Inngangsorð: Þessi færsla er hvorki um kreppu né mótmæli. Ég hef ákveðið að mótmæla þessum hallærismótmæla-múg með því að blogga ekki um hann; það mætti kannski halda að þögn sé sama og samþykki en í þessu havaríi má skilja þögn sem andmæli mótmæla. Ég hef samúð með fólkinu mínu í þurrabúðinni og munið að við Skagamenn tökum ávallt vel á móti flóttamönnum!
Hér er vikið að öðru:
Best að halda dyggum lesendum upplýstum hvert sinn sem kroppatamningunni vindur eitthvað fram (sem ég reyndar ekki viss um að sé að gerast). Lauslega sagðar eru fréttirnar þessar:
– Í gær passaði ég að taka ekki Rivotril og mætti út á Jaðarsbakka svoleiðis skínandi hrein og edrú (“clean and sober” er tæknifrasinn). Niðurstaðan er sú að e.t.v. er ég ekki alveg jafn grútslöpp og annars en á hinn bóginn hafa allar boðleiðir brenglast svo handleggir létu alls ekki að stjórn og vanar kroppadýrkunarkonur sjá auðvitað hversu erfitt og ruglandi það er ef bæði hendur og fætur skjálfa að ráði. Sennilega gúterar heilinn á mér ekki eitthvert náttúrulega framleitt endorfín. Ég náði ekki að vera alveg hálfan tímann – var orðið svo flökurt – en plúsinn í gær var að ung kona (fyrrum nemandi) sagðist hafa verið með mér í morgun-eróbikki fyrir nokkrum árum og ég hefði verið svo dugleg! Hm … ég hlýt að hafa verið í veikindaleyfi þá … ætli ég hafi ekki verið í raflostmeðferð? En miðvikudagurinn flokkast plúsmegin úr því ég mætti og reyndi.
– Í dag ákvað ég að droppa inn í Kúrfuna, sem er miklu vingjarnlegri og kvenlegri rækt en Jaðarsbakkaræktin. Labbaði þangað í storminum og hálkunni, með vatnsflösku og strigaskó … til þess eins að lesa um minni opnun vegna kreppu og ég lenti á lokaða bilinu um miðjan daginn. Ég fór aftur heim en gleymdi öðru sem ég ætlaði að bardúsa. Seinna fór ég í hitt bardúsið og var komin að Kúrfunni þegar rann upp fyrir mér að í rauninni myndu tvær ferðir, fram og tilbaka, frá mér að Kúrfu dekka nokkurn veginn hálftíma-kúrfutímann. Svoleiðis að ég set þennan dag plúsmegin.
– Um morgundaginn er ekkert hægt að segja (ef maður er hinn góði AA maður).
– Enn annað: Mig vantar betri græjur og föt, íþróttakyns. Í okkar góða bæ er rjúkandi útsala á sport- og tískuvörum. Ég hef hins vegar strengt þess heit að versla ekki í búðum sem heita útlendum nöfnum. Þessi íþróttabúð heitir Gallery Ozone. Héti hún “Sýningarsalur þrí-ildis” mundi ég versla þar. Kannski þýðir Ozone eitthvað annað en kannski eru stafsetningarvillur til að punta upp á ósonlagið, sem er svo óspennandi.
Ég læt þessu lokið að sinni, nenni ekki að myndskreyta og vona að vinstri sinnuðu menntamannabörnin kasti ekki neinu ógislegra en skyri í lögguna í nótt.