Author Archives: Harpa

Frí

Lína langsokkur vildi fara í skóla til að geta fengið jólafrí, páskafrí og sumarfrí, ef ég man rétt. Ég skil hana mjög vel. Einn gallinn við að vera öryrki er að lífið er afskaplega tilbreytingarlaust; Öryrkjar fá aldrei frí. Fyrir manneskju eins og mig sem hef unnið fulla vinnu allt árið frá átján ára aldri eru það ansi mikil viðbrigði að þurfa að yfirgefa vinnumarkað enda sé ég óendanlega mikið eftir starfinu mínu, sem ég get ekki lengur unnið vegna veikinda.

En nú var ég svo lúsheppin að fá tækifæri til að “kenna” lítilsháttar, fyrir vinkonu mína sem þurfti að bregða sér af bæ. Þetta var nú samt frekar “pössun” en kennsla; Aðallega fólst starfið í að merkja við í kladda og sýna nemendum vídjó (sem eins og forðum gekk ekki andskotalaust fyrir sig, með batteríislausar fjarstýringar og tæknifælna mig). Frábærasti parturinn var að hitta unglinga, unglingar eru nefnilega mikið ágætisfólk. Svo var gaman að vera á kennarastofunni með gömlu vinnufélögunum. Og, síðast en ekki síst: Á morgun byrjar miðannarleyfið og þess vegna voru allir að óska öllum góðrar skemmtunar í fríinu og góðs frís. Þess vegna fannst mér þegar ég labbaði út úr skólanum í dag að ég væri komin í frí. Mikið svakalega er það góð tilfinning! (Þótt hún sé blekking …)

Ég er samt eins og undin tuska eftir pössunina. Þótt ég hafi ekkert þurft að undirbúa neitt og ekki fara yfir neitt er sennilega nokkuð langt í að mér batni nóg til að geta kennt. Samt er ég tíu sinnum frískari en á sama tíma í fyrra.

Akkúrat núna er hættulegasti tíminn geðsjúkum, að sögn þess læknis sem ég hef verið hjá í meir en áratug. Hann hefur sagt mér oftar en einu sinni að geðveikum hætti mjög til að veikjast þegar birtan breytist, haust og vor. Ég hugsa að þetta sé rétt hjá honum, hef nefnilega mörg undanfarnin ár oftast veikst um mánaðamótin september – október og verið orðin fárveik í október. En ekki núna. Eftir því sem lyfjaþokunni léttir og með því að nýta mér það sem ég lærði á HAM-námskeiðinu fyrir stuttu tekst mér að vera sæmilega frísk, raunar finnst mér í samanburði við undanfarin ár að ég sé bara helv. frísk!  Svo tek ég einn dag í einu og fyrir hvern dag sem mér líður nokk normal er ég óendanlega þakklát.

Og nú er ég sem sagt komin í frí 🙂

Haldið framhjá Kindlinum

Nú hefur Kindillinn minn legið meira og minna á hillu undanfarnar margar vikur. Sem er auðvitað sorglegt miðað við hve mikla ást ég hef fest á gripnum.

Ég datt sumsé í pappírsbækur. Fallið byrjaði með tveimur hnausþykkum bókum eftir Jussi Adler-Olsen, uppáhaldið mitt. Ég tók að mér að vera “pössunarpía” fyrir vinkonu mína, þ.e. leysa hana af í kennslu nokkra daga, einhvern tíma snemma í september. (Þetta var nú ekki kennsla þannig lagað, ég fékk allt upp í hendurnar og þurfti ekki fara yfir neitt, bara mæta í tímana, merkja við og passa að nemendur ynnu.) Kennari þar varð áskynja aðdáunar minnar á Adler-Olsen og lánaði mér Flaskepost fra P og Journal 64, sem ég gleypti í mig.

Skömmu síðar bárust pappírseintökin sem ég neyddist til að panta frá Amazyni af því önnur bókanna var bara til á pappír, rafbókaútgáfan af hinni bara til sölu í Amríku. Þetta voru bækur sem snertu geðlækningar, The Myth of the Chemical Cure og Unhinged; Las þá síðarnefnu spjaldanna á milli en hina svona í pörtum.

Stuttu síðar var mér bent á enn eina ágætis bókina um svipað efni sem til væri á bókasafni Norræna hússins. Það er bókin Pillret. En berättelse om depressioner och doktorer, forskare och Freud, människor och marknader eftir blaðamanninn Ingrid Carlsberg (útg. 2008). Innan á bókakápu er ýmislegt hrós, þ.á.m. staðhæfir lyfjafræðiprófessor að bókin sé “En formidabel thriller!” Nú er ég hálfnuð með bókina (hún er ansi löng) og verð að taka undir þessi orð: Þessi bók um þunglyndi, lyf og geðlækningar er nefnilega æsispennandi, gefur góðri morðsögu lítið eftir. Sá sem benti mér á hana skrifaði sjálfur bloggfærslu um hana á sínum tíma og ég vísa bara í bloggfærsluna hans vilji menn kynna sér bókina (sem ég verð vel að merkja með í láni í tvær vikur í viðbót). Sjá Bókarýni: Frábær bók um geðlyf! eftir Einar Karl Friðriksson. Það tefur svo lesturinn nokkuð að ég er alltaf að kíkja í tilvísana- og heimildaskrárnar …

Ég uppgötvaði að mig bráðvantaði bókina Alverdens strikning eftir Ann Möller-Nielsen (útg. 1988). Hafði upp á eintaki til sölu með hjálp Gúguls frænda og hugmyndaauðgi bóksalans (sem ekki var með kreditkortaþjónustu) varð til þess að við ákváðum að skiptast á gjöfum, ég og hann. Svo fékk ég bókina að gjöf og þurfti að lesa hana upp til agna samstundis … vitaskuld á pappír. Þessi bók á eftir að nýtast mér afar vel í prjónasögublogg, sem ég tek aftur til við þegar ég hef bloggað eina færslu enn til að klára yfirferð yfir þunglyndislyfjapakkann.

Nú, í ofanálag hef ég dottið inn á ýmis bókasöfn undanfarið, er með heilan haug af hannyrðafræðum af bókasafninu í Kennó og nokkrar af bókasafninu hér á Skaga, hef stillt mig um að fá lánað á Þjóðarbókhlöðu þótt ég hafi rekið þar inn nefið vikulega og gramsað í ýmsu. M.a. er hér í hillu hálflesin Sagan af klaustrinu á Skriðu eftir Steinunni Kristjánsdóttur, sem er mjög skemmtileg og vel skrifuð og ég ætla örugglega að klára. Ég fékk líka lánaða bókina hans Óttar Guðmundssonar, sem ég hef lesið ýmislegt skemmtilegt eftir, Hetjur og hugarvíl. Las kaflann um Njálu en þótti ekki mikið til koma og ákvað að skila bókinni með restinni ólesinni. Nú er ég nefnilega hætt að klára bækur sem mér finnast leiðinlegar. (Af sömu ástæðu lagði ég Fifty Shades of Gray á Kindilhilluna eftir 40 lesin prósent, sú bók sameinaði það að vera einstaklega illa skrifuð og margauglýst erótíkin svo ómerkileg að ég roðnaði næstum yfir að lesa þessa hörmung.)

Í Kindlinum er hálflesin Ást er þjófnaður eftir Eirík Örn Nordahl. Ég mun örugglega klára hana því þetta er helvíti góð bók! Hins vegar held ég að ég hendi hinni hálflesnu bókinni, sögunni um hvernig Liza Marklund og Mia Eriksson hagræddu sannleikanum ansi mikið í bókunum sem þær skrifuðu og slógu í gegn. Vissulega er áhugavert hvernig hægt er að teygja og toga hlutina og ljúga duglega í þokkabót og selja svo metsölu … en bókin er alltof langdregin og ég nenni ekki einu sinni að gá hvað hún heitir. Líklega eru hundraðogeitthvað bækur í Kindlinum svo það er ekki eins og ég sé að ljúka lestri í bili … en hann liggur sem sagt í hillunni. Og enn á ég eftir að calibra bók sem mér áskotnaðist fyrir stuttu, um geðveiki og vestrænar læknisaðferðir við henni …

Það tefur mig líka frá lestri að vera þokkalega hress. Það er ótal margt sem mig langar til að gera á hverjum degi og um að gera að láta það eftir sér meðan heilsan er með skásta móti. Svo reyni ég líka að vinna í því að halda heilsunni áfram með skásta móti, t.d. er nauðsynlegt að arka 6-8 kílómetra á hverjum degi (veit ekki hvort það virkar eitthvað gegn þunglyndi en það skaðar a.m.k. ekki); segi já við öllum samkomum og uppákomum (á HAM-námskeiðinu greip ég ráðlegginguna að það væri slæmt fyrir þunglynda að vera í félagsskítafélaginu … fín ráðlegging og við skulum vona að hún virki): Satt best að segja held ég að ég sé búin að gera meira undanfarna tvo mánuði en samanlagt tvö árin á undan.

Þetta er bloggað beint af augum … og ég nenni ekki að blogga um dægurmál frekar en venjulega enda er offramboð á svoleiðis bloggum, mjög misjöfnum að gæðum. 

Klínískar leiðbeiningar sem ekki er farið eftir

Í Klínískum leiðbeiningum um þunglyndi og kvíða sem Landspítalinn gaf úr í ágúst 2011 er í öllum tilvikum nema alvarlegu þunglyndi mælt með sálfræðimeðferð (hugrænni atferlismeðferð) sem fyrsta úrræði við þunglyndi og kvíða og lyfjagjöf einungis talin forsvaranleg virki sálfræðimeðferð ekki. Við alvarlegu þunglyndi er í þessum leiðbeiningum mælt með að bjóða sjúklingi hugræna atferlismeðferð og SSRI-lyf samtímis. Meginmarkmið klínískra leiðbeininga, sem byggja jafnan á gagnreyndri læknisfræði, er að bæta gæði og auka skilvirkni og jafnræði í heilbrigðisþjónustu. Hinar íslensku Klínísku leiðbeiningar um þunglyndi og kvíða eru sniðnar eftir klínískum leiðbeiningum NICE (National Institute for Clinical Excellence), breskrar heilbrigðisstofnunar.

Á Norðurlöndunum má finna svipaðar leiðbeiningar:

Í Svíþjóð gilda Nationella riktlinjer för vård vid depression och ångestsyndrom. Svíar eru ofurlítið hlynntari þunglyndislyfjagjöf en sjá má í íslensku klínísku leiðbeiningunum.

Í Danmörku hafa ekki verið gefnar út klínískar leiðbeiningar um þunglyndi sem öllum í heilbrigðiskerfinu  er gert að fara eftir (slíkar leiðbeiningar um meðhöndlun geðsjúkdóma eru í vinnslu) en ábendingar hafa verið gefnar út, Referenceprogram for unipolar depression hos voksne. Þessar ábendingar  eru svipaðar íslensku klínísku leiðbeiningunum þegar kemur að vægi sálfræðimeðferðar og lyfjagjafar í meðferð þunglyndis.

Í Noregi heita klínísku leiðbeiningarnar Nasjonale retningslinjer for diagnostisering og behandling av voksne med depresjon i primær- og spesialisthelsetjenesten. Efnislega eru þær samhljóða þeim íslensku, þ.e. hampa sálfræðimeðferð sem fyrsta kosti við lækningu þunglyndis. Þær skera sig úr hvað varðar áherslu á að sjúklingurinn fái ævinlega að velja meðferðarkost og að hann sé rækilega upplýstur um alla möguleika, þ.á m. kosti og galla. Tilvísanir í heimildir og ítarleg heimildaskrá er til fyrirmyndar, miklu betri en í dönsku og sænsku leiðbeiningunum. Í íslensku leiðbeiningunum eru engar heimildatilvísanir.

HAMSeint í fyrra birtist greinin Gagnsemi hugrænnar atferlismeðferðar við lyndis- og kvíðaröskunum hjá fullorðnum í Læknablaðinu. Höfundar hennar eru þrír sálfræðingar og einn geðlæknir. Í þessari grein er ítarlega fjallað um rannsóknir á HAM (hugrænni atferlismeðferð). „Í greininni kemur fram að HAM gagnast vel við þunglyndi, almennri kvíðaröskun, skelfingarkvíða, áfallastreituröskun, áráttu- og þráhyggju, félagsfælni og sértækri fælni. Árangur af HAM við meðferð þessara raskana er í flestum tilfellum sambærilegur eða betri en árangur lyfjameðferðar en aðgengi er lakara“ segir í ágripi greinarinnar.
 

Þrátt fyrir afar jákvæða umfjöllun um HAM (hugræna atferlismeðferð) þegar gagn hennar er borið saman við gagn af þunglyndislyfjagjöf og þær flottu klínísku leiðbeiningar sem geðsvið Landspítalans flaggar  er það væntanlega almenn reynsla þunglyndissjúklinga að vera ávísað þunglyndislyfi um leið og sjúkdómsgreining fæst.  Á þeirri geðdeild sem ég hef oft legið er ekki boðið upp á hugræna atferlismeðferð, þar snýst flestallt um lyfjagjöf. Á árum áður minnist ég þess að sálfræðingur kom inn á deildina og hægt var að fá viðtal við hann, þótt ekki væri boðið upp á HAM meðferð. Síðast þegar ég lá á geðdeild, í sjö vikur síðla árs 2010, varð ég ekki vör við sálfræðing nema á göngum geðdeildarhússins. Þrátt fyrir fögur orð um fjölþætta meðferð í svoleiðis móttökugeðdeildum, sem sniðin sé að þörfum sjúklinga og aðstandenda þeirra, og að áhersla sé lögð á að „greina líffræðilega, sálræna og félagslega þætti sem stuðla að veikindum og heilbrigði“ er það mín reynsla af mörgum innlögnum að læknismeðferðin sé fyrst og fremst lyfjameðferð eða raflækningameðferð.
 

Viðtal við sálfræðing á stofu kostar a.m.k. 10-12 þúsund krónur. Sjúkrasjóðir flestra stéttarfélaga styrkja viðtalsmeðferð við sálfræðing að einhverju marki en það gefur auga leið að öryrkjar á bótum frá Tryggingastofnun hafa ekki efni á svoleiðis þjónustu.

Á göngudeild geðsviðs Landspítalans er hægt að panta viðtal við sálfræðing og sú þjónusta er niðurgreidd af Sjúkratryggingum ríksins, eins og viðtöl við geðlækna. En á göngudeildinni eru einungis þrjú og hálft stöðugildi sálfræðinga svo biðin eftir viðtali getur orðið mjög löng. Geðsvið hefur boðið upp á grunnnámskeið í HAM við þunglyndi og kvíða í nokkur ár. Þau námskeið eru ekki auglýst nema í Geðdeildarhúsinu, t.d. er þeirra ekki getið á heimasíðu geðsviðs. (Kannski eru þau auglýst á einhverjum heilsugæslustöðvum, a.m.k. vona ég það.) Ég hef nýlokið svona námskeiði og mæli eindregið með því. Tilvísun frá heimilislækni, sálfræðingi eða geðlækni þarf til að skrá mann á námskeiðið og það kostar ekki mikið. Vegna manneklu í röðum sálfræðinga á göngudeild geðsviðs er ekki hægt að bjóða upp á sérhæfð framhaldsnámskeið í HAM, t.d. við þunglyndi eða kvíða.
 

Niðurstaða mín er að Klínískar leiðbeiningar um þunglyndi og kvíða séu skynsamlegar en það sé hins vegar ekkert farið eftir þeim og þær því vita marklaust plagg.
 

Heimildir

Frá Landlæknisembættinu. Erlendar klínískar leiðbeiningar. Læknablaðið 1. tbl. 89. árg. 2003.

Gæði læknisþjónustu aukin með vefi um klínískar leiðbeiningar. Læknablaðið 5. tbl. 87 árg. 2001.

Klínískar leiðbeiningar um þunglyndi og kvíða. Landspítali Háskólasjúkrahús ágúst 2011.

Magnús Blöndahl Sighvatsson o.fl.  Gagnsemi hugrænnar atferlismeðferðar við lyndis- og kvíðaröskunum hjá fullorðnum. Læknablaðið 11. tbl. 97. árg. 2011.

Nationella riktlinjer för vård vid depression och ångestsyndrom. Socialstyrelsen í Svíþjóð 2010, sjá einkum s. 34-45.

Nasjonale retningslinjer for diagnostisering og behandling av voksne med depresjon i primær- og spesialisthelsetjenesten. Helsedirektoratet í Noregi, maí 2009. Sjá einkum s. 50-63.

Referenceprogram for unipolar depression hos voksne. Sundhedsstyrelsen í Danmörku, nóvember 2007.
 
 

Afstaða evrópskra geðlækna til þunglyndislyfja

Í yfirlýsingu Evrópsku geðlæknasamtakanna um gagnsemi þunglyndislyfja við einpóla þunglyndi (Position statement of the European Psychiatric Association (EPA) on the value of antidepressants in the treatment of unipolar depression) sem birtist á netinu seint í nóvember 2011 og í prentaðri útgáfu í janúar 2012 er tekin eindregin afstaða með þunglyndislyfjagjöf umfram aðra kosti. Þetta er langt plagg en líklega gefur það þokkalega mynd af málflutningnum að telja upp heiti undirkafla. (Af því yfirlýsingin er skrifuð á „evrópskri embættismannaensku“ er orðalag stirt og klúðurslegt og sér þess merki í þýðingunni.) Plaggið skiptist svona í undirkafla:

 

1. Kynning
2. Bakgrunnur: Algengi og afleiðingar einpóla þunglyndis í Evrópu og helsti vandi við að greina og meðhöndla það
3. Flóknar orsakir og birtingarmyndir þunglyndis og hvernig það tengist einstaklingsbundinni svörun [við læknismeðferð] og einnig flókinni og einstaklingsmiðaðri meðferð við þunglyndi
4. Gagn þunglyndislyfja er vel sannað og þau eru almennt örugg og þolast vel
5. Gagn þunglyndislyfja skiptir máli í læknisfræðilegri meðferð
6. Vitnisburður um viðbótarmeðferð með þunglyndislyfjum samkvæmt flókinni meðferðarúrræðaáætlun
7. Þunglyndislyf virka almennt til bóta gegn sjálfsvígsáformum en undir ákveðnum kringumstæðum geta þau haft neikvæð áhrif
8. Einstaklingsmiðaðar læknisfræðilegar ákvarðanir í meðferð þunglyndis
9. Niðurstöður

Lyfjaáróður Almennt má segja að þunglyndislyfjagjöf sé hampað mjög í þessari yfirlýsingu. Langt mál fer í að bera brigður á niðurstöður Kirsch o.fl. um lyfleysuáhrif í þunglyndislyfjaprófunum en einnig er bent á að sálfræðimeðferð hvíli á ótraustum grunni, t.d. séu engar tvíblindar rannsóknir til á gagnsemi HAM (hugrænnar atferlismeðferðar). Hvernig höfundar yfirlýsingarinnar hugsa sér að hægt sé að framkvæma slíka rannsókn er ekki útskýrt. Þunglyndislyf eiga ávallt við, hvort sem þunglyndi er vægt eða alvarlegt, og þær útgefnu klínísku leiðbeiningar í Evrópu sem segja annað eru einfaldlega rangar. Gæta beri þess að gefa ekki of litla skammta af þunglyndislyfjum.

Auk þunglyndislyfjagjafar eru höfundar ákaflega hlynntir því að notuð séu önnur geðlyf meðfram, til að auka læknandi áhrif. Mælt er með „raðmeðferð“ (sequential therapy), þ.e. að prófa ný og ný þunglyndislyf ef fyrsta lyf virkar ekki, og samsettri [lyfja]meðferð. Samsetta lyfjameðferðin er t.d. að gefa tvö þunglyndislyf úr ólíkum lyfjaflokkum saman (sem dæmi er nefnt SSRI-lyf og Míron) og að gefa sefandi geðlyf sem einkum eru notuð við geðklofa, lítíum (einkum notað við geðhvarfasýki) eða skjaldkirtilshormón samfara þunglyndislyfi. Önnur samsett meðferð er t.d. að veita sálfræðimeðferð með, nota ljósameðferð, raflækningar eða aðra meðferð sem örvar heilann.

Rökin fyrir að skipa lyfjameðferð hæstan sess í meðferð þunglyndis eru að klínísk reynsla sýni að þetta virki. Klínísk reynsla er hins vegar ekki sérstaklega skilgreind og raunar tekið fram að hún sé ekki mælanleg í rannsóknum.

Það er mjög athyglisvert að skoða tengsl höfunda yfirlýsingarinnar við lyfjafyrirtæki. Aðalhöfundurinn, Hans-Jürgen Möller, virðist hafa þegið greiðslur frá og gegnt ýmsum stöðum fyrir öll þau lyfjafyrirtæki sem manni detta í hug í fljótu bragði og framleiða geðlyf. Hinir höfundarnir hafa þegið allt frá ferða- og uppihaldsstyrkjum frá svoleiðis fyrirtækjum upp í að vera næstum eins á hatti með þeim og Möller. Þótt tekið sé fram að lyfjafyrirtæki hafi ekki styrkt gerð þessarar yfirlýsingar er ómögulegt að halda að hún sé skrifuð af hlutleysi þegar hagsmunatengslin eru skoðuð. Ekki kemur fram á hve löngu tímabili bitlingarnir voru þegnir.

Ég veit ekki hvort Geðlæknafélag Íslands er aðili að Evrópsku geðlæknasamtökunum en Hans-Jürgen Möller var sérstaklega auglýstur fyrirlesari á Vísindaþingi Geðlæknafélags Íslands 23. og 24. apríl 2010. Hann flutti þar erindi um stöðu og framtíð geðlækninga.
 

Í næstu færslu skoða ég klínískar leiðbeiningar geðsviðs Landspítalans um meðferð þunglyndis og kvíða, sem ekki er farið eftir á geðsviði Landspítalans, og tæpi á mismunandi sjónarmiðum í lyfjagjöf við þunglyndi í örfáum íslenskum greinum.
 
 
 
 

Virka þunglyndislyf til skaða?

Primum non nocere og mynd af HippokratesiÁ síðustu árum hafa heyrst æ háværari raddir um að þunglyndislyf geti beinlínis valdið því að þunglyndi versni. Það er útaf fyrir sig nógu slæmt að heyra af því að vísindalegur grunnur undir þessi lyf sé því miður í algerum molum og að líklega virki þau sáralítið betur en hveitipillur á þunglyndi (sbr. síðustu tvær færslur); verra er ef lyfin gera sjúkdóminn þungbærari.

Aukaverkanir þunglyndislyfja ætti að vera óþarft að rekja, það eru það margir sem kannast mætavel við svoleiðis aukaverkanir. Aukaverkanir eru mismunandi eftir lyfjategundum og einstaklingsbundið hve mikið fólk finnur fyrir þeim. Algengar aukaverkanir af þeim flestum er kyndeyfð og „að finnast maður vera flatur“, þ.e. að tilfinningar dofni mjög. Af lífshættulegum aukaverkunum má nefna aukna hættu á sjálfsvígi, einkum í upphafi meðferðar. Þegar beitt er fjöllyfjagjöf, eins og oftast tíðkast sé sjúklingur álitinn þunglyndur að ráði, getur samspil þunglyndislyfja og annarra lyfja haft lífshættu í för með sér. (Sjá t.d. greinarnar Lyfjaspurningin: Of mikið serótónín í heilanum? og Lyfjaspurningin. Geta milliverkanir lyfja leitt til lengingar á QT-bili? í Læknablaðinu 2010 og 2012.)
 

Giovanni A. Fava hefur skrifað margar greinar um þann skaða sem þunglyndislyf kunna að valda, einkum þann að þau kunni að gera þunglyndið verra. Í grein hans og Emanuela Offidania sem birtist í ágúst 2011 segir að þótt þunglyndislyf sýni góða verkun á þunglyndiskast [Fava veltir ekki fyrir sér hvort sú góða verkun sé lyfleysuáhrif] virki þau síður við endurtekinni djúpri geðlægð eða sem fyrirbyggjandi aðgerð gegn því að sjúklingi versni aftur. Menn héldu áður að sjúklingar sem tækju þunglyndislyf tímabundið (hættu töku þess innan hálfs árs) biðu lítinn skaða af en í rannsókn sem Helga Garðarsdóttir o.fl. hafi birt 2009 sýni sig að enginn munur er á þeim það gerðu og þeim sem tóku þunglyndislyf helmingi lengur: Sama hætta er á að veikjast aftur. Líkurnar á að veikjast aftur hækka svo um 23% taki fólk þunglyndislyf í meir en ár skv. þeirri rannsókn.

Fava telur að þegar þunglyndislyfjum er ávísað í meir en hálft ár (6-9 mánuði) hverfi klínísk verkun lyfsins vegna þess að boðefnakerfi heilans hefur þá lært að vinna gegn þeim. Auk þess sé hætta á að vægt þunglyndi breytist í illvígt meðferðarþolið þunglyndi séu lyfin tekin lengi. Þegar þunglyndislyfjagjöf er hætt eftir svo langan tíma geta fráhvarfseinkenni og viðbrögðin sem lyfin kveiktu í boðefnakerfi heilans hrint af stað nýju þunglyndiskasti. Því meir sem lyfjaskammtar séu hækkaðir og því oftar sem skipt er um þunglyndislyf því meiri eru líkurnar á að sjúkdómurinn versni.
 

Í tveimur nýlegum greinum, sem þróunarsálfræðingurinn Paul W. Andrews er aðalhöfundur að er annars vegar rækilega útskýrt hvaða áhrif þunglyndislyf hafa á heilann og hvernig þau áhrif geti verið til ýmiss skaða, jafnvel valdið óafturkræfum skaða (sjá Primum Non Nocere: An Evolutionary Analysis of Whether Antidepressants Do More Harm than Good) og hins vegar sýnt fram á með safnrannsókn (meta-analysis) að þunglyndislyf tefja bata og kunna að ýta undir endurtekin þunglyndisköst. (Sjá Blue Again: Perturbational Effects of Antidepressants Suggest Monoaminergic Homeostasis in Major Depression). Báðar þessar greinar eru mjög langar og á köflum ansi þungur texti fyrir fólk eins og mig sem hefur takmarkaða þekkingu á efnafræði og tölfræði. (Auk þess er ég ósammála þróunarfræðilegu skýringunni á þunglyndi sem Andrews hampar.) En í þeim er gerð mjög rækileg grein fyrir efninu og vísað í fjölda heimilda sem koma að gagni vilji menn kynna sér skaðleg áhrif þunglyndislyfja á heilann eða rannsóknir sem sýna að þunglyndislyf geti ýtt undir það að sjúklingi elnar sóttin.

Í síðarnefndu grein Andrews o.fl., Blue Again: Perturbational Effects of Antidepressants Suggest Monoaminergic Homeostasis in Major Depression, segir að „mótstöðuþol“ (oppositional tolerance) myndist þegar þunglyndislyf raska taugaboðefnakerfi heilans. Þegar lyfjatökunni er hætt kemst taugaboðefnakerfið ekki sjálfkrafa í jafnvægi. Því meiri áhrif sem þunglyndislyf hafa á taugaboðefni því harðari verða röng viðbrögð taugaboðefniskerfisins þegar áhrifa lyfjanna gætir ekki lengur. Þessi sannindi séu samt engan veginn vísbending um að eitthvað hafi í upphafi verið bogið við taugaboðefnakerfi í heilum þunglyndra. Ef á hinn bóginn skyldi vera eitthvað til í boðaefna-ójafnvægiskenningunni væri líka hægt að skýra hvað þunglyndislyf virka takmarkað með þessu mótstöðuþoli, boðefnakerfi heilans lærir nefnilega að vinna gegn lyfjunum. (Hvernig það gerist er ítarlega skýrt í hinni greininni, Primum Non Nocere …)

Andrews og félagar fóru yfir fjölda rannsókna á því í hve miklum mæli fólk veikist aftur þegar það hættir á þunglyndislyfi borið saman við fólk sem hættir á lyfleysu. Þeir vitna í margar rannsóknir sem þeir telja sýna að þunglyndissjúklingum sem ekki taka lyf batnar miklu hraðar en þeim sem taka þunglyndislyf. Meðallengd djúprar geðlægðar er 12-13 vikur taki sjúklingur ekki þunglyndislyf, skv. þessum rannsóknum (sem eru ekki nýjar af nálinni enda líklega erfitt nú að finna þunglyndissjúklinga sem ekki er ávísað lyfjum). Þunglyndislyf byrji ekki að virka fyrr en eftir nokkrar vikur og yfirleitt eru sjúklingar látnir taka þau mánuðum saman. Þetta bendi til þess að þunglyndislyfjamerðferð tefji fyrir sjálfkrafa bata í þunglyndiskasti. (Pasternak o.fl., sem margir vísa til, drógu þá ályktun af sinni rannsókn að meðallengd djúprar geðlægðar væri 23 vikur ef sjúklingar tækju þunglyndislyf.)

Þeir nefna að þunglyndissjúklingum sé í sívaxandi mæli ávísað ýmiss konar öðrum geðlyfjum með þunglyndislyfjum til að auka áhrif þeirra. Að mati Andrews og félaga ruglar þetta boðefnakerfi heilans enn meir sem gæti enn aukið hættuna á bakslagi þegar lyfjatöku er hætt.
 

Þeir sem hallast að því að niðurstöður rannsókna hafi takmarkað gildi þegar klínísk reynsla segi annað (eins og t.d. er marghamrað á í nýlegri yfirlýsingu Evrópsku geðlæknasamtakanna um gagnsemi þunglyndislyfja) hefðu gott af því að lesa grein geðlæknisins Joanna Moncrieff, Why is it so difficult to stop psychiatric drug treatment? It may be nothing to do with the original problem frá 2006 því þar vitnar hún oft í sína klínísku reynslu (auk ýmissa rannsókna). Af þeirri reynslu megi draga þá ályktun að það sé afar erfitt að hætta á geðlyfjum, jafnvel þótt niðurtröppun sé hæg. Hún fjallar síðan um ýmis geðlyf, þ.á.m. þunglyndislyf, og kemst að þeirri niðurstöðu að hvers kyns íhlutun í taugaboðefnakerfi heilans geti haft alvarleg eftirköst. Þegar sjúklingur hættir á lyfjum og veikist sé það oftar en ekki fráhvarfseinkenni eða önnur afleiðing af lyfjagjöfinni en ekki að sjúkdómurinn brjótist fram á ný. Í bókinni The Myth of the Chemical Cure fer hún miklu dýpra í efnið og vísar til fjölda rannsókna en meginniðurstaðan er hin sama.
 

Sú litla bót sem ég kann að hafa haft af þunglyndislyfjum í minni sjúkdómsgöngu eru líklega lyfleysuáhrif og þau heldur léleg. Og þegar ég byrjaði að kynna mér þunglyndislyf fyrir skömmu taldi ég að þau hefðu verið tiltölulega meinlaus miðað við mörg önnur þau lyf sem mér hafa verið ávísað.  En eftir að hafa lesið mér til og skrifað þrjár færslur um efnið hafa nú runnið á mig tvær grímur hvað þetta varðar. Hvað áhrif ætli stöðugt hringl með þunglyndislyfjategundir hafi haft í gegnum tíðina? Hvað eftir annað var ég látin snögghætta á einu þunglyndislyfi, því það reyndist ekki virka eða virkaði einungis mjög tímabundið, og byrja á öðru. Og oft voru lyfjaskammtarnir talsvert hærri en ráðlagðir dagskammtar.

Eina þunglyndislyfið sem ég man almennilega hvernig var að hætta á var það fyrsta, Seroxat (SSRI-lyf). Mér var ávísað því þegar ég veiktist fyrst, 1998, og tók það í tvö ár. Þá var ég hætt að þola þetta lyf, fékk hroðalega óþægilega fótaóeirð sem gerði það að verkum að ég átti mjög erfitt með að sofna. Mér leið illa skv. útfyllingu á Beck’s þunglyndiskvarðanum (en ég hef miklar efasemdir um gagnsemi þess kvarða núna) og var uppálagt að snögghætta á Seroxati og snöggbyrja á Remeron (heitir núna Míron og er ekki SSRI-lyf). Vikurnar á eftir upplifði ég eitthvað sem líktist mest fyrirtíðarspennu ættaðri úr helvíti: Ég hefði getað drepið mann og annan! Mér finnst ekkert skrítið þótt óvirkir alkar falli þegar þeir eru látnir snögghætta á Seroxat, eins og ég veit nokkur dæmi um, áhrifin eru þannig. Seinna meir var ég látin byrja aftur að taka Seroxat af því Míronið hafði þá aukaverkun að stytta tíðahring um viku og kannski gæti Seroxatið slegið á það … nú eða fyrirtíðarspennu sem Míronið magnaði upp … og svefnlyf löguðu aukaverkunina spennu og óeirð af Seroxati … og svo hætti Míron að virka … og svo framvegis.

Myndin sýnir Hippokrates frá Kos og þau frægu orð Primum non nocere (Umfram allt skaða ekki) sem Hippokrates sagði ekki. Í upprunalegum eiðstaf þeim sem kenndur er við Hippokrates og útskrifaðir læknanemar í Vesturlöndum sóru við segir: „Διαιτήμασί τε χρήσομαι ἐπ’ ὠφελείῃ καμνόντων κατὰ δύναμιν καὶ κρίσιν ἐμὴν, ἐπὶ δηλήσει δὲ καὶ ἀδικίῃ εἴρξειν.“, orðrétt: „Ég mun nota mataræði [lækningar] til að aðstoða þá sjúku eftir því sem ég hef mátt og dómgreind til og einnig halda mig frá því að skaða heilsu og [halda mig frá] óréttlæti.“ Í þeirri útgáfu Hippokratesareiðsins sem íslenskir læknar undirrita nú hefur þetta verið umorðað í „að beita kunnáttu minni með fullri alúð og samviskusemi.“ Annars staðar er haft eftir Hippokratesi „ἀσκέειν, περὶ τὰ νουσήματα, δύο, ὠφελέειν, ἢ μὴ βλάπτειν eða „Hvað varðar lækningu/hjúkrun við sjúkdómum, [þarf að hafa] tvennt [í huga], gjörið gagn, spillið/skaðið ei.“

Heimildir
 

Andrews, Paul W. o.fl. 2011. Blue Again: Perturbational Effects of Antidepressants Suggest Monoaminergic Homeostasis in Major Depression. Frontiers in Psychology 2. árg.

Andrews, Paul W. o.fl.  2012. Primum Non Nocere: An Evolutionary Analysis of Whether Antidepressants Do More Harm than Good. Frontiers in Psychology 3. árg.

Fava, Giovanni A. og Emanuela Offidania. 2011. The mechanisms of tolerance in antidepressant action. Progress in Neuro-Psychopharmacology and Biological Psychiatry 35:5 , s. 1593–1602.

Gardarsdottir, Helga o.fl. 2009. Duration of Antidepressant Drug Treatment and Its Influence on Risk of Relapse/Recurrence: Immortal and Neglected Time Bias. American Journal of Epidemiology 170:3, s. 280-285.

Elín I. Jacobsen, Einar S. Björnsson. 2010. Lyfjaspurningin: Of mikið serótónín í heilanum? Læknablaðið 12. tbl. 96.árg.

Elín I. Jacobsen, Einar S. Björnsson. 2012,  Lyfjaspurningin. Geta milliverkanir lyfja leitt til lengingar á QT-bili? Læknablaðið 10. tbl. 98. árg.

Herrell, Howard. 2000.  The Hippocratic Oath: A Commentary and Translation. Utilis.net.

Middleton, Hugh og Joanna Moncrieff.  2011. ‘They won’t do any harm and might do some good’: time to think again on the use of antidepressants? British Journal of  General  Practice. 1:61(582), s. 47–49. [Tímaritið hét áður The Journal of the Royal College of General Practitioners.]

Moncrieff, Joanna. 2006. Why is it so difficult to stop psychiatric drug treatment? It may be nothing to do with the original problem. Medical Hypotheses.[Greinin hefur átt að birtast í 68. árgangi þessa tímarits en ég fann einungis fyrirfram birta vefgrein þar sem tölublaðs og árgangs er ekki getið.]

Moncrieff, Joanna og David Cohen. 2006.  Do Antidepressants Cure or Create Abnormal Brain States? PLOS Medicine 3(7): e240.

Moncrieff, Joanna. The Myth of the Chemical Cure. A Critique of Psychiatric Drug Treatment. 2008.

Primum non nocere á Wikipedia.

Posternak o.fl. 2006. The naturalistic course of unipolar major depression in the absence of somatic therapy. Journal of Nervous & Mental Disease 194:5, s. 324-329.
Ekki er auðvelt að finna greinina í opnum aðgangi og  hér er krækt í skannaða útgáfu á síðu Robert Withaker.

Stefán B. Sigurðsson. 2006.  „Hvernig hljómar eiðurinn sem læknar sverja?“. Vísindavefurinn 24.3.2006.
 
 
 
 
 
 

Úrskurður siðanefndar HÍ

Hér er ákvörðun siðanefndar Háskóla Íslands í máli 3/2012, þ.e. kæru félagsins Vantrúar. Skjalið er á pdf-formi og er birt með leyfi Bjarna Randvers Sigurvinssonar, sem kærður var.

Siðanefnd vísar kæru Vantrúar frá

Garðalundur á AkranesiFélagið Vantrú kærði Bjarna Randver Sigurvinsson enn einn ganginn fyrir siðanefnd Háskóla Íslands nú í sumar (sjá færsluna Vantrú kærir Bjarna Randver í fimmta sinn). Skipuð var ný siðanefnd til að fjalla um þetta mál enda höfðu þeir tveir sem skipa venjulegu siðanefnd HÍ starfað í tveimur siðanefndum sem hvorugri tókst að ljúka málinu.

Í dag bárust þær gleðilegu fréttir að siðanefnd HÍ hefði vísað kæru félagsins Vantrúar frá enda sé hún sé hún tilefnislaus og uppfylli þar með ekki skilyrði 4. gr. starfsreglna nefndarinnar um málsgrundvöll.

Þessi siðanefnd vann málið mjög faglega frá grunni. Andmælaréttur félagsins Vantrúar og Bjarna Randvers var virtur í hvívetna og því leið talsverður tími þar til svör og andsvör voru komin í hús. Félagið Vantrú fór reyndar fram á að ekki yrði tekið mark á flestum þeim gögnum sem Bjarni Randver lagði fram en siðanefnd tók ekki tillit til þeirrar óskar Vantrúar nema að takmörkuðu leyti.

Í úrskurði siðanefndar segir m.a. (feitletrun í texta er mín):

Til að geta skorið úr um hvort kæra um brot á siðareglum sé tilefnislaus samkvæmt 4. gr. starfsreglna nefndarinnar verður að kanna hvort tilefni hennar er til staðar eða hún reist á röngum forsendum. Fyrst er að líta til þess að enginn félagsmanna Vantrúar sat umrædda kennslustund í námskeiðinu Nýtrúarhreyfingar og þeir sáu glæruraðirnar ekki fyrr en síðar. Glærurnar voru til umræðu, umfjöllunar og greiningar í lokaðri kennslustund en voru ekki ætlaðar til opinberrar birtingar, enda kemur samhengi námskeiðsins ekki fram á þeim. Mikilvægt er að skoða glærurnar í samhengi við efni og markmið námskeiðsins, kennsluaðferðir og nálgun að viðfangsefninu svo og útskýringar kennara á tilgangi þeirra og framsetningu. Ekki síst skiptir máli hver var upplifun þeirra nemenda sem sátu kennslustundina þar sem þær birtust, þegar leggja skal mat á hvort umfjöllun um trúlausa og félagið Vantrú gaf tilefni til kærunnar. Þá þarf að taka tillit til víðtæks svigrúms kennara til að haga framsetningu efnis og kennsluaðferðum eftir því sem hann telur hæfa best til að ná markmiðum námskeiðs og námskeiðslýsingar, á þeim akademísku forsendum sem hann leggur til grundvallar.
[- – -]
Þegar allt framangreint er virt er það mat siðanefndar að umfjöllun Bjarna Randvers Sigurvinssonar um trúlausa og félagið Vantrú í námskeiðinu Nýtrúarhreyfingar hafi samrýmst viðurkenndum kennsluaðferðum, verið innan ramma lýsingar á viðfangsefnum, efnistökum og markmiðum námskeiðsins og hvorki falið í sér áróður né skrumskælingu. Hefur þannig verið leitt í ljós að ekki sé tilefni til þeirrar kæru sem hér er til skoðunar. Þar sem skilyrði 4 gr. starfsreglna siðanefndarinnar um málsgrundvöll eru ekki uppfyllt er málið ekki tækt til umfjöllunar hjá nefndinni.

Tveggja ára og átta mánaða martröð Bjarna Randvers er loksins lokið nema félagið Vantrú upphugsi fleiri stofnanir til að kæra hann fyrir. Í tilefni þessara gleðilegu frétta er færslan myndskreytt með friðsældinni í Garðalundi í dag.

Félagið Vantrú mun væntanlega tjá sig von bráðar um þennan úrskurð á sinni heimasíðu. Kann að hugsast að Matthías Ásgeirsson, fyrrverandi formaður Vantrúar og ötull talsmaður félagsins í málavafstri þess gegn Bjarna Randveri Sigurvinssyni, sé að tjá skoðun sína á úrskurðinum í nýjustu bloggfærslu sinni, en mögulega er kveikjan að henni eitthvert annað óréttlæti sem Matthías telur sig nýlega hafa orðið fyrir. [Ath. að Matthías leyfir ekki aðgang að sínu bloggi af þessu bloggi svo það þarf að afrita slóð Örvitans í nýjan glugga í vafranum.] 
 

Virka þunglyndislyf eða er verkunin aðallega lyfleysuáhrif?

Þunglyndislyf virka ekki - fors�ða Newsweek 2010Þekktustu rannsóknir á muninum á virkni þunglyndislyfja og lyfleysu eru rannsóknir Irving Kirsch. Hann hefur rannsakað lyfleysuáhrif alla sína starfsævi og er virtur fræðimaður (sálfræðingur að mennt). Af því ég hef áður bloggað um rannsóknir og umfjöllun Kirsch (sjá færslurnar Máttur lyfleysunnar og Nýju lyfin keisarans) eyði ég ekki löngu máli í að fjalla um þær. Í hnotskurn sýna rannsóknir hans á virkni þunglyndislyfja umfram lyfleysu, að munurinn milli verkunar lyfleysu og þunglyndislyfja mælist ákaflega lítill. Fyrstu niðurstöður voru birtar 1998.

Í rannsóknarniðurstöðum í grein Kirsch o.fl. frá 2002, sem fólst í yfirferð yfir öll gögn sem skilað var inn til Bandaríska matvæla- og lyfjaeftirlitsins (FDA) varðandi tvíblindar rannsóknir á sex algengum þunglyndislyfjum, kemur fram að þeim sjúklingahópi sem tók virkt þunglyndislyf reyndist batna að vegnu meðaltali um 10,13 stig mælt á Hamilton-geðlægðarkvarðanum en þeim hópi sjúklinga sem tók lyfleysu batnaði um 8,24 stig á sama kvarða að vegnu meðaltali. Af þessum (örlitla) mun dró Kirsch þá ályktun að 82% af mældum bata hópsins sem tók virk þunglyndislyf mætti skýra með lyfleysuáhrifum eingöngu. Svörun við lyfleysu er raunar óvenju mikil í þunglyndislyfjarannsóknum miðað við í lyfjarannsóknum almennt segir Kirsch í bók sinni The Emperor’s New Drugs.
 
 

Munurinn mældist mestur hópi þeirra sem voru allra mest þunglyndir (skoruðu 27 stig eða hærra á Hamilton geðlægðarkvarðanum þegar rannsókn hófst) en hann fólst ekki í því að þeim batnaði betur af þunglyndislyfjunum heldur í því að lyfleysan ein og sér hafði minni bataáhrif á þennan hóp sjúklinga. Það var einungis í hópi þessara allra veikustu sjúklinga sem munurinn á bata þeirra sem tóku lyfleysu og þeirra sem tóku virkt lyf náði yfir 3 stig á Hamiltonkvarðanum, sem eru lágmarksskilyrðin sem NICE setur fyrir því að bati teljist klínískt marktækur (nánar tiltekið mældist munurinn 4,28 stig á Hamilton-geðlægðarkvarðanum að vegnu meðaltali). [National Institute of Health and Clinical Excellence er opinber stofnun í Brelandi, með faglegt og fjárhagslegt sjálfstæði, en er líklega oft kölluð „Bresk heilbrigðisyfirvöld“ á íslensku. Klínískar leiðbeiningar Landspítala um þunglyndi og kvíða eru sniðnar eftir leiðbeiningum NICE.] Vísbendingar eru um að í sjúklingahópi í raunheimum (clinical practice) sé þessi hópur ekki stór, í fyrirlestri Kirsch í maí 2012 vitnar hann í rannsókn sem sýni að um 11% þunglyndissjúklinga sem leita lækninga mælist svo veikur.

 
Aðrir hafa endurtekið rannsóknir á borð við rannsóknir Kirsch og niðurstaðan er sú sama, þ.e. munur á virkni þunglyndislyfja og virkni lyfleysu er einungis klínískt marktækur meðal lítils hóps mjög þunglyndra. Í vægu eða meðalþungu þunglyndi mælist lækningarmáttur lyfleysu og þunglyndislyfja nánast sá sami. Má hér nefna:

*Rannsókn Turner o.fl. frá 2008 (sem voru raunar að rannsaka annað, þ.e.a.s. að hve miklu leyti birtar niðurstöður um þunglyndislyfjarannsóknir væru sérvalið jákvætt úrtak úr niðurstöðum allra rannsókna og birtu þannig skekkta mynd af raunveruleikanum);

*Yfirferð Fountoulakis og Müller 2011 yfir rannsókn og niðurstöður Kirsch sem birtust 2008 (þessir eru svarnir andstæðingar Kirsch, fengu út nánast sömu tölur í vegnu meðaltali  og Kirsch en hlakka svolítið yfir að finna út að munur milli lyfleysu og virks lyfs rétt slefar yfir 3 stig á Hamilton-geðlægðarkvarðanum þegar niðurstöður rannsókna á venlafaxine [Efexor] og paroxetine [Seroxat] eru skoðaðar sérstaklega);

*Rannsókn Fournier o.fl. 2011 sýndi enn minni mun á lyfleysu og virku lyfi en Kirsch hafði fundið út. Þeir settu strangari skilyrði en Kirsch, tóku t.d. einungis til greina tvíblindar rannsóknir sem grisjuðu ekki úr sjúklinga sem svöruðu lyfleysu í fyrstu eða annarri viku rannsóknar („washout period“ er þetta kallað, þ.e. oft er öllum þátttakendum í svona lyfjarannsóknum gefin lyfleysa í fyrstu vikunni/fyrstu tvær vikurnar og þeir sem sýna strax jákvæða svörun eru reknir úr rannsókninni) og þeir fengu öll frumgögn um einstaka þátttakendur afhent. Að uppfylltum þessum ströngu skilyrðum stóðu eftir 6 rannsóknir með 718 þátttakendum. Fournier og félagar lýsa því yfir að af því „washout“aðferðin var notuð í öllum rannsóknunum sem Kirsch skoðaði sýni niðurstöður hans minna vægi lyfleysu en það raunverulega er. Niðurstaða þeirra er nokkuð afdráttarlaus: „[Mælanlegur bati af þunglyndislyfjum] … er líklega hverfandi eða enginn hjá sjúklingum með vægt eða meðalþungt þunglyndi. Fyrir mjög veika þunglyndisjúklinga er ávinningur af lyfjum umfram lyfleysu talsverður.“
 

Víða hefur komið fram að lyfjafyrirtæki hafa valið vandlega  úr rannsóknum/rannsóknarniðustöður og birta einungis jákvæðar niðurstöður. Þunglyndislyfjarannsóknir þar sem bati af lyfleysu mælist jafnmikill og af lyfinu sem verið er að prófa eru ekki birtar opinberlega. Hinar sérvöldu rannsóknir sem birtar eru hafa svo orðið uppspretta fjölda greina geðlækna og fræðimanna sem byggja á þeim, grunlausir um aðrar rannsóknarniðurstöður í sömu lyfjaprófunum. Raunar hefur líka verið sýnt fram á að ótrúlega margir byggja umfjöllun sína á ótrúlega fáum rannsóknum. Sú mynd sem fæst af gagnsemi þunglyndislyfja með lestri fræðirita er því verulega skekkt. (Benda má á niðurstöður Turner o.fl. 2008 og grein Ioannidis 2008 sem dæmi um þennan málflutning en raunar vekja nánast allir sem skrifa gagnrýnið um þunglyndislyfjarannsóknir og lyfjafyrirtæki athygli á þessu.)
 
 
 
 

Gagnrýni eða andsvör við rannsóknarniðurstöðum sem sýna að virkni þunglyndislyfja mælist mjög lítið meiri en virkni lyfleysu
 

Kirsch hefur sætt óvæginni gagnrýni fyrir rannsóknarniðurstöður sínar, sem og sporgöngumenn hans. Í fyrri tveimur færslum mínum um rannsóknir Kirsch,  Máttur lyfleysunnar og Nýju lyfin keisarans, gerði ég grein fyrir hluta gagnrýninnar og endurtek ekki hér. Yfirlit yfir helstu atriði sem hafa verið gagnrýnd má sjá í grein Fountoulakis og Müller 2011 en þeir telja upp (og vísa í heimildir):

* Aðstæður og sjúklingahópar í slembdri klínískri prófun (randomized clinical trial) endurspegla ekki aðstæður í raunheimi;
* Í raunverulegum aðstæðum tíðkast að efla virkni þunglyndislyfja með annarri meðferð samhliða (t.d. öðrum lyfjum);
* Ýmislegt má að Hamilton-kvarðanum finna og þáttakendur í slembdum klínískum prófunum taka oft önnur lyf sem hafa mikil áhrif á sum atriði kvarðans, t.d. bensódrínlyf;
* Það er rangt að túlka lækningarmátt þunglyndislyfja eingöngu með því að skoða muninn á bata af lyfjatöku og bata af lyfleysu.

Hvað varðar síðasttöldu rökin er rökstuðningur þeirra Fountoulakis og Müller eitthvað á þessa leið:

Af því lyfleysuáhrif mælast minni hjá veikustu þunglyndissjúklingunum en áhrif þunglyndislyfja mælast jafnmikil [öllu heldur jafnlítil] hjá öllum hópum má draga þá ályktun að vænting um svörun (response expectancy) stýri lyfleysuáhrifum en ekki áhrifum þunglyndislyfja. Áhrif/verkun lyfjanna séu því sannanleg og ekki háð því hve illa haldnir þáttakendur í tilraununum eru því áhrif lyfleysunnar stafa af öðrum orsökum. Þeir bæta því svo við að gildi slembdra klínískra prófana kunni að vera vafasamt út af þessu.

Þeir sem leggja áherslu á að rannsóknarumhverfi í klínískum þunglyndislyfjarannsóknum endurspegli ekki raunveruleikann hafa til skamms tíma hampað mjög niðurstöðum úr STAR*D rannsókninni til sönnunar þess að langtímameðferð með þunglyndislyfjum, einkum með annarri lyfjagjöf, sýni góðan árangur. Þetta var risastór amerísk langtímarannsókn á raunverulegum þunglyndissjúklingum í raunumhverfi. Ef eitt þunglyndislyf virkaði ekki var bætt við fleiri meðferðarkostum, aðallega lyfjum en einnig gafst kostur á sálfræðimeðferð (aðallega hugrænni atferlismeðferð). Rannsóknin var þrepaskipt, þ.e. skoðuð voru fjögur þrep mismunandi meðferða. Lyfleysa var hvergi notuð til samanburðar. Pigott o.fl. birtu grein árið 2010 þar sem sýnt er fram á að birtum rannsóknarniðurstöðum úr STAR*D var talsvert hagrætt: Því hafði t.d. verið flaggað mjög að 67% sjúklinga hafi batnað væri árangur á öllum meðferðarþrepum lagður saman (37% batnaði af fyrsta lyfi, 19% á næsta meðferðarþrepi, 6% á því þriðja og 5% á fjórða þrepi). Þess var hins vegar ekki getið að 93% þeirra sem náðu bata af einhverri þessara fjögurra þrepaskiptu meðferð veiktust aftur innan árs eða hættu í rannsókninni. 
 

Í svari við grein Ioannidis sem birtist í 2011, eftir Davis o.fl. er tekið undir að slembdar klínískar prófanir endurspegli ekki raunveruleikann, þekking læknis á sjúklingi og sjúkrasögu hans vegi svo þungt að hann geti valið þunglyndislyf sem gagnist þótt tilraunirnar hafi ekki sýnt fram á mælanlegan árangur af þeim; að tilraunirnar nú til dags séu gerðar á fólki sem svari auglýsingum og þiggi laun fyrir, það fólk kunni að hirða bara launin sín og sleppa því að taka lyfin sem skekki niðurstöðurnar; aðrar viðurkenndar læknisaðferðir s.s. skurðlækningar eru ekki studdar tvíblindum rannsóknum og mætti allt eins beina spjótum sínum að þeim; að það hafi þrátt fyrir allt verið sýnt fram á mælanlegan mun á bata ákveðins sjúklingahóps af þunglyndislyfjum samanborið við lyfleysu sem sýni að þunglyndislyf virki.

Prozac lofsungið - fors�ða Newsweek 1990Hvað varðar meintan óheiðarleika sumra sem taka þátt í þunglyndislyfjarannsóknum tekur Peter D. Kramer í sama streng í grein sem birtist í New York Times sumarið 2011. Hann bætir ennfremur við að einhverjum þátttakendum í svona rannsókn gæti hreinlega hafa batnað af sjálfu sér sem hafi ekkert með lyfleysuáhrif að gera en skekki niðurstöður. (Kramer náði heimsfrægð með bókinni Listening to Prozac sem kom út 1993. Hann er prófessor í geðlæknisfræðum við Háskólann í Brown.)

Í yfirlýsingu Evrópsku geðlæknasamtakanna um gagnsemi þunglyndislyfja sem birt var í ár, 2012, er talsverðu púðri eytt á gagnrýni á rannsóknir Kirsch og sporgöngumanna. (Þetta plagg er raunar svo merkilegt að ég splæsi sérstakri færslu um það síðar.) Þar segir m.a. að:

* Þótt munur á lækningarmætti þunglyndislyfja og lyfleysu nái ekki að vera klínískt marktækur sé hann tölfræðilega marktækur því Kirsch hafi byggt á svo fjölmennu gagnasafni. [Kirsch útskýrir ákaflega vel hver munurinn á þessum tveimur hugtökum er í fyrirlestri sem krækt er í úr heimildalista neðst í færslunni];

* NICE skilyrðin um að klínískt marktækur munur þurfi að vera að lágmarki 3 batastig á Hamilton-geðlægðarkvarðanum eru valin af handahófi en ekki studd vísindalegum gögnum. Úr því Bandaríska matvæla- og lyfjaeftirlitsstofnunin og Evrópska lyfjaeftirlitsstofnunin hefur veitt leyfi fyrir þeim lyfjum sem ekki ná þessum lágmarksskilyrðum ætti að lækka lágmarksskilyrðin. [Í þessu sambandi má geta að Kirsch og margir fleiri hafa bent á að leyfi þessara stofnana hafa verið veitt á grundvelli sérstaks úrvals jákvæðra niðurstaðna úr fjölda rannsókna, þ.e. að þær rannsóknir sem sýndu lítinn eða engan mun á áhrifum lyfleysu og þunglyndislyfja voru ekki taldar fram – engin takmörk eru á hve margar rannsóknir lyfjafyrirtæki megi láta framkvæma og einungis þarf að sýna fram á klínískt marktækan mun í tveimur rannsóknum];

* Af ofansögðu megi draga þá ályktun að að bati sem mælist um 2 stig á Hamilton-geðlægðarkvarðanum sé raunverulega klínískt marktækur;

* Þótt vegið meðaltal sýni lítinn lækningamátt þunglyndislyfja segi slíkt ekkert um lækningarmátt fyrir vissa sjúklingahópa eða einstaklinga;

* Í raunverulegum aðstæðum er venjulega beitt samsettri meðferð við þunglyndi (í yfirlýsingunni er annars staðar eindregið mælt með samsettri lyfjagjöf fremur en annarri meðferð) og rannsóknir sem mæla virkni eins lyfs á þunglyndissjúklinga gefi því skekkta mynd af lækningarmætti þess (í yfirlýsingunni kemur annars staðar fram að einungis um 30% þunglyndra sjúklinga í raunverulegum aðstæðum hljóti einhvern bata af einu þunglyndislyfi);

* Rannsóknirnar sem Kirsch greindi voru allar skammtímarannsóknir, stóðu í hæsta lagi í 8 vikur. Aðrar rannsóknir á langtímalyfjagjöf sýna meiri mun á bata af lyfleysu og þunglyndislyfjum. Vísað er í niðurstöður einnar safnrannsóknar, framkvæmd af Geddes o.fl., sem birtust árið 2003 þessu til stuðnings. Í henni voru skoðaðar rannsóknir á fólki sem hafði sýnt svörun við þunglyndislyfjagjöf í stuttri rannsókn og skoðað hversu mikill munur væri á því hvort þeir sem héldu áfram að taka lyfin í lengri tíma og þeir sem voru látnir hætta á lyfinu og settir á lyfleysu í staðinn veiktust aftur. Að meðaltali veiktust 41% þeirra sem teknir voru af þunglyndislyfinu og gefin lyfleysa í staðinn, 18% þeirra sem héldu áfram að taka þunglyndislyf í lengri tíma veiktust.;

* Það er hvort sem er siðferðilega rangt að gefa sjúklingi lyfleysu án þess að hann viti það og gagnslaust að ávísa sjúklingi lyfleysu sem hann veit að er lyfleysa. [Kirsch hefur reyndar gert slíka tilraun sem skilaði mælanlegum bata, sjá fyrirlestur hans í heimildaskrá.] Þ.a.l. sé ekki annar kostur en treysta á lyf en ekki lyfleysu í raunverulegum aðstæðum.
 

Niðurstaðan er sú að það er óumdeilt að í þunglyndislyfjatilraunum mælist sáralítill munur á lækningarmætti lyfleysu og lyfja. Helst mælist munur hjá fárveikum þunglyndissjúklingum vegna þess að lyfleysa virkar síður á þann sjúklingahóp. Menn greinir hins vegar á um hvernig beri að túlka þessar niðurstöður og af hverju þær kunni að stafa.
 

Næsta færsla fjallar um aukaverkanir og möguleg skaðleg áhrif sem þunglyndislyf geta haft. Svo helga ég yfirlýsingu Evrópsku geðlæknasamtanna um þunglyndislyf eina færslu.
 

Efri myndin í þessari færslu er af forsíðu Newsweek 8. febrúar 2010. Neðri myndin er af forsíðu sama tímarits 26. mars 1990.
 
 
 

Heimildir
 

Davis o.fl. 2011. Should We Treat Depression with drugs or psychological interventions? A Reply to Ioannidis. Philosophy, Ethics, and Humanities in Medicine 2011, 6:8.

Fountoulakis og Möller. 2011. Efficacy of antidepressants: a re-analysis and re-interpretation of the Kirsch data. The International Journal of Neuropsychopharmacology 14:3 s. 405-12.
Mjög svipaða grein eftir þá tvo má finna undir heitinu Antidepressant drugs and the response in the placebo group: the real problem lies in our understanding of the issue í Journal of  Psychopharmacology 2012 26:744.

Fournier o.fl.2010.  Antidepressant Drug Effects and Depression Severity. A Patient-Level Meta-analysis. The Journal of American Medical Association (JAMA) 2010;303(1).

Geddes o.fl. Relapse prevention with antidepressant drug treatment in depressive disorders: a systematic review. The Lancet 22. febrúar 2003.

Ioannidis. 2008. Effectiveness of antidepressants: an evidence myth constructed from a thousand randomized trials? Philosophy, Ethics, and Humanities in Medicine 2008, 3:14.

Kirsch. 2012.  Placebo Therapy as an Ethical Alternative, fyrirlestur með glærum fluttur á þingi The Consortium of Academic Health Centers for Integrative Medicine þann 16. maí 2012.

Kirsch. 2011. Antidepressants and the Placebo Response í De-Medicalizing Misery. Psychiatry, Psychology and the Human Condition, s. 187-196. Palgrave Macmillan.

Kirsch. 2010. The Emeror’s New Drugs. Basic Books New York. [Kom fyrst út 2009.]

Kirsch o.fl. 2008. Initial Severity and Antidepressant Benefits: A Meta-Analysis of Data Submitted to the Food and Drug Administration. Febrúarhefti PLOS Medicine 2008.

Kirsch o.fl. 2002. The Emperor’s New Drugs: An Analysis of Antidepressant Medication Data Submitted to the US Food and Drug Administration. Prevention & Treatment, 5. árg. 2002 s. 1522-1534.

Kramer, Peter D. 2011. In Defense of Antidepressants. New York Times 9. júlí 2011.

Möller o.fl. 2012. Position statement of the European Psychiatric Association (EPA) on the value of antidepressants in the treatment of unipolar depression. European Psychiatry 27:2 s, 114–128

Pigott o.fl. 2010. Efficacy and Effectiveness of  Antidepressants: Current Status of  ResearchPsychotherapy and  Psychosomatics 2010;79 s. 267–279.

Turner o.fl. 2008. Selective Publication of Antidepressant Trials and Its Influence on Apparent Efficacy. The New England Journal of Medicine 2008; 358:252-260.
Fylgiskjal greinarinnar með tölfræðilegum upplýsingum er hér.
 
 
 
 

Virka þunglyndislyf?

Einfalda svarið við þessari spurningu er já. En þá er litið framhjá þeirri staðreynd að þunglyndislyf virðast virka lítið betur en lyfleysa; að þau eru reist á tilgátum en ekki vísindalegum grunni; að þau kunni að valda meiri skaða en gagni o.m.fl.

Þunglyndislyf og meint ójafnvægi í heila sem þau eiga að leiðrétta

Með þunglyndislyfjum á ég við það sem engilsaxneskir kalla „anti-depressants“. Í meginatriðum má skipta slíkum lyfjum í þrjá lyfjaflokka: Þríhringlaga lyf, MAO-blokka og SSRI-lyf. Nokkur lyf falla utan þessara flokka. Öll eiga lyfin það sammerkt að virka á boðefnakerfi í heila og byggja á þeirri tilgátu að eitthvað sé bogið við boðefnaskipti í heila þunglyndra. Sú tilgáta verður æ ósennilegri eftir því sem rannsóknaraðferðum fleygir fram. Á hinn bóginn er henni ennþá haldið mjög að þunglyndissjúklingum og aðstandendum þeirra. Má t.d. nefna lyfjaupplýsingar á vef Lyfjastofnunar sem flagga þessari tilgátu mjög. Svo nefnd séu nokkur mismunandi gömul dæmi (feitletranir eru mínar):
 

SEROXAT er í flokki lyfja sem nefnd eru sérhæfðir serótónín-endurupptökuhemlar (SSRI – selective  serotonine reuptake inhibitors). Í heilanum er efni sem nefnist serótónín. Hjá fólki sem er þunglynt eða kvíðið er minna serótónín en hjá öðrum. Ekki er að fullu ljóst hvernig SEROXAT og önnur lyf í sama  flokki verka en það getur verið að þau hjálpi með því að auka magn serótóníns í heilanum. Mikilvægt er að fá viðeigandi meðferð gegn þunglyndi og kvíðaröskunum til þess að ná bata.
(Úr fylgiseðli með Seroxat, algengu SSRI-lyfi.)

 
Cipralex tilheyrir flokki þunglyndislyfja sem er kallaður er sértækir serótónín endurupptökuhemlar (SSRI lyf). Þessi lyf verka á serótónín kerfið í heilanum með því að auka magn serótóníns. Truflun á serótónín kerfinu er talin mikilvægur þáttur í myndun þunglyndis og skyldra sjúkdóma.
(Úr fylgiseðli með Cipralex, algengu SSRI-lyfi.)
 

Anafranil/Anafranil Retard eykur virkni í ákveðnu svæði heilans sem hefur áhrif á einkenni þunglyndis.
(Úr fylgiseðli með Anafranil, þríhringlaga þunglyndislyfi.)
 

Aurorix er lyf til meðferðar við þunglyndi og félagslegri fælni. Aurorix tilheyrir flokki MAO-hemla. Aurorix stuðlar að því að leiðrétta það ójafnvægi í heilastarfsemi sem veldur einkennunum.
(Úr fylgiseðli með Aurorix, MAO-blokka.)
 

Lyf gegn þunglyndi hækka geðslag og vinna gegn depurð. Þau hafa einnig góð áhrif á kvíða. Lyfin hafa mjög sérhæf áhrif á svæðum djúpt í heilanum. Þar virka þau á efnaskipti í seratónín- og noradrenalínkerfum en það eru boðkerfi sem stjórna ýmsum störfum þess hluta taugakerfisins sem ekki er undir stjórn vilja og meðvitundar svo sem svefni, geðslagi og kvíða.
(Ólafur Þór Ævarsson geðlæknir. Þunglyndi. Leiðbeiningar fyrir sjúklinga og aðstandendur, s. 6. Útgefandi Actavis. Útgáfuárs er ekki getið en ætla má að bæklingurinn hafi komið út árið 2005.)  Ég hef séð þennan bækling á biðstofu göngudeildar/bráðamóttöku geðsviðs á Landspítalanum og að mig minnir á biðstofu á heilsugæslustöðinni í mínum heimabæ svo ég reikna með að honum hafi verið dreift víða.
 

Mikill fjöldi rannsókna bendir til að líffræðilegir þættir eigi sinn þátt í þróun þunglyndis. Sumar rannsóknir hafa bent til ójafnvægis eða skorts á ákveðnum boðefnum í heila, enda hafa flest þunglyndislyf áhrif á virkni þessara boðefna (serótónín og noradrenalín).
(Rúnar Helgi Andrason og Engilbert Sigurðsson. „Af hverju stafar þunglyndi?“ Vísindavefurinn 7.12.2000.)

 

 Hversu líklegt er að þunglyndi stafi af boðefnaójafnvægi í heila?

Í upphafi er rétt að hafa í huga að menn uppgötvuðu ekki meint boðaefnaójafnvægi í heila fyrst og hönnuðu lyfin með hliðsjón af því: Það var nefnilega öfugt! Af slembilukku duttu menn ofan á lyf sem virtust bæta geðslag sjúklinga, berklasjúklinga sem batnaði raunar alls ekki berklarnir en virtust meir með hýrri há af þessi lyfi. Þetta var undanfari fyrstu þríhringlaga geðlyfjanna og fyrsti MAO-blokkinn leit skömmu síðar dagsins ljós. Lyfin voru uppgötvuð laust eftir 1950. Áður höfðu menn reynt að lækna þunglyndi með sefandi lyfjum (t.d. ópíumskyldum lyfjum og brómíði) eða örvandi lyfjum (t.d. amfetamíni).

Þegar menn töldu sig hafa sannreynt að þessi lyf bættu geðslag án þess að vera verulega sefandi eða verulega örvandi fóru þeir að reyna átta sig á því af hverju það væri. Og til varð kenningin um ójafnvægi í mónóamín-kerfi heilans (the monoamine hyptheses). Því miður hefur mér ekki tekist að hafa upp á íslensku orði yfir mónóamín. Mónóamín-taugaboðefni eru mörg en menn hafa sérstakan áhuga á serótóníni, noradrenalíni og dópamíni í þessari mónóamín-kenningu um orsakir þunglyndis. (Upphaflega voru menn aðallega uppteknir af noradrenalíni, svo færðist meginþunginn á serótónín, núna njóta pælingar um þátt melantóníns í þunglyndi töluverðra vinsælda þannig að áherslan sveiflast nokkuð í tímans rás.)

Hér á eftir fylgir afar einfölduð útskýring á taugaboðefnum heilans, að mestu soðin saman úr bókinni Unhinged, s. 75-76, eftir Daniel Carlat og upplýsingum á Vísindavef (sjá heimildalista neðst – þar er og vísað í efni sem útskýrir þetta miklu nákvæmar). Því miður hef ég hvergi fundið sæmilega skiljanlega lýsingu á boðefnakerfinu og virkni þunglyndislyfja á það á íslensku eftir geðlækni og fagna ábendingu ef hún skyldi vera til og hafa farið framhjá mér.

Heilinn er gerður úr óteljandi taugafrumum. Taugafrumur hafa samskipti með taugaboðum, þ.e. raffræðilegum og efnafræðilegum boðum. Taugaboðefni eru t.d. serótónín, noradrenalín og dópamín. Taugaboðefni fara úr einni taugafrumu yfir í aðra um taugamót og tengjast þar sérhæfðum viðtökum. Líkja má boðefnunum við lykla og viðtökunum við lása; aðeins sum boðefni „ganga að“ tiltekinni gerð viðtaka. Serótónín gengur bara að seróntónín-viðtaka, noradrenalín bara að noradrenalín-viðtaka  o.s.fr.

Þegar boðefni hefur hitt á sinn viðtaka verður dramatísk breyting á taugafrumunni, kallað boðspenna.  Boðspennan berst eftir taugafrumunni, efnaferli fara í gang og taugafruman sendir frá sér taugaboðefni sem lenda í sínum viðtökum í næstu taugafrumu o.s.fr.

Af því taugaboðefni eru svo mikilvæg fyrir alla heila- og líkamsstarfsemi gætir heilinn þess að eiga nóg af þeim; sífellt eru framleidd fersk boðefni úr mólekúlum í vökvasúpu heilans. En jafnframt eru boðefni endurnýtt, notuð boðefni eru sífellt soguð upp af sérstökum upptökurum/upptökudælum.

SSRI lyf byggja á þeirri tilgátu að of lítið serótónín sé í heilanum. Þau lyf blokka serótónín-upptakara sem verður til þess að serótónín-boðefnið helst lengur í taugamótum og serótónín-magnið í heilanum hækkar þar af leiðandi. SNRI-lyf (t.d. Efexor og Cymbalta) virka á tvo boðefnaupptakara og blokka endurupptöku seróntóníns og  noradrenalíns. Þríhringlaga lyfin gömlu hemluðu sömu boðefnaupptakara og sum (t.d. Anafranil) dópamínupptakara að auki. MAO-lyfin blokka ensím sem stuðla að niðurbroti taugaboðefna í heilanum svo áhrifin eru þau sömu: Magn taugaboðefna í heila eykst.
 
 

Serótón�n ójafnvægiMenn vita sem sagt nokkurn veginn hvað lyfin gera. En tilgátan um að þunglyndi stafi af of litlu magni af ákveðnum boðefnum í heila var sett fram eftir að ljóst var að lyf, sem menn héldu/halda að virki á þunglyndi, auka magn þessara boðefna. Þetta er öfug sönnunarfærsla þar sem niðurstaðan er talin gefa forsendurnar.

Þrátt fyrir urmul af alls konar rannsóknum hefur ekki tekist að sýna fram á að það sé einhver sérstakur serótónín eða noradrenalín skortur í heilum þunglyndra. Megnið af serótóníni líkamans er að finna í meltingarveginum en ekki í heilanum. Það er engin möguleg leið til að mæla serótónín í heila lifandi manns. Menn hafa gert tilraunir með að mæla serótónín í mænuvökva en magnið mælist tilviljanakennt eftir einstaklingum, ekki eftir þunglyndi og fullkomnu geðheilbrigði. Menn hafa reynt að mæla serótónín í heila dáinna þunglyndissjúklinga (sjálfsmyrtir þar vinsælastir) og heilbrigðra til samanburðar en engar haldbærar niðurstöður hafa fengist úr svoleiðis; niðurstöður stangast á. Tilgátan stenst enn verr þegar haft er í huga að margt bendir til að þríhringlaga þunglyndislyf (t.d. Anafranil) minnki magn noradrenalíns í heila og ætti þ.a.l. að valda auknu þunglyndi ef tilgátan stæðist.

Æ fleiri fræðimenn í geðlækningum hafa því dregið þessa einföldu tilgátuskýringu til baka þrátt fyrir að henni sé áfram flaggað óspart í fylgiseðlum lyfja og af íslenskum læknum við sína sjúklinga, eftir því sem ég best veit. Hér eru nefnd tvö dæmi:
 

  • Vaishnav Krishnan og Eric J. Nestler komast að þeirri niðurstöðu í greininni Linking Molecules to Mood: New Insight Into the Biology of Depression, í American Journal of Psychiatry nóvember 2010 167(11): 1305–1320 að eftir meir en áratugs heilamyndarannsóknir, rannsóknir á áhrifum skerðingar mónóamíða og erfðafræðirannsóknir sé fátt sem bendi til að skortur á boðefnunum serótóníni, noradrenalíni eða dópamíni einn og sér skipti máli í meinalífeðlisfræði þunglyndis. Svo öllu sé til haga haldið telja þeir samt að nútíma þunglyndislyf virki til bóta en verkunarmáttur þeirra sé mönnum ennþá illskiljanlegur.

Af því kenningin um að einfaldur boðefnaskortur í heila valdi þunglyndi heldur ekki vatni reyna menn nú að stoppa í götin og útfæra kenninguna svo eitthvert vit sýnist í henni (sem felst aðallega í því að gera hana flóknari). Má í þessu sambandi vísa í alþýðlega grein Siddartha Mukherjee, Post-Prozac Nation. The Science and History of Treating Depression, sem birtist í New York Times 19. apríl 2012. Hann líkir verkun þunglyndislyfja við verkun aspríns á hjartaáfall: Orsakir hjartaáfalls geta verið margvíslegar, t.d. viðvarandi hár blóðþrýstingur eða of hátt kólestról eða reykingar en asprín sé í öllum tilvikum öflug meðferð því burtséð frá orsökunum einkennist hjartaáfall ævinlega af stíflu í æð sem hindri eðlilegt blóðflæði til hjartans. Orsakir djúprar geðlægðar eru mönnum ókunnar en kannski skipti serótónín álíka máli til að ráða niðurlögum hennar og asprín við hjartaáfalli þótt ekki hafi verið sýnt fram á að magn serótóníns í heilum þunglyndra sé öðruvísi en í heilum heilbrigðra. Seinni hluti greinarinnar fer svo í vangaveltur um tilraunir manna til að komast að því hvar í heilanum upptök þunglyndis kann að vera að finna og hvernig þær vangaveltur passi við meint mikilvægi serótóníns.

Í bókinni Unhinged (s. 79) vitnar David Carlat í taugalækninn Dost Ongür sem reynir að útskýra af hverju hömlun á endurupptöku dópamíns bætir heilsu geðklofasjúklinga þótt skortur á dópamíni valdi ekki geðklofa með þessari samlíkingu:
 

Ímyndaðu þér að þú sért staddur í herbergi þar sem er alltof heitt vegna þess að eldur logar glatt í arni. Ef þú sérð ekki arininn veistu ekki af hverju er svona heitt í herberginu. Þegar þú opnar glugga kólnar og þú kannt að segja við sjálfan þig: „Orsök mollunnar í herberginu er glugginn.“  En auðvitað veldur arineldurinn hitanum og það að opna gluggann gefur einungis tímabundna fró.
 

Þessa samsvörunarskýringu mætti auðveldlega heimfæra upp á virkni þunglyndislyfja, að því gefnu að þau virki á þunglyndi en um það eru skiptar skoðanir sem ég geri grein fyrir í næstu færslu. Ég hef prófað lyfin sem ég taldi upp í upphafi (fyrir utan MAO-blokkann en ég prófaði annan MAO-blokka). Ekkert þeirra virkaði vitund á þunglyndi mitt. Ég held samt að miðað við önnur lyf sem mér hafa verið gefin undanfarinn rúman áratug (geðklofalyf, geðhvarfasýkilyf, geðrofslyf, flogaveikilyf, taugalyf, róandi lyf, örvandi lyf og svefnlyf) hafi þessi lyf verið tiltölulega meinlaus og því forsvaranlegt að prófa þau á sínum tíma – undanskil þó MAO-blokkann Marplan en skaði af þeirri tilraun var umtalsverður fyrir mig.

 
 
 
 Ég hef haft gagn af því að lesa eftirtalið um boðefnakerfi heilans, boðefnaóstands-hugarsmíðina og verkun þunglyndislyfja, auk þeirra heimilda sem vísað er í úr færslunni:

1. Hluti – heilinn og helstu taugafræðilegu atriði í Kynning með glærunum á vef Lýðheilsustöðvar.

Andrews o.fl.  Primum Non Nocere: An Evolutionary Analysis of Whether Antidepressants Do More Harm than Good í Frontiers of  Psychology 2012;3.

Heiða María Sigurðardóttir. „Hvað eru taugaboð og hvernig verka þau?Vísindavefurinn 15.11.2005.

Moncrieff, Joanna. The Myth of the Chemical Cure. A Critique of Psychiatric Drug Treatment. 2008.

Steindór J. Erlingsson. Liggur geðið í líffræðinni? í Glímir geðlæknisfræðin við hugmyndafræðilega kreppu? Um vísindi og hagsmuni, sem birtist í Tímariti félagsráðgjafa 1. tbl. 5. árg. 2011.

Þuríður Þorbjarnardóttir. „Hver er munurinn á taugahormóni og taugaboðefni?Vísindavefurinn 16.9.2009.

Þuríður Þorbjarnardóttir. „Hvernig starfar boðskiptakerfi líkamans?Vísindavefurinn 14.10.2003.
 
 
 

Prjónið og fagorðin

Elstu ritheimildir um prjón hér á landi er að finna í skjölum Guðbrands biskups Þorlákssonar á Hólum. Þar segir:

af landskylldum giort j Suarf(ad)ardals vmbodum med Vrda jordum og Socku. anno 1582 j fardogum. burt golldit j kaupgiolld og skullder. [- – -] prioonasaumur 22 paur.

og

[- – -] a Vrdum Domnicia 2a post epi(phaniam) anno 1583 [- – -] a eg nü þar von ae af tijundarvadmalum xx alnum. jitem j vor ad kom v voder og vij alner. jitem prionasaumur lxxx og xvj pör.

(Bréfabók Guðbrands byskups Þorvaldssonar, s. 227-228)

Árið 1581 bókar Guðbrandur biskup að upp í landskuld af Gardzhorni hafi verið goldið m.a. með „vj paur socka“ (Bréfabók G. s. 195) og minnist á „íííj paur so(k)ka“ í öðru skjali (Bréfabók G. s. 218). Það má því ætla að prjónasaumurinn sem hann nefnir 1582 hafi verið prjónaðir sokkar.

Orðið prjónasaumur var svo notað áfram yfir prjónaðar flíkur, allt fram á 20. öld, skv. dæmum Ritmálssafns (Orðabókar Háskóla Íslands) en frá miðri 17. öld hefur þekkst orðið prjónles og hefur það á síðari öldum orðið ofan á.

Orðið prjónaður kemur líka fyrst fyrir í efni tengt Guðbrandi biskupi, þ.e. í Guðbrandsbiblíu, Jóhannesarguðspjalli 19:24,  þar sem segir um kyrtil Jesú: „Enn kyrtillin[n] var eigi saumaðr / helldr fra ofan verdu allr prionadr.“ Í ofurlítið yngri heimild segir um sama kyrtil: „hann [kyrtillinn] var ecke saumadur helldur prionadur.“ (Passio, þýdd bók eftir Lúther, gefin út á Hólum árið 1600, s. 208.)

Orðið prjónn var þekkt í íslensku frá fornu fari og líklega merkti það síll/sýll eða alur, a.m.k. oddmjótt hvasst verkfæri. Í Sturlungu er nefndur Ögmundur nokkur sem hafði viðurnefnið prjónn. „[…] lat brenna allann [fjárhlut] sva ath konungr hafi hvorki af prionn ne pening“ segir Valgautur jarl í Ólafs sögu hins helga; “alin [er] kambur og prionn og nal” segir í lista yfir verðgildi í handriti af Búalögum, líklega frá 1550. Í Íslenskri orðsifjabók segir að uppruni orðsins sé umdeildur; sumir telji það fornt tökuorð úr fornslavnesku, prionu, sem sé sama orðið og prion[i] í grísku og merki sög eða bor. Aðrir haldi að orðið sé af germönskum toga, upphaflega rótin hafi verið *preu-, sem þýði stinga eða ota. Í sömu heimild segir að ólíklegt sé að íslenska orðið prjónn sé tökuorð úr fornensku, fornenska (og miðenska) orðið var preon, en það er ekki rökstutt nánar. Cleasby og Vigfússon halda því hins vegar fram að íslenska orðið prjónn samsvari gelíska orðinu prine og skoska orðinu prin. Í miðensku var til orðið preon, sem þýddi prjónn, og mögulega sögnin preonen (dæmin sem tekin eru í A Middle English Dictionary eftir Stratman um þessa sögn sýna ekki afdráttarlaust að hún hafi þýtt að prjóna þótt höfundur orðabókarinnar staðhæfi það). Í Hjaltlandseyja-Norn var til nafnorðið prin, sem þýddi alur eða stór títuprjónn. Jakob Jakobsen telur að þetta sé sama orðið og íslenska orðið prjónn. Í færeysku er til orðið prónur (eldra preunur) sem þýðir stór títuprjónn eða prjónn og rekja má þetta orð víðar.

Í Guðbrandsbiblíu sést mætavel að orðið prjónn hefur á dögum Guðbrands ennþá verið samheiti við al eða sýl þótt Íslendingar hafi þá tileinkað sér tæknina að prjóna og líklegt er að sögnin sé mynduð með hliðsjón af verkfærunum, prjónum: „… tak einn Prion / og stijng i giegnum hans Eyra“ (5. Mósebók 15:17) – í nútímaþýðingu er klausan: „…  þá skaltu taka al og stinga honum í gegnum eyrnasnepil hans.“ Annars staðar í Guðbrandsbiblíu stendur: „… og stinga i giegnum hanns Eyra med Al“ (2. Mósebók 21:6) – nútímaþýðingin er: „[Síðan skal húsbóndi hans] stinga al í gegnum eyra hans.“

PjonaDanski málfræðingurinn Inge Lise Pedersen telur að norska sögnin pjåna eða pjaodna sé upphaflega sama sögn og sú íslenska, prjóna.  Hún vitnar í Ross [sem hlýtur að vera Hans Ross orðabókarhöfundur, f. 1833, en heimildar er að öðru leyti ekki getið] sem skýri sögnina „hekle ell. strikke paa en egen maade“. Orðið var algengast á Hörðalandi. Nú á dögum er norska nafnorðið pjoning notað um ákveðið hekl, stundum kallað bosnískt hekl (shepherd’s knitting á ensku), sem er eiginlega bara heklaðar fastalykkjur. Hekl er hins vegar miklu yngri tækni á Norðurlöndunum en prjón. Inge Lise Pedersen rökstyður að pjåna hljóti að hafa upphaflega átt við nálbragð. (Rökstuðning fyrir hinu sama má sjá í grein Margarete Morset, Hårnål eller heklenål? í tímaritinu Spor 1987.) Af því að orð geti færst af einni tækni yfir á aðra geri það mönnum erfiðara fyrir að að meta hvort upplýsingar [Ross] um að pjåna hafi þýtt prjóna sé misskilningur eða að sú merking hafi verið til en sé nú týnd, segir Pedersen. Hún getur sér síðan til að pjåna hafi áður verið notað um ákv. tvíbandaprjón, kallað tvåäandstickning nú, og enn eldri notkun sé nálbragð. Loks stingur hún upp á að Norðmenn hafi haft orðið í farteskinu þegar þeir námu land á Íslandi og jafnvel mætti halda því fram að orðið pjåna (nú pjona) sé nú eitt af örfáum íslenskum tökuorðum í norsku. Satt best að segja skil ég ekki alveg hvernig hún hugsar síðastnefndu fullyrðinguna en vel að merkja segir Pedersen sjálf að hún sé „kættersk tanke“ (villutrúarhugmynd)!  Fyrir um ári síðan bar ég þessi líkindi með pjone og prjóna undir málfræðinginn Guðrúnu Kvaran en hún taldi ekki vera tengsl milli þessara tveggja orða. Myndin er af pjoning-nál og pjonuðu stykki.
 

Til að draga þetta saman má segja að nokkuð öruggt sé að íslenska orðið prjónn hafi verið til, í annarri merkingu þó, þegar Íslendingar lærðu að prjóna. Það að dregin sé sögn af þessum verkfærum (prjónum) hafa sumir viljað tengja við Englendinga, því líkt orð þekktist um verkfærið prjón á ensku, og notað sem rök fyrir að Íslendingar hafi lært að prjóna af enskum sjómönnum. En af því orðið má rekja víðar eru þetta ekki sérlega góð rök fyrir þeirri tilgátu, allt eins líklegt er að Íslendingar hafi lært þessa tækni af hollenskum eða þýskum. Mögulegt er að eitthvert orð hafi verið til í íslensku yfir nálbragð sem líktist sögninni prjóna en um það er ekkert vitað. (Kristján Eldjárn stakk á sínum tíma upp á orðinu nálbragð og mér vitanlega er ekki varðveitt neitt gamalt íslenskt orð yfir þá tækni.)
 

Gömul prjónaorð á hinum Norðurlöndunum
 

  • Binde var algengasta sögnin fyrir prjóna í Danmörku. Það er reyndar líka þekkt í eistlandssænsku, sums staðar í Noregi og í Færeyjum. Enn þann dag í dag binda Færeyingar og nota til þess stokka (orðið yfir prjóna).
  • Knytte var notað í Danmörku og Skáni og Hallandi í Svíþjóð. Í Slésvík var orðið notað yfir h-prjón, þ.e.a.s. þegar menn prjónuðu líkt og Englendingar gera ennþá, kasta þræðinum yfir með vísifingri á hægri hönd, en á Mið-Sjálandi var knytte aðallega notað um v-prjón, þ.e.a.s. prjónaðferð þá sem  Norðurlandabúar nota flestir í dag þar sem garnið hvílir á vísifingri vinstri handar.
  • Lænke var einungis notað í Danmörku, á Lollandi, Falstri, Vestmøn og Suður-Jótlandi.
  • Pregle er lágþýskt tökuorð og var notað syðst á Jótlandi.
  • Pinde var notað á afmörkuðu svæði á Vestur-Jótlandi.
  • Spete þekktist í Borgundarhólmi og á Suður-Skáni.
  • Sy var notað sums staðar í Smálöndum og Austgotalandi.
  • Sömma þekktist víða annars staðar í Svíþjóð yfir prjóna.
  • Sticka er gamalt orð  í mjög mörgum sænskum mállýskum. Sticka getur líka þýtt sauma. Svíar sticka nú á dögum þegar þeir prjóna.
  • Strikke / stricke var notað í Danmörku og Svíþjóð. Orðið kemur fyrir í ýmsum myndum, t.d. þekkjast strick-, strix, strigstrømper í  dönskum textum frá 17. öld. Strikke er nútíma danska og norska sögnin yfir prjóna.
  • Spita (og spyte) var algengt víða í Noregi. Sums staðar var notað orðmyndin spøte.

Að mati Inge Lise Pedersen má skipta norrænum orðunum sem þýða prjóna nokkurn veginn í þrjá flokka:

Flokkur orða sem lýsir því hvað gert er við garnið; binde, knytte, lænke, strikke þýða í raun öll að hnýta saman þráð í hnúta eða lykkjur;
Flokkur orða sem lýsir því hvað gert er með prjónunum; pinde, pregle, prjóna, spøte (og sticka?) lýsa því að prjónum er stungið í lykkjur til búa til nýjar lykkjur;
Flokkur orða sem eru fengin að láni úr annarri hannyrðahefð; sy, sömma (og sticka?).
 
 
 

Heimildir:

Ásgeir Blöndal Magnússon. Íslensk orðsifjabók. Orðabók Háskólans 1989.
Bréfabók Guðbrands byskups Þorvaldssonar birt af Hinu Íslenzka Bókmenntafélagi 1919-1940. Páll Eggert Ólason sá um þessa útgáfu.
Cleasby, Richard og Guðbrandur Vigfússon. 1874. An Icelandic-English Dictionary.
Ritmálssafn Orðabókar Háskólans
Føroysk orðabók. Føroya Fróðskaparfélag 1998.
Guðbrandsbiblía (Biblía. Þad Er Øll Heilóg Ritning vtlógd a Norrænu.) útg. 1584.
Jakobsen, Jakob. Etymologisk ordbog over det norrøne sprog på Shetland. Útg. 1921.
Jón  Hilmar Magnússon. Íslensk færeysk orðabók. Útg.  2005
Luther, Martin. Passio. Þad er Historian Pijnunnar og Daudans vors Frelsara Iesu Christi. Útg. 1600.
Morset, Margarete. Hårnål eller heklenål?  Spor – fortidsnyt fra midt-norge. 1987, 2. árg. 4. hefti s. 8-9.
Orðabók Árnanefndar: Ordbog over det norrøne prosasprog. Árnastofnun í Kaupmannahöfn og Kaupmannahafnarháskóli.
Pedersen, Inger [svo] Lise. Binde, pregle, spita, sticka, sy. Udkast til en kortlægning af nordisk strikketerminologi. Nordiska Studiar. Innlegg på den tredje nordiske dialektologkonferansen, s. 303- 325. Útg. 1988 (en ráðstefnan var haldin 1986).
Svabo, J. C. Dictionarium Færeoense. Færøsk – dansk – latinsk ordbog. Útg. 1966
Stratmann, Francis Henry og Henry Bradley. A Middle-English Dictionary. Útg. 1891.