Þetta er fyrsta færsla í færsluröð um þrenndartaugarverk (sem ranglega er kallaður þrenndartaugabólga í fyrirsögnum). Hinar eru, í tímaröð:
2. Lyfjameðferð við þrenndartaugabólgu;
3. Þrenndartaugin og inngrip gegn þrenndartaugabólgu
4. Skurðaðgerðir og aðrar aðgerðir í eða við þrenndarhnoða
5. Þrenndartaugaverkur/vangahvot: Saga orðanna.
Þrenndartaugarverkur (sem einnig er kallaður vangahvot á íslensku, Trigeminal neuralgia er algengasta sjúkdómsheitið á ensku) er viðvarandi (krónískur) sársauki í 5. andlitstauginni, svokallaðri þrenndartaug/þríburataug.1 Nafnið er dregið af því að þessi taug greinist í þrennt í hvorum helmingi andlitsins, s.s. sjá má á myndinni:
Þrenndartaugin (nervus trigeminus) er skyntaug sem tengist heilanum en liggur um andlitið. Efsta greinin, augntaug (nervus ophthalmicus), stjórnar skynjun í höfuðleðri, enni og framhluta höfuðs. Miðgreinin, kinnkjálkataug (nervus maxillaris), stjórnar skynjun í kinn, efri kjálka, efri vör, efri tanngarði og efri gómi, ásamt hálfu nefinu. Neðsta greinin, kjálkataug (nervus mandibularis) stjórnar skynjun í neðri kjálka, neðri tanngarði, neðri gómi og neðri vör.1
Dæmigerður/klassískur þrenndartaugarverkur (oft skammstafaður TN1 á ensku) veldur ofboðslegum sársaukastingjum í andlitinu, sem oft minna á raflost eða bruna. Stingirnir geta varað frá nokkrum sekúndum upp í tvær mínútur og þeir geta komið hver á fætur öðrum í allt að tvær klukkustundir samfleytt. Mislangt hlé gefst milli sársaukakastanna.1 Sársaukinn getur verið það gífurlegur að þessi gerð þrenndartaugarverks ku hafa verið kölluð „sjálfsvígssjúkdómurinn“. 2
Tal, tygging, tannburstun, rakstur eða kaldur vindur í andlit geta útleyst verkjakast. Þó að hvert kast vari aðeins í sekúndur getur verkurinn endurtekið sig með svo stuttu millibili að köstin renni saman í eitt. Eftir mörg köst getur sjúklingur upplifað viðvarandi andlitsverk.3
Nánari lýsingu á sársaukaköstum dæmigerðs þrenndartaugarverks má finna í tveimur stuttum íslenskum greinum sem tengjast umfjöllun um vefjagigt. 4,5
Yfirleitt er dæmigerður þrenndartaugarverkur talinn stafa af skaða á mýli/taugaslíðri utan um taugina. Oftast er sá skaði talinn stafa af æð sem þrýsti stöðugt á taugina.6 Í undantekningartilvikum má rekja dæmigerðan þrenndartaugarverk til æxlis.1
Þrenndartaugarverkur 2 (oft skammstafaður TN2 á ensku, stundum kallaður ódæmigerður þrenndartaugarverkur og Atypical trigeminal neuralgia skammstafð ATN) veldur sleitulausum verk, þ.e. án nokkurs hlés, af svipuðu tæi og lýst var að ofan en ekki eins ofboðslegum og verkjaköstin sem einkenna klassískan þrenndartaugarverk.1 Sumir mæla gegn því að nota heitið ódæmigerðan þrenndartaugarverk með þeim rökum að sú sjúkdómsgreining sé gjarna notuð sem ruslakistugreining fyrir alls konar andlitsverki sem hafa ekkert með þrenndartaugina að gera.6
Yfirleitt verður þrenndartaugarverks vart öðrum megin í andlitinu en þó eru sjaldgæf dæmi þess að fólk þjáist af sjúkdómnum beggja vegna. Slíkt gæti verið vísbending um heila- og mænusigg.3 Einnig eru dæmi þess að fólk sé haldið hvoru tveggju dæmigerðum þrenndartaugarverk og þrenndartaugarverk 2 í senn.1
Á síðari árum hafa menn viljað flokka þrenndartaugarverk í fleiri undirflokka og er þá helst nefnt, auk TN1 og TN2:
Afleiddur þrenndartaugarverkur (Secondary Trigeminal Neuralgia, skst. STN) lýsir sér alveg eins og hinar tegundirnar en má tengja við að sjúklingurinn sé haldinn heila- og mænusiggi (multiple sclerosis).6
Einnig hefur verið bent á að þrenndartaugarverkur geti verið fylgifiskur vefjagigtar en óljóst er hvernig þeim tengslum ætti að vera háttað.4, 5
Þrenndartaugarverkur eftir áblásturssótt/ristil (Post-Herpetic neuralgia, skst. PHN) er eftirköst eftir ristil (herpes zoster) við þrenndartaugina.6
Þrenndartaugarröskun sem stafar af starfrænni truflun (Trigeminal Neuropathic Pain, skst. TNP) er þegar rekja má kvillann til einhvers konar óviljandi skaða á tauginni. Sá skaði getur verið áverki á andliti, af munnskurðlækningum eða skurðaðgerðum sem tengjast háls-nef og eyrnalækningum, skaði á tauginni vegna skurðaðgerða í aftari kúpugróf (fossa cranii posterior) eða annars staðar neðst í höfuðkúpu, af heilablóðfalli o.fl. Sársaukinn er sagður draga úr sjúklingnum mátt, vera brennandi eða eins og borað sé í auma svæðið. Verkurinn er oftast sleitulaus vegna þess að sköðuð taugin sendir stöðugt verkjaboð til heilans. Skaðinn getur líka gert taugina ofurnæma fyrir áreiti svo svipuð sársaukaköst geta fylgt þessari gerð þrenndartaugarverk og dæmigerðum þrenndartaugarverk, sársaukinn blossar þá venjulega upp á sama stað og áreitið verður. Tilfinningaleysi og náladofi benda einnig til skaddaðrar taugar.6
Þessi gerð af þrenndartaugarröskunar er hins vegar sögð heita secondary trigeminal neuralgia [sjá um afleidda þrenndartaugabólgu hér að ofan] í nýlegri íslenskri kennslubók handa lækna- eða lyfjafræðinemum. Þar segir einnig að sé „vangahvot orsökuð af ytri skaða á þrenndartauginni […] geta verið teikn um skynbrottfall á svæði hennar og jafnvel máttleysi og rýrnun tyggingarvöðva“.3
Þrenndartaugarverkur eftir aðgerð á miðtaugakerfi (Trigeminal Deafferentation Pain, skst. TDP) eru verkir í andliti sem tengjast tilfinningaleysi í þrenndartaug eftir skurðaðgerð við þrenndartaugarverk. Þessar skurðaðgerðir miða allar að því að skaða þrenndartaugina til lækninga og má aðallega nefna taugarúrnám, þ.e. brottnám hluta taugar (neurectomy), eyðileggingu taugahnoða (gangliolysis), þverskurð taugarótar (rhizotomy), þverskurð taugabrautar utan mænukylfu (nucleotomy) og brautarskurð, þ.e. þverskurð taugabrautar í mænukylfu (tractotomy). Þrátt fyrir að allar þessar aðgerðir miði að því að eyða tilfinningu/skynjun í þrenndartauginni getur fylgt í kjölfarið stöðugur sársauki í dofnum andlitshlutum, t.d. brennandi, ertandi eða nístandi sársauki.6
Loks mætti nefna að til er flokkurinn Ódæmigerðir andlitsverkir (Atypical Facial Pain (AFP)), sem eru verkir í andliti án þess að orsök finnist fyrir þeim. Eitthvað af því sem fellur í þá ruslakistu gæti verið birtingarmynd þrenndartaugarverks.
Algengi
Tölum um algengi þrenndartaugarverks ber ekki alveg saman í heimildum en ljóst er að þetta er sjaldgæfur sjúkdómur. Oftast er talað um að u.þ.b. 0,005-0,01% fólks þjáist af þrenndartaugarverk en óvíst hvort þá er eingöngu verið að tala um dæmigerðsa þrenndartaugarverk eða öll afbrigði hans.1,2,6,7 Hæsta tala sem ég fann kom fram í breskri rannsókn sem sýndi 0,026% algengi þrenndartaugarverks meðal sjúklinga á breskum heilsugæslustöðvum.8 En bent hefur á að í þeirri rannsókn hafi e.t.v. óvart verið taldir með sjúklingar með andlitsverki af öðrum toga.9
Heimildum ber saman um að þrenndartaugarverkur komi yfirleitt ekki fram fyrr en eftir fimmtugt og að hún sé algengari meðal kvenna en karla. Ég leyfi mér að setja fram þá fullyrðingu að þess vegna sé þetta sennilega vangreindur sjúkdómur og algengari en haldið er fram í heimildum sem vísað var í hér að ofan því af reynslusögum kvenna af heilbrigðiskerfinu, í Facebook hópi sem ég tilheyri, má ráða að „kona með verk“ sé oftar en ekki hunsuð af læknum, einkum á heilsugæslustöðvum.
Heimildir
1 Trigeminal Neuralgia Fact Sheet. (2013). National Institute of Neurological Disorders and Stroke, NIH bæklingur nr. 13-5116. Síðast uppfærður á vef 27. júlí 2015. Skoðað 4. sept. 2015.
2 Trigeminal neuralgia. Wikipedia. Skoðað 4. september 2015.
3 Ari J. Jóhannesson o.fl. (2015). Handbók í lyflæknisfræði. 4. útg., s. 363-4. Reykjavík:Háskólaútgáfan og Landspítali Háskólasjúkrahús.
4 Sigrún Baldursdóttir. (2010). Andlits- og kjálkaverkir (Orofacial Pains) – II. Hluti Vangahvot -Trigeminal neuralgia Gigtin 21(1), s. 15-16. Reykjavík:Gigtarfélag Íslands. Aðgengilegt á vef.
5 Sigrún Baldursdóttir. (e.d.) Trigeminal neuralgia. Andlits- og kjálkaverkir Andlits- og kjálkaverkir (Orofacial Pains) – II. Hluti. Vefjagigt. Fræðsluvefur um vefjagigt og síþreytu. Skoðað 9. sept.2015.
6 Classifications of Neuropathic Facial Pain. (e.d.) TNA – The Facial Pain Association. Skoðað 9. sept. 2015.
7 Trigeminal Neuralgia. (2014). NORD:National Organization for Rare Disorders. Skoðað 9. sept. 2015.
8 Kenny, Tim og Colin Tidy. Who gets trigeminal neuralgia (TN)? (2014). Patient. Skoðað 9. sept. 2015.
9 Hall, Gillian C. o.fl. (2006). Epidemiology and treatment of neuropathic pain: The UK primary care perspective. Pain 122(1-2), s. 156-162. Aðgengilegt á vef. Skoðað 8. sept. 2015.
10 Zakrzewska, Joanna M. (2010). Facial Pain. Í C. Stannard, E. Kalso og J. Ballantyne (ritstjórar), Evidence-Based Chronic Pain Management, bls.134-150. Oxford:Wiley-Blackwell.