Category Archives: Rafbækur

Rugl um rafbækur

Titillinn “Rugl bókaútgefanda og framkvæmdarstjóra Rithöfundasambandsins” er of langur en það er umfjöllunarefni færslunnar.

 

Í gær var haft eftir Kristjáni B. Jónassyni, útgefanda hjá Crymogeu: “Það er alltof dýrt að gefa út rafbækur fyrir markað sem hefur í raun engan áhuga á þeim enn sem komið er.” (Fáar nýjar rafbækur um jólin. Morgunblaðið 8. nóv. 2013, s. 9.) Hvernig Kristján þessi veit að “markaðurinn” hafi engan áhuga á rafbókum er ofar mínum skilningi: Hefur hann kannað þetta? Vissulega er lítil sala í íslenskum rafbókum en augljósustu skýringarnar á því eru tvær:

1. Það eru afskaplega fáar íslenskar bækur gefnar út á rafbókaformi;

2. Í mörgum tilvikum er rafbókaútgáfu á Íslandi svo háttað að það er verulegt vesen að lesa þær, jafnvel ómögulegt.

 

Íslenskir bókaútgefendur eru svo þjófhræddir að jaðrar við þráhyggju þegar kemur að rafbókum. Þeir virðast ímynda sér að sé bók aðgengileg á tölvutæku formi muni henni dreift ólöglega skefjalaust og enginn maður kaupa hana. Þess vegna er allt kapp lagt á að gera rafbækur svo þjófheldar að þær eru jafnvel ólesanlegar með öllu – og svo dregin sú ályktun að “markaðurinn” hafi ekki áhuga á þeim. Líklega er það rétt ályktun, t.d. hefði ég (er ég markaður?) ekki áhuga á að kaupa mér reiðhjól sem væri það vel læst að ég gæti alls ekki hjólað á því eða vellæsta þvottavél sem ekki væri hægt að þvo í o.s.fr. Verulega þjófhræddir reiðhjólasalar og þvottavélasalar myndu svo draga þá ályktun að markaðurinn hefði ekki áhuga á þessum tækjum.

 

Í mínum kunningjahópi heyrði ég um daginn af viðskiptum við íslenska bókabúð: Viðkomandi keypti enska rafbók hjá þessari búð en gat alls ekki opnað skrána. Eftir að hafa fengið “lagaða skrá” senda nokkrum sinnum, án þess að geta opnað hana í sínu spjaldi gafst viðkomandi upp, keypti sömu bókina hjá Amazon og las þá útgáfu án vandkvæða. Ég reikna ekki með að þessi kúnni verði áhugasamur markaður í skilningi íslenskra bókaútgefenda á rafbókaútgáfu á Íslandi.

 

Í Morgunblaðinu í dag (Tvær rafbókaveitur væntanlegar, 9. nóv. 2013, s. 19) er enn meira rugl þjófhræddra hagsmunaaðila bókaútgáfu að finna. Steininn tekur úr í ummælum Ragnheiðar Tryggvadóttur, framkvæmdastjóra Rithöfundasambandsins, sem segir:

‘“Við þurfum að vanda okkur. Passa að efnið flæði ekki óheft, þá erum við búin að tapa baráttunni,” segir Ragnheiður. Í þessu samhengi vísar hún til Svíþjóðar þar sem rafbækur voru lánaðar út á bókasöfnum sem ekki voru afritunarvarðar. Eftir það seldist ekki rafbók.’

 

Ég hef skipt við sænskt rafbókasafn í 2-3 ár, í gegnum bóksafn Norræna hússins. Á sama árabili hef ég keypt svolítið af sænskum rafbókum gegnum dito.se og sé ekki betur en úrvalið þar sé ágætt. Á ég að álykta, af orðum Ragnheiðar, að einu kúnnarnir séu utan Svíþjóðar og að dito.se riggi upp tíu nýjum titlum á viku bara fyrir mig og örfáa aðra útlendinga sem kaupi sænskar rafbækur? Af því rafbækur seljast ekki í Svíþjóð af því bókasöfn þarlendis lána út rafbækur?

Æ fleiri dönsk bókasöfn lána rafbækur (því miður hafa Íslendingar ekki aðgang að þeim). Dönskum rafbókaverslunum fjölgar stöðugt á sama tíma, þetta veit ég því ég skipti reglulega við a.m.k. fjórar þeirra. Nýverið jók bog.nu við þjónustuna með því að birta verðsamanburð á rafbókum einnig svo það er handhægt og fljótlegt að finna út hvar hver rafbók er ódýrust.

Ég les í Kindli og þarf oftast að umbreyta skrám sem ég kaupi eða fæ lánaðar í Skandinavíu (frændur vorir eru enn á epub-stiginu, alveg eins og íslenskir bókaútgefendur). En það er æ fátíðara að skrárnar séu læstar (með DRM-vörn), núorðið láta flestir skandinavískir bókaútgefendur duga að vatnsmerkja eintökin svo þau séu rekjanleg til kaupanda ef þau skyldu dúkka upp á torrent-síðum. (Og í þessu samband má einnig geta þess að það er sárasjaldgæft að rekast á rafbók á skandinavísku máli á svoleiðis síðum svo vilji brotamanna á þessu sviði er ekki í samræmi við þjófhræðslu íslenskra bókaútgefenda og framkvæmdastjóra Rithöfundasambandsins.)

Mér finnst, sem íslenskufræðingi, frekar leiðinlegt að ég skuli lesa æ minna á íslensku. Á þessu heimili eru líklega til hátt í 1000 bækur á pappír og við hjónin eru sammála um að eignast frekar bækur í okkar Kindla, bæði til að grynna á bókaflóðinu og vegna þess að það er miklu þægilegra að lesa í Kindli en á pappír (þótt ekki væri nema til að stækka letrið … á kvöldin þegar ellifjarsýnin gerir vart við sig). Viðhorf íslenskra bókaútgefenda og forsvarsmanns Rithöfundasambandins benda til þess að innan fárra ára lesi ég ekkert á íslensku nema kannski mogga mannsins sem dettur inn um bréfalúgu heimilisins oft í viku.

 

 

 

 

 

Vörn Jakobs og Frjálsar hendur

Það mundi æra óstöðugan ef ég færi að skrifa um allan þann morðlitteratúr sem ég hef lesið í Kindlinum mínum í sumar! Og um einu bókina sem er ekki af þeim toga en ég las samt af miklum áhuga í sólbaði sumarsins og fannst jafnspennandi og morðbókmenntirnar, Anatomy of an Epidemic, ætla ég að blogga sérfærslu um síðar.

Defending JacobHér ætla ég aðeins að nefna Defending Jacob eftir William Landay, sem vissulega má fella undir morðbókmenntir en er mjög sérstök. Ég byrjaði að lesa hana haldandi að þetta væri eins og hvert annað lögfræðidrama, svipað og Grisham skrifar (mistækur er hann vissulega en sumar bækurnar hans eru glettilega góðar). Defending Jacob fjallar um piltinn Jacob sem er 14 ára gamall en faðir hans, saksóknari, er sögumaður. Skólabróðir Jacobs finnst myrtur og böndin berast að Jacob; hann er handtekinn fyrir morðið og réttað yfir honum. Ákveðið atvik verður til þess að réttarhöldum er hætt og málið fellt niður. En svo tekur sagan óvænta stefnu …

Defending Jacob  fjallar samt kannski að minnstu leyti um morðið og réttarhöldin, það er bara yfirborðið. Fyrst og fremst fjallar sagan um stöðu og afstöðu foreldra þegar barnið þeirra er ákært fyrir morð. Hversu vel þekkja foreldrar börnin sín? Er til sérstakt drápsgen (killer-gene /warrior-gene) og er réttlætanlegt að brúka erfðafræði í vörn í morðmáli? (Þetta eru ekkert svo vitlausar vangaveltur því þegar hefur einn amrískur morðingi sloppið við aftöku út á þetta warrior-gene.) Eru til börn og unglingar sem eru illmenni af náttúrunnar hendi? Hvað hugsar foreldri sem ber drápsgenið og veit að ákærði unglingurinn þess ber það líka? Hvernig bregðast nágrannar eða fólkið í bænum við þegar unglingur hefur verið ákærður fyrir að myrða skólafélaga sinn? Hversu langt ertu tilbúin(n) til að ganga til að verja barnið þitt og hverjar eru afleiðingarnar? 

Þetta eru aðalatriðin í  Defending Jacob. Mér finnst að það hefði vel mátt stytta bókina um svona 20-30% og viðurkenni alveg að ég rétt skannaði síðurnar um miðbik bókarinnar og nennti ekki að lesa þær frá orði til orðs. En fyrsti og síðasti hlutinn eru mjög góðir. Endirinn er óvæntur og fær lesanda til að endurmeta allt sem áður hafði verið lýst.

Þessi bók hefur fengið góða dóma, sýndist mér, og til stendur að gera kvikmynd eftir henni. Ég mæli eindregið með bókinni og ætla sko örugglega að sjá myndina!

Frjálsar hendur KennarahandbókSvo hef ég nýverið gluggað í tvær bækur á pappír sem báðar eru eftir kennara í MR; Annars vegar Óð, ljósmyndabók Davíðs Þorsteinssonar, og hins vegar Frjálsar hendur. Kennarahandbók, eftir Helga Ingólfsson. Sú síðarnefnda er kilja og mögulega hafa starfsmenn bókabúða raðað henni með skólabókunum 😉

Ég hugsa að kennurum, einkum framhaldsskólakennurum, einkum íslenskukennurum í framhaldsskóla, og ekki hvað síst íslenskukennurum í fjölbrautaskóla, finnist Frjálsar hendur. Kennarahandbók óborganlega fyndin! Aðalpersónur eru flestar kennarar í Fjölbrautaskólanum í Kringlumýri. Inn í bókina fléttast svo gamlir kunningjar úr fyrri bókum Helga, t.d. þingmaðurinn Hreggviður og skáldið Gissur Þorvaldsson. Ég veit ekki alveg hvort aðrir en þeir sem hafa reynslu af kennslu fatta húmorinn almennilega en megnið ætti nú að skila sér til hvers sem er. Skilyrðið er að finnast farsar skemmtilegir, þar sem persónurnar lenda í ótrúlegustu ógöngum og uppákomum, oft algerlega óvart. Það eina sem mér fannst leiðigjarnt í sögunni voru birtir kaflarnir úr nútímafornaldasögunni sem íslenskukennarinn var að semja … en ég hoppaði þá bara yfir þá. (Jújú, ég fattaði flestar vísanirnar en hef bara ekki húmor fyrir hugmyndinni – mér duttu samt í hug nokkrir sem fyndust þetta bestu kaflar bókarinnar svo þetta er fyrst og fremst spurning um persónulegt skopskyn.)

Ég mæli eindregið með Frjálsum höndum. Kennarahandbók, ekki hvað síst fyrir framhaldsskólakennara. Auk þess held ég að starfsmenn Menntamálaráðuneytisins hefðu voðalega gott af því að lesa bókina. Hennar stærsti ókostur er að hún er ekki fáanleg sem rafbók!
 
  

Fáránleg verðlagning íslenskra rafbóka og einokunarstefna bókaútgefenda

Svk. upplýsingum sem ég fékk frá bókaútgefanda er kostnaður nokkurn veginn svona samansettur í verði íslensks skáldverks á pappír í bókabúð:

  • Prentkostnaður: 15-20% af verðinu (miðað við að bókin sé prentuð í íslenskri prentsmiðju);
  • Dreifingarkostnaður: 5-7% af verðinu;
  • Greiðslur til endursöluaðila (bókabúða): 35% af verðinu;
  • Greiðsla til höfundar: 23% af verðinu
  • Auglýsingakostnaður: 10-20% af verðinu.

Restin kemur í hlut bókaútgefandans og á m.a. að dekka kostnað við vinnuna við að búa verkið til prentunar. (Líklega er virðisaukaskatturinn innifalinn í hlut endursöluaðila.)

Það er algerlega augljóst að bara með því að losna við prentkostnað og greiðslur til endursöluaðila ætti verð á bók að lækka töluvert. Af hverju kosta þá íslenskar rafbækur hið sama og sömu bækur á pappír í bókabúð?

Sá bókaútgefandi sem ég ræddi við taldi mikið mál að útbúa rafbók og dreifa. Líklega getur það verið snúið ef bókin er komin á eitthvert það stafrænt form sem prentsmiðjur taka við. En sé um að ræða einfalda textaskrá eða Word-skjal, sem hægt er að breyta í HTML-skrá og hreinsa út óþarfa kóða, ætti þetta ekki að vera mikið mál. Óli Gneisti Sóleyjarson, sem minnst var á í síðustu færslu og er smiður Rafbókavefjarins, skrifaði meistararitgerð um þetta verkefni sitt þar sem hann lýsir því m.a. hvernig megi breyta skjölum í rafbók með Sigil, ókeypis forriti, o.fl. forritum (s. 47-50). Ég hvet alla áhugamenn um rafbækur til að lesa ritgerðina hans, Rafbókavefurinn Íslenskar rafbækur í opnum aðgangi. Þar fjallar hann m.a. um sögu rafbóka, ýmislegt sem snertir höfundarétt, rekur sögu Netútgáfunnar ítarlega og lýsir smíði og rekstri Rafbókavefjarins. Þetta er mjög áhugaverð, vel skrifuð og upplýsandi ritgerð. Á Rafbókavefnum sjálfum eru svo góðar leiðbeiningar um hvernig nota megi Sigil og Calibre til rafbókagerðar.

Ég ætla ekki að skrifa langt mál um kostnað af vistun og dreifingu gagna á tölvutæku formi heldur einungis benda á að til eru ódýrir vistunarkostir (t.d. Bluehost sem afritar öll gögn einu sinni á sólarhring), ódýr lén, ef menn nota aðra kosti er ISNIC, ódýr vefgerðarforrit, t.d. Weebly, þar sem hægt er að setja upp verslunarsíðu og tengja við PayPal o.s.fr.  Það er engin ástæða til að reka eigin skráaþjón þegar hægt er að kaupa rými fyrir gögnin og sjálfkrafa tíða afritun á netskýi. Kostnaður við auglýsingar á Facebook og á netmiðlum ætti að vera minni en við auglýsingar á pappír, fyrir svo utan það að gott lén og vandlega unnin lýsigögn fyrir leitarvélar ættu að skila sér vel á jafnlitlu markaðssvæði og Ísland er. Ég sé ekki betur en hver bókaútgefandi ætti að geta stofnað sína eigin rafbókasölusíðu með litlum tilkostnaði og lágmarkstæknikunnáttu.

GrægðiEf við reiknum með að upplýsingarnar sem ég fékk frá bókaútgefandanum séu réttar þá má ætla að af íslensku skáldverki sem kostar 3.000 krónur í Eymundsson fái höfundurinn svona 610 krónur og útgefandinn kannski 300-350 kr. Af hverju er ekki hægt að selja íslenskar rafbækur á verðinu 1.300-1.500 krónur og bæði höfundur og útgefandi héldu samt sínum hlut miðað við prentuð eintök? Í hverju felst hinn gífurlegi kostnaður sem verður til þess að rafbækur kosta á bilinu um 2.000-4.000 krónur og hærra verðið er miklu algengara?

Á vef Félags íslenskra bókaútgefenda má finna samningseyðublað sem bókaútgefendur og höfundar fylla út. Þar segir um rafbækur:

d. Rafræn útgáfa.
Sé ekki um annað samið hefur útgefandi verksins rétt til útgáfu þess á rafrænu formi. Hafi útgefandi ekki nýtt sér þann rétt innan 18 mánaða frá útgáfudegi prentaðrar bókar fellur rétturinn til höfundarins að nýju. Að liðnu þessu tímabili á útgefandi rétt á að höfundur tilkynni honum skriflega um fyrirhugaða rafræna útgáfu og skal hann eiga forgang til útgáfunnar enda takist samkomulag með útgefanda og höfundi um skilmála útgáfunnar innan þriggja mánaða frá móttöku tilkynningarinnar. Að öðrum kosti er höfundi frjálst að ráðstafa réttindum þessum án frekara samráðs við útgefanda.
Aðilar skulu semja um skiptingu tekna af rafrænni útgáfu og skal í upphafi miðað við að tekjur af rafrænni útgáfu skiptist jafnt milli útgefanda og höfundar. Tekjur samkvæmt grein þessari skulu að öðru leyti reiknaðar með hliðsjón af ákvæðum 12., 13., 15. og 16. gr. samnings þessa, þ.e. sem söluverð að frádregnum virðisaukaskatti, sölulaunum og afslætti. Við ákvörðun hlutfalls höfundar til hækkunar eða lækkunar skal meðal annars líta til tilkostnaðar útgefanda við útgáfuna og markaðssetningu verksins auk þess sem tillit verði tekið til sanngirnissjónarmiða.
Útgefandinn skal leitast við að haga útgáfu verksins þannig tæknilega að sem minnst hætta sé á misnotkun þriðja aðila á höfundarrétti að verkinu og í því skyni skal útgefandi nota viðurkennda tækni hvers tíma.
Höfundi er óheimilt, á meðan útgefandi á skilyrtan rétt samkvæmt grein þessari, að veita þriðja aðila aðgang að verkinu á rafrænan hátt í heild sinni hvort sem er gegn gjaldi eða ekki.

Miðað við ráðslag stærstu íslensku bókaúgefenda til þessa finnst mér verulega óskynsamlegt af höfundum að skrifa undir þessa samningsgrein. Útgefandi bókar getur átt réttinn til rafbókaútgáfu og dregið lappirnar í að gefa út rafbók í 21 mánuð, þ.e. tæp 2 ár, frá því pappírseintakið kemur út. Ekkert skyldar útgefandann til að bjóða verkið sem rafbók. Útgefandi pappírseintaksins ræður algerlega verði rafbókarinnar og verðlag íslenskra rafbóka til þessa gefur ekki tilefni til bjartsýni í sölu svoleiðis bóka.

Hitt er einnig til mikils vansa að íslenskir bókaútgefendur hafa tekið sig saman, flestir þeir stærstu a.m.k., um að gefa ekki út rafbækur fyrir Kindil, sem þó má ætla að sé algengast lesbretta (sjá t.d. tölulegar upplýsingar um niðurhal mismunandi skráategunda af Rafbókavefnum í ritgerð Óla Gneista Sóleyjarsonar). Ég velti því líka fyrir mér af hverju Forlagið birtir mynd af rafbók í Ipad á upplýsingasíðunni sinni um hvernig megi kaupa af því rafbækur – er það tilviljun að þeir völdu myndina iPad-E-book.jpg til að punta upp á þá síðu? Og er svona samráð, sem sést í vefverslun Forlagsins, löglegt?

Kindle lesbrettiÍ síðustu færslu var minnst á  skýringu vefverslunar Forlagsins á að selja ekki rafbækur til að lesa í Kindle. Sú skýring var áréttuð í frétt RÚV í vikunni, Stóraukning í útgáfu rafbóka (20. ágúst 2012). Ég skil ekki af hverju íslenskir bókaútgefendur krefjast þess að Amazon Kindle Store gefi út rafbækur á íslensku og séu í fýlu af því það er ekki gert. Amazon er risastór amrísk bókaútgáfa og af hverju ætti hún að gefa út bækur á tungumáli sem rúmlega 300.000 hræður á hjara netheima geta lesið? Ekki kröfðust íslenskir bókaútgefendur þess að bækur á íslensku væru til sölu í stærstu vefbókasölum heims til þessa, t.d. Amazon eða Waterstones. Í Amazon Kindle Store er auk þess fullt af íslenskum rafbókum til sölu á ensku, þýsku eða spænsku. Svoleiðis að það er ekki eins og íslenskir höfundar séu bannfærðir af Amazon 😉 Ég bendi þeim sem hafa áhuga á þessum málum eindregið á að lesa athugasemd Þorsteins Mars, forsvarsmanns útgáfunnar Rúnatýs, við þessa frétt RÚV, sjá Vegna fréttar um rafbækur. Áhugamenn um rafbækur hefðu líka gagn og gaman af því að lesa fleiri færslur á bloggi Þorsteins Mars.

Þótt Amazon selji Kindle-lesbretti og gefi út rafbækur á formi sem Kindlar lesa býður fyrirtækið upp á ódýrar viðbætur (app) fyrir önnur lesbretti, spjaldtölvur og síma.  Svo er auðvitað hægt að nota Calibre til að breyta skrám ætluðum Kindle í epub skrár … samt þarf fyrst að hlaða niður forriti til að brjóta upp mobi-skrá því Amazon læsir sínum skrám með afritunarvörn (DRM) ekkert síður en aðrir útgefendur. (Áhugamönnum um gildi og gagnsemi afritunarvarna er bent á kafla um þær í ritgerð Óla Gneista Sóleyjarsonar og á blogg Þorsteins Mars.) Þeir sem ekki geta hugsað sér að panta tæki frá vondu amrísku auðvaldsfyrirtæki geta keypt sér Kindil í Elko. Svoleiðis að ég kem alls ekki auga á hina illu einokun Amazon sem forsvarsmenn Félags íslenskra bókaútgefenda kveina undan og brúka sem afsökun fyrir lélegri þjónustu við viðskiptavini sína.

Viðbót: Þann 24. september bárust fregnir af því að Forlagið hefði séð að sér og hygðist nú bjóða upp á möguleika fyrir Kindileigendur: “Leysa á þetta mál með því að streyma bókunum á Kindle og geta notendur svo geymt bækurnar á Hillan.is.” Ég skil raunar ekki hvað átt er við: Er þá bara hægt að lesa bók frá Forlaginu í Kindli sem er tengdur netinu en ekki hægt að hlaða henni niður á Kindilinn? Ef það er “lausn” Forlagsins geta ráðamenn þar alveg eins gleymt þessu … þetta er þvílík hallærisredding að enginn Kindilnotandi mun hafa geð í sér til að brúka hana. Það hlýtur að vera að blaðamaður Viðskiptablaðsins hafi rangt eftir Agli Erni Jóhannssyni, framkvæmdarstjóra Forlagsins.
 

Hvaða áhrif hefur stefna Félags íslenskra bókaútgefenda og verðlagning á íslenskum rafbókum?

   

Það hlægir mig hve íslenskumafían (fræðimenn og almenningur sem er mjög umhugað um að bjarga íslenskri tungu frá meintri yfirvofandi glötun) fjasar mikið um nauðsyn þess að íslenska stýrikerfi og hugbúnað í tölvum og símum en virðist ekki hafa tekið eftir ástandinu þegar kemur að lesefni í þessum sömu græjum. Mér finnst miklu meira máli skipta að menn geti keypt nýjar bækur á íslensku í æpödduna sína eða símann sinn á sambærilegu verði og bækur kosta á ensku en hvort umgjörðin í þessum græjum birtist mönnum á íslensku eða ensku. Í Kindli er umgjörðin svo léttvæg að hún skiptir engu máli en texti bókanna sem maður les skiptir öllu máli (alveg eins og í prentútgáfu). Af hverju hafa málsvarar íslenskrar tungu ekki gagnrýnt óhóflegt verð  á rafrænum íslenskum bókum?

Ef íslenskir bókaútgefendur hysja ekki upp um sig brækurnar og horfast í augu við hvernig markaðurinn raunverulega er (í stað þess að einblína á hvernig hann ÆTTI AÐ VERA að þeirra áliti) missa þeir einfaldlega af lestinni mjög fljótlega og stórlesendur verða komnir upp á ágætt lag með að lesa á ensku eða austurnorrænum málum.  Ég hef engar áhyggjur af tæknivæddum íslenskum ungdómnum því mér vitanlega lesa unglingar sáralítið af bókum, hvort sem er á pappír eða í sínum spjaldtölvum og símum. (Það er vissulega áhyggjuefni út af fyrir sig en kemur ekki við efni þessarar færslu.) Rafbókalesendur eru nefnilega ekki fólkið sem les að eigin frumkvæði eina bók á ári eða svo. Rafbókalesendur eru fólkið sem les mikið af bókum og getur lesið einhver tungumál önnur en íslensku. Það fólk hugsar sig eflaust tvisvar um áður en það kaupir sér rafbók á íslensku.

Að lokum vil ég nefna að ég tel að séu stafræn gögn verðlögð skynsamlega og auðvelt að nota þau er miklu minni hætta á að fólk leggi sig niður við að stela þeim. Sem dæmi má nefna prjónauppskriftir. Á síðustu tveimur árum hefur mjög færst í vöxt að hönnuðir bjóði uppskriftir sínar til sölu á netinu. Ef vel-frágengin uppskrift kostar 500-600 kr., hægt er að greiða fyrir hana með kreditkortinu sínu á netinu og fá hana strax senda í tölvupósti þá kaupir maður auðvitað uppskriftina og leggur ekki vinnu í að telja hana út eftir myndum af gripnum. Ef svoleiðis uppskrift kostaði fleiri þúsund krónur lægju hrúgurnar af uppskriftum frammi á torrent bönkum … alveg eins og var raunin þegar íslensk tónlist á stafrænu formi kostaði formúu.
 

Rafbækur: Hætta lesbrettaeigendur að lesa á íslensku?

Leiti menn að íslenskum rafbókum í sitt lesbretti, síma eða spjaldtölvu má skoða eftirfarandi: 

Emma.is íslenskar rafbækur. Þar má finna ókeypis rafbækur, en flestar bækurnar kosta eitthvað, misjafnlega mikið þó. Stærsti kosturinn við emma.is er, að mínu mati, að bækurnar eru bæði á EPUB og MOBI formi og að forlagið tekur að sér að gefa út rafbækur eftir fólk, að uppfylltum vissum skilyrðum. Emma.is segist gera rafbók úr handriti á tölvutæku formi á svona 5-14 dögum að jafnaði og bjóða til sölu á vef sínum, yfirleitt kostar þetta 15 þúsund á bók. (Sjá síðurnar Spurt og svarað og Um Emmu. Emma.is leyfir ekki sölu á bókum sem eru komnar úr höfundarétti.

Forlagið selur talsvert af rafbókum í sinni vefverslun. Það selur bæði eigin bækur og bækur sem önnur forlög hafa gefið út. En: “Rafbækur frá Forlaginu eru ekki fáanlegar fyrir Kindle”! Skýringin sem Forlagið gefur á þessari ákvörðun er: 

  
Skýringin er í raun afar einföld. Amazon er bóksali sem jafnframt selur Kindle lestrartölvur. Þeir vilja ekki að aðrir bóksalar selji bækur inn á þeirra tæki. Kindle lestrartölvur taka því aðeins skráarsniðum sem Amazon notast við en ekki við öðrum almennum skráarsniðum sem notast er við í rafbókargerð (.ePub). Forlagið vill gjarnan selja bækur inn á Kindle, en til þess þarf Amazon-bóksalinn að hefja sölu íslenskra rafbóka. Það hafa þeir ekki viljað til þessa en vonandi breytist það áður en langt um líður. Það er hagur Forlagsins að selja sem flestar rafbækur, og þ.a.l. inn á Kindle lestrartölvur. Um leið og Amazon opnar sínar flóðgáttir fyrir íslenskum bókaútgefendum þá verðum við með!

Þessi skýring Forlagsins heldur ekki vatni en um hana verður fjallað í næstu færslu. Allar rafbækur á vef Forlagsins eru á EPUB-formi með DRM-læsingu.

Himnar�ki og helv�ti eftir Jón Kalman StefánssonSem dæmi um verðlagningu íslenskra rafbóka í vefbúð Forlagsins má taka Hungurleikana, rafbókin (fyrsta bókin) kostar 1990 kr.; Einvígið eftir Arnald Indriðason, sem Vaka-Helgafell gaf út, er á 2.990 kr., sama verði og bókin innbundin kostar, eða Himnaríki og helvíti eftir Jón Kalman Stefánsson á 3.990 kr. Bjartur gaf út Himnaríki og helvíti og hún fæst á Panama.is í kilju á 2.480 krónur, harðspjaldaútgáfan er uppseld. Bókin er til í enskri þýðingu í Amazon Kindle Store, Heaven and Hell, og kostar þar 9,39 dollara (1.120 kr.). Margar bækur Arnalds Indriðasonar má kaupa í Amazon Kindle Store á ensku eða þýsku en Einvígið er ekki komin þar í sölu ennþá.

Rafbókin Gamlinginn sem skreið út um gluggann og hvarf eftir Jonas Jonasson kostar 2.990 kr. hjá Forlaginu, sem er nákvæmlega sama verð og kiljan kostar. Ef lesandi vill lesa þessa rafbók í Kindlinum sínum á ensku þá kostar hún 13.60 dollara (1.630 kr.), á þýsku kostar hún 10,79 dollara (1.290 kr.) í Amazon Kindle Store. Vilji menn lesa bókina á frummálinu þá er hægt að fá rafbókina Hundraåringen som klev ut genom fönstret och försvann lánaða í gegnum Norræna húsið, að vísu á EPUB formi með DRM læsingu eða kaupa hana á bokus.com á 55 sænskar krónur (990 kr.), einnig sem EPUB-skrá.

Eymundsson  býður upp á töluvert úrval rafbóka, einkum á ensku. Tekið er fram að ekki séu seldar bækur fyrir Kindle-lesbretti en ekki færð sérstök rök fyrir því. 
  
  
Sumar af sömu rafbókunum og Forlagið selur má líka finna á Skinnu. Íslensku rafbókabúðinni. Verðlagning er svipuð, stundum eru þó bækurnar eilítið ódýrari. Skinna miðlar líka ókeypis bókum, t.d. bókum sem eru komnar úr höfundarétti og mörgum þeim sömu og á Rafbókavefnum. Þeim bókum má hlaða niður jafnt á EPUB sem MOBI formi en sölubækurnar eru margar einungis EPUB skrár.

Á Rafbókavefunum eru “íslenskar rafbækur í opnum aðgangi”, þ.e. þar er allt efni ókeypis og án afritunarlæsingar. Allar bæði EPUB og MOBI skrár til að  Má þar nefna efni Netútgáfunnar (íslensk fornrit og þjóðsögur) og efni sem ekki er lengur varið höfundarréttarlögum. Menn eru hvattir til að leggja meira efni til og eru ítarlegar og góðar leiðbeiningar um hvernig búa megi til rafbók, undir flipanum Leiðbeiningar. Rafbókavefurinn er verk Óla Gneista Sóleyjarsonar og hefur hann unnið mikið þrekvirki með þessum vef.

Lestu.is var opnuð með pompi og prakt í janúar 2011 og sögð fyrsta rafbókasíða landsins. Þetta er áskriftarvefur og kostar áskriftin 1.290 kr. á mánuði, ársáskrift kostar 12.900 kr. í 12 mánuði. Rafbækurnar þar eru af ýmsum toga en eiga það sammerkt að höfundarréttur er ekki á þeim. Satt best að segja er stór hluti nákvæmlega sömu bækur og sækja má ókeypis af Rafbókavefnum, t.d. Íslendingasögur. Áætlanir virðast ekki hafa gengið eftir sé túlkun mín á ódagsettum fréttum rétt; Þar segir að fyrir áramót sé stefnt að því að 100 bækur væru komnar inn og ég held að það eigi við áramótin 2011-2012. Líklega eru hátt í hundrað bækur inni á Lestu.is núna. Þær eru á EPUB, MOBI og flettibókaformi.
 

Dæmi um verðlag á rafbókum
 
 

Skáldverk Forlagið
Eymundsson
Kilja 
á íslensku
MuBook / mibook (Danmörk) Bokus.com / Livrel24  (Svíþjóð) Amazon Kindle Store (Bandaríkin) Hægt að fá 
lánaða úr 
sænsku rafbókasafni gegnum bókasafn

 Norræna hússins

Gamlinginn sem 
skreið út um gluggann 
og hvarf
2.990 kr.  2.990 kr.  167,50 DKK (= 3.340 kr.) 55 SEK (983 kr.) 13.60 USD (1.624 kr.)
 – á ensku- 
10,79 USD (1.288 kr.)
– á þýsku – 
Himnaríki og helvíti 3.990 / 3.799 kr 2.480 kr. 147,92 DKK (2.960 kr.) 75 SEK  (1.350 kr.)
-á ensku- 
9,39 USD (1.121 kr.) Nei
Hungurleikarnir I 1.990 kr. 2.290 kr.  147,50 DKK( 2.940 kr.) 84 SEK(1.500 kr.) 4,27 USD (510 kr.)
Utangarðsbörn ekki til 1.690 kr. 30,19 DKK  (600 kr.) 55 SEK (983 kr.) 14,97 USD (1.788 kr.)
Ég er Zlatan Ibrahimovic ekki til 3.599 kr. 172,50 DKK (3.450 kr.) 124 SEK (2.215 kr.) 9,99 USD (1.193 kr.)

Heaven and hell eftir Jón Kalman StefánssonVerðlagning íslenskra og danskra rafbóka er alveg fáránleg! Bækurnar kosta yfirleitt hið sama og pappírsútgáfurnar, eru jafnvel dýrari. Fyrir íslenska lestrarhesta sem eiga lesbretti eða spjaldtölvur er auðvitað miklu ódýrari  kostur að lesa þessar bækur á sænsku (ókeypis úr rafbókasafni) eða ensku. Bækur eftir Yrsu Sigurðardóttur fást í Amazon Kindle Store og kosta á bilinu 7,40 – 13, 50 dollara (895 – 1.612 kr.), bækur Arnalds Indriðasonar kosta þar um 13 dollara á ensku (1.550 kr.) og tæpa 11 dollara á þýsku (1.275 kr.). Rafbókin Brakið eftir Yrsu kostar 3.990 kr. og Einvígið eftir Arnald kostar 2.990 kr. hjá Forlaginu – hvorug bókin er komin út í enskri þýðingu í Amazon Kindle Store en þess verður áreiðanlega ekki langt að bíða.

Í næstu færslu fjalla ég um hvernig kostnaður við að gefa út bók á Íslandi skiptist, velti fyrir mér hvað kosti að gefa út rafbók og fjalla um undarlegan málflutning forsvarsmanna íslenskra bókaútgefenda þegar kemur að bókum fyrir Kindil. En ég vil ítreka að við óbreyttar aðstæður munu stórlesendur sem eiga lesbretti eða lesa í símum og spjaldtölvum lesa æ meir á erlendum málum og æ minna á íslensku. Og þessi þróun er mjög hröð. 
 

Rafbækur og Kindillinn minn ástkæri

Við Fr. Dietrich lesum á KindilÍ sumar eignaðist ég Kindil og festi ást á honum umsvifalaust. Ég hef engan áhuga á æpöddum eða öðrum tölvugræjum með snertiskjám. Ekki heldur neinum lesapparötum sem eru með baklýstum skjá. Það er vonlaust að brúka svoleiðis græjur eins og bækur, ýmist vegna þess að tækið er miklu  þunglamalegra en bók eða vegna þess að það er illmögulegt að lesa á skjáinn í mikilli sól. Og ég les mjög gjarna í sólbaði. Þarf varla að taka fram hversu mikið þægilegra er að taka með sér 100+ bækur í sólarstrandarfrí til útlanda þegar þær vega einungis 300 gr eða bókastaflana sem ég hef troðið í töskurnar til þessa 😉

Kindillinn minn er með oggolitlu lyklaborði svo ég get skrifað glósur um leið og ég les, þótt ég hafi ekki nennt því til þessa. Hann tengist þráðlausu neti og húkkar sig inn á 3G net ef háhraðanet er ekki í boði.  Þ.a.l. get ég keypt mér bók hvenær sem er og nánast hvar sem er (svo framarlega sem farsímasamband er í hvarsemerinu). Ég get líka skoðað tölvupóst og vefinn í honum en það er seinlegt og óhöndugt. Kindillinn er fyrst og fremst lesbretti.

Ég reikna með að lestrarhestar kaupi sér gjarna Kindil. Spjaldtölvur og snjallsímar höfða til annars markhóps. Og ég held að bókalestur í Kindli sé hrein viðbót við annan bókalestur, að Kindla noti fyrst og fremst fólk sem les mikið og mun áfram lesa prentaðar bækur. Kannski er helst að Kindill höggvi skarð í kiljulestur, a.m.k. í mínu tilviki því ég er löngu búin að lesa erlendu kiljurnar áður en þær koma út þýddar á íslensku.

Mér finnst tvennt dálítið skrítið þegar kemur að bókum fyrir Kindil:

  • Á Norðurlöndunum (Íslandi meðtöldu) virðast menn sniðganga skráarform sem Kindill les og bjóða einungis upp á skráarform fyrir spjaldtölvur, snjallsíma og sum önnur lesbretti.
  • Íslensk útgáfufyrirtæki eru ótrúlega sein í svifum hvað varðar rafbókaútgáfu og verðlagning á þessum fáu nýlegu bókum sem bjóðast algerlega út úr kortinu.

 

 

Norrænar rafbækur

Nú er hægt að kaupa danskar, norskar og sænskar rafbækur á netinu. Vilji menn lesa á dönsku má benda á þessar tvær búðir:

MuBook segist bjóða upp á ódýrar danskar bækur. Þar má finna ókeypis bækur og upp í rándýrar bækur; Sé listinn yfir mest seldu bækurnar skoðaðar  er t.d. Askepot eftir Kristina Ohlsson á rúmar 30 krónur danskar (600 kr. íslenskar) – sú bók heitir Utangarðsbörn á íslensku og kostar 1.690 kr. í kiljuútgáfu; Kvinden i buret e. Jussi Adler-Olsen kostar 88,50 DKR (1.770 kr.) – kiljan á íslensku, Konan í búrinu, kostar 2.290 kr.; Englemagersken e. Camillu Läckberg kostar hins vegar 212,50 DKR (4.250 kr.) – íslenska kiljan, Englasmiðurinn, kostar 2.170  kr.  Allar þessar bækur eru á EPUB-formi , sem Kindill les ekki. Þær eru hins vegar ekki með afritunarvörn heldur einungis vatnsmerki og því hægt að breyta þeim í mobi-skrá fyrir Kindil í forritinu Calibre.
Mibook auglýsir að hún sé stærsta danska rafbókabúðin með um 245.000 titla (en væntalega eru þar taldar með bækur á ensku). Þar eru rafbækurnar aðeins ódýrari, t.d. kostar Englemagersken hennar Camillu Läckberg 207 DKR (4.140 kr.) í þessari búð. Lausleg skoðun bendir til að bækurnar séu yfirleitt á EPUB-formi með DRM-læsingu.

Bokus.com er sænsk rafbókabúð “där alla böcker bor” virðist geyma gott úrval af rafbókum um ýmist efni, á sænsku, ensku, finnsku, rússnesku og dönsku. Rafbókin Askungar eftir Kristina Ohlsson kostar þar 55 sænskar krónur (983 kr. íslenskar) en pappírskiljan af sömu bók kostar bara 39 sænskar krónur (en svo þarf auðvitað að borga póstsendingargjald). Rafbókin Änglamakerskan eftir Camilla Läckberg kostar 126 sænskar krónur (2.265 kr.). Einnig má leita fanga í Livrel24 sem selur bækur á sænsku. Bækurnar virðast flestar vera á EPUB-formi, án afritunarvarnar en með vatnsmerki.

Ég ber það ekki við að skoða norskar rafbókabúðir – nógu dýrar eru norskar bækur á pappír!

Vilji menn lesa norrænar bækur á ensku í sínum Kindli þá kostar bókin hennar Kristina Ohlsson, Unwanted  heitir þýðingin, 14,97 dollara (tæpar 1.800 kr.) en Englasmiðurinn virðist ekki enn hafa verið þýdd á ensku – af öðrum bókum Läckberg má t.d. kaupa rafbókina Hafmeyjuna, The Drowning, í Amazon Kindle Store fyrir 10,79 dollara (1.295 kr).

(Ég kíkti á vinsældarlistann á Amazone Kindle Store og þar voru rafbækurnar á bilinu um 5-16 dollara; Fyrsta bókin í Hungurleikunum kostar t.d. 4,27 dollara sem eru 512 kr. Yfirgnæfandi meirihluti bóka þar er á ensku.)

Þeir sem hafa útlánaskírteini í bókasafni Norræna hússins geta fengið lánaðar sænskar rafbækur á netinu, sjá upplýsingar á síðunni Hvað er rafbók. Bækurnar eru yfirleitt á EPUB eða PDF formi, með DRM-læsingu. Bækurnar í sænska rafbókasafninu eru af ýmsum toga en vinsælastar eru auðvitað glæpasögurnar og sögurnar sem ég hef nefnt hér á undan standa þar til boða. Hægt er að fá lánaðar tvær bækur á viku og hafa þær í láni í fjórar vikur. Mörg dönsk bókasöfn bjóða upp á rafbókalán og vonandi tekst bókasafni Norræna hússins að ná samningum við eitthvert af þeim.

  

Hvað gera Kindil-eigendur þegar einungis EPUB-skrár eru í boði?

KindillDRM stendur fyrir Digital rights management og er notað til að læsa stafrænum skrám, t.d. rafbókaskrám, svo ekki sé hægt að deila þeim frítt um víðan völl. Þetta er stundum kallað afritunarlæsing.  Það kemur þó fyrir lítið því á torrent-bönkum úir og grúir af ólæstum rafbókaskrám. Enginn skortur er á smáforritum sem brjóta upp slíka læsingu. Þegar læsingin er farin er ekkert mál að nota Calibre til að breyta t.d. EPUB skrá í MOBI skrá, sem Kindill les. Calibre er reyndar hið mesta þarfaþing lesi menn rafbækur því þar má flokka sitt bókasafn og raða skipulega upp. Forritið er ókeypis.

Í næstu færslu fjalla ég um rafbækur á íslensku.

Morð og drykkjuskapur

Í síðustu viku hamstraði ég bókafjöld á bókasafni Norræna hússins. Auðvitað var megnið morðsögur en eins og venjulega kippti ég einni annars konar bók með. Og svo hef ég legið í bókum eins og húsfreyjan forðum, án þess að Gilitrutt ræki inn nefið. Góðar morðsögur eru eins og góð krossgáta eða algebra: Í upphafi er allt í óreiðu og sagan snýst um að raða saman brotum og leysa málið, þætta og stytta. Morðsögur henta fólki sem er hallt undir skipulag og hreingerningu afskaplega vel!

PanserhjerteFyrsti maí fór ekki í kröfugöngu eða Nallasöng … nei, fyrsti maí fór að mestu í Panserhjerte hans Jons Nesbø.  Þetta er feikilega skemmtileg saga með alls kyns útúrsnúningum og “ekki er allt sem sýnist” kúvendingum. Morðin voru samt það óhugguleg að ég lagði ekki í að lýsa þeim fyrir mínu heimilisfólki. En aumingja Harry Hole er enn við sama heygarðshornið, hangir þurr á hnefanum og fellur inn á milli, ber ekki við að fara á AA fundi. Að sjálfsögðu er hann dökk hetja og óhamingjusamur með afbrigðum … kemst samt lifandi úr ótrúlegustu mannraunum og kröggum. Ég veit að svona bækur eru ekki raunsæisbókmenntir en stend mig öðru hvoru að því að hugsa: Æi, karlanginn, af hverju poppar hann ekki inn á fund?  Best að skrá sig á biðlista eftir Gjenferd … kannski lagast fundarsóknin í þeirri bók.

Ekki tekur betra við frá alkafræðum séð þegar maður vindur sér yfir í sænskar morðbókmenntir. Hún Malin Fors okkar í Linköbing fór í meðferð, í síðustu bók sem ég las, enda konan gegnsósa af Tequila. Nú er liðið meir en ár síðan, í Vårlik (eftir Mons Kallentoft), og Malin slæst við áfengislöngunina af ekki minna krafti en Harry Hole en hefur sigur, ólíkt honum. Kannski af því hún er svo dugleg að lyfta lóðum? Í Linköbing virðast engir AA-fundir og Malin leiðir ekki einu sinni hugann að svoleiðis, líklega eru AA fundir óþekktir í Suður-Svíþjóð. Sem betur fer er hún klár og verður skyggnari með hverri bók … svoleiðis að mál eru snyrtilega leyst að lokum. Malin nær sér meira að segja í ágætis hjásvæfu þrátt fyrir síðhvörfin. Hefði samt að ósekju mátt stytta bókina um svona 100 síður.

Í Danaveldi er drykkjuskapur líklega ekki álitinn sérstakt vandamál en hvunndags-sálfræðiflækjur eru þess fyrirferðarmeiri. Louise Rick leysir auðvitað gátuna í Dødsenglen (e. Söru Blædel) en þótt hún sé rosaflink í að þætta og stytta morðflækjur er hún á eilífum bömmer yfir að standa sig ekki sem fósturmamma og vinkona hennar á eilífðar bömmer yfir fortíðardraugum. Ef maður skrunar hratt yfir tilvistarflækjur aðalpersónanna má þó hafa gaman af bókinni.

Nú er ég byrjuð á Skrig under vand (e. Øbro og Tornbjerg). Þar er aðalpersónan einhvers konar réttarsálfræðingur (profilingsekspert) og auðvitað með óuppgerð persónuleg mál í massavís. Eftir þessar velskrifuðu sögur sem ég taldi upp að ofan virkar Skrig under vand stirð og barnalega skrifuð. Eiginlega hef ég takmarkaðan áhuga á hver drap fæðingarlækninn og hvernig morðið tengist einhverjum fortíðarslitrum um barnamorð. Í skandinavískum morðlitteratúr eru þessar fortíðarslitrur farnar að vera skyldubundið frásagnartrix, líklega sprottið af vinsældum Läckberg og Theorin?  Svo á ég bók um Dicte Svendsen ólesna enn en sé að á baksíðu er sérstaklega tekið fram að “På hjemmfronten må Dicte udkæmpe sin helt egen kamp …” svoleiðis að ég vænti þess að dágóður blaðsíðufjöldi verði tekinn undir trámað að búa með sér yngri manni og eiga dóttur á táningsaldri. Stundum hef ég á tilfinningunni að frændur okkar Danir hafi sökkt sér um of ofaní Sjöwall og Wahlöö í gamla daga en Svíar séu aðeins að skríða upp úr sósíal-realisma-hefðinni.

Bókin sem er ekki morðsaga ber samt morðtititil: Hundemordet i Vimmelskaft – og andre fortællinger fra 1700-tallets København. Ég er búin með um þriðjung og ekki komin að hundamorðinu. Hef hins vegar lesið dramatískar lýsingar á óþefnum í Kaupmannahöfn á 18. öld, hlutskipti betlara og vændiskvenna af öllum stigum og götulífið almennt. Í kaflanum “De fattiges horehus” var áhugaverð koparstunguröð sem sýndi leiðina til glötunar. Upphaflega voru þetta fjórar koparstungur en fjórða myndin hefur glatast. Á þeim þremur sem eftir eru má sjá lífsferil ungrar konu frá því hún er svo vitlaus að láta fallerast og til þess að mamma hennar er byrjuð að gera hana út (úr því meydómurinn er farinn virðist fátt annað í stöðunni) … í fátæklegu herbergi situr stúlkan örvingluð (milli kúnna reikna ég með) en mamman er komin í brennivínið og drekkur af stút. Maður getur bara ímyndað sér hvað fjórða og týnda koparstungan sýndi.  Næsti kafli heitir “Friere og falskspillere. Noget om drink og dobbel” og verður örugglega krassandi lesning … með tíð og tíma kemst ég svo í kaflann um hundamorðið fræga.

Í tilefni þess að ég er stödd á 18. öld horfði ég á þátt Péturs Gunnarssonar um 18. öld á Íslandi, á RÚV. Því miður vissi ég allt sem fram kom í þættinum en reikna með að næsti þáttur verði meira um eitthvað sem ég veit ekki fyrir. Og vissulega löptu Íslendingar dauðann úr skel á þessari öld en það var svo sem enginn draumur í dós að búa í Kaupmannahöfn heldur, fyrir alþýðu manna.

Á meðan ég sökkvi mér ofan í morð og ódó á blaðsíðum með bókalykt les maðurinn í sínum Kindli og dásamar Kindilinn. Hann er að lesa Nýja testamentið á grísku og sækist í að ræða efni þess og málsögu við sína konu. Sem betur fer tók ég kúrs í gotnesku á sínum tíma (valdi hann einungis út á kennarann, í skyldubundnum þremur málfræðikúrsum sem um var að velja virtist kennarinn í þessum einna normalastur). Það er fátt til á gotnesku annað en Nýja testamentisþýðing Úlfs litla og þótt ég sé búin að gleyma álnarlöngum beygingardæmum gotneskum situr textinn eftir. Vangaveltur um málsögulegar breytingar í gegnum tíðina eru hins vegar meiri höfuðverkur fyrir mig … hvenær hætti lýsingarháttur nútíðar að beygjast og af hverju urðu samsvarandi sérhljóðabreytingar í ólíkum indóevrópskum málum á sama tíma? Myndi láta manninn horfa á þætti Stephens Fry ef ekki vildi svo til að á sama tíma er Foyle í danska sjónvarpinu og ég er heilluð af þeim góðu þáttum …