Nú hefur u.þ.b. tugur sérfræðinga greint vandann, myndað hann, skoðað og komist að niðurstöðu: Það verður að fóðra gömlu leku steinrörin undir húsinu með plasti. Ég þóttist náttúrlega báðum fótum í etu standa því af dyggum lestri Lagnafrétta í mörg ár hafði ég veður af svona plastfóðrun og líka af litlu sniðugu myndkafbátunum sem sigla um rörin blá í sautján ár … æi, missti mig …
Það eina pirrandi við vandamálið sem á að fara að leysa er að það er dj… dýrt! En við eigum fyrir þessu og það er meira vit í að leggja sitt fé í plasthúðun skólpröra sem endast og endast heldur en í t.d. banka þar sem mölur og ryð og kreppa fá þeim grandað.
Framkvæmdir frestast af þessum lagnalagfæringum – þær verða ekki fyrr en í næstu viku. Nú er búið að saga neðan af öllum hurðarstöfum, skrapa gamalt flísalím, hreinsa burt gamalt gólfefni o.þ.h. en ekki hægt að flota fyrr en eftir að plasthúðunargræjurnar hafa unnið sitt verk og ekki hægt að leggja gólfefni fyrr en flotað hefur verið og ekki hægt að setja í nýsmíðuð gerefti og hurðir fyrr en gólfefnin eru komin o.s.fr. Kom í ljós að frummálning eldhússins hefur verið sundlaugargrænt skipalakk (enda skipstjóri sem byggði) en annað merkilegt er ekki að sjá.
Það væsir ekkert um okkur á efri hæðinni. Að sjálfsögðu er það reyklaus hæð en eldhúsið brúkum við og sofum í útilegu á dýnum. Mér finnst svolítið undarlegt að stundum þegar ég kem heim í hádeginu þá finn ég keim af síldarbræðslulykt í forstofunni. Þetta er ekki loðnubræðslulykt og ekki fýlan frá Laugafiski (lengst niður á Neðri- Skaga) … nei, þetta er af síld!
Við fórum í gullbrúðkaupið mikla, við Vífill mættum reyndar bara í seinni helminginn, af því hann þurfti að vinna upp margar vökunætur og ég er of geðveik til að treysta mér í 10 tíma samveru með háværri tengdafjölskyldunni (þeir taka þetta til sín sem eiga 😉 Þetta var ljómandi skemmtilegt kvöld á Hótel Loftleiðum … nema ég átti erfitt að sætta mig við að eta svo fögur dýr sem þarna voru í boði (rjúpur – skýrt tekið fram að væru skoskar -fasanar, krónhirtir o.s.fr.)
Ég hefði getað pínt mig á interessant fyrirlestur litla bróður en hefði þá verið að taka sénsinn á að gefast upp fyrir gullbrúðkaupinu. Ég vona að einhver hafi komið 🙂
Síðan síðast hef ég klárað Varginn eftir Jón Hall Stefánsson. Gef henni þrjár stjörnur, hún er ansi fyrirsjáanleg. Hefði mátt þjappa textanum betur og stytta um a.m.k. 100 síður, til bóta. Á bókarkápu segir að Berlinske tidende hafi gefið henni 5 stjörnur ???
Núna er ég með einhverja nýja þunglyndisbók, sem ég man ekki hvað heitir. Ég bjóst við enn einni skruddunni um að soga orku úr jörðinni, drekka grænt te, íhuga og gera Müllersæfingar. En nú kemur í ljós, á fyrstu síðum, að bókin er skrifuð af fullu viti en ekki mannkynsfrelsurum. Svo ég hugsa að ég lesi hana bara 🙂
Ég nenni ekki að finna neinar myndir núna, sorrí.