Category Archives: Saga Geðlækninga

Marklaus mæling á þunglyndi

Aðalrannsóknarspurningin í Suðurnesjamannarannsókninni 2004, sem ég hef fjallað um í undanförnum  færslum, var hversu vel  þrír mælikvarðar á þunglyndi (spurningalistar) féllu að geðlæknismati sem byggði á greiningarlykli DSM-IV í viðtölum við þunglynda karla (Sigurdsson o.fl., 2013). Í síðustu færslu var gerð grein fyrir mælikvörðunum og bent á hveru óáreiðanlegt plagg DSM-IV er vegna fjárhagslegra tengsla semjenda þess við lyfjafyrirtæki.

Viðtalstækni geðlæknanna byggði á úreltri fyrirmynd

Hálfstaðlaða (semi-structured) viðtalstæknin sem geðlæknarnir tveir í rannsókninni beittu til greina þunglynda Suðurnesjamenn hafði að fyrirmynd rannsókn sem gerð var á Gautaborgarbúum á níræðisaldri, af báðum kynjum, árið 1987, þar sem kannað var algengi geðrænna sjúkdóma skv. greiningarmerkjum DSM-III (Skoog o.fl., 1993). Hálfstaðlaða viðtalstæknin sem Skoog beitti fólst í spurningum í þessari röð: Um sjúkdóma og áföll í lífi sænsku öldunganna og fjölskyldu þeirra, um flogaveiki, hjartaáföll, áfengisneyslu, sögu um geðræna sjúkdóma fyrr á ævinni, elliglöp og geðræna sjúkdóma hjá nánum ættingjum, hugsanir um dauðann og sjálfsvíg, geðræn sjúkdómseinkenni síðustu mánuðina fyrir viðtalið, virkni í kynlífi og svefnmynstur. (Í þessari endursögn er örfáum spurningum sleppt.)

Það er dálítið einkennilegt að hafa viðtalstækni sem byggð var á úreltum geðgreiningarlykli og beitt á mjög ólíkan hóp viðmælenda að fyrirmynd í Suðurnesjamannarannsókninni. Mögulega skýrist það af því að þessi sami Skoog var aðalleiðbeinandi í doktorsverkefni annars geðlæknisins. Raunar voru báðir geðlæknarnir doktorar í geðheilsu gamalmenna, sem og heimilislæknirinn sem vann að Suðurnesjamannarannsókninni, öll útskrifuð frá Gautaborgarháskóla á fárra ára millibili, svo kannski var akkúrat þessi rannsókn á öldungunum í Gautaborg þeim vel kunn.

Af vísindalegri nákvæmni var þátttakendum í rannsókninni á Suðurnesjum fækkað stig af stigi uns eftir voru 38 karlar, s.s. rakið var í færslunni Vísindaleg rannsókn á þunglyndi karla. 14 þeirra dæmdu geðlæknarnir þunglynda (hér eru þessir 2 með óyndi meðtaldir) en 24 þeirra lausa við þunglyndi. Í töflu 1 í greininni sem ég hef verið að fjalla um undanfarið, Saliva cortisol and male depressive syndrome in a community study. The Sudurnesjamenn study (Sigurdsson o.fl., 2013) koma fram upplýsingar sem snerta skor á mælikvörðunum sem notaðir voru o.fl. Samanburður við töflu 2 í sömu grein sýnir hins vegar að upplýsingar skortir um ýmist 1 eða 2 þátttakendur þegar að þessu sama skori kemur (á BDI og GMDS spurningalistunum). Mér finnst óskiljanlegt að þessa sé ekki getið í töflu 1 og er þessi ónákvæmni síst til þess fallin að auka trú á vísindaleg vinnubrögð í ritun greinarinnar. (Það að glutra niður gögnum sem tengjast beint aðalrannsóknarspurningu rannsóknarinnar er svo kapítuli út af fyrir sig.)

Hvernig bar mælikvörðunum saman við álit geðlæknanna byggt á viðtölum?

Í stuttu máli sagt bar niðurstöðum þessa illa saman. Sem dæmi má nefna að að meðalskor óþunglyndra á BDI-kvarðanum var 10.1 (staðalfrávik 7.3) og meðalskor þunglyndra á sama kvarða var 17.3 (staðalfrávik 6.2). 14-19 stig á BDI-II gefa vísbendingar um vægt þunglyndi en ítrekað skal að í Suðurnesjamannarannsókninni var einungis leitað að alvarlegu þunglyndi (og óyndi). Staðalfrávikið er það stórt að meðaltalið segir tæpast hvernig dæmigerðir einstaklingur í hópunum eru. Samanburð á grundvelli meðaltals innan hópa verður því að taka með hæfilegum fyrirvara.

GMDS-kvarða niðurstöðurnar voru í svipuðum dúr og BDI-II niðurstöðurnar en MADRS mældi hins vegar gífurlegan mun á hópunum tveimur. (Í síðustu færslu var fjallað ítarlega um þessa mælikvarða, sjá Vísindaleg huglægni í mælingu þunglyndis.)

Ályktunin sem greinarhöfundar draga af þessu er:

“In the present data, the GMDS and BDI reported false positive cases, given that the semi-structured psychiatric interview is the golden standard, while the MADRS scale was too conservative. These inconsistencies could be explained by the fact that the MADRS is assessed by trained interviewers.”
(Sigurdsson o.fl., 2013, s. 150).

Í stuttu máli sagt telja greinarhöfundar sem sagt að það hafi verið lítið  að marka sjálfsmatskvarðana og kvarðann sem heilbrigðisstarfsmaður fyllti út. Hið eina sem er marktækt til að greina þunglyndi er “hið gullna viðmið”, þ.e. hálfstaðlað viðtal geðlæknis.

 

Hvernig bar lyfjanotkun og sjúkdómsgreiningu saman?

Svo sem kom fram í færslunni Sjö melankólískir Suðurnesjamenn  skilaði mæling kortisóls í munnvatnssýni einungis marktækum niðurstöðum hjá helmingi þunglyndisgreindu karlanna og var skýringin talin sú að hinn helmingurinn tók geðlyf og þunglyndislyf. Í greininni kemur ekki fram hver geðlyfin (psychotropics) voru né hvort þunglyndislyf (antidepressants) voru innifalin í flokknum geðlyf eða talin sem sérstakur flokkur, sem er auðvitað aðfinnsluvert í ritrýndri grein.

Þótt nefnt sé að geðlyfja- og þunglyndislyfjanotkun hafi verið marktækt algengari hjá þeim sem voru greindir talsvert þunglyndir með hið gullna viðmið, geðlæknaviðtölin, að vopni er ekkert gert úr þeirri staðreynd að tæp 17% hinna gersamlega óþunglyndu brúkuðu geðlyf og 12.5% þeirra tóku þunglyndislyf. Leikmaður spyr sig auðvitað af hverju svo hátt hlutfall óþunglyndra karlmanna á Suðurnesjum át þunglyndislyf fyrir áratug en því er s.s. ósvarað.  Mögulega er það vegna þess sem gefið er í skyn, að geðlæknarnir sem tóku þátt í rannsókninni hyggist skrifa sérstaka grein um sínar niðurstöður. Þegar/ef hún birtist verða niðurstöðurnar löngu úreltar því nú er liðinn áratugur frá rannsókninni og margt sem hún byggðist á er ekki lengur brúkað, ályktunum sem dregnar eru um serotónín-búskap og þunglyndi hefur verið varpað fyrir róða o.s.fr. Fyrir svo utan það að þau gögn sem týndust/vantar, svo sem áður var nefnt, draga mjög úr áreiðanleika niðurstaðnanna.

 

Er þunglyndi karla vangreint?

Þessari spurningu er nánast ómögulegt að svara. Ástæðan fyrir því er að hugmyndir geðlækna um hvað sé þunglyndi breytast með hverri nýrri útgáfu DSM. Þær hugmyndir hafa svo margföldunaráhrif meðal annarra heilbrigðistétta og almennings. Nú er svo komið að í sama sjúkdómspakkanum, kölluðum þunglyndi, má finna allt frá fárveikum melankólíusjúklingum sem varla komast fram úr rúminu upp í fólk sem telur sig eiga rétt á meiri hamingju en það telur sér hafa hlotnast í lífinu eða lífsleiðar nöldurskjóður af öðru tagi. Skilgreiningin á “þunglyndi” er orðin svo víð að það er ekkert gagn að henni nema til að ýta undir fordóma.

Þeim sem hafa sérstakan áhuga á að lesa um þá algengu fordóma geðlækna og starfsfólks á geðsviði um að þunglyndi sé miklu algengara meðal kvenna en karla er bent á tvo fyrirlestra eftir Arnþrúði Ingólfsdóttur:

“Við erum með aðeins viðkvæmari heila”. Tengsl hins líffræðilega og sálfélagslega í orðræðu geðlækna (Arnþrúður Ingólfsdóttir, 2010) og Staðreyndir lífsins.“ Orðræða geðlækna um tvöfalt tíðara þunglyndi kvenna (Arnþrúður Ingólfsdóttir og Gloria Wekker, 2010).

Þeim sem hafa almennan áhuga á hvernig svona goðsagnir og fordómar verða til, þ.e. að konum hætti meir til þunglyndis er körlum er bent á færslu mína frá 17. mars 2013, Þjóðsagnir um þunglyndi og konur, og að lesa sér til í aðalheimild hennar sem er vönduð yfirlitsgrein.

Ofangreindar heimildir benda til þess að (raunverulegt) þunglyndi sé álíka algengt meðal karla og kvenna. Mögulegt er að þunglyndi karla sé vangreint en það er þá vegna fordóma geðheilbrigðiskerfisins og trúar starsmanna þess  á þjóðsagnir og goðsagnir í stað vísinda.

 

Þær einu tvær ástæður sem mér detta í hug fyrir birtingu tveggja greina og boðaðri þriðju grein, um þessa Suðurnesjamannarannsókn, sem gerð var fyrir áratug og virðist ekki hafa verið vandað til, s.s. ég hef rakið í þessari og fyrri bloggfærslum, er að einhvern höfundanna vanti punkta til að ljúka námi eða ná framgangi í starfi; Hin ástæðan kann að vera að styðja við markaðssetningu þunglyndislyfja á sviðum sem enn eru illa nýtt, sem eru einkum meðal karla og barna. Eftir því sem betur kemur á daginn að þunglyndislyf nýtast ekkert við þunglyndi (nema í undantekningartilvikum) er auðvitað mikilvægara fyrir lyfjarisana að finna fyrir þau ný not og fiska á nýjum miðum.

 

Heimildir

Arnþrúður Ingólfsdóttir og Gloria Wekker. (2010). Staðreyndir lífsins.“ Orðræða geðlækna um tvöfalt tíðara þunglyndi kvenna. Þjóðarspegillinn. Rannsóknir í félagsvísindum XI. Erindi flutt á ráðstefnu í október 2010. Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands, Reykjavík. Ritstjóri: Silja Bára Ómarsdóttir. Krækt er í greinina á Academia.edu en hana má einnig nálgast á rafrænu formi á Skemmunni.

Arnþrúður Ingólfsdóttir. (2010). “Við erum með aðeins viðkvæmari heila”. Tengsl hins líffræðilega og sálfélagslega í orðræðu geðlækna. Fyrirlestur hjá Rannsóknarstofu í kvenna- og kynjafræðum 23.09.’10.  Academia.edu

Sigurdsson, B., Palsson, S. P., Johannsson, M., Olafsdottir, M., & Aevarsson, O. (2013). Saliva cortisol and male depressive syndrome in a community study. The Sudurnesjamenn study. Nordic journal of psychiatry 67(3), s. 145-152.

Skoog, I., Nilsson, L., Landahl, S., & Steen, B. (1993). Mental disorders and the use of psychotropic drugs in an 85-year-old urban population. International Psychogeriatrics5(01), 33-48.

 

Vísindaleg huglægni í greiningu þunglyndis

 

greining_thunglyndis

Enn held ég áfram að velta fyrir mér efni greinar um rannsókn á þunglyndum körlum á Suðurnesjum (Sigurdsson, B. o.fl. 2013), sjá fyrri færslur hér og hér. Í greininni birtist nefnilega í hnotskurn flest sem hefur verið mjög til umræðu á þessari öld um starfsaðferðir geðlækna, einkum þann vægast sagt óstöðuga grunn sem þunglyndisgreiningar þeirra byggja á.

Þessi færsla fjallar einkum um greiningartæki geðlæknanna í rannsókninni. Í framhaldsfærslu verður skoðað hvernig eða hvort þau nýttust til að greina milli þunglyndra og heilbrigðra karla á Suðurnesjum í ársbyrjun 2004.

Hvað átti að rannsaka?

Aðal rannsóknarspurningin í Suðurnesjamannarannsókninni var  hversu vel tveir mælikvarðar á þunglyndi (spurningalistar) féllu að geðlæknismati sem byggði á greiningarlykli DSM-IV í viðtölum við þunglynda karla.

Greiningartæki til að meta þunglyndi

Marga sjúkdóma má greina með nákvæmum líffræðilegum prófum en svo er ekki með þunglyndi. Í þunglyndisgreiningu er það fyrst og síðast huglægt mat eins manns, geðlæknisins eða heimilislæknisins sem leitað er til, sem sker úr um hvort einstaklingur teljist þunglyndur eða ekki, mögulega örfárra slíkra lækna ef sjúklingur leitar til fleiri en eins.

Gjarna er bent á að „klínísk reynsla“ geðlækna nýtist vel í greiningu og meðhöndlun þunglyndis. Þetta hugtak er hugsað alveg eins og „kennslureynsla“ kennara, „uppeldisreynsla“ foreldra o.fl. „Klínísk reynsla“ er reynsla læknis af sjúklingum sem hann hefur sinnt. Í sumum fræðigreinum  virðast persónulegar skoðanir geðlækna sem byggðar eru á klínískri reynslu teljast tækt mælitæki til að meta bæði þunglyndi og verkan svokallaðra þunglyndislyfja.

Hið huglæga mat geðlæknis, byggt á reynslu af sjúklingum sem hann hefur sinnt, er stutt greiningarlyklum læknisins og krossaprófasvörun sjúklings. Af því hvoru tveggja greiningarlyklarnir og krossaprófin eru byggð á huglægu mati þeirra sem bjuggu þetta til á hvað skuli teljast þunglyndi er vafasamt að telja þetta vísindaleg mælitæki.

DSM

DSM er skammstöfun fyrir ritið Diagnostic and Statistical Manual of Mental Disorders sem Amerísku geðlæknasamtökin gefa út. Þetta er, eins og nafnið gefur til kynna, handbók handa geðlæknum til að þeir geti greint geðræna kvilla. Frá og með útgáfu DSM-III, árið 1980, hafa geðlæknar haft fyrir satt það sem í ritinu stendur. Í Suðurnesjamannarannsókninni var stuðst við DSM-IV en ritsins ekki getið í heimildaskrá greinarinnar (Sigurdsson, B. o.fl. 2013). Ég reikna með að það eigi sér svipaðar skýringar og ef guðfræðingar sæju ekki endilega ástæðu til að hafa Biblíuna með í heimildaskrá greinar um guðfræði. Þótt hérlendis sé í heilbrigðismálum skylt að nota staðal Alþjóðaheilbrigðisstofnunar Sameinuðu þjóðanna, ICD-10, til að greina og flokka sjúkdóma taka margir íslenskir geðlæknar það ekki til sín: Þeirra Biblía er samt sem áður þessi ameríski greiningarlykill.

Í DSM er engin tilraun gerð til að skýra orsök eða uppruna geðsjúkdóma heldur er talinn upp listi einkenna hvers sjúkdóms og síðan gefið upp hve mörg einkennanna sjúklingur þurfi að sýna til að greinast með þennan eða hinn geðsjúkdóminn.

Með hverri útgáfu lengist þessi greiningarlykill og inniheldur æ fleiri einkenni í hátterni eða líðan sem teljast til marks um geðrænan sjúkdóm þótt almenningur hafi hingað til talið sumt þessarar líðanar eða hátternis nokk eðlilegt (Shorter. 2013). Sömuleiðis fjölgar geðsjúkdómum með hverri nýrri útgáfu. Má nefna sem dæmi að DSM-III var 495 síður sem gerði 265 sjúkdómsgreiningum skil, í DSM-IV, sem kom fyrst út 1994, hafði skilgreindum geðsjúkdómum fjölgað í 297 og bókin var orðin 886 blaðsíður, DSM-5, sem kom út í maí í fyrra er 947 síður en ég veit ekki tölu sjúkdóma þar.

Sýnt hefur verið fram á mjög sterk tengsl lyfjaiðnaðarins við þá sem semja efnið í DSM og er það vatn á myllu þeirra sem halda því fram að eitt markmið DSM sé að sjúkdómsvæða sem flest til að auka lyfsölu. Í ljós hefur komið  að um helmingur þeirra sem sömdu sjúkdómslýsingar/skilgreiningarmerki sjúkdóma í DSM-IV hafði einhver fjárhagsleg tengsl við lyfjaiðnaðinn. Þegar um var að ræða sjúkdóma þar sem lyf eru yfirleitt fyrsti lækningarkosturinn, s.s. geðklofa eða lyndisraskanir (en þunglyndi fellur undir slíkar raskanir) voru tengslin enn sterkari: Allir í nefndunum sem sömdu skilgreiningar og greiningarmerki fyrir þá sjúkdóma höfðu fjárhagsleg tengsl við lyfjaiðnaðinn (Cosgrove, L. o.fl. 2006)!

Í DSM-IV eru greindar nokkrar sortir af þunglyndi og þær misalvarlegar. Hér verður sjónum einkum beint að alvarlegu þunglyndi. Greiningarlykillinn fyrir alvarlegt þunglyndi er eins í DSM-IV, sem kom út 1994 og DSM-IV-TR, endurskoðaðri útgáfu sem kom út árið 2000 (Diagnostic criteria for Major Depressive Episode, án ártals) svo slæleg heimildaskráning í grein Bjarna Sigurðssonar og félaga (Sigurdsson o.fl. 2013) kemur ekki eins mikið að sök. Þetta er fjölbreyttur listi 9 einkenna sem snerta hátterni og líðan. Til þess að sjúklingur greinist með alvarlegt þunglyndi þurfa 5 þeirra að hafa látið á sér kræla í hálfan mánuð samfleytt, þar af verður eitt einkennanna að vera annað hvort þungsinni (lækkað geðslag) eða sinnuleysi (finna hvorki fyrir áhuga né ánægju).

Í Suðurnesjamannarannsókninni greindu geðlæknarnir 12 karla með alvarlegt þunglyndi og 2 karla með óyndi (Dysthymic Disorder) en sjá má skilmerki fyrir þann sjúkdóm í DSM-IV-TR ofarlega á þessari vefsíðu (Substance Abuse and Mental Health Services Administration. 2008). Í DSM-5 sem kom út í fyrra er óyndi ekki lengur talin sérstök lyndisröskun (Hiller. 6/6 2013).

 

krossaval

Þunglyndiskvarði Beck

Til stuðnings huglægu mati á hvort sjúklingur sé haldinn þunglyndi miðað við upptalningu einkenna í DSM geta geðlæknar haft til hliðsjónar spurningalista sem eiga að vera mælikvarði á þunglyndiseinkenni. Vinsælastur þeirra er Beck þunglyndiskvarðinn (Beck Depression Inventory) , krossapróf sem sjúklingur fyllir sjálfur út. Krækt er í BDI-II, útg. 1996, á ensku, en sá kvarði var  væntanlega notaður í Suðurnesjamannarannsókninni. Sjá má gamla útgáfu kvarðans frá 1979 á íslensku (Eiríkur Örn Arnarson. 1990). Beck þunglyndiskvarðanum var breytt 1996 svo hann félli að breyttum greiningarskilmerkjum þegar DSM-IV tók við af DSM-III.

Stigin fyrir framan útfylltu möguleikana eru lögð saman og oftast er miðað við að skor undir 14 stigum þýði að útfyllari sé laus við þunglyndi, 14-19 stig gefa vísbendingu um vægt þunglyndi, 20-28 stig benda til talsverðs eða alvarlegs þunglyndis, 29-63 stig þykja endurspegla illvígt þunglyndi.

Gotlenski mælikvarðinn á þunglyndi karla (GMDS)

Wolfang Rutz o.fl. hönnuðu þetta krossapróf 1999 sem miðar, eins og nafnið bendir til, að því að greina betur þunglyndi karla en hinn vinsæli kvarði Beck. Kvarðinn heitir The Gotland Male Depression Scale, skammstafað GMDS. Hér er krækt í spurningalistann á ensku á vefsíðu Cure4you. Fyrsti krossamöguleiki gefur 0 stig, sá næsti 1 stig, sá þriðji 2 stig og sá fjórði 3 stig. Mat á stigafjölda er útskýrt í sama skjali. Á síðari árum hefur komið fram að kvarðinn nýtist einnig prýðilega til að greina þunglyndi þeirra kvenna sem ekki falla að uppskrift DSM-IV að þunglyndi (Möller-Leimkühler. 2010. Angeletti. 2013).

Þunglyndiskvarði Montgomery-Åsberg

krossaval_litilMontgomery–Åsberg Depression Rating Scale (MADRS) var þriðji mælikvarðinn sem geðlæknarnir í Suðurnesjamannarannsókninni studdust við. Þessi mælikvarði er ólíkur þeim sem taldir voru hér að ofan að því leyti að það er ekki sjúklingur sem fyllir hann út heldur heilbrigðisstarfsmaður (líklega einn af læknunum fjórum í umræddri rannsókn á Suðurnesjum). MADRS-kvarðann má sjá hér á ensku (Psy-World, án ártals).

MADRS er fylltur út í samtali við sjúkling. Það samtal á að hefja á opnum spurningum, skv. fyrirmælum á kvarðanum sjálfum, en reyna síðan að beina samtalinu að þeim einstöku atriðum sem krossa skal við á kvarðanum. Ákveðinn sveigjanleiki er innbyggður í mat heilbrigðisstarfsmannsins á svörum sjúklingsins.

Stigin eru síðan lögð saman og yfirleitt metið sem svo að 7-19 stig gefi vísbendingu um vægt þunglyndi, 20-34 stig benda til talsverðs eða alvarlegs þunglyndis, fleiri en 34 stig endurspegla líklega illvígt þunglyndi.

 

Heimildir

Angeletti, Gloria o.fl. 2013. Short-Term Psychodynamic Psychotherapy in Patients with “Male Depression” Syndrome, Hopelessness, and Suicide Risk: A Pilot Study. Depression Research and Treatment 2013(408983). http://www.hindawi.com/journals/drt/2013/408983/

BDI-II, útg. frá 1996, birt án ártals eða heimildatilvísunar á The Ibogaine Dossier.

Cosgrove, L o.fl. 2006. Financial ties between DSM-IV panel members and the pharmaceutical industry. Psychotherapy And Psychosomatics 75(3), s. 154-160.

Diagnostic criteria for Major Depressive Episode [DSM-IV-TR og DSM_IV]. BehaveNet.

Eiríkur Örn Arnarson. 1990. Mælikvarði Becks á geðlægð (Beck Depression Inventory, 1979). Geðvernd 21(1), s. 31-33.

Hiller, Anne. 6/6 2013. Highlights of Changes from DSM-IV-TR to DSM-5. DSM-5 Development. American Psychiatric Association.

ICD-10 Alþjóðleg tölfræðiflokkun sjúkdóma og skyldra heilbrigðisvandamála, aðgengileg á SKAFL. Landlæknisembættið, án ártals.

Montgomery Asberg Depression Rating Scale. Psy-World.

Möller-Leimkühler, A. M., & Yücel, M. 2010. Male depression in females? Journal of affective disorders 121(1), s. 22-29.

Shorter, Edward. 2013. How Everyone Became Depressed: the Rise and Fall of the Nervous Breakdown. New York, Oxford University Press.

Sigurdsson, B., Palsson, S. P., Johannsson, M., Olafsdottir, M., & Aevarsson, O. 2013. Saliva cortisol and male depressive syndrome in a community study. The Sudurnesjamenn study. Nordic journal of psychiatry 67(3), s. 145-152.

Substance Abuse and Mental Health Services Administration. 2008. Managing Depressive Symptoms in Substance Abuse Clients During Early Recovery. Treatment Improvement Protocol (TIP) Series, No. 48. Rockville, HHS Publication, s. 143-144.

Sjö melankólískir Suðurnesjamenn?

Þessi færsla er framhald af Vísindaleg rannsókn á þunglyndi karla. Hér verður fjallað örlítið um kortisólpróf/greiningu til að mæla m.a. þunglyndi, sögu þess og af hverju aðferðin var þögguð niður.

Melankoli eftir Edvard Munch, málið 1894

Melankoli eftir Edvard Munch, málið 1894

Kortisól, DST-próf og mæling kortisóls í munnvatnssýnum

Kortisól er sterahormón sem er framleitt í berki nýrnahettanna. Það er oft kallað „stress-hormónið“ því framleiðsla þess eykst við álag og dægursveiflur þess í blóði geta verið miklar. Áhrif kortisóls eru margvísleg, m.a. hefur það áhrif á blóðþrýsting og efnaskipti.

Til er alvarlegur krankleiki sem nefnist heilkenni Cushings og stafar af ofgnótt kortisóls. Ein aðferðin til að greina þetta heilkenni með vissu er að sprauta 1 mg af dexametasóni (sykurstera) í sjúkling seint að kvöldi og mæla kortisól í blóði morguninn eftir. Ef kortisólið mælist hátt eru yfirgnæfandi líkur á að hann sé haldinn Cushings heilkenni. Þessi prófun kallast dexamethasone suppression test (DST). Flestir aðrir mælast nefnilega með lágt kortisól að morgni, líka eftir svona DST próf. (Rafn Benediktsson, án ártals).

Nýleg aðferð til hins sama er að safna munnvatnssýnum í sólarhring og greina í þeim kortisólið: Um miðnætti eru kortisól-gildi í sjúklingum með Cushing heilkenni marktækt hærri en í heilbrigðu fólki (Diagnosis and Treatment of Cushing’s syndrome, án ártals).

Caroll og kortisólmæling til að greina melankólíu

Árið 1968 komst ástralski geðlæknirinn Barney Carroll að því að DST-prófið væri örugg mæling á ákveðinni gerð þunglyndis, þess þunglyndis sem öldum saman var kallað melankólía. Hann birti niðurstöður sínar í British Medical Journal (Caroll 1968). Þessar niðurstöður vöktu nokkra athygli á áttunda áratug síðustu aldar en svo fjaraði áhuginn út, af ástæðum sem tengjast þróun Diagnostic and Statistical Manual of Mental Disorders (DSM). Samt var þetta öruggt próf og sýndi með óyggjandi hætti að líffræðilega stafar melankólía af öðru en annars konar þunglyndi því prófið virkaði ekki á neitt annars konar þunglyndi eða sjúkdóma sem líktust þunglyndi (Shorter 2012).

Í greininni Saliva cortisol and male depressive syndrome in a community study. The Sudurnesjamenn study (Sigurdsson o.fl. 2013) er ein tilvísun í Carroll 1976 og vitnað er með óbeinum hætti í gagnsemi uppgötvunar hans í yfirlitsgrein (Christensen og Kessing 2001) þar sem því er haldið fram að DST próf Carroll hafi ekki virkað sem skyldi. Höfundar yfirlitgreinarinnar vitna máli sínu til stuðnings í Carroll o.fl. 1981 en hafa misskilið textann því skv. útdráttum úr þeirri grein (ég hef ekki aðgang að greininni í heild) virkaði prófið ágætlega til að greina melankólíu, sem á þeim tíma var oftast innifalin í safni þeirra þunglyndissjúkdóma sem kölluðust innlæg geðlægð. Að mínu mati hefði verið skynsamlegt fyrir íslensku höfundana að skoða frumheimild í stað þess að taka athugasemdalaust upp misskilning Christensen og Kessing í yfirlitsgreininni.

Áhrif DSM

Ástæða þess að uppgötvun Carroll féll nánast í gleymskunnar dá var að það var ekki hagkvæmt og heppilegt fyrir geðlæknisfræði og geðlækna að horfast í augu við að til væri afmörkuð tegund þunglyndis, sem hefði líffræðileg sérkenni, þ.e.a.s. að hægt væri að greina sjúkdóminn með líffræðilegum aðferðum á nánast óyggjandi hátt. Melankólía hefur um aldir verið talin grafalvarlegur sjúkdómur en „því miður“ er hún ekki algengur sjúkdómur. „Því miður“ er í þessu samhengi séð frá sjónarhóli lyfjafyrirtækja sem hafa haft beinan hag af því að sem flestir væru greindir þunglyndir og hafa haft ómæld áhrif á skilgreiningar alls konar þunglyndis sem einungis verður greint með huglægum hætti, stundum dulbúnum sem mælikvörðum en jafn huglægt fyrir því. Þessi áhrif hefur lyfjaiðnaðurinn einkum haft gegnum DSM (Shorter 2012). Þau rit, einkum DSM-IV og DSM-5, eru biblíur og guðspjöll geðlækna um allan heim, þar á meðal íslenskra. Um þetta sameiginlega afrek lyfjaiðnaðarins og geðlækna verður fjallað í næstu færslu.

 

En það hvarflar svona aðeins að mér að hinir sjö þunglyndu lyfjalausu Suðurnesjamenn sem skiluðu munnvatnssýnum með vel háu kortisóli undir kvöld og síðla kvölds (Sigurdsson o.fl. 2013), hafi, þegar allt kemur til alls, ekki þjáðst af sérstöku nýuppgötvuðu karlaþunglyndi heldur af gamaldags velþekktri melankólíu. Það væri í fullu samræmi við uppgötvun Carroll árið 1968 og kæmi kyni ekkert við.

Heimildir

Diagnosis and Treatment of Cushing’s syndrome, án ártals. Stanford School of Medicine.

Carroll, B. J., Martin, F. I. R., & Davies, B. 1968. Resistance to suppression by dexamethasone of plasma 11-OHCS levels in severe depressive illness. British Medical Journal 3(5613), s. 285-297.

Carroll, Bernard J; Feinberg, Michael; Greden, John F.; Tarika, Janet; Albala, A. Ariav; Haskett, Roger F.; James, Norman; Kronfol, Ziad; Lohr, Naomi; Steiner, Meir; De Vigne, Jean Paul; Young, Elizabeth. 1981. A specific laboratory test for the diagnosis of melancholia: Standardization, validation, and clinical utility. Archives of General Psychiatry 38(1), s. 15-22.
Útdrætti úr greininni má sjá hér og hér .

Christensen MV, Kessing LV. 2001. The hypothalamo-pituitary-adrenal axis in major affective disorder: a review. Nordic journal of psychiatry 55(5), s. 359–363.

Rafn Benediktsson. Nýrnahettur. Innkirtlasjúkdómar: vefsíða fyrir læknanema. Án ártals.

Shorter, Edward. 2013. How Everyone Became Depressed: the Rise and Fall of the Nervous Breakdown. New York, Oxford University Press.

Sigurdsson, B., Palsson, S. P., Johannsson, M., Olafsdottir, M., & Aevarsson, O. 2013. Saliva cortisol and male depressive syndrome in a community study. The Sudurnesjamenn study. Nordic journal of psychiatry, 67(3), s. 145-152.

Móðursjúkir Íslendingar, einkum Reykvíkingar, nútímans

Kona með verk

Kona með verk

Það kann að koma einhverjum á óvart en staðreyndin er sú að rusl-sjúkdóms-greiningarhugtakið gamla, hystería (móðursýki), ásamt karlkynsútgáfu þess, hýpókondríu („miltisveike eða vaniflasótt (Hypochondria, Miltsyge), hjá karlmønnumm, eðr móðursyke hiá kvennfólki, […] eru nærstumsømu veikleikar“, skrifaði Sveinn Pálsson landlæknir árið 1794) er næstalgengasta geðröskun Reykvíkinga og nærsveitamanna nú á dögum! Sjúkdómurinn hefur hins vegar fengið nýtt nafn og fjölda undirflokkaheita.

Ég hef undanfarið skrifað nokkra pistla um vísindalegar rannsóknir dr. Jean-Martin Charcot á hysteríu (móðursýki) fyrir um 130-140 árum. Í stað þess að halda áfram skrifum í tímaröð, fjalla um nafnbreytingar sjúkdómsins í tímans rás, hvernig Freud tók hysteríuna upp á arma sína o.s.fr. verður stokkið til nútímans og hysteríuástandið á okkar góða Íslandi metið.

 

Hvað varð um hysteríuna (móðurýkina) sem hrjáði konur svo mjög á nítjándu öld að frægt varð um allan hinn vestræna heim?

Sum einkennin, s.s. mikil þreyta og eymsli sem ekki finnst líffræðileg skýring á var felld undir það sem nú kallast vefjagigt. Stutt er síðan sá sjúkdómur var yfirleitt viðurkenndur af læknum. Orsök hans er ekki þekkt og engin sérstök lækning, þ.e.a.s. sjúklingar verða að prófa sig áfram með ýmis lyf og læknisráð sem eru í mismunandi mæli samþykkt af læknum. Sum móðursýkin gamla er nú hluti af skjaldkirtilssjúkdómum, sjálfsofnæmissjúkdómum, taugasjúkdómum og ýmsu fleiru.

Mörg skapgerðareinkenni gömlu móðursýkinnar, t.d. duttlungar, miklar skapsveiflur, óeðlilegur uggur/ótti/ kvíði og fleira hafa nú fengið inni í þunglyndis- og kvíðagreiningum ýmiss konar, jarðarpersónuleikaröskun eða öðrum algengum greiningum geðlækna nútímans.

„Líkamleg‟ einkenni móðursýkinnar sem enn voru afgangs voru sett í geðröskunarflokkinn Líkömnunarraskanir. Það flækir málin dálítið að líkömnunarröskunum er ekki eins raðað í DSM-IV, greiningarlykli Amerísku geðlæknasamtakanna, og ICD-10, greiningarlyklinum sem evrópskir læknar nota. Íslenskir geðlæknar styðjast oft við DSM-IV (nú væntanlega DSM 5 sem fjölga mun tilfellum verulega ef marka má umræðu um Somatic symptom and related disorders eins og geðröskunarflokkurinn heitir þar) þótt í vottorðum og öðrum opinberum plöggum sé þeim skylt að nota ICD-10. Hér verður reynt að taka tillit til þessa ósamræmis þegar umfjöllun íslenskra geðlækna, taugalækna og sálfræðinga er rakin.

Móðursjúk kona

Hvað á að kalla móðursjúka konu?

1992: Hvað á að kalla móðursýki íslenskra kvenna?

Orðræða lækna getur stundum brugðið ljósi yfir viðhorf þeirra til sjúkdóma og sjúklinga. Árið 1992 voru einhverjir íslenskir læknar að velta fyrir sér hvað væri hægt að kalla móðursýki annað en móðursýki, í ljósi nýjustu fræðilegrar umræðu erlendis. Þetta er rakið í Íðorðapistli nr. 028 Hysteria, sem birtist í Læknablaðinu 1992 (hér er krækt í endurútgáfu hans í fylgiriti með Læknablaðinu 2001). Segir þar m.a.:

Nýlega var haldinn fræðslufundur á Landspítala þar sem sagt var frá því sjúkdómsfyrirbæri sem áður var kallað hysteria en hefur nú fengið fræðiheitið somatization disorder. Í útsendu fundarboði var þetta nefnt sjúkdómasótt (óskýrðar líkamlegar kvartanir).
[- – -]

Fyrrgreindur fyrirlesari var svo vinsamlegur að lána undirrituðum sumt af fundarefni sínu. Fram kemur að fyrirbærinu er þannig lýst að sjúklingarnir séu eingöngu konur og að sjúkdómsferillinn hefjist fyrir þrítugt með margvíslegum líkamlegum einkennum. Einkennin eru það mikil eða alvarleg, að áhrifanna gætir í daglegu lífi þeirra og hegðun, og fyrr eða síðar leita þær sér meðferðar. Líkamleg skýring finnst ekki þrátt fyrir nákvæma skoðun og rannsóknir. Einkennin halda áfram og ný bætast við þrátt fyrir ýmis konar meðferð. Í flestum tilfellum leiða kvartanir sjúklinganna fyrr eða síðar til ýmis konar inngripsrannsókna og aðgerða, sem ekki gera þeim neitt gagn hvað varðar linun einkenna og þjáninga. Hins vegar spilla þær iðulega líkama kvennanna og gefa tilefni til fylgikvilla og nýrra einkenna. Rannsóknir virðast hafa leitt í ljós að einkenni þeirra séu ekki fleiri eða alvarlegri en annarra, en að mat á eigin líkamsástandi og heilsufari sé brenglað þannig að öll líkamleg einkenni séu oftúlkuð.

[- – -]
Fyrirlesari lagði meðal annars til að þær konur, sem fengið hafa ofangreinda sjúkdómsgreiningu svo óyggjandi sé, fái að vita hvað á seyði er. Í því felst vafalítið að þeim skuli gefin fullnægjandi lýsing á fyrirbærinu og tjáð heiti þess. Heitið verður því bæði að vera lýsandi og lipurt. Það þarf að vera sæmilega nákvæmt sem fræðiheiti og má ekki vera særandi eða meiðandi fyrir þá sjúklinga sem þjást af kvillanum.
[- – -]
[…] til bráðabirgða er kastað fram tveimur tillögum: einkennasýki eða kvillaveiki.

Sem vísindalegri þekkingu í geðlæknisfræðum vatt hratt fram næsta áratuginn varð greiningin nákvæmari og heitin á flokkunum fleiri. En kjarninn er samt sem áður að ýmsir þeir kvillar sem læknar geta ekki greint líffræðilega orsök fyrir og ekki svo auðveldlega hent inn í ýmsar þær geðgreiningar sem taldar voru hér að ofan eða í vefjagigtarkistuna eru nú kallaðir einu nafni líkömnunarraskanir eða líkamsgervingarheilkenni (þessi sérstaklega kauðslegu og óagnsæju nýyrði eru hvort tveggja notuð nú sem þýðing á somatization disorder).
Skilgreiningin í ICD-10, þeim greiningarstaðli sem íslenskir læknar eiga að styðjast við, er nokkurn veginn svona:

F 45
Líkömnunarraskanir
Aðaleinkennin eru endurteknar kvartanir um líkamleg einkenni ásamt endurteknum beiðnum um læknisfræðilegar rannsóknir, þrátt fyrir að þær leiði ekkert í ljós og þrátt fyrir að læknar fullvissi sjúklinginn um að einkennin stafi ekki af líkamlegum orsökum. Hrjái einhver líkamlegur krankleiki sjúklinginn er engan veginn hægt að tengja hann eðli og fjölda einkennanna sem kvartað er yfir eða þær kvalir sem eiga hug sjúklingsins allan.

(Landlæknisembættinu hefur ekki auðnast að þýða nema brot af ICD-10 svo ég snaraði þessum textanum úr ensku af skafl.is.)

Síðan eru líkömnunarraskanir flokkaðar nánar niður, t.d. í F45.0, Fjöllíkömnunarröskun, einnig nefnd Margföld geðvefræn röskun eða Briquet-röskun (sem er einmitt hystería, því þegar læknisfræðin fór að reyna að þagga niður hysteríuvísindi Charcot var gripið til þess ráðs að kenna sjúkdóminn fremur við fyrirrennara hans, hinn lítt þekkta franska lækni Briquet, sem hafði þó nokkurn veginn sömu skoðun á hysteríu og Charcot). Þessi röskun virðist geta lýst sér á allan mögulegan máta miðað við lýsingu í ICD-10, kannski er skásta greiningarmerkið að sjúklingurinn ráfar stanslaust milli lækna árum saman án þess að fá bót meina sinna.

Svo taka við F45.1 Ósundurgreind líkömnunarröskunF45.2 ÍmyndunarröskunF45.3 Líkamleg rangstarfsemi sjálfvirkakerfis (sem þrátt fyrir nafnið tengist alls ekki líkamlegum orsökum heldur eru hugmyndir sjúklings um að það sé eitthvað að honum í hjartanu, maganum, ristlinum án þess að fyrir því finnist nokkur líffræðileg skýring) o.s.fr.

Karl með magaverk

Er þessi karl með líkamlega rangstarfsemi sjálfvirkakerfis eða ristilkrabbamein?

Þetta verður ekki rakið lengra en áhugasömum um þann búning sem móðursýki er nú klædd í af evrópskum læknum (eða áhugamönnum um misheppnuð íðorð) er bent á að lesa gegnum listann í ICD-10 á skafl.is, vefsetrið heyrir undir Embætti landlæknis.

 

Móðursýki Reykvíkinga og nærsveitunga þeirra nú til dags

Í fræðigrein Jóns G. Stefánssonar geðlæknis og Eiríks Líndal sálfræðings, Algengi geðraskana á Stór-Reykjavíkursvæðinu, sem birtist í 3.tbl. Læknablaðsins árið 2009, segir af merkri rannsókn sem þeir félagarnir gerðu á árunum 2005-2007. Greindar voru vísindalega geðraskanir 416 íbúa á Stór-Reykjavíkursvæðinu (um 50% þess tilviljanakennda úrtaks sem boðin var þátttaka í rannsókninni) og reiknað lífalgengi geðröskunargreininga hjá þessum hópi. Lífalgengi þýðir að viðkomandi hafi einhvern tíma á ævinni þjáðst af þessum krankleik þótt hann kunni að vera frískur þegar könnunin var gerð. Fólkið var á aldrinum 34-76 ára, skipt í þrjá aldurshópa. Aðalniðurstaðan var sú að rétt tæp 50% hópsins alls hafði einhvern tíma á ævinni glímt við geðröskun.

Í ljós kom að næstalgengasta geðröskunin sem hrjáði þetta fólk var einmitt líkömnunarröskun; lífalgengi hennar var 19% í hópnum. Konur voru í meirihluta í þessum hópi, sem og í hópi þeirra sem greindust með lyndisröskun og kvíðaröskun.

(Það kemur efni þessa pistils ekki við en rétt er að upplýsa að algengasta geðveikin sem hrjáir og hefur hrjáð íbúa Reykjavíkur og nágrennis á seinni tímum er, skv. þessari könnun, tóbaksgeðveikin illræmda, á fræðimáli F17 Geð- og atferlisraskanir af völdum tóbaksnotkunar.)

Móðursýkin (líkömnunarröskunin) er auðvitað bagaleg fyrir sjúklingana sjálfa en kannski skiptir enn meira máli að hún er rándýr fyrir heilbrigðiskerfið og eykur álag á heilsugæsluna svo um munar (og eins og öllum vitandi vits ætti að vera kunnugt eru heimilislæknar, eins og aðrir íslenskir læknar, að kikna undan álagi).

Í annarri fræðigrein sem birtist sama ár í Læknablaðinu, 9. tbl. 2009, Hugbrigðaröskun – yfirlitsgrein, eftir þá Ólaf Árna Sveinsson, lækni, Sigurjón B. Stefánsson, sérfræðing í geðlækningum og klínískri taugalífeðlisfræði, og Hauk Hjaltason, sérfræðing í taugasjúkdómum, kemur fram:

Líkamleg einkenni sem engin vefræn skýring finnst á eru oft sögð vera starfræn (functional). Í geðlæknisfræði er slíkt ástand kallað röskun (disorder). Hér verða notuð hugtökin starfræn einkenni og starfræn truflun í þessari merkingu.
[- – -]
Rannsóknir hafa sýnt að allt að helmingur sjúklinga sem leitar til heimilislækna kemur vegna starfrænna einkenna. Um þriðjungur allra sjúklinga sem sækja til taugalækna á göngudeildir hafa starfræn einkenni. [Feitletrun mín]

(Það er ekki ljóst af samhenginu hversu stór hluti hinna starfrænu einkenna sem þarna eru nefnd eru líkömnunarraskanir, þ.e.a.s. geðrænar raskanir sem áður fyrr voru hluti móðursýkigreiningar.)

Síðan bæta höfundarnir við að svona sjúklingar upplifi sig oft mun veikari en sjúklingar með sambærileg einkenni af vefrænum toga [þ.e. sem hægt er að greina líffræðilega orsök fyrir], gangi oft milli lækna og „undirgangist endurtekið óþarfa rannsóknir, jafnvel aðgerðir, og reyna margvísleg lyf.“

Aðalefni þessarar greinar er svo hugbrigðaröskun (conversion disorder, eins og hún er skilgreind í DSM-IV, í ICD-10 hefur sami sjúkdómur verið færður úr flokki líkömnunarraskana og í þrjá undirflokka F44 Hugrofs[hugbrigða]röskun.) Hugbrigðaröskun er hin gamla grand hysterie dr. Charcot, bráðlifandi enn þann dag í dag og dugir ekki minna en sérstakur pistill um hana, sem birtist síðar.

 

Heimildir

Er munur á ME, CFS og FM? ME félag Íslands.

ICD-10 Alþjóðleg tölfræðiflokkun sjúkdóma og skyldra heilbrigðistvandamál [svo]. SKAFL [Stöðluð kóðun í alþjóðlegum flokkunarkerfum Landlæknisembættisins].

Jóhann Heiðar Jóhannsson. 1992. 028 Hysteria. Fylgirit Læknablaðsins 10(3):4. Hér stuðst við endurbirtingu pistilsins í Íðorðapistlar 1-130 í Fylgiriti Læknablaðsins nr. 14 árið 2001.

Jón G. Stefánsson og Eiríkur Líndal. Algengi geðraskana á Stór-ReykjavíkursvæðinuLæknablaðið 95. árg. 3. tbl. 2009, s. 559-564.

Ólafur Árni Sveinsson, Sigurjón B. Stefánsson og Haukur Hjaltason. Hugbrigðaröskun – yfirlitsgreinLæknablaðið 95. árg. 9. tbl. 2009, s. 269-276.

Skimun fyrir vefjagigt [Skimunarskilmerki bandarísku gigtlæknasamtakanna frá 2010]. Þraut ehf

Sveinn Pálsson. Tilraun að upptelja sjúkdóma þá er að bana verða og orðið geta fólki á Íslandi. Rit þess (konunglega) íslenzka Lærdómslistafélags 15. árg 1794. S. 85.

 

Þessi pistill birtist áður í Kvennablaðinu 25. janúar 2014.

Drottning hysteríunnar

Blanche Wittmann

Þessi pistill er framhald af Eggjastokkapressa o.fl. við móðursýki og Charcot og hysterían.

Þegar Blanche Wittmann var lögð inn á Salpêtrière spítalann í París, átján ára gömul, hét hún Marie Wittmann skv. fæðingarvottorði. Hún virðist hafa fengið nafnið Blanche (sem þýðir „hvít“ á frönsku, e.t.v. vegna þess að hún var óvenju ljós yfirlitum) við innritunina á spítalann og gekk undir því nafni síðar. Eftirnafn hennar er nokkuð á reiki í mismunandi heimildum, ýmist haft Witman, Wittman, Wittmann eða Weidmann.

Blanche átti erfiða æsku; faðir hennar var ofbeldishneigður og endaði ævina á geðveikahæli, móðir hennar var sögð hafa þjáðst af taugaveiklunarköstum og tvö (af níu) systkinum hennar þjáðust af krömpum og flogaveiki. Fimm af þessum níu systkinum dóu á barnsaldri. Skráð er eftir Blanche að hún hafi fengið stöku krampa sem barn en ástandið versnaði að mun á unglingsaldri uns hún var lögð inn vegna flogakasta. Í gögnum spítalans er einnig skráð hún hafi átt kynferðislegt samneyti við vinnuveitanda sinn og hefði fengið „köst“  í miðjum samförum, eitt slíkt eftir samfarir.

Blanche Wittmann

Þessa mynd af Blanche Wittmann tók Paul Regnard. Hún birtist í 3. bindi Iconographie photographique de la Salpêtrière, 1879-1880, á s. 276, sem dæmi um hysteríusjúkling í „eðlilegu ástandi“.

Blanche er í gögnum Salpêtrière lýst sem stórri konu og tekið sérstaklega fram að hún hafi verið óvenju brjóstastór. Mælikvarði á stærð fátækra kvenna í París á þessum tíma var dálítið annar en nú því hún var 164 cm há og 70 kg að þyngd. Hún var talin meðalgreind og minnisgóð þótt sjálf segði hún minni sitt hafa skaðast mjög af ether, sem henni var óspart gefinn til að slá á hysteríuköst, allt þar til dr. Charcot hafði fundið upp eggjastokkapressuna góðu og Blanche æfst í réttum sjúklingsviðbrögðum.

Fyrst eftir innlögn voru köst Blanche óútreiknanleg og lýstu sér alla vega, frá duttlungum, frekju og óhemjugangi til krampafloga. Meintir hysteríupunktar á líkama hennar voru tilviljunakennir hér og þar og útum allt. En fljótlega lagaði krankleiki Blanche sig vísindalegri skilgreiningu dr. Charcot á hysteríu og smám saman varð Blanche Wittmann hinn fullkomni hysteríusjúklingur. Hún sýndi nánast öll einkenni sjúkdómsins eins og Charcot og samstarfsmenn hans skildu hann. Meðal þeirra voru vöðvaslappleiki/máttleysi, tilfinningaleysi í húð á ýmsum líkamshlutum, einkum kringum augu og kynfæri, staðbundin lömun sem kom og hvarf, litblinda og slæm sjón á öðru auga, hún upplifði kökk í hálsi („globus hystericus“), þreytu, höfuðverk, krampaköst og stjarfa. Við þessum kvillum voru prófaðar ýmsar lækningaraðferðir, s.s. að að láta hana eta gullduft, anda að sér ýmsum efnum, prófa ýmiss konar rafmagnsmeðferð á henni o.fl. En auðvitað virkaði eggjastokkapressan best.

Það sem skipti sköpum fyrir frægð Blanche var hve auðvelt var að dáleiða hana og hve auðvelt var að stjórna sjúkdómseinkennum hennar í dáleiðslunni: Hún gat sýnt hvað sem var!  Og hún bar óblandna virðingu fyrir og traust til dr. Charcot. Frá því snemma á níunda áratug nítjándu aldar og allt til þess að Charcot lést, árið 1893, var Blanche Wittmann því ekki venjulegur sjúklingur heldur stórstjarna í París.

Blanche Wittmann

Koparstunga gerð eftir ljósmynd, sem birtist í Les maladies épidémiques de l’esprit; sorcellerie, magnétisme, morphinisme, délire des grandeurs
eftir Paul Regnand, útg. 1887, s. 75. Myndin ber titilinn hysterískur doði og sýnir hvernig prjónn er rekinn gegnum framhandlegg Blanche, sem brosir á meðan.

Til að að breyta ástandi hennar þegar hún hafði verið dáleidd dugði að nudda hvirfilinn ofurlaust til að hún rankaði við sér úr doðaástandi í léttari dásvefn, til að vekja hana úr dásvefni dugði að blása á augu henni, til að falla í dá dugði að láta hana stara á bjartan hlut . Til að kalla fram mismunandi sjúkdómseinkenni í samræmi við „hysteríuramma“ Charcot nýttist eggjastokkapressan prýðilega. Með rafmagnsstautum mátti kalla fram hvaða svipbrigði sem var, síðar meir þurfti ekki einu sinni rafmagn heldur bara einhvern staut, og í dáleiðslunni hélst svipurinn óbreyttur svo lengi sem læknunum þóknaðist. Hægt var að láta hana eta kol ef sagt var að það væri súkkulaði, anda að sér ammoníaki af nautn ef henni var sagt að þetta væri rósailmvatn, láta hana gleðjast yfir ímynduðum fuglum, hræðast ímyndaða snáka o.s.fr. Líkama hennar og svipbrigði og viðbrögð mátti móta á hvaða vegu sem var, sem og kalla fram flog, tilfinningaleysi og hvað það annað sem Charcot hugnaðist að sýna sem dæmi um merkar vísindarannsóknir sínar á hysteríu: Blanche var hin fullkomna mennska brúða, sú langfullkomnasta sem Charcot hafði yfir að ráða.

blanche_stautur

Myndin á að sýna hvernig með léttri snertingu má kalla fram vöðvasamdrátt á kinnbeini Blanche. Hún birtist í 3. bindi
Iconographie photographique de la Salpêtrière, 1879-1880, og má sjá stóra útgáfu hennar í myndasafni á vef Yale háskóla,

Það var ekki að furða að menn flykktust á sýningar („fyrirlestra“) Charcot tvisvar í viku, og þóttu þær taka mörgum leiksýningum fram. Í frönskum dagblöðum var frammistaða Blanche iðulega borin saman við leikkonuna frægu Sarah Bernhardt og jafnvel talið að sú síðarnefnda gæti ekki leikið eftir það sem Blanche gat. Þetta varð auðvitað til þess að leikkonur sóttu líka „fyrirlestra“ Charcot og Sarah Bernhardt lagði meira að segja á sig að dvelja nokkra daga á Salpêtrière til að undirbúa sig almennilega undir dramatískt hlutverk.

Frægð Blanche einskorðaðist raunar ekki bara við sýningar á Salpêtrière, hún var líka lánuð á aðra spítala þar sem læknar voru að fást við tilraunir á hysteríu því hún var svo fullkominn hysteríusjúklingur, hún var í rauninni holdgervingur kenninga Charcot um hysteríu.Henni var leikur einn að sýna öll afbrigði hysteríunnar.

Málverk André Brouillet, Une leçon clinique à la Salpêtrière [Klínískur fyrirlestur á Salpêtrière], frá 1887 er risastórt, á því er Blanche nánast í líkamsstærð. Karlarnir sem sjást á málverkinu voru frægir á sínum tíma og eru sumir enn. Sjá má þá flesta merkta á undirsíðu baillement.com,  Stór ljósmynd af málverkinu sjálfu er á Wikipedia,

Málverk André Brouillet, Une leçon clinique à la Salpêtrière [Klínískur fyrirlestur á Salpêtrière], frá 1887 er risastórt, á því er Blanche nánast í líkamsstærð. Karlarnir sem sjást á málverkinu voru frægir á sínum tíma og eru sumir enn. Sjá má þá flesta merkta inn á málverkið á undirsíðu baillement.com.
Stór ljósmynd af málverkinu sjálfu er á Wikipedia,

Eftir lát dr. Jean-Martin Charcot fékk Blanche Wittmann ekki eitt einasta krampaflog, lömunarkast, æði eða nein þau hysteríueinkenni sem samrýmdust vísindalegri greiningu dr. Charcot á þessum sjúkdómi . Hlutverki hennar sem drottning hysteríunnar lauk með dauða kóngsins, Charcot, enda dó áhugi læknanna á Salpêtrière á hysteríu um leið, líklega einnig trú þeirra á vísindi Charcot varðandi þennan sjúkdóm.

Blanche dvaldi áfram á Salpêtrière, ekki sem sjúklingur heldur sem starfmaður. Hún vann á ljósmyndastofunni, rannsóknarstofum og loks á röngtenstofu þegar sú tækni kom til skjalanna. Fyrstu röngtentækin komu á Salpêtrière laust eftir aldamótin 1900. Menn höfðu lítinn skilning á hættunni sem fylgdi röngtengeislum og Blanche Wittmann varð eitt af fyrstu fórnarlömbum þeirra: Hún fékk óviðráðanlegt krabbamein. Það þurfti að taka af henni fingur, svo alla höndina, svo framhandlegginn, svo allan handlegginn, svo byrjaði sama sagan á hinum arminum.

Alla jafna var erfitt að fá hana til að rifja upp eða tala um stjörnuhlutverk sitt á gullöld hysteríunnar en á dánarbeði tókst þó að fá hana til að segja ofurlítið af þessu. Þá harðneitaði hún að nokkur leikaraskapur hefði verið í spilinu, hysterían eins og hún var skilin á dögum dr. Charcot hefði svo sannarlega verið raunverulegur sjúkdómur. Loks hreytti hún út úr sér að dr. Charcot hefði strax séð út sjúklinga sem hefðu reynt að gera sér upp hysteríueinkenni, það var ekki hægt að plata þann góða vísindamann.

Blanche Wittmann lést árið 1912.

 

Heimildir aðrar en krækt er úr í textanum

Alvarado, Carlos S. 2009. Nineteenth-century hysteria and hypnosis: A historical note on Blanche Wittmann. Australian Journal of Clinical and Experimental Hypnosis, 37. árg., 1. tbl., s. 21-36.

Hustvedt, Asti. 2011. Medical Muses: Hysteria in Nineteenth-Century Paris. W. W. Norton & Company, New York og London.

Marie dite “Blanche Wittman”.  Historix. Histoire de la radiologie aux hôpitaux de paris

 

Þessi pistill birtist áður í Kvennablaðinu 20. janúar 2014.

Eggjastokkapressa o.fl. við móðursýki

eggjastokkapressa

 

Þessi pistill er framhald af Charcot og hysterían

Dr. Jean-Martin Charcot fékk fljótt ómældan áhuga á hysteríu (móðursýki), sem sést m.a. á því að hann skrifaði tvöfalt fleiri greinar um hana en um nokkurt annað efni sem honum var hugleikið í taugalækningum. Eftir því sem áhugi hans jókst margfölduðust jafnframt hysteríugreiningar í sjúklingasafninu á Salpêtrière.

Hystería hafði til skamms tíma verið hálfgerð ruslakistugreining á ýmsum krankleika kvenna (sjá bloggfærsluna Hystería eða móðursýki) enda virtist sjúkdómurinn geta komið fram á ólíklegustu vegu. Einn helstu aðstoðarmanna Charcot, Bourneville, lýsti því prýðilega hvernig hystería einkenndist oft af miklum öfgum, t.d. gæti hysteríusjúklingur þjáðst samtímis af tilfinningaleysi og ofurnæmi; ofboðslegum þvaglátum og þvagteppu; svefnleysi og svefnsýki; þunglyndi og örlyndi o.s.fr. Margir hysteríusjúklingar sýndu ýmiss konar óhemjugang og fengu krampaflog í mismiklum mæli. Charcot sneri sér að því að flokka hin ólíku einkenni og koma einhverju skipulagi á óreiðuna.

Niðurstaða hans var að til væri sjúkdómurinn grand hystérie, meiriháttar móðursýki, sem væri taugasjúkdómur og ætti upptök sín í einhvers konar skemmd í heila (eða hugsanlega mænu). Charcot tóks hins vegar aldrei að finna skemmdina þá með krufningum. Hann skipti sjúkdómseinkennum grand hystérie í fjögur stig, tók þó fram að þau kæmu ekki endilega öll fram í hverju kasti, birtust ekki endilega í réttri röð og raunar gæti birtingarmynd hvers stigs verið mjög ólík eftir einstaklingum. Samt sem áður gæti nú hvaða læknir sem er greint sjúkdóminn grand hystérie eftir þessu skema sem hann hefði uppfundið:

  1. Krampar eða flog sem einkennast af vöðvakippum og vöðvaspennu. Flogboði (ára) eða einhvers konar undanfari kemur fyrst.
  2. „Grand movements‟: Hreyfingar sem líkjast fettum og brettum fimleikafólks í sirkús.
  3. „Attitudes passionnelles‟ (ástríðuþrungnar stellingar) þar sem hysteríusjúklingurinn sýndi sterkar tilfinningar á borð við ótta eða algleymi. Oftar en ekki voru þetta erótískar tilfinningar.
  4. Delirium, þ.e. óráð, æði eða rugl.

Forboði hysteríukasts

Forboði

Krampar

Krampar

Grand movements

Grand movements

Ástríðuþrungin stelling

Ástríðuþrungin stelling

Teikningarnar eru úr bók Paul Marie Louis Pierre Richer, samstarfsmann dr. Charcot, Études cliniques sur l’hystéro-épilepsie ou grande hystérie, sem kom út 1881. Hún er aðgengileg á Vefnum og titillinn krækir  í fyrri yfirlitsmyndasíðu þar sem sjá má ýmsar birtingarmyndir þessara fjögurra stiga í hysteríu-ramma Charcot – ef einhver skyldi nú vilja sjúkdómsgreina eftir þeim.

Það merkilega skeði að þegar Charcot var búinn að finna upp þennan ágæta ramma fóru hysterísku konurnar á Salpêtrière að sýna einmitt þessi einkenni og óreiðan í sjúkdómseinkennum minnkaði að mun.

 

Meðhöndlun hysteríusjúklinga

Þótt stundum sé gert mikið úr því að Charcot hafi greint hysteríu í einstaka karlmanni miðuðust öll hans fræði við kvenlíkamann og verður að álykta sem svo að hann hafi talið hysteríu aðallega kvennasjúkdóm. Þar sem fyrri tíðar læknar höfðu verið uppteknir af áhrifum legsins í hysteríu sneri Charcot sér að brjóstum og eggjastokkasvæði, sem var vissulega nýlunda. Hann uppgötvaði ákveðna bletti, hysteríupunkta, á líkamanum og að þrýstingur á þá gat ýmist stöðvað hysteríukast eða komið því af stað, jafnvel var hægt að stjórna hinum fjórum grunnstigum í sjúkdómsgreiningarramma Charcot með þéttum þrýstingi á þessa punkta.

Til að byrja með notuðu Charcot og aðstoðarmenn hans einfaldlega hnúa og hnefa til að þrýsta á þessa punkta en svo fann hann upp eggjastokkapressuna. Eggjastokkasvæðið var næmast, að mati Charcot, og með þessari græju mátti skrúfa duglegan þrýsting á þá hysteríupunkta. Titilmynd þessa pistils er einmitt af eggjastokkapressu Charcot; Móðursjúk kona íklæddist svoleiðis málmbrók og ef á þurfti að halda var skrúfan hert. (Teikningin er merkt þeim Désiré-Magloire Bourneville og Paul Regnard. Hún birtist í 3. bindi Iconographie photographique de la Salpêtrière 1878.)

 

Hysteríupunktar að framan

Hysteríupunktar að framan

Hysteríupunktar að aftan

Hysteríupunktar að aftan

Teikningarnar sem sýna hysteríupunktana eru  úr Études cliniques sur l’hystéro-épilepsie ou grande hystérie.

Charcot uppgötvaði að það væri auðvelt að dáleiða hysteríusjúklinga og í dáleiðslunni yrði sjúkdómsmyndin miklu skýrari og þ.a.l. auðrannsakanlegri. Hann taldi að einungis væri hægt að dáleiða þá sem væru haldnir hysteríu, ekki aðra, og lenti í talsverðum deilum við kollega sína á öðrum spítala í París sem héldu því fram að hægt væri að dáleiða hvern sem er.

Hægt var að gera ýmsar áhugaverðar tilraunir á hysterískum dáleiddum konum. Charcot og félagar prófuðu sig áfram með að koma inn fölskum minningum, láta þær sjá ofsjónir o.þ.h. en höfðu sérstakan áhuga á að skoða hvernig hægt væri að koma þeim fyrir í ýmsum stellingum sem fólk er alla jafna ekki í; eitt einkenni hysteríu var nefnilega stjarfi og því einkar skemmtilegt og vísindalegt að skoða hvernig stjarfur líkami hélst í undarlegri stellingu tímunum saman. Þetta var líka einkar þægilegt upp á ljósmyndun að gera því þeirra tíma ljósmyndatækni krafðist þess að viðfangið væri kjurt í talsverða stund.

Augustine Gleizes lögð yfir stólbök. Myndina tók Paul Regnard og hún birtist í ársriti Charcot, Iconographie photographique de la Salpêtrière, 3. bindi 1879-1880.

Augustine Gleizes lögð yfir stólbök. Myndina tók Paul Regnard og hún birtist í ársriti Charcot, Iconographie photographique de la Salpêtrière, 3. bindi 1879-1880.

 

Þessi mynd af Augustine Gleizes birtist í sama hefti ársritsins.

Þessi mynd af Augustine Gleizes birtist í sama hefti ársritsins.

 

Með þrotlausum tilraunum áttuðu læknarnir sig svo á því að ef líkaminn var settur í einhverja þá stellingu sem táknaði eindregna tilfinningu þá breyttist andlitssvipurinn og lýsti sömu tilfinningu. Þeir rannsökuðu þetta merkilega taugafræðilega fyrirbæri af kappi.

Stelling sem táknar ótta

Stelling sem táknar ótta

Augustine Gleizes í stellingu sem á að tákna gleði og eftirvæntingu

Augustine Gleizes í stellingu sem á að tákna gleði og eftirvæntingu

Guillaume-Benjamin-Amand Duchenne (de Boulogne) að vísindastörfum

Guillaume-Benjamin-Amand Duchenne (de Boulogne) að vísindastörfum

Charcot var svo heppinn að kynnast taugalækni, Duchenne hét sá og hélt hann bæði upp á ljósmyndun og  rafmagnstilraunir. Svo heillaðist Charcot af hinni nýju ljósmyndatækni að hann lét útbúa sérstakt stúdíó á Salpêtrière. Í samvinnu við Duchenne voru svo gerðar tilraunir með að breyta andlitssvip með rafstraumi og gá hvort stelling líkamans fylgdi á eftir. Svo varð og þótti mjög merkilegt.

Til að ganga úr skugga um að sjúklingur væri ekki að leika og ljúga upp á sig hysteríu (en leikaraskapur var einmitt eitt af einkennum hysteríu og því erfitt að þekkja þetta í sundur) voru ýmis próf. Má nefna að til að athuga hvort sjúklingurinn væri raunverulega með tilfinningalausa bletti á húð var stungið í hann nálum eða logandi eldur borinn að svæðinu. Til að athuga hvort lamaðir útlimir væru raunverulega dofnir voru reknir prjónar í gegnum þá. Rannsóknarmenn tóku og eftir því að í raunverulegum hysteríutilfellum blæddi miklu minna úr sárunum en alla jafna var raunin í sjúklingum sem ekki voru hysterískir og var veittur sams konar áverki.

Margar tilraunir voru gerðar með segulmagn og skiluðu þær merkilegum niðurstöðum. Ef segli var haldið að lamaðri hlið hysterískrar konu færðist lömunin yfir á hina hliðina; ef segull var borinn upp að blindu auga hysterískar konu fékk hún sjón á því auga en hitt augað varð blint; þannig mátti og spegla litblindu, heyrnarleysi, tilfinningaleysi í húð og margt fleira.

Eitt sterkt hysteríueinkenni var óvenju næmt húðskyn og stundum sérstök ofnæmisviðbrögð. Því gerðu menn tilraunir með dermagrafíu, þ.e. húðritun. Hægt var að skrifa á hysteríska konu með einhverju sæmilega oddhvössu verkfæri og nokkru síðar birtust skrifin upphleypt á húðinni, voru jafnvel margar vikur að hverfa. Þetta kallaði á áhugaverðar tilraunir, s.s. að kanna hvort skrift á lærum, brjóstum eða maga héldist jafn lengi, hvort skipti máli hvað var skrifað o.s.fr.

 

Húðritun

Myndin er úr grein Ernst Mesnet, “Autographisme et stigmates” í Revue de l’hypnotisme experimental et thérapeutique, 1889– 1890.

Húðritun

Titill myndarinnar er
Démence Précoce Catatonique Dermographisme og hún er merkt L Trepsat (sem gæti verið ljósmyndarinn), 1893. Myndin birtist í Nouvelle Iconographie de la Salpêtrière, 1904. Hún sýnir hvernig sjúkdómsheitið, sárasóttargeðveiki, hefur verið ritað á húð hysterískrar konu.

 

Hysteríusýningar

Það er ekkert sem bendir til þess að Charcot hafi verið umhugað um að finna lækningu við hysteríu. Meðhöndlun hans á hysterískum konum var fyrst og fremst í rannsóknarskyni, hann vildi glöggva sig á þessum merkilega taugasjúkdómi og helst að finna vefræna orsök hans.

Tvisvar í viku hélt hann opinbera „fyrirlestra‟, þar sem hann sýndi sjúkdómstilvik, þ.e.a.s. sjúklinga, og útskýrði einkennin. Hysteríusýningar hans urðu víðfrægar og gengu sögur um að umferðaröngþveiti yrði í París þegar allir vildu komast á hysteríusýningu dr. Charcot! Læknar, skáld, listamenn, heimspekingar og aðrir andans menn flykktust til Parísar til að verða vitni að þessum merkilegu læknisfræðiuppgötvunum dr. Charcot; hróður hans og fræði bárust og víða.

Nokkrar hysteríustjörnur komu fram á sjónarsviðið, þ.e.a.s. sjúklingar sem létu prýðilega að stjórn og sýndu rétt hysteríueinkenni á réttum tíma á svona sýningum. Þetta voru allt ungar konur, sumar þeirra þóttu og fagrar og föngulegar. Frægust þeirra, díva hysteríunnar, var Blanche Wittman, sem gerð verða skil í næsta pistli.

 

Heimildir aðrar en getið er í textanum

 

Alvarado, Carlos S. 2009. Nineteenth-century hysteria and hypnosis: A historical note on Blanche Wittmann.  Australian Journal of Clinical and Experimental Hypnosis, 37. árg., 1. tbl., s. 21-36.

Dysert, Anne. 2013. Iconographie photographique de la SalpêtrièreDe re medica. News from the Osler Library of the History of Medicine.

Hustvedt, Asti. 2011, Medical Muses: Hysteria in Nineteenth-Century Paris. W. W. Norton & Company, London og New York.

Shorvon, Simon. 2007. Fashion and cult in neuroscience – the case of hysteria. Brain 130. árg. 12. tbl., s. 3342-3348.

Safn mynda úr Iconographie photographique de la Salpêtrière (tímariti sem Charcot og félagar gáfu út) á í læknisfræðisafni Harvey Cuching/John Hay Whitney á vef Yale háskólans.

 

Þessi færsla birtist í Kvennablaðinu 16. janúar 2014.

 

Jean-Martin Charcot

 

napoleon_neurosis_litilJean-Martin Charcot (1825-1893) var afar mikils metinn franskur taugalæknir um sína daga og er í sumu enn. Hann skilgreindi fyrstur hreyfitaugungahrörnun (MND, stundum kölluð Charcot veikin í Frakklandi), heila- og mænusigg (MS-sjúkdóminn eða multiple sclerosis), jók mjög við þekkingu manna á Parkinson-sjúkdómnum, greindi fyrstur tabes dorsalis (mænutæringu, sem er taugasjúkdómur af völdum sárasóttar) og blandaða hreyfitaugahrörnun (ALS eða Lou-Gehrigs-sjúkdóm). Seinni hluta ævinnar snéri hann sér að því að rannsaka hysteriu.

 

Jean-Martin Charcot var næstelsti sonur vagnasmiðs í París. Þótt fjölskyldan tilheyrði verkamannastétt var hún alls ekki fátæk en svo sem heldur ekki auðug. Til var nægt fé til að mennta einn sonanna og faðir hans ákvað að það skyldi vera Jean-Martin. Elsti sonurinn átti að taka við vagnasmiðjunni og hinir tveir að ganga í herinn. Þótt Charcot væri sérlega listfengur, unnandi bókmennta og ágætur teiknari frá unga aldri, sá hann að listnám væri heldur ótryggt veganesti og veðjaði í staðinn á læknisfræði til frægðar og frama. (Þótt það komi efni þessa færsluflokks ekkert við læt ég þess getið að Jean-Martin Charcot var faðir Jean-Baptiste Charcot, læknisins og pólfarans knáa sem fórst með skipi sínu Pourquoi-Pas? þann 16. september 1936 við Álftanes á Mýrum).

 

Salpêtrière-spítalinn

Það kom e.t.v. einhverjum á óvart þegar hinn metnaðargjarni læknir Jean-Martin Charcot sóttist eftir yfirlæknisstöðu á Salpêtrière-spítalanum í París síðla árs 1861 og fékk starfið. Þessi stofnun átti sér langa sögu, var upphaflega byggð sem saltpétursgeymsla fyrir púðurgerð (þaðan er nafn spítalans dregið), síðar varð þetta geymsla fyrir vandræðakonur af ýmsu tagi, loks einhvers konar sjúkraheimili fyrir konur. Salpêtrière á sinn sess í sögu geðlækninga því það var þarna sem Philippe Pinel leysti geðsjúkar konur úr hlekkjum árið 1795, svo sem frægt er (krækt er í málverk sem sýnir atburðinn).  Enn þann dag í dag er Salpêtrière í fullum rekstri, nú sem almennt sjúkrahús, meira að segja virtur kennsluspítali, og heitir Pitié-Salpêtrière. Salpêtrière kemur því einnig við sögu nútímans, með allt öðrum hætti þó, má nefna að Díana prinsessa var flutt með hraði á þennan spítala eftir hörmulegt bílslys þann 31. ágúst 1997. Menn vita hvernig það fór.

 

Þegar Charcot hóf störf Salpêtrière voru um 5000 konur á spítalanum, um helmingurinn taldur geðsjúkur en hinar voru fátæklingar sem voru illa farnir af ýmsum líkamlegum sjúkdómum, þar á meðal flogaveiki og hysteríu. Þessir ólíku sjúklingar voru meira og minna í einni kös í þessu „stórfenglega hæli mannlegrar eymdar“ sem Charcot kallaði svo. Þetta virtist ekki vera lokkandi pláss fyrir framagjarnan lækni. En Charcot sá tækifæri þar sem aðrir sáu tóm vandræði.

 

Salpêtrière var stærsti spítali í Evrópu og eiginlega „borg í borginni“ París. Þarna voru meir en hundrað byggingar af ýmsu tagi og frá ýmsum tímum, þröngar götur og stígar á milli þeirra, garðar og port og skúmaskot. Þarna var ræktað grænmeti, rekið pósthús, þvottahús sem þvoði allan þvott fyrir ríkisrekna spítala í París, saumastofur o.m.fl. Sjúklingar unnu eftir mætti á þessum stöðum, ásamt því að vera „gangastúlkur“, þ.e.a.s. aðstoða hjúkrunarkonurnar, og þágu lúsarlaun fyrir. Í Salpêtrière var einnig slökkvilið, tvær kirkjur (mótmælenda- og kaþólsk), verslun, kaffhús og starfandi vínkaupmaður. Þar voru meira að segja haldin böll; Geðveiku böllin á Salpêtrière voru mjög vinsælt þáttur í árlegu karnivali Parísarbúa og vel sótt af sjúklingum, læknum og öðru starfsfólki spítalans og borgarbúum. (Sjá nánar Bal des folles à la Salpêtrière á Wikipedia.)

gedveikt_ball

 

Charcot varð óumdeildur leiðtogi þessarar „borgar í borginni“ og eftir því sem hróður hans óx gáfu dagblöðin honum titla á borð við „Caesar Salpêtrière“ eða „Napoleon taugasjúkdómanna“ („Napoleon de la nevrose“).

Og sem orðstír Charcot óx og hann komst til æ meiri virðinga í læknasamfélagi Parísar (og Frakklands og raunar allrar Evrópu) lét hann gera ýmsar umbætur á sinni aðstöðu: Sett var upp fyrsta flokks rannsóknarstofa til að rannsaka vefsýni með fullkomnustu smásjám þeirra tíma, stór fyrirlestrarsalur var byggður enda vildi fjöldi manns hlýða á dr. Charcot og njóta sýninga hans, ekki síst eftir að hann snéri sér að hysteríurannsóknum og meðfylgjandi hysteríusýningum (sem oftast eru kallaðar fyrirlestrar í umfjöllun lækna). Charcot breytti sem sagt Salpêtrière úr stórfenglegu hæli mannlegrar eymdar í frábært kennslusjúkrahús. Hann laðaði að ýmsa afburðalækna og aðra fræðimenn sem dáðust óspart að honum (a.m.k. meðan hann var lífs), s.s. Joseph Babinski (sem uppgötvaði Babinski-viðbragðsprófið), Georges Gilles de la Tourette (sem fyrstur lýsti Tourette sjúkdómnum, raunar var það Charcot sjálfur sem kom því til leiðar að sjúkdómurinn væri kenndur við hann); Alfred Binet (annar höfundur greindarprófs sem enn notað) og Sigmund Freud, svo einhverjir séu nefndir.

 

Af hverju vildi Charcot ná yfirráðum yfir Salpêtrière?

Fyrir taugalækni sem vildi uppgötva eitthvað nýtt var Salpêtrière kjörið pláss. Þarna ægði saman alls konum með alls konar krankleika, enda kallaði Charcot standið á Salpêtrière „ringulreið heilsubrestanna“ og vatt sér svo í að sortéra og greina á vísindalegan hátt. Hann hélt mjög nákvæmar sjúklingaskrár og brúkaði ýmsar nýstárlegar aðferðir til að mæla sjúkdómseinkenni, t.d. að festa fjaðrir á höfuð sjúklinga til að greina milli mismunandi skjálfta eða titrings og að nýta nýuppfundið spygmograph (frumstæðan púlsmæli) sömuleiðis til að mæla titring og skjálfta. Í sjúkraskránum eru ekki bara textar heldur heilmikið af teikningum og kom sér vel að Charcot var drátthagur, sem og margir hans aðstoðarmenn.

Charcot var einlægur dýravinur og gerði því aldrei kvikskurð á dýrum í rannsóknarskyni. Stór hluti sjúklinganna á Salpêtrière voru gamlar konur eða konur komnar að fótum fram. Þess þurfti því yfirleitt ekki lengi að bíða að sjúklingur sem hafði verið kyrfilega mældur og veginn og sjúkdómseinkenni hans vandlega skráð í riti og teikningum ræki upp tærnar svo hægt væri að kryfja hann. Með því að bera saman vefsýni við ítarlega skráð einkenni ýmiss krankleika („klínísk-pathológíska aðferð“ kallar höfundur greinar á íslensku þetta, sjá Sigurjón B. Stefánsson. 2010) komst Charcot ótrúlega langt áleiðis í að skilja og greina uppruna eða einkenni ýmissa taugasjúkdóma, s.s. nefnt var í upphafi þessarar færslu. Og komst hjá því að gera dýratilraunir – síst af öllu vildi hann meiða dýr.

Af hverju snéri Charcot sér að hysteríu?

Tja, ástæðan er nánast tilviljun. Salpêtrière var löngum yfirfullt og um 1870 tók stjórn spítalans þá ákvörðun að hann skyldi aðallega sinna „einfaldri flogaveiki“, þ.e.a.s. flogaveiki- og hysteríusjúklingum. Flestir geðveiku sjúklingarnir voru fluttir á annan spítala og öðrum tvístrað.

Charcot áleit að hystería væri taugasjúkdómur, ekki geðsjúkdómur. (Raunar hafði hann engan áhuga á geðsjúkdómum, sem m.a. sést í því að í öllu því greina-og ritaflóði sem frá honum kom um ævina er einungis ein grein um geðsjúkdóm (nánar tiltekið um samkynhneigð/hómósexúalisma) sem hann er skráður höfundur fyrir ásamt geðlækni (alienistar voru þeir kallaðir á þessum tíma) – og flestir telja að Charcot hafi einungis ljáð nafn sitt en ekki komið nálægt skrifum greinarinnar.)

Hann tók því til óspilltra mála að greina hysteríu og leita uppi þá vefrænu skemmd sem ylli sjúkdómnum, alveg eins og hann hafði greint og fundið orsakir annarra taugasjúkdóma. Um þá iðju Charcot fjallar næsta færsla.

 

Heimildir:

Hustvedt, Asti. 2011. Medical Muses: Hysteria in Nineteenth-Century Paris. W. W. Norton & Company, New York og London.

Régnier, Christian. 2010. Gunpowder, madness, and hysteria: the birth of neurology in France Vignettes of five great neurologists who made history at the Salpêtrière Hospital in Paris: Jean-Martin Charcot (1825-1893), Pierre Marie (1853- 1940), Joseph Babinski (1857-1932), Jean Lhermitte (1877-1959), Paul Castaigne (1916-1988). Medicographia. 2010;32, s.310-318

Sigurjón B. Stefánsson. Taugalæknisfræði sérgrein verður til. Læknablaðið 2010/96. Fylgirit 64, s. 59-102.

 

Myndin af Charcot sem fylgir þessari færslu var gjöf hans til Sigmund Freud 1886.

Neðri myndin er af geðveiku balli á Salpêtrière og birtist í Le Monde Illustré þann 22. mars 1890.

 

Þessi færsla tilheyrir færsluröð um hysteríu, er önnur í röðinni. Sú fyrsta er Hystería eða móðursýki.

 

Hystería eða móðursýki

Í þessari færslu og þeim næstu verða skoðaðar hugmyndir lækna um hysteríu (móðursýki), dularfullan sjúkdóm sem einkum hrjáir kvenfólk. Ástæður þess að ég hef áhuga á að skoða þetta efni eru nokkrar. Má nefna að að ég tel að rekja megi ýmsar hugmyndir nútíma geðlækna, eða öllu heldur goðsagnir sem þeir hafa fyrir sannar, til gamalla hugmynda um hysteríu. Sömuleiðis má benda á að hystería lifir enn góðu lífi í greiningarlyklum geðsjúkdóma þótt undir öðrum heitum sé. Vísindalegar rannsóknir dr. Charcot á hysteríu sem urðu til að koma sjúkdómnum virkilega í tísku meðal geð-og taugalækna á sínum tíma er líka fróðlegt að skoða til að átta sig á hvers lags vísindi voru (og jafnvel eru) stunduð í geðlækningum en ekki hvað síst til að varpa ljósi á samspil sjúklinga og lækna í sjúkdómsgreiningu og meðferð geðsjúkdóma.

Bloggið mitt er öðrum þræði mitt eigið gagnasafn svo þessi færsla einkennist talsvert af mjög löngum beinum tilvitnunum í texta annarra, sem ég get svo vísað í síðar í samantekt/umfjöllun um efnið.

 

Hystería er gamalt sjúkdómsheiti og er nafnið dregið af gríska orðinu hystera (ὑστέρα) sem þýðir leg/móðurlíf. Á íslensku var til skamms tíma notast við orðið móðursýki til að þýða hysteríu, íslenska orðið er líklega hugsað eins og orðið hystería. Seint á síðustu öld tók orðið sefasýki við en núna eru notuð ógagnsærri orð yfir hysteríu.

Frá fornu fari var legið talið óstöðugt líffæri sem gat flækst um líkama konunnar: „ […] móðurlífið lyfti sér upp úr grindinni og teygði sig upp í holið (ascensus uteri), jafnvel alla leið upp í háls (globus hystericus)‟. (Tilvitnun í Hirsch 1886 í Vilmundur Jónsson. 1949:264). Allt fram á nítjándu öld (og jafnvel lengur) röktu menn ýmsa kvilla sem hrjáðu konur til móðurlífsins, ekki hvað síst geðræna kvilla, þótt tengsl kvillanna við líffærið væru oft á tíðum algerlega óljós.

Síðari hluti nítjándu aldar og upphaf þeirrar tuttugustu var gullöld hysteríunnar, má segja að hysteríufaraldur hafi geisað um Evrópu á þeim tíma. Þótt karlar væru greindir hysterískir af og til var hysterían fyrst og fremst kvennasjúkdómur.

 

Hystería á Ísland á fyrri tíð

Hér á Íslandi er hysteríu lítið getið fyrr en komið er seint á átjándu öld, eftir því sem ég kemst næst. Seinni tíma læknar, t.d. Sigurjón Jónsson, sem skrifaði bókina Sóttarfar og sjúkdómar á Íslandi 1400-1800, útg. 1944, hafa viljað túlka ýmsar lýsingar í eldri ritum sem hysteríu en eru þá að túlka textana út frá eigin hugmyndum um sjúkdóminn hysteríu, sem segir vitaskuld takmarkað um hugmyndir manna á þeim tíma sem þeir voru skrifaðir. Þó má finna einstök gömul íslensk dæmi um sjúkdómsgreininguna hysteríu, á sautjándu og átjándu öld.

Sr. Þorkell Arngrímsson, sem var menntaður læknir auk prestskapar, getur hysteríu með nafni einu sinni í sinni lækningadagbók, sem hann hélt frá 1652 og líklega til æviloka 1677. Frumhandrit Þorkels hefur ekki varðveist en uppskriftin er talin áreiðanleg. Í þessu eina dæmi, merkt XX og ársett 1657, segir af fimmtugri konu sem haldin er „dolor hystericis‟, með miklum kvíða og svefnleysi. Sr. Þorkell byrjaði á því að „hreinsa líkamann‟ með laxerandi lyfi leyst upp í vínanda (spiritus aureus), og gefa einhver jurtalyf sem áttu að virka sérstaklega á legið (herba uterina). Til að vinna á svefnleysinu gaf hann daglega ópíumlyf (Pilulae Laudani uterinae Hartmanni) og ráðlagði jafnframt að samsett duft, tæp 4 grömm, skyldi leysa upp í hvítvíni og drekka í einum sopa á hverjum degi. Í duftinu var hvítt raf (succinum albi), mulin hjartarhorn (cornu cervi philosophice praeparatum) og rauður kórall (corallium rubrorum). Ekki segir hve marga daga beita skyldi þessum lyfjum og ekki segir af árangri meðferðarinnar.

Vilmundur Jónsson landlæknir, sem sá um útgáfu læknadagbókar sr. Þorkels árið 1949, telur að í sex öðrum sjúkdóms/lækningaskrám Þorkels séu dæmi um móðursýki. Í þeim notar Þorkell ekki orðið hystería og er ómögulegt að vita hvort hann taldi sjúkdómseinkennin til hysteríu eða hvort það er síðari tíma túlkun Vilmundar Jónssonar.

Rétt tæpum 140 árum síðar lýsir Sveinn Pálsson hysteríu ítarlega í greininni Tilraun að upptelja sjúkdóma þá er að bana verða og orðið geta fólki á Íslandi, sem birtist í Riti þess (konunglega) íslenzka lærdómslistafélags árið 1794. (Titillinn krækir í umfjöllunina um hysteríu, s. 128-130, á timarit.is.) Sveinn rekur líklegar orsakir sjúkdómsins og bendir á læknisráð. Mörg læknisráðanna eru móðins nú á tímum við ýmsum þeim krankleik sem illa gengur að lækna með hefðbundinni læknisfræði eða eru talinn æskilegur lífstíll.

Hér er texti Sveins Pálssonar í grein 58 stafréttur en ég hef bætt í hann greinaskilum:

Móðursýki (hysteria, Modersyge) er almennr kvennasiúkdómr hér á landi, á þó eckert skyldt við kélisýki eðr brókarsótt (erotomania five [sive?] nymphomania), sem margra flökku [?] lækna meining er. Siúklingar þessir quarta þráfalt um veiki sína, skíra nærsta ítarliga og fabreitit frá henni, plagaðar eru þær sérdeilis af ropum, vindgángi og uppþembu, finnz þeim køckr stígi uppí hálsinn, og þær ætle að missa andann, stundum er sem bandi sé reyrt um bríngsmalirnar og brióstit, þær eru aldrei nema at geispa [?], þiáz af hrolli, kulda og einhverslags umsløgti í kroppnum enda þótt heitt sé í veðri, stundum hlaupa sina drættir hingat og þángat í kroppnum ímist sem kaldt vatn renni milli skinns og hørunds, ímist með fliúgandi hita, sem í augabragdi þýtur uppí andlit þeim, þær fá hræðslu og sinnis óróleik af hveriu einu, jafnvel aungvit og niðrfalls teygiur.

Þvag þeirra er optast klárt og mikit, harðlífi, hiartsláttr, høfuðpína og þúngsinni er þeim eiginlegt, kallar fólk þetta alt køldu, uppstíganda, giørninga, og nær því alt er nøfnum tiáer at nefna.

Høfuð orsakir þessarar veiki meðal almúga eru: allra handa úreglur, og smá meinsemdir í moðirlífinu, illa með høndlaðar sóttir, mánaðar teppa, og harðar fæðingar; enn fleira hiálpar hér til, svo sem viðkvæmni sina-kerfisins, sem kvennfólki er eigenligra en karlmønnum, bráðlindi, sorg, illa luckaðr kiærleiki, og fleira þvílikt;

lækníngarmátin í veiki þessari er næsta lángsamr, og einkum innifalin í nákvæmri lifnaðar orðu; allskyns jarðargróði og maturtir, skulu þessara siúklinga helsta fæða á øllum ársins tíðum, einkum á morgna eðr framann af deigi, enn minna af kiøti, feitætum, fínu brauði eðr sérmeti, allskyns áfeingir dryckir skaða, enn fyri dagligann dryck er eckert betra en nýmiólk og mysa, samt þessámilli vallhumals-thee.

Miøg ríðr á at hægðir séu ætíð góðar, og er teygr af køldu vatni druckinn hvern morgun fastandi, sumum þar til einkar góðr; annars má þessámilli, brúka stólpípur og hægt laxerandi meðøl.

Ydiuleisi er nærsta skaðligt, enn fá sér sem flest til at giøra, þeinkia sem skialdnast um siálfan sig, og nockru fyrir middeiges-matar nautn taka sér góða hræríng, er ómissandi; þessi lifnaðar orða, er nauðsynlig hver helst sem orsøkinn er til nefnds veikleika, þaraðauk þarf nockr meðøl.

Sé þá innvortis teppur orsøkinn, skal jafnaðarliga brúka uppleysandi púlver, qvikróta [?] seydi, vallar fífla róta seyði og svo framveigis. Sé teppt mánaðarás í veigi, skal ráða bót þar á; eins ef veikin hefir sinn uppruna af ormum eðr øðrum siúkdómum, skal fyrst undirþvinga þá. Blóð skal þeim feitu og holdigu taka 2r eða 3svar á ári framum 60s aldur. Sé ofur kraptaleysi líkamanns og sina kerfisins orsøk, eru køld sióar- eðr vatnsbøð næsta þénanlig. Annars fylgi sinadrættir, eru móður-pillúrnar eins brúkaðar og sagt er í [grein] 55 nauðsynlegar.

Grein 55 fjallar um tíðateppu. Á s. 125 er minnst á móðurpillur og innihaldsefni þeirra rakin í neðanmálsgrein en ég skil ekki hver þau eru nema það sem seinna var nefnt laukdropar en eiga ekkert skylt við lauk, sjá síðar í færslunni. Ekki veit ég hvað qvikróta seyði er en dettur í hug seyði af rótum húsapunts sem heitir kvickrot á sænsku, almindelig kvik á dönsku. Seyði af þeim rótum er sætt á bragðið og þótti hollur drykkur, jafnvel með lækningamátt, í Skandinavíu. Ég man hins vegar ekki til þess að hafa séð húsapunts getið í eldri umfjöllun um íslensk jurtalyf.

 

Hystería kvenfólks sló gersamlega í gegn sem spennandi geðsjúkdómur fyrir lækna þegar franski taugalæknirinn Jean-Martin Charcot hóf hana til vegs og virðingar á áttunda áratug 19. aldar. Segir af áhuga Charcot og vísindalegum rannsóknum hans á fyrirbærinu í næstu færslu. Líklega sér þessara vinsælda merki í Lækningabók handa alþýðu á Íslandi Jónasar Jónassen læknis, sem kom út rétt tæpri öld eftir að Sveinn Pálsson skrifaði sína lýsingu á hysteríu, eða 1884. (Hér er krækt í umfjöllun um hysteríu í stafrænni útgáfu bókarinnar.)

Jónas helgaði sjúkdómnum móðursýki heilan kafla í bók sinni, s. 349-354, og gerir því skóna að veikin hrjái einungis konur. Séu umfjallarnir Sveins og Jónasar bornar saman sést vel hvernig sjúkdómshugtakið hefur tútnað út; sjúkdómseinkennin eru orðin miklu fleiri og fjölbreyttari, en lækningaraðferðir eru jafn fábreyttar sem fyrr.

Í upphafi segir Jónas Jónassen: „Móðursýki er sjúkdómur, sem dregur nafn sitt af lífmóðurinni (barnsleginu), af því að menn áður á tímum (eins og reyndar nokkrir gjöra enn) álitu að veikin hefði aðalupptök sín í barnsleginu. Nú skoða allflestir móðursýkina sem taugakennda veiki, sem sjerstaklega lýsir sjer með æsing í öllu taugakerfinu og miklu ólagi á því.‟ Í neðanmálsgrein lætur hans þess getið að „Almenningur nefnir þessa veiki opt „hjartveiki‟ „þankabrot‟ „að kvennmaðurinn sje með þungum þönkum‟ o.s.frv.”

Að mati Jónasar Jónassen er hystería afar algeng, einkum í sveitum:

Hjer á landi er, eins og flestum er kunnugt, móðursýkin mjög almenn, og dregur án efa margt til þess; hún virðist vera langtum almennari til sveita en í kaupstöðum; hver orsökin er til þessa skal ég láta ósagt; það þykist jeg sannfærður um, að lifnaðarháttur og allt heimilislífið til sveita eigi hjer mestan hlut að máli. (s. 353)

Jónas setur fram kenningu um orsök hysteríu. Hún stafar auðvitað af ólagi, ekki á boðefnaskiptum heilans eins og nútímageðlæknisfræði leggur oft áherslu á eða flækingi legsins eins og gamla læknisfræðin gerði ráð fyrir, heldur á ólagi í samsetningu blóðsins. Hins vegar geta sjúkdómseinkennin komið fram í margvíslegu ólagi á “á öllu því, er snertir fæðingarparta kvennmannsins”. Hystería er arfgeng að mati Jónasar. Í leiðinni bendir hann á að þetta sé lúmsk sótt sem geti vel orðið til þess að einhver bóndinn eða eiginmaðurinn kaupi köttinn í sekknum:

Veikin byrjar aldrei allt í einu heldur smátt og smátt, og því er það, að hún opt og tíðum er byrjuð löngu áður en nokkurn varir; hún byrjar optast nær á aldrinum frá 16-30 ára, og það álitið sannreynt, að hún næstum eingöngu kemur í þá, sem eiga taugaveiklaða í ætt sinni; það er algengt að dóttirin erfi veikina eptir móður sína. Á móðursjúkum kvennmanni er samsetning blóðsins ávallt röng, og eru öll líkindi til, að þetta sje ein af aðalundirrótum veikinnar, sem kemur fram í svo óendanlega mörgum myndum, en sem langoptast er samfara jómfrúrgulu, hinu svo nefnda blóðleysi og öllu hinu margvíslega ólagi, sem er á meltingunni og sjerstaklega á öllu því, er snertir fæðingarparta kvennmannsins á hinum áður um getna aldri. Það ber eigi allsjaldan við, að móðursýkin þjáir þann kvennmann, sem fyrir manna sjónum lítur hraustlega og blómlega út, en allt fyrir það er sannreynt að sá kvennmaður reynist þollítill og miklu lakari til allrar vinnu en maður skyldi ætla, að dæma eptir útliti hennar, og á þetta rót sína í hinni röngu samsetning blóðsins. (s. 350)

Um einkenni sjúkdómsins segir Jónas: „Móðursýkin lýsir sjer með óendanlega mörgu og margvíslegu móti, svo að eigi er hægt að gefa neina lýsingu á veikinni, sem á við í hvert skipti.‟ (s. 350) Hann gerir svo sitt besta til að telja upp einhver af þessum óendanlega margvíslegu einkennum á s. 351-353. Þetta er auðvitað ómetanleg sjúkdómslýsing svo hún er birt hér nánast óstytt, myndskreytingar eru mínar:

Æsingin, sem er í taugakerfinu, lýsir sjer sjerstaklega með ákaflega næmri tilfinningu, og hvað snertir skilningarvitin, þá ber opt og tíðum mjög mikið á því, að taugar þeirra eru í æsingu; þannig sjáum vjer mjög títt að móðursjúkur kvennmaður þolir illa mikla eða skæra birtu; heyrnin er opt fremur venju góð og smekkurinn mjög næmur og frábrugðinn því sem venjulegt er. Hörundið er allt miklu viðkvæmara; sjúklingurinn þolir nú ef til vill alls ekkert kul eða hlýju og hvað lítið sem hörundið særist, kennir hún sviðaverks; sama er og að segja um vöðvana, að þeir eru svo viðkvæmir, að hvað lítið sem á þá er reynt, linast þeir og þola svo enga áreynslu, hún fær þá verki í liðamótin (einkum hnjelið og mjaðmarlið), beinin og í allar taugar, og bakverkur er þá mjög algengur, sem og verkir í kviðnum og aptan á hálstaugunum. Sama viðkvæmni kemur og í innvortis parta; og má svo segja, að ónota tilfinning leggi alveg úr kokinu og niður í endaþarm; í kokinu og hálsinum er opt pínandi herpingur, í maganum uppþemba og önnur ónot, sem versna við hvað lítið sem hún nærist á; garnameltingin er í ólagi, því annaðhvort er harðlífi eða niðurgangur, og eins er þvagblaðran opt svo viðkvæm, að hvað lítið sem í hana kemur af þvagi vill hún losast við það, og konunni er því sífellt mál að kasta þvagi. Hjartsláttur og æðasláttur með titringi og óstyrk í öllum taugum er venjulega mikill.

 hysteria_mynd_krarmpar_2[…] af þessari miklu og óeðlilegu viðkvæmni … [er] sjúklingnum […] ávallt svo hætt við krampa, sem þá getur lýst sjer með margvíslegu móti; stundum eru krampanum samfara yfirlið og verður opt að halda sjúklingnum í krampaumbrotunum. Þegar krampi leggst í vissa vöðva, t.a.m. á útlimum, og loðir lengi við þá, getur af því hlotizt viðvarandi samdráttur vöðvanna (útlimi kreppir) og það er eigi óalmennt að fótur hefur kreppzt um hnjelið, svo sjúklingurinn hefur orðið að liggja rúmfastur svo mánuðum skiptir. Opt ber það og við, að kirtlar líkamans gefa frá sjer óeðlilega mikinn vessa, þannig t.a.m. svitakirtlarnir; annaðhvort eru þeir þá allir í æsingu, svo sjúklingurinn svitnar allur venju fremur, eða aðeins á stöku stöðum, t.a.m. í lófum, á fótunum, í handkrikunum. Munnvatnið er óeðlilega mikið og tárarennslið sömuleiðis, niðurgangur og ólag á galli. Mjög er það og almennt að vindur sækir í magann og garnirnar, svo uppþemba er mikil og vindskruðningar sífeldir, og gengur þá mikill vindur opt niður, en venjulega er engin fýla af honum, Tíðirnar eru og opt óreglulegar með ýmsu móti. Hún kvartar einnig opt um höfuðverk, sem kemur með kviðum, og finnst henni stundum, að höfuðið verði hálfkalt í kviðunum og fylgir þessu fjarska óeirð, og segi hún, að sjer finnist hún naumlega geti afborið þetta.

hysteria_mynd_tristeEitt er enn, sem að öllum jafnaði fylgir móðursýkinni, og það eru þau áhrif, sem hún hefur á allt sálarástand sjúklingsins. Svo má segja, að allt hennar tilfinningalíf sje á flökti; það er engin festa í neinu sem hún vill, hún er dutlungafull og hugsar opt annað augnablikið mest um sjálfa sig en hitt um aðra; hún er glöð og ánægð í annan svipinn en óánægð og örvæntingarfull í hinn svipinn; henni þykir ósköp vænt um eitthvað eða einhverja manneskju nokkrar stund, en svo hatar hún það ef til vill síðar meir; þannig ber að opt við, að móðursjúkur kvennamaður fær ákaflega mikla ást á karlmanni um nokkurn tíma; en þessi ást breytist þá opt í hatur síðar meir, og það þótt karlmaðurinn alls eigi í nokkrum hlut hafi brotið á móti sjúklingnum. Einna lökust áhrif á hana hafa allar geðshræringar, henni versnar ávallt við það, ef eitthvað kemur fyrir hana, sem henni þykir eða líkar miður.

Hugmyndalíf móðursjúks kvennmanns er að öllum, jafnaði ríkast hvað snertir allt ástand hennar sjálfrar, og svo mikil brögð geta orðið að hugarvingli hennar, að hún alveg lifir sig inní sjálfa sig, hugsar og talar eigi um annað, og endar þetta opt með sinnisveiki, og það sem ennfremur stuðlar til þessa er kvíði mikill og hræðsla ásamt svefnleysi, sem opt ásækir sjúklinginn. Margt fleira mætti hjer tilfæra um þennan leiða sjúkdóm, en hjer er hvorki rúm nje staður til þess.

Lækning á svo dularfullum og margbrotnum sjúkdómi er vitaskuld erfið. Um hana segir Jónas Jónassen á s. 353-354:

Um lækning á móðursýki.

Hvað lækningu snertir, þá er það viðurkennt bæði hjer á landi og annarstaðar, að hún er einhver hin örðugasta, og liggur þetta eðlilega í því, að svo örðugt er að komast fyrir upptökin, því þau geta legið svo víða eins og getið hefur verið um hjer að framan. Eitt er, sem öllum kemur saman um, og það er, að nauðsynlegt sje að styrkja taugakerfið og reyna að forðast allt, sem æsir það í nokkru tilliti. Jafnframt þessu verður með gætni að reyna að koma hugsunum og öllu sálarlífinu á rjetta og skynsama leið og um fram allt verður að forðast að láta sjúklinginn verða þess áskynja, að vjer eigi trúum því, sem hún segir oss um ástand sitt og tilfinningar, en á hinn bóginn skal leiða henni með skynsamlegum fortölum fyrir sjónir, að allt stafi af of mikilli viðkvæmni tauganna, og að hún með góðum og einbeittum vilja geti að miklu leyti bætt úr þessu auma ástandi sem hún sje komin í og náð að verða heil heilsu aptur.

Hvað snertir meðalabrúkun, þá er ráðlegast að leita læknis. Þegar veikin er samfara jómfrúgulu, eins og opt á sjer stað, læknast hún stundum um leið og jómfrúgulan batnar. Sumum móðursjúkum kvennmönnum er einkar hollt að þvo allan likamann daglega upp úr köldum sjó eða köldu vatni. Hreyfing úti við, að ganga í góðu veðri bæjarleið eins opt og því verður komið við, að ríða opt ásamt öðrum sjer til gamans er optast einkar gott. Kvennmaðurinn ætti að hátta tímanlega og fara snemma á fætur. Opt er einkar gott að skipta um verustað um nokkurn tíma. Sje herpingur og kökkur í hálsinum og fyrir brjóstinu, eru hinir svonefndu laukdropar opt góðir.

Í umfjöllun um algeng lyf síðar í bók Jónasar Jónassen segir um þessa laukdropa: “Laukdropar (Tct. asæ foetidæ) er og gott krampaeyðandi meðal. Af þeim eru gefnir 25-30 dropar í einu annaðhvort eintómir eða saman við opíumsdropa.” (s. 461.)

Tinctura asæ foetidaæ hefur vel að merkja ekkert með lauk að gera. Þetta er kvoða, unnin úr smávaxinni jurt af steinseljuætt sem vex í Mið-Austurlöndum. Jurtin heitir Ferula assafoetida og hefur verið kölluð djöflatað á íslensku enda er lyktin af henni frámunalega ógeðsleg. Jurtin hefur verið notuð frá fornu fari sem krydd í mat og til lækninga. Raunar ráðleggur Sveinn Pálsson sama lyf í sinni umfjöllun um hysteríu níutíu árum fyrr svo vinsældir djöflataðs í lyfjaflóru íslenskra lækna hafa haldist nokkuð stöðugar. Af því Jónas ráðleggur tinktúru má ætla að djöflataðskvoðan hafi verið uppleyst í vínanda. Mögulega hefur hann gert ráð fyrir að lausninni væri oftast blandað við ópíumsdropa og mætti þá ætla að svoleiðis hefði róað hysteríska kvenmenn þokkalega vel.

 

Urðu íslenskar konur hysterískari eftir því sem íslenskir læknar lærðu meiri fræði?

hysteria_framkollud_med_havada

Í fyrirlestri Sigurgeirs Guðjónssonar sagnfræðings á Söguþingi 2012, „Hysterian „liggur í landi.‟‟ Nýjar hugmyndir um geðveiki ná til íslenskra lækna (hér er krækt í fyrirlesturinn í Skemmunni) segir að skv. ársskýrslum íslenskra héraðslækna á seinni hluta 19. aldar sé geðveiki kvenna aðallega hystería. Sama kemur fram í doktorsritgerð Sigurgeirs frá 2013. Áberandi misræmi megi þó sjá í greiningum einstakra lækna á hysterísku kvenfólki:

Árið 1892 greindi Þorgrímur Þórðarson læknir í Austur-Skaftafellssýslu 16 konur með hysteriu. Ólafur Guðmundsson læknir í Rangárvallasýslu greindi hvorki fleiri né færri en 108 tilfelli en Bjarni Jensen læknir í Vestur-Skaftafellssýslu greindi ekkert tilfelli. Hversvegna var beinlínis hysteriufaraldur í Rangárvallasýslu meðan ekki greindist eitt einasta tilfelli í Vestur-Skaftafellssýslu? Voru konur á þessum svæðum svona ólíkar? (Sigurgeir Guðjónsson. 2012:7)

Sigurgeir getur sér síðan til að meginástæðan fyrir þessu ósamræmi í greiningu hysteríu sé „hversu vel læknarnir voru að sér í nýjustu sjúkdómsgreiningum í geðlæknisfræði.‟ Hann setur einnig fram þá tilgátu að stórfjölgun geðveikra kvenna á Íslandi seint á nítjándu öld stafi líklega af því að fleiri konur hafi verið greindar með hysteríu. Í manntali 1850 eru 39 karlar taldir geðveikir, eða 1,3 af hverjum 1000 körlum á Íslandi, geðveikar konur eru 52 talsins, 1,6 af hverjum 1000 konur. (Þótt í töflum Sigurgeirs sé talað um hlutfall af 1000 íbúum er augljóst að átt er við hlutfall af hvoru kyni. Og miðað við mannfjöldatölur frá 1850 á vef Hagstofu eru hlutföllin 1,4 promill og 1,7 promill nær lagi, ég fór ekki yfir aðrar tölur.) Geðveikum körlum fjölgar svolítið í næstu manntölum en geðveikum konum fjölgar töluvert:

1880: Karlar 0,5‰ (17 talsins ) konur 1,6‰ (63 talsins)

1890: Karlar 0,9‰ (30 talsins) konur 2,4‰ (93 talsins)

1901: Karlar 0,9‰ (37 talsins) konur 2,3‰ (96 talsins)

(Sigurjón Guðjónsson. 2013:41)

Hér verður látið staðar numið í söglegri yfirferð hysteríu í greiningum íslenskra lækna. Ekki verður fjallað um þá merku sjúkdóma jómfrúrgulu/bleikjusótt og tíðateppu þótt læknar á átjándu og nítjándu öld hafi haft þungar áhyggjur af þeim, ekki hvað síst þær að ómeðhöndluð jómfrúrgula eða tíðateppa gæti leitt til hysteríu.

Í næstu færslu verður fjallað um rannsóknir hins stórmerka (að talið er) vísindamanns dr. Charcot á hysteríu en „fyrirlestrar‟ og skrif hans um sjúkdóminn höfðu gífurleg áhrif. Eini nemandi dr. Charcot sem starfaði á Íslandi var Daninn Hans Jacob George Schierbeck, sem var landlæknir og forstöðumaður Læknaskólans hér á landi 1883-1894. (Thora Friðriksson. 1931:145.) Í þeim fáu opinberu skrifum hans þar sem geðveiki ber á góma er hysteríu ekki getið, var hann þó nemandi Charcot um sama leyti og sá síðarnefndi varð virkilega niðursokkinn í hysteríuna. Hans J. G. Schierbeck er aðallega minnst hérlendis fyrir mikinn áhuga á garðyrkju og frumkvöðlastarf á því sviði enda lærði hann til garðyrkjumanns áður en hann hóf læknanám.

Heimildir

Jónas Jónassen. Lækningabók handa alþýðu á Íslandi. 1884. Aðgengileg á vef bókasafns Harvard háskóla.

Sigurgeir Guðjónsson. „Hysterian „liggur í landi.‟‟ Nýjar hugmyndir um geðveiki ná til íslenskra lækna. Fyrirlestur á Söguþingi 2012. http://skemman.is/handle/1946/1559

Sigurgeir Guðjónsson. Aðbúnaður geðveikra á Íslandi og umbætur yfirvalda fyrir daga geðspítala. Doktorsritgerð útg. ágúst 2013. http://skemman.is/handle/1946/16732

Sveinn Pálsson. Tilraun að upptelja sjúkdóma þá er að bana verða og orðið geta fólki á Íslandi. Rit þess (konunglega) íslenzka Lærdómslistafélags 15. árg 1794. S. 1-150.

Thora Friðriksson. Dr. Jean Charcot. Eimreiðin 37. árg. 2. hefti ,1931. S. 144-163

Vilmundur Jónsson. 1949. Lækningar – Curationes – séra Þorkels Arngrímssonar sóknarprests í Görðum á Álftanesi.

Myndirnar eru úr bókinni Études cliniques sur la grande hystérie ou hystéro-épilepsie eftir samstarfsmann dr. Charcot, Paul Marie Louis Pierre Richer, sem fyrst kom út árið 1881.

 

Melankólía gáfaðra karla og hvunndagsleg geðlægð kvenna

Ég hef undanfarið verið að lesa bók eftir Karin Johannisson, Melankoliska rum. Om ångest, leda och sårbarhet i förfluten tid och nutid, sem kom út árið 2009. Er ekki nema rétt hálfnuð með bókina en finnst margt í henni athyglisvert. Karin þessi er sagnfræðingur með hugmyndasögu sem sérsvið (idéhistoriker). Hún hefur skrifað margar bækur um sjúkdóma og hugmyndasögu og hlotið ýmsar viðurkenningar fyrir.

Í upphafi bókarinnar er gerð góð grein fyrir hvernig lýsingar á tilfinningum breytast í tímans rás og hve erfitt, eða jafnvel ómögulegt, getur verið að túlka lýsingar fyrri tíma með hugtökum og orðum nútímans. Eftir að sá varnagli hefur verið sleginn fer Karin að velta fyrir sér melankólíu og hvernig henni hefur verið lýst um aldir, í læknisfræði, bókmenntum, sjúkraskrám o.fl.

Hún telur að hugtakið melankólía hafi a.m.k. þrjár víddir sem snerta tilfinningar, geðslag og sjúkdóm. Gömul orð yfir melankólíu sem tilfinningu er fjölmörg og í þeim felst mismunandi mikill þungi. Karin telur upp sænsk orð yfir þetta en á íslensku eru eftirfarandi orð sögð samheiti við melankólíu: Geðveiki, samviskuveiki, þunglyndi, sturlun, fálæti, fáleiki, hjartveiki, hrelling, hugtregi og hugarvíl (Sveinn Pálsson. 1788.)

En þessi orð tengjast ekki sjúkdómi, segir Karin, heldur felst í þeim ákveðið þema: Einhvers konar missir, stol eða -leysi. Melankólía getur verið missir tilgangs (tilgangsleysi) en einnig bókstaflega missir tungmáls (væntanlega hæfileikans til að tjá sig), missir atorku eða missir orku til að koma sér fram úr rúminu.
Þótt melankólíu fylgi erfiðar tilfinningar hefur henni, sögulega séð, verið eignuð uppbót sem er glöggskyggni og sköpunarkraftur. Á koparstungu Dürer, Melencolia I, frá 1514, sést þetta vel: Þungbúinn engill situr (svo sannarlega) í þungum þönkum; Andlitið er dökkt og augun dauf en í kringum hann liggja tákn vísindanna. Á sextándu öld var þessi tegund af melankólíu kölluð melancholia generosa, hin gjafmilda melankólía.

[Hér mætti og skjóta inn dæmi um rómantíska sýn á melankólíu, þ.e. eftirfarandi tilvitnun í Drauminn eftir Byron (1788-1824), í þýðingu Steingríms Thorsteinssonar:

Því þunglyndisins skarpa og skyggna sjón
Er geigvæn gáfa þeim, sem hana hlaut.
Hvað er hún nema sannleiks sjónarauki,
Sem fjarlægð sviptir töfrum tálarmynda,
Sem nálgast lætur líf í tómri nekt
Og harðan sannleik helzt til sannan gjörir.]

Hugtakið depression er miklu þrengra. Það er búið til með hliðsjón af deprimere= að sökkva eða þrýsta niður. Myndhverfingin í því orði vísar til þess að einstaklingurinn
er niðurdreginn/þrúgaður niður. (Í íslenskun geðgreiningarlykla nútímans hefur verið búið til orðskrípið geðlægð til að þýða depression. Almenningur kallar depression þunglyndi, sem er eitt gömlu orðanna yfir melankólíu.)

Í melankólíu geta falist sterkar tilfinningar og sköpunarkraftur en í depression-hugtakinu felst aðallega hindrun. Karin vísar til Jennifer Radden, sem hefur farið kerfisbundið gegnum greiningarkerfi nútímageðlækninga og sýnt fram á að það sem seint á 19. öld var skilgreint sem tilfinningar hafi síðan þá þróast yfir í skilgreiningar á hátterni (s.s. svefn-, matar- og einbeitingartruflanir, hreyfhömlun og þreyta).

Melankólía karla breytist í geðlægð kvenna

Það sem mér þótti þó athyglisverðast við þessa melankólíuumfjöllun Karin Johannisson var umfjöllun um hvernig melankólía karla varð að depression kvenna. Þar víkur nefnilega sögunni að mínu uppáhaldi þessa dagana: Staðalmyndum (stereotýpum).

Karin staðhæfir að söguleg staðaltýpa melankólíunnar sé hinn útvaldi karlmaður. En staðaltýpa nútímans af þunglyndi sé nafnlausa konan.

Melankólía var tengd við gáfur og sköpunarkraft … en bara þessa eiginleika karla. Væri minnst á melankólíu í sambandi við konur var hún gjarna tengd kynferðismálum, eins og í sjúkdómsgreiningunni erotomani. “Hoon vaar … så spaak, som ett litet deggie-lam, och gick i kärlig melancholij”, skrifar sænski 17. aldar læknirinn Urban Hjärne. Sú þögn sem ríkir um melankólískar konur, í sögunni, er tæplega vegna þess að þær hafi ekki verið til heldur sýnir þögnin frekar hve lágan status melankólía kvenna hefur haft í karllægri hefðinni: Þegar melankólíu er hampað eru konur ekki taldar með. Karin vitnar í Juliana Schiesari sem heldur því fram að melankólía kvenna hafi verið umrituð, annað hvort í eitthvað þýðingarminna og hversdagslegra eða í eitthvað hættulegra, t.d. hýsteríu og brjálæði. Og Karin tekur dæmið: Af hverju má bara kalla svartsýni yðar en ekki mína svartsýni melankólíu? spurði óánægð skáldkona í bréfi til sænska ljóðskáldsins P.D.A. Attenbom (1790-1885). Hann svaraði: Af því að til þess er ætlast að konan sé glaðleg og saklaus.

Kyn melankólíunnar er sem sagt skilgreint karllægt. Þótti hinn melankólíski karl sé viðkvæmur og brothættur tapar hann ekki karlmennsku sinni. Melankólíuhugtakið leyfir þvert á móti karlkyns gáfumönnum að innlima hið kvenlega inn í hið karlmannlega. Á sama hátt hefur hystería karlmanna verið tengd við sérstaklega skapandi viðkvæmni, í menningarsögunni, ólíkt hysteríu kvenna.

Nútildags eru konur greindar í geðlægð (depressívar) í tvöfalt meiri mæli en karlar. Staðalmynd geðlægðar/nútíma þunglyndis rennur saman við staðalmynd hins kvenlega: óvirkni, lágan róm, lélega sjálfsmynd, segir Karin Johannisson. Hún tekur síðan ýmis dæmi úr ævisögulegum skrifum frægra þunglyndra kvenna til að sýna hvernig þær upplifa þunglyndið sem “ekki-tilveru”, óvirkni, lamandi ástand o.þ.h.

Sú kona sem ekki er meðfærileg, ekki glöð og saklaus o.s.fr., heldur niðurdregin, óánægð og jafnvel galin, á í hættu að vera dæmd, ekki bara af karlmönnum og vísindaheiminum heldur einnig af sér sjálfri. Þannig kona er jú skilgreind, og skilgreinir sjálfa sig, sem sjúka. Vandinn felst í þessu ómeðvitaða vali kvenna, segir Karin, að dempa sitt sjálf (ego) en ekki að upphefja það, að leita innávið en ekki útávið, að bregðast við í vörn en ekki í sókn. Svo víkur hún talinu að kenningum Juliu Kristevu og fleiri sálkönnuða en þá hætti ég að lesa …

Skiptir þetta einhverju máli?

Þótt ég sé ekki sammála öllu í umfjöllun Karin Johannisson og hafi rekið mig á slælega umgengni hennar við heimildir í þessari bók finnst mér margt áhugavert í því sem hún segir. Mér finnst t.a.m. spennandi að velta því fyrir mér hvaða máli það skiptir að melankólía var karlanna, í menningarsögunni, en geðlægð er kvennanna, í nútímageðlæknisfræði. Hvaða máli skiptir svoleiðis fyrir status og staðalmyndir, þ.e.a.s. þá þætti sem einkum skipta máli í fordómum og brennimerkingu/stimplun?

Og passar þetta við Ísland?
Á hinn bóginn er ég ekki viss um að hve miklu leyti megi heimfæra umfjöllun hennar upp á íslenska menningu í tímans rás. Sveinn Pálsson segir í lýsingu á melankólíu árið 1788 : “Þat sýnisz og at fleiri séu konur enn karlar veikindum þessum undirorpnir.” Í annarri lýsingu sem birtist árið 1794 segir Sveinn að byrjunareinkenni melankólíu geti verið ofurlítið misjöfn eftir kynjum en virðist svo gera ráð fyrir að sjúkdómurinn lýsi sér eins hjá konum og körlum þegar hann elnar:

Géð- eðr Sinniveiki (Melancholia, Tungsindighed), er svo almennur sjúkleikr hér at ekke veitti af heille bók um hann, kynni þar með einhverium at verða hiálpar, byrjar hann optar með miltisveike eða vaniflasótt (Hypochondria, Miltsyge), hjá karlmønnumm, eðr móðursyke hiá kvennfólki, sem eru nærstumsømu veikleikar, og hvarum høndlat skal í [grein] 58, ríðr þá miøg svo á strax í fyrstu at bera sig að koma í veg fyrer hið verra; géðveikt fólk misser fyrst matarlyst, regluligan svefn og náttúrligar hægðir; elskar einsetur og veit þó ei giorla hvar fyrir; þeinkia jafnann um hið sama, fá jafnvel hatr á øllum mønnum og sér siálfum með; eru ofr sorgfullir eðr og þeigiandi og hræðast stundum alla hluti, með mørgu fleiru sem bagt er upp að reikna, um síðer vex þúnglyndit æ meir og meir, þar til siúklingr annað hvert fyrirfer sér siálfr þegar minst varer, elleger missir vitit og nefniz þá vitfirring […]

Lestur um geðlækningar

Af og til les ég um geðlækningar, einkum þunglyndislækningar. Þetta er ekki sérlega holl lesning því manni fallast ævinlega hendur yfir hve lækningaaðferðirnar líkjast kukli og þjóðsögum: Byggja á ósönnuðum tilgátum (sumum út í bláinn), rækilega hagræddum “rannsóknarniðurstöðum” og þegar jafnvel rökstuðning af þessu tagi þrýtur er gripið til þess að rökstyðja með “klínískri reynslu” geðlækna; gersamlega huglægu fyrirbæri og örugglega einstaklingsbundnu við hvern og einn lækni.

Það var áhugavert að lesa langloku um raflost/raflækningar í ritrýndu vísindariti, þar sem sett er fram sú tilgáta að raflost hafi sömu áhrif á heilann og alvarlegt áfall eða langvarandi streita. Langlokan er samin af fræðimönnum í geðheilbrigðisfræði og verður ekki merkt að þeir hafi neitt á móti raflostmeðferð, þeir eru að reyna að skýra hvað gerist þegar heilinn er stuðaður. Af hverju nokkrum heilvita manni dettur í hug að það að framkalla sömu áhrif í heilandum og við meiri háttar áfall geti verið “lækning” á einu eða neinu er ofar mínum skilningi.

Undanfarið hef ég fylgst með færsluflokki Steindórs J. Erlingssonar, A Journey into Madness and Back Again, á Mad in America. Hér er krækt í þriðja pistilinn en neðst í honum eru krækjur í fyrri tvo. Þetta eru vel skrifaðir pistlar þar sem Steindór rekur sögu sína í stuttu og hnitmiðuðu máli. Frásögnin er einlæg og hreinskilin. Mér finnst sérlega eftirtektarvert hve vel hann lýsir heilaþvotti þunglyndissjúklings, þ.e.a.s. hvernig sjúklingi er talin trú um að þunglyndið stafi af “efnaskiptaójafnvægi” í heila, þegar hann rekur sögu sína. Þessar skýringar á þunglyndi lifa enn góðu lífi í viðtölum þunglyndra við lækna (kannski einkum heimilislækna) þótt aldrei hafi tekist að færa nokkra stoð fyrir kenningunni um boðefnarugl í heila og raunar hafi fræðimenn í geðlækningum fyrir þónokkru afskrifað hana að mestu leyti. Kannski þykir þetta enn þægileg útskýring fyrir pöpulinn?

Mér fannst líka eftirtektarvert hvernig samtrygging geðlækningabatteríins lýsir sér: Í þessum þriðja pistli segir Steindór frá því þegar Genin okkar kom út, þar sem hann upplýsti m.a. um sölumennsku prófessors í geðlæknisfræðum á blóðprufum úr sjúklingum sínum, og skömmu síðar, þegar Steindór þurfti fárveikur að leggjast inn á geðdeild, hellti geðlæknir á þeirri deild sér yfir hann vegna umfjöllunarinnar í bókinni. Sá hefur væntanlega verið dyggur lærisveinn prófessorsins … Kannski tók ég sérstaklega eftir þessu atriði af því ég hef heyrt lýsingar á því hvernig geðsjúklingar eru látnir gjalda fyrir að fjalla um geðlækningar opinberlega, jafnvel þótt þeir hafi einungis verið að lýsa eigin reynslu. Mér finnst ólíklegt að svona gerðist þegar um aðrar stéttir en geðlækna er að ræða: Finnst einhverjum líklegt að psóríasis-sjúklingur sem hefur opinberlega lýst glímu sinni við psóríasis og misheppnuðum læknisaðferðum við þeim sjúkdómi fái þess vegna yfirhalningu starfandi húðsjúkadómalæknis á Landspítala næst þegar hann leggst þar inn?

Nú, ég keypti mér bókina Mad Science: Psychiatric Coercion, Diagnosis, and Drugs, sem hefur verið hrósað ótæpilega síðan hún kom út í vor. Einhverra hluta vegna næ ég ekki tengslum við umfjöllun hennar, finnst bókin leiðinleg og ekki vel skrifuð o.s.fr. Kannski er það vegna þess að ég er frekar lasin (af þunglyndi) þessar vikurnar, kannski hleyptu fyrirbærafræðilegar pælingar um hvernig hugsun okkar og viðhorf mótast af orðuðum hugtökum og hvernig orðin eru huglæg og merking þeirra breytingum háð o.s.fr. í mig einhverri mótþróaröskun, ég fékk mig nefnilega fullsadda af svona pælingum í lestri bókmenntafræði á sínum tíma. En ég ákvað að gefa bókinni annan séns einhvern tíma seinna þegar ég væri betur stemmd … ekki að efnið sé nýtt af nálinni, þ.e.a.s. umfjöllun um óforskammaða markaðssetningu lyfjafyrirtækja og þjónkun geðlæknisfræði við þau, þvingun geðsjúklinga af ýmsum toga, stórgallað sjúkdómsgreiningarkerfi o.s.fr.,  en þetta ku sett í nýtt samhengi í þessari bók.

Að lokum get ég ekki stillt mig um að benda á nýjar pælingar amrískra geðlækna í Psychiatric Times; Nei, þeir eru ekki að spá í líðan sjúklinga sinna sem undirgangast allra handa “lækningar”; Nei, þeir eru ekki að spá í hvernig rannsóknarniðurstöðunum sem þeir byggja sín fræði á hefur verið rækilega hagrætt og þær gylltar; Nei, þeir eru ekki að velta fyrir sér hvort boðefnaruglskenningin hafi nokkurn tíma átt sér nokkra stoð … Þeir eru að pæla í því hvort borgi sig ekki að vera fínna klæddur en sjúklingarnir! Þetta hefur verið tímamótagrein í Psychiatric Times því það er ekki oft sem maður sér jafn virka umræðu í því ágæta tímariti og þá sem fylgir í halanum við þessa grein 😉