir af á 17. og 18. öld. Í ytri  heiminum eru stjórnmálamenn að snúa sér í pólitískan hring eða hvæsa illilega á spyrjanda þáttar. Hér vísa ég til Davíðs og hins fræga Kastljóssviðtals í vikunni.  Náttúrlega kíkti ég ekki á þetta viðtal fyrr en í morgunsárið … heyrði fyrst samræður sem einkenndust af “víst”, “þú ert ekkert skárri” og “þú getur ekki sannað það!” (þessi síðasttalda var einmitt uppáhaldssetningu litlu þunnu nemendanna í ML um árið). Svo datt mér í hug að taka hljóðið af og sjá hvernig Davíð, sem ég hef aldrei séð læf, ýmist hallar sér aftur með útbreiddan faðminn eða skellir olnbogunum í borð og allt að því goggar í Sigmar. Hvað hefði gerst hefði borðið verið mjórra? Svo fann ég út að þægilegast og mest upplífgandi var að hraðspóla gegnum viðtalið – þá heyrir maður ekki orðaskil heldur bara gagg og hreyfingarnar líkjast afrískum dansi, eða hanaati (ég hef heldur aldrei séð svoleiðis læf).

Aldnir stjórnmálamenn snúa til baka (en virðist vanta flokk), s.s. Jón Baldvin. Ég get ekki séð að hann hafi skánað í tíu ára útlegð, sá brot af einhverju viðtali þar sem hann var státnari og óskýrmæltari en fyrr. Ég hugsa til þess með hryllingi ef næsta þing samanstendur af mönnum eins og Jóni Baldvini, Árna Johnsen, Ómari Ragnarssyni og Sturlu trukkabílstjóri. Er t.d. hugsanlegt að Davíð Oddsson verði með Árna Johnsen á framboðslista? Allir sannir Íslendingar vona svo náttúrlega að Steingrímur Hermannsson snúist á sveif með með öðrum ellibelgjum. Svo höfum við óvinsælan forseta sem lagði sitt á vogarskálarnar til að ræsa út sem flesta víkinga og forsetafrú sem virðist ekki stíga neitt voðalega mikið í vitið …

En maður getur sosum alltaf flutt til Færeyja eða Krítar, ef þetta verður svakalega slæmt. Bara halda því fram að maður sé Finni til að afsaka hreiminn því hvern langar að verða aðhlátursefni eins og Íslendingar eru nú í útlöndum?

Smá móðurlegt mont

sem ég skrifa aðallega fyrir ömmurnar! En frumburðurinn er sumsé orðinn andlit skólans síns, HR.  Sé farið á http://www.ru.is þá eru þar kynningarmyndbönd á forsíðunni og drengurinn er bæði í vídjóinu um lagadeild og líka vídjóinu sem er þarna “Um Háskólann í Reykjavík”. 

 

Þótt auðvitað sé vitað frá forneskju að börn erfa gáfur frá mæðrum sínum en útlitið frá feðrum get ég ekki stillt mig um að benda á gáfulegt fas frumburðarins, þar sem þetta tvennt sameinast.