Category Archives: Uncategorized

Ég sem fæ ekki sofið

“Ég sem fæ ekki sofið…

Bleikum lit
bundin er dögun hver og dökkum kili

Draugsleg er skíman blind og bak við allt
blóðlausir skuggar flökta á gráu þili

Andlit sem hylst að hálfu í dimmum skugga
hattur sem drúpir, hönd sem hvergi leitar
handfangs – og vör sem einskis framar spyr

Og úti stendur einn við luktar dyr.

… ”

(Hannes Sigfússon – úr Dymbilvöku)

Það er auðvitað ekki Dymbilvaka núna og ég hef aldrei verið sérstakur aðdáandi ljóða Hannesar Sigfússonar (þótt hann hafi vissulega búið í næsta húsi um tíma, reyndar áður en ég flutti í Vallholtið) … og það er langt þar til bleika dögunin birtist en þessi fyrsti hluti passar ágætlega við líðanina núna og það er alltaf huggun að sjá eigin tilfinningar miklu betur orðaðar en ég gæti nokkru sinni sjálf.

Breytir fáu að vera heima – ég fór seinna að sofa en venjulega en hrökk upp tæplega hálf fjögur í nótt og illar hugsanir og niðurrif læddust að mér, æ áleitnari. Nú hef ég lesið moggann mannsins, án þess að muna staf úr honum, lesið blogg alveg villivekk (held mig frá þeim neikvæðu og illkvittnu), skrunað yfir nokkra netmiðla, án þess að muna í rauninni nokkuð af því sem þar var að finna og yfirleitt reyna sem mest ég má að beina huganum frá mér og þeim vondu þönkum sem vilja hellast yfir mig, væntanlega af efnafræðilegum hvötum en jafn óhugnalegir samt. Mér er flökurt og mér er ískalt en það er bara vegna þess að ég hef sofið alltof lítið. Vonandi tekst mér að kúra aðeins á eftir.

Það er nístandi einmanalegt að sitja ein frammi vakandi en sama iðja er líka einmanaleg á geðdeild þótt fleiri séu þar á fótum á nóttunni en hér. Kötturinn, sem ekkert vildi við mig tala í gærkvöldi, hefur tekið mig í sátt og gott ef hún sýnir ekki samúð núna, a.m.k. myndi Pollýanna taka blíðlegt malið fyrir slíkt, sem og huggandi murrið sem minnir á nöfnu hennar Marlene. Þessi köttur var orðinn reyklaus á viku en hefur nú aftur tekið upp hina illu reykingameðvirkni og kemur út á stétt með sínum geðveika reykjandi eiganda. Hún venur sig fljótlega aftur af þessum ósið.

Það var gott að koma heim og hitta fólkið sitt. Og takast að sofna í eigin rúmi. En ég er jafn andskoti veik og hjari áfram í þessu helvíti á jörð. Guði sé lof að ég verð aftur læst inni fljótlega, helst fyrir næstu nótt. Stundum er betra að vera læstur inni.

Geðdeild

Ég er komin inn á geðdeild og verður því vart bloggs að vænta næstu þrjár vikurnar – tölvuaðgangur er mjög takmarkaður og faktískt er ég of veik til að blogga.

Eitthvað virkar facebook einkennilega í þeirri einu netttengdu tölvu sem hér býðst og ég get ekki lesið skilaboð í FB. Ef einhver vill hafa stafrænt samband við mig er skást að gera það á þessu bloggi eða senda hér tölvupóst, á harpa@fva.is.

Vonandi hjarna ég við og get farið að blogga einhvern tíma fyrir jól 😉

Bardús

Ég hef verið of lasin undanfarið til að blogga. Sem þýðir að ég hef verið of heillum horfin til að gera nokkurn skapaðan hlut annan en láta daginn líða með sem minnstum harmkvælum. Þessi færsla er út og suður eins og hugur bloggynju.

Samt verða kramaraumingjar að hafa ofan af fyrir sér og reyna að beina sjónum að einhverju öðru en eigin kröm. Það er erfitt þegar maður getur ekki lesið neitt flóknara en vefsíður – eiginlega er skást að hanga inni á myndasíðum Gúguls frænda – og manni finnst fésbókin eiginlega full flókið lestrarefni. (Hvað gerðu þunglyndissjúklingar í kasti fyrir daga Vefjarins? Lásu Andrésblöð?)

Svoleiðis að ég reyni að bardúsa. En af því ég festi hugann illa við, hann flöktir og linkar út og suður, datt mér náttúrlega fyrst í hug að athuga hvað þetta bardús væri eiginlega, fletti því upp og las (í Íslenskri orðsifjabók mannsins) að orðið myndi þýða dútl eða baks, uppruni óljós en hugsanlega komið af dönsku upphrópuninni bardus, í sambandi við skyndibreytingu, fall, skell eða þessa háttar … e.t.v. tengt gammeldansk barduse sem þýðir luraleg kona. (Leturbreytingar mínar).

þunglyndisskýÞetta fellur allt sem flís við rass: Ég dútla, baksa, fæ skelli og finnst ég ákaflega luraleg kona, höktandi hér á snigilishraða milli herbergja og ber sko ekki höfuðið hátt!

Dútlið undanfarið er að reyna að slá upp vefsíðum um sögu prjóns. Gallinn er sá að ég flökti út og suður og festist í aukatriðum … var t.d. að gera undirsíðu um spænska prjónaða svæfla, elstu dæmi um prjón í Evrópu, frá 13. öld, en festist kirfilega í spennandi sögu kastilísku konungsfjölskyldunnar á sama tíma. Reyndar virðast þær bakgrunnsupplýsingar hafa farið fram hjá sagnfræðiprjónaáhugafólki, það skiptir t.d. örugglega meginmáli hvað Alfonso X, pabbi hans Fernandos sem fékk elsta svæfilinn undir höfuðið í sinni steinþró,  hafði mikinn menningarlegan áhuga, þ.á.m. á arabískum fræðiritum … en samt! – þetta veldur því að verkið vinnst seint og illa. Jákvæði þátturinn er sá að það er aldrei að vita hvenær maður þarf á kunnáttu í flóknum ættartengslum kastilísku konungsfjölskyldunnar að halda.

Til að hafa vaðið fyrir neðan mig hafði ég samband við höfund bókar, hvar undurfagra litmynd af svæflinum hans Fernandos var að finna, og bað um leyfi til að nota myndina. Enda voru krassandi hótanir aftast í bókinni um lögsókn gegn hverjum þeim sem stæli svo miklu sem snitti úr bókinni, birtur myndalisti og sagt síðan að allar aðrar myndir væru teknar af höfundi sjálfum. Engin tilvísun varðandi þessa mynd svo ég vildi tala við manneskjuna sjálfa. Svörin sem ég fékk voru byrjendaleiðbeiningar í heimildaritgerð og tilkynning um að myndin væri ættuð úr bók þess góða biskups Richards Rutt. Þannig að myndin í bókinni var sem sagt stolin. Höfundaréttur sökkar enda fara menn endalaust á svig við hann. En ég var kurteis og fékk leyfi til að birta munsturteikningar höfundar, sem ég sé reyndar ekki betur en séu ættaðar úr hinum og þessum evrópsku sjónabókum ýmissa tíma.

Nú er ég föst í koptísku sokkunum (egypskum, frá 4. öld), sem voru ekki einu sinni prjónaðir en er einhver lenska að hafa með í sögulegri prjónaumfjöllun. Í því sambandi rakst ég á gamlan texta sem segir að Evans (Arthur sá sem maður verður áþreifanlega var við á Krít) hafi fundið fresku í Knossos, sýnandi nautaat en þar ku einhver vera á röndóttum nálbrugðnum sokkum, svipuðum þeim koptísku. Mér datt strax í hug að eyða nokkrum klukkutímum í að finna mynd af þessari helv. fresku þótt markmiðið hafi upphaflega verið að gera stuttan inngangskafla að elstu prjónaleifunum, sem eru egypskir sokkar frá því á 11. öld. Með þessu vinnulagi enda ég í pælingum um snákagyðjuna eða liljuvallarprinsinn eða eitthvað álíka sem ekkert kemur prjóni við …

Í gær datt ég líka í Dagligt liv i Norden, þ.e. pælingar um að þegar fólk eignaðist föt til skiptanna og gat farið að þvo fötin hætti það að þvo sjálfu sér og fann upp sterkara ilmvatn. Áhugavert en kemur því miður prjóni ekkert við.

r�fa sig uppAf hverju að byrja á vef um sögu prjóns? Ja, mig vantaði verkefni (til að beina huganum frá grámanum og þokunni) og held að saga prjóns virki alveg eins vel og búddísk hugleiðsla til þeirra nota. Haldi ég áfram að vera svona veik endist mér verkefnið út ævina (nú eru meir en 2 tímar síðan ég vaknaði og svartsýnin leggst yfir kropp og sál). Ekki spillir því að verkið endist og endist að þær tvær grundvallarbækur í prjónasögufræðum eru ekki til á einu einasta íslensku bókasafni.

Í gramsinu á netinu hef ég annars fundið margt skemmtilegt, t.d. þessa síðu, sem eru krækjur í þær eldgömlu prjónabækur sem hinn góði enski biskup safnaði, og hef líka skoðað glænýju Knitting Iceland síðuna; glæsilegt framtak og þarft. (Aftur á móti pirraði mig þessi gegnumgangandi villa um vökustaurana, í örsögu prjóns á Íslandi, sem hver étur upp eftir öðrum en má rekja til sr. Jónasar á Hrafnagili, sem misskildi sínar heimildir. Allskonar smotterí truflar mig þessa dagana. Og ég varð náttúrlega fúl yfir að annar væri búinn að gera það sem átti að vera partur af mínum vef … en ég nálgast þá efnið bara öðru vísi.)

Beinagrind van GoghAnnað bardús er að mestu fólgið í að strjúka kettinum, reykja með kettinum, fóðra köttinn … reyna fylgjast með sjónvarpi, prjóna soldið (er að klára peysuna mannsins og næst eru það SMS-vettlingar á unglinginn) en stundum er ég of athyglisbrostin til að prjóna munstur. Merkilegt nokk á ég oft skást með að skrifa og held helst þræði í svoleiðis bardúsi. Kannski eru skrif-hugsi-stöðvarnar ekki á sama stað og málstöðvar til að tala?  Helv. þunglyndið hefur meira að segja gert mér ókleift að þrífa húsið og vesalings maðurinn þurfti að hraðræsta! Og ég sem er yfirleitt sérstök áhugakona um þrif og pússun, eins og sumir vita.

Nú er að þreyja þorrann smástund og leggja sig svo til að endurræsa heilann. Skríða svo í skjól Gúguls frænda þegar dimman tekur mig seinnipartinn.

  

Trix

Satt best að segja luma ég á æ færri brögðum þessa dagana, til að gera lífið léttbærara. Það er hægt að vera jákvæð fyrsta klukkutímann eftir að maður vaknar (en í morgun vaknaði ég kl. 5.30 svo öll jákvæðni er rokin út í veður og vind þegar þessi færsla er skrifuð); það má reyna að fíla núið og hugsa um hve haustlitirnir eru fallegir, hvað loftið er hreint og skarpt, hvað kyrrðin er mikil á morgnana, hvað er nú gaman að sjá annan reykingamann úti á svölum svo snemma morguns o.s.fr. En þegar klakinn umkringir mig verður allt þetta hjóm eitt og snertir mig ekki nokkurn skapaðan hlut, því miður.

Eitt sem nýtist mér þó glettilega oft er að ímynda mér hvað einhver vitur og velþekkjandi mundi ráðleggja í ýmsum aðstæðum eða líðan. Í þau hlutverk skipa ég annars vegar lækninum mínum og hins vegar sálfræðingi sem ég kynntist á kvíðanámskeiði í vor. Þetta er ólíkt fólk og myndi orða ráðleggingar mjög mismunandi. Í morgun sagði ímyndaði læknirinn kurteislega: “Það er engin ástæða til að mála skrattann á veginn og tóm vitleysa af þér að ætla að fletta upp hvort Marplan gangi ekki með staðdeyfilyfjum tannlækna, eins og þig minnir, þú verður bara neikvæðari í garð lyfsins.” Þetta er að sjálfsögðu alveg rétt hjá honum. Svo ég hugsa að ég fresti því um sinn að fletta upp helv. Marplaninu, sem ég er skíthrædd við.

Ímyndaði sálfræðingurinn sagði, kaldhæðnislega (einmitt eiginleikinn sem ég heillaðist svo mjög af í hennar fari, mér leiðist nefnilega súkkulaðisætt fólk): “Af hverju ertu alltaf að hugsa um hvernig þér líður? Þér myndi líða miklu betur ef þú reyndir að hugsa um eitthvað annað!” Sem er að sjálfsögðu alveg rétt hjá henni. Og ég ætla að reyna að fara eftir þessu, ekki hvað síst af því hún bætti við: “Kvíðasjúklingar eyða 95% af hugsunum sínum í að hugsa um eða vera vakandi fyrir hvernig þeim líður. Venjulegt fólk notar 75% í þetta.” 

Inn á milli ímynda ég mér líka hvað ég myndi sjálf ráðleggja öðrum í minni stöðu. Stundum hef ég verið góð í að hlusta á og ráðleggja öðrum svo það getur borgað sig að skipta um hlutverk. Því miður ráðlegg ég þessum aumingja geðsjúklingi yfirleitt að reyna að skaffa sér pásu, búa til holu undir tveimur sængum, troða eyrnatöppum í eyrun, loka úti hinn kalda heim og skríða í skjól. (Væri geðsjúklingurinn svolítið hressari myndi ég reyna að toga hann út undir bert loft í ör-ör-stutta göngu. En af reynslu held ég að það sé ekki gott fyrir greyið, í augnablikinu.)

Þetta hljómar náttúrlega eins og ég sé með geðrofssjúkdóm, sem er ég er ekki. En þetta trix, að bregða sér út úr eigin volæði og ímynda sér einhvern sér vitrari ráðleggja, getur hjálpað. Þetta er skylt því að fá lánaða dómgreind hjá öðrum, sem flestir óvirkir alkóhólistar hafa reynslu af.

Trixin sem ekki virka eru hins vegar óteljandi. Það eru aðallega velmeinandi ráðleggingar fólks sem ekki hefur reynslu af geðsjúkdómum. Yfirleitt tekst mér að leiða þær hjá mér enda oftast gefnar af góðum hug. Mér er heldur verr við ráðleggingar þeirra sem eiga að hafa vit á svona sjúkdómum, eins og t.d. ofuráherslu á heilbrigðan lífsstíl, sem á að lækna alla sjúkdóma (í sinni tærustu mynd byggjast slíkar ráðleggingar á sama prinsippi og yfirbótarpínslir kaþólsku kirkjunnar á sínum tíma, nema í stað þess að ganga í hrosshárskyrtli alla daga og hýða sjálfan sig reglulega með svipum til blóðs er nú ráðlagt að hlaupa af sér táneglurnar eða púla sem mest í tækjasal. Ekki spillir að taka í leiðinni upp kaþólska föstu, sem í nútímanum er allt frá því að forðast unnar kjötvörur til þess að lifa einungis á hráfæði. Og fasta, ekki þó þurrt, einu sinni í viku.)

Enn eitt dæmið um velmeinandi fræðilegan misskilning er áhersla starfsfólks á geðdeildum á að troða sínum sjúklingum í CODA. Þetta eru regnhlífar-meðvirknisamtök og talin mjög góð sem slík. En þunglyndi er ekki meðvirkni. Það að rugla saman þunglyndi og meðvirkni er algerlega út í hött! Sjúkdómurinn er af líffræðilegum toga en meðvirkni er lærð hegðun. Aftur á móti er eflaust hollt og gott fyrir aðstandendur geðsjúkra að stunda CODA-fundi. Í rauninni finnst mér komin full ástæða til að taka staffið á geðdeild á teppið hvað þetta varðar, það getur varla verið heppilegt að þeir sem annast geðsjúklinga noti tækifærið til að troða upp á þá persónulegum skoðunum sínum í meðvirknifræðum. Ekkert frekar en það væri æskilegt að sama starfsfólk gerði sitt besta til að turna geðsjúklingum yfir í mormóna. (Þessi staðhæfing um CODA-trúboð er byggð á því sem ég hef sjálf orðið vitni að og skilst af frásögnum annarra nýrri sjúklinga að hafi hreint ekki skánað.)

Nú orka ég ekki að skrifa um fleiri trix sem kunna að nýtast, s.s. hina ágætu æðruleysisbæn eða bara ýmsar þulur, kvæði eða annað sem maður getur haft fyrir sér í eymd sinni. Kannski er lækningarmáttur þessa fyrst og fremst fólginn í að dreifa sjúka huganum.

Ekki bólar á nokkrum lækningarmætti lyfsins eina, þrátt fyrir tvöföldun skammts. Einu áhrifin eru að mér er sífellt óglatt og illt í maganum. Í gærkvöldi reyndi ég ekki að horfa á sjónvarp og reyndi heldur ekki að prjóna enda ruglast ég í hverri umferð. (Sem er talsvert sjúkdómseinkenni því venjulega er ég frekar flink að prjóna.) Ég get vel að merkja bara horft á sjónvarp ef ég prjóna á meðan þegar ég er svona athyglisbrostin.

Í staðinn skoðaði ég bækur, las slatta en tókst ekki einu sinni að muna 2 uppflettiorð sem ég ætlaði að skoða á Vefnum, hálftíma síðar. Ætli ég lesi þetta ekki bara aftur í dag? Ef kötturinn er ekki búinn að éta minnismiðana sem ég stakk í bækurnar (þetta er bókelskur köttur og enn hrifnari af minnismiðum).

OK – búin að hanga á fótum í 3 tíma – klukkutími í viðbót og svo get ég notað holutrixtið með sængunum tveimur og skriðið í skjól úr þeim kalda illa heimi.

Harmblogg

Kötturinn vakti mig hálf-sex í morgun. Ég náði undir klukkutíma normal. Sá tími styttist með hverjum deginum.

Núna er ég koldofin, finnst allt ískalt og dimmt. Einhvers staðar djúpt inni í mér leynist Harpa en það er ansi djúpt og frosið allt í kringum hana. Ætti að taka upp nafnið Morri í staðinn. Ekkert skiptir máli og heimurinn hefur breyst í nístandi tóm.

Á föstudaginn komst ég að því að ég var búin að gleyma hvar sonur minn byggi í borg óttans. Samt hef ég komi nokkrum sinnum til hans, síðan hann flutti. Þetta bara strokaðist út. Síðan hefur æ meir strokast út og ég get ekki lengur lesið (þ.e.a.s. auðvitað get ég lesið en ég man ekki það sem ég les – þetta er athyglisbrestur dauðans!). Seinnipartinn í gær var orðið erfitt að hitta á rétta lykla á lyklaborðinu svo ég læt pjanófortið algerlega ósnert. Reyni ekki að horfa á sjónvarp en gæti sosum legið á sófanum fyrir framan tækið – það er ekki verri staður en hver annar. Hannyrðir hafa verið lagðar til hliðar að sinni en ég SKAL samt berja saman færslu um sögu prjónaskapar fljótlega, það tekur þá bara einhverja daga að rifja aftur og aftur upp það sem ég les um það efni og reyna að hugsa í smáskömmtum.

Í gærmorgun gerði ég tilraun til að svindla á kvíðastillandi skammtinum, seldi mér þá hugmynd að ég yrði skírari í kollinum fyrir hádegi án slíkra lyfja. Það virkaði ekki og það eina sem ég hafði upp úr tilrauninni var að stíga ölduna í þeim stutta labbitúr sem ég þó kom mér í. Kvíðastillandi draslið virðist laga jafnvægisskynið svolítið.

Þegar ég var að veikjast vorkenndi ég sjálfri mér ógurlega, fannst mikið áfall að komast að því að nýja lyfið væri að hætta að virka. Núna er ég kominn á þann stað að ég vorkenni mér ekki neitt, faktískt finn ég ekki til neinna tilfinninga. Skruna yfir fjölmiðla og tek eftir að Lady GaGa og Yoko Ono tóku saman lagið, að einhverjir flögguðu nasistafána á Austurvelli, að femínistar eru enn einn ganginn óðir af heilagri vandlætingu … en þetta líður hjá eins og bíómynd og snertir mig í rauninni ekki nokkurn skapaðan hlut. Mér er líka ljóst að fullt af fólki hefur það miklu meira skítt en ég og það er fullt af fólki sem glímir við grafalvarlega sjúkdóma o.s.fr. en það er ekki nokkur einasta huggun eða pepp; í rauninni kemur það heldur ekkert við mig.

Það eina sem ég get gert er að reyna að bíða af mér helvítis kastið og lifa það af. En í miðju þunglyndiskasti er ekki einu sinni það huggun eða til bóta. Þegar maður syndir gegnum daginn á 38 snúninga hraða og hver sólarhringur verður óendanlega langur er hugsanlegur eða væntanlegur bati svo handan sjóndeildarhringsins að hann er ósýnilegur möguleiki.  Skásti raunhæfi möguleikinn er að dobblun lyfjanna skili einhverjum árangri, það ætti að vera ljóst fyrir miðjan október. Þangað til er best að sofa sem mest, sem er guði-sé-lof ekki erfitt því helv. þunglyndið eyðir orku meir en nokkurt fyrirbæri sem ég þekki. Svefn er dásamleg pása úr þessu helvíti.

Þessi færsla var bein útsending úr Hel. Hirði ekki einu sinni um að myndskreyta hana en menn geta ímyndað sér sogandi svarthol ef þeir sakna mynda. Er  farin að sofa.

Kynungabók

Ég renndi yfir Kynungabók í gær. Þetta er bæklingur, gefinn út af Mennta- og menningarmálaráðuneytingu í ágúst 2010. Bæklingurinn virðist eiga að vera kennsluefni því í formála segir menntamálaráðherra, Katrín Jakobsdóttir: “Það er von mín að rit sem þetta eigi eftir að nýtast í skóla- og uppeldisstofnunum þannig að allir nemendur fái lögbundna fræðslu í þessum efnum [þ.e. jafnréttisfræðslu]”.

Það sem stingur fyrst í augu, varðandi þennan bækling, er nafnið. Hvað er kynungur? Ráðherra segir í Ávarpi í tilefni útgáfu Kynungabókar 25. ágúst 2010:

langullarkynungur“Kynungur felur bæði í sér tilvísun í kyn og ungt fólk en er jafnframt gamalt og gilt orð samkvæmt Orðabók menningarsjóðs. Skilgreining orðabókar á orðinu er „að vera af ákveðnu kyni eða sauðahúsi“.”

Í Íslenskri orðabók sem Mörður Árnason ritstýrði og Edda gaf út, 2002, segir einmitt (s. 846): “kynungur … sá sem er af tilteknu kyni > langullarkynungur (um sauðfé).”

Leit í Ritmálsskrá Orðabókar Háskólans skilar engu og heldur ekki leit í aðskiljanlegum orðabókum á snara.is, hvað þá Íslenskri orðsifjabók. Aftur á móti nefnir Íslenskur Orðasjóður, við Háskólann í Leipzig,  dæmið: “Þannig hefur myndast nýr, grólaus kynungur”.

Svoleiðis að fyrrum móðurmálari, verðandi öryrki, hlýtur að bendla Kynungabók ósjálfrátt við sauði eða burkna. Það er nú ekki gott veganesti fyrir svo háleitan bækling. Og óskemmtilegt fyrir vesalings nemendurna sem eiga víst að fræðast af þessum ritlingi, svk. fyrrnefndu ávarpi ráðherra. Verður ekki betur séð en bæði höfundar ritlingsins og ráðherra misskilji orðið því svo virðist sem kynungur þýði einfaldlega ættkvísl. Við sitjum því uppi með “Ættkvíslabók” til jafnréttisfræðslu.

Annað sem vekur athygli við fyrstu sýn er hvað gripurinn er afspyrnu ljótur. (Nema menn séu almennt hallir undir auglýsingar Iceland Express en hönnun bæklingsins virðist byggð á þeirra litum og framsetningu.) Hönnuðurinn, Kári Emil Helgason, hrífst af appelsínugulu og gráu, sjá hans eigin heimasíðu.

Apples�na hugsarÞað er þreytandi að horfa á sömu appelsínugulu, gráu og hvítu litatónana á hverri síðu (nema auðvitað í þeim svarta kafla “Kynbundið ofbeldi”). Og það er ekki verið að spara IcelandExpress-appelsínugula litinn, meira að segja undirkaflafyrirsagnir eru yfirlitaðar appelsínugular (og því illlæsilegar). Satt best að segja bjóst ég alveg eins við að sjá “Þar bíður hún mín, ‘ún Lóa”, einhvers staðar í miðri bók.

Textinn er brotinn upp af fjölda línu-og súlurita, sem öll eru appelsínugul og grá, og snyddum sem heita “Til umhugsunar”, með á að giska 20 – 24 punkta letri.
Í megintexta eru svo skærappelsínugular “historier fra hverdagen” (eins og þær heita í Norsk Ukeblad, eitthvað svipað heita þær í Vikunni en í Kynungabók heita þær Örsögur.) Ég reikna með að þær séu  uppdiktaðar af höfundum enda hvergi vísað til heimilda um hvar þessar sögur gætu hafa birst.
Efri spássía er engin en sú neðri þess myndarlegri. Og það er voðalega skæs og módern að snúa blaðsíðutali hverrar síðu 90°.

Hugleikur Dagsson er sagður myndskreyta bæklinginn. Hann hefur vakið athygli fyrir fyndnar, einfaldar myndir og er í tísku, myndskreytti m.a. síðustu símaskrá. En í bæklingnum eru nákvæmlega 4 myndir eftir Hugleik, auk einnar á forsíðu. Engin þeirra er hið minnsta fyndin eða dregur fram eitthvað úr textanum; Appelsínugular stelpur að sippa; Appelsínugulir strákar í fótbolta; Er einhver dulinn boðskapur í þessum myndum? Nei, Hugleikur er þarna notaður sem hvert annað auglýsingatrix, alveg eins og Hemmi Gunn í fyrirmynd hönnunar bæklingsins. Á forsíðumyndinni er karl með appelsínugult bindi og kona með appelsínugula nunnuslæðu (a.m.k. sé ég ekki betur).
 

Höfundarnir eru 5 konur, þar af vinna fjórar í MRN og ein er framkvæmdarstýra Jafnréttisstofu. Miðað við að þetta á að vera jafnréttisbæklingur hefði nú kannski verið við hæfi að leyfa sosum eins og einni karlskepnu að fljóta með sem höfundi.

  
Strax í innganginum er tónninn sleginn (“aumingja-við-stelpurnar-vælið”) og hin venjubundna femínstistatilhneiging til að hanna íslenska tungu upp á nýtt blómstrar: “Þau [leturbreyting mín] sem berjast gegn þessum viðtekna hugmyndaheimi og vilja auka fjölbreytni og athafnarými fyrir hvort kyn skilgreina sig gjarnan sem femínista.” (s.7). Í ljósi þess að í 5 höfunda hópi eru a.m.k. tveir fyrrum íslenskukennarar fer um mann hrollur. Ráðlegg þeim að hlusta á Málstofuna; Mál og kyn, á Rás 1 á þriðjudaginn var.

Annars skoðaði ég einkum þá kafla sem ég tel mig hafa eitthvert vit á. Þar má nefna “Skólagöngu”.

Þar er skólasaga rakin í míkrómynd og sagt: “Þrátt fyrir það voru framhaldsskólar mjög kynskiptir í marga áratugi þar á eftir sem endurspeglast [leturbreyting mín] í kynskiptu námsvali.” (s. 14)  Tilvísun er í Sigríði Matthíasdóttur (2004) og eðlilega hélt ég að hún hefði skrifað um hvernig þetta gamla skipulag endurspeglast í námsvali nútímans. En nei, heimildin er bók Sigríðar: Hinn sanni Íslendingur: þjóðerni, kyngervi og vald á Íslandi 1900- 1930. Hver fattaði upp á að stinga orðinu nú inn í málsgreinina? Svo tekur við létt hjal um aðskiljanlega hluti en neðst á síðu 15 er farið að fjalla um námsval.

Síður 16 og 17 loga af appelsínugulum og gráum súlum og appelsínuguli “Vissir þú að …” kaflinn er á sínum stað. (Þessir “Vissir þú” kaflar eru margir uppfærðir molar af síðunni Ábyrgir foreldrar Akureyri. Þar eru þeir höfundalausir. Sjá má ótvíræð tengslin t.d. í stafsetningarvillu í tilvísun í grein Tirril Harris en einnig dugir að lesa molana og bera saman við Kynungabók.)

Skv. súluriti yfir nemendaskráningu á einstökum brautum framhaldsskóla eru stelpur alls staðar í meirihluta, nema í raungreinum, þar sem þær eru 45% nema og í iðn- og tæknibrautum, þar sem strákar eru 67% (hlutfallið 2002 var 90% svo breytingar hafa faktískt orðið, án Kynungabókar eða annars purkunarlauss femínistaáróðurs.) Þetta er túlkað þannig:

Appels�nugaur � svuntu“Þetta kynbundna námsval tengist hugmyndum um karlmennsku og kvenleika. Karlar eru í “karllægum greinum””. Ansi hæpin einföldun, finnst mér. Þetta tengist auðvitað fyrst og fremst því að enn velja karlmenn að ljúka starfsnámi í framhaldsskóla og þar er aðallega um iðngreinar að ræða, meðan starfsnám kvenna hefur færst á háskólastig. Þetta gæti líka tengst því að fleiri strákum vegnar verr í skóla en stelpum og því gæti verið eftirsóknarvert að fyrir þá að stunda nám sem felur í sér minna bóknám og gefur starfsréttindi.

Vilja höfundar Kynungabókar bregðast við þessu með því að færa allt iðnnám á háskólastig og auka þannig einn meir brottfall stráka úr framhaldsskóla? Eða fækka stelpum sem sækja í háskóla með því að reyna að fá fleiri þeirra til að gerast smiði, múrara, kjötiðnaðarmenn eða rafvirkja – svo dæmi séu tekin af handahófi? Til hvers?

Á síðunni á móti er annað súlurit, í þetta sinn er sýnt kynjahlutfall í goggunarröð háskólakennara. Augljós skýring á þessum mun, þ.e. að miklu fleiri karlar en konur eru prófessorar en sæmilegt jafnrétti ríkir í lektorastétt, er kynslóðarbil. Hefði meðalaldur prófessora og lektora verið sýndur í leiðinni blasti skýringin við. Ásókn kvenna í háskólanám er nefnilega ekki það gömul. Þessari skýringu er að sjálfsögðu sleppt.

Á miðri þessari opnu er “Til umhugsunar”-snydda (með ca 24 punkta letri) þar sem sagt er frá því reginhneyksli að “Vorið 2010 birtist frétt um valnámskeið í grunnskóla á Vesturlandi þar sem stelpum í unglingadeild var boðið að sækja snyrtinámskeið og fyrirlestur um ótímabæra þungun en strákar fengu námskeið um vinsælan tölvuleik.” Rakið er að ein stelpan vildi komast á fyrirlesturinn um Eve Online en fékk ekki, var í staðinn boðið á kynningu hjá tölvufyrirtækinu.

Ég er ekki að mæla því bót að stelpuskottið skuli ekki hafa mátt kynna sér Eve Online en það eru ansi miklar ýkjur að kalla þetta “valnámskeið í grunnskóla” því, eins og segir  segir í fréttinni sem vísað er til : “Nemendur í unglingadeild Auðarskóla í Búðardal gerðu sér glaðan dag í vikunni, þegar skólinn stóð fyrir námskeiðum fyrir krakkana í lok skólaárs.” Þetta var sumsé stutt húllumhæ í skólalok; Tveir fyrirlestrar á sama tíma. Skyldu höfundar Kynungabókar hafa kannað þetta mál eitthvað, t.d. með símtali vestur? Eða dugir að trúa frétt DV sem nýju neti?

Aftur á móti var boðið upp á “strákaval” og “stelpuval” fyrir hálft skólaárið 2010, í Álftanesskóla. Mig minnir að femínistar hafi fengið hland fyrir hjartað yfir heitum valsins og nöfnunum hafi verið breytt. Þó kemur fram að ekkert foreldri gerði athugasemd við nafngiftina. Skiptir máli, í uppsláttarvali í Kynungabók, að sá skólastjóri var formaður Alþýðubandalags Borgarness og nærsveita í 2 ár, meðan sá flokkur var við lýði? Sem sagt vinstri maður? Og þess vegna fremur valið miklu ómerkilegra og saklausara dæmi úr Búðardal (án þess ég viti í hvaða pólitískan dilk skólastjórinn þar raðast).

Raunar finnst mér, almennt og yfirleitt, heldur hæpið að nota DV sem heimild í tilvonandi kennsluefni Mennta-og menningarmálaráðuneytis. Allt annað er að brúka slíkt í bloggi.

Það er í stíl við nýmóðins  heimildanotkun í því góða ráðuneyti að vitna í Blogg Gáttina (s. 27), í umfjöllun um hlut kvenna í fjölmiðlum. Kannski hefðu höfundar átt að kynna sér hvernig sú  talning virkar en til upplýsingar er bent á færslu Gísla Ásgeirssonar, Um Blogggáttina,   Og hefði ekki verið rétt, í þessu sambandi, að reikna út hlutfall íslenskra notenda Facebook eftir kynjum? Eða skanna minningargreinar moggans svona 2 ár aftur í tímann og gá hvernig prósentuhlutfall kynja birtist það, þ.e. í ritendum minningargreinanna? Þetta er nú einu sinni afar vellesið efni, allt að því fjölmiðlar.

Að lokum vil ég minnast á enn einn “Vissir þú að …” kaflann, enn og aftur byggðan á síðu Ábyrgra foreldra á Akureyri (sem hvergi er getið í heimildaskrá þrátt fyrir öflugt framlag til Kynungabókar):
“Vissir þú að …
… þunglyndi er algengara hjá konum körlum og er munurinn meiri hjá yngra fólki en því eldra? Ekki er þó fullvíst að um líffræðilegar orsakir sé að ræða fyrir þeim mun og jafnvel talið að félagslegir þættir og mismunandi aðstæður kvenna og karla í samfélaginu hafi þar áhrif.”
Sem heimild fyrir þessu er vísað er í grein Harris, T (2003) Depression in women and its sequela [svo! rétt: sequelae] Journal of Psychotomatic Research, 54, 103-112. Kenningar Tirril Harris eru  umdeildar og hafa verið frá því hún var meðhöfundur í frægri rannsókn, Brown, G.W. and Harris, T.O. (eds) 1978: Social origins of depression: a study of psychiatric disorder in women. London; Tavistock. Besta yfirlitsgreinin um þætti sem kunna að hafa áhrif til þess að algengi þunglyndis meðal kvenna mælist meira en karla er, að mínu mati, grein Dr. Elizabeth Young, Sex, trauma, stress hormones and depression, í Molecular Psychiatry (2010) 15, 23–28. En hún fellur líklega ekki að smekk fyrrum rauðsokka.

NornÞótt augljósasta skýringin á algengi þunglyndis meðal kvenna sé vitaskuld sú að konur eru miklu duglegri að leita sér hjálpar, þ.m.t. læknishjálpar, en karlar, eins og kemur reyndar fram í Kynungabók, er óþarfi að slengja fram vafasamri fullyrðingu byggðri á vafasamri heimild sem einhver höfundurinn hefur rekist á á síðu Ábyrgra foreldra á Akureyri um svo alvarlegan sjúkdóm sem þunglyndi er. En sé maður femínisti hefur maður greinilega vit á öllum sköpuðum hlutum undir sólinni … eða má a.m.k. tína upp sína heimildarmola úti á túni, óáreitt(ur?). Bloggynja þakkar fyrir að hafa ekki séð Jónínu Ben. í heimildaskrá.

Almennt má um Kynungabók segja að þarna fer hópur kvenna á besta aldri fram með fyrirfram gefnar einstrengingslegar skoðanir á skólakerfi, hagkerfi, heilbrigðismálum o.fl. og telur hvaða heimildir sem styrkja sína þröngu heimsmynd tækar. Vitnað er jöfnum höndum í opinberar skýrslur stofnana, virtar rannsóknir, greinar í ritrýndum tímaritum, óbirtar BA-ritgerðir, DV, Blogggáttina, Megrunarlausa daginn  og efni sem ekki er getið í heimildaskrá (vefsíðu Ábyrgra foreldra á Akureyri og lífsreynslusögur) o.s.fr. Ekki virðist gerð sérstök tilraun til að meta heimildirnar, líkt og dæmið um grein T. Harris sýnir hér að ofan, það dugir að þær falli að fyrirframgefnum skoðunum höfunda. Það er auðvitað hneisa að Mennta-og menningarmálaráðuneytið skuli leggja nafn sitt við þennan bækling.   

Hefði fénu, sem fór í að útbúa þennan bækling, ekki verið betur varið í annað? Á tímum niðurskurðar í skólakerfinu, eins og það leggur sig.
 

  

Kostir við Kynungabók? Ja, hún virðist vel prófarkalesin, nema kannski heimildaskrá.

  

  

Haustvísur til Máríu

Þetta er harmbloggfærsla. Þeim sem hugnast ekki slíkt er ráðlagt að lesa hana ekki.

HAUSTVÍSUR TIL MÁRÍU

Máría, ljáðu mér möttul þinn,
mæðir hretið skýja;
tekur mig að kala á kinn,
kuldi smýgr í hjartað inn;
mér væri skjól að möttlinum þínum hlýja.
 
Máría, ljáðu mér möttul þinn,
mærin heiðis sala;
að mér sækir eldurinn;
yfir mig steypist reykurinn;
mér væri þörf á möttlinum þínum svala
 
Þegar mér sígur svefn á brá
síðastur alls í heimi,
möttulinn þinn mjúka þá,
Móðir, breiddu mig ofan á,
svo sofi ég vært og ekkert illt mig dreymi.

(Einar Ólafur Sveinsson)

 

Það haustar að. Og ég hef verið að veikjast undanfarið. Aðdragandinn hefur verið óvenju langur og mér tókst lengi vel að telja mér trú um að þetta væri einhver flensupest en síðustu daga hefur verið vel ljóst hvað amar að. Helgin var slæm, með kölduflogum, hitasteypum og skjálfta … þegar mér varð ljóst í hvað stefndi tók svo botnlausa örvæntingin við af því ég var svo að vona að ég hefði hlotið bata, að ég myndi ekki veikjast aftur, a.m.k. ekki illa eða að það væri a.m.k. langt í næsta kast.

Í gærmorgun leið mér ömurlega og ég reiknaði allt eins með að rússíbanareiðin ofan í helvíti tæki við undir kvöld. Yfirleitt er sú ferð hröð og nánast lóðrétt niður. Og engin Máría til að leita skjóls hjá þótt óneitanlega sé mikil huggun fólgin í því fallega kvæði sem ég vitna til hér að ofan. Þetta er eitt af þeim kvæðum sem reynast mér hvað best þegar mér líður illa.

Eitthvað virðist þetta nýja lyf sem ég et hafa sér til ágætis: Boðsferðinni til heljar var frestað um sinn og ég lifði af kvöldið án þess að hraðfrystast í grænmeti til sálar og líkama. Ég er enn lasin en ég er ekki sokkin ofan í hið djúpa lamandi og tærandi þunglyndi sem ég þekki því miður alltof vel. Ef ég slepp við það er mér sama þótt ég geti illa lesið í augnablikinu, verði að einbeita mér að því að slá inn rétt símanúmer, rétt lykilorð, (og mistakist mörgum sinnum), þó ég þurfi núna að skrifa allt niður svo ég gleymi því ekki jafnharðan; sé sumsé athyglisbrostinn aumingi að hluta. Það má díla við það.

Lyfjaskammturinn var tvöfaldaður í gærkvöldi og afleiðingin var sú að ég hrökk upp klukkan hálf-þrjú í nótt og ekki vinnandi vegur að sofna aftur. Náði svo einum og hálfum klukktíma eftir klukkan fimm.  Þetta er aukaverkun sem sumir finna fyrir af þessu lyfi en á að lagast með tímanum – ég var nýkomin með eðlilegan svefn eftir 5 mánaða töku á minni skammtinum. Vonandi tekur það ekki marga mánuði að ná þessu á dobbluðum skammti. Ég legg mig núna á eftir og þetta verður allt í lagi, trúi ég.

Félagi minn til margra ára er til moldar borinn í dag. Því miður kemst ég ekki í jarðarförina hans. En ég bið þess að Máría breiði ofan á hann möttulinn sinn mjúka svo sofi hann vært og ekkert illt hann dreymi.

 

Orðhengilsháttur, Ármann, Andri Snær o.fl.

Ég lét duga að lýsa yfir blöskrun minni á ummælum Andra Snæs, jafnt í grein / bloggfærslu hans sem og í Kastljósi, á fésbókinni. Fannst einhvern veginn ekki tilefni til að eyða meira púðri á manninn. En nú hafa a.m.k. tveir séð tilefni til að skrifa þokkalega langt mál um orðanotkun og fordóma Andra Snæs í fyrrnefndum tjáningum svo þetta fer að verða efni í bloggfærslu.  

Ármann Jakobsson skrifar varnarfærslu fyrir Andra Snæ, “Geðveik umræða“, í Smuguna á sunnudag. Hann staðhæfir að umræða um grein Andra snúist annars vegar um “notkun hans á geðveiki sem myndmáli” og hins vegar um “kynjahlutfall á fundi í Háskólanum um greinina”. Ármann fjallar svo einungis um fyrrnefndu umræðuna í sinni grein.

Hann telur umræðu um notkun Andra Snæs á geðveiki sem myndmáli einkennast af orðhengilshætti þeim sem HKL nefnir í Innansveitarkroniku (hann talar þar m.a. um að “íslendíngar beygi sig lítt fyrir skynsamlegum rökum, fjármunarökum varla heldur …” svo þetta er svo sem ágætt innlegg í umfjöllun Andra Snæs) og Ármann bætir við: “Ef þetta er ekki að drepa málum á dreif, þá kann ég ekki helskó að binda.” Ég er búin að liggja yfir þessari málsgrein en sé samt ekkert vit í henni; þarna er slengt saman algerlega óskyldum orðtökum og úr verður þvæla. En kannski var hún hugsuð sem lýsandi dæmi um orðhengilshátt? Eða stafi af því að höfundur sé með inngrónar táneglur (leggist bloggynja í myndhverfingaham)?

Hvers konar skóblæti er annars í gangi þarna hjá vistfemínistunum?

Að því búnu slengir Ármann fram ýmsum PC-skoðunum á geðveiki, s.s.: “Geðveikt fólk er eins og allir aðrir, nema geðveikt.”; “Geðveiki er ekki góð veiki.” og tiltekur staðgóða eigin þekkingu á geðrænum sjúkdómum, annars vegar fengna frá móður sinni og hins vegar frá geðveiku fólki sem hann hefur kynnst. Það er náttúrlega ekki annað hægt en vera sammála þessu og fagna góðu uppeldi Ármanns.

Aftur á móti staðhæfir hann: “Því er haldið fram að það ali á fordómum í samfélaginu að nota geðveiki í myndmáli eins og Andri gerir í grein sinni. Ég er ekki sannfærður um það sjálfur. Fordómar gegn geðsjúkum eru yfirleitt sprottnir af hræðslu, afneitun og hugsunarleysi, eins og aðrir fordómar …” og  “Myndhverfingar af þessu tagi breyta auðvitað ekki fordómum gegn geðsjúkum enda er það ekki tilgangurinn. En ef menn ætla að kenna Andra um fordóma gegn geðsjúkum á Íslandi eru þeir sömu að misskilja illa hvernig fordómar virka.”

Ég er einmitt ein af þeim sem misskilja svona illilega hvernig fordómar virka og finnst Andri Snær yfirmáta hrokafullur og fordómafullur í garð geðsjúkra. Mér er líka óskiljanlegur einhver æðri tilgangur myndhverfinga Andra Snæs, sem ku ellefutaka orðin geðveiki / geðveikur í sínum pistli um orkuver og álver (ég taldi þetta ekki sjálf og biðst afsökunar ef rangt er talið). Þegar Andri Snær kemst á flug og segir: “Geðveikin er núna augljós í jarðvarmabransanum”, undir fyrirsögninni “Er kókaín í heita vatninu?” – á þá geðsjúkur óvirkur alki eins og ég að líta á þetta sem frumlega myndhverfingasköpun til marks um glæsilegan stíl skáldsins? Eða dæmi um algera vanþekkingu á bæði fíkn og geðveiki og ósmekklega samhnýtingu þessa tveggja, byggða á botnlausum fordómum Andra Snæs?

Og “Hérlendis er fjallað um sturlun sem norm, jafnvel lífsnauðsyn og æði er æðsta dyggðin …” hugnast kannski þeim skáldpiltum sem dreymir um að verða litlir laxnessar en í augum þeirra sem heimsækja geðdeild öðru hvoru, af illri nauðsyn, er hneyksli að sjá fullorðinn mann láta þetta út úr sér á prenti. ´

Í Kastljósþætti sagði Andri Snær m.a.: “Þá er ég kannski bara með megavöttin og segi: Strákar þið eruð ruglaðir. Þá fer maður að nördast ofan í tonnin og allt þetta drasl sem ég veit ekkert hvort almenningur sé vel inn í …”  Þetta eru náttúrlega hvorki fordómar í garð ruglaðs fólks né aðdróttun um heimsku almennings úti á landi, er það? Sennilega bara ein af þessum skemmtilegu veltilfundnu myndhverfingum.

Og litlu seinna bætir ástmögur græningjanna við: „Ég segi við þá: Strákar þið eruð eitthvað vangefnir, þurfiði 650 megavött ef Alcoa færi þarna niður.” Enn ein stórbrotin myndhverfingin, í þetta sinn á kostnað þroskaheftra.  Ég er hrædd um að Ármann þurfi að fara að tvíreima helskóna ef hann ætlar að drepa allt mál Andra Snæs (ekki þó á dreif).

Satt best að segja sé ég engan mun á málflutningi Andra Snæs og hins galvaska hundaræktanda úr Dalsmynni, sem tilkynnti í gær: „Hann er algjörlega geðveikur þessi hundaeftirlitsmaður. Hann leggur mann í einelti,” (Sökuð um ólöglega hundaræktun á Akranesi, visir.is 22. sept. 2010.) Hún gengur þó ekki svo langt að brigsla andstæðingi sínum um að vera vangefinn og drekka kókaínblandað vatn, eins og Andri Snær. Þótt hún sé ósammála hundaeftirliti bæjarins.

Mjög góður pistill eftir Júlíu Margréti Alexandersdóttur, Nauðsynlegur orðhengilsháttur, birtist á visir.is í dag. Greinin er lágstemmd og málefnaleg (ólíkt færslu bloggynju) en Júlía Margrét kemst að ólíkri niðurstöðu og Ármann Jakobsson, sem segja má að kristallist í þessum orðum: “Ástæðurnar fyrir þessum fordómum [í garð geðsjúkra] eru margþættar en mjög margir leggja að því líkum að fjölmiðlar og staðalímynd sem birtist oft þar af geðsjúkum, skipti þar sköpum. Tungumálið er verkfæri. Því er ekki hægt að halda því fram að grein á við grein Andra Snæs skipti engu máli. Sama þótt um óvitaskap hafi verið að ræða.”

Merkilegar afsakanir finna menn Andra Snæ, fullorðnum höfundi bókafjöldar. Ýmist brúkar hann óheppilegar myndhverfingar eða hann talar / skrifar af óvitaskap. Er maðurinn barn?

Úr því byrjað var að draga Nóbelsskáldið inn í umræðuna læt ég þessu lokið með að benda á líkindi Andra Snæs við Ólaf í Ystadal, þann mikla alþýðuvísindamann. Sá að Tryggvi Þór hafði sams konar karakter í huga, í fyrrnefndum Kastljósþætti. Það er leiðum að líkjast.
 

Blogg um blogg

Já, þetta er leim umfjöllunarefni, ég veit það. Og vona að forkar íslenskrar tungu (hér í ekki í merkingunni gafflar heldur andstæðrar merkingar við reiðareksmenn) gefist umsvifalaust upp á að lesa þessa færslu – um leið og þeir reka viðkvæmar glyrnurnar í slettuna “leim”.

En meðan skipaðar eru nefndir um nefndir og skrifaðar skýrslur um skýrslur … jafnvel nefndir til úttektar á skýrslu um skýrslu um skýrslu … þá má afsaka blogg um blogg.

Mér finnst bloggheimurinn verða æ leiðinlegri. Þar er t.d. ekki þverfótað fyrir fólki sem bloggar oft á dag um veimiltítulegar skoðanir sínar á einhverjum fréttum sem birtust í einhverjum netmiðli. Þetta er veimiltítulegt því yfirleitt er enginn rökstuðningur eða umfjöllun önnur en einfaldur halelújasöngur eða einfalt skítkast eftir því hvernig “bloggara” hugnaðist fréttin. Á bloggrúntum forðast ég svoleiðis blogg eins og heitan eldinn enda er ég afar hrifin af Facebook til einmitt þessa en finnst blogg eiga að vera bitastæðara.

Fastir bloggarar netmiðla blogga oft bara um eitt áhugamál, on and on. Vinsælasta áhugamálið er náttúrlega pólitík. Vandinn er sá að yfirleitt leiðist mér pólitík. Svoleiðis að ég skruna líka nett framhjá þeim bloggum. Annað vinsælt áhugamál eru trúmál – einsleitu bloggin eru annað hvort áróður fyrir þjóðkirkjunni eða áróður gegn þjóðkirkjunni; Hvort tveggja frekar leiðinleg umræða til langframa og gætir mikilla endurtekninga í málflutningnum.

Ég sakna margra fínna bloggara (hafði meira að segja gaman af því að rífast við suma þeirra) eins og Pipruðu kennslukonunnar og Gurríar, sem eru nánast eða alveg hættar að blogga, geðsjúklinga og alka sem hafa læst bloggunum sínum, bloggara sem ég var alltaf ósammála og margra annarra.

Sem betur fer eru þó enn einhverjir sem blogga um fjölbreytt efni, skrifa skemmtilega og tengja við sitt daglega líf á stundum. Ég ætla einmitt að bæta tveimur svoleiðis í listann yfir blogg sem ég les. Og nota tækifærið til að fagna því að Gísli málbein er aftur farinn að blogga!

Eigið blogg? Ja, ég þverbrýt allar reglur, blogga langlokur sem einungis fluglæst fólk nennir að lesa, held mig engan veginn við eitt umfjöllunarefni, held mig ekki einu sinni við sama stíl o.s.fr. Hef hugsað mér að halda uppiteknum hætti meðan ég hef einhverja lesendur. Mætti jafnvel spyrja sig hvort bloggynja þurfi endilega lesendur úr því henni finnst svona gaman að þessu sjálfri 😉 

Þetta er óvenju stutt færsla enda kannski ekki mikið meira sem hægt er að blogga um blogg. Þess vegna er myndin líka óvenju stór, til að fylla upp í plássið.

Málfarsstígurinn vandrataði

Málvillupúkinner hér til umræðu og hinn breiði vegur málvillna sem leiðir beint til helvítis, sbr. “Glatist tungan glatast þjóðin”! Getur einhver upplýst hvaðan þessi frasi er kominn? Mig grunar að þetta sé fengið úr einhverri ræðu frú Vigdísar en væri gaman að vita hvort klisjan er eldri. [Myndin á að sýna málvillupúkann, sem mun líklega steypa þjóðinni í glötun en tengist ekki neinum af þeim sem eru nafngreindir í færslunni.]

Hér á heimilinu er stundum fjörug fræðileg umræða um málnotkun og málvöndun. Tveir heimilismanna eru aðdáendur Eiðs Svanbergs Guðnasonar og hans molaskrifa. Einn heimilismaður vill horfa á málin undir afskaplega víðu sjónarhorni og vitnar til skiptis í BBC-framburð og samræmda forngrísku sem kennd var í grískum skólum til skamms tíma, grískum börnum og unglingum til mikils ama, bókmenntum og listum til einskis framdráttar. Svo er það ég sem hef áratuga reynslu af því að kenna íslensku, þ.m.t. reynslu af ítroðslu helstu “villu-leiðréttinga” í beygingu sagna og nafnorða. Svoleiðis að við kvöldmatarborðið þykist hver hafa til síns ágætis nokkuð. David Attenbourough

Rök víðsýna heimilismannsins felast einkum í því að í hinum siðmenntaða heimi hafi ávallt þótt ástæða til að brúka tungumálið til að skilja milli pöpuls og menntamanna. Þetta sé gert á ýmsa vegu. Á Bretlandi er mikilvægt að tileinka sér réttan framburð, RP (received pronounciation) sem kannski er þekktastur í máli þula hjá BBC. Ég minnist ársins í enskudeild HÍ þegar þessi posh framburður var æfður í hljóðveri og lagt kapp á að ná breskum staccato talanda, nánast með handaklappi.  Í Amríku, heldur sami heimilismaður fram, er mikilvægt að sletta latneskum orðum og passa vel upp á að hafa latneska fleirtölumynd rétta, segja t.d. hippopotami, berist talið að mörgum flóðhestum. (Reyndar ku menntaðir kanar segja hippopótamæ en enginn Latverji hefði svo framborið orðið, a.m.k. ekki á gullöldinni.)

Það sjá allir að gjörbylting á framburði eða æxlun latínusletta er meiriháttar lærdómur. Nútildags hafa flestir fallið frá viðurkenndum snobbframburði íslensku, enda úrval framburðarafbrigða heldur fátæklegt. Svo var þó ekki; er skemmst að minnast baráttunnar gegn því skemmtilega afbrigði flámæli, gott ef ekki var lagt til að útskrifa ei flámælta presta eða kennara (man ekki hvort þetta náði fram að ganga). Svo hart var gengið fram í flámælisbardaganum að maður telst heppinn að ná að heyra þennan framburð, yfirleitt þá í tali háaldraðs fólks.  Einn íslenskukennara minna í menntaskóla útlistaði fyrir okkur nemendunum hvernig hann æfði upp hv-framburð, eftir segulbandsspólum. Slíkt held ég að enginn leggi á sig núna. Enda var árangurinn ekki sá að við nemarnir fylltumst aðdáun á tiltækinu heldur var þetta efni í endalaus skemmtiatriði og eftihermur á skólaskemmtunum.

Þannig séð er gott  og þægilegt að á Íslandi þykir það mikilvægast af öllu að kunna að beygja “rétt” innan við tíu orð til að sýna að maður sé menntaður eða a.m.k. á einhvern hátt betri en ótíndur almúginn. Þetta er auðveldlega yfirstíganlegur andskoti en spurningin er hins vegar til hvers leikurinn er gerður. Beyging

Vinsælast er að hamra á “réttu” þolfalli eða þágufalli með ópersónulegum sögnum, aðallega þolfalli þar sem í málvitund meirihlutans væri þágufall réttara. Dæmi um þetta eru “mig langar” eða “mig dreymir”. Flestar sagnir sem tákna líðan og löngun eru ópersónulegar og frumlagið í þf. eða þgf. En viti menn: Til eru tvær svoleiðismerkjandi sagnir sem beygjast eftir persónum og frumlagið er því í nefnifalli. Þetta eru þær frægu “hlakka” og “kvíða”. Ég leyfi mér að fullyrða (af löngu kennslureynslunni) að “ég hlakka” og “ég kvíði” brýtur í bága við máltilfinningu flestra. Þess vegna hef ég yfirleitt gripið til þess ráðs að kenna sagnbeyginguna sem svo að þetta væru rímsagnir, ráðlagt nemendum að setja “smakka” í stað “hlakka” og “ríða” (sem beygist reyndar ekki alveg eins) í stað “kvíða” til að geta puntað sínar ritsmíðar með hinni einu kórréttu beygingu. Það er hægt að gera þetta að skemmtilegum samkvæmisleik, sé maður þannig innstilltur. Tilgangurinn er sá einn að ekki sé hægt að hanka nemandann á rangri beygingu, honum til hnjóðs. Nemendur mínir hafa yfirleitt fyrir löngu áttað sig á því að “mig hlakkar” er upplagt eineltistilefni og vilja því gjarna læra trix til að hafa þetta í samræmi við það sem málfarslöggan býður. (Þetta er sosum ekkert ný beyging, sjá neðanmálssöguna s. 55 í Þjóðólfi frá 1892.) Á hinn bóginn mætti spyrja sig af hverju það er ekki gúterað að þessar tvær sagnir hafi einfaldlega skipt um beygingarflokk og beygist nú ópersónulega, eins og hinar líðunar-sagnirnar? (Vissulega eru líka til persónulegar líðunar-sagnir, t.d. “ég óttast” en þær eru fáar.) Má ekki alveg eins samþykkja þetta eins og að samþykkja að sögnin “þvo” beygist nú veikt, er “þvoði” í þátíð, en beygðist sterkt, var “þó” í þátíð.

Árangurinn af þessari stífu málvöndunarstefnu mátti t.d. sjá í mogga mannsins í gær, hvar stóð með a.m.k. 24 punkta letri í íþróttakálfinum: “Ég hef lengi dreymt um atvinnumennsku (mogginn gleymdi að loka gæsalöppunum). Ég hef reyndar margoft séð þessa villu hjá nemendum sem eiga að tjá sig um drauma Guðrúnar í Laxdælu. Þetta er villa að því leyti að engum málnotanda finnst eðlilegt að segja “ég dreymi”. En það er búið að berja inn í svo marga að mörg séu vítin að varast í sögnum á borð við “dreyma” og “langa” og “hlakka” og “kvíða” að til öryggis þverbrjóta menn gegn eigin málvitund og útkoman er þessi.  

Næstvinsælast, í skólakerfinu, er að hamra á beygingu hins einstæða orðs “fé”. Fé hefur verið aleitt í sínum beygingarflokki frá dögum gotnesku. Hingað til hefur reynst tiltölulega auðvelt að skaffa tengingu með því að benda á að enginn segi “fésmálaráðherra” og með því að muna “fjármálaráðherra” sé auðvelt að finna rétt eignarfall. Þetta kann að breytast og verða erfiðara nú, þegar nýyrðið “fésbók” ryður sé æ meir til rúms.

Mér þætti gaman að vita hve löngum tíma er eytt í beygingaræfingar ofantalinna sagna og nafnorðsins fjár, í skólakerfinu. Satt best að segja held ég að þetta séu rándýr orð, miðað við kaup og kjör kennara, sem þó eru ekkert til að hrópa húrra fyrir.

Eiður Svanberg, átrúnaðargoð sumra heimilismanna, hefur nýlega gert að umtalsefni svokallaða “reiðareksstefnu” málfræðinga, sem hann telur kristallast í grein Gísla Sigurðssonar í síðasta helgarmogga (altso helgarinnar fyrir þessa). Reiðareksstefnan virðist m.a. felast í því að samþykkja beygingu sumra orða sem þau hafi stofnlægt -r, þar sem hin eina rétta málstefna sé að útrýma errinu úr aukaföllum. Þetta eru orðin “læknir” og “vísir”. Eins og flámælinu forðum hefur þessu aumingja erri verið nánast útrýmt, var það þó orðin viðtekin málvenja á sinni tíð og í rauninni óskiljanlegt af hverju það mátti ekki vera.

Greinin sem Eiður reynir að kasta rýrð á fjallaði reyndar ekki aðallega um læknira eða vísira heldur var megininntak hennar að fyrst yrði til tungumál og svo málfræði, þ.e. að málfræði væri nokkurs konar greining á tungumálinu. Fyrsti málfræðingurinn svokallaði, sem skrifaði Fyrstu málfræðiritgerðina (sem er reyndar um hljóðfræði og stafsetningu) reyndi akkúrat þetta: Hann lýsti framburði eins og hann var einhvern tíma kringum 1150 og greinir hvert hljóð. Síðan lagði hann til hvernig væri skynsamlegt að tákna hljóðið í ritmáli. Vissulega fóru handritaskrifarar lítið eftir þessum fyrstu stafsetningarreglum en af því ekkert var bloggið gat höfundur þeirra ekki orðið Fyrsti kverúlantinn. Öllum sem hafa lesið þessa fínu greiningu Fyrsta málfræðingsins er náttúrlega ljóst að íslenska hefur gjörbreyst, að við myndum tæplega skilja Snorra karlinn, hvað þá Egil forföður okkar allra … en samt er hefur þjóðin ekki glatast. Glötunin er því ekki fólgin í framburðarbreytingum og líklega ekki heldur í stafsetningu.

Yfirvofandi glötun er heldur ekki bundin orðaforða því hann hefur a.m.k. aukist að mun frá léttlestrarbókum þeim sem tamt er að kalla bókmenntaarf þjóðarinnar. (Og enn bætast við spennandi og innihaldsrík orð, eins og “reiðareksstefna” svo íslenskan ríður feitum hesti frá málfarsmolum … geti tunga þá yfirleitt riðið hesti … frá molum.) 

Nei, glötunin er örugglega fólgin í beygingarkeldum sem mönnum láist að krækja fyrir. Af því þær eru svo fáar ætti ekki að vera neitt mál að stuðla að því að þessi vesalings þjóð lifi af, sérstaklega ef við tökum upp spanskreyr í skólakerfinu en að sjálfsögðu var bent á það í athugasemdum við blogg Eiðs að það auma kerfi væri sökudólgurinn. Enda er það svo að frá því skólar voru stofnaðir á Íslandi hefur skólakerfið verið að bregðast. Þetta vita allir. 

Hér á heimilinu hefur náðst vopnaður friður með því að deiluaðilar eru sammála um að það að geta tjáð sig á lipran og ljósan hátt sé eftirsóknarverðast trítls um málfarsstigu heimsins 🙂