Author Archives: Harpa

MacLean í denn

Ég hef aðeins reynt að bakka aftur í óspilltu, ógeðveiku árin mín.  Þetta er svona freudískt endurlit án þess að ég telji líkur á að höndla stórasannleik.  Nema hvað: Ég fékk lánaðar tvær McLean bækur á bókasafni Kardímommubæjarins. Því miður mundi ég endinn á báðum bókunum (eftir meir en 30 ár!) en gat samt alveg notið þess að lesa harðspjalda-reyfara í gullaldarþýðingu Andrésar Björnssonar, útvarpsstjóra

 … og prófdómara í munnlegum prófum í íslenskuskor, í denn.  Það var alger hryllingur því karlinn tuðaði eitthvað allan tímann og maður fipaðist í þessum þó réttu svörum sem maður kunni við að reyna að heyra hvað karlinn var að tuða. Nú nýverið rann upp fyrir mér að vegna gáfna hafi hann þulið eins og Njáll – sem gekk afsíðis og þuldi og mátti enginn trufla hann þegar hann var að leysa mál eins og hvernig meðalbóndi í Fljótshlíðinni ætti að fara að því að greiða skaðabætur fyrir dráp fjórtán manna. Þetta var útúrdúr…

Í Nóttinni löngu segir:  “En öllu má nú nafn gefa. Hvílíkur morgunverður – kaffi, harðar kexkökur og …. Nú áttum við aðeins eftir fjórar dósir með kjöti, fjórar með grænmeti, ein tíu pund af þurrkuðum ávöxtum og svolítið af frosnum fiski, einn bauk með kexi, þrjá smápoka með blásnu korni og tíu dósir með mjólk.” (s. 136) Þegar hér er komið sögu hefur farþegaflugvél nauðlent á Grænlandsjökli, sem betur fer rétt hjá frumstæðri veðurathugunarstöð, frostið úti er yfirleitt um 40° C og auk þess morðingjar á sveimi. Mér finnst þetta mjög raunsæ bók, allt nema þessir smápokar með blásnu korni.  Hvað er blásið korn? Er það ekki poppkorn? Því miður er ekki hægt að finna útgáfudag bókarinnar og ég nenni ekki að leita að honum í Gegni.

Mér finnst blásið korn miklu fallegra en poppkodn. Blásið korn … líður ljúflega af tungu lesandans … eins og bleikir akrar …

 Ég er líka búin að lesa Neyðarkall frá Norðurskauti en rakst ekki á neitt málræktarlega sniðugt í henni.

Næst verða það sjálfsagt Byssurnar í Navarone og Arnarborgin.  Svo þyrfti ég reyndar að lesa svolítið í Njálu.

Kvikindið vaknað = merki um bata

Freyja segir að síðasta færsla hljómi hræðilega.  Ég er alveg sammála henni en þetta er samt bara raunsæ lýsing á deginum; hann var hræðilegur!  Ég hætti umsvifalaust á auknum skammti af Zyban en helv. lyfið er 10 daga að skolast úr líkamanum svo ég tók ekki sénsinn á að henda hinni töflunni út í hafsauga strax.

Góðu fréttirnar eru þær að ég skrifaði mínum góða lækni sem tók hysterísku bréfi sjúklingsins síns af stakri ró og er sammála mér um að endurskoða lyfjatöku mína – og vonandi sjúkdómsgreiningu líka!

Það eru einnig góðar fréttir fyrir mig að ég hvæsti smávegis á póstlista kennara þegar yfir okkur helltist loðmullulegt grunnskólakjaftæði, sem er því miður að finna í framhaldsskólalögunum frá 1996. Við erum auðvitað alla daga að vinna að þessum markmiðum ljóst og leynt, í kennslustundum og utan, og alger óþarfi að núa okkur þeim um nasir. Ég vil alls ekki líta til grunnskólans sem fyrirmyndar; ekki hef ég áhuga á að sinna starfi mínu eftir stimpilklukku eða reyna að hugnast mistækum stjórnendum. (Reyndar hef ég unnið eftir stimpilklukku um ævina, það var í frystihúsinu á Raufarhöfn fyrir svona 35 árum. Mig minnir að stjórnendur þar hafi einnig verið doldið mistækir.)

Mér er ljóst að ekki hafa allir sama álit á köstun í kekki eða smávegis þrasi. Mér leiðist hins vegar þessi óendanlega meðvirkni, þegar einhver reynir að slétta allar misfellur og hamra á að auðvitað séu öll dýrin í skóginum vinir.

Það að ég skuli yfirhöfuð nenna að hafa einhverja skoðun er ákaflega hollt og gott fyrir geðið í mér. Ég hef líka látið eftir mér að vera með smávegis uppsteyt á kennarastofunni og leið ofboðslega vel á eftir. Kvikindið í mér er vaknað og ég er hætt að vera eins og hver önnur læpuleg Þyrnirós. Væri ég enn inni á feisbúkk myndi ég áreiðanlega hella andstyggilegum kommentum yfir fésbókarsvæði hvers systkinis!  Djöst for the fönn of it. Þið heppin að ég skuli hafa yfirgefið svæðið nokkurn veginn ósködduð.

Reið, örg og fallin eins og Bubbi

Mikið djöfull er ég búin að vera hrikalega lasin af einu vestrænu lyfi sem ég er tiltölulega nýbyrjuð að taka. Í gær byrjaði ég að skjálfa upp úr klukkan 6 um morguninn en seldi mér þá læknislegu hugmynd að þetta væri nettur skjálfti sem myndi lagast þegar liði á daginn. Klukkan 8 nötraði ég eins og drykkjumaður í delerium tremens.  Það er ákveðin lífsreynsla að nötra frá hnakka oní stórutá en nú veit ég hvernig hún er og þarf ekki fleiri prufur. Ég hefði meldað mig veika nema af því ég var búin að lofa að vera með “gestafyrirlestur” í sálfræðihópi. Svo ég sagði reynslusögu í þeim hópi hríðskjálfandi og gat ekki drukkið vatn af minni FVA-stútkönnu og átti inn á milli erfitt með mál.  Mér datt samt í hug að það væri betra fyrir hópinn að sjá þá almennilega veikan geðsjúkling en frísklegan.

Ég fór heim að reykja, í tíukaffinu, og náði að skella aftur fyrir mig á bílastæðinu, beint á hnakkann. Það var helvíti vont! Síðan þetta var eru komin 3-4 skipti þar sem ég er næstum að skella á hnakkann. Það er eins og jafnvægiskúlan í mér sé vanstillt.

Í morgun vaknaði ég upp úr kl. 5 við það að ég var að tala hástöfum við einhvern um íslenska stafsetningu; nánar tiltekið hvaða reglur gildi um j í endingum. Í svefni tók ég dæmi af “nýi” og “nýja”. Ég hef talað upp úr svefni undanfarið, kenni það einni pillusortinni og þegar umræðefnið er orðið stafsetning finnst mér þetta hátterni orðið sjúklegt!

Í rauninni fattaði ég þá ég sagði sálfræðinemum frá geðveikinni minni hvað þetta er mikil raunasaga því aldrei tekur hún enda og sárasjaldan hef ég verið algerlega ó-geðveik í meir en áratug! Í rauninni finnst mér stundum að ég sé aðallega veik af aukaverkunum lyfja! Og núna er ég orðin reið yfir því ástandi.

Ég hafði verið komin vel á veg með að trappa mig niður og út úr róandi/kvíðastillandi/bla-bla lyfi.  En nú þurfti að keyra það aftur upp því þetta bla-bla lyf slær á skjálfta. Þar með er ég aftur á byrjunarreit og þannig séð fallinn í alvarlegri edrúmennskutilraun.

Mér finnst gott að blogga þessa færslu til að ná úr mér reiðinni. Mér finnst gott að byrja hana á nákvæmlega því sem ég vildi sagt hafa. Vonandi fara einhverjar pempíur, t.d. af mínum vinnustað, ekki að nötra yfir færslunni. Ég get gefið svoleiðis silkiprinsum nóg Zyban sem fær mann til að hrollvekjast gegnum daginn, bara það sé tekið nóg.

Vilborg: Það rifjaðist upp fyrir mér í þessu reynslusögudæmi hjá krökkunum (Góðan dag, ég heiti Harpa og er geðveik …tónninn) að ég hef lesið Hrafninn þrisvar.  Las bókina þegar hún kom út (enda mikill aðdáandi og búin að kenna Korku sögu um árabil) en Hrafninn stuðaðist úr mér.  Mér sagt að mér hefði þótt hún góð svo ég las hana aftur … og þótti hún svakalega góð. En næst þegar ég fór í raflostmeðferð stuðaðist Hrafninn úr mér, eins og fjöldi annarra bóka, myndbanda o.s.fr. enda eru staðhæfingar um að raflost eyði einkum “sjálfsævisögulegum minningum” ekki annað en hélgilja sem borgar sig að trúa ekki.

Nema hvað: Ég er nýbúin að lesa allar bækurnar þínar, nema Korku sögu sem ég man af því það er svo langur tími síðan ég las hana fyrst. Ég vildi segja þér að mér finnst Hrafninn frábær!  Vonandi ertu að skrifa framhald – verða íbúarnir fluttir á þrælamarkað syðra? Ekki annars segja mér það svo ég hafi til einhvers að hlakka 🙂

Ég er frjáls!

Gerði mér lítið fyrir og strokaði mig út af Facebook. Ég held að fésbókin sé eins og lyngormur og muni vaxa í einhverja gróteska mynd og nærast á notendum.  Ég er mjög glöð yfir frelsistilfinningunni sem “de-activate” veitir einni konu!

Vendi ég mínu kvæði í kross

Ég er að hugsa um róttækar breytingar á mínum meðalahögum. Reikna með að mínum góða lækni lítist illa á. Ég dró meira að segja fram rykfallna 24 stunda bókina og las um daginn í dag, í morgun. Gæti trúað að Fagrar heyrði ég raddirnar myndu leiða til svipaðra markmiða og umhugsunar en man ekki í hvaða hillu hún er.

Ég fór sem sagt í vinnuna en náði ekki að fara yfir öll verkefni.  Ein lífsreglan í þessu kross-vendi-lífi er að vinna ekki á kvöldin.

Í rauninni byrjaði nýja lífið á sunnudaginn en þá fór ég á fund hjá algerlega nafnleyndu samtökunum, eftir að hafa verið óvirkur AA-maður í hálft ár! Nú er stefnt að því að vera ofurlítið virkari.

Þetta er sumsé allt að koma og þar með er ég farin að tsjilla en ekki eyða kvöldinu í tölvunni.

Heilsa og smettiskruddan

Ég er jafn sljó í dag og í gær og á jafnerfitt með allt!  Hins vegar kastaði hinn góði læknir til mín bjarghring sem viskum vona að dragi mig að landi yfir helgina.

Ég hef sem sagt verið kramaraumingi frá þriðjudegi til dagsins í dag en eygi nú von til að komast úr því hlutverki. Þetta var verulega djúp dýfa!  Þegar ég þarf að beita öllum viljastyrks-tætlunum og allri orku dagsins í að koma sjálfri mér í sturtu og fresta því ekki þá er ástandið slæmt.  Frísk fer ég í sturtu dag hvern, líka til að eyða hinni stórhættulegu reykingalykt úr hárinu á mér áður en ég hitti saklaust ungviðið. Og náttla fer ég í fersk föt daglega sama ungviðis vegna.

Raunsætt mat er að nemendur hafi ekki saknað mín neitt heldur leikið lausum hala og alls ekki lesið Bárðar sögu! Við getum vonandi porrað námsefni, nemendur og kennara upp eftir helgina svo okkur leiðist ekki. Njáluhópnum treysti ég til að vera búinn með megnið af Njálu og vita út í hörgul hvernig landslag á þessum slóðum hefur breyst frá því “dalur” var ” í hvolnum”.

Mitt nám í fyrsta bekk í menntó innihélt m.a. Njálu og síðan afar sérsinna setningafræði kennarans sem hvergi hefur verið notuð svo vitað sé og gagnið af henni sennilega ekkert. Kennarinn var doktor í tilvísunarfornöfnunum “sem” og “er”. Sjá allir sem hafa fylgst með síðustu tuttugu árin að þessi doktorsgráða fer fyrir lítið þegar öll íslenskumafían í HÍ snýr sér að Chomsky og fer upp úr því að greina “sem” og “er” sem hvurjar aðrar samtengingar.  Orðflokknum “tilvísunarfornöfn” hent fyrir róða og ekki lengur til og þ.a.l. ekki hægt að drilla nemendur í að finna í hvaða falli þessi orð standa; Samtengingar beygjast ekki í föllum.

Njálukennslan í denn gekk voða mikið út í það hvernig landslagið hefði þurft að vera hefði sagan átt að ganga upp. Alls konar jökulár höfðu breytt um stað og vatnsmagn, jöklar gengið sundur og saman, sjórinn dekkað Vík í Mýrdal og marg-margoft stóð kennarinn við stóra landakortið og dró með fingri Fjallabaksleið nyrðri og Fjallabaksleið syðri. Þar sem ég hafði hvorki smalað á hálendinu né vissi hvar Vík var, svo ekki sé minnst á Dímon (sem ég leyfi mínum nemendum að hafa í karlkyni skv. máltilfinningu) og var álíka áhugalaus um Trausta Einarsson jarðfræðing, sem doktor Harald kennara, þá skilaði þessi fyrstubekkjarkennsla þeim effektíva árangri að bólusetja mig fyrir Njálu í meir en tuttugu ár!  Þegar ég las söguna aftur, eftir tuttugu ár plús, rann upp fyrir mér að þetta er fín spennusaga, með smávegis pornógrafíu í upphafi og blóðir flæðir eins og í hvaða almennilegum vestra. Síðan hef ég velt fyrir mér hvursu drepleiðinlegur kennari þarf að vera til að bólusetja nemendur fyrir lífstíð. Vona að ég verði ekki til þess.

Svo er það Facebook eða Smettiskrudda (nýyrði litla bróður sem ég kann sérlega vel við). Ég sé því miður ekki kostina við Smettiskruddu nema þá helst að geta njósnað um einkalíf yngri sonarins eftir að hann var svo vitlaus að “adda” mér á vinalistann sinn. Þessa dagana hef ég aðeins kíkt þarna inn og finnst allt í kaos og ef kona skráir sig eingöngu til að vera með í ættarmótsgrúppu þá er eins og andskotinn komi með alla sína púka;  gylliboð og vinafjöld. “Það eru allir á Facebook!”  Þessu skal ég trúa því því á smettiskrudduvettvangi ægir öllu saman og allt komið í steik. Auk þess sem ég hef fyrir satt að nemandi norður í S-Þing. hafi “addað” Skagamanni á átjánda ári inn í grúppuna “Bakkaættin” til að stríða yngri syninum. Við sitjum þar með uppi með Skagamanninn á næstu fimm ættarmótum! Fyrir svo utan það að hann heitir nafni og föðurnafni sem einn ekta Bakkaættarmaður ber. (Munar að vísu sennilega 40 – 50 árum en umsjónarmaður grúppunnar hefur sjálfsagt haldið að þetta væri gömul mynd.) Nýi Bakkaættinginn mundi svo sem punta ágætlega upp á samkvæmið í sumar, ég er ekkert að afþakka það.

Ósköp klén

Ég meldaði mig veika í dag – gat ekki hugsað mér að hitta litlu ljúflingana mína, hvað þá kennarastofuna.  Aðallega var mér flökurt og illt í hálsi en ég veit að þetta eru bara feik-einkenni: Það er geðveikin sem dulbýst svona! Ég er ansi hrædd um að ég verði á Joe Boxer hérna heima á morgun líka.

Ég held að ástæðan sé fjölskylduboð á Laugarvatni á sunnudaginn.  Þar var margt um manninn, frábær matur og mjög gaman. Svo kemur þetta í hausinn á mér eftir á.  Svo virðist sem ef ég hitti mikið fleiri en tíu manns í spjalli sé það of erfitt fyrir mig. En ég hef ekki hugsað mér að vera eins og lík í líkhúsi (þau spjalla ekki) og þá er að taka því sem á höndum ber.

Aumur dagur

Einhverra hluta vegna er þetta þunglyndisdagur dauðans! Sé ekki ástæðu til að fjölyrða; ég er þaulvön að pompa ofan í þessa drullupytti á lífsleiðinni.

Plúsmegin má segja að ég setti upp fésbók / smeðjuskruddu og játaði öllum óskum um vinskap hvort sem ég þekkti fólkið eða ekki … nei, djók, ég þekkti alla 😉 

Sýnist fésbókin afturhvarf til hinna góðu tíma þegar maður notaði kermit, talk, gopher, Veroníku og allt það:  Sem sagt meira og minna kjaftæði um ekki neitt en skemmtilegt og gáfulegt af því það var í tölvu.

Spegill og smáskref

Ég er svooooo ekki að höndla það að mæta í vinnu núna á eftir! Vildi geta allt til að fá að skríða upp í rúm og búa til holu úr tveimur sængum! Til að andæfa þessum hugsunarhætti tek ég eitt oggu-skref í einu: Hef komist úr rúminu, sem er plús, svo er að þvo sér og bursta tennur – > annar plús ef hefst o.s.fr.  Ég hef oft þurft að nota þessa aðferð, sumsé að teyma sjálfa mig áfram í smáskrefum. Það er til mýgrútur spakmæla um svona teymingu en ég sleppi svoleiðis tilvitnunum hér.

Annað er að einhvers staðar æxlaði ég mér mynd af mínum góða lækni, á Vefnum. Mér hefur dottið í hug að gera myndina að skjáhvílumynd (núna gegnir orkídea því hlutverki) og horfa fast í augu myndefnis og segja “Læknir, læknir segðu mér:  Hver á landi hraustust er!” 

Til þess að blanda ekki saman aðferðum mun ég nota skjáhvílumyndar-hugrænu-atferlismeðferðina á fimmtudaginn.

Löt bloggynja spáir í net-stjórnmál

Þetta með letina er reyndar álitamál. Á miðöldum töldu menn þunglyndi til dauðasynda. E.t.v. hefur MGD, þ.e. Medieval Guild of Depressed (hagsmunafélag þunglyndra) fengið því framgengt að dauðasyndinni var breytt í leti. Og upplýsingar um MGD eru allar týndar, nema þessi eina tilvísun í þessari einu bloggfærslu.

Sem sagt ráfa ég og reika um bloggheima (vil ekki segja refilstigu því ég passa mig auðvitað að detta ekki í neina drullupolla sem aðrar bloggendur hafa grafið á sínum bloggstígum – Hér á frasinn Live and Let Live afar vel við. Hann á einnig gasalega vel við þessa bloggfærslu).

Ég er búin að skoða þessi tvö framboð sem komin eru. Annað tekur strax fram að það sé ekki framboð og ekki flokkur ??? Þau gætu notað orðið hreyfing ef þeim er svona meinilla við öll f-orð. Sjá Nýtt lýðveldi.

Fjórir eru hvatamenn þessa fyrirbæris (sem er ekki flokkur, ekki samtök, ekki framboð o.s.fr.) sem sjá má hér. Ég kannast við 3 af þeim fjórum “okkur” og get ekki ímyndað mér hvað þetta fólk á sameiginlegt annað en heilbrigðan áhuga á fornum fræðum ýmiss konar. En ég hef sosum ekki nennt að lesa allt á síðunni, heldur gripið oní textann hér og hvar. Það sniðugasta sem ég hef séð er að nota hvíta plastborða til að vekja athygli á sér: Það er eitthvað svo kínverskt og austurlandadulúðin sveipar mjúklega allar misfellur sem kunna að vera. Nokkrar hækur myndu gera sig vel á síðunni. 

Hitt ekki-framboðið o.s.fr. telur sig byltingu, a.m.k. heitir það Lýðveldisbyltingin. Þar fann ég enga hvatamenn eða forystusauði sem e.t.v. helgast af því að byltingin er algerlega anarkísk; Ætli þetta eigi ekki að vera bylting fólksins? Með frekara grufli mátti finna út að eftirtaldir linkuðu í Lýðveldisbytinguna:  anna.is, Egill forstjóri Brimborgar, Einar Indriðason og Soffía Sigurðardóttir. Kannski eru þetta forsprakkarnir? Anna heldur a.m.k. utan um teljarann.

Síðan þar er gerð í einhverju MediaWiki sem ég veit ekkert um en fær mig til að gruna að síðan höfði til þeirra sem telji sig lítt hafa fengið hljómgrunn til þessa,  feminístar, nýhílistar og alls konar afgangsgrúppur í þjóðfélaginu. (Nýtt lýðveldi virðist meira ætlað fólki með a.m.k. eina háskólagráðu.)

Í forritinu MediaWiki getur hvaða skráður notandi sem breytt texta og skrám.  Eldri skrárnar vistast sjálfkrafa og því er hægt að sjá hvernig textanum hefur verið breytt og væntanlega einnig hvaða notendur gerðu það.

Það væri sterkur leikur hjá Lýðveldisbyltingunni að koma sér upp appelsínugulum plastborðum í áróðri;  Það er einmitt svo kínverskt og Falun Gong legt … og nokkrar hækur myndu punta upp á forsíðuna. (Þeim má svo skipta út eftir smekk hvers og eins.)

Líklega telur Lýðveldisbyltingin þetta ákaflega frjálslynt kerfi.  Ég spái því að síðan verði algerlega ónothæf innan skamms,  ef unglingateymi finna hana og auglýsa sem skemmtiatriði á Fésbók, eða einhverjir kennarar sem vakna um 5 leytið á nóttu hverri og hafa ekkert skárra fyrir stafni meðan beðið er dagmála. Eða einhverjir Eyjamenn …

Bæði þessi ekkiframboð hafa mjög svipaða forsíðu; Skjaldarmerkið er haft lengst til hægri – svo titillinn og linkar á fyrirsjáanlegum stöðum. Ég legg til að undirskriftarlistar þessara tveggja framboða verði samkeyrðir þegar fram líða stundir því ég býst við að stór hluti sé fólk sem skrifar á undirskriftalista hvar og hvenær sem er, bara af undirskriftarkikkinu einu saman. Því má ætla að talsvert stór hluti undirritaðra sé hinn sami hjá báðum ekkiframboðunum.

Hvernig væri að bylta almennilega og lofa því að skipta úr skjaldarmerki?  Taka fálkafánann af MR og þar með verður hann kominn í hring og í þær hendur sem upphaflega áttu að eiga hann. Auk þess er þetta skjaldarmerki svo karlrembulegt að konu verður ómótt! Enginn fulltrúi kvenna hefur ratað með fjór”menningunum”! Mætti uppfæra MR-fánann í örn eða öllu heldur össu! Þetta er það eina pólitíska sem mér hefur  dottið í hug við lestur á krókaleiðum bloggsins.

—– 

Ætli maður haldi sig ekki við það að kjósa listann með skásta liðinu eins og endranær, vera ekki að velta stefnumálum allt of mikið fyrir sér en passa t.d. að kjósa ekki fasista eða rasista eða kalla sem blogga drukknir um nætur eða feita kalla í jakkafötum o.s.fr.

Mér er ljóst að ég safna ekki mörgum vinum með þessari færslu. En nú hafa lífsgildin mín breyst svo mjög á áratug að ég er nánast ný og miklu syndugri manneskja. Miðað við hvað er mikilvægt í þessu lífi er kjökur móðgaðra bloggara eins og hver önnur smákökusneið!